Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                         

Föstudaginn 13. júní 2014.

Nr. 360/2014.

K

(Ólafur Karl Eyjólfsson hdl.)

gegn

M

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvíðgrar sambúðar. Kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2014 sem barst héraðsdómi 25. sama mánaðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á helmingshlutdeild hennar í nánar tilgreindum fasteignum, ökutækjum og verðbréfum í eigu varnaraðila við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar málsaðila, og vísað frá dómi kröfu hennar um viðurkenningu á hlutdeild í öðrum eignum varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun hluta málsins verði fellt úr gildi. Þess er og krafist, að því marki sem efnislega var leyst úr kröfum sóknaraðila, að viðurkenndur verði helmingshlutur hennar í framangreindum eignum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjavíkur var sótt þing af hálfu beggja aðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 9. apríl 2014. Eins og áður greinir er kæra sóknaraðila dagsett 22. apríl 2014, en árituð um móttöku af héraðsdómi 25. sama mánaðar. Var þá liðinn sá tveggja vikna frestur til að kæra úrskurðinn sem áskilinn er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt því verður málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, K, greiði varnaraðila, M, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014.

Þetta mál var þingfest 29. nóvember 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 10. mars sl.

Sóknaraðili er K, [...],[...] en varnaraðili er M, [...],[...].

                Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þessar:

  1. Að fasteignin [...],[...], fastanúmer [...], komi til skipta milli aðila að jöfnu. Fasteignin er þinglýst 100% eign varnaraðila.
  2. Að fasteignin [...],[...], fastanúmer [...], komi til skipta milli aðila að jöfnu. Fasteignin er þinglýst í 100% eigu varnaraðila.
  3. Að bifreiðar með fastanúmer [...],[...],[...] og [...] komi til skipta á milli aðila að jöfnu. Bifreiðarnar eru skráðar eign varnaraðila.
  4. Að söluandvirði bifreiðarinnar [...] sem seld var samkvæmt skattframtali 2. apríl 2012 komi til skipta milli aðila að jöfnu. Bifreiðin var skráð eign varnaraðila.
  5. Að bifhjól með fastanúmer [...] og [...] komi til skipta milli aðila að jöfnu. Þessi tæki eru bæði skráð eign varnaraðila.
  6. Að heildartekjur af sölu eða innlausn og vaxtatekjur eða söluhagnaður af sölu eða innlausn verðbréfa samkvæmt fylgiskjali 3.15, við skattframtal 2013, komi til skipta milli aðila að jöfnu. Verðbréfin voru skráð eign varnaraðila.
  7. Að aðrar eignir aðila sem voru til staðar við slit óvígðrar sambúðar, þ.e. innbú í húsnæðinu að [...], bankainnstæður og lífeyrissparnaður komi til skipta milli aðila að jöfnu.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Þá krefst sóknaraðili þess að kostnaður við skiptameðferð bús aðila verði greiddur óskiptur af varnaraðila, þar með talin endurgreiðsla skiptatryggingar.

                Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Málavextir

Aðilar málsins hófu sambúð 1. nóvember 1991 sem lauk 31. október 2012. Sóknaraðili átti fyrir son, fæddan 1982. Drengurinn mun hafa búið á heimili aðila frá upphafi sambúðar til 16 ára aldurs, en þá flutti hann til föður síns. Áður en sambúð málsaðila hófst eignuðust þau dóttur árið 1988 sem mun hafa búið á heimili málsaðila til 17 ára aldurs. Á sambúðartíma aðila eignuðust þau tvær dætur, 1992 og 1997.

Frá upphafi sambúðar aðila til ársins 2004 var sóknaraðili heimavinnandi. Það ár hóf hún störf sem skólaliði í hlutastarfi og hefur unnið síðan í 65-70% starfshlutfalli, fyrir utan tímabil á árunum 2007 og 2008 þar sem sóknaraðili stundaði ekki vinnu. Varnaraðili er sjálfstætt starfandi pípulagningarmeistari og starfaði sem slíkur allan sambúðartíma aðila. Málsaðilar voru samskattaðir á sambúðartímanum.

Þegar aðilar málsins hófu sambúð var sonur sóknaraðila í grunnskóla en elsta dóttir þeirra fór á róluvöll hluta úr degi, í um eina til tvær klukkustundir í senn. Tvær yngri dætur aðila fóru ekki til dagmóður en dvöldu hálfan dag á leikskóla þegar þær eltust. Á meðan sóknaraðili var heimavinnandi sinnti hún heimilisstörfum og börnunum og kveðst með því hafa gert varnaraðila kleift að vinna langan vinnudag.

Við upphaf sambúðar aðila átti varnaraðili íbúð að [...]á [...]. Í skattframtali ársins 1992 er fasteignarmat íbúðarinnar 5.499.000 krónur. Á eigninni hvíldi lán að fjárhæð 1.154.095 krónur samkvæmt sama skattframtali, auk annarra skulda að fjárhæð samtals 201.010 krónur. Veðsetningarhlutfall eignarinnar var því um 21%. Varnaraðili átti samkvæmt skattframtalinu einnig tvær bifreiðar, [...] og [...], að verðmæti samtals 855.000 krónur. Að frádregnum skuldum var skráð verðmæti eigna varnaraðila því um fimm milljónir króna. Við upphaf sambúðarinnar átti sóknaraðili engar eignir og skuldaði ekkert.

Við lok sambúðar aðila átti varnaraðili enn fyrrgreinda íbúð að [...]. Í skattframtali ársins 2013 er fasteignamat íbúðarinnar 25,4 milljónir króna. Engar skuldir voru áhvílandi á eigninni. Varnaraðili átti einnig fasteign að [...]í [...], en þessarar eignar er ekki getið í skattframtali. Fasteignamat eignarinnar árið 2013 var 2.315.000 krónur. Varnaraðili var skráður eigandi fjögurra bifreiða, [...],[...],[...] og [...], og bifhjólanna [...] og [...], að verðmæti samtals 5.226.357 krónur. Þá innleysti varnaraðili hlutdeildarskírteini fyrir 2.691.190 krónur. Þá voru bankainnstæður að fjárhæð 450.357 krónur Skuldir varnaraðila samkvæmt skattframtalinu eru samtals að fjárhæð 2.830.146 krónur, þar af 450.605 krónur vegna atvinnurekstrar. Að frádregnum skuldum var verðmæti eigna varnaraðila því um 35,5 milljónir króna. Við lok sambúðarinnar voru engar eignir eða skuldir skráðar á nafn sóknaraðila.

Málsaðilar komu fyrir dóm við munnlegan flutning málsins og gáfu skýrslur. Verður vitnað til þeirra eftir því sem þurfa þykir.

Málsástæður sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að nánast öll eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma málsaðila og að full fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum á sambúðartímanum öllum, enda hafi þau verið skattlögð sameiginlega eins og skattframtöl allt aftur til 1993 sýni. Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að eignir varnaraðila hefðu aukist mikið á sambúðartíma og áætlað verðmæti þeirra væri á bilinu 35 til 55 milljónir króna. Varnaraðili hafi ekki talið fram til skatts eign að [...] í [...]. Með samsköttun hafi varnaraðili getað nýtt sér persónuafslátt sóknaraðila árin 1991 til 2004. Framlag sóknaraðila til heimilisins hafi á sambúðartímanum skapað grundvöll fyrir hlutdeild hennar í öllum eignum skráðum á varnaraðila. Vinna sóknaraðila á heimilinu hafi falist í uppeldi og umsjón með börnum. Framlag sóknaraðila til heimilisins hafi gert varnaraðila kleyft að vinna langan vinnudag og afla þannig tekna til heimilisins og eigna sér til handa.

Sóknaraðili hafi aflað tekna á sambúðartímanum og allar þær tekjur hafi runnið til heimilis og fjölskyldu. Þær tekjur hafi verið barnabætur, tekjur af atvinnu og arfur. Barnabætur sóknaraðila hafi að hluta runnið til greiðslu á ógreiddum opinberum gjöldum varnaraðila, líkt og fram komi í yfirliti frá Tollstjóra. Greiddur arfur til sóknaraðila árið 2007 hafi runnið í sameigilegan rekstur heimilisins en árið 2007 hafi heildartekjur sóknaraðila verið hærri en varnaraðila.

Með því að vera heimavinnandi og sjá um börn sóknar- og varnaraðila hafi sóknaraðili sparað eða lækkað kostnað við rekstur heimilisins. Börnin á heimilinu hafi ekki farið til dagmóður, heldur verið heima hjá sóknaraðila. Elsta dóttirin hafi ekki farið á leikskóla heldur róluvöll hluta úr degi. Næstelsta og yngsta dóttir aðila hafi farið einungis hálfan daginn á leikskóla og að öðru leyti verið hjá sóknaraðila. Með þessum hætti hafi sóknaraðili sparað gjöld eða rekstrarkostnað heimilisins og komist hjá því að greiða fyrir dýra dagvistunarþjónustu.

Þegar börnin hafi stálpast hafi sóknaraðili farið út að vinna til að auka tekjur heimilisins. Sóknaraðili hafi verið með sambærilegar eða sömu tekjur og varnaraðili miðað við fulla vinnu, en vinnuhlutfall sóknaraðila hafi verið skert vegna starfa hennar við barnauppeldi og heimilisverk.

Þá hafi innbú aðilanna myndast á sambúðartímanum og því sé rétt og sanngjarnt að hún fái helming af andvirði þess.

Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að eignin að [...] væri skuldlaus í dag. Sóknaraðili hafi lagt fram fé til þess að greiða niður áhvílandi lán. Varnaraðili hefði keypt eignina að [...] árið 2006 fyrir fé sem hafi orðið til á sambúðartíma aðila. Þær bifreiðar sem krafa sóknaraðila tekur til hafi verið keyptar á sambúðartíma fyrir fé sem hafi orðið til á sambúðartíma. Eldri bifreiðar hafi verið um 800.000 króna virði, en umræddar bifreiðar séu um fimm milljón króna virði. Verðbréf hafi verið keypt árið 1999 fyrir fé aðila. Aðrar eignir hafi orðið til á sambúðartíma.

Meginreglan um fjárhagsleg skipti sambúðarfólks mæli fyrir um að hvor aðili taki þær eignir sem hann hafi haft með sér inn í sambúðina og sem hann hafi eignast á sambúðartíma. Undantekning sé þó gerð frá þessu ef báðir aðilar lögðu fram fé til eignamyndunar. Þar undir falli ekki bara bein fjárframlög.

Bæði laga- og sanngirnisrök hnígi að því að beita meginreglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti allra eignanna. Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og hjúskaparlaga. Krafa sóknaraðila um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili vísar til þeirrar dómvenju að við slit sambúðar sé litið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga og sú meginregla gildi að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Opinbera skráningu eigna og þinglýstar eignarheimildir verði að leggja til grundvallar, nema sýnt sé fram á annað. Sóknaraðili beri því sönnunarbyrði fyrir beinum og óbeinum framlögum sínum til eignamyndunar á sambúðartímanum.

Sóknaraðili haldi því ekki fram að hún hafi lagt fram fé til kaupa á þeim eignum sem hún gerir kröfu um hlutdeild í við skiptin. Því sé óumdeilt að varnaraðili hafi keypt þær eignir fyrir eigið fé, ýmist áður en sambúðin hófst eða meðan á henni stóð.

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á eignamyndun á sambúðartímanum, eða hve mikil sú eignamyndun hafi verið. Sóknaraðili miði útreikninga á eignum aðila við upphaf sambúðar við skattframtal varnaraðila 1990. Þar sem sambúð aðila hafi hafist 1. nóvember 1991 sé rétt að miða við skattframtal 1992. Þar komi fram að fasteignamat íbúðar varnaraðila að [...] hafi verið 5.499.000 krónur. Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að varnaraðili hefði keypt eignina í upphafi 9. áratugarins. Auk þess sé í sama skattframtali getið bifreiða að verðmæti 855.000 krónur, sem varnaraðili hafi keypt árið áður samkvæmt skattframtali hans 1991. Að frádregnum skuldum nemi eignir varnaraðila í lok árs 1991 um fimm milljónum króna. Sóknaraðili hafi á engan hátt varpað ljósi á verðbreytingar frá upphafi sambúðartímans til loka hans. Eignaaukning á sambúðartímanum sé því ósönnuð.

Lögmaður sóknaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að til þess að meta eignaaukningu yrði að bera saman eignastöðu eins og hún birtist í skattframtölum 1992 og 2013. Skattframtal 2013 sýni að skuldir varnaraðila hafi við lok sambúðartíma numið um 2.850.000 krónum. Þar af hafi skuldir vegna atvinnurekstrar numið 450.000 krónum. Þyngst vegi yfirdráttur varnaraðila hjá Íslandsbanka að fjárhæð rúmlega 1.500.000 krónur. Auk þess séu til staðar skattskuldir. Eignir varnaraðila nemi um 35,5 milljónum króna sem séu fasteignir að [...] á [...] og [...] í Hafnarfirði, fjórar bifreiðar og tvö bifhjól, auk verðbréfa og hlutdeildarskírteina sem innleyst voru árið 2012. Eignir umfram skuldir séu því um 32.650.000 krónur. Þar sé íbúðin að [...] veigamest, en hún sé metin á 25,4 milljónir króna. Lögmaðurinn sagði einnig við munnlegan flutning málsins að eignir hefðu aukist lítillega á sambúðartíma, en ekki hefðu verið lagðir fram útreikningar á eignaaukningu.

Í öðru lagi hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á rétt sinn til hlutdeildar í mögulegri eignamyndun. Þegar aðilar hafi tekið upp sambúð hafi sóknaraðili kosið að draga sig í hlé frá vinnumarkaði. Vegna þessarar ákvörðunar hafi eignamyndun hennar orðið mun minni en ella á sambúðartímanum, en þess í stað hafi sóknaraðili getað eytt meiri tíma með börnunum. Jafnframt hafi ákvörðun sóknaraðila leitt til þess að framfærslubyrði heimilisins hafi að mestu fallið á herðar varnaraðila, sem hafi alið önn fyrir fjölskyldunni að mestu leyti í 21 ár meðan sóknaraðili hafi haft litlar eða engar tekjur. Á varnaraðila hafi engin framfærsluskylda hvílt gagnvart sóknaraðila og syni hennar, enda ekki um hjúskap að ræða. Rangt sé og ósannað að val sóknaraðila hafi gert varnaraðila „kleift að vinna langan vinnudag og þannig afla tekna til heimilisins og eigna sér til handa“. Þvert á móti hafi ákvörðun sóknaraðila um að hverfa af vinnumarkaði gert það að verkum að framfærslubyrði varnaraðila hafi orðið mun þyngri og eignasöfnun hans mun minni en ella. Loks sé ekki unnt að líta svo á að sóknaraðili hafi sparað heimilinu háar fjárhæðir í leikskólagjöld með því að vera heimavinnandi. Ekki sé deilt um að tvö barnanna voru hálfan dag á leikskóla en það þriðja í gæslu á leikvöllum. Hefði sóknaraðili verið útivinnandi hefðu tekjur heimilisins aukist verulega og langt umfram leikskólagjöld.

Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að á sambúðartíma hefðu tekjur varnaraðila verið stöðugar en sóknaraðili hefði fyrstu 12 ár sambúðarinnar haft mjög litlar tekjur. Tekjur á fyrstu árunum væru verðmætari vegna verðlagsþróunar og því væri ekki hægt að leggja saman heildartölu og bera saman. Í ljósi þess að varnaraðili hafi að langmestu leyti greitt gjöld og framfærslu heimilisins með atvinnutekjum sínum í 21 ár sé alls ekki sýnt fram á sanngirni þess að sóknaraðili hljóti hlutdeild í þeirri eignamyndun sem hún haldi fram að hafi orðið á sambúðartímanum. Fjárhagsleg samstaða aðila hafi verið lítil þar sem varnaraðili hafi lagt út fyrir öllum varanlegum eignum og einn greitt af flestum skuldum. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að aðilar hefðu ekki átt neinar eignir saman, ekki verið með sameiginlega bankareikninga og ekki haft aðgang að bankareikningum hvort annars. Ekki hafi heldur neinar skuldir verið sameiginlegar. Þá hafi sóknaraðili ekki komið að rekstri varnaraðila. Samsköttun aðila vegi ekki þungt við mat á fjárhagslegri samstöðu, en mögulega hafi hún komið varnaraðila til góða að litlu leyti. Þá verði að rökstyðja kröfur um hlutdeild í hverri eign. Fullyrðingu sóknaraðila um að arfur sem henni hlotnaðist árið 2007 hafi runnið til sameiginlegra þarfa heimilisins sé sérstaklega mótmælt. Sá arfur hafi numið um tveimur milljónum króna og farið að bróðurparti í persónulega neyslu sóknaraðila. Fjárhæð arfs sé auk þess lág í samanburði við mismun á tekjum aðila. Barnabætur sóknaraðila hafi í einhverjum tilvikum verið notaðar til að greiða skattaskuldir varnaraðila. Fjárhæðir þeirra greiðslna hafi þó ekki verið teknar saman.

Varnaraðili hafnar því með vísan til framangreinds að sóknaraðili eigi rétt á hlutdeild í fasteigninni að [...]. Fasteignin sé 100% þinglýst eign varnaraðila og hafi verið í hans eigu þegar sambúð aðila hófst. Samkvæmt skattframtali 1992 hafi veðsetningarhlutfall eignarinnar verið 21%. Varnaraðili hafi einn greitt afborganir af áhvílandi veðláni og eignin sé nú skuldlaus.

Varnaraðili hafnar því með vísan til framangreinds að sóknaraðili eigi rétt á hlutdeild í fasteigninni að [...]. Eignin sé 100% þinglýst eign varnaraðila og keypt af honum árið 2006 í þágu atvinnurekstrar hans. Fasteignamat 2012 hafi verið 2.315.000 krónur. Að auki hafi sóknaraðili um langt skeið notið góðs af atvinnurekstri varnaraðila sem hafi framfært henni.

Bifreiðarnar [...],[...],[...] og [...] og bifhjólin [...] og [...] séu skráð eign varnaraðila sem hafi greitt kaupverð þeirra allra. Varnaraðili vísar því á bug með vísan til framangreinds að sóknaraðili eigi rétt á hlutdeild í ökutækjunum.

Bifreiðin [...] hafi verið skráð eign varnaraðila sem hafi greitt kaupverðið einn. Söluandvirðinu hafi þegar verið ráðstafað til framfærslu fjölskyldunnar. Varnaraðili andmæli jafnframt kröfunni með vísan til áðurgreindra málsástæðna.

Þá krefjist sóknaraðili hlutdeildar í vaxtatekjum og söluhagnaði af innlausn verðbréfa samkvæmt skattframtali 2013. Verðbréfin hafi öll verið skráð eign varnaraðila sem hafi keypt þau árið 1999. Söluhagnaði hafi verið ráðstafað upp í skuldir varnaraðila. Þegar varnaraðili keypti bréfin hafi sóknaraðili ekki unnið utan heimilis og fjölskyldan öll verið á framfæri varnaraðila. Því sé ekki sýnt fram á sanngirni þess að sóknaraðili öðlist hlutdeild í söluhagnaði bréfanna og kröfunni sé mótmælt með vísan til áðurgreindra málsástæðna.

Lögmaður varnaraðila sagði við munnlegan flutning málsins að dómari ætti að vísa kröfulið um innbú og lífeyrissparnað frá dómi án kröfu, enda væru engin gögn lögð fram um þessar eignir. Verði frávísun þessa kröfuliðar hafnað byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi nú þegar tekið það sem hún eigi af innbúi. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 geti maki krafist þess við fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita að réttindi í lífeyrissjóðum komi ekki undir skipti. Þessu ákvæði megi beita með lögjöfnun við fjárhagsskipti sambúðarfólks. Loks hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á tilkall til bankainnstæðna.

Að endingu mótmæli varnaraðili öðrum kröfuliðum sóknaraðila þar sem þeir styðjist ekki við nokkur lagarök. Þeim kröfum beri einnig að vísa frá dómi án kröfu.

Niðurstaða

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær að eignir varnaraðila, sem eru í kröfugerð hennar taldar upp í sjö töluliðum, komi til skipta milli aðila að jöfnu. Engar lögfestar reglur eru um skipti eigna og skulda við slit óvígðrar sambúðar. Litið hefur verið á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í þessu tilliti og þeirri meginreglu slegið fastri við fjárskipti vegna slita á óvígðri sambúð að hvor aðili taki sínar eignir og beri ábyrgð á sínum skuldum. Er almennt litið svo á að opinber skráning og þinglýsing eignarheimilda gefi sterka vísbendingu um raunveruleg eignarráð og að sá sem haldi fram eignarráðum sem ekki samræmist slíkri skráningu beri sönnunarbyrði fyrir réttmæti slíkra fullyrðinga. Þessum sjónarmiðum hefur verið lýst með almennum hætti sem meginreglum á þessu sviði í nokkrum dómum Hæstaréttar Íslands um fjárslit vegna óvígðrar sambúðar, sbr. t.d. dóma réttarins í málum nr. 163/2014, 718/2012 og 704/2012.

 Þrátt fyrir framangreint hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið viðurkennt að sambúðarmaki geti átt tilkall til hlutdeildar í eignum hins, hvernig sem háttað er skráningu og þinglýsingu eignarheimilda, sýni sá sambúðarmaki fram á að eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma sem báðir aðilar hafi lagt sitt af mörkum til. Við mat um það hvort sýnt sé fram á tilkall til hlutdeildar í slíkri eignamyndun hefur hver eign verið skoðuð sérstaklega, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 254/2011 og 704/2012. Þá hefur ekki einvörðungu verið litið til beinna fjárframlaga, heldur einnig tekið mið af m.a. lengd sambúðar, hvort aðilar eigi börn saman, fjárhagslegri samstöðu aðila, hvort not af eign hafi verið sameiginleg og tekjum aðila. Í samræmi við þetta verður að skoða sérstaklega hverja þá eign um sig sem kröfugerð sóknaraðila nær til.

Ágreiningslaust er að fram til ársins 2004 stundaði sóknaraðili ekki launaða vinnu utan heimilis aðila. Meðal gagna málsins eru skattframtöl beggja aðila árin 1992 til 2013, að undanskyldu skattframtali ársins 2001, fyrir tekjuárið 2000. Árin 1993 til 1995 og 2001 til 2003 var sóknaraðili tekjulaus. Tekjur hennar árin 1992 og 1996 til 1999 voru miklum mun lægri en tekjur varnaraðila þessi ár. Ekki eru lögð fram gögn um tekjur aðila árið 2000. Árin 2004 til 2012 var sóknaraðili með mun lægri tekjur en varnaraðili, að undanskildu árinu 2007, er sóknaraðila tæmdist arfur. Í framlagt skattframtal 2006, vegna tekjuársins 2005, vantar blaðsíðu þar sem koma fram tekjur varnaraðila það ár, en ekki virðist um það deilt að tekjur hans það ár hafi verið hærri en tekjur sóknaraðila.

Tekjur sóknaraðila árið 1992 voru 338.137 krónur en varnaraðila 1.332.016 krónur, tekjur sóknaraðila árið 1996 voru 129.528 krónur en varnaraðila 1.620.000 krónur, tekjur sónaraðila árið 1997 voru 314.046 krónur en varnaraðila 1.620.000 krónur, tekjur sóknaraðila árið 1998 voru 146.460 krónur en varnaraðila 1.980.937 krónur, tekjur sóknaraðila árið 1999 voru 152.316 krónur en varnaraðila 2.749.024 krónur, tekjur sóknaraðila árið 2004 voru 383.564 krónur en varnaraðila 2.651.586 krónur, tekjur sóknaraðila árið 2005 voru 1.017.555 krónur en tekjur varnaraðila það ár liggja ekki fyrir, tekjur sóknaraðila árið 2006 voru 1.661.358 krónur en varnaraðila 2.522.131 króna, tekjur sóknaraðila árið 2007 voru 2.722.058 krónur en varnaraðila 2.522.131 króna, tekjur sóknaraðila árið 2008 voru 575.619 krónur en varnaraðila 2.522.131 króna, tekjur sóknaraðila árið 2009 voru 854.490 krónur en varnaraðila 2.816.266 krónur, tekjur sóknaraðila 2010 voru 1.684.273 krónur en varnaraðila 3.952.887 krónur, tekjur sóknaraðila árið 2011 voru 1.787.935 krónur en varnaraðila 3.456.000 krónur og tekjur sóknaraðila 2012 voru 1.866.483 krónur en varnaraðila 3.456.000 krónur.

Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir greiðslur barnabóta var bótunum að nokkru leyti skuldajafnað upp í skuldir varnaraðila. Um var að ræða bætur fyrir tímabilið 2001-03 að fjárhæð 7.393 krónur, sem var skuldajafnað að öllu leyti, bætur fyrir tímabilið 2001-04 þar sem 7.392 krónum af bótum var skuldajafnað, bætur fyrir tímabilið 2002-01 að fjárhæð 37.859 krónur, sem var skuldajafnað að öllu leyti, bætur fyrir tímabilið 2002-02 að fjárhæð 37.859 krónur, sem var skuldajafnað að öllu leyti, bætur fyrir tímabilið 2003-02 þar sem 115 krónum af bótum var skuldajafnað, bætur fyrir tímabilið 2004-01 að fjárhæð 42.963 krónur, sem var skuldajafnað að öllu leyti og loks bætur fyrir tímabilið 2004-03 þar sem 15.029 krónum af bótum var skuldajafnað.

Fram kom í skýrslu sóknaraðila fyrir dóminum að hún hefði varið tekjum sínum til reksturs heimilis aðila, matarinnkaupa og í þágu barnanna, en ekki lagt fram fé til greiðslu lána. Það hefði verið sameiginleg ákvörðun málsaðila að sóknaraðili ynni ekki utan heimilis. Sóknaraðili hefði ráðstafað föllnum arfi til að kaupa ískáp og uppþvottavél, sem varnaraðili hefði síðar keypt af henni, föt og tölvu handa dætrum aðila, mottu og ryksugu auk þess sem fjölskyldan hefði farið í utanlandsferð sem málsaðilar hefðu greitt saman.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar einkum á því að nánast öll eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma þeirra og allan tímann hafi fjárhagsleg samstaða verið með þeim. Á þetta er ekki unnt að fallast. Óumdeilt er að aðilar málsins áttu ekki neinar eignir saman, þau voru ekki með sameiginlega bankareikninga og höfðu ekki aðgang að bankareikningum hvort annars. Engar skuldir voru sameiginlegar. Þær fjárhæðir barnabóta sóknaraðila sem skuldajafnað var upp í skattskuldir varnaraðila nema afar lágum fjárhæðum, miðað við eignir og tekjur beggja aðila. Samsköttun málsaðila á sambúðartíma getur ekki breytt þessari ályktun, enda liggja engin gögn fyrir í málinu um persónuafslátt sóknaraðila og að hvaða marki hann hafi komið varnaraðila að gagni.

Ágreiningslaust er að varnaraðili keypti fasteignina að [...] á [...] í upphafi 9. áratugarins. Þetta samrýmist því sem fram kemur í framlögðum skattframtölum, en þar er eignin sögð keypt árið 1982. Varnaraðili var þannig búinn að eiga eignina í nær áratug þegar sambúð aðila hófst 1. nóvember 1991. Samkvæmt skattframtali varnaraðila árið 1992 var veðsetningarhlutfall eignarinnar þá um 21%, en engar skuldir eru áhvílandi á eigninni í dag. Samkvæmt skattframtölum var hið síðasta af áhvílandi lánum greitt upp árið 2009. Sóknaraðili kvaðst í skýrslu sinni fyrir dóminum ekki hafa lagt fram fé til greiðslu á áhvílandi skuldum á eigninni. Við úrlausn þess hvort sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta öðlast hlutdeild í þeirri eign, sem koma eigi til skipta milli aðila við fjárslit þeirra, verður að líta til þess að á árunum 1992 til 2009 var sóknaraðili, eins og fyrr segir, tekjulaus árin 1993 til 1995 og 2001 til 2003 og tekjur hennar árin 1992, 1996 til 1999 og 2004 til 2009 voru öll árin umtalsvert lægri en tekjur varnaraðila, fyrir utan árin 2000 og 2005, sem gagna nýtur ekki um, og ársins 2007. Þá var fjárhagsleg samstaða þeirra afar lítil. Þegar litið er til alls þessa hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til eignamyndunar þessarar fasteignar. Kröfu sóknaraðila um að fasteignin komi til skipta milli aðila að jöfnu eða að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að öðrum og lægri hundraðshluta, er því hafnað.

Fyrir liggur að varnaraðili keypti fasteignina að [...] í [...] árið 2006 og er ekki deilt um að hann keypti eignina í þágu atvinnurekstrar síns. Varnaraðili kvaðst í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa tekið fé að láni vegna kaupanna. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að hún hafi lagt fram fé til greiðslu á eigninni, og í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst sóknaraðili ekki hafa vitað um kaup varnaraðila á eigninni fyrr en löngu síðar. Við úrlausn þess hvort sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta öðlast hlutdeild í þeirri eign, sem koma eigi til skipta milli aðila við fjárslit þeirra, verður að líta til þess munar sem var á tekjum aðila og fyrr er greint frá, hinnar litlu fjárhagslegu samstöðu sem var milli aðila og nýtingu eignarinnar fyrir atvinnurekstur varnaraðila, en ekki er um það deilt að sóknaraðili kom ekkert að atvinnurekstri varnaraðila. Þegar litið er til alls þessa hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til eignamyndunar þessarar fasteignar. Kröfu sóknaraðila um að fasteignin komi til skipta milli aðila að jöfnu eða að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að öðrum og lægri hundraðshluta, er því hafnað.

Bifreiðarnar [...], [...],[...] og [...] og bifhjólin [...] og [...] eru skráð eign varnaraðila. Hið sama gilti um bifreiðina [...], sem varnaraðili seldi. Ekki virðist vera ágreiningur um að varnaraðili keypti bifreiðarnar og greiddi kaupverð þeirra. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort varnaraðili hafi tekið fé að láni vegna kaupanna. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að hún hafi lagt fram fé til kaupa á bifreiðunum eða til að standa undir rekstrarkostnaði bifreiðanna, svo sem kaupum á eldsneyti, tryggingum og viðhaldi. Við úrlausn þess hvort sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta öðlast hlutdeild í bifreiðunum, sem koma eigi til skipta milli aðila við fjárslit þeirra, verður að líta til þess munar sem var á tekjum aðila og fyrr er greint frá og hinnar litlu fjárhagslegu samstöðu sem var milli aðila. Þegar litið er til alls þessa hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til þessarar eignamyndunar. Kröfu sóknaraðila um að ofangreindar bifreiðar og bifhjól, ásamt söluandvirði bifreiðarinnar [...], komi til skipta milli aðila að jöfnu eða að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að öðrum og lægri hundraðshluta, er því hafnað.

Samkvæmt fylgiskjali með skattframtali 2013 voru umrædd verðbréf öll keypt í mars og júní 1999, fyrir utan bréf í innláns- og ríkisskuldabréfasjóði Sjóvár sem voru keypt í júní 2010. Óumdeilt er að varnaraðili keypti verðbréfin fyrir eigið fé. Samkvæmt fyrrnefndu fylgiskjali seldi varnaraðili öll verðbréfin 14. desember 2012. Sóknaraðili hefur ekki haldið því fram að hún hafi lagt fram fé til kaupa á þessum verðbréfum. Við úrlausn þess hvort sóknaraðili hafi þrátt fyrir þetta öðlast hlutdeild í verðbréfunum, sem koma eigi til skipta milli aðila við fjárslit þeirra, verður að líta til þess munar sem var á tekjum aðila og fyrr er greint frá og hinnar litlu fjárhagslegu samstöðu sem var milli aðila. Þegar litið er til alls þessa hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún hafi lagt nokkuð fram til þessarar eignamyndunar. Kröfu sóknaraðila um að heildartekjur af sölu eða innlausn og vaxtatekjur eða söluhagnaður af sölu eða innlausn verðbréfa komi til skipta milli aðila að jöfnu eða að viðurkenndur verði eignarréttur hennar að öðrum og lægri hundraðshluta, er því hafnað.

Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir um innbú aðila, hvernig það er til komið eða hvert verðmæti þess er. Er því ekki unnt að leggja mat á það með hvaða hætti skuli skipta innbúi milli aðila. Þessari kröfu sóknaraðila verður því vísað frá dómi án kröfu.

Bankainnstæður aðila námu í árslok 2012 450.357 krónum. Hins vegar liggja ekki fyrir gögn um fjárhæðir innstæðna aðila þegar sambúð þeirra lauk 31. október 2012, en samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. koma aðeins til skipta þær eignir og réttindi aðila sem tilheyrðu þeim þegar óvígðri sambúð var slitið. Þessari kröfu sóknaraðila er því óhjákvæmilegt að vísa frá dómi án kröfu.

Skilja verður kröfu sóknaraðila um skiptingu lífeyrissparnaðar þannig að krafan taki til lífeyrissparnaðar beggja aðila. Helst virðist mega ráða af kröfunni að sóknaraðili krefjist þess að allur lífeyrissparnaður aðila komi til skipta, án tillits til þess hvort sparnaðurinn hafi fallið til á sambúðartíma aðila eða fyrir upphaf sambúðar þeirra. Ekki verður heldur ráðið af kröfunni hvort hún taki einvörðungu til lögbundinnar lágmarkstryggingarverndar eða viðbótartryggingarverndar, sbr. 4. mgr. 1. gr., 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þá eru engin gögn eða upplýsingar lögð fram um lífeyrissparnað aðila, hvorki sóknaraðila né varnaraðila. Er þessi krafa svo óljós og vanreifuð að ekki er unnt að leggja mat á það hvort og þá með hvaða hætti ætti að skipta lífeyrissparnaði aðila. Verður þessari kröfu sóknaraðila því vísað frá dómi án kröfu.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð. Vegna mikilla anna dómarans hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist fram yfir lögbundinn frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfum sóknaraðila, K, um að innbú í húsnæðinu að [...], [...], bankainnstæður og lífeyrissparnaður komi til skipta að jöfnu milli sóknaraðila og varnaraðila, M, er vísað frá dómi án kröfu.

Að öðru leyti er kröfum sóknaraðila hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.