Hæstiréttur íslands
Mál nr. 587/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 10. september 2013. |
|
Nr. 587/2013.
|
A (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) gegn B (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Lögræði. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var að kröfu B svipt sjálfræði í tvö ár. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæra A uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda yrði ekki úr annmarka þar á bætt þótt kröfum A og málsástæðum væri gerð skil í greinargerð hennar fyrir Hæstarétti, sbr. til dæmis dóm réttarins 29. maí 2013 í máli nr. 340/2013.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2013 þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum er krafist þóknunar til handa talsmanni varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Í kæru sóknaraðila, sem rituð er af lögmanni hennar, er því lýst yfir að hún hafi falið lögmanninum að kæra fyrir sig áðurnefndan úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur og númer úrskurðarins tilgreint. Hafi lögmaður sá, sem gætti hagsmuna sóknaraðila í héraði, verið upplýst um vilja sóknaraðila til að skipta um lögmann og afhent gögnin núverandi lögmanni hennar. Þá segir í kærunni: ,,Kæruheimild er í 1. mgr. 30. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Greinargerð hefur verið send Hæstarétti.“
Í 16. gr. lögræðislaga er að finna ákvæði um málskot úrskurða, sem kveðnir eru upp samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. greinarinnar segir að um málskotið fari samkvæmt almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greini í lögunum. Í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 eru ákvæði um hvað greina skuli í kæru til Hæstaréttar. Þar segir að tilgreina skuli þá dómsathöfn, sem kærð sé, kröfu um breytingu á henni og þær ástæður, sem kæra sé reist á. Svo sem fram er komið gerði sóknaraðili í kæru til Hæstaréttar hvorki grein fyrir kröfu sinni um breytingu á hinni kærðu dómsathöfn né því á hvaða ástæðum kæra hennar væri reist. Úr þessum annmarka verður ekki bætt þótt kröfum hennar og málsástæðum séu gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi, sbr. til dæmis dóm réttarins 29. maí 2013 í máli nr. 340/2013. Með vísan til þessa verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2013.
Með kröfu, sem dagsett er 23. ágúst sl. og þingfest í dag, hefur Páll A. Pálsson hrl. f.h. B, kt. [...], [...],[...]farið þess á leit að að móðir hennar A, kt. [...], til lögheimilis í [...],[...], verði svipt sjálfræði í tvö ár. Segir í kröfunni að sóknaraðili telji „varnaraðila ekki lengur færa til að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms og að nauðsynlegt sé að vista hana á geðdeild sjúkrahúss“ og óhjákvæmilegt sé „að óska eftir sjálfræðissviptingu“ til þess að hún fái langvarandi lyfjameðferð. Kröfunni er mótmælt en til vara er þess krafist að sviptingartíminn verði styttri en krafist er.
Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.
Meðal gagna málsins er staðfest vottorð og vætti Halldóru Jónsdóttur geðlæknis þar sem fram kemur að varnaraðili, sem var nauðungarvistuð hinn 4. þ.m., hafi þjáðst af alvarlegum geðsjúkdómi, [...], í áratugi og oft verið lögð inn á spítala af þeim sökum. Þá sé hún haldin efna- og spilafíkn. Hún hafi verið með geðrofseinkenni, ofskynjanir og ranghugmyndir, þegar hún var lögð inn á spítala tveim dögum áður. Eru í vottorðinu tilgreind dæmi um sturlunartiltæki varnaraðila áður en hún var lögð inn og um ranghugmyndir sem þá komu í ljós. Í viðtali 20. þ.m. hafi hún hins vegar virst vera nokkurn veginn áttuð á stund en talað samhengislaust. Segir læknirinn að varnaraðila hafi skánað eftir að hún var lögð inn, enda þegar verið gefin geðlyf. Hún sé hins vegar innsæislaus og fullreynt að hún sé ekki til samvinnu um læknismeðferð fái hún að vera sjálfráða. Telur læknirinn nauðsynlegt að hún verði svipt sjálfræði sínu í tvö ár til þess að hún fái áframhaldandi meðferð við sjúkdóminum. Ella sé spillt fyrir bata og heilsu hennar stefnt í voða.
Nægilega er í ljós leitt að varnaraðili, A, er vegna geðsjúkdóms ófær um að ráða persónulegum högum sínum og að brýna nauðsyn ber til þess að veita henni viðeigandi læknismeðferð. Ber því með heimild í a-lið 4. gr. lögræðislaga, að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli vera svipt sjálfræði í tvö ár.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðra talsmanna aðilanna, Páls Arnórs Pálssonar hrl., og Áslaugar Gunnlaugsdóttur hdl., 100.000 krónur til hvors um sig. Er þóknun talsmannanna ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá ber einnig að greiða úr ríkissjóði kostnað vegna læknisvottorðs, 81.280 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, kt. [...],[...],[...], er svipt sjálfræði í tvö ár.
Kostnaður af málinu, þóknun skipaðra talsmanna aðilanna, Páls Arnórs Pálssonar hrl., 100.000 krónur og Áslaugar Gunnlaugsdóttur hdl., 100.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði, svo og annar kostnaður, 81.280 krónur.