Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2006
Lykilorð
- Skuldamál
- Vitni
- Sönnunarbyrði
- Gagnsök
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2007. |
|
Nr. 481/2006. |
Iceland Express ehf. (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Himni og hafi auglýsingastofu ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) og gagnsök |
Skuldamál. Vitni. Sönnunarbyrði. Gagnsök.
Flugfélagið I og auglýsingastofan H höfðu verið í föstu viðskiptasambandi frá hausti 2003 til janúar 2005 og gerði H á þessu tímaskeiði I reglulega reikninga fyrir störf sín. Í lok janúar 2005 sagði H viðskiptunum upp og gaf út reikning til I að fjárhæð tæplega 10 milljónir króna sem náði til nánar tilgreindrar vinnu H í þágu I allt frá því að viðskipti aðila hófust á árinu 2003 til loka viðskiptasambandsins. Aðilar deildu um skyldu I til að greiða þennan reikning. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fallast yrði á með I að í föstu viðskiptasambandi þar sem reikningum væri framvísað með reglubundnum hætti mætti að öðru jöfnu gera ráð fyrir að verið væri að ljúka uppgjöri fyrir störf á viðkomandi tímabili og bæri sá sem héldi öðru fram sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Gegn mótmælum I var talið ósannað að I hefði fallist á að hluti reikningsgerðar fyrir störf H í þágu I skyldi bíða þar til síðar, sem og að slík reikningsgerð skyldi taka mið af öðrum sjónarmiðum en fyrri reikningar H. Af þessu leiddi að I var sýknaður af kröfu H um greiðslu hins umþrætta reiknings. I hafði fyrir Hæstarétti viðurkennt réttmæti annars og mun lægri reiknings sem aðilar höfðu deilt um fyrir héraðsdómi og var félagið dæmt til að greiða hann ásamt dráttarvöxtum, sem I hafði einnig fallist á að greiða.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2006. Hann krefst þess að sér verði einungis gert að greiða gagnáfrýjanda 606.315 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.081.121 krónu frá 12. maí 2005 til 11. nóvember 2005, en af 606.315 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. nóvember 2006. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 9.700.607 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 189.489 krónum frá 30. nóvember 2004 til 31. desember sama ár, af 795.804 krónum frá þeim degi til 20. janúar 2005, af 899.351 krónu frá þeim degi til 26. sama mánaðar, af 9.993.643 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 10.175.413 krónum frá þeim degi til 11. nóvember sama ár, en af 9.700.607 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Með kröfum sínum fyrir Hæstarétti fellst aðaláfrýjandi á annan tveggja reikninga sem um var deilt í héraði og nam 606.315 krónum. Þá fellst hann á að greiða dráttarvexti af fjárhæð þess reiknings og einnig af fjárhæð þriggja annarra reikninga, sem hann greiddi eftir að málið var höfðað, og miðar þá við upphafstíma einum mánuði eftir þingfestingu málsins í héraði og reiknar vextina til þess dags er hann greiddi reikningana.
Höfuðstóll dómkröfu gagnáfrýjanda er myndaður af fjárhæð fyrrgreinds reiknings 606.315 krónum og reiknings 26. janúar 2005 að fjárhæð 9.531.924 krónur að frádregnum reikningsþætti að fjárhæð 437.632 krónur, sem var sagður stafa af gerð tilboðs í vinnu fyrir aðaláfrýjanda í apríl 2003, 351.512 krónur að viðbættum virðisaukaskatti 86.120 krónum. Var aðaláfrýjandi sýknaður í héraðsdómi af síðastgreindum reikningslið, þó að láðst hafi í dóminum að draga virðisaukaskattinn frá kröfufjárhæðinni sem dæmd var.
I.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi, var fast viðskiptasamband milli málsaðila allt frá hausti 2003 til janúar 2005. Aðaláfrýjandi stundaði á þessum tíma flugrekstur, einkum frá Íslandi til Danmerkur og Englands. Gagnáfrýjandi vann þetta tímabil í hans þágu við gerð auglýsinga og annars konar kynningar- og markaðsstarf. Í lok nóvember 2004 var Guðmundi Pálssyni markaðsstjóra hjá aðaláfrýjanda sagt upp störfum, en hann hafði aðallega séð um samskipti af hálfu aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda. Guðmundur réðst stuttu seinna til gagnáfrýjanda. Eftir að Guðmundur lét af starfi hjá aðaláfrýjanda risu úfar með aðilum um reikningsgerð gagnáfrýjanda svo sem lýst er í héraðsdómi. Sagði gagnáfrýjandi viðskiptunum upp með bréfi 26. janúar 2005 eða sama dag og gefinn var út reikningurinn að fjárhæð 9.531.924 krónur, sem aðilar deila um fyrir Hæstarétti.
Á því tímaskeiði, sem viðskiptasamband aðila stóð, gerði gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda reglulega reikninga fyrir störf sín. Er ágreiningslaust að reikningsgerðin miðaðist við svonefnda viðmiðunarverðskrá 28. ágúst 2003, sem gagnáfrýjandi hafði útbúið og afhent aðaláfrýjanda í þessu skyni. Í verðskránni voru nefndir ýmsir verkþættir í væntanlegu starfi gagnáfrýjanda í þágu aðaláfrýjanda og tekið fram hversu margar „einingar“ skyldu greiddar fyrir hvern verkþátt. Þá var hver eining verðlögð á 7.000 krónur. Fyrst í stað voru gerðir reikningar fyrir einstök verk en frá apríl 2004 var reikningsgerð gagnáfrýjanda hagað með þeim hætti að gerðir voru reikningar, ýmist mánaðarlega eða fyrir hvern hálfan mánuð og tóku þeir þá til þeirra verka sem unnin höfðu verið á viðkomandi tímabili, oftast samkvæmt sérstakri sundurliðun sem fylgdi hverjum reikningi. Aðaláfrýjandi greiddi þessa reikninga jafnóðum eftir að hafa staðfest réttmæti þeirra.
Ágreiningur málsaðila í héraði laut að skyldu aðaláfrýjanda til greiðslu tveggja reikninga gagnáfrýjanda. Annar var gefinn út 31. desember 2004 að fjárhæð 606.315 krónur en hinn 26. janúar 2005 að fjárhæð 9.531.924 krónur. Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi, svo sem fyrr var getið, fallist á að greiða fyrrnefnda reikninginn með vöxtum svo sem greinir í dómkröfum hans. Deilan fyrir Hæstarétti snýst því aðeins um síðarnefnda reikninginn að undanskildum þeim reikningsþætti sem fyrr var nefndur. Með þessum reikningi krefst gagnáfrýjandi þóknunar samkvæmt tímaskýrslum starfsmanna sinna í svonefndu verkbókhaldi vegna vinnu í þágu aðaláfrýjanda, allt frá því viðskipti aðila hófust á árinu 2003 til loka viðskiptasambandsins í janúar 2005. Samkvæmt gögnum sem gagnáfrýjandi hefur lagt fram til stuðnings þessum reikningi er hér um að ræða margvíslega vinnu við þróun og gerð táknmynda, þróun útlits fyrir netpóst, gerð bæklinga og slagorða, gerð sjónvarpsauglýsinga, undirbúning markaðsdags og annars konar kynningarstarfsemi. Gagnáfrýjandi heldur því fram að samið hafi verið um að fyrir þessi verkefni skyldi greitt eftir tímaskráningu í verkbókhaldi en ekki fyrrnefndri viðmiðunarverðskrá. Þá hafi einnig verið samkomulag um að gagnáfrýjandi myndi ekki krefja aðaláfrýjanda um þóknun fyrir þessi verkefni fyrr en síðar. Hafi hann þess vegna gert þennan reikning, þegar fyrir lá að viðskiptasambandinu væri lokið.
Aðaláfrýjandi hefur mótmælt því að sérstakt samkomulag hafi tekist milli aðila með því efni sem gagnáfrýjandi heldur fram. Telur hann sig hafa mátt treysta því að gagnáfrýjandi gerði reikninga jafnóðum fyrir vinnu sína. Þá hefur hann mótmælt reikningnum á efnislegum forsendum, meðal annars með því að greiðsla fyrir svonefnda grunnvinnu, sem þarna sé að hluta um að ræða, hafi verið innifalin í þeim reikningum sem gerðir voru á tímabilinu, verið sé að krefjast greiðslu fyrir verk sem þegar hafi verið greitt fyrir og tímaskráning að baki einstökum verkefnum fái ekki staðist.
II.
Fallist verður á með aðaláfrýjanda, að í föstu viðskiptasambandi, þar sem reikningum er framvísað með reglubundnum hætti, megi að öðru jöfnu gera ráð fyrir að verið sé að ljúka uppgjöri fyrir störf á viðkomandi tímabili. Sá sem heldur því fram að sérstaklega hafi verið samið um að bíða með reikningsgerð og uppgjör vegna hluta þeirra verkefna, sem greiða eigi fyrir, ber sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um þetta. Sama er að segja um sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um að reikningar fyrir slík verkefni aftur í tímann eigi að miðast við önnur sjónarmið en aðrir reikningar í viðskiptum aðila.
Ef aðilar hefðu gert með sér samning með því efni sem gagnáfrýjandi heldur fram hefði honum allt að einu verið rétt að skrifa út reikninga jafnóðum og verkin voru unnin og færa þau aðaláfrýjanda til skuldar í bókhaldi sínu. Þetta gerði hann ekki. Þá er einnig ljóst að gagnáfrýjandi hefði átt auðvelt með að tryggja sér sönnun um slíkt samkomulag, á þeim tíma er það var gert, með því að fá skriflega staðfestingu frá aðaláfrýjanda á tilvist þess. Það gerði hann heldur ekki. Í forsendum hins áfrýjaða dóms var komist að þeirri niðurstöðu að með framburði Guðmundar Pálssonar fyrrverandi markaðsstjóra aðaláfrýjanda hefði verið nægilega sannað að á hefði komist samningur um frestun á gerð og greiðslu reikninga fyrir sum verk gagnáfrýjanda, en Guðmundur mun, svo sem fyrr var greint, að mestu hafa annast samskiptin við gagnáfrýjanda, meðal annars með því að samþykkja reikninga frá honum. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi sagði þessum starfsmanni upp í lok nóvember 2004. Í framhaldi af því kom upp sá ágreiningur um reikningsgerð gagnáfrýjanda sem olli því að viðskiptasamband aðila rofnaði. Þegar til þessa er litið, sem og þess að vitnið réðst til starfa hjá gagnáfrýjanda eftir að aðaláfrýjandi sagði honum upp störfum, verður með vísan til 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki fallist á að vitnisburður þessa vitnis nægi til sönnunar á að sérstakt samkomulag hafi tekist með aðilum um þau atriði sem gagnáfrýjandi heldur fram. Gegn mótmælum aðaláfrýjanda er því ósannað að hann hafi fallist á að hluti reikningsgerðar fyrir störf gagnáfrýjanda í hans þágu skyldi bíða þar til síðar, sem og að slík reikningsgerð skyldi taka mið af tímaskráningu úr verkbókhaldi gagnáfrýjanda. Af þessu leiðir að aðaláfrýjandi verður sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu reikningsins 26. janúar 2005, þar með talið þess hluta hans sem varðar ætluð störf í þágu aðaláfrýjanda í janúar 2005, enda er í málflutningi aðila byggt á sama grundvelli fyrir þennan yngsta þátt í reikningnum sem gert er fyrir aðra þætti hans.
Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjandi aðeins dæmdur til greiðslu höfuðstóls og dráttarvaxta í samræmi við viðurkenningu sína. Eftir þessum málsúrslitum og með hliðsjón af því að báðir aðilar þykja eiga nokkra sök á þeirri óvissu sem upp kom í lögskiptum þeirra og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður gagnáfrýjandi aðeins dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Iceland Express ehf., greiði gagnáfrýjanda, Himni og hafi auglýsingastofu ehf., 606.315 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.081.121 krónu frá 12. maí 2005 til 11. nóvember 2005 en af 606.315 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Himinn og haf, auglýsingastofu ehf., Tryggvagötu 11, Reykjavík, gegn Iceland Express ehf., Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 11. september 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 10.138.239 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 189.489 kr. frá 30. nóvember 2004 til 31. desember 2004, af 795.804 kr. frá þeim degi til 20. janúar 2005, af 899.351 kr. frá þeim degi til 26. janúar 2005, af 10.431.275 kr. frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 10.613.045 kr. frá þeim degi til 11. nóvember 2005, en af 10.138.239 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsatvik
Stefnandi rekur auglýsingastofu og hefur frá því á árinu 2003 unnið í þágu stefnda við gerð auglýsinga og við ýmiss konar kynningar- og markaðsstarfsemi. Stefndi rekur flugfélag sem annast millilandaflug til Danmerkur, Bretlands og Þýskalands. Samstarf aðila hófst haustið 2003 í kjölfar þess að stefndi hafði leitað til nokkurra auglýsingastofa, sem kynntu hugmyndir sínar fyrir stefnda. Var þar um að ræða svokölluð „pitch“ sem er vel þekkt aðferð í heimi auglýsingastarfsemi til að ná til viðskiptavinar. Í september 2003 kom fyrsti reikningurinn frá stefnanda til stefnda. Fyrstu mánuði samstarfsins eða frá september til desemberloka 2003 greiddi stefndi til stefnanda 4.588.467 kr. fyrir unnar auglýsingar. Stefndi segir að viðskiptunum hafi verið þannig háttað að stefnandi gerði stefnda reikning fyrir hvert unnið verkefni fyrir sig sem stefndi greiddi svo í kjölfarið. Í janúar og febrúar 2004 héldust sömu viðskiptahættir milli aðilanna þannig að krafist var greiðslu fyrir hvert verk fyrir sig. Engir formlegir samningar voru gerðir um greiðslur vegna auglýsingastarfa stefnanda fyrir stefnda á þessu tímabili. Fóru samskiptin aðallega fram í tölvupóstsendingum. Voru verkbeiðnir sendar á þann hátt og yfirleitt kom svar til baka þar sem kostnaður fyrir verkið var tiltekinn. Um samskipti stefnda við stefnanda sá að mestu leyti Guðmundur Pálsson, fyrrv. markaðsstjóri stefnda, sem nú starfar fyrir stefnanda. Fékk Guðmundur senda reikninga frá stefnanda sem hann bar svo undir samstarfsmenn sína til staðfestingar. Stefndi segir að í mars 2004 hafi aðilar ákveðið að breyta fyrirkomulaginu um greiðslu reikninganna þannig að greiða átti fyrir alla vinnu stefnanda á tilteknu tímabili í einu lagi, fyrir utan aðkeyptan kostnað við vinnslu auglýsinganna. Þannig hafi stefnandi sent stefnda reikninga annaðhvort í einu lagi fyrir allar innlendar auglýsingar sem stefnandi vann fyrir stefnda og í einu lagi fyrir allar erlendar auglýsingar sem stefnandi vann fyrir stefnda í mánuðinum eða þá einn reikning fyrir hvort tveggja. Hinn 30. nóvember 2004 var Guðmundi Pálssyni sagt upp störfum hjá stefnda og hóf hann skömmu seinna störf hjá stefnanda. Nokkru síðar kom upp ágreiningur milli aðilanna um reikninga stefnanda til stefnda. Hafði stefndi uppi þær athugasemdir að reikningar væru ýmist óumbeðnir, þeir óeðlilega háir eða að krafist væri greiðslu fyrir vinnu sem stefndi hefði þegar greitt fyrir. Hinn 26. janúar 2004 sendi stefnandi stefnda bréf með uppsögn á samstarfi sínu við stefnda. Kom fram í bréfinu að ef stefndi myndi greiða útistandandi skuldir sínar við stefnanda myndi stefnandi afhenda stefnda allt það efni sem stefndi ætti hjá stefnanda. Um leið lagði stefnandi fram reikning dags. 26. janúar 2005 að fjárhæð 9.531.924 kr. Stefndi hefur andmælt þeim reikningi sem og reikningi stefnanda dags. 31. desember 2004 að fjárhæð 606.315 kr.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að þegar stefnandi og stefndu hófu viðskiptin hafi verið samið um að stefndi greiddi stefnanda fyrir vinnu hans í þágu stefnda samkvæmt gjaldskrá stefnanda um fast verð fyrir vinnu auk þess sem stefndi greiddi stefnanda fyrir hugmyndavinnu o.fl. samkvæmt vinnu- og tímaskýrslu stefnanda og skyldi stefndi í þeim tilvikum greiða stefnanda tímagjald fyrir vinnu starfsmanna stefnanda.
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skuldar samkvæmt neðangreindum reikningum að höfuðstól 10.138.239 kr.
Reikningur nr. 523534 dags. 30. nóvember 2004, kr. 189.489.-
Reikningur nr. 523578 dags. 31. desember 2004, kr. 606.315.-
Reikningur nr. 523611 dags. 20. janúar 2005, kr. 103.547.-
Reikningur nr. 523587 dags. 26. janúar 2005, kr. 9.531.924.-
Reikningur nr. 523655 dags. 15. febrúar 2005, kr. 181.770.-
Framangreindir reikningar stefnanda séu vegna vinnu starfsmanna stefnanda í þágu stefnda að beiðni stefnda og vegna útlagðs kostnaðar stefnanda í þágu stefnda.
Reikningur dags. 30. nóvember 2004 sé vegna útlagðs kostnaðar stefnanda í þágu stefnda við gerð sjónvarpsauglýsinga o.fl., sbr. framlagða reikninga og yfirlit. Samkomulag hafi orðið um að stefnandi krefði stefnda um greiðslu útlagðs kostnaðar auk 15% álags á útlagðan kostnað og hafi stefndi greitt án athugasemda reikninga stefnanda með því álagi.
Reikningur
dags. 31. desember 2004 sé vegna vinnu stefnanda við auglýsingagerð og
kynningarstarfsemi í þágu stefnda í nóvember og desember 2004. Stefnandi vísar
til framlagðs yfirlits um þá vinnu sem að baki reikningnum standi, en þar komi fram að stefnandi hafi unnið m.a. við gerð
heilsíðuauglýsingar í bók, heilsíðuauglýsingar í Viðskiptablaðið, við gerð markpósts, netborða, lógó á dómarabúninga, jólaheilsíðuauglýsinga, mynda fyrir Guest DK,
heilsíðuauglýsingar í Inflight Mag, lógó á límmiða o.fl. Þá vísar stefnandi til
yfirlits úr verkbókhaldi sínu kröfu sinni til stuðnings (verkseðlar og
hreyfingarlistar verka). Stefnandi tekur fram
að krafa stefnanda samkvæmt framangreindum reikningi byggist á gjaldskrá hans
um fast verð og vísar stefnandi til
yfirlita úr verkbókhaldi sínu því til stuðnings að vinna sú hafi verið
unnin er greinir í fyrrgreindum reikningi.
Reikningur dags. 20. janúar 2005 sé vegna útlagðs kostnaðar stefnanda í þágu stefnda við gerð sjónvarpsauglýsinga. Stefnandi vísar um útlagðan kostnað til framlagðra reikninga Sagafilm. Stefnandi vekur athygli á því að hann krefur stefnda ekki um álag á þann útlagða kostnað og sé sú eftirgjöf stefnanda umfram skyldu.
Reikningur dags. 26. janúar 2005 sé vegna vinnu stefnanda í þágu stefnda og vísar stefnandi um vinnu á bak við þann reikning til sérstakrar sundurliðunar á verkum og yfirlits úr verkbókhaldi stefnanda. Eins og þar komi fram hafi stefnandi m.a. unnið hugmyndavinnu að tilboðum fyrir stefnda o.fl., unnið við þróun og gerð fjölda táknmynda fyrir stefnda, unnið að þróun útlits fyrir netpóst, unnið að gerð bæklinga, unnið að gerð slagorða, unnið að gerð sjónvarpsauglýsinga, unnið við undirbúning markaðsdags, kynningarstarfsemi ýmiss konar, hugmyndavinnu o.fl. Stefnandi leggi áherslu á að vinna hans hafi einkum falist í hugmyndavinnu í þágu stefnda og vinnu við kynningar- og markaðsmál stefnda. Stefnandi tekur fram að um hafi verið samið að hann myndi krefja stefnda um greiðslu fyrir fyrrgreinda vinnu hans samkvæmt tímaskýrslum starfsmanna stefnanda en ekki samkvæmt gjaldskrá um fast verð. Ástæða þess að ekki hafi verið samið um fast verð samkvæmt gjaldskrá fyrir fyrrgreinda vinnu var sú að ekki hafi verið fjallað beint um alla þá vinnu í gjaldskrá stefnanda um fast verð, en vinna stefnanda hafi m.a. falist í því að koma fram með hugmyndir að nýju útliti stefnda o.fl. Stefnandi leggur áherslu á að samið hafi verið um að greitt yrði fyrir þessa vinnu samkvæmt tímaskýrslum og að sú leið við gjaldtöku fyrir þá vinnu hafi falið í sér afslátt frá því sem gjaldskrá um fast verð mælir fyrir um. Stefnandi bendir m.a. á að fyrrgreind vinna hans hafi m.a. falist í gerð fleiri en 200 táknmynda fyrir stefnda og krefur hann stefnda um greiðslu fyrir þá vinnu samkvæmt tímaskýrslu, 1.927.181 kr. auk virðisaukaskatts. Stefnandi bendir á að samkvæmt gjaldskrá hafi honum verið heimilt að krefja stefnda um greiðslu á mun hærri fjárhæð fyrir gerð táknmyndanna. Stefnandi leggi fram um 180 táknmyndir sem hann hafi unnið fyrir stefnda og hefði krafa stefnanda samkvæmt gjaldskrá hans um fast verð verið um 2.500.000 kr. auk virðisaukaskatts fyrir gerð þeirra táknmynda. Stefnandi hafi unnið fleiri táknmyndir fyrir stefnda, sem fyrrgreindur reikningur taki til og sé áskilinn réttur til að leggja fram fleiri táknmyndir á síðari stigum. Eins og fyrr greinir hafi vinna stefnanda samkvæmt reikningi dags. 26. janúar 2005 m.a. verið hugmyndavinna starfsmanna stefnanda í þágu stefnda sem ætlað hafi verið að nýta í þágu stefnda síðar við ýmiss konar kynningarstarfsemi. Stefnandi bendir m.a. á að hann hafi unnið mikla hugmynda- og kynningarvinnu fyrir stefnda vegna markaðsdags stefnda 10. ágúst 2004. Stefnandi vísar um þá vinnu til framlagðra gagna sem stefnandi hafi gagngert unnið vegna markaðsdagsins og sem kynnt hafi verið þann dag. Stefnandi leggur áherslu á að fyrrgreind vinna hafi verið unnin að beiðni stefnda og vísar stefnandi m.a. um þá staðreynd til framlagðrar yfirlýsingar fyrrverandi markaðsstjóra stefnda, Guðmundar Pálssonar. Fyrrgreind vinna stefnanda hafi verið unnin 2003, 2004 og í janúar 2005 en á sama tíma hafi stefnandi unnið ýmsa aðra vinnu í þágu stefnda og krafið stefnda um greiðslu fyrir þá vinnu samkvæmt gjaldskrá. Um hafi verið samið við stefnda að stefnandi krefði stefnda ekki um greiðslu fyrir fyrrgreinda vinnu fyrr en því verki væri lokið. Því verki lauk í lok janúar 2005 en þá hættu aðilar viðskiptum.
Reikningur dags. 15. febrúar 2005 sé vegna vinnu stefnanda við auglýsingagerð og kynningarstarfsemi í þágu stefnda í janúar 2005. Stefnandi vísar til framlagðs yfirlits um þá vinnu sem að baki reikningnum standi, en þar komi fram að stefnandi hafi unnið við gerð baksíðu í Mbl, A-5 auglýsingar vegna firmadaga, netborða, heilsíðuauglýsingar o.fl. Þá vísar stefnandi til yfirlits úr verkbókhaldi sínu kröfu sinni til stuðnings. Stefnandi tekur fram að krafa stefnanda samkvæmt framangreindum reikningi byggist á gjaldskrá hans um fast verð og vísar stefnandi til yfirlita úr verkbókhaldi sínu því til stuðnings að vinna sú hafi verið unnin er greinir í fyrrgreindum reikningi.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar. Krafa stefnanda um dráttarvexti sé studd við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefnandi hafi lagt fram viðmiðunarverðskrá. Þessi verðskrá hafi aldrei verið formlega samþykkt en þó verið til viðmiðunar hvað varðar verð á auglýsingum eins og heilsíðuauglýsingum og netborðum. Stefndi byggir á því að alltaf hafi verið miðað við að gerður yrði reikningur fyrir hvert verk fyrir sig. Þannig hafi verið innifalið í verði einnar auglýsingar öll sú grunnvinna sem þurfi að inna af hendi til að búa til auglýsingu. Falli þar undir þættir eins og hugmyndavinna og tölvuvinnsla. Sem dæmi um þessa venju í samskiptum aðila málsins er vísað til tölvupóstsendinga milli Guðmundar Pálssonar, sem þá vann fyrir stefnda, og Eiríks og Valdimars, starfsmanna stefnanda, þann 18. nóvember 2003. Skýrt komi fram í athugasemdum Guðmundar við reikning SR522740 að ekki eigi að krefjast greiðslu fyrir grunnvinnuna eina og sér þegar krafist sé greiðslu fyrir tvær heilsíður. Þá megi einnig ráða af þessum tölvupóstsendingum að samkomulagsatriði hafi verið í hvert skipti hversu mikið stefndi myndi greiða stefnanda fyrir unnið verk, sbr. tölvupóstur dags. 13. febrúar 2004.
Reikningur dags. 30. nóvember 2004
Stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu á reikningi dags. 30. nóvember 2004 að fjárhæð 189.489 kr. Reikningur þessi sé vegna útlagðs kostnaðar í þágu stefnda. Ástæða þess að þessi reikningur hafi ekki verið greiddur á réttum tíma sé sú að ágreiningur hafi verið um fjárhæð hans eins og fram komi í tölvupóstssamskiptum aðilanna frá 29. desember 2004 og bréfi stefnda til lögmanns stefnanda dags. 3. febrúar 2005, þar sem komi fram að stefndi hafi beðið um leiðréttingu á reikningnum en engin leiðrétting borist til baka frá stefnanda. Það hafi ekki verið fyrr en stefnandi höfðaði málið á hendur stefnda að gögn hafi verið lögð fram með reikningnum þannig að hægt hafi verið að fara í gegnum hann og sannreyna hvort hann ætti við rök að styðjast. Eftir þá yfirferð hafi stefndi séð að reikninginn beri að greiða. Ágreiningur í málinu lúti því ekki að þessum reikningi.
Reikningur dags. 31. desember 2004
Stefndi mótmælir reikningi dags. 31. desember 2004, að fjárhæð 606.315 kr. sem of háum. Stefndi hafi þegar greitt tvo reikninga frá stefnanda sem dagsettir séu 15. nóvember 2004. Annar sé að fjárhæð 1.156.605 kr. vegna innlendra auglýsinga og hinn er að fjárhæð 314.985 kr. fyrir erlendar auglýsingar. Þá hafi stefndi einnig greitt stefnanda tvo reikninga sem dagsettir séu 30. nóvember 2004, annar að fjárhæð 1.063.230 kr. vegna innlendra auglýsinga og hinn að fjárhæð 132.748 kr. fyrir erlendar auglýsingar. Af fylgiskjölum með reikningi stefnanda frá 31. desember 2004 megi sjá að hluta hans sé að rekja til vinnu sem stefnandi kveðst hafa innt af hendi í nóvember 2004. Stefndi telur ljóst að hann hafi með greiðslu framangreindra reikninga frá því í nóvember 2004 greitt fyrir alla vinnu stefnanda í þeim mánuði. Sé það í fullu samræmi við samkomulag málsaðila og framkvæmd sem hafi verið á útgáfu reikninga frá og með marsmánuði 2004.
Að því er varði þann hluta reikningsins sem sé vegna vinnu sem eigi að hafa verið innt af hendi í desember 2004 þá sé þeim lið reikningsins mótmælt sem of háum. Þessum mótmælum sínum hafi stefndi komið til stefnanda með tölvupósti dags. 18. janúar 2005. Stefndi telur að stefnandi sé að krefjast greiðslu fyrir sama verkið tvisvar í yfirlitinu með reikningnum. Krafist sé greiðslu fyrir „Markpóst-jólagjöfin í ár“ 35.000 kr. og „Jólagjafabréfið-heilsíða í viðskiptablaðið“ 56.000 kr. Þá krefst stefnandi jafnframt greiðslu fyrir gerð heilsíðuauglýsingar rétt eins og um nýja auglýsingu sé að ræða. Hið rétta sé að um sé að ræða eldri auglýsingu sem breytt hafi verið lítillega. Stefndi telur engar forsendur til þess fyrir stefnanda að krefjast fullrar greiðslu fyrir það verk, rétt eins og um nýja heilsíðuauglýsingu væri að ræða. Þá telur stefndi ljóst að endurgjald stefnanda fyrir að taka saman 8-10 myndir sé óeðlilega hátt en þær myndir hafi allar verið til í gagnasafni stefnanda. Af framansögðu verði því að telja að lækka beri reikninginn umtalsvert.
Reikningur dags. 20. janúar 2005
Stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu á reikningi, dags. 20. janúar 2005, að fjárhæð 103.547 kr. Reikningur þessi sé vegna útlagðs kostnaðar stefnanda í þágu stefnda. Ástæða þess að reikningurinn sé ógreiddur sé sú að hann hafi borist stefnda um leið og bréf stefnanda, dags. 31. janúar 2005, og hafi hann þá ekki verið fallinn í gjalddaga. Komi skýrt fram í bréfi stefnda, dags. 3. febrúar 2005, að ef reikningurinn væri réttur yrði hann greiddur um leið og gögn um hann bærust. Það hafi ekki verið fyrr en stefnandi höfðaði málið á hendur stefnda að gögn hafi verið lögð fram með reikningunum þannig að hægt hafi verið að fara í gegnum hann og sannreyna hvort hann ætti við rök að styðjast. Eftir þá yfirferð sjái stefndi að reikninginn beri að greiða. Ágreiningur málsaðila lúti því ekki að þessum reikningi.
Reikningur dags. 15. febrúar 2005
Stefnandi hafi krafið stefnda um greiðslu á reikningi, dags. 15. febrúar 2005, að fjárhæð 181.770 kr. Reikningur þessi sé vegna útlagðs kostnaðar stefnanda í þágu stefnda. Ástæða þess að þessi reikningur sé ógreiddur sé sú að reikningurinn komi fyrst til vitundar stefnda með stefnu sem hafi verið birt fyrir stefnda þann 11. apríl 2005. Ekkert innheimtubréf hafi borist fyrir reikningnum. Stefndi hafi farið í gegnum reikninginn og sé búinn að sannreyna að hann eigi að greiða. Ágreiningur málsaðila lúti því ekki að þessum reikningi.
Reikningur dags. 26. janúar 2005
Stefndi mótmælir reikningi, dags. 26. janúar 2005, að fjárhæð 9.531.924 kr. í heild sinni. Stefnandi haldi því fram í stefnu að um sé að ræða hugmyndavinnu að tilboðum o.fl., vinnu við þróun og gerð fjölda táknmynda, vinnu að þróun útlits fyrir netpóst, vinnu að gerð bæklinga, vinnu að gerð slagorða, vinnu að gerð sjónvarpsauglýsinga, vinnu við undirbúning markaðsdags, kynningarstarfsemi ýmiss konar o.fl. Haldi stefnandi því fram að samið hafi verið um það að hann myndi krefja stefnda um greiðslu fyrir fyrrgreinda vinnu hans samkvæmt tímaskýrslum starfsmanna stefnanda en ekki samkvæmt gjaldskrá um fast verð. Segi stefnandi að ástæða þess að ekki hafi verið samið um fast verð samkvæmt gjaldskrá fyrir fyrrgreinda vinnu hafi verið sú að ekki hafi verið beint fjallað um þessa vinnu í gjaldskrá stefnanda. Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum stefnanda sem röngum. Ekkert samkomulag hafi verið á milli málsaðila um að stefndi skyldi greiða fyrir verkefni unnin af stefnanda samkvæmt tímaskýrslum hans.
Gjaldskrá sú er stefnandi hafi lagt fram í málinu hafi aldrei verið samþykkt af stefnda. Ef skoðaðir séu viðskiptahættir aðilanna á tímabilinu sé ljóst að aldrei hafi verið farið eftir gjaldskránni heldur hafi hún einungis verið til viðmiðunar um verð á hverri og einni auglýsingu fyrir sig. Þá sé ljóst að stærsti hluti þeirrar vinnu sem krafist sé greiðslu fyrir sé innifalin í þegar greiddum reikningum frá stefnanda. Öll sú hugmyndavinna sem liggi að baki auglýsingum, netborðum o.s.frv. eigi að vera innifalin í þeim reikningum sem þegar séu greiddir vegna auglýsinganna. Sama gildi um tölvuvinnslu, gerð tákna o.s.frv.
Krafa stefnanda sé fyrir verk sem unnin hafi verið á tímabilinu 3. apríl 2003 til 13. janúar 2005. Stefndi hafi þegar greitt til stefnanda reikninga vegna vinnu stefnanda frá upphafi samstarfs til og með nóvember 2004. Sú vinna sem stefnandi krefji nú stefnda fyrir og hafi verið unnin í desember 2004 og janúar 2005 sé einnig mótmælt í heild sinni eða sem of hárri. Verði að teljast undarlegt að sú vinna sem innt hafi verið af hendi í desember sé ekki inni í heildarreikningi fyrir mánuðinn dags. 31. desember 2004.
Stefndi telur nauðsynlegt að fjalla sjálfstætt um einstök verk sem tilgreind séu á sundurliðun með reikningi dags. 26. janúar 2005. Þar sem mismunandi háttur hafi verið hafður á útgáfu reikninga verði umfjölluninni skipt eftir tímabilum. Þá verði jafnframt fjallað sjálfstætt um einstaka stóra verkliði eins og kröfu á greiðslu fyrir „Hugmyndir að tilboðum fyrir Iceland Expres“ og „Hugmyndavinnu fyrir haust 2004“ og kröfu á greiðslu fyrir „Nýjar táknmyndir“.
Tímabilið frá apríl 2003 til mars 2004
Í upphafi samskipta aðilanna hafi verið samið sérstaklega um hvern og einn reikning fyrir sig. Stefnandi hafi útbúið reikninga sem hann sendi á stefnda. Guðmundur Pálsson, fyrrverandi markaðsstjóri stefnda, hafi svo borið reikningana undir þá starfsmenn stefnda sem báðu um verkið og þeir staðfest með undirskrift sinni. Á þeim greiddu reikningum sem stefndi hafi lagt fram í málinu megi greinilega sjá að þessi háttur hafði verðið hafður á. Ef starfsmenn stefnda könnuðust ekki við að hafa beðið um það verk sem krafist var greiðslu á þá hafi þeim reikningum verið mótmælt. Þannig mótmælti til að mynda Guðmundur Pálsson of háum reikningum stefnanda sem stefnandi þá annaðhvort gaf eftir eða felldi niður í mánuðinum á eftir. Sem dæmi um þetta verklag í samskiptum aðila málsins er vísað til tölvupóstsendinga milli Guðmundar Pálssonar og Eiríks og Valdimars, starfsmanna stefnanda, þann 18. nóvember 2003. Megi greinilega sjá af þessum samskiptum aðilanna að stefndi hafi alltaf litið svo á að öll grunnvinna væri innifalin í reikningum stefnanda fyrir hvert verk fyrir sig. Af gögnum málsins verði séð að stefnandi hafi aldrei krafið stefnda sjálfstætt fyrir þessa vinnu enda taldi stefndi óumdeilt að hún væri óaðskiljanlegur hluti af hverju verki sem reikningur væri gerður fyrir. Það hafi fyrst verið eftir að samstarfi málsaðila lauk sem reikningur vegna verkliða af þessu tagi hafi verið gefinn út. Engar líklegar skýringar hafi verið gefnar á því hvers vegna þessir verkliðir falli ekki undir þau verk sem þegar hafi verið greitt fyrir á sama tímabili eða sýnt fram á að þessi vinna hafi verið innt af hendi að ósk stefnda.
Stefndi vill einnig benda á þá staðreynd að erfitt geti reynst fyrir hann að sýna fram á að öll verk sem unnin hafi verið á þessu tímabili séu innifalin í þegar greiddum reikningum. Verði þar í fyrsta lagi að líta til þess hversu langt sé um liðið síðan verkin voru unnin. Þá sé orðalag á heiti verka sem krafist sé greiðslu fyrir með þeim hætti að afar erfitt, ef ekki ómögulegt, sé að bera nákvæmlega saman þau verk sem greitt hafi verið fyrir og þau verk sem krafist sé greiðslu á. Sem dæmi um þetta megi benda á verk nr. 9030345 á framlagðri sundurliðun vegna reiknings dags. 26. janúar 2005. Þar krefji stefnandi stefnda fyrir verk sem beri heitið „Iceland Express auglýsingar“ 609.506 kr. Verkið sé unnið á tímabilinu 3. september 2003 til 25. nóvember 2003. Þessi lýsing án frekari tilgreiningar gefi engan veginn til kynna hvað í raun og veru sé verið að rukka fyrir. Verði því að telja að stefndi hafi þegar greitt fyrir þennan verklið enda hafi stefndi greitt stefnanda 4.588.467 kr. fyrir auglýsingar á tímabilinu september til desemberloka. Þar hafi stefndi í öllum tilvikum verið að greiða fyrir auglýsingar Iceland Express.
Þá sé á það bent að stefnandi krefjist greiðslu fyrir „tölvupikkles“ á hreyfingarlistanum með yfirlitinu hjá stefnanda sem stefndi geti alls ekki borið ábyrgð á. Þá megi einnig benda á verk nr. 9030511 á yfirlitinu vegna reiknings dags. 26. janúar 2005. Þar krefjist stefnandi greiðslu fyrir „Heilsíða Kaupmannahöfn“, 96.990 kr. og hafi verkið verið unnið á tímabilinu 2. september 2003 til 4. september 2003. Engar skýringar hafi verið gefnar á því af hverju þetta eina verk eigi að hafa verið skilið eftir þegar reikningar voru gerðir vegna septembermánaðar. Þá megi benda á þá staðreynd að stefndi hafi greitt reikninga, dags. 24. október 2003, sem báru verkheitin „Framhaldsflug Borgir Heilsíða“ þar sem þetta verk gæti hæglega verið innifalið í. Þá hafi stefndi einnig greitt reikning dags. sama dag sem hafi borið verkheitið „Framhaldsflug Borgir 5 kubbar“. Þá hafi stefndi einnig greitt fyrir reikninga dags. 1. desember 2003 og 15. desember 2003 þar sem krafist sé greiðslu fyrir danskar auglýsingar sem gætu átt við þetta eina tiltekna verk. Einnig megi á það benda að fjárhæð þessa verkefnis sé í hróplegu ósamræmi við yfirlýsingar stefnanda í stefnu sinni þar sem hann segir um reikninginn „Stefnandi tekur fram að um var samið að hann myndi krefja stefnda um greiðslu fyrir fyrrgreinda vinnu hans skv. tímaskýrslum starfsmanna stefnanda en ekki skv. gjaldskrá um fast verð. Ástæða þess að ekki var samið um fast verð skv. gjaldskrá fyrir fyrrgreinda vinnu var að ekki var beint fjallað um alla þá vinnu í gjaldskrá stefnanda um fast verð“. Augljóst sé af gjaldskránni að verð fyrir heilsíðu hafi verið 56.000 kr. en hún hafi verið eins og áður hafi komið fram aðeins til viðmiðunar um verð á verkum stefnanda fyrir stefnda. Varðandi önnur verk á tímabilinu sem stefnandi krefjist greiðslu á sé vísað til sömu sjónarmiða og hér hafa komið fram.
Þess beri að geta að tvenns konar háttur hafi verið á greiðslum fyrir mars 2003 þar sem bæði hafi verið krafist greiðslu fyrir hvert og eitt verk auk eins heildarreiknings fyrir aðra vinnu í mánuðinum.
Tímabilið frá apríl 2004 til 1. desember 2004
Áður hafi verið getið þeirra breytinga sem hafi orðið á útgáfu reikninga stefnanda til stefnda í mars/apríl 2004. Að samkomulagi hafi orðið milli aðila að stefnandi myndi gefa út reikninga fyrir hvern mánuð í stað þess að gefa út reikning fyrir hvert og eitt verk. Reikningar frá þessum tíma beri það með sér að um hafi verið að ræða heildarreikninga fyrir verk stefnanda í hverjum mánuði á þessum tíma. Sjáist þetta m.a. af lýsingum eins og „mánaðarreikningur í mars 2003“, innlendar og erlendar auglýsingar í apríl og maí, fyrir „verkefni í júní 2004“ og „ýmislegt“, „smáverk í júlí“, „auglýsingar í ágúst“ beri með sér. Af þessu sé fullkomlega ljóst að mati stefnda að stefnandi hafi krafist greiðslu fyrir öll unnin verk á hverju tímabili fyrir sig. Reikningar vegna þessara verka hafi þegar verið greiddir.
Sem dæmi um verk sem stefndi hafi greitt fyrir og stefnandi krefst nú greiðslu fyrir að nýju megi nefna verk nr. 9040530 á fyrrgreindu yfirliti. Þar krefji stefnandi stefnda fyrir verk sem beri heitið „Sjónvaugl v. enska boltans á S1“ 5.353 kr. Verkið sé unnið 11. ágúst 2004. Í yfirliti með reikningi dags. 30. september 2004, sem beri heitið „Reikningar september“ og stefndi hafi greitt fyrir hafi verið kostnaðarliður sem bar heitið „Sjónvarpsauglýsing - fótbolti“ 200.000 kr. Sé augljóst að þar með hafi stefndi verið að greiða fyrir alla þá vinnu fyrir september, þ.m.t. vegna vinnu við sjónvarpsauglýsingu sem tengdist enska fótboltanum. Þá megi nefna verk nr. 9040532 á yfirlitinu. Þar krefji stefnandi stefnda fyrir verk sem beri heitið „Popp TV - sponsor skilti“ 157.546 kr. Verkið sé unnið á tímabilinu 17. ágúst 2004 til 1. september 2004 en mesta vinnan við verkið hafi farið fram á tímabilinu 23. ágúst 2004 til 27. ágúst 2004. Hinn 31. ágúst 2004 hafi „stefnandi” greitt reikning að fjárhæð 954.915 kr. fyrir „auglýsingar í ágúst“. Í yfirlitinu með reikningnum komi fram að í honum sé innifalinn reikningur fyrir „Popptv skilti“ 99.000 kr. Af þessu sé því augljóst að stefndi hafi greitt fyrir alla vinnu vegna þessarar tilteknu auglýsingar, sem og annarra sem unnar voru í ágústmánuði 2004.
Sambærilegt dæmi sé verk nr. 9040573 á margnefndu yfirliti. Þar krefji stefnandi stefnda fyrir verk sem beri heitið „Viðskiptaauglýsingar - hugmyndavinna og þróun“ . 306.518 kr. sem unnið var á tímabilinu 17. ágúst til 21. október. Hinn 15. september 2004 hafi stefndi greitt stefnanda 841.620 kr. fyrir „auglýsingar fyrir 1/2 sept“. Í framlögðu yfirliti með þeim reikningi komi fram að í honum séu innifaldir reikningar fyrir „Viðskiptaauglýsing - bréfaklemmuflugvél - heilsíða“ 56.000 kr. „Viðsk.augl - br.klemmuflugv. - Frjáls verslun“ 21.000 kr. og „viðskipaaugl. bréfakl.flugv. - 2x4“ 56.000 kr. Þá hafi stefndi greitt stefnanda 15. október 2004 1.164.075 kr. fyrir „Innlendar auglýsingar“. Í yfirlitinu með reikningnum komi fram að í honum séu innifaldir reikningar fyrir „Viðskiptaferðir - A-4 - Ódýrustu sætin“ 42.000 kr. „Viðskiptaferðir - br.kl.flugvél - breyta heilsíðu í A-4“ 21.000 kr. og „viðskiptaferðir - bréfaklemmuauglýsingin í A-4“ 21.000 kr. Á þessu síðastnefnda yfirliti sjáist að stefndi hafi greitt stefnanda m.a. fyrir að „breyta heilsíðu“ sem hljóti að vera einhvers konar þróun við auglýsinguna sem í felist einhver hugmyndavinna. Af þessu megi því leiða að með þessum reikningum hafi stefnandi greitt fyrir alla vinnu stefnanda að baki auglýsingunum þ.á m. fyrir hugmyndavinnu og þróun þeirra.
Þar sem stefndi telur augljóst að hann hafi greitt fyrir alla vinnu stefnanda á umræddu tímabili muni hann ekki fara hér í gegnum önnur verk tímabilsins samkvæmt framlögðu yfirliti sem stefnandi krefji nú stefnda fyrir. Þó sé ljóst að auk þess að vera þegar búinn að greiða fyrir alla þá vinnu sem þar sé krafist greiðslu fyrir sé einnig um að ræða óumbeðin verk sem stefndi kannist ekki við.
Tímabilið frá 1. desember 2004 til loka samstarfsins
Stefndi telur ljóst að mörg þeirra verka sem fram komi á yfirlitinu og stafi frá þessu tímabili falli undir aðra reikninga sem þegar hafi verið greitt fyrir. Sem dæmi megi nefna að fram komi á reikningi dags. 31. desember 2004, að fjárhæð 606.315 kr., að verið sé að krefjast greiðslu fyrir „2 ára afmæli - frítt fyrir börn - BAKSÍÐAN Fbl.“ 42.000 kr. Sé um heildarkostnað að ræða fyrir 4*30 auglýsingu sbr. framlagða verðskrá stefnanda sem hafi verið til viðmiðunar í samskiptum aðilanna. Stefnandi krefji stefnda aftur fyrir greiðslu á vinnu við sömu auglýsingu í reikningi dags. 26. janúar 2005, en í yfirliti með þeim reikningi komi fram að verið sé að krefjast greiðslu fyrir „2 ára afmæli IE” kr. 10.707. Þarna sé greinilega verið að krefja stefnda fyrir greiðslu á sama verkinu tvisvar. Seinni fjárhæðin eigi greinilega að vera inni í þeirri fyrri. Augljóst sé að þessi háttur hafi verið hafður á í viðskiptum aðilanna á meðan á samstarfi þeirra stóð og því beri ekki að greiða fyrir þennan verklið. Það sama eigi við um önnur verk á tímabilinu sem stefnandi krefji stefnda um greiðslu fyrir. Stefndi telur ljóst að meginhluti verka frá þessum tíma og tilgreind séu í reikningi stefnanda frá 26. janúar 2005 séu innifalin í reikningi stefnanda frá 31. desember 2004.
„Hugmyndavinna stefnanda“
Stefndi sjái sig einnig knúinn til að mótmæla sérstaklega tveimur verkliðum á yfirlitinu. Sé þar um að ræða kröfu á greiðslu fyrir hugmyndavinnu stefnanda fyrir stefnda, sbr. verk nr. 9030265 að fjárhæð 351.512 kr. „Hugmyndir að tilboðum fyrir Iceland Express“ og verk nr. 9040507 að fjárhæð 2.139.734 kr. „Hugmyndavinna f. haust 2004“. Stefndi bendir á það að öll þessi vinna liggi inni í öðrum þegar greiddum reikningum stefnda til stefnanda. Öllum fullyrðingum stefnanda um að samið hafi verið um greiðslu fyrir þessa hugmyndavinnu sérstaklega er mótmælt sem röngum. Engir formlegir samningar hafi verið á milli aðilanna meðan á samvinnu þeirra stóð. Þá sé engan veginn hægt að sjá á því verklagi sem komist hafi á með aðilum að ekki ætti að krefjast greiðslu fyrir þessa vinnu samkvæmt verðskrá þeirri sem hafi verið til viðmiðunar um kostnað á auglýsingum. Þá hafi stefnandi aldrei minnst á þennan kostnað fyrr en eftir að samstarfi málsaðila lauk.
Varðandi hugmyndavinnu stefnanda fyrir stefnda að fjárhæð 351.512 kr. þá hafi verið um að ræða kynningu hugmynda þann 9. apríl 2003. Hafi þar verið um að ræða vel þekkta aðferð í heimi auglýsingastarfsemi til að ná til viðskiptavinar en venja sé að krefja ekki greiðslu fyrir svokölluð „pitch“ ef auglýsingafyrirtækið nái viðskiptunum. Sé þá eingöngu krafið fyrir þá vinnu sem innt sé af hendi og síðar nýtist beint í gerð kynningarefnis eða auglýsinga. Þannig hafi önnur fyrirtæki í sömu starfsemi verið með kynningar fyrir stefnda á sama tímabili. Enn hafa engir reikningar borist stefnda frá þeim auglýsingafyrirtækjum vegna þeirra kynninga og það þrátt fyrir að kynningar hafi ekki leitt til frekara samstarfs við stefnda. Engin rök standi til þess að greiða fyrir sölukynningu af þessu tagi. Augljóst sé að stefnandi hafi verið sömu skoðunar allt þar til samstarfi málsaðila lauk. Engin skýring hafi verið gefin á því hvers vegna reikningur vegna þessa verks hafi ekki verið gefinn út á árinu 2003 ef stefnandi hafi á annað borð verið þeirrar skoðunar að greiða bæri fyrir þessa kynningu. Þá liggi ekkert fyrir um það að efni úr þessari kynningu hafi verið nýtt í starfsemi stefnda en ekki greitt fyrir sérstaklega.
Sömu sjónarmið gildi um hugmyndavinnu stefnanda fyrir stefnda sem tilgreind sé sem verk nr. 9040507 að fjárhæð 2.139.734 kr. Á yfirliti stefnanda komi fram að verkheitið á reikningnum sé „Hugmyndavinna f. haust 2004“. Stangist þetta verkheiti á við verkheiti úr verkbókhaldi þar sem stefnandi hafi lagt fram tímaskýrslu starfsmanna sinna fyrir verkið. Komi þar fram verkheitið „Folder viðskiptaþjónusta“. Verkheitið „Folder viðskiptaþjónusta“ komi einnig fram á yfirlitinu vegna reiknings dags. 26. janúar 2005 þar sem stefndi sé krafinn greiðslu á 155.703 kr. Að mati stefnda sé um að ræða almennt verkheiti þar sem starfsmenn stefnda skrái verk sín til þess eins að yfirmaður þeirra sjái í hvað tími þeirra fari. Aldrei hafi staðið til að reikningsfæra slík verk sérstaklega heldur séu þau innifalinn í hverjum og einum reikningi sem stefndi hafi þegar greitt fyrir.
Í stefnu kveðst stefnandi hafa unnið mikla hugmynda- og kynningarvinnu fyrir stefnda vegna markaðsdags stefnda þann 10. ágúst 2004. Segir stefnandi þessa vinnu hafa verið unna að beiðni stefnda og vísar m.a. til yfirlýsingar Guðmundar Pálssonar, fyrrverandi starfsmanns stefnda en núverandi starfsmanns stefnanda. Hafi þar verið um að ræða svokallaðan „Markaðsdag“ þar sem aðilar málsins hafi ákveðið að hittast og fara yfir samstarf sitt. Hafi verið ætlunin að stefndi myndi fara yfir sínar hugmyndir og áætlanir í framtíðinni og kynna fyrir stefnanda auk þess að fá hugmyndir frá stefnanda. Stefnandi hafi lagt fram tímaskýrslu starfsmanna sinna fyrir markaðsdaginn. Sé augljóst að stór hluti þeirrar vinnu sem þar sé krafist greiðslu á hafi ekki verið fyrir umræddan dag. Megi sem dæmi nefna að stefnandi krefji stefnda fyrir vinnu starfsmanns síns, Guðlaugs Aðalsteinssonar, í júní 2004 samkvæmt verkbókhaldi en ekki hafði verið tekin ákvörðun um að halda markaðsdaginn á þeim tímapunkti. Þá lýsi starfsmaðurinn verki sínu sem „Hugmyndavinna, tillögur f. IE“ allan tímann á sama hátt auk þess sem þessi meinta vinna hafi haldið áfram í þó nokkurn tíma eftir markaðsdaginn eða til 10. september 2004. Stefndi telur engar forsendur til greiðslu á þriðju milljónar króna fyrir aðkomu stefnanda að umræddum fundi. Því er mótmælt að stefndi hafi falið stefnanda að leggja í einhverja slíka vinnu sem réttlætt geti reikning af þessu tagi.
„Nýjar táknmyndir“
Stefndi mótmælir einnig sérstaklega þeim verklið í yfirlitinu vegna reiknings dags. 26. janúar 2005, sem beri heitið „Nýjar Táknmyndir“, að fjárhæð 1.927.181 kr. Stefndi bendir á að vinna við gerð táknmynda sé óaðskiljanlegur hluti verka sem þegar hafi verið reikningsfærð og greidd. Öllum fullyrðingum stefnanda um að samið hafi verið um að greiða ætti sérstaklega fyrir þessar táknmyndir sé mótmælt. Engir formlegir samningar hafi verið á milli aðilanna meðan á samvinnu þeirra stóð. Þá sé engan veginn hægt að sjá á því verklagi sem komist hafi á með aðilum að það ætti að krefjast greiðslu sérstaklega fyrir þessa vinnu. Þá hafi verðskrá sú sem stefnandi hafi lagt fram í málinu einungis verið til viðmiðunar um kostnað á auglýsingum, enda hafi allan tímann verið gert ráð fyrir því að öll grunnvinna væri innifalin í greiðslu fyrir hverja og eina auglýsingu. Sem dæmi um þann skilning að táknmyndir séu innifaldar í auglýsingum stefnda megi benda á verk/auglýsingu sem stefnandi krefjist greiðslu fyrir í reikningnum frá 26. janúar 2005. Um sé að ræða verk nr. 9040505 sem beri heitið „ Pakkatilboð - flug og hótel“ 33.285 kr. Komi skýrt fram á hreyfingarlistanum með verkinu að innifalið í verðinu sé „pakkalógó útbúið“. Sé þá stefnandi að krefja stefnda annað sinni fyrir greiðslu á sömu táknmyndinni þar sem hann krefjist einnig greiðslu fyrir hana undir verkliðnum „Nýjar táknmyndir“. Þá bendir stefndi á að táknmyndin sem hér um ræðir og líti út eins og einhvers konar teningur hafi þegar verið greidd af hálfu stefnda í reikningi dags. 31. júlí 2004. Megi því segja að stefndi hafi verið krafinn þrisvar sinnum fyrir einu og sömu táknmyndina. Þeirri framkvæmd mótmælir stefndi harðlega.
Þá vill stefndi benda á þá staðreynd að næstum öll lógó eða táknmyndir sem stefnandi hefur lagt fram sé að finna í þegar greiddum reikningum stefnda. Sem dæmi þá séu táknmyndir af bjórkönnum og þremur persónum einnig að finna í auglýsingu sem greitt var fyrir með reikningi SR522764, dags. 14. nóvember 2003, að fjárhæð 156.870 kr. og á auglýsingu sem greitt var fyrir með reikningi nr. SR522918, dags. 20. janúar 2004 að fjárhæð 186.750 kr. Fjölmörg dæmi önnur mætti nefna og vísar stefndi í því sambandi til framlagðra gagna sem hafa að geyma auglýsingar sem greitt hafi verið fyrir. Að mati stefnda sé fullkomlega ljóst að innifalið í gerð auglýsingar sé gerð þeirra táknmynda sem þar séu notaðar. Engar forsendur séu til þess að aðskilja táknmyndagerð frá öðrum þáttum í auglýsingagerðinni með þeim hætti sem stefnandi vilji gera. Sé ómögulegt fyrir stefnda að átta sig á því hvaða lógó hann hafi greitt fyrir og hver ekki, enda hafi hann alltaf staðið í þeirri meiningu að greiðsla fyrir þau væri innifalin í þegar greiddum reikningum stefnda eins og margoft hafi komið fram.
Tómlæti stefnanda.
Með reikningnum frá 26. janúar 2005 krefjist stefnandi sem fyrr segir greiðslu fyrir verk sem eiga að hafa verið unnin á tímabilinu frá því í mars 2003 og fram til ársloka 2004. Af samskiptum málsaðila megi sjá að alltaf hafi staðið til að stefnandi krefði stefnda fyrir greiðslu á vinnu sinni jafnóðum og hún hafi komið til. Hafi samskiptum aðilanna í fyrstu verið þannig háttað að reikningar hafi borist fyrir hvert unnið verk. Megi ráða af fjölda reikninganna og þeirri háu fjárhæð sem stefndi hafi greitt til stefnanda að stefndi hafi mátt ætla að um fullnaðaruppgjör væri að ræða á hverju tímabili. Sé það ennfremur til marks um þennan skilning aðilanna að frá apríl 2004 krafði stefnandi stefnda mánaðarlega fyrir öll verk unnin í hverjum mánuði fyrir utan aðkeypta þjónustu. Stefndi telur ljóst að hann hafi mátt treysta því að með fyrri reikningum, sem þegar hafi verið greiddir, hafi öll vinna vegna þeirra tímabila verið greidd að fullu. Út frá því hafi verið gengið af hálfu stefnda þegar reikningar og vinnuskýrslur voru yfirfarnar og samþykktar á sínum tíma. Hagsmunir stefnda af því að fá jafnóðum reikninga vegna verka stefnanda voru miklir, enda ómögulegt nú, þegar svo langt sé um liðið, að fara af nákvæmni yfir þau verk sem stefnandi kveður standa eftir og bera saman við þegar greidda reikninga.
Stefndi telur af ofangreindum ástæðum að krafa stefnanda, teljist til hennar hafa stofnast, hafi fallið niður vegna tómlætis. Þá telur stefndi að þetta aðgerðarleysi stefnanda skipti miklu máli við sönnunarmat dómsins. Stefndi hafi sýnt fram á það með skýrum hætti að fjölmargir verkliðir í reikningi stefnanda eigi ekki rétt á sér og í mörgum tilvikum hafi þegar verið gerður reikningur sömu verka. Stefndi telur að gera beri ríkar kröfur til stefnanda um sönnun á því að umrædd verk hafi verið unnin og það samkvæmt skýrri beiðni stefnda. Þá verði jafnframt að gera þá kröfu til stefnanda að hann sýni fram á að greiðsla hafi verið áskilin vegna umræddra verka en að ekki hafi verið um að ræða verk eða verkhluta sem í ljósi umfangsmikilla viðskipta málsaðila hafi aldrei staðið til að krefjast greiðslu fyrir.
Stefndi telur einnig skipta máli í þessu sambandi sú staðreynd að stefnandi hafi undir höndum töluvert magn gagna og auglýsinga sem stefnandi hafi neitað að afhenda stefnda. Sé því borið við af hálfu stefnanda að félagið njóti haldsréttar í gögnunum þar til þeir reikningar sem um sé deilt í málinu hafi verið greiddir. Eins og reikningsgerð stefnanda sé háttað, þ.e. krafist sé greiðslu á verkum sem eigi að hafa verið unnin á rúmlega tveggja ára tímabili, eigi stefndi óhægt um vik að verjast kröfunum án fulls aðgangs að öllu efni sem sé í vörslum stefnanda og unnið hafi verið fyrir stefnda. Að mati stefnda verði að líta til þessa við mat á réttmæti reikninga stefnanda frá 31. desember 2004 og 26. janúar 2005.
Stefnandi hafi lagt fram yfirlýsingu Guðmundar H. Pálssonar, fyrrverandi markaðsstjóra, stefnda dags. 20. janúar 2005. Yfirlýsingunni sé mótmælt sem rangri. Við mat á sönnunargildi yfirlýsingarinnar verði að hafa í huga að Guðmundi var sagt upp þann 30. nóvember 2004 hjá stefnda þegar eigendaskipti urðu að fyrirtækinu og lét hann samdægurs af störfum. Guðmundur hóf í kjölfarið störf hjá stefnanda og hefur augljósa hagsmuni af því að taka undir framsetningu stefnanda á málsatvikum.
Stefndi hafi þegar fallist á réttmæti þriggja þeirra reikninga sem stefnandi krefst greiðslu á. Um reikningana frá 31. desember 2004 og 26. janúar 2005 sé hins vegar ágreiningur, svo sem að framan sé rakið. Stefndi telur reikningana ranga og telur að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að um sé að ræða verk, sem ekki hafi þegar verið reikningsfærð og að þau hafi verið unnin að beiðni og á ábyrgð stefnda. Stefndi telur að greiðslukrafa stefnanda verði ekki reist á umræddum reikningum.
Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefndi hefur fallist á réttmæti þriggja þeirra reikninga sem stefnandi krafðist greiðslu á. Um reikningana frá 31. desember 2004 að fjárhæð 606.315 kr. og 26. janúar 2005 að fjárhæð 9.531.924 kr. er hins vegar ágreiningur með aðilum.
Aðilar gerðu ekki skriflegan samning sín á milli um viðskipti sín, en þau þróuðust þannig að stefnandi gerði stefnda í fyrstu reikninga fyrir unnin verk en síðar voru sendir reikningar mánaðarlega. Þeir reikningar sem deilt er um í málinu voru gefnir út skömmu áður en viðskiptum aðila lauk. Eiríkur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, og Guðmundur Pálsson, fyrrverandi markaðsstjóri stefnda, sem sáu um samskiptin milli aðila, hafa báðir borið fyrir dómi að samkomulag hafi verið um það að fresta útgáfu reikninga að einhverju leyti. Verður og við það miðað. Þá heldur stefnandi því fram að samið hafi verið um það milli aðila að stefndi greiddi stefnanda fyrir vinnu hans í þágu stefnda samkvæmt gjaldskrá stefnanda um fast verð fyrir vinnu auk þess sem stefndi greiddi stefnanda fyrir hugmyndavinnu o.fl. samkvæmt vinnu- og tímaskýrslu stefnanda og skyldi stefndi í þeim tilvikum greiða stefnanda tímagjald fyrir vinnu starfsmanna stefnanda. Þykir rétt að leggja kröfugerð stefnanda til grundvallar að þessu leyti, sbr. meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausasfjárkaup.
Stefndi mótmælir reikningi dags. 31. desember 2004, að fjárhæð 606.315 kr., sem of háum. Stefnandi hefur lagt fram sundurliðun yfir þá vinnu sem reikningurinn tekur til og yfirlit úr verkbókhaldi til stuðnings reikningskröfu sinni. Þar kemur fram að stefnandi hafi unnið m.a. við gerð heilsíðuauglýsingar í bók, heilsíðuauglýsingar í Viðskiptablaðið, við gerð markpósts, netborða, lógó á dómarabúninga, jólaheilsíðuauglýsingar, mynda fyrir Guest DK, heilsíðuauglýsingar í Inflight Mag, lógó á límmiða o.fl. Stefndi hefur ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að með greiðslu þeirra reikninga sem hann greiddi og eru frá 15. og 30. nóvember 2004 hafi hann að hluta greitt fyrir vinnu sem stefnandi geri kröfu um með reikningi dags. 31. desember 2004. Verður ekki fallist á lækkun reikningsins af þeim sökum.
Stefndi vísar til mótmæla sinna vegna reiknings þessa í tölvupósti frá 18. janúar 2005 til Eiríks Aðalsteinssonar. Stefndi telur að stefnandi sé að krefjast greiðslu fyrir sama verkið tvisvar í yfirlitinu með reikningnum. Krafist sé greiðslu fyrir „Markpóst-jólagjöfin í ár“ 35.000 kr. og „Jólagjafabréfið-heilsíða í viðskiptablaðið“ 56.000 kr. Þá krefst stefnandi jafnframt greiðslu fyrir gerð heilsíðuauglýsingar rétt eins og um nýja auglýsingu sé að ræða. Þá telur stefndi ljóst að endurgjald stefnanda fyrir að taka saman 8-10 myndir sé óeðlilega hátt en þær myndir hafi allar verið til í gagnasafni stefnanda. Telur stefndi að lækka beri reikninginn umtalsvert af þessum sökum.
Fyrir dómi hefur Eiríkur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, andmælt því að krafist sé greiðslu fyrir sama verkið tvisvar. Heilsíða í Viðskiptablaðinu sé auglýsing í dagblaði, markpóstur sé prentaður á pappír og dreift til fólks. Töluverð vinna felist í því að undirbúa markpóst fyrir prent, það sé unnið öðruvísi við skjölin áður en þeim sé skilað í prent eða send í dagblað. Það sé ólíkur ferill. Varðandi útfærslu á heilsíðu þá sé miðað við 56.000 kr. samkæmt verðskrá, ekki sé farið ofan í tímaskýrslur. Varðandi vinnu við leit að myndum væri það mat stefnanda að þetta væri sanngjarnt endurgjald. Um var að ræða leit að myndum fyrir danskt blað í myndabönkum á netinu. Það væri ekki óeðlilegt að 3-4 tíma tæki að leita að þessum myndum.
Að þessu virtu þykja ekki vera efni til að lækka reikningskröfu stefnanda vegna ofangreindra atriða. Stefndi hefur að öðru leyti ekki gert athugasemdir við þennan reikning og verður hann tekinn til greina að fullu með 606.315 kr.
Stefnandi hefur lagt fram sundurliðun og ítarlegt yfirlit úr verkbókhaldi yfir þau verk sem reikningurinn frá 26. janúar 2005 er grundvallaður á. Guðmundur Pálsson, fyrrverandi markaðsstjóri stefnda, hefur borið fyrir dómi að vinna sú sem greinir í þeirri sundurliðun hafi verið umbeðin af stefnda. Stefndi hefur mótmælt reikningi þessum í heild sinni og rökstutt mótmæli sín sérstaklega varðandi nokkur tilgreind verk. Umfjöllun stefnda um verkin er skipt eftir tímabilum, eins og fram kemur í greinargerð hans. Þá hefur stefndi fjallað sérstaklega um einstaka stóra verkliði eins og „Hugmyndir að tilboðum fyrir Iceland Express“, „Hugmyndavinnu fyrir haust 2004“, „Nýjar táknmyndir“ og mótmælt greiðslukröfum stefnanda vegna þeirra.
Tímabilið frá apríl 2003 til mars 2004
Stefndi hefur mótmælt sérstaklega verki nr. 9030345, „Iceland Express auglýsingar“ 609.506 kr. Samkvæmt yfirliti úr verkbókhaldi stefnanda virðist vinna við verk þetta hafa byrjað 12. maí 2003 og verið unnið í því af og til fram í janúar 2004. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að greitt hafi verið fyrir þessa vinnu og þeir reikningar sem hann vísar til í því sambandi varða önnur tilgreind verk en hér um ræðir. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda vegna þessa.
Stefndi hefur mótmælt sérstaklega verki nr. 9030511, „Heilsíða Kaupmannahöfn“ 96.990 kr., sem unnið var á tímabilinu 2. september 2003 til 4. september 2003. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að greitt hafi verið fyrir þessa vinnu og þeir reikningar sem hann vísar til í því sambandi varða önnur tilgreind verk en hér um ræðir. Þá hefur Eiríkur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, skýrt frá því að birtingu þessarar auglýsingar hafi verið slegið á frest og þess vegna hafi ekki verið búið að krefjast greiðslu fyrir hana. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda vegna þessa.
Tímabilið frá apríl 2004 til 1. desember 2004
Stefndi kveðst hafa greitt fyrir verk nr. 9040530, „Sjónvaugl v. enska boltans á S1“ 5.353 kr., sem unnið var 11. ágúst 2004. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að greitt hafi verið fyrir þessa vinnu og sá reikningur sem hann vísar til þar um hefur annað verknúmer og er auk þess fyrir vinnu í september 2004. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda vegna þessa.
Stefndi kveðst hafa greitt fyrir verk nr. 9040532, „Popp TV - sponsor skilti“ 157.546 kr., sem unnið var að mestu síðari hluta ágústmánaðar 2004. Samkvæmt yfirliti sem fylgdi reikningi, dags. 31. ágúst 2004, að fjárhæð 954.915 kr., sem stefndi greiddi fyrir „auglýsingar í ágúst“ kemur fram að í honum sé innifalinn reikningur fyrir „Popptv skilti“ 99.000 kr. Verður því fallist á það með stefnda að hann hafi mátt ætla að þar með hafi hann greitt fyrir alla vinnu vegna þessarar tilteknu auglýsingar, enda ber reikningurinn það með sér að hann taki til allra auglýsinga sem unnar voru í ágústmánuði 2004. Ber því að lækka reikningskröfu stefnda um 157.546 kr.
Stefndi mótmælir verki nr. 9040573, „Viðskiptaauglýsingar - hugmyndavinna og þróun“ 306.518 kr., sem unnið var á tímabilinu 17. ágúst til 21. október. Ekki verður séð að þeir reikningar sem stefndi greiddi og dags. eru hinn 15. september 2004 og 15. október 2004 og hafa önnur verknúmer hafi falið í sér greiðslu á því verki sem hér um ræðir. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda vegna þessa.
Tímabilið frá 1. desember 2004 til loka samstarfsins
Stefndi telur ljóst að mörg þeirra verka sem fram komi á yfirlitinu og stafi frá þessu tímabili falli undir aðra reikninga sem þegar hafi verið greitt fyrir. Sem dæmi um það að verið sé að krefja stefnda fyrir greiðslu á sama verkinu tvisvar nefnir hann að fram komi á reikningi dags. 31. desember 2004 að fjárhæð 606.315 kr., að verið sé að krefjast greiðslu fyrir „2 ára afmæli - frítt fyrir börn - BAKSÍÐAN Fbl.“ 42.000 kr. Stefnandi krefji stefnda aftur um greiðslu á vinnu við sömu auglýsingu í reikningi dags. 26. janúar 2005, en í yfirliti með þeim reikningi komi fram að verið sé að krefjast greiðslu fyrir „2 ára afmæli IE" kr. 10.707. Seinni fjárhæðin eigi greinilega að vera inni í þeirri fyrri. Á þetta verður ekki fallist. Þótt reikningsfjárhæðir þessar varði sama tilefnið þá er ljóst af verkbókhaldi að um mismunandi verknúmer er að ræða, auk þess sem vinna við það verk sem tilgreint er á yfirliti með reikningi frá 26. janúar 2005 var að öllu leyti unnið í janúar 2005. Stefndi hefur að öðru leyti ekki rökstutt þá staðhæfingu sína að meginhluti verka frá þessum tíma og sem tilgreind eru í reikningi stefnanda frá 26. janúar 2005 séu innifalin í reikningi stefnanda frá 31. desember 2004.
„Hugmyndavinna stefnanda“
Stefndi mótmælir sérstaklega tveimur verkliðum á yfirlitinu með reikningi frá 26. janúar 2005. Er þar um að ræða kröfu á greiðslu fyrir hugmyndavinnu stefnanda fyrir stefnda sbr. verk nr. 9030265 að fjárhæð 351.512 kr. „Hugmyndir að tilboðum fyrir Iceland Express“ og verk nr. 9040507 að fjárhæð 2.139.734 kr. „Hugmyndavinna f. haust 2004“. Fullyrðingum stefnanda um að samið hafi verið um greiðslu fyrir þessa hugmyndavinnu sérstaklega er mótmælt sem röngum. Stefnandi hafi aldrei minnst á þennan kostnað fyrr en eftir að samstarfi málsaðila lauk.
Svo sem fyrr er rakið hófst samstarf aðila haustið 2003 í kjölfar þess að stefndi hafði leitað til nokkurra auglýsingastofa, sem kynntu hugmyndir sínar fyrir stefnda. Var þar um að ræða svokölluð „pitch“ sem er þekkt aðferð í heimi auglýsingastarfsemi til að ná til viðskiptavinar. Sú hugmyndavinna sem stefnandi krefst greiðslu fyrir að fjárhæð 351.512 kr., samkvæmt verki nr. 9030265, felur að mestu í sér undirbúningsvinnu vegna þeirrar kynningar hugmynda sem stefnandi lagði fyrir stefnda hinn 9. apríl 2003 og sem varð grunvöllur að samstarfi þeirra. Hefur sú undirbúningsvinna án efa komið til góða og nýst beint í síðargerðu kynningarefni og auglýsingum, sem stefnandi gerði fyrir stefnda og fékk greitt fyrir. Guðmundur Pálsson, fyrrv. markaðsstjóri stefnda, gat þess í skýrslu sinni fyrir dómi að orkað gæti tvímælis hvort greiða bæri fyrir slíka kynningarstarfsemi. Þá liggur ekki fyrir hvort stefnandi hafi ætlað sér að gera kröfu til greiðslu fyrir þessa vinnu ef áframhald hefði orðið á samstarfi aðila. Verður því fallist á þær málsástæður stefnda að ekki beri að greiða stefnanda sérstaklega vegna þessarar kynningar. Ber því að lækka reikningskröfu stefnda um 351.512 kr.
Þá telur stefndi að sömu sjónarmið gildi um hugmyndavinnu stefnanda fyrir stefnda sem tilgreind er sem verk nr. 9040507 að fjárhæð 2.139.734 kr. Á yfirliti stefnanda kemur fram að verkheitið á reikningnum sé „Hugmyndavinna f. haust 2004“ og er tímaskráning starfsmanna stefnanda í verkbókhaldi með tilvísun í verk nr. 9040507 enda þótt verkheitið sé þar ranglega, að því er virðist, tilgreint sem „Folder viðskiptaþjónusta“. Meginhluti verksins er tilgreint sem hugmyndavinna, tillögur f. IE, án nánari skilgreiningar, og unnið af starfsmanni stefnanda á tímabilinu frá 17. júní til 10. september 2004. Þá er ýmis vinna við þetta verk skráð á aðra starfsmenn, m.a. vinna vegna markaðsdags. Ekki er ljóst að hve miklu leyti sú mikla hugmyndavinna sem unnin var á þessum tíma í þágu stefnda geti nýst honum til frambúðar vegna þess að upp úr samstarfi aðila slitnaði. Þá liggur fyrir að ýmsar hugmyndir sem stefnandi setti fram vegna markaðsdags í ágúst 2004 fengu ekki hljómgrunn hjá stefnda. Að þessu virtu og að teknu tilliti til andmæla stefnda verður ekki fallist á að stefnandi geti að fullu krafist greiðslu úr hendi stefnda vegna þessarar vinnu. Eftir atvikum þykir rétt að stefnda verði gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar sem krafist er þannig að lækka ber reikningskröfu stefnda um 1.069.867 kr.
„Nýjar táknmyndir“
Stefndi mótmælir einnig sérstaklega þeim verklið í yfirliti með reikningi dags. 26. janúar 2005 sem ber heitið „Nýjar Táknmyndir“ að fjárhæð 1.927.181 kr. Um er að ræða verk nr. 9030519 samkvæmt verkbókhaldi og varðar gerð táknmynda. Samkvæmt viðmiðunarverðskrá stefnanda er gerð táknmynda verðlögð og ekki verður séð að stefndi hafi þegar greitt þær með fyrri reikningum. Það dæmi sem stefndi tiltekur máli sínu til stuðnings að þessu leyti staðfestir ekki að áður hafi verið greitt fyrir gerð tilgreindrar táknmyndar. Þá verður ekki heldur séð að notkun táknmynda í þeim auglýsingum sem stefndi hefur greitt fyrir hafi jafnframt falið í sér kostnað við gerð þeirra. Þá hefur Eiríkur Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri stefnanda, borið fyrir dómi að ákveðið grunngjald væri fyrir táknmyndir, það hafi ekki verið rukkað fyrir þær í einstökum tilvikum, þótt þær hafi verið notaðar. Ákveðið hafi verið að bíða með það. Þá hefur Guðmundur Pálsson, fyrrv. markaðsstjóri stefnda, borið fyrir dómi að þess hafi verið dæmi reikningum fyrir gerð táknmynda hafi verið slegið á frest. Að þessu virtu verður að telja að stefnda beri að greiða fyrir þennan verklið reikningsins. Verður því ekki fallist á andmæli stefnda vegna þessa.
Að öðru leyti hefur stefndi ekki gert sérstakar athugasemdir við einstaka verkþætti, sem tilgreindir eru á yfirliti með reikningnum frá 26. janúar 2005. Hefur hann því hvorki sýnt fram á að búið sé að greiða fyrir þá vinnu sem greiðslu sé krafist fyrir né að um óumbeðin verk hafi verið að ræða. Verður því fallist á reikningskröfu stefnanda samkvæmt reikningnum frá 26. janúar 2005 að teknu tilliti til þeirrar lækkunar sem eru gerðar samkvæmt framansögðu.
Tómlæti stefnanda
Stefndi telur að krafa stefnanda, teljist til hennar hafa stofnast, hafi fallið niður vegna tómlætis. Á það er ekki fallist. Ljóst er af gögnum máls og niðurstöðu um framangreindar reikningskröfur stefnanda að verulegur hluti krafna stefnanda á hendur stefnda var óuppgerður og umdeildur. Eru engin skilyrði til þess að telja að kröfuréttur stefnanda hafi fallið niður sökum tómlætis og er þeirri málsástæðu stefnda hafnað. Þá skipta sjónarmið um haldsrétt stefnanda í gögnum og auglýsingum engu við mat á réttmæti reikninga stefnanda frá 31. desember 2004 og 26. janúar 2005, eins stefndi lætur að liggja.
Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú að tekin er til greina krafa stefnanda á hendur stefnda samkvæmt reikningi dags. 31. desember 2004 að fjárhæð 606.315 kr. Krafa stefnanda á hendur stefnda samkvæmt reikningi dags. 26. janúar 2005 lækkar um 1.578.925 kr. (9.531.924-1.578.925) og verður 7.952.999 kr. Ber stefnda því að greiða stefnanda 8.559.314 kr. auk vaxta eins og krafist er og í dómsorði greinir.
Þá ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 700.000 kr.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Iceland Express ehf., greiði stefnanda, Himinn og haf auglýsingastofu ehf., 8.559.314 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af 189.489 kr. frá 30. nóvember 2004 til 31. desember 2004, af 795.804 kr. frá þeim degi til 20. janúar 2005, af 899.351 kr. frá þeim degi til 26. janúar 2005, af 8.852.350 kr. frá þeim degi til 15. febrúar 2005, af 9.034.120 kr. frá þeim degi til 11. nóvember 2005, en af 8.559.314 kr. frá þeim degi til greiðsludags og 700.000 kr. í málskostnað.