Hæstiréttur íslands

Mál nr. 311/2000


Lykilorð

  • Fasteignakaup
  • Riftun
  • Endurgreiðslukrafa
  • Aðild
  • Fyrning
  • Málsástæða
  • Sáttaumleitan
  • Gagnaöflun
  • Vitni
  • Dómsuppkvaðning


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. janúar 2001.

Nr. 311/2000.

Guðmundur Benediktsson og

Jenný Ásmundsdóttir

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

dánarbúi Svövu Ólafsdóttur

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

                                                   

Fasteignakaup. Riftun. Endurgreiðslukrafa. Aðild. Fyrning. Málsástæður. Sáttaumleitun. Gagnaöflun. Vitni. Dómsuppkvaðning.

 

Með kaupsamingi 1. desember 1994 keyptu G og H fasteign af GB og J, en  áður höfðu G og H ritað undir samkomulag ásamt S, móður G, þar sem S hét því að lána þeim söluverð íbúðar sinnar til fasteignakaupanna. Sökum vanefnda G og H var með skriflegum samningi GB við G 31. ágúst 1995 staðfest að kaupin skyldu ganga til baka, en í þeim samningi var ekki kveðið á um endurgreiðslu þess, sem G og H höfðu þegar innt af hendi. Með yfirlýsingu G og H 19. janúar 1997 framseldu þau S rétt sinn til að innheimta og taka við endurgreiðslu úr hendi GB vegna riftunar kaupsamningsins. Eftir andlát S 20. júní 1998 og töku bús hennar til opinberra skipta 12. mars 1999 höfðaði dánarbúið mál á hendur GB og J til heimtu þess fjár sem G og H höfðu innt af hendi samkvæmt kaupsamningnum. Hæstiréttur hafnaði með öllu kröfu GB og J um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Sýknukröfu GB og J var einnig hafnað þar sem ekki var talið að þau gætu réttilega borið fyrir sig atvik, er vörðuðu skipti í þrotabúi G, til að færast undan greiðslu. Þá var með vísan til 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 ekki fallist á að krafan væri fyrnd. Kröfum GB og J um lækkun á kröfu G og H var einnig hafnað enda skorti gögn fyrir þeim kröfum, sem gerðar voru, en að öðru leyti voru málsástæður að baki þessum kröfum of seint fram komnar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2000. Þau krefjast þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu heimvísað til löglegrar meðferðar, svo og að stefnda verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast áfrýjendur sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefjast áfrýjendur þess að krafa stefnda verði lækkuð í 779.190 krónur, en að öðrum kosti 2.100.000 krónur. Verði þá málskostnaður látinn falla niður.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjendum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til þess að áfrýjendur seldu með kaupsamningi 1. desember 1994 Garðari Jökulssyni og Helgu Nielsen fasteign að Dalsbyggð 15 í Garðabæ. Var umsamið kaupverð 16.900.000 krónur. Af þeirri fjárhæð áttu kaupendur að greiða 1.200.000 krónur við undirritun kaupsamningsins, 2.000.000 krónur 1. febrúar 1995, en 4.426.818 krónur þegar nánar tiltekin íbúð að Eskihlíð 26 í Reykjavík yrði seld, þó ekki síðar en 1. október sama árs. Eftirstöðvar kaupverðsins skyldu greiddar með því að kaupendur tækju að sér nánar tilgreindar veðskuldir á fasteigninni. Áður en kaupsamningurinn var gerður höfðu Garðar og Helga ritað undir samkomulag 27. nóvember 1994 ásamt móður þess fyrrnefnda, Svövu Ólafsdóttur, þar sem hún hét því að lána þeim söluverð íbúðar sinnar að Eskihlíð 26 til að kaupa fasteignina að Dalsbyggð 15 gegn því að fá til afnota ákveðinn hluta þeirrar eignar á meðan hún og að minnsta kosti annar lánþeganna væri á lífi. Var kveðið á um verðtryggingu lánsins og skilmála um endurgreiðslu þess.

Fyrir Hæstarétti er óumdeilt að áfrýjendur fengu í hendur tvær fyrstu greiðslurnar samkvæmt kaupsamningnum um Dalsbyggð 15, samtals 3.200.000 krónur. Jafnframt að nokkru síðar hafi orðið ljóst að kaupendum yrði ekki kleift að standa að öðru leyti í skilum með greiðslur og hafi því verið samið um að kaupin gengju til baka. Var þetta staðfest með skriflegum samningi áfrýjandans Guðmundar við Garðar Jökulsson 31. ágúst 1995, en fasteignin hafði þá ekki verið afhent kaupendunum. Í þeim samningi var ekki kveðið á um endurgreiðslu þess, sem kaupendurnir höfðu innt af hendi.

Garðar Jökulsson og Helga Nielsen gerðu yfirlýsingu 19. janúar 1997, þar sem þau kváðust staðfesta að greiðslur, sem þau inntu af hendi vegna kaupanna á Dalsbyggð 15, hefðu verið fengnar að láni frá Svövu Ólafsdóttur og væru með réttu hennar eign. Sagði þar síðan eftirfarandi: „Framseljum við henni því rétt okkar til þess að innheimta og taka við endurgreiðslu úr hendi Guðmundar Benediktssonar, sem væntanleg er vegna riftunar á kaupsamningi um Dalsbyggð 15.” Af gögnum málsins verður ráðið að fyrir gerð þessarar yfirlýsingar hafi árangurslaust verið leitað samkomulags um uppgjör milli áfrýjenda og kaupendanna, meðal annars með skriflegum tilboðum, sem gengu á milli þeirra á árunum 1995 og 1996.

Svava Ólafsdóttir lést 20. júní 1998 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta 12. mars 1999. Höfðaði dánarbúið mál þetta á hendur áfrýjendum til endurheimtu á áðurnefndum greiðslum samkvæmt kaupsamningnum um Dalsbyggð 15, alls að fjárhæð 3.200.000 krónur. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi viðurkenndi stefndi að áfrýjendur hefðu endurgreitt samtals 100.000 krónur af kaupverðinu og lækkaði kröfu sína sem því nam. Með þeirri breytingu var dómkrafa stefnda tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.

II.

Aðalkrafa áfrýjenda fyrir Hæstarétti um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að meðferð málsins í héraði hafi verið háð annmörkum að því leyti að í fyrsta lagi hafi dómarinn ekki leitað sátta milli aðilanna, í öðru lagi hafi gagnaöflun aldrei verið lýst lokið, í þriðja lagi hafi lögmaður, sem gætti hagsmuna kaupenda fasteignarinnar að Dalsbyggð 15 og síðar Svövu Ólafsdóttur gagnvart áfrýjendum, gefið skýrslu sem vitni fyrir héraðsdómi og í fjórða lagi hafi dómarinn ekki boðað aðilana til uppkvaðningar dóms, heldur póstlagt dómsendurrit þegar meira en fjórar vikur voru liðnar frá dómtöku málsins.

Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur það ekki valdið ómerkingu héraðsdóms að sátta hafi ekki verið leitað undir rekstri máls í héraði. Þá leiðir af upphafsorðum 1. mgr. 103. gr. sömu laga að ekki geti komið til ómerkingar héraðsdóms þótt látið sé hjá líða að kalla eftir formlegri yfirlýsingu aðila um lok skriflegrar gagnaöflunar áður en til aðalmeðferðar máls kemur. Lögmaður sá, sem gaf skýrslu fyrir héraðsdómi, er hvorki aðili að málinu né fyrirsvarsmaður aðila samkvæmt 17. gr. laga nr. 91/1991. Hann var ekki dómkvaddur sem matsmaður. Af því leiðir að skýrslu gat hann ekki gefið fyrir dómi nema sem vitni. Samkvæmt gögnum málsins var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 11. maí 2000, þegar réttar fjórar vikur voru liðnar frá dómtöku málsins í héraði. Er með engu móti rökstutt að færsla um þetta í dómabók sé röng, en ekki getur það valdið ómerkingu dómsins að ekki hafi verið gætt að því að kveðja aðilana til þinghalds, þar sem hann var upp kveðinn. Að þessu gættu er aðalkrafa áfrýjenda með öllu haldlaus og verður samkvæmt því hafnað.

III.

Fallist verður á með héraðsdómara að með ótvíræðum ummælum í yfirlýsingu 19. janúar 1997, sem áður greinir, hafi Svövu Ólafsdóttur verið framseld krafa kaupendanna að fasteigninni að Dalsbyggð 15 á hendur áfrýjendum um endurgreiðslu þess, sem greitt var af kaupverði. Áfrýjendur halda því fram að bú Garðars Jökulssonar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eftir kaupin og fyrir gerð þessarar yfirlýsingar, en ekki hafi verið upplýst um kröfu hans á hendur áfrýjendum meðan á skiptum stóð. Um þetta hafa þau ekki lagt fram gögn. Án tillits til þess geta áfrýjendur ekki réttilega borið þessi atvik fyrir sig til að færast undan greiðslu, enda hefur umræddu framsali frá 19. janúar 1997 ekki verið rift eftir ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um málsástæðu áfrýjenda, sem lýtur að því að krafa stefnda sé fyrnd.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á varakröfu áfrýjenda um sýknu af kröfu stefnda.

IV.

Krafa áfrýjenda um lækkun á kröfu stefnda í 779.190 krónur er reist á því að til frádráttar endurgreiðslu eigi að koma sölulaun, sem áfrýjendur hafi greitt fasteignasölu vegna milligöngu um kaup Garðars Jökulssonar og Helgu Nielsen á Dalsbyggð 15, og mismunur á umsömdu verði í þeim kaupum annars vegar og þegar áfrýjendur hins vegar seldu öðrum eignina 19. mars 1996. Krafa áfrýjenda um lækkun á kröfu stefnda í 2.100.000 krónur er rökstudd með því að Garðar hafi í júní 1996 fallist á að lækka endurgreiðslu í þá fjárhæð.

Um þessar kröfur er til þess að líta að í greinargerð áfrýjenda fyrir héraðsdómi sagði meðal annars eftirfarandi: „Stefndu áskilja sér rétt til þess að gera síðar í máli þessu grein fyrir þeim fjárútlátum sem þau urðu fyrir vegna vanefnda kaupenda og vildu að kæmu til frádráttar endurgreiðslunni, til að mynda sölulaunin til fasteignasölunnar fyrir sölu á húsinu, fjárútlát vegna leiguíbúðar sem stefndu voru flutt inn í og sölu á raðhúsi með tapi við Furuhlíð 15, Hafnarfirði, sem var í smíðum til íbúðar fyrir stefndu, en selt var vegna samningsrofanna um húsið við Dalsbyggð.” Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom aldrei til þess að frekari grein væri gerð fyrir þessum atriðum í héraði. Kröfurnar, sem áfrýjendur gera nú og að framan greinir, eru aðeins að óverulegu leyti þess efnis, sem tilvitnaður áskilnaður þeirra laut að, en fyrir þeim hluta krafnanna eru engin gögn. Málsástæður að baki þessum kröfum eru að öðru leyti of seint fram komnar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, eins og þeim var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994. Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á kröfur áfrýjenda um lækkun á kröfu stefnda.

Samkvæmt öllu því, sem að framan greinir, verður héraðsdómur staðfestur. Áfrýjendur verða dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Guðmundur Benediktsson og Jenný Ásmundsdóttir, greiði stefnda, dánarbúi Svövu Ólafsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. maí 2000.

Mál þetta sem dómtekið var þann 13. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi hefur db. Svövu Ólafsdóttur kt. 140212-2109, Lágmúla 7, Reykjavík, höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með stefnu útgefinni þann 13. janúar 2000 og birtri 18. s.m. á hendur Guðmundi Benediktssyni, kt. 090253-2989 og Jennýju Ásmundsdóttur, kt. 070254, báðum til heimilis að Bæjargili 16, Garðabæ.

 

Stefnandi krefst þess í stefnu aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu á 3.200.000 króna auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga af allri fjárhæðinni frá 22. janúar 1996 að telja ásamt höfuðstólsfærslu dráttarvaxta, skv. 12. gr. laganna á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 22. janúar 1997.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd til sömu greiðslna pro rata.

Í báðum tilfellum er krafist málskostnaðar úr hendi beggja stefndu að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi auk álags er nemi lögmæltum virðisaukaskatti.

Halldór H. Backman hdl. rekur mál þetta fyrir hönd stefnanda sem skiptastjóri búsins. Undir rekstri málsins lét lögmaður stefnanda bóka að hann viðurkenndi að innt hefði verið af hendi greiðsla að fjárhæð tvisvar sinnum 50.000 krónur eins og lögmaður stefndu heldur fram í greinargerð sinni. Lækkar stefnandi höfuðstól dómkröfu sinnar því um 100.000 krónur eða niður í 3.100.000 krónur.

Dómkröfur stefndu eru, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnanda verði gert að greiða þeim hæfilegan málskostnað að mati réttarins.

I.

Við aðalmeðferð málsins voru leidd tvö vitni, Garðar Jökulsson, sem er sonur Svövu heitinnar Ólafsdóttur, og Hjalti Steinþórsson hrl.

Málavöxtum er lýst á þann veg, að Garðar Jökulsson og Helga Nielsen, eigninkona hans, festu þann 1. desember 1994 kaup á fasteign stefndu nr 15. við Dalsbyggð í Garðabæ. Við kaupsamningsgerð lá fyrir samkomulag, milli Svövu heitinnar og Garðars og Helgu, þess efnis að fjármunum sem sem fengjust við sölu íbúðar  Svövu við Eskihlíð í Reykjavík skyldi varið til kaupa á húsinu við Dalsbyggð gegn því að Svava fengi afnot af hluta þess húss til dvalar án endurgjalds. Var litið svo á að þetta væri lán frá Svövu til kaupenda hússins við Dalsbyggð með þessum skilmálum. Í samræmi við efni kaupsamnings greiddu Garðar og Helga tvær fyrstu greiðslurnar þ.e. 1.200.000, 29. nóvember 1994 við frágang kaupsamnings, með framsali og afhendingu tékka frá einum kaupanda íbúðar Svölu heitinnar í Eskihlíð, og síðan þann 1. febrúar 1995 2.000.000 króna. Ágreiningslaust er að greiðslur þessar voru inntar af hendi eins og nú hefur verið lýst.

Þegar kom að afhendingu hússins, sem átti að vera í síðasta lagi 20. mars 1995, var ljóst orðið vegna atvika er vörðuðu kaupendur að kaupin næðu ekki fram að ganga og að þau gætu ekki greitt síðustu kaupsamningsgreiðsluna. Af þessum ástæðum varð aldrei af afhendingu eignarinnar. Að frumkvæði stefndu í máli þessu var þann 31. ágúst 1995 gengið frá sérstökum samningi milli stefnda Guðmundar annars vegar og Garðars hins vegar um að kaupsamningurinn væri fallinn úr gildi og Guðmundi heimiluð full afnot hússins. Segir í þessum samningi að aðiljar samningsins vinni nú að lausn þessa máls á eins skömmum tíma og unnt er. Segir í greinargerð stefndu að kaupendur hafi viljað fá greiðslurnar tvær 3.200.000 króna greiddar til baka óskertar en stefndu hafi á hinn bóginn viljað fá bætur fyrir það tjón sem þau hafi orðið fyrir vegna blekkinga og vanefnda kaupenda. Greiddu stefndu kaupendum samtals 100.000 krónur til baka einhvern tíma á árinu 1995 með tveimur 50.000 króna greiðslum, en höfnuðu frekari greiðslum nema sátt fengist um ,,eðlilega” endurgreiðslufjárhæð. Fram kemur í málavaxtalýsingum beggja aðilja að báðir hafi lagt sig fram um að ná lendingu í samningaviðræðum um endurgreiðslu en án árangurs. Síðan segir í greinargerð stefnanda  að í ljósi þess að kaupin á Dalsbyggð 15 hafi ekki náð fram að ganga hefðu forsendur samkomulagsins sem gert var milli Svövu heitinnar annars vegar og Garðars og Helgu hins vegar verið brostnar. Þann 19. janúar 1997 var því gengið frá yfirlýsingu þeirra í milli þess efnis að Svövu heitinni var framseld krafa Garðars og Helgu um endurgreiðslu kaupverðsins frá stefndu. Var Hjalta Steinþórssyni hrl. veitt umboð Svövu heitinnar til þess að innheimta þessa fjármuni hjá stefndu en tilraunir hans til þess hafi engan árangur borið.

Svava Ólafsdóttir lést 20. júní 1998 og var bú hennar tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. mars 1999 og Halldór Backman hdl. skipaður skiptastjóri. Í byrjun september 1999 veitti skiptastjóri viðtöku gögnum málsins frá Hjalta Steinþórssyni. Hófust þá innheimtuaðgerðir af hendi stefnanda sem reyndust árangurslausar. Af hálfu stefndu hefur því verið borið við að stefnandi sé ekki réttur aðili máls.

Stefndu gerðu í greinargerð sinni áskilnað um rétt til þess að gera á síðari stigum málsins grein fyrir þeim fjárútlátum sem þau hefðu orðið fyrir vegna vanefnda kaupenda á kaupsamningnum og koma ættu til frádráttar á endurgreiðslunni. Voru í því sambandi nefnd sölulaun til fasteignasölu vegna sölunnar, fjárútlát vegna leiguíbúðar sem stefndu fluttu í og sölu á raðhúsi sem var í smíðum til íbúðar fyrir stefndu og selt var með tapi vegna samningsrofanna varðandi kaupin á Dalsbyggð 15. Undir rekstri málsins hefur engin grein verið gerð fyrir þessum atriðum og engin gögn lögð fram þeim til stuðnings.

II.

Vitnið Hjalti Steinþórsson hrl. hefur sagt fyrir dóminum að hann hafi tekið að sér lögmannsstörf fyrir kaupendur hússins við Dalsbyggð eftir að kaupum hafði verið rift með samkomulagi og hefði Garðar Jökulsson beðið hann um aðstoð við uppgjör á grundvelli þess. Móðir Garðars hefði átt íbúð og hafi meiningin verið að hún yrði meðeigandi með einhverjum hætti og hefðu fyrstu fjámunirnir til kaupanna komið af andvirði íbúðar sem móðir Garðars, Svava, seldi. Kvaðst vitnið Hjalti um tíma hafa talið að samkomulag hefði náðst á grundvelli tillögu sem fram er sett í dómskjali nr. 22. Þó hefði stefndi Guðmundur sagt áður en tilboðið var samþykkt að hann teldi sig ekki bundinn af því vegna þess að því hefði ekki verið svarað nógu snemma. Hefur vitnið skýrt þann mun sem er á stefnufjárhæðinni og tilboðinu, þ.e. annars vegar 3.100.000 króna og hins vegar 2.100.000 króna, með þeim orðum að menn hafi á þeim tíma verið reiðubúnir til þess að taka til greina útgjöld og kostnað stefndu, þ.á m. sölulaun til fasteignasölu og annan kostnað sem um mætti deila, til þess að geta lokið málinu sem fyrst. Þetta hefðu verið sáttaumræður og hefðu umbjóðendur hans gefið mikið eftir og hefði tilboðið runnið út á báða bóga þegar ekki náðist saman. Aðspurt um innborgun með ávísunum kannaðist vitnið við að því hafi borist í pósti tvær ávísanir frá stefnda Guðmundi sú fyrri nálægt miðju ári 1996 og önnur nokkru síðar. Ekki treystir vitnið sér til þess að fullyrða hvort þessar ávísanir hafi verið stílaðar á vitnið eða Garðar Jökulsson en alla vega hafi þær borist frá vitninu beint til Garðars og þá með framsali frá vitninu hafi þær verið stílaðar á vitnið. Kvaðst vitnið hafa farið að starfa fyrir Garðar í mars 1996 eftir að skiptum lauk á búi hans þann 26. febrúar 1996. Hafði Garðar þá fengið forræði á búi sínu. Kvaðst vitnið hafa haft samband við skiptastjóra búsins Þorstein Pétursson hdl. sem hafi ekki séð ástæðu til þess að draga hina umdeildu fjármuni inn í búið með endurupptöku skiptanna. Kvaðst vitnið hafa beðið stefnda Guðmund að hafa samband við Þorstein til þess að fá þetta staðfest en hann viti ekki hvort Guðmundur hafi gert það. Kveðst vitnið vita að Guðmundur greiddi hina umdeildu fjármuni ekki til þrotabús Garðars enda voru þeir ekki taldir til eigna í búinu. Sagði vitnið fyrir dóminum að um mitt ár 1996 hafi enginn sem að málinu kom efast um að stefndu bæri að endurgreiða þessar 3.200.000 króna að frádregnum kostnaði stefndu vegna samningsrofanna. Mótbára Guðmundar í tengslum við gjaldþrotaskipti á búi Garðars hafi komið fram síðar. Sagði vitnið að þegar ljóst hafi verið að ekki yrði af samkomulagi um endurgreiðslu á þessum fjármunum sem í raun voru eign Svövu heitinnar hafi verið tekin af öll tvímæli um hver ætti peningana og réttinn til þess að fá endurgreiðsluna. Var þetta gert með yfirlýsingu sem dagsett er 19. janúar 1997 þar sem sú staðreynd er staðfest með formlegu framsali kröfunnar til Svövu heitinnar sbr. dómskj. nr. 11. Kvaðst vitnið aldrei á þessum tíma hafa orðið vart við annað en að stefndi Guðmundur hafi haft fullan vilja til þess að endurgreiða fjármunina að frádregnum þeim skaða sem hann hefði orðið fyrir.

III.

Stefnandi byggir á því að skilyrðislaus greiðsluskylda hvíli á stefndu in solidum. Kaupsamningurinn hafi verið um húseign sem var í óskiptri sameign þeirra beggja. Þau hafi veitt greiðslunum viðtöku óskipt í tengslum við fasteignaviðskipti sem síðan gengu til baka og þrátt fyrir innheimtutilraunir, bæði af hálfu viðsemjenda sinna og síðar Svövu heitinnar Ólafsdóttur og loks dánarbús hennar, hafi þau ekki endurgreitt nema 100.000 krónur sem dómkrafan hefur verið lækkuð um. Hafi stefndu ekki með neinum rétti getað gengið þess dulin að þeim væri skylt að endurgreiða og að þeim væri ekki stætt á því að að hagnast þannig á kostnað þess sem greiddi um þá fjárhæð sem þau veittu viðtöku.

Aðild að kröfunni sé rétt enda hafi Svava heitin Ólafsdóttir fengið kröfuna framselda þann 19. janúar 1997 og frá þeim tíma hafi hún og síðan dánarbú hennar haft með innheimtuaðgerðir að gera, án þess að stefndu hafi gert við það athugasemdir fyrr en með bréfi þann 22. nóvember 1999. Stefndu hafi frá upphafi vitað hverjar voru fyrirætlanir kaupendanna þeirra Garðars Jökulssonar og Helgu Nielsen og hvaðan þeim voru komnir þeir fjármunir sem þau greiddu inn á kaupin. Málið snúist um kröfu sem sé framseljanleg án takmarkana í samræmi við meginreglur fjámunaréttarins og þess sjáist hvergi merki að heimild til framsals hafi verið takmörkuð við samningsgerð eða viðtöku fjármunanna af hálfu stefndu. Stefndu hljóti samkvæmt venju að bera sönnunarbyrðina fyrir tjóni sínu af völdum samningsrofanna. Í samningi þeim sem áður er getið, og gerður var þann 31. ágúst 1995, hafi stefndu samþykkt samningsrofin án nokkurs áskilnaðar eða kröfu um bætur.

Stefnandi byggir lagarök sín á meginreglum samninga-, kröfu og fasteignakauparéttar auk ákvæða laga nr. 39/1922 og laga nr. 7/1936. Þá er byggt á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, þ.á m. hvað varðar málskostnaðarkröfu. Krafa hans um virðisaukaskatt á málskostnað er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988 en þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu.

IV.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi ekki með réttu þá hagsmuni sem hann krefst dóms um. Skorti stefnanda því aðild sem leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Réttir sóknaraðilar í máli þessu séu Garðar Jökulsson, eða þrotabú hans og Helga Nielsen. Telja stefndu að yfirlýsing á dómskj. nr. 11 um framsal frá þeim hjónum Garðari og Helgu hafi ekkert gildi gagnvart stefndu, þar sem ekki sé hægt samkvæmt meginreglum kröfuréttarins að framselja væntanlegar endurgreiðslur með þeim réttaráhrifum að aðilaskipti verði að kröfunni. Hér sé ekki um að ræða afmarkaða sannanlega kröfu, heldur ólokið uppgjörsmál, bæði margþætt og flókið. Því feli áðurnefnd yfirlýsing að mati stefndu ekki í sér aðilaskipti að kröfuréttindum heldur beri einungis að túlka hana sem loforð Garðars og Helgu um að Svava heitin fái endurgreiðsluna frá þeim þegar þau hafi fengið hana í hendur. Af þessu leiði að umboð á dómskj. nr. 12 til Hjalta Steinþórssonar hrl. sé einnig marklaust gagnvart stefndu. Segir í greinargerð stefndu, að þegar um sé að ræða ólokið uppgjörsmál, og óljóst um fjárhæð endurgreiðslukröfunnar, geti það varðað skuldara miklu hver kröfuhafinn er og því séu aðilaskipti sem þessi óheimil samkvæmt meginreglum um aðilaskipti að kröfuréttindum. Þá telur stefndi að í dómskjali nr. 11, felist ekki málsóknar- eða innheimtuumboð og af þeim sökum geti það skjal ekki veitt stefnanda rétt til þess að höfða og flytja þetta mál á hendur stefndu.

Fallist dómurinn ekki á ofangreindar röksemdir krefjast stefndu sýknu vegna fyrningar, þar sem krafa um endurgjald eða von um endurgjald er brugðist hefur fyrninst á fjórum árum samkvæmt 5. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 sbr. leiðréttingu í þinghaldi þann 24. mars 2000 en ekki 3. tl. greinarinnar eins og segir í greinargerð stefndu. Tæp fimm ár hafi liðið frá því að endurgjaldskrafan varð gjaldkræf þar til stefna í máli þessu var birt stefndu. Hafi báðum samningsaðiljum verið orðið ljóst í marsmánuði 1995 að kaupin næðu ekki fram að ganga og þá hafi endurgjaldskrafan orðið gjaldkræf og álíti stefndu að þá hafi fyrningarfrestur byrjað að líða. Hafi stefna ekki verið gefin út fyrr en tæpu ári eftir að endurgjaldskrafan var fyrnd. Stefndu hafi fyrst verið kunnugt um framsal kaupendanna til Svövu heitinnar, sem dagsett er 19. janúar 1997 og að Hjalti Steinþórsson hrl. hefði verið lögmaður hennar, er þeim barst bréf skiptastjóra stefnanda dagsett 15. nóvember 1999.

V.

Annars vegar byggja stefndu sýknukröfu í málinu á aðildarskorti stefnanda og hins vegar á fyrningu dómkröfunnar.

Stefndu hafa haldið því fram að stefnandi sé ekki réttur aðili máls. Óheimilt hafi verið að hafa aðilaskipti að kröfunni sem mál þetta snýst um hafi framsalsyfirlýsing sem er á dómskjali nr. 19 ekkert gildi gagnvart stefndu. Rökstyðja stefndu þessa málsástæðu með tilvitnun til meginreglna um aðilaskipti að kröfuréttindum. Samkvæmt þeim reglum telja stefndu að óheimilt sé að framselja kröfuréttindi þegar fjárhæð kröfu er ekki ljós og af þeim sökum megi ekki skipta um kröfuhafa vegna hagsmuna skuldarans enda varði það hann miklu hver kröfuhafinn er.

Í íslenskum rétti hefur verið talið að sú regla gilti um framsal kröfu að hún væri almennt heimil. Byggir reglan bæði á fastri réttarvenju og þeirri grundvallarreglu að í íslenskum rétti ríki venjuhelguð regla um samningsfrelsi. Af þessum sökum getur það ekki verið hugtaksatriði þegar meta skal gildi framsals hvert viðhorf skuldara kann að vera til framsalsins. Almennt verður engin breyting á réttarstöðu. Telur dómurinn að í máli því sem hér er til meðferðar hafi endurgreiðslukrafan sem dómkrafan á rót sína að rekja til verið framseld í fullu samræmi við gildandi rétt. Þó svo að í framsalsyfirlýsingunni sé fjárhæð endurgreiðslukröfunnar ekki nefnd fer ekki á milli mála að um sömu kröfu er að tefla og mál þetta snýst um, enda hafa stefndu ekki mótmælt gildi framsalsins af þeim sökum.

Er í samræmi við það sem nú hefur verið rakið ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu á grundvelli aðildarskorts stefnanda.

 

Stefnandi höfðaði má þetta til endurheimtu á greiðslum sem inntar voru af hendi í samræmi við efni samings um kaup á fasteign sem samkomulag náðist um þann 31. ágúst 1995 að gengju til baka.

Að mati dómsins fer um lengd fyrningarfrests eftir ákvæðum 2. tl. 4. gr.laga um fyrningu skulda og annara kröfuréttinda nr 14/1905. Krafa sú sem hér um ræðir gat í fyrsta lagi stofnast þann 31. ágúst 1995 og er því tíu ára fyrningarfrestur sem mælt er fyrir í 4. gr. laga nr. 14/1905 ekki liðinn þegar stefndu er birt stefna þann 18. janúar 2000.

Stefndu hafa ekki með öðrum hætti mótmælt greiðsluskyldu sinni eða því að þau hafi móttekið kaupsamningsgreiðslurnar tvær að fjárhæð 3.200.000 króna. Stefnandi hefur lækkað dómkröfu sína um 100.000 krónur sem stefndu höfðu greitt framseljendum kröfunnar fyrir framsal hennar eins og rakið er í málavaxtalýsingu.

Í samræmi við það sem nú hefur verið rakið er fallist á dómkröfu stefnanda.

Stefndu hafa mótmælt vaxtakröfu stefnanda.

Upphafsdagur dráttarvaxta í kröfugerð stefnanda er 22. janúar 1996 og gert ráð fyrir því að sá dagur á þessu ári sé síðasti löglegi birtingardagur stefnu og að í síðasta lagi frá þeim degi teljist mál þetta höfðað. Séu því hugsanlegir dráttarvextir frá 31. ágúst 1995 til 22. janúar 1996 fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, og ekki gerð krafa um þá.

Hafa stefndu ekki sýnt fram á að vaxtakrafa stefnanda standist ekki lög og er því fallist á hana eins og hún er fram sett bæði hvað varðar upphafstíma dráttarvaxta og árlega höfuðstólsfærslu þeirra í fyrsta sinn þann 22. janúar 1997.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu var kaupsamningurinn um Dalsbyggð 15 gerður við stefndu bæði um húseign sem þau áttu þá í óskiptri sameign og bera þau því óskipta ábyrgð á endurgreiðslunni.

Samkvæmt þessu verða málsúrslit þau að stefndu verða, í samræmi við aðalkröfu stefnanda, dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda 3.100.000 krónur  með dráttarvöxtum frá 22. janúar 1996 að telja til greiðsludags. Heimilt er stefnanda að höfuðstólsfæra dráttarvexti skv. 12. gr. vaxtalaga á 12. mánaða fresti í fyrsta sinn 22. janúar 1997.

Eftir þessum málalokum ber að dæma stefndu in solidum til þess að greiða stefnanda málskostnað. Stefnandi hefur lagt fram málskostnaðarreikning að fjárhæð 391.715 krónur sem þykir hæfilegur og því tekinn til greina. Ber stefndu því að greiða stefnanda 391.715 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Guðmundur Benediktsson og Jenný Ásmundsdóttir, greiði stefnanda dánarbúi Svövu Ólafsdóttur, 3.100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 22. janúar 1996 til greiðsludags og 391.715 krónur í málskostnað.