Hæstiréttur íslands
Mál nr. 308/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2016, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi málsaðila, sem reis við opinber skipti á dánarbúum foreldra þeirra, D og E. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að hann skuli greiða dánarbúinu 10.009.865 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Dánarbú D, sem lést [...] 2013, og eiginmanns hennar, E, sem lést [...] 2014, var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2015. Í bréfi skiptastjóra dánarbúsins til héraðsdóms 9. september sama ár var meðal annars greint frá því að risið hafi ágreiningur vegna fjárúttekta eða millifærslna sóknaraðila af bankareikningum hinna látnu og hafi varnaraðilar krafist þess að sóknaraðila yrði gert að endurgreiða dánarbúinu þá fjármuni. Með bréfinu var þessu ágreiningsmáli, ásamt öðru er sneri að verðmæti fasteignar sóknaraðila sem hann hafði fengið sem fyrirfram greiddan arf á grundvelli erfðaskrár hinna látnu, vísað til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 68. gr. laganna. Er einungis til úrlausnar sú niðurstaða hins kærða úrskurðar sem kvað á um að sóknaraðili greiddi dánarbúi foreldranna 10.009.865 krónur auk dráttarvaxta, svo og niðurstaða hans um málskostnað.
Ágreiningur þessa máls lýtur að fjórum millifærslum á fjármunum út af bankareikningum E, föður aðila, hjá Landsbankanum inn á reikning sóknaraðila hjá sama banka. Um er að ræða 3.000.000 krónur sem millifærðar voru 8. apríl 2009, 6.753.865 krónur sem millifærðar voru í tvennu lagi 15. sama mánaðar og 256.000 krónur sem millifærðar voru 24. sama mánaðar. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að faðir málsaðila hafi millifært féð inn á reikning sóknaraðila.
Samkvæmt gögnum málsins fluttist faðir aðila á hjúkrunarheimili [...] 2012 með heilabilun og var hann sviptur fjárræði [...] 2014.
II
Sóknaraðili lagði fram með kæru sinni til Hæstaréttar ný skjöl sem sýna að 8. apríl 2009 tók hann út af framangreindum bankareikningi sínum 2.000.000 krónur og 15. sama mánaðar tók hann 10.000.000 krónur út af reikningnum. Báðar þessar úttektir voru í reiðufé. Varnaraðilar hafa mótmælt framlagningu skjala þessara sem of seint fram komnum. Með vísan til 2. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, eru skjöl þessi ekki of seint fram komin.
Sóknaraðili hefur borið því við að millifærslur yfir á reikning sinn hafi verið til að auðvelda föður málsaðila ráðstöfun fjárins. Hafi sóknaraðili tekið fjármunina út af sínum reikningi í reiðufé og afhent föður þeirra en hann hafi í kjölfar falls íslensku bankanna ekki treyst þeim fyrir fjármunum sínum. Hafi hann viljað varðveita þá sjálfur en á heimili þeirra hjóna hafi verið tveir peningaskápar sem hann hygðist nota í þessu skyni. Samkvæmt gögnum málsins kom í ljós þegar skipaður fjárhaldsmaður E lét opna téða peningaskápa 22. júlí 2014 að engin verðmæti voru þá í þeim.
Varnaraðilar krefja sóknaraðila um endurgreiðslu fyrrgreindra fjármuna á þeim grunni að hann hafi tekið fjármuni foreldra þeirra ófrjálsri hendi og nýtt í eigin þágu. Vísa varnaraðilar ekki til lagaákvæða kröfunni til stuðnings en ráða má af málatilbúnaði þeirra að þeir telji að sóknaraðili hafi komist yfir fjármuni þessa með saknæmum hætti. Hafa þeir ekki sýnt fram á það með viðhlítandi gögnum að faðir þeirra hafi á þeim tíma sem hér um ræðir, tæpum fimm árum áður en hann var sviptur fjárræði og tæpum þremur árum áður en hann vistaðist á hjúkrunarheimili, verið ófær um að fara með fjármuni sína. Þá hafa ekki verið leiddar líkur að því að ráðstafanir sóknaraðila hafi verið gerðar án þess að til grundvallar þeim lægju ákvarðanir föður aðila. Jafnframt þykja gögn um úttektir sóknaraðila í reiðufé af bankareikningi sínum strax í kjölfar millifærslna meginhluta fjárins renna stoðum undir skýringar hans á þessum ráðstöfunum. Hafi sóknaraðili haft einhvern ábata af þessum ráðstöfunum, sem ekkert liggur fyrir um, nýtur engra gagna við í málinu um að faðir aðila hafi ætlast til að til endurgreiðslu kæmi á síðari stigum. Samkvæmt þessu verður kröfu varnaraðila hafnað.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila óskipt málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Kröfu varnaraðila, B og C, á hendur sóknaraðila, A, er hafnað.
Varnaraðilar greiði sóknaraðila óskipt samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2016.
Mál þetta barst dóminum 9. september 2015 með bréfi skiptastjóra dánarbús D, kt. [...], sem lést [...] 2013, og E, kt. [...], sem lést [...] 2014.
Sóknaraðilar eru B, kt. [...], [...], Reykjavík og C, kt. [...], [...], [...]. Varnaraðili er A, kt. [...], [...], Reykjavík.
Sóknaraðilar krefjast þess að:
I.a. Varnaraðila verði gert að greiða dánarbúum D og E 11.174.376 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2011 til 30. október 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.
I.b. Varnaraðila verði gert að greiða dánarbúum D og E 10.730.159 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2014 til 30. október 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
II. Staðfest verði með úrskurði dómsins að við skipti á dánarbúum D og E verði fasteignin [...], fastanúmer [...], Reykjavík virt á 18.500.000 krónur.
Jafnframt krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu hvorri um sig samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til skyldu þeirra til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns þeirra.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila í lið I.a og I.b verði hafnað. Þá krefst hann þess „að íbúð sú í kjallara fasteignarinnar að [...] í Reykjavík sem varnaraðili fékk afhenta sem fyrirfram greiddan arf 14. ágúst 1996 eftir foreldra sína, E og D verði við skipti á dánarbúi þeirra nú metin á fasteignamatsverði við afhendingu íbúðarinnar krónur 2.956.000 að viðbættu álagi samkvæmt hækkun á neysluvísitölu frá ágúst 1996 (178 stig) til nóvember 2014 (421 stig)“.
Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að teknu tilliti til skyldu hans til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 26. febrúar sl. Málið var endurupptekið 21. mars sl. á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., vegna bréfs skiptastjóra, sem borist hafði dóminum 15. sama mánaðar, og tekið til úrskurðar að nýju.
I
Málavextir
Aðilar máls þessa eru lögerfingjar D, sem lést [...] 2013 og E, sem lést [...] 2014. Með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur, en hafði verið framsend dóminum af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu [...] 2015, hafði þess verið krafist af sóknaraðilum þessa máls að dánarbú móður þeirra, D, yrði tekið til opinberra skipta. Við þingfestingu málsins [...] 2015 kom fram að faðir aðila, E, hefði látist eftir að beiðni um opinber skipti á búi E hefði verið lögð fram og var því gerð krafa um að opinber skipti tækju einnig til hans bús. Þá kom einnig fram að einkaskipti væru ekki möguleg vegna vandkvæða í samskiptum erfingja. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [..] 2015 voru dánarbú D og E, sem bæði höfðu síðast verið með lögheimili að [...] í Reykjavík, en E dvalið á hjúkrunarheimilinu Mörk frá janúar 2012, tekin til opinberra skipta og var Valborg Snævarr hrl. skipuð til að gegna starfi skiptastjóra í dánarbúunum. Ágreiningur mun hafa verið með erfingjum frá upphafi skipta.
Fram kemur í bréfi skiptastjóra um úrlausn ágreinings undir skiptunum, sem móttekið var af dóminum 9. september 2015, að haldnir hafi verið fjórir skiptafundir í búinu. Á skiptafundi 28. ágúst 2015 hafi verið bókað um tvö ágreiningsefni sem nauðsynlegt væri að leysa úr til að skapa grundvöll fyrir skiptalokum í búinu. Annars vegar væri um að ræða meintar úttektir eða millifærslur erfingjans, A, varnaraðila máls þessa, af bankareikningum hinna látnu sem erfingjarnir, B og C, sóknaraðilar máls þessa, geri kröfu um að verði endurgreiddar inn í búið. Af hálfu varnaraðila hefði því verið hafnað að hann skuldaði búinu nokkuð. Þá hefði varnaraðili enga vitneskju um hvað hefði orðið um peningaeign foreldra hans sem hann teldi þau hafa haft undir höndum á heimili þeirra. Hins vegar væri deilt um hvernig meta skyldi verðmæti fasteignarinnar að [...] í Reykjavík sem varnaraðili hefði fengið sem fyrirfram greiddan arf á grundvelli erfðaskrár hinna látnu sem leggja skyldi til grundvallar við skiptin. Sættir vegna þessa ágreinings hefðu verið reyndar án árangurs og hafi því verið bókað um að aðilar væru sammála um að leggja hann fyrir héraðsdóm til úrlausnar með vísan til 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Dánarbúin láta málið ekki til sín taka eins og fram kemur í áðurnefndu bréfi skiptastjóra til dómsins. Þá kemur fram í bréfi skiptastjóra, sem barst dóminum 15. mars sl., að í upphaflegu bréfi skiptastjóra til dómsins hefði með réttu jafnframt átt að vísa til 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 þar sem skiptastjóri framselji í raun sóknaraðilum aðild og forræði málsins vegna ágreinings erfingjanna á milli.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðilar kveða kröfu sína í lið I.a, um að varnaraðila verði gert að endurgreiða dánarbúum foreldra sinna nánar tiltekna fjárhæð, byggja á framlögðum gögnum sem beri með sér að varnaraðili hafi tekið til ráðstöfunar fjármuni er lágu á bankareikningum foreldra þeirra. Samkvæmt skattframtali þeirra hafi þau átt samtals 11.525.700 krónur á bankareikningum í lok árs 2008. Í mars og apríl 2009 séu framkvæmdar millifærslur af reikningum hjónanna yfir á reikning varnaraðila sem engar skýringar hafi verið gefnar á.
Þannig hafi 3.000.000 króna verið millifærðar út af reikningi nr. [...] í Landsbankanum hf. á nafni E, og yfir á reikning varnaraðila nr. [...]. Þá hafi reikningur nr. [...] á nafni E í Landsbankanum hf. verið eyðilagður 15. apríl 2009 og innstæða hans að fjárhæð 1.485.055 krónur millifærð á reikning varnaraðila nr. [...]. Sama dag hafi reikningur nr. [...] á nafni E í Landsbankanum hf. einnig verið eyðilagður og innstæða hans að fjárhæð 5.268.810 krónur millifærð á reikning varnaraðila [...]. Þann 24. apríl 2009 hafi verið millifærðar 256.000 krónur af reikningi E í Landsbankanum hf. nr. [...] yfir á reikning varnaraðila nr. [...].
Þá hafi reikningur nr. [...] við Íslandsbanka hf. á nafni D verið eyðilagður 24. apríl 2009 en innstæða hans hafi þá numið 1.560.699 krónum. Á sama tíma hafi reikningur nr. [...] í sama banka á nafni E einnig verið eyðilagður en innstæða hans hafi þá numið 1.103.812 krónum. Þessum fjármunum sé ráðstafað þannig að inn á reikning varnaraðila nr. [...] hafi verið millifærðar 1.164.611 krónur en mismunurinn á úttektum af framangreindum og fjárhæð millifærslunnar, 1.500.000 krónur, sé afhentur í peningum. Varnaraðili hafi engar haldbærar skýringar gefið á því hvað hafi orðið um umræddar 1.500.000 krónur eða á umræddum úttektum.
Sóknaraðilar telja því liggja fyrir að í mars og apríl 2009 hafi verið teknar út af reikningum foreldra aðila 11.174.376 krónur og að á þessum færslum hafi ekki fengist viðhlítandi skýringar frá varnaraðila. Sóknaraðilum hafi verið ókunnugt um fjárreiður foreldra sinna og að varnaraðili hafi stundað að taka út af reikningum þeirra með þeim hætti sem við blasi. Málið sé hið sorglegasta. Varnaraðili hafi haft uppi ógnandi tilburði gagnvart sóknaraðilum þegar þær reyndu að fá upplýsingar um stöðu mála. Varnaraðili hafi tekið þessa fjármuni ófrjálsri hendi og gera sóknaraðilar kröfu til þess að honum verði gert að endurgreiða dánarbúunum þá með vöxtum og dráttarvöxtum.
Hvað varði kröfu sem fram komi í lið I.b taka sóknaraðilar fram að eftir að skipaður fjárhaldsmaður föður þeirra hafi krafið varnaraðila skýringa á framferði sínu og endurgreiðslu úttekins fjár hafi varnaraðili endurgreitt 2.501.778 krónur. Í því felist viðurkenning á því að um ólögmætt athæfi hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila. Þegar ljóst hafi orðið að ekki væri að vænta frekari endurgreiðslna vegna úttekta af reikningum D og E hafi fjárhaldsmaðurinn kært athæfi varnaraðila til embættis sérstaks saksóknara vegna fjárdráttar og misnotkunar á bankareikningum þeirra 13. febrúar 2014. Sóknaraðili bendir á að þegar fjárhaldsmaður föður þeirra hafi, með aðstoð lögreglu, opnað læsta peningaskápa í læstu herbergi í skrifborði í íbúðinni að [...] hafi þeir reynst vera tómir utan örfárra skjala. Sóknaraðilar hafi ekki haft vitneskju um þessar hirslur og ekki haft lykla að þeim.
Sóknaraðilar vísa kröfu sinni til stuðnings til bankayfirlita vegna bankareiknings nr. [...] í eigu D og nr. [...] í eigu E sem nái yfir tímabilið 1. janúar 2010 til 27. janúar 2014. Við skoðun á yfirlitunum komi í ljós að millifærðir séu fjármunir út af reikningunum með kerfisbundnum hætti með skýringunum „Millifært“ og „[...]“. Á fyrrnefnda yfirlitinu sé um að ræða úttektir af reikningi D sem nema 7.251.425 krónum og af reikningi E úttektir að fjárhæð 5.980.512 krónur eða samtals 13.231.937 krónur. Sóknaraðilar telji rétt að geta þess að foreldrar þeirra áttu ekki tölvu og höfðu ekki færi á eða færni til að nýta sér heimabanka til að millifæra af reikningum sínum. Ljóst sé að varnaraðili hafi látið greipar sópa um þessa tvo reikninga foreldra sinna. Hann hafi sjálfur engar skýringar gefið á þessum millifærslum.
Vilja sóknaraðilar vísa til ummæla [...] yfirlæknis á Hjúkrunarheimilinu Mörk um varnaraðila og háttsemi hans gagnvart foreldrum sínum en þar komi fram að faðir þeirra óttaðist varnaraðila og starfsfólk gerði það líka.
Af áðurnefndum bankayfirlitum sjáist að reglulega séu sjálfkrafa millifærðar af reikningunum greiðslur vegna þjónustu hjá Reykjavíkurborg vegna þarfa þeirra hjóna en þau hafi verið á vistheimili og nýtt sér greiðsluþjónustu. Þau hafi verið neyslugrönn og þurftarlítil á fé hin síðari ár. Banki þeirra hafi séð um greiðsluþjónustu vegna reglulegrar gjaldtöku og fyrir veitta þjónustu. Þrátt fyrir það millifæri varnaraðili umtalsvert háar fjárhæðir á þessu tímabili.
Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að greiða dánarbúunum 10.730.159 krónur vegna þessara millifærslna en sú fjárhæð sé mismunur á úttektum varnaraðila og innleggi hans inn á áðurnefnda reikninga og þá hafi einnig verið tekið tillit til endurgreiðslu varnaraðila á 2.501.778 krónum. Krafa um vexti frá 1. mars 2014 til 30. október 2015 styðjist við 8. gr. laga nr. 38/2001 og krafist sé dráttarvaxta frá þeim degi. Taki upphafsdagur vaxta mið af kröfugerð fjárhaldsmanns með bréfi til saksóknara 13. febrúar 2014 og sé krafist vaxta af skaðabótum frá næstu mánaðamótum á eftir eða 1. mars 2014. Þá sé krafist dráttarvaxta frá þingfestingardegi málsins 30. október 2015.
Sóknaraðilar kveða að ekki hafi verið samkomulag um hvernig beri að virða fasteignina að [...], fastanúmer [...], til fjár við skiptin. Varnaraðili hafi fengið íbúðina sem fyrirfram greiddan arf 14. ágúst 1996 og um það sé enginn ágreiningur. Fyrir liggi mat óháðs löggilts fasteignasala frá 15. júlí 2015 þar sem hann meti fasteignina á 18.500.000 krónur. Matið hafi verið unnið að beiðni skiptastjóra. Sóknaraðilar krefjist þess að það verðmat verði lagt til grundvallar við skiptin. Vísa þeir til 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þar sem segi að fyrirframgreiðsla arfs skuli virða erfingja til frádráttar eftir gangvirði þess þegar erfingi veitti því viðtöku en þó ekki hærra verði en sanngjarnt sé svo að jöfnuður fáist með erfingjum. Önnur nálgun á virði eignarinnar en að horfa til raunvirðis hennar í dag sé bersýnilega ósanngjörn með hliðsjón af þeim jöfnuði og jafnræði sem ríkja eigi á milli erfingja við búskipti. Eina eign búsins sé andvirði íbúðar að [...]. Sú fasteign hafi verið seld nýverið á 26.500.000 krónur sem sé hámarksverð miðað við núverandi markaðsaðstæður á fasteignamarkaði. Því sé ekki einungis rétt heldur beinlínis skylt, þegar metið sé hvaða verðmætum hafi verið úthlutað úr búinu til eins erfingja með fyrirfram greiddum arfi, að slík ráðstöfun sé færð til markaðsaðstæðna á fasteignamarkaði í dag. Sóknaraðilar vísa einnig til þess að fasteignin að [...] hafi ekki verið endurnýjuð og sé því í upphaflegu ástandi. Engar endurbætur hafi farið fram á kostnað varnaraðila og sé hún því í sama ástandi og hún var er varnaraðili fékk hana í hendur árið 1996. Hann hafi notið arðs af eigninni og aukins verðmætis hennar í dag. Mat hins löggilta fasteignasala tryggi því jöfnuð á milli erfingja að þessu leyti.
Með vísan til alls framangreinds krefjast sóknaraðilar þess að á kröfur þeirra verði fallist.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila í liðum I.a og I.b verði hafnað. Kröfur sóknaraðila í lið I.a byggist á því að varnaraðili hafi misfarið með fé foreldra aðila á árinu 2009 og höfð sé uppi ráðagerð um að hann hafi sjálfur tekið út peninga þeirra ófrjálsri hendi og tileinkað sér þá. Varnaraðili hafni þessu og bendi á að foreldrar hans hafi sjálfir farið með ráðstöfunarrétt yfir þeim bankareikningum sem þarna komi við sögu. Enginn ágreiningur hafi verið milli hans og foreldranna um aðstoð hans við þau í fjármálum. Hann hafi í einhverjum tilvikum aðstoðað föður sinn við að færa innstæður inn á sína reikninga til að auðvelda ráðstöfun á þeim þaðan í samræmi við vilja foreldranna. Hafi faðir hans viljað færa peninga heim til sín til varðveislu í peningaskápum sem hann hafi átt. Kveðst varnaraðili ekkert vita hvað um þessa fjármuni hafi orðið. Foreldrar hans hafi sjálfir tekið ákvarðanir um þær ráðstafanir sem hér um ræði. Þá bendir varnaraðili á að þessir atburðir hafi orðið löngu áður en faðir hans var talinn ófær um að fara sjálfur með fjármál sín en hann hafi ekki verið sviptur fjárræði fyrr en 14. janúar 2014. Ekki komi til greina að erfingjar látins manns geti gert kröfur mörg ár aftur í tímann í því skyni að hnekkja ákvörðunum hins látna í fjármálum.
Í kröfulið I.b hafi sóknaraðilar uppi fjárkröfur á hendur varnaraðila vegna úttekta af tveimur bankareikningum þeirra árin 2010-2014. Varnaraðili byggi á því að allar þær ráðstafanir sem hér um ræði hafi verið í þágu foreldra hans og gerðar með atbeina þeirra og samþykki. Féð hafi verið flutt yfir á hans bankareikning til að gera honum auðveldara að ráðstafa því þaðan. Hann hafi ekki getað tekið peninga út af reikningum þeirra en hann hafi getað millifært fé yfir á sinn reikning og síðan ráðstafað þeim í þágu foreldranna. Réttilega komi fram í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi greitt inn á reikninga foreldra sinna um 2.500.000 krónur í árslok 2013 og í byrjun janúar 2014. Þetta hafi verið uppgjör af hans hálfu á því sem hann hafi talið orka tvímælis að foreldrar hans ættu að bera kostnað af. Í þessu hafi ekki falist nein viðurkenning á því að um frekari kröfur á hendur honum gæti verið að ræða eins og nú sé haldið fram.
Sóknaraðilar geti ekki nú gert tilkall til þess að varnaraðili skili uppgjörum mörg ár aftur í tímann um aðstoð sína við foreldrana í fjármálum. Allar ráðstafanir sem hann annaðist eða hjálpaði til við hafi verið framkvæmdar í samræmi við vilja þeirra. Hann telji sérstaka þörf á að geta þess að faðir hans hafi eftir bankahrunið 2008 haft áhyggjur af bankainnstæðum sínum og ekki treyst bönkunum. Hann hafi því tekið til sín innstæður þeirra hjóna á árinu 2009, lokað bankareikningunum og varðveitt féð í peningaskápum, einum eða tveimur, á heimili sínu. Muni þar hafa verið um að ræða fjárhæð yfir 10.000.000 króna. Varnaraðili kveðst ekki vita hvað af þessu fé hafi orðið og telur ekki við hæfi að vera með getsakir í þeim efnum.
Varnaraðili kveðst hafa lagt fram yfirlit yfir bankareikninga sína allt frá árinu 2009 þar sem m.a. komi fram upplýsingar um ráðstafanir hans til aðstoðar við foreldra sína. Á yfirlitinu komi fram upplýsingar um umsvif sem hann hafi haft í fjármálum og komi þessu máli ekkert við. Á þessum yfirlitum komi nægilega fram að hann sé með öllu saklaus af ávirðingum sóknaraðila.
Varnaraðili kveður föður sinn hafa verið sviptan fjárræði snemma árs 2014. Hafi fjárhaldsmaður hans skrifað bréf til sérstaks saksóknara 13. febrúar 2014 og óskað eftir opinberri rannsókn á meðferð varnaraðila á fé foreldra sinna árin á undan. Með bréfi lögreglunnar 12. nóvember 2014 hafi erindinu verið synjað.
Hvað varði verðmæti íbúðarinnar í [...] sbr. lið II í kröfugerð sóknaraðila, sé ágreiningslaust að varnaraðili hafi fengið íbúðina afhenta sem fyrirfram greiddan arf eftir foreldra sína 16. ágúst 1996 en aðilar deili um verðið sem miða beri við þegar þessi fyrirframgreiðsla sé metin við skipti á búi foreldranna nú. Kveðst varnaraðili telja að miða beri við fasteignamatsverð við afhendingu eignarinnar sem hafi verið 2.956.000 krónur að viðbættu álagi samkvæmt hækkun á neysluvísitölu frá ágúst 1996 sem þá hafi verið 178 stig til nóvember 2014 en þá hafi hún verið 421 stig. Þetta þýði að við skiptin yrði íbúðin metin á 6.991.438 krónur. Telji varnaraðili sanngjarnt að taka með þessum hætti tillit til verðrýrnunar krónunnar á þessum tíma þó að ekki sé kveðið á um slíkt í erfðalögum eða öðrum settum lögum.
Taka verði fram um þennan þátt málsins að varnaraðili hafi átt þessa íbúð í hartnær 20 ár. Ætlaðar verðhækkanir á henni á þeim tíma samkvæmt mati á verðmæti hennar nú komi þessum skiptum ekkert við enda stafi þær m.a. af framkvæmdum varnaraðila sjálfs og viðhaldi á hans vegum. Krafa sóknaraðila um þetta eigi sér enga stoð í 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eða öðrum lagaákvæðum. Kveðst varnaraðili mótmæla að efni til þeirri einkamatsgerð sem lögð hafi verið fram og þjóni ekki tilgangi sem sönnunargagn fyrir dómi.
Með vísan til alls framangreinds krefst varnaraðili þess að á kröfur hans verði fallist.
IV
Niðurstaða
Mál þetta, sem rekið er fyrir dóminum á grundvelli XVII. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., barst dóminum 9. desember 2014 með beiðni skiptastjóra dánarbúa D og E, um úrlausn ágreinings við opinber skipti, með vísan til 122. gr. áðurnefndra laga.
Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 segir m.a. að rísi ágreiningur um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveði sérstaklega á um að beint skuli til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem komi upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tölulið 1. mgr. 122. gr. er síðan tekið fram, að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi.
Í bréfi skiptastjóra til dómsins er ágreiningi þeim sem beint er til dómsins lýst á þann veg að um tvö ágreiningsefni sé að ræða sem nauðsynlegt sé að leysa til að mynda grundvöll fyrir skiptalokum í búinu. Annars vegar sé um að ræða meintar úttektir eða millifærslur varnaraðila af bankareikningum hinna látnu sem sóknaraðilar geri kröfu um að verði endurgreiddar inn í búið. Af hálfu varnaraðila hefði því verið hafnað að hann skuldi búinu nokkuð og að hann viti ekki hvað hafi orðið um peningaeign foreldra hans sem hann telji þá hafa haft undir höndum á heimili þeirra. Hins vegar væri deilt um hvernig meta skyldi verðmæti fasteignarinnar að [...] í Reykjavík sem varnaraðili hefði fengið sem fyrirfram greiddan arf á grundvelli erfðaskrár hinna látnu sem leggja skyldi til grundvallar við skiptin. Sættir vegna þessa ágreinings hafi verið reyndar án árangurs og hafi því verið bókað að aðilar væru sammála um að leggja hann fyrir héraðsdóm til úrlausnar með vísan til 122. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Þá segir að dánarbúin láti málið ekki til sín taka fyrir dóminum.
Fyrra ágreiningsefnið varðar því kröfu dánarbúanna á hendur einum erfingja. Í upphaflegu bréfi skiptastjóra til dómsins kom ekki fram með skýrum hætti að skiptastjóri hefði veitt sóknaraðilum málshöfðunarheimild á grundvelli 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 vegna þessa hlutar ágreinings aðila. Skilja verður síðara bréf skiptastjóra til dómsins svo að láðst hafi að taka þetta fram í fyrra bréfinu en að skiptastjóri hafi áður en málið var sent dóminum þegar falið sóknaraðilum að gæta hagsmuna búsins á grundvelli áðurnefndrar 3 mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Verður því að telja að úr þessu hafi verið bætt með framlagningu bréfs skiptastjóra undir rekstri málsins. Þá kom fram af hálfu lögmanna við endurupptöku málsins 21. mars sl. að erfingjum hefði verið falið að gæta hagsmuna búsins fyrir dóminum. Eins og atvikum er háttað að þessu leyti þykja ekki efni vera til þess að vísa þessum þætti ágreinings aðila frá dómi og eru þá höfð til leiðsagnar þau sjónarmið sem fram koma í dómi Hæstaréttar frá 24. mars 2014 í máli nr. 139/2014 og í dómi réttarins frá 20. ágúst 2004 í máli nr. 230/2004. Verður ágreiningur aðila hvað þetta varðar því tekin til efnislegrar úrlausnar og krafa sóknaraðila skilin svo að verði krafan tekin til greina skuli féð dregið frá arfshluta varnaraðila við endanlegt uppgjör við skipti á búinu. Hefur því málinu verið réttilega beint til dómsins á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 68. gr., laga nr. 20/1991.
Eins og þegar er rakið er ágreiningur aðila fyrir dóminum tvíþættur. Annars vegar er um að ræða kröfu sóknaraðila um að varnaraðili endurgreiði búinu með vöxtum og dráttarvöxtum fjárhæðir sem hann hafi millifært af nánar tilteknum reikningum foreldra aðila á árinu 2009 og á tímabilinu 1. janúar 2010 til 27. janúar 2014. Þessu hefur varnaraðili hafnað og byggir á því að allar úttektir af reikningum foreldra aðila hafi verið gerðar með vilja þeirra og vitund og í þeirra þágu. Hins vegar er ágreiningur með aðilum um hvernig virða beri við skiptin fasteign sem varnaraðili hafi fengið afhenta í ágúst 1996 sem fyrirfram greiddan arf. Fasteignamatsverð hennar hafi þá numið 2.956.000 krónum. Telja sóknaraðilar að miða beri verðmæti hennar við mat fasteignasala sem skiptastjóri hafi aflað sem taldi áætlað söluverð hennar nú vera 18.500.000 krónur. Annað væri ósanngjörn niðurstaða gagnvart öðrum erfingjum. Varnaraðili hefur á hinn bóginn talið að miða ætti við verðmæti íbúðarinnar eins og það var þegar hún var afhent varnaraðila framreiknað til verðlags í nóvember 2014.
Krafa sóknaraðila um endurgreiðslu til búsins vegna úttekta varnaraðila af reikningum foreldra þeirra á árinu 2009 nemur að höfuðstól 11.174.376 krónum. Sóknaraðilar byggja þessa kröfu sína á viðskiptakvittunum frá Landsbankanum, dags. 8. apríl 2009 þar sem millifærðar eru á varnaraðila 3.000.000 króna, dags. 15. apríl 2009 þar sem millifærðar eru á varnaraðila 6.753.865 krónur í tveimur færslum og dags. 24. apríl 2009 þar sem millifærðar eru á varnaraðila 256.000 krónur auk gagna frá Íslandsbanka þar sem fram kemur að 1.164.511 krónur hafi verið millifærðar inn á varnaraðila. Varnaraðili kveðst hafa tekið þessa fjármuni út af reikningi föður síns og móður að þeirra ósk. Varnaraðili hefur þó ekki með nokkrum hætti getað tengt þessar úttektir við ráðstafanir vegna foreldra sinna eða við útgjöld vegna þeirra. Varnaraðili hefur því á engan hátt gert grein fyrir því hvað varð af umræddum fjárhæðum en gögn málsins benda eindregið til þess að þær hafi færðar inn á reikning í hans eigu. Þótt ekki liggi annað fyrir en að faðir aðila hafi árið 2009 verið fær um að fara með fjármuni sína þykja nægar líkur vera að því leiddar að einstakar ákvarðanir á árinu 2009 og sem um ræðir í lið 1.a í kröfugerð sóknaraðila hafi verið teknar án þess að þar væri til grundvallar ákvörðun hans sjálfs. Er þá einnig haft í huga að um háar fjárhæðir er að ræða í flestum tilvikum sem ekki hafa komið í leitirnar við skipti á búinu. Hefur sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á hvert tilefni hafi verið til hverrar úttektar og ráðstöfun á henni. Verður varnaraðila því gert að greiða búinu umrædda fjárhæð sem nemur áðurnefndum færslum og gögn liggja fyrir um en hann verður ekki krafinn um greiðslu áðurnefndra 1.164.511 króna þar sem ekki verður séð að þessi hluti kröfunnar sé studdur við millifærslubeiðni eða viðskiptakvittun. Verður varnaraðila því samkvæmt þessu gert að greiða búinu 10.009.865 krónur og kemur sú fjárhæð til frádráttar arfshluta hans við endanlegt uppgjör búanna. Á hinn bóginn þykja ekki vera efni til að fallast á að vextir verði greiddir af umræddri fjárhæð samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Þó verður fallist á að dráttarvextir skuli greiðast af umræddri fjárhæð en ekki þykir unnt að miða upphafstíma þeirra við fyrra tímamark en framlagningu greinargerðar sóknaraðila í máli þessu, 13. nóvember 2015, sbr. 4. mgr. 5. gr. áðurnefndra laga.
Krafa sóknaraðila er lýtur að endurgreiðslum á tímabilinu 1. janúar 2010 til 27. janúar 2014 er studd við yfirlit af millifærslum af reikningi D nr. [...] í Landsbankanum og reikningi E [...] einnig í Landsbankanum. Af yfirlitunum má sjá að millifærðar eru fjárhæðir, ýmist háar eða lágar, á þessu tímabili undir skýringunni „[...]“. Í sumum tilvikum eru þær teknar út, lagðar inn aftur sama dag og teknar aftur út síðar. Varnaraðili hefur í málinu haldið því fram að hann hafi séð um fjárhagsmálefni foreldra sinna og annast um þau og daglegar þarfir með greiðslu reikninga og kaupa á því sem þeim var nauðsynlegt. Hafa sóknaraðilar í sjálfur sér ekki mótmælt því að hann hafi séð um fjármál foreldra þeirra og er fram komið í málinu að þær hafi ekki haft vitneskju um fjárhagsmálefni foreldra sinna. Á hinn bóginn hefur komið fram að þær hafi annast ýmislegt varðandi daglegar þarfir þeirra eins og kaup á fatnaði og annað tilfallandi. Varnaraðili hefur í málinu lagt fram samantektir sem sýna greiðslur sem hann kveðst hafa innt af hendi vegna og í þágu foreldra sinna. Á árunum 2009-2012 er um að ræða greiðslur m.a. vegna fasteignagjalda, rafmagns og hita, trygginga, húsfélagsgjalda, síma, geymsluhólfs, vistunargjalds á Mörk og í Fríðuhúsi, lyfja auk daglegra nauðsynja fyrir foreldra aðila. Þá er ljóst að um áramótin 2013/2014 er stór hluti þessara gjalda færður yfir í greiðsluþjónustu og eftir það eru fjárhæðir teknar sjálfkrafa af áðurnefndum tveimur reikningum eins og gögn málsins bera með sér, án aðkomu varnaraðila.
Hvernig sem á málið er litið verður að telja ljóst að varnaraðili blandaði fjármálum foreldra sinna saman við sín eigin með millifærslum inn og út af reikningum þeirra á þann hátt að ógjörningur er í raun að sjá hvað liggur að baki hverri færslu. Þá virðast háar fjárhæðir vera lagðar ítrekað inn á reikning föður aðila, af varnaraðila sjálfum eða móður hans, en þær svo teknar út ýmist í heilu lagi eða í hlutum nokkru síðar. Þrátt fyrir að stór hluti útgjalda foreldra aðila hafi verið kominn í greiðsluþjónustu hjá bankanum eru enn millifærðar fjárhæðir einu sinni eða oftar í mánuði og mismunandi háar. Þegar litið er til og tekið mið af yfirlitum varnaraðila um þær greiðslur sem hann innti af hendi fyrir foreldra sína, og áður er getið, er þó ekki hægt að útiloka að þessi fjármunir sem fram koma á millifærsluyfirlitunum hafi verið teknir út í þeirra þágu til að annast daglegar þarfir þeirra og standa straum af ýmsum kostnaði þeim tengdum. Telur dómurinn því ekki unnt að gera varnaraðila að greiða búinu kröfu er byggir á umræddum yfirlitum og nemur samkvæmt kröfugerð aðila 10.730.159 krónum. Verður þeim lið kröfugerðar sóknaraðila því hafnað. Þá verður ekki fallist á að í endurgreiðslu varnaraðila á 2.501.778 krónum til fjárhaldsmanns E felist viðurkenning á því að um ólögmætt athæfi hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila eins og sóknaraðilar hafa haldið fram.
Kemur þá til efnislegrar úrlausnar síðara ágreiningsatriði aðila sem tilgreint er í lið II í kröfugerð sóknaraðila er lýtur að því hvernig virða beri við skiptin íbúð í fasteigninni að [...] í Reykjavík sem óumdeilt er að varnaraðili fékk sem fyrirfram greiddan arf í ágúst 1996 samkvæmt erfðaskrá 18. febrúar 1993 og erfðayfirlýsingu 14. ágúst 1996 á grundvelli erfðafjárskýrslu sama dag. Er einnig óumdeilt að umrædd íbúð skuli falla undir skiptin en deilt er um hvernig meta beri virði hennar og hvert virði hennar þá sé þegar þessi fyrirframgreiðsla er metin varnaraðila til frádráttar við endanlegt uppgjör við skipti á búi foreldra aðila. Lagfærðu sóknaraðilar kröfu sína hvað þetta varðar undir rekstri málsins.
Í 31. gr. laga nr. 8/1962 er mælt fyrir um ákvörðun á verðgildi fyrirfram greidds arfs þegar tillit er tekið til hans við endanlegt uppgjör milli erfingja að arfleifanda látnum. Í ákvæðinu, eins og það var upphaflega orðað, sagði að verðmæti sem afhent væri sem fyrirframgreiðsla arfs skyldi virða erfingja til frádráttar eftir gangverði þess þegar erfingi veitti því viðtöku en þó ekki hærra verði en sanngjarnt væri svo að jöfnuður fengist með erfingjum.
Með 12. gr. laga nr. 48/1989 var 31. gr. laga nr. 8/1962 breytt. Fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið að breyting á 31. gr. laganna feli í sér að ótvírætt verði að erfingi, sem hlotið hefur fyrirframgreiðslu umfram aðra erfingja, njóti ekki hagnaðar af verðlagsbreytingum sem orðið hafa á tímabilinu frá því fyrirframgreiðsla átti sér stað fram að endanlegu uppgjöri arfsins að arfleifanda látnum eins og gat orðið niðurstaða eins og gildandi ákvæðið var orðað og miðaði við gangverð þegar erfingja var afhent verðmætið. Þá kemur fram í athugasemdum með 12. gr. frumvarpsins um breytingu á 31. gr. að helsta efnisbreytingin væri sú að við frádrátt skyldi framreikna verðmæti til verðlags á þeim tíma sem frádráttur ætti sér stað. Ekki sé þó í ákvæðinu mælt nánar fyrir um sjálfa reikniaðferðina sem beita eigi í þessu skyni, t.d. hvort þetta skuli gert eftir ákveðinni vísitölu eða öðrum verðlagsmæli. Þá gæti komið til álita að beita mismunandi vísitölum eftir því um hverja eign væri að ræða hverju sinni. En ef ágreiningur risi um verðgildi fyrirframgreiðslu væri það lagt í hendur dómstóla að meta eftir atvikum hæfilega fjárhæð þannig að stuðlað yrði að jafnfræði milli erfingja.
Er ákvæðið eftir þessa breytingu svohljóðandi að í fyrri málslið greinarinnar 31. gr. laga nr. 8/1962 er mælt fyrir um þá meginreglu að verðmæti sem erfingi hafi fengið sem fyrirfram greiddan arf skuli virða honum til frádráttar eftir gangverði þess þegar hann veitti því viðtöku, framreiknuðu til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað við arfskipti. Í síðari málslið greinarinnar er mælt fyrir um þá undantekningu að hafi gangverð verðmæta lækkað til muna, frá því að fyrirframgreiðsla átti sér stað, vegna atvika sem erfingjanum verði ekki kennt um skuli þó ekki draga meira frá en sanngjarnt sé svo að jöfnuður fáist með erfingjum.
Að mati dómsins þykir undantekning sú sem mælt er sérstaklega fyrir um í síðari málslið 31. gr. laganna ekki geta átt við í því máli sem hér er til úrlausnar þar sem skilja verður hana svo að henni sé ætlað að rétta hlut þess erfingja sem tekið hefur við verðmæti í fyrirfram greiddan arf en atvik orðið með þeim hætti að það hefur rýrnað að verðgildi eftir að sú ráðstöfun átti sér stað.
Í ljósi ofangreinds verður að telja fyrirmæli greinarinnar skýr um að í tilviki eins og því sem hér er til úrlausnar beri að miða við gangverð á þeim tíma er erfingi veitti verðmætinu viðtöku en að það sé framreiknað til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað. Horfa verður til þess að varnaraðili tók við íbúðinni árið 1996. Hefur hún verið heimili hans frá þeim tíma og hann borið af íbúðinni þann kostnað og að sama skapi arð, frá þeim tíma. Við afhendingu eignarinnar nam fasteignamat hennar 2.956.000 krónum. Eins og áður er komið fram er ekki nánar mælt fyrir um það í ákvæðinu við hvaða vísitölu eða hvaða verðmæli skuli miða. Þykir ekki varhugavert miðað, við aðstæður og atvik þessa máls, að beita þeirri aðferð sem varnaraðili hefur í málinu haldið fram og framreikna umrædda fjárhæð miðað við neysluvísitölu. Varnaraðili miðar á hinn bóginn við verðlag í nóvember 2014 og virðast þau tímamörk miða við lát föður aðila. Réttara þykir að miða við verðlag í mars 2015 er bú foreldra aðila var tekið til opinberra skipta. Verðmæti íbúðarinnar miðað við vísitölu í mars 2015 nemur þá 7.081.115 krónum og er það niðurstaða dómsins að við uppgjör vegna skiptanna beri að miða við þá fjárhæð varnaraðila til frádráttar eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með hliðsjón af atvikum málsins og úrslitum þess fyrir dóminum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 8. janúar sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Varnaraðili, A, greiði dánarbúi D og E, 10.009.865 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 13. nóvember 2015 til greiðsludags.
Við skipti á dánarbúi D og E skal fasteignin [...], Reykjavík, fastanúmer [...], sem varnaraðili fékk í fyrirfram greiddan arf 14. ágúst 1996, virt á 7.081.115 krónur við frádrátt fyrirframgreiðslunnar við endanlegt uppgjör.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.