Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 10. janúar 2003. |
|
Nr. 7/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
X var sakaður um að hafa veitt A stunguáverka á síðu að kvöldi 24. desember 2002 en X hafði borið við minnisleysi um atburði þess kvölds. Að virtum framburði vitna hjá lögreglu var ýmislegt óljóst um málsatvik. Hvað sem því leið var lögreglan ekki talin hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að gæsluvarðhald yfir varnaraðila væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Voru því ekki næg efni til að verða við kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald, sem eingöngu var reist á 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. febrúar nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms er varnaraðili grunaður um að hafa veitt A stunguáverka á síðu að kvöldi þriðjudagsins 24. desember 2002. Varnaraðili hefur borið við minnisleysi um atburði þess kvölds. Að virtum framburði vitna hjá lögreglu er ýmislegt óljóst um málsatvik. Hvað sem því líður hefur sóknaraðili ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að gæsluvarðhald yfir varnaraðila sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Eru því ekki næg efni til að verða við kröfu sóknaraðila, sem eingöngu er reist á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2003.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði verði með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. febrúar 2003 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlaða tilraun kærða til manndráps eða hættulega líkamsárás. Málsatvik séu þau að laust fyrir kl. 20.00 að kvöldi þriðjudagsins 24. desember sl. hafi lögreglan verið kvödd að heimili A að [...] hér í borg. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi A legið á gólfinu í stofu á heimili sínu og B verið að stumra yfir henni. Kærði hafi setið í sófa í stofunni. A hafi verið með blæðandi áverka á síðu. Við hlið hennar hafi verið kámug skæri sem í fyrstu hafi verið talið að notuð hafi verið til að veita henni áverkann. Hins vegar bendi nú framburður kærða og vitna til þess að hnífur sem fundist hafi fyrir utan húsið hafi verið notaður við verknaðinn.
Fram komi í skýrslu rannsóknarlögreglumanns sem rætt hafi við Eirík Guðmundsson, vakthafandi lækni á slysadeild, sem skoðað hafi A, að læknirinn hafi talið ástand A alvarlegt. Hafi hann sagt áverkann bera merki þess að hending hafi ráðið að stungan hafi ekki orðið dýpri en hefði svo farið hefði stungan hæglega getað valdið bana.
Samkvæmt bráðabirgðalæknisvottorði Gunnars Gunnlaugssonar yfirlæknis, dags. 25. desember sl. hafi verið komið með A á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi kvöldið áður eftir að hún hafi verið stungin í vinstri holhönd. Rannsókn hafi leitt í ljós brot á 7. rifi og hafi ofurlítið loft lekið út undir húð.
Kærði hafi við yfirheyrslu hjá lögreglu borið við minnisleysi um atburði en sagst muna eftir að hafa annað hvort dregið hníf úr sári A eða haldið á blóðugum hníf, sbr. síðustu skýrslu sem tekin hafi verið af honum. B hafi borið hjá lögreglu að hún hafi verið í átökum við A og hafi beðið kærða að hjálpa sér. Stuttu síðar hafi A hnigið niður og hafi hún þá séð hvar kærði stóð með blóðugan hníf í hendi og hafi hann beðið hana að losa sig við hnífinn og hafi hún hent honum fram af svölum íbúðarinnar.
Með úrskurði héraðsdóms þann 25. desember sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. desember sl. með vísan til a- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þann dag hafi hann verið úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Rannsókn málsins sé ekki lokið. Fyrir liggi að yfirheyra þurfi vitni málsins frekar en miklum erfiðleikum hafi verið bundið að fá vitni málsins til skýrslutöku. Þá eigi tæknideild embættisins eftir að vinna úr þeim þætti rannsóknarinnar sem að henni snúi. Fingrafararannsókn sé þó lokið og hafi komið í ljós að ekki hafi verið unnt að greina fingraför á hníf og skærum. Þá hafi verið ákveðið að fram fari DNA rannsókn á blóði á fatnaði kærða, hníf og skærum, en Gunnlaugur Geirsson réttarmeinafræðingur, sé í stuttu fríi um þessar mundir og hafi því ekki verið unnt að koma þeirri rannsókn af stað.
Samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt hafi verið lífshættulegu vopni. Brot kærða kunni að varða við 211. gr., sbr. 20. gr., eða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti brot hans varðað allt að ævilöngu fangelsi. Mál þetta varði mjög alvarlegt sakarefni og verði með tilliti til alvarleika brotsins að telja brýna nauðsyn til þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi enda verði að telja að ríkir almannahagsmunir standi til þess. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.
Eins og rakið hefur verið í kröfugerð lögreglustjóra leikur sterkur grunur á því að kærði hafi beitt lífshættulegu vopni gegn A og virðist hending ein hafa ráðið að ekki fór verr. Þrátt fyrir að vafi leiki á því hvort beitt hafi verið skærum eða hnífi verður ekki fram hjá því litið að atlagan gegn A var lífshættuleg og getur varðað allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga eða allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. teljist sök sönnuð. Verður því að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi áfram og er því fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. febrúar nk. kl. 16.00.