Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2007


Lykilorð

  • Hjón
  • Kröfugerð
  • Skilnaðarsamningur
  • Ógilding samnings
  • Dráttarvextir


         

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008.

Nr. 223/2007.

M

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

K

(Gylfi Thorlacíus hrl.)

og gagnsök

 

Hjón. Kröfugerð. Skilnaðarsamningur. Ógilding samnings. Dráttarvextir.

K og M gerðu með sér samning um fjárskipti vegna skilnaðar þeirra árið 2003 þar sem fasteign og fleiri eignir runnu til M en K fékk í sinn hlut innbú og bifreið. Þá tók M yfir allar áhvílandi skuldir. K krafðist ógildingar samningsins og greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar sem hún taldi nema ávinningi M af samningnum. Reisti hún kröfuna öðrum þræði á því að M hefði beitt hana svikum, sbr. 30. gr. laga nr. 7/1936. Ekki var fallist á að K hefði leitt haldbær rök að því og var þessari málsástæðu því hafnað. K taldi einnig að skilyrði 31. gr. laga nr. 7/1936 væru fyrir hendi þannig að ógilda bæri samninginn. Vísaði hún til þess að veikindi hennar hefðu skert dómgreind hennar og M nýtt sér það þannig að hann fengi meira við skiptin en hún. Í dómi Hæstaréttar var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að við mat á verðmæti eigna bæri að miða við það tímamark þegar samningurinn var gerður. Hins vegar var talið að það hefði staðið K nær að afla sönnunar um verðmæti innbúsins og varð því að miða við fullyrðingar og mótmæli M í því efni. Þá voru aðilar sammála um að K hefði ekki yfirtekið lán vegna tilgreindrar bifreiðar eins og byggt hafði verið á í héraði. Með hliðsjón af þessu varð ekki ráðið af gögnum málsins að bersýnilegur munur hefði verið á því sem kom í hlut hvors um sig við skiptin eins og tilskilið væri í 31. gr. laga nr. 7/1936. Í því ljósi þurfti ekki að taka afstöðu til þess hvort önnur skilyrði greinarinnar væru fyrir hendi. Dráttarvaxtakröfu K var vísað frá dómi þar sem í henni hafði ekki verið tilgreindur ákveðinn vaxtafótur eða vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Að öðru leyti var M sýknaður af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2007. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 30. apríl 2007. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms á ógildingu samnings 26. ágúst 2003 um fjárskipti vegna skilnaðar aðila. Þá krefst hún að aðaláfrýjandi greiði sér aðallega 13.235.328 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum frá 1. júlí 2005 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

I

Kröfugerð gagnáfrýjanda er hagað með þeim hætti að krafist er dráttarvaxta án þess að afmarka kröfuna nánar, en í kafla um lagarök í stefnu í héraði var um vexti vísað til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sú grein kveður einungis á um upphafstíma dráttarvaxta þegar ekki hefur verið samið um gjalddaga kröfu. Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur þar á meðal um vexti. Sambærilegt ákvæði eldri laga var skýrt svo að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema vaxtafótur sé tilgreindur í stefnu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 216/1982, sem birtur var í dómasafni 1983 bls. 2200. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 er að finna heimild sem víkur frá þessum kröfum en þar kemur meðal annars fram að sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna megi dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Þar sem dráttarvaxtakrafa gagnáfrýjanda er hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 verður ekki hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi án kröfu.

II

Gagnáfrýjandi byggir kröfur sínar öðrum þræði á því að aðaláfrýjandi hafi beitt hana svikum við gerð samningsins þar sem hún hafi undirritað hann í þeirri trú að einungis væri um málamyndagerning að ræða, enda hafi málsaðilar áfram búið saman eftir að leyfi hafi verið veitt til skilnaðar að borði og sæng. Vísar hún um þetta til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá reisir hún kröfur sínar á því að ógilda beri samning málsaðila um fjárskipti samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1936.

Gagnáfrýjandi hefur ekki leitt haldbær rök að því að aðaláfrýjandi hafi beitt svikum við gerð hins umþrætta samnings og verður kröfu hennar um ógildingu samningsins á þeim grunni því hafnað.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að samkvæmt 31. gr. laga nr. 7/1936 bæri að ógilda samninginn og var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 3.149.454 krónur með tilgreindum dráttarvöxtum. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var að beiðni gagnáfrýjanda dómkvaddur maður til að meta hvert væri líklegt söluverð parhússins Y, annars vegar miðað við 26. ágúst 2003, er samningurinn var gerður, en hins vegar 14. janúar 2005, en þann dag afsalaði gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda eigninni. Niðurstaða matsmanns var að miðað við fyrra tímamarkið hafi markaðsverð eignarinnar verið 20.400.000 krónur, en við hið síðara 27.850.000 krónur. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom hins vegar fram af hálfu gagnáfrýjanda að hún vildi aðallega miða fjárkröfu sína vegna fasteignarinnar við verðmæti hennar 22. september 2005, er aðaláfrýjandi seldi fasteignina, en að því frágengnu við verðmætið 14. júlí 2003 er málsaðilar báðu um leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Taldi hún verðmæti fasteignarinnar þá hafa verið 20.000.000 krónur.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að miða beri við það tímamark er fjárskiptasamningur var gerður og með framangreindri athugasemd er fallist á niðurstöðu hans um verðmæti fasteignarinnar á þeim tíma, 20.000.000 krónur.

Niðurstaða héraðsdóms var meðal annars á því reist að gagnáfrýjandi hefði yfirtekið lán að fjárhæð 1.010.794 krónur vegna tilgreindrar bifreiðar. Hins vegar verður ekki við það miðað þar sem fram kom fyrir Hæstarétti hjá málsaðilum að svo hefði ekki verið. Samkvæmt fjárslitasamningi aðila skyldi aðaláfrýjandi yfirtaka þær skuldir sem þá hvíldu á aðilum og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en það hafi hann gert. Að öðru leyti en að framan greinir er staðfest niðurstaða héraðsdóms um hverjar skuldir hafi þá sannanlega verið til staðar.

Þá féllst héraðsdómur á að verðmæti innbús, sem kom í hlut gagnáfrýjanda, hafi numið 200.000 krónum, en aðaláfrýjandi telur að verðmæti þess hafi ekki numið lægri fjárhæð en 2.000.000 króna. Gagnáfrýjandi fékk innbúið í sinn hlut. Verður því að telja það hafi staðið henni nær að afla sönnunar um verðmæti þess, en hún hefur hvorki tilgreint hvert innbúið var né látið meta verðmæti þess. Því verður að miða við fullyrðingar og mótmæli aðaláfrýjanda í þessu efni.

Þegar litið er til framanritaðs verður ekki ráðið af gögnum málsins að bersýnilegur mismunur hafi verið á verðmæti þeirra eigna, að teknu tilliti til skulda, sem komið hafi í hlut hvors málsaðila um sig, svo sem tilskilið er í 31. gr. laga nr. 7/1936. Þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort önnur skilyrði, sem nefnd eru í greininni, séu fyrir hendi. Málatilbúnaði gagnáfrýjanda, sem reistur er á tilvísun til þessa ákvæðis, verður því einnig hafnað. Af þessu leiðir að aðaláfrýjandi verður sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda í málinu.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu gagnáfrýjanda, K, um dráttarvexti er vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi, M, er sýkn af öðrum kröfum gagnáfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2007.

Mál þetta var höfðað 9. mars 2006 og dómtekið 22. þ.m.

Stefnandi er K, [heimilisfang]. 

Stefndi er M, [heimilisfang].

Stefnandi krefst þess að samningur aðila um fjárskipti vegna skilnaðar frá 26. ágúst 2003 verði felldur úr gildi og að stefnda verði gert að greiða henni aðallega 13.235.328 krónur, en til vara aðra lægri upphæð að mati dómsins og til þrautavara 3.416.745 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum frá 1. júlí 2005 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en hún fékk gjafsóknarleyfi 31. janúar 2006.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.

 

Aðilar kynntust vorið 1985 og gengu í hjónaband 31. ágúst sama ár.  Fyrir átti stefnandi dóttur, fædda 1983, sem var ættleidd af stefnda, og saman eignuðust þau tvö börn,  dótturina A 1986 og soninn B 1987.

Stefnandi er 75% öryrki vegna MS sjúkdómsins en stefndi er lærður vélvirki.  Í stefnu segir að stefnandi hafi endanlega verið greind með MS sjúkdóminn árið 1996 en hann hafi sett alvarlegt mark á allt líf hennar undanfarin 20 ár.

Eftir að hafa átt heimili í mörgum leiguíbúðum, þ. á m. í Svíþjóð, settist fjöl­skyldan að á X árið 1996 þar sem hjónin eignuðust hluta í húsi.  Árið 2002 var það hús selt og andvirðið notað til að festa kaup á parhúsi í Y í Reykjavík sem var þinglýst eign beggja.

Í stefnu segir að stefndi hafi farið að tala um skilnað þeirra hjóna um það leyti sem þau fluttust að X.  Það hafi haft mjög neikvæð áhrif á heilsufar stefnanda sem þoli illa álag.  Stefnandi gerði síðan reka að skilnaði með því að fara og ræða við prest sumarið 2003. 

Hinn 14. júlí 2003 mættu aðilar hjá sýslumanninum í Reykjavík og æsktu skilnaðar að borði og sæng.  Fram kom að samkomulag var um skilnaðarskilmála að öðru leyti en því að fjárskiptasamningur lá ekki fyrir og var málinu frestað til fram­lagningar hans til 26. ágúst s.á.  Þann dag mættu aðilar og lögðu fram handskrifaðan samning um fjárskipti, dags. 26. ágúst 2003.  Í samningnum er kveðið á um að fast­eignin Y og bifreiðarnar Daihatsu Cuore Z og Daewoo Lanos Þ skyldu vera eign stefnda en í hlut stefnanda skyldu koma bifreiðin Toyota Land Cruiser Þ og innbú.  Stefndi skyldi taka að sér skuldir og sjá um rekstur íbúðar.  Hvorki er tilgreint verðmæti eigna né upphæð skulda.  Í bókun sýslumanns kemur fram að stefnanda hafi verið bent á að fjárskipti aðila væru ekki samkvæmt helmingaskiptareglunni.  Leyfi til skilnaðar að borði og sæng var gefið út 1. september 2003.  Þar er kveðið á um að aðilar skyldu hafa sameiginlega forsjá barna þeirra og lögheimili drengsins vera hjá móður en lögheimili telpunnar hjá föður.  Hvort foreldri skyldi greiða meðlag með því barni sem það hafði ekki hjá sér.  Í framhaldi af þessu var lögheimili stefnda og dótturinnar flutt til foreldra hans að  [...] en stefnandi var áfram með lögheimili í Y.  Aðilar mættu hjá sýslu­manninum í Reykjavík 1. mars 2004 og óskuðu eftir leyfi til lögskilnaðar og var það gefið út hinn 5. s.m.

Stefndi lét Garðatorg eignamiðlun ganga frá afsali stefnanda til sín á helmings eignarhluta hennar í parhúsinu Y, Reykjavík.  Þau undirrituðu afsalið á fasteignasölunni 14. janúar 2005.

Í stefnu greinir frá því að stefndi hafi gert stefnanda ljóst að hún yrði að flytja og farið með henni í íbúðarleit sem hafi endað með því að gerður hafi verið búsetusamningur milli stefnanda og Húsnæðissamvinnufélagsins Búseta um íbúð að  Ö í Mosfellsbæ og hafi stefnandi flust þangað um miðjan febrúar 2005.  Stefndi hafi greitt u.þ.b. 1.588.075 króna búsetagjald og sagst ætla að borga á móti stefnanda helming mánaðarlegra greiðslna af íbúðinni sem hann hafi síðan gert í nokkur skipti.  Hinn 27. janúar 2005 hafi stefndi látið stefnanda afsala til sín Land Cruiser  jeppabifreið þeirri sem hún skyldi fá samkvæmt samningi aðila og látið hana í staðinn fá mun ódýrari bifreið af Daihatsu gerð sem hann hafi keypt á 635.000 krónur. 

Stefnandi leitaði til lögmanns sem ritaði stefnda bréf 31. maí 2005 og óskaði skýringa á skiptingu eigna og skulda samkvæmt framangreindum fjárskiptasamningi aðila og upplýsinga um forsendur sem legið hafi honum til grundvallar.  Lögmaðurinn ítrekaði beiðni sína með bréfi 8. júlí 2005.  Ekki sést að bréfum þessum hafi verið svarað.

Með kaupsamningi 22. september 2005 seldi stefndi parhúsið Y fyrir 36 milljónir króna.

 

Frammi liggja allmörg læknabréf Gunnars Valtýssonar og Guðmundar Ragnars­sonar, lækna við St. Jósefsspítala Hafnarfirði, til Þengils Oddssonar, læknis á  Heilsugæslustöð Mosfellsumdæmis, og Johns E. G. Benedikz, sérfræðings í tauga-sjúkdómum, hið elsta frá 8. janúar 2002 og hið yngsta frá 16. mars 2005.  Þar greinir frá MS sjúkdómi stefnanda sem greinst hafi 1996 og er lýst margháttuðum ein­kennum, s.s. dofa, klaufsku í höndum, jafnvægisleysi, úthaldsleysi og minnis­truflunum.  Þá er greint frá lyfjagjöfum og hásterameðferð.

Í læknisvottorði Þengils Oddssonar, dags. 22. september 2006, segir m.a. að stefnandi hafi verið með MS sjúkdóm í yfir 20 ár.  Þar sem skemmdir séu almennar í heila verði afleiðingarnar bæði líkamlegar og andlegar og hafi stefnandi mátt þola hvort tveggja.  Ljóst sé að hún hafi orðið fyrir heilaskaða þegar árið 2003; ekki bara sem minnisleysi og einbeitingarskortur heldur óraunveruleiki sem valdi því oft að sjúklingarnir geri sér ekki grein fyrir hve illa þeir séu staddir.  Í samantekt segir:  „Undir­ritaður telur augljóst að [K] var þegar árið 2003 með verulega skerðingu á andlegri getu svo og líkamlegri.“

Í læknisvottorði Johns E. G. Benedikz, dags. 16. október 2006, segir að stefnandi hafi verið með relapsing remitting Multiple Sclerosis síðan 1986.  Einkenni hafi fyrst komið í köstum sem varað hafi í 4-12 vikur, 1-3 sinnum á ári.  Fyrir um 10 árum hafi gangur sjúkdómsins breyst í það að fara stöðugt versnandi með vaxandi fötlun.   Lýst er ýmsum líkamlegum einkennum sjúkdómsins.  Síðan segir:  „Það, sem hefur verið talsvert vandamál síðustu 10 ár, er vaxandi minnistruflun, bæði nærminni og global minni, og syfja.  Þessu fylgja erfiðleikar við að einbeita sér að málefnum.  Þótt hún komi vel fyrir og sé með góða greind fyrir er greinilegt að hún er með skerta cognition (rökhugsun).  Einnig eru einkenni sveiflandi og oft dagamunur en eftir 20 ára sjúkdóm er hún með varanlega og versnandi líkamlega og andlega fötlun sem speglast í segulómunarrannsókn á heila.  Niðurstaða:  Það er greinilegt að [K] hefur ekki verið fær um að taka mikilvægar ákvarðanir eða skrifa undir samning án þess að hafa lögfræðilega aðstoð undanfarin 5-10 ár. . . “

Læknarnir Þengill Oddsson og John E. G. Benedikz staðfestu framangreind vottorð fyrir dóminum.

 

Stefnandi byggir kröfu sína um niðurfellingu á skilnaðarsamningi á því að um misneytingu hafi verið að ræða í fjárskiptum aðila vegna skilnaðar, sbr. 31. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986.  Stefnandi hafi um langt skeið þjáðst af alvarlegum og ólæknandi sjúkdómi sem hafi áhrif á andlega og líkamlega heilsu hennar og hafi skert verulega hæfni hennar til að ráðstafa hagsmunum og persónu­legum málum sínum, ekki síst fjármálum.  Hún hafi ekki notið lögfræðilegrar aðstoðar við gerð fjárskiptasamningsins sem hafi verið saminn af stefnda.  Samnings­gerðin hafi ekki verið við eðlilegar aðstæður.  Þar hafi hallað verulega á stefnanda og hafi stefndi notfært sér veikindi hennar og fákunnáttu, og það að hún var honum háð, til þess að afla sér hagsmuna á kostnað hennar.

Stefnandi byggir einnig á því að um svik hafi verið að ræða þar sem hún hafi, að svo miklu leyti sem hún geri sér grein fyrir, vonast til að aðeins væri um mála­mynda­gerning að ræða og hafi hún undirritað samninginn í þeirri góðu trú.

Varðandi efni samningsins sjálfs hafi engin tilraun verið gerð til að meta eignir og skuldir eins og lög standi til en ljóst sé að stórlega halli á stefnanda.  Í hlut stefnda hafi komið parhúsið að Y, tveir bílar og yfirtaka skulda búsins.  Í hlut stefnanda hafi komið innbú sem hafi verið sáralítils virði og jeppabifreið sem stefnandi hafi látið hana afsala sér nokkru síðar og hafi hún í staðinn fengið bifreið sem hafi verið keypt á 635.000 krónur.  Stefnandi krefst helmings af hreinni hjúskapareign eins og fyrir sé mælt í 103. gr. laga nr. 31/1993.  Eignir búsins hafi numið samtals 39.050.000 krónum, þ.e. fasteignin Y að söluverði 36.000.000 króna, tvær bifreiðar metnar á 2.850.000 krónur og innbú að verðmæti 200.000 krónur.  Skuldir hafi numið 10.909.344 krónum, þ.e. vegna íbúðarhúsnæðis 8.309.929 krónur, skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna 456.497 krónur, tvö bílalán 1.817.918 krónur og skuld við Íslandsbanka 325.000 krónur.  Hrein eign til skipta hafi því verið 28.140.656. krónur.  Til frádráttar helmingshlut stefnanda, 14.070.328 krónum, komi það sem hún hafi fengið í sinn hlut við skiptin, þ.e. framangreind bifreið (V) að verðmæti 635.000 krónur og innbú sem hún telji vera að verðmæti 200.000 krónur og er aðalkrafa stefnanda um greiðslu 13.235.328 króna þannig fundin.  Krafist er vaxta frá 1. júlí 2005, þ.e. einum mánuði eftir dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda.  Þrautavarakrafa stefnanda felur í sér eftirtaldar breytingar frá framangreindum forsendum aðalkröfu:  Fasteignin Y er metin á 15.875.000 krónur og þrjár bifreiðir samtals á 3.650.000 krónur og á hinn bóginn eru þrjú bílalán talin samtals að upphæð 1.987.040 krónur og skuld við Íslandsbanka 468.044 krónur.

 

Af hálfu stefnda er því mótmælt að hann hafi komið óheiðarlega fram við skilnað þeirra hjóna og er því vísað á bug að um misneytingu hafi verið að ræða.  Þeirri fullyrðingu að stefnandi hafi verið óhæf til að ráðstafa málefnum sínum og stefndi hafi notfært sér veikindi hennar við gerð skiptanna er mótmælt á þeim grundvelli að eignir við skilnaðinn hafi ekki verið meiri en svo að ljóst sé að stefndi hafi gert allt sem í valdi hans stóð til að gera stefnanda eins vel setta og fjárhagur leyfði.  Þau hafi reynt að gera sér grein fyrir eignastöðu sinni og eftir að ákvörðun um skilnað hafi verið tekin hafi það verið markmið þeirra að gera stefnanda kleift að komast í húsnæði sem hún hefði tök á að reka.  Það hafi verið ástæða þess að stefndi hafi lagt út í þann kostnað að greiða fyrir stefnanda hluta þann er greiddur hafi verið til Búseta 18. febrúar 1005 að fjárhæð 1.675.640 krónur.  Þegar stefndi hafi fengið bifreiðina Æ hjá stefnanda hafi hann tekið yfir lán þau er hvíldu á henni. Mismunur söluverðmætis bifreiðarinnar 27. janúar 2005 og áhvílandi láns hafi verið u.þ.b. 400.000 krónur.  Samtímis hafi stefndi látið stefnanda hafa án endurgjalds bifreiðina V sem hann hefði nýlega keypt fyrir 900.000 krónur.

Stefndi heldur fram að staða eigna og skulda aðila hafi verið eftirfarandi í ágúst 2003: 

Eignir.

Fasteignin Y                                                                                    15.875.000 kr.

Bifreiðin Æ                                                                                        1.800.000 kr.

Bifreiðin Þ                                                                                             450.000 kr.

Bifreiðin Z                                                                                            800.000 kr.

Innbú                                                                                                 2.000.000 kr.

Samtals                                                                                            20.925.000 kr.

Skuldir.

Lán áhvílandi á Y                                                                           10.188.539 kr.

Lán frá Handelsbanken (lágmark)                                                  2.500.000 kr.

Krafa vegna dóms Växsjö Thingsrätt                                              300.000 kr.

Áhvílandi skuld á Land Cruiser bifreið Æ                                    1.010.749 kr.

Yfirdráttur vegna flugnáms                                                               700.000 kr.

Yfirdráttur í Íslandsbanka                                                                  468.044 kr.

Áhvílandi skuld á bifreiðinni Z                                                         558.373 kr.

Áhvílandi skuld á bifreiðinni Þ                                                         400.000 kr.

Námslán                                                                                                456.497 kr.

Samtals                                                                                            16.582.202 kr.

 

Hrein eign við skilnaðinn hafi þannig verið 4.342.798 krónur og hlutur hvors um sig 2.171.399 krónur.   Miða verði við það tímabil þegar fjárskiptasamningur var gerður við mat á því hvort hann hafi verið sanngjarn.  Ítrekað er að eftir skilnaðinn hafi stefndi greitt fyrir stefnanda 1.675.640 krónur til Búseta.  Þá er því haldið fram að innbú, sem stefnandi fékk í sinn hlut auk bifreiðar, hafi að lágmarki verið að verðmæti 2.000.000 króna.

 

Fram kom við flutning málsins (sbr. dskj. nr. 50) að það, sem fram er haldið af hálfu stefnda um bifreiðaeign og áhvílandi skuldir, sætir ekki ágreiningi af hálfu stefnanda að öðru leyti en því að stefnandi miðar við að verðmæti bifreiðarinnar Æ hafi verið 2.300.000 krónur í samræmi við skattframtal 2003 en stefndi miðar við verðmætið 1.800.000 krónur án nokkurra skýringa og er fallist á sjónarmið stefnanda að þessu leyti.    Upphæðir yfirdráttarskuldar í Íslandsbanka og námsláns sæta ekki ágreiningi.  Skuldir, sem fram eru taldar af stefnda við Handelsbanken og vegna dóms svo og flugnáms, eru ekki studdar viðhlítandi gögnum og verða ekki teknar til greina gegn andmælum stefnanda.  Ekki er fallist á það með stefnanda að miða beri verðmæti fasteignarinnar Y við söluverð tveimur árum eftir gerð fjárskipta­samningsins.  Af hálfu stefnda er miðað við fasteignamat, sbr. skattframtal 2003.  Í greinargerð hans segir að við gerð fjárskiptasamningsins hafi markaðsvirðið verið um 15.000.000 – 20.000.000 króna.  Fyrir dóminum bar stefndi að kaupverð eignarinnar árið 2002 hefði verið 17 milljónir króna og að hún hefði verið verðmetin árið 2003 á 20 milljónir króna.  Niðurstaða dómsins að þessu leyti er sú að miða beri við verðmætið 20 milljónir króna.  Um veðskuldir hvílandi á fasteigninni er af hálfu stefnanda miðað við þá fjárhæð sem tilgreind er á skattframtali 2003, 8.309.929 krónur, en af hálfu stefnda við fjárhæð sem fram kemur á veðbandayfirliti sem unnið var 13. janúar 2005.  Niðurstaða dómsins að þessu leyti er sú að fallast beri á það sem fram er haldið af hálfu stefnanda þar sem fremur megi leggja til grundvallar að sú fjárhæð gefi rétta mynd af stöðunni við gerð fjárskiptasamnings.  Gegn staðhæfingu stefnanda um að verðmæti innbús hafi verið 200.000 krónur heldur stefndi því fram að það hafi verið eigi minna en 2.000.000 króna.   Telja verður að það hafi staðið stefnda nær að renna stoðum undir staðhæfingu sína með mati dómkvadds manns og þar sem það fórst fyrir er niðurstaða dómsins að þessu leyti sú að miða beri við að verðmæti innbús hafi verið 200.000 krónur.

Samkvæmt framangreindu námu eignir aðila við gerð fjárskiptasamnings 26. ágúst 2003 23.850.000 krónum, skuldir 11.221.510 krónum, hrein eign til skipta 12.628.490 krónum og helmingshluti hvors aðila um sig 6.314.245 krónum.  Stefnandi fékk í sinn hlut innbú að verðmæti 200.000 krónur og bifreiðina Æ að verðmæti 2.300.000 krónur en með áhvílandi láni að upphæð 1.010.749 krónur sem kemur til frádráttar.  Hreint verðmæti þess, sem stefnandi fékk við skiptin, nemur þannig  samtals 1.489.251 krónu.  Að auki er rétt að taka að fullu tillit til þess að stefndi greiddi fyrir stefnanda 1.675.540 krónur 18. febrúar 2005 til að gera henni kleift að komast í nýja íbúð og verður litið á þá greiðslu sem hluta af skilnaðarkjörum stefnanda.  Samtals fékk stefnandi þannig verðmæti að upphæð 3.164.791 króna.

Sú upphæð, 3.149.454 krónur, sem á vantar að stefnandi fengi  helmings­hlut­deild sína, 6.314.245 krónur, verður talin veruleg.

Hinn umstefndi samningur um fjárskipti er mjög ófullkominn, nánast flausturs­legur.  Af læknisfræðilegum gögnum málsins verður ályktað að stefnda hljóti að hafa verið ljóst að stefnandi væri ekki fær um það án aðstoðar að gera og meta til hlítar hinn þýðingarmikla fjármálagerning sem um ræðir í málinu eða gera sér grein fyrir að mjög hallaði á hana við skiptin.

Á grundvelli 31. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 1. gr. laga nr. 11/1986, er fallist á kröfu stefnanda um að fella beri úr gildi samning aðila um fjárskipti vegna skilnaðar frá 26. ágúst 2003.  Með vísun til framanskráðs er niðurstaða dómsins að öðru leyti sú að fallist er á varakröfu stefnanda þannig að stefndi skuli greiða stefnanda 3.149.454 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.  Það athugast að ekki er rétt, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að lögmaður hennar hafi sent stefnda kröfubréf.

Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 622.500 krónur en útlagður kostnaður nemur 27.270 krónum.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Samningur stefnanda, K, og stefnda, M, um fjárskipti vegna skilnaðar frá 26. ágúst 2003 er felldur úr gildi.

Stefndi greiði stefnanda 3.149.454 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. mars 2006 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 622.500 krónur.