Hæstiréttur íslands

Mál nr. 480/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 480/2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. desember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. desember 2003 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hefur rannsókn málsins beinst að þremur nýjum auðgunarbrotum, sem rökstuddur grunur leikur á að ákærði hafi átt aðild að. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. desember 2003 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að á undanförnum misserum hafi komið upp fjöldi mála sem tengjast kærða. 

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst til 22. ágúst sl. á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. oml og í kjölfarið verið úrskurðaður áfram í gæsluvarðhald á grundvelli c. liðar sömu greinar sætt gæslu til 26. september.  Kröfur þessar hafi verið gerðar af lögreglustjóranum í Reykjavík.

Þá hafi kærði verið, að kröfu lögreglunar í Kópavogi, á ný úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 1. nóvember sl.  Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði kærði í gæsluvarðhald en sú ákvörðun hafi verið felld úr gildi af Hæstarétti þann 5. nóvember 2003 (mál nr. 424/2003), þar sem einungis hafi verið krafist gæsluvarðhalds á grundvelli c-liðar en ekki a-liðar og þar sem ekki hafði enn verið gefin út ákæra vegna þeirra brota sem kærði hafi sætt gæslu út af í ágúst og september.

Til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík og lögreglunni í Kópavogi séu fjöldi innbrotsmála og þjófnaða sem kærði sé grunaður um aðild að.  Þá muni ákæra á hendur kærða verða gefin út á næstu dögum vegna hluta þeirra mála. 

Hér sé aftur á móti gerð krafa um gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. oml., þ.e. á grundvelli rannsóknarhagsmuna, vegna nýrra mála sem enn séu á frumrannsóknarstigi hjá lögreglu. 

 [...]

                Kærði á nokkurn sakaferil að baki, einkum fyrir þjófnaði og auðgunarbrot.  Hann hlaut síðast dóm 13. febrúar 2003 er hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár.  Síðan þá hefur lögreglan í Reykjavík og Kópavogi unnið að rannsókn fjölda mála sem kærði er talinn bendlaður við og hefur fulltrúi lögreglustjóra upplýst að ákæra verði gefin út á hendur honum í næstu viku vegna hluta þeirra.  Lögregla hefur nú til rannsóknar nokkur innbrots- og þjófnaðarmál auk fíkniefnabrots, sem framin hafa verið á síðustu dögum og þykja sterkar líkur á að kærði tengist.  Þannig var ákærði handtekinn með bakpoka sem í fannst þýfi úr þessum málum auk þess sem vitni hefur borið kennsl á hann.  Kærði, sem var í slæmu ástandi við handtöku kveðst vera mjög langt leiddur sem alkóhólisti.

Rannsókn máls þessa er á frumstigi og  er eftir að taka frekari skýrslur af kærða svo og vitnum.  Svo sem rakið hefur verið er rökstuddur grunum um að kærði eigi aðild að þessum málum þrátt fyrir neitun hans þar um og verður að telja að kærði geti torveldað rannsókn málsins ef hann gangi laus á meðan.  Með vísan til þessa og rannsóknargagna í heild ber að fallast á að skilyrðum sé fullnægt fyrir gæsluvarðhaldi kærða skv. a-lið 103. gr. laga nr. 19,1991.  Verður krafa lögreglunnar í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurði.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, en með dvalarstað á [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðju­dagsins 23. desember 2003 kl. 16.00.