Hæstiréttur íslands

Mál nr. 488/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Húsleit


 

Mánudaginn 16. júlí 2012.

Nr. 488/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Húsleit.

Úrskurður héraðsdóms, um að heimila húsleit á heimili X til að leggja hald á andlag ætlaðs þjófnaðarbrots hans, var felldur úr gildi með vísan til þess að X og A deildu um eignarrétt að andlaginu, ketti, og úr slíkum einkaréttarlegum ágreiningi yrði skorið í dómsmáli þeirra í milli. Eins og atvikum málsins væri háttað leiddu almannahagsmunir ekki til þess að húsleitarkrafa næði fram að ganga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um heimild til húsleitar á lögheimili varnaraðila að [...] í [...]. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fallist verði á kröfu hans eins og hún er fram sett um leit og hald.

Forsaga máls þessa er sú að varnaraðili og A, sem samkvæmt gögnum málsins voru í staðfestri samvist, slitu henni 16. nóvember 2011 og tóku í framhaldinu að deila um rétt yfir kettinum B sem ber örmerkið [...]. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2012 var hafnað kröfu varnaraðila um að kötturinn yrði tekinn úr vörslum A og fenginn lögmanni varnaraðila í hendur, þar sem ekki þætti sýnt að skráning kattarins hjá dýraauðkenni.is veitti fullnægjandi sönnur fyrir því hver væri eigandi hans. Þann úrskurð kærði varnaraðili til Hæstaréttar sem með dómi 12. júní 2012 í máli nr. 381/2012 vísaði málinu frá Hæstarétti, þar sem ekki lá fyrir að verðgildi kattarins svaraði til áfrýjunarfjárhæðar samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Atvikum að brottnámi kattarins B frá [...] á [...] 28. júní 2012 er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir játaði varnaraðili við skýrslutöku hjá lögreglu 2. júlí síðastliðinn að hafa farið 28. júní sama ár að heimili A á [...], á meðan hinn síðarnefndi var að heiman, í því skyni að sækja köttinn. Kvaðst varnaraðili einfaldlega hafa farið og náð í köttinn. Kvað varnaraðili A hafa gefið sér köttinn á jólum 2010, og væri hann nú í vörslum sínum. Samkvæmt gögnum málsins kveðst A hins vegar hafa fengið köttinn sem kettling að gjöf frá nafngreindum manni og þá lofað þeim manni að láta köttinn aldrei frá sér. Því sé rangt að hann hafi gefið varnaraðila köttinn.

Af framangreindu er ljóst að varnaraðili og A deila um hvor þeirra sé réttur eigandi kattarins B. Úr slíkum einkaréttarlegum ágreiningi verður, eins og atvikum málsins háttar, skorið í dómsmáli þeirra í milli. Þótt lögregla hafi vald til að rannsaka hvort varnaraðili kunni að hafa framið refsivert brot með brottnámi kattarins umrætt sinn og gera nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við þá rannsókn, leiða almannahagsmunir ekki til þess að krafa sóknaraðila um húsleit hjá varnaraðila nái fram að ganga. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 11. júlí 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur heimili lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu húsleit á lögheimili X, kt. [...] að [...] í [...]. Þess er krafist að heimildin nái til leitar í læstum hirslum og geymslum húsnæðisins. Er þess krafist að krafan sæti meðferð fyrir dómi án þess að kærði verði kvaddur á dómþing við meðferð hennar.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 29. júní sl. hafi A komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu og lagt fram kæru á hendur fyrrum sambýlismanni sínum, X fyrir húsbrot inn á heimili sitt að [...] á [...] og þjófnað á kettinum B.

Kærandi og kærði hafa deilt um köttinn B og meðal annars hafi kærði lagt fram beiðni til héraðsdóms Reykjavíkur til að fá dómsúrskurð í því skyni að fá köttinn tekinn úr höndum kæranda. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur nr. A-47/2012 frá 10. maí 2012, hafi beiðni hans verið hafnað á þeirri forsendu að honum hefði ekki tekist að sanna með nægjanlegum hætti eignarhald sitt á kettinum, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Þann 28. júní sl. hafi kærði farið að heimili kæranda að [...] á [...] á meðan kærandi hafi verið að heiman í því skyni að sækja köttinn. Kærði hafi viðurkennt að hafa fengið aðstoð iðnaðarmanna sem hafi verið að vinna við húsið til þess að láta lyfta sér upp með vinnulyftu að svölum kæranda, þar sem kærði hafi staðið og kallaði á köttinn og þannig fjarlægt hann af heimili kæranda. Ekki sé ljóst á þessu stigi máls hvort kærði hafi farið inn á svalir kæranda á meðan á þessu stóð.

Samkvæmt framangreindu telji lögregla rökstuddan grun vera fyrir því að kærði hafi með ólögmætum hætti tekið köttinn B af heimili kæranda og sé með hann í sínum vörslum. Það sé mat lögreglu að nauðsynlegt sé að gera húsleit hjá kærða, í því skyni að leggja hald á köttinn B og koma honum í hendur kæranda. Er þess krafist að krafan sæti meðferð fyrir dómi án þess að kærði verði kvaddur á dómþing við meðferð hennar.

Meint sakarefni er talið varða við 231. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til rannsóknaraðgerðarinnar er vísað til 1. mgr. 75. gr., sbr. 1. mgr. 74. gr., laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kærandi og kærði, sem eru að skilja, deila um það hvor þeirra eigi köttinn B. Hefur kærði viðurkennt við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa farið og náð í köttinn á heimili kæranda að [...],[...].

Samkvæmt 3. mgr. 74 gr. laga nr. 88/2008 er það skilyrði fyrir húsleit að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt getur ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi.

Í máli þessu liggur fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot er sætt getur ákæru og hann hefur við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkennt að kötturinn B sé í hans vörslum. Í kröfu lögreglu er hins vegar ekki gerð grein fyrir því hverjir rannsóknarhagsmunir séu í húfi fyrir því að orðið verði við kröfu um húsleit. Það að í kröfu lögreglu sé vísað til þess að nauðsynlegt sé að gera húsleit hjá kærða í því skyni að leggja hald á köttinn og koma honum í hendur kæranda geta að mati dómsins ekki talist rannsóknarhagsmunir.

Eru því ekki uppfyllt skilyrði 1. og 3. mgr. 74. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra og verður henni því hafnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um húsleit á lögheimili X, kt. [...] að [...] í [...] er hafnað.