Hæstiréttur íslands

Mál nr. 92/2008


Lykilorð

  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Sekt
  • Ökuréttarsvipting
  • Ítrekun


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 92/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

Ágústi Kolbeini Sigurlaugssyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Akstur undir áhrifum fíkniefna. Sekt. Ökuréttarsvipting. Ítrekun.

Á var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið 14. apríl 2007 undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Í málinu var deilt um það hvort dómur sem Á hlaut fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna 11. apríl 2007, en birtur honum 20. sama mánaðar, skyldi hafa ítrekunaráhrif samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Í dómi Hæstaréttar voru rakin almenn skilyrði 71. gr. almennra hegningarlaga um ítrekun. Var talið að orðalag ákvæðisins vísaði til þess að ítrekunaráhrif væru miðuð við það tímamark þegar dómur félli auk þess sem það væri viðtekin túlkun á ákvæðinu og þyrfti dómurinn því ekki að hafa verið birtur til þess að hafa ítrekunaráhrif. Samkvæmt þessu hafði dómurinn frá 11. apríl því ítrekunaráhrif við ákvörðun um sviptingu ökuréttar G. Var ákvörðun hins áfrýjaða dóms um refsingu og ökuréttarsviptingu leiðrétt og G dæmdur til greiðslu 180.000 króna sektar og sviptur ökurétti í 2 ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu af hálfu ákæruvaldsins til Hæstaréttar 31. janúar 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd og ökuréttarsvipting lengd.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvort dómur sem ákærði hlaut fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 11. apríl 2007, þar sem hann var dæmdur meðal annars fyrir tvö ölvunarakstursbrot, í öðru tilvikinu einnig fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, hafi ítrekunaráhrif til þyngingar refsingar og lengingar ökuréttarsviptingar þeirrar sem ákveðin var í hinum áfrýjaða dómi. Dómurinn frá 11. apríl 2007 var birtur ákærða 20. sama mánaðar. Í hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 18. október 2007, var ákærði sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með því að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna 14. apríl 2007, nánar tiltekið með 0,6 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði. Farið var með bæði málin samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Í 100. gr. umferðarlaga er ekki kveðið á um ítrekunaráhrif að því er varðar refsingu. Ákærði hefur sem fyrr segir áður gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Að því virtu er refsing hans ákveðin 180.000 króna sekt, en komi 14 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.

Í 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga eru hins vegar ákvæði um afleiðingar ítrekunar brots á tímalengd sviptingar ökuréttar. Um almenn skilyrði ítrekunar er fjallað í 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar segir í 1. mgr. að þegar „lög ákveða eða heimila aukna hegningu eða önnur viðurlög við ítrekun brots, skal ekki beita þeim ákvæðum, nema sökunautur hafi, áður en hann framdi síðara brotið, verið dæmdur sekur um brot eða gengist undir refsingu hér á landi fyrir brot, sem ítrekunaráhrif hefur á síðara brotið,“ og hafi að auki verið orðinn fullra 18 ára er hann framdi fyrra brotið. Orðalag ákvæðisins vísar til þess að dómur hafi gengið þegar síðara brot er framið og er viðtekin túlkun þess að átt sé við það tímamark þegar dómur fellur, en hann þurfi ekki að hafa verið birtur, gagnstætt því sem felst í ákvæði 5. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því hefur dómurinn frá 11. apríl 2007 ítrekunaráhrif við ákvörðun ökuréttarsviptingar í máli þessu, en ákærði hafði náð 18 ára aldri þegar hann framdi brotin, sem fyrri dómurinn tók til.

Samkvæmt 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga skal svipting ökuréttar ekki vara skemur en tvö ár hafi ökumaður áður brotið gegn ákvæðum 45. gr. eða 45. gr. a. laganna. Ákærði var í hinu fyrra máli sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, en er nú sakfelldur fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna með 0,6 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði. Verður hann því nú sviptur ökurétti í tvö ár frá 20. október 2009 að telja, en þann dag lýkur ökuréttarsviptingu samkvæmt áðurnefndum dómi frá 11. apríl 2007.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Með þessari dómsniðurstöðu er leiðrétt ákvörðun hins áfrýjaða dóms um refsingu og ökuréttarsviptingu og er því rétt að greiddur verði úr ríkissjóði áfrýjunarkostnaður málsins, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ágúst Kolbeinn Sigurlaugsson, greiði 180.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 14 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 20. október 2009 að telja.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, greiðast úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 18. október 2007.

I

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið 9. október sl. er höfðað af lögreglustjóranum á Sauðárkróki 14. ágúst 2007 á hendur Ágústi Kolbeini Sigurlaugssyni, fæddum 17. október 1988, til heimilis að Brekkugötu 23, Ólafsfirði, ,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa um tvöleytið laugardaginn 14. apríl 2007 ekið bifreiðinni VP-340 undir áhrifum fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í blóði 0,6 ng/ml), suður Norðurlandsveg í Skagafirði, þar til lögreglan stöðvaði för hans á móts við bæinn Miðsitju í Blönduhlíð.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sem og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytinum.”

II

Ákærði sótti ekki þing og boðaði ekki forföll þegar málið var þingfest 9. október sl. Málið er því dæmt með vísan til 1. mgr. 126. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 enda er þess getið í fyrirkalli sem birt var fyrir ákærða sjálfum á lögmætan hátt 13.september sl. að svo mætti fara með málið.

Þar sem ákærði hefur ekki látið málið til sín taka verður með vísan til þess sem að framan er rakið að líta svo á að hann viðurkenni háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök og telst sök hans þar með nægilega sönnuð enda er ákæran í samræmi við gögn málsins og brot hans þar réttilega fært til refsiákvæða.

Ákærði hefur tvisvar áður sætt refsingu. Hinn 18. september 2006 var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hinn 11. apríl 2007 var hann dæmdur til sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. sbr. 3. mgr. 45a umferðarlaga. Með dóminum var ákærði jafnframt sviptur ökurétti í tvö og hálft ár en hann var sakfelldur fyrir að aka tvisvar undir áhrifum áfengis og vörðuðu bæði brotin við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga í annað af þessum skiptum var ákærði einnig undir áhrifum fíkniefna. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir var framið 14. apríl 2007 eða þremur dögum eftir uppkvaðningu dómsins frá 11. apríl 2007 en þá mun birting dómsins ekki hafa farið fram. Af þessum sökum hefur dómurinn frá 11. apríl 2007 ekki ítrekunaráhrif í á brot þetta. Að teknu tilliti til þessa þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 70.000 króna sekt til ríkissjóðs en 6 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Þá ber að svipta ákærða ökurétti í þrjá mánuði frá 10. október 2009 að telja en þann dag fellur niður ökuréttarsvipting ákærða samkvæmt títtnefndum dómi frá 11. apríl 2007. 

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem nemur samkvæmt yfirliti rannsóknara 75.892 krónum en enginn sakarkostnaður hlaust af meðferð málsins fyrir dóminum. Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Birkir Már Magnússon fulltrúi lögreglustjórans á Sauðárkróki.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Ákærði, Ágúst Kolbeinn Sigurlaugsson, greiði 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs en 6 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. 

Ákærði er sviptur ökurétti í þrjá mánuði frá 10. október 2009 að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 75.892 krónur.