Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2011


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Verðtrygging
  • Brostnar forsendur
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 417/2011.

Ósafl sf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Vegagerðinni

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

Verksamningur. Verðtrygging. Brostnar forsendur. Sératkvæði.

Ó sf. höfðaði mál gegn V og krafðist viðbótargreiðslu vegna verks sem fyrrnefnda félagið hafði unnið fyrir það síðarnefnda. Samkvæmt samningi aðila voru verklaun tengd byggingarvísitölu Hagstofu Íslands. Lækkun vísitölunnar vegna lagabreytingar er varðaði endurgreiðslu virðisaukaskatts leiddi því til lækkunar verklauna Ó sf. þótt kostnaður fyrirtækisins af verkinu lækkaði ekki af þeim sökum. Hvorki var fallist á með Ó sf. að tiltekið ákvæði í samningsskilmálunum ÍST 30 tæki til slíkra breytinga né að önnur rök stæðu til þess að víkja ákvæðum samnings aðila um fjárhæð verklauna. Var V því sýknað af kröfum Ó sf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. júlí 2011. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 51.598.232 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. maí 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur fallið frá dómkröfu á hendur íslenska ríkinu.

I

Samkvæmt gögnum málsins bauð stefndi í nóvember 2007 út verk við gerð jarðganga milli Hnífsdals og Bolungarvíkur, sem nefnd eru Óshlíðargöng, en að því skyldi unnið að árunum 2008 til 2010. Áfrýjandi, sem Íslenskir aðalverktakar hf. og Marti Contractors Ltd. í Sviss stóðu að, gerði tilboð í verkið og tók stefndi því. Eftir verksamningi þeirra 8. apríl 2008 átti stefndi að greiða 3.479.000.000 krónur fyrir verkið. Samkvæmt útboðslýsingu stefnda áttu einingarverð í tilboðum að taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar, sem Hagstofa Íslands reikni út, frá nóvember 2007, en þó þannig að „einstakir reikningar“ yrðu aðeins verðbættir að því leyti, sem hækkun á vísitölunni yrði meiri en 0,24663% á mánuði, og áttu verðbætur að „falla niður verði byggingarvísitalan undir ofangreindum mörkum á viðkomandi tíma.“ Verð á asfalti átti þó að bera verðbætur eftir breytingum á verði þess „frá birgðatönkum Vegagerðarinnar frá útboðsmánuði“ eftir nánar tilteknum reglum. Aðilarnir munu síðan hafa gert samkomulag 18. september 2009 um uppgjör verðbóta vegna lækkunar á gengi íslensku krónunnar og hafi samkvæmt því átt að bæta 83% af gengismun vegna fjögurra tilgreindra verkliða eftir sérstökum reglum, en að öðru leyti hafi framangreind ákvæði í útboðslýsingu átt að gilda um verðtryggingu verklauna.

Með 2. gr. laga nr. 10/2009, sem birt voru í Stjórnartíðindum 13. mars 2009 en taka áttu gildi 1. sama mánaðar, var nýju ákvæði til bráðabirgða bætt við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Ákvæðið fól í sér þá tímabundnu breytingu á 2. mgr. 42. gr. síðarnefndu laganna að í stað þess að endurgreidd yrðu 60% af virðisaukaskatti af vinnu, sem leyst væri af hendi á byggingarstað við byggingu íbúðarhúsnæðis, endurbætur á því eða viðhaldi, skyldi skatturinn endurgreiddur að fullu. Jafnframt skyldi endurgreiða á sama hátt virðisaukaskatt af slíkum framkvæmdum við frístundahúsnæði. Samkvæmt tilkynningu, sem Hagstofa Íslands lét frá sér fara 21. apríl 2009, hafði þá verið reiknuð út vísitala byggingarkostnaðar fyrir maí á því ári og lækkaði hún um 3,4% frá fyrri mánuði. Í tilkynningunni kom fram að breytingin, sem gerð var með 2. gr. laga nr. 10/2009, hafi leitt til þess að „vinnuliðir vísitölunnar“ lækkuðu um 9,5% og hafi þetta valdið lækkun á henni um 3,1%. Í tilefni af þessu beindi áfrýjandi orðsendingu til stefnda 18. ágúst 2009, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Með lögum nr. 10/2009 frá 11. mars ... hafa opinberir aðilar með lagasetningu skert greiðslur til verktaka í Óshlíðargöngum. ... Verktaki fer fram á að þetta verði leiðrétt og bendir sínu máli til stuðnings á ÍST 30:2003, grein 31.12 ... Þessi stjórnvaldsaðgerð lækkar ekki framkvæmdakostnað verktaka við gerð Óshlíðarganga en lækkar byggingarvísitöluna um 3.1% og þar með greiðslur til verktaka. Verktaki fer fram á að vísitalan verði leiðrétt þannig að lækkun þessi eigi ekki við í þessu verki, verktaki rukki fullar verðbætur og að leiðrétting verði afturvirk til þess tíma sem lögin ná til.“ Þessari málaleitan hafnaði stefndi með bréfi 3. september 2009.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 9. nóvember 2010 og krafðist þess að stefnda ásamt íslenska ríkinu yrði gert að greiða sér 53.409.583 krónur eða sem svaraði 3,1% af 17% af fjárhæð reikninga, sem áfrýjandi gerði vegna verksins á tímabilinu frá 1. apríl 2009 til 1. ágúst 2010. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi aflaði áfrýjandi matsgerðar dómkvadds manns 11. mars 2011 um hver áhrif 2. gr. laga nr. 10/2009 hafi haft á vísitölu byggingarkostnaðar og hversu mikið verklaun áfrýjanda fyrir gerð Óshlíðarganga hefðu hækkað ef lögin hefðu ekki verið sett. Samkvæmt niðurstöðum matsgerðarinnar hefðu verklaun áfrýjanda hækkað um 51.598.234 krónur ef lögum hefði ekki verið breytt á þennan hátt. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi breytt dómkröfu sinni til samræmis við matsgerðina að teknu tilliti til reikniskekkju í henni.

II

Samkvæmt útboðslýsingu stefnda vegna verksins, sem málið varðar, töldust almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir í 5. útgáfu frá árinu 2003, nefndir ÍST 30, til útboðsgagna og skyldu þeir skoðast sem hluti af verksamningi hans við áfrýjanda. Í grein 31.12 í þessum skilmálum var svofellt ákvæði: „Báðir aðilar geta krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum er hafa áhrif á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.“ Áfrýjandi reisir kröfu sína í málinu á þessu ákvæði, en einnig á því að brostið hafi forsendur fyrir því að miða í verksamningnum „við óbreytta byggingarvísitölu útgefna af Hagstofu Íslands“, svo og að bersýnilega sé ósanngjarnt í ljósi síðar tilkominna atvika að stefndi beri fyrir sig ákvæði samningsins um verðbætur án þess að þau verði leiðrétt vegna röskunar á grundvelli vísitölunnar, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum.

Framangreint ákvæði í grein 31.12 í ÍST 30 hefur að geyma sérreglu um heimild verktaka eða verkkaupa til að krefjast breytinga á fjárhæð verklauna ef breytingar verða á verktímanum á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, sem hafa áhrif á kostnað án þess að þeirra gæti í þeim verðlagsmæli, sem kann að hafa verið samið um að láta verklaunin fylgja. Eftir efni ákvæðisins getur það eingöngu tekið til þeirra aðstæðna að breyting á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hafi áhrif á „kostnað“, sem hlýtur eðli máls samkvæmt að vera kostnaður verktaka af því að leysa verk af hendi. Fyrirmæli 2. gr. laga nr. 10/2009 höfðu engin áhrif á kostnað áfrýjanda af framkvæmd verksins fyrir stefnda, svo sem ráðið verður af áðurgreindri orðsendingu áfrýjanda til stefnda 18. ágúst 2009, heldur eingöngu á vísitölu byggingarkostnaðar, sem réði aftur fjárhæð verklauna. Þegar af þessum sökum getur þetta ákvæði ekki átt hér við.

Samkvæmt ólögfestum reglum fjármunaréttar geta brostnar forsendur leitt til þess að samningur verði ógiltur í heild eða að hluta, en þeim verður almennt ekki beitt til þess að breyta samningi að öðru leyti, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 21. júní 2011 í máli nr. 542/2010. Þessar reglur geta því ekki staðið til þess að krafa áfrýjanda verði tekin til greina.

Samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 42/1987 um vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. 17. gr. laga nr. 75/2007, reiknar Hagstofa Íslands hana út og birtir mánaðarlega, en hún skal reist á grunni, sem Hagstofan ákveður í samráði við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Sá grunnur skal miðaður við tiltekna gerð íbúðarhúsnæðis og vísitalan við byggingarkostnað á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða við fyrrnefndu lögin, sbr. 1. gr. laga nr. 137/1989, ber Hagstofunni við útreikning vísitölunnar að taka tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingu íbúðarhúsnæðis samkvæmt 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 og lækka byggingarkostnað sem þeirri endurgreiðslu svarar. Ljóst er af þessum lagaákvæðum að vísitala byggingarkostnaðar tekur ekkert mið af kostnaði af framkvæmd verks af þeim toga, sem áfrýjandi tók að sér fyrir stefnda, heldur af smíð íbúðarhúsnæðis, þar sem kostnaðarþættir geta verið af allt öðrum meiði. Með fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði við lög nr. 42/1987 er að auki berlega vakin athygli á því að endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við gerð íbúðarhúsnæðis, eins og henni kann á hverjum tíma að vera hagað eftir lögum, hafi bein áhrif á útreikning vísitölunnar. Með því að semja um að fjárhæð verklauna fyrir verk áfrýjanda í þágu stefnda myndi hækka eða lækka í samræmi við breytingar á þessari vísitölu tóku báðir aðilarnir augljósa áhættu af því að atriði, sem á engan hátt tengdust framkvæmd þessa verks, gætu haft áhrif á endurgjald fyrir það. Að þessu virtu standa engin haldbær rök til að víkja frá ákvæðum verksamnings aðilanna um fjárhæð verklauna á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 sökum þess að sú áhætta hafi gengið eftir áfrýjanda í óhag. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ósafl sf., greiði stefnda, Vegagerðinni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Við úrlausn á ágreiningi málsaðila tel ég það skipta meginmáli að þeir höfðu samið um að verklaun samkvæmt samningi þeirra skyldu verðbætt. Tel ég að við mat á skuldbindingum þeirra sem ágreiningi hafa valdið beri að hafa þetta meginefni samningsins í huga.

Aðilarnir sömdu um að breytingar á verklaunum skyldu miðast við vísitölu byggingarkostnaðar. Þessi viðmiðun um verðbætur er vel þekkt í samningum af ýmsum toga. Með því að nota hana taka aðilar samnings áhættu sem tengist því að vísitalan taki breytingum vegna verðlagsbreytinga sem ekki skipta beint máli í því tiltekna verki sem samið er um. Þá áhættu verða þeir að bera sjálfir. Í því tilviki sem hér um ræðir olli hins vegar lagasetning um alls óskylt atriði því að byggingarvísitala lækkaði og hafði þannig að mati stefnda áhrif til lækkunar á verklaunum áfrýjanda. Verður ekki með nokkurri sanngirni talið að áfrýjandi hafi átt þess raunhæfan kost að verja sig gegn slíkri lagasetningu þegar samið var um verkið.

Svo sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda var í verksamningi aðila vísað til ÍST 30. Stefndi hefur haldið því fram að að grein 31.12 í staðlinum eigi ekki við í lögskiptum málsaðila þar sem með orðinu kostnaður í ákvæðinu sé eingöngu átt við kostnað verktaka. Þessu hefur áfrýjandi mótmælt og telur hann ákvæðið eiga við. Ég tel að fallast beri á sjónarmið áfrýjanda um þetta. Nefnt ákvæði staðalsins kveður á um hvernig með skuli fara, meðal annars ef breytingar á lögum hafi áhrif á kostnað. Eðlilegt er að túlka þetta ákvæði svo að með orðinu kostnaður sé átt við kostnað hvors aðila sem er, verktakans vegna útgjalda við framkvæmd verksins og verkkaupans vegna greiðslu verklauna. Eins og áður segir olli lagabreytingin sem um er fjallað í málinu lækkun á byggingarvísitölunni og þar með á verklaunum ef vísitölunni svo breyttri yrði beitt á þau. Verður samkvæmt þessu að telja að nefnt ákvæði í ÍST 30 hafi gilt beint um þann ágreining sem uppi er með aðilum og valdi því án þess að fleira komi til að taka beri kröfu áfrýjanda til greina.

Samkvæmt þessu tel ég að taka beri kröfu áfrýjanda til greina og dæma stefnda til að greiða hana og málskostnað á báðum dómstigum. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2011.

Mál þetta höfðaði Ósafl sf., kt. 670308-1460, Höfðabakka 9, Reykjavík, með stefnu birtri 9. nóvember 2010 á hendur íslenska ríkinu og Vegagerðinni, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, Reykjavík.  Málið var dómtekið 24. maí sl. 

Stefnandi krefst greiðslu á 53.409.583 krónum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 2.264.393 krónum frá 1. apríl 2009 til 1. maí sama ár, af 5.500.985 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 10.229.641 krónu frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 14.262.482 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 17.723.288 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár, af 23.306.343 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 27.328.589 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 30.377.665 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 32.350.308 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2010, af 33.679.448 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 35.241.269 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 37.266.782 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 39.166.878 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 40.967.161 krónu frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 44.381.566 krónum frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 46.131.644 krónum frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, og af 53.409.583 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Þá krefst stefnandi málskostnaðar. 

Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Gerð Óshlíðarganga var boðin út í nóvember 2007.  Stefnandi átti lægsta boð og tók verkið að sér með samningi dags. 8. apríl 2008.  Verklaun skyldu verð­tryggð að hluta til samkvæmt byggingarvísitölu miðað við grunnvísitölu í nóvember 2007..  Þannig skyldi öll hækkun vísitölunnar umfram tiltekið mark leiða til hækkunar verklauna. 

Í þessu máli leitar stefnandi leiðréttingar á verklaunum sínum.  Með lögum nr. 10/2009 var mælt fyrir um tímabundna hækkun á endurgreiðslu virðisauka­skatts af vinnu manna á byggingarstað.  Hann segir að vegna þessa hafi byggingarvísitala lækkað og ekki endurspeglað lengur þær hækkanir sem henni hafi verið ætlað að gera við samningsgerð.  Lögin hafi verið samþykkt á Alþingi 6. mars, en þau hafi tekið gildi 1. mars.  Þau hafi þannig verið afturvirk.  Breytingin hafi hins vegar ekki haft áhrif á útreikning vísitölunnar fyrr en í maí 2009.  Hún hafi haft þau áhrif að vísitalan, og þar með verklaun stefnanda, lækkaði um 3,1%.  Hækkuð endurgreiðsla virðisaukaskatts hafi hins vegar ekki komið stefnanda að neinu leyti til góða. 

Stefnandi krafðist leiðréttingar verklauna með bréfi dags. 18. ágúst 2009.  Stefndi Vegagerðin hafnaði erindinu, en með sérstökum samningi dags. 18. september 2009 sömdu aðilar um tiltekna gengistryggingu vegna lækkandi gengis krónunnar.  Var þar ekki leyst úr ágreiningi þeirra um byggingarvísitöluna.  Verður nánar vikið að þeim samningi og þýðingu hans þegar gerð verður grein fyrir kröfugerð stefnanda. 

Fjárkrafa stefnanda er reiknuð í skjölum málsins.  Eftir að greinargerð stefnda var lögð fram var dómkvaddur matsmaður að kröfu stefnanda til að meta hver áhrif laga nr. 10/2009 hefðu verið á gildi byggingarvísitölunnar.  Enn fremur til að reikna hversu mikið verklaun stefnanda hefðu hækkað ef ekki hefði komið til setningar laganna. 

Matsmaðurinn, Jökull M. Pétursson viðskiptafræðingur, skilaði matsgerð dags. 11. mars 2011.  Þar er sett upp í töflu hvert gildi vísitölunnar hefði orðið að óbreyttum lögum.  Síðan er reiknað hversu mikið verklaun stefnanda hefðu hækkað ef ekki hefði komið til lagasetningarinnar.  Telur matsmaður að munurinn nemi 51.598.234 krónum.  Staðfesti hann matsgerð sína fyrir dómi. 

Málsástæður og lagarök stefnanda 

Krafa stefnanda er að útreikningur verðbóta samkvæmt samningi aðila taki mið af byggingarvísitölunni eins og hún hefði reiknast ef ekki hefði komið til setningar laga nr. 10/2009 um tímabundna breytingu á endurgreiðslu virðisauka­skatts.

Stefnandi segir að verðbótum sé ætlað að færa áhættuna af breytingu kostnaðar frá greiðanda til verkkaupa.  Þetta sé gert með ýmsum hætti, oftast í verksamningum með vísitöluviðmiðun.  Í umræddum verksamningi hafi öll hækkun vísitölu umfram ákveðið mark leitt til hækkunar verklauna.  Verðbóta­ákvæðið hafi verið forsenda fyrir tilboðsfjárhæð.  Með setningu laga nr. 10/2009 hafi orðið veruleg lækkun á vísitölu þeirri sem miðað var við.  Þeim grundvelli sem lagður hafi verið með verksamningnum um skiptingu áhættu vegna kostnaðarbreytinga hafi verið raskað. 

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að forsendur séu brostnar fyrir því að miða við byggingarvísitölu. Nauðsynlegt sé við útreikning verðbóta að leiðrétta þau áhrif sem lög nr. 10/2009 hafi á vísitöluna.  Eingöngu með því móti verði verðlagsbreytingar grunnur að verðbótum í samræmi við forsendur upphaflegs samnings. 

Stefnandi segir að þau verðbótaákvæði sem samið hafi verið um hafi verið grundvöllur samningsgerðar. Hin ófyrirsjáanlega lagabreyting hafi leitt til þess að stefnandi tapaði, en stefndu hagnaðist að sama marki.  Þetta sé dæmigert um að forsendur hafi brostið í skilningi kröfuréttar.  Stefndu hafi vitað að verðbætur hafi verið forsenda fyrir tilboði stefnanda, þ.e. að hann yrði ekki fyrir tekjuskerðingu vegna almennra verðhækkana umfram hækkun byggingarvísitölu.  Umrædd laga­setning hafi leitt til þess að verklaun stefnanda hafi lækkað um 3,1% miðað við almenna verðlagshækkun.  Umsamdar gengisbætur hafi hér engin áhrif. 

Stefnandi vitnar til greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 10/2009.  Tilgangur laganna hafi verið þríþættur, að koma til móts við hús­byggjendur sem ættu í erfiðleikum, sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og að hvetja til aukinnar starfsemi á byggingamarkaði.  Lögin hafi hins vegar haft þær óvæntu aukaverkanir, eins og lögmaður stefnandi orðar það, að verklaun verktaka lækkuðu.  Það hafi ekki verið í samræmi við tilgang laganna.  Stefnandi kveðst ekki hafa getað séð þessi atvik fyrir er hann bauð í verkið.  Forsendur til að miða við byggingarvísitölu hafi brostið. 

Stefnandi vísar til þess að ÍST 30:2003 hafi verið hluti samnings.  Samkvæmt lið 31:12 í staðlinum geti báðir aðilar krafist breytinga á samnings­fjárhæð ef á samningstímanum séu gerðar breytingar … á lögum og eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem hafi áhrif á kostnað sem reglur um verð­breytingar í samningi endurspegli ekki.  Grunnrök þessarar reglu eigi við um þá lækkun sem varð á byggingarvísitölunni í maí 2009. 

Þá byggir stefnandi á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Það sé bersýnilega ósanngjarnt í ljósi síðar til kominna atvika að stefndu beri fyrir sig ákvæði samningsins um verðbætur án þess að þau verði leiðrétt vegna röskunar á grundvelli vísitölunnar.  Verklaun hafi lækkað, en kostnaður sé sá sami. 

Fjárkrafan miðar við að verklaun skuli reiknuð án þeirrar 3,1% lækkunar sem varð vegna áhrifa laga nr. 10/2009 á byggingarvísitölu.  Dómkrafa er sú sama og í stefnu, þrátt fyrir að komist hafi verið að annarri niðurstöðu í framangreindri matsgerð. 

Stefnandi vísar til verksamnings aðila, almennra reglna verktakaréttar varðandi rétt til viðbótargreiðslu og bóta vegna brostinna forsendna.  Þá vísar hann til ÍST-30 og venja sem myndast hafa um beitingu hans.  Loks vísar hann til almennra reglna samningaréttar. 

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu mótmæla því að byggingarvísitala hafi ekki endurspeglað þær hækkanir sem henni hafi verið ætlað að gera við samningsgerð.  Þeir segja að aðilar hafi samið um að tiltekinn hluti samningsfjárhæðar tæki breytingum eftir byggingarvísitölu eins og hún reiknist á hverjum tíma.  Enginn annar skilningur verði lagður í ákvæði samningsins um verðbætur. 

Stefndu telja það mikla einföldun að segja að verðbótaákvæði hafi átt að endurspegla raunkostnað af verkinu.  Grunnur vísitölunnar miðist við kostnað af byggingu tiltekinnar gerðar íbúðarhúsnæðis, sbr. 1. gr. laga nr. 42/1987.  Henni sé ekki ætlað að sýna kostnað við vega- og jarðgangagerð.  Stefnanda hafi hlotið að vera það ljóst við samningsgerðina.  Samsetning kostnaðar hinna ýmsu verktaka í sömu grein geti verið misjöfn.  Því sé ekki hægt að smíða nákvæma vísitölu um þróun kostnaðar í ýmsum greinum.  Vísitala geti ekki mælt raunkostnað verktaka í tilteknu verki. 

Stefndu byggja á því að með því að semja um verðbætur samkvæmt byggingarvísitölu hafi verið samið um að hún skyldi ráða verðbótaútreikningi, en ekki raunkostnaður hverju sinni.  Breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum geti á ýmsan hátt haft áhrif á byggingarvísitölu.  Útreikningur verðbóta yrði óviss ef skoða ætti jafnóðum við allar breytingar á lögum hver áhrif þær hefðu. 

Stefndu mótmæla þeim skilningi stefnanda að verkkaupi hafi hagnast á laga­setningunni. 

Stefndu mótmæla því að þeir hafi vitað að það væri forsenda fyrir tilboði stefnanda að hann yrði ekki fyrir tekjuskerðingu umfram hækkun vísitölunnar.  Þetta sé rangt og ósannað. 

Stefndu mótmæla því að með setningu laga nr. 10/2009 hafi forsendur verðbótaákvæðis verksamningsins brostið.  Engar breytingar hafi orðið á samsetningu vísitölunnar og útreikningsaðferðum. 

Stefndu benda á að í bráðabirgðaákvæði II í lögum um byggingarvísitölu, sbr. lög nr. 137/1989, eigi að taka tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts við útreikning vísitölunnar.  Því hafi verið ljóst að endurgreiðsla virðisaukaskatts hafi haft áhrif á vísitöluna og hafi stefnanda mátt vera það ljóst.  Breytingar á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts hafi því verið einn fjölmargra óvissuþátta sem reikna hafi mátt með. 

Stefndu segja ósannað að stefnandi hafi reiknað með óbreyttu endurgreiðslu­hlutfalli virðisaukaskatts er hann gerði tilboðið.  Fjölmargir þættir hafi áhrif á vísi­töluna og því sé vandséð hvernig unnt sé að taka sérstaklega tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts. 

Stefndu mótmæla því að forsendur verðbótaákvæða verksamningsins hafi brostið.  Stefnandi sé bundinn af samningnum í samræmi við regluna um skuld­bindingargildi samninga.  Ákvæðið í ÍST-30 sem stefnandi vísi til sé undantekningar­regla.  Ekki sé hægt að rýmka regluna eins og stefnandi reyni hér.  Reglan eigi aðeins við um kostnað.  Enginn kostnaðarliður hafi hækkað vegna setningar laga nr. 10/2009.  Þá byggja stefndu einnig á því að vísitalan hafi ekki áhrif á samningsfjárhæð, heldur greiðslur á verktíma.  Einnig af þeirri ástæðu eigi ákvæðið ekki við. 

Varðandi tilvísun stefnanda til sanngirni benda stefndu á að heildarverðbætur samkvæmt samningnum hafi numið meira en einum milljarði króna.  Það geti ekki talist ósanngjörn niðurstaða.  Kveðast stefndu hafna því að ósanngjarnt sé að miða við verðbótaákvæði samningsins eftir að lög nr. 10/2009 tóku gildi.  Beiting 36. gr. samningalaga hér eigi sér enga stoð. 

Stefndu segja að stefnandi sé félag öflugra verktaka.  Hann geti ekki talist lakar settur í samskiptum aðila. 

Í greinargerð mótmæltu stefndu útreikningi á kröfum stefnanda og forsendum hans.  Eins og áður greinir var síðar lögð fram matsgerð dómkvadds matsmanns.  Gerðu stefndu þá einu athugasemd við matsgerðina að þar væri hækkun vegna vísitölubreytingar sett inn mánuði of snemma. 

Í greinargerð stefndu var mótmælt útreikningi stefnanda á verðbótum með því að ekki væri tekið tillit til þess að asfalt í klæðningu og stungumalbik væri verðbætt með annarri viðmiðun en byggingarvísitölu.  Þá segir í greinargerðinni að komið hafi í ljós mistök við reikningagerð stefnanda.  Reikningar fyrir verkliði með asfalti hafi verið verðbættir að fullu með byggingarvísitölu, auk hinnar sérstöku leiðréttingar með annarri vísitölu. 

Loks mótmæla stefndu dráttarvaxtakröfu með því m.a. að krafa stefnanda sé röng og ekki fyllilega rökstudd. 

Niðurstaða

Samið var um að stefnandi ynni tiltekið verk gegn ákveðinni greiðslu.  Samkvæmt grein 3.2 í útboðslýsingu verksins var tilboðið miðað við byggingarvísitölu í nóvember 2007 og skyldu einstakir reikningar verðbættir miðað við hækkun vísi­tölunnar sem nam meiru en 0,24663% á mánuði.  Jafnframt sagði að verðbætur féllu niður yrði byggingarvísitalan undir hinum tilgreindu mörkum á viðkomandi tíma. 

Í síðari hluta greinarinnar var sett sérregla um verðbætur vegna asfalts. 

Aðilar völdu að miða verðbætur samningsfjárhæða að talsverðu leyti við tiltekna vísitölu, þrátt fyrir að þeir vissu að hún mældi ekki einungis kostnað stefnanda við framkvæmd verksins.  Með því hafa aðilar tekið á sig nokkra áhættu af því að mis­munur kæmi fram á milli hækkunar vísitölunnar og kostnaðar við hið umsamda verk. 

Lög nr. 10/2009 mæltu fyrir um endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðar- og frístundahúsnæðis á tímabilinu frá 1. mars 2009 til 1. janúar 2011.  Þessi lagabreyting leiddi til þess að byggingarvísitalan lækkaði og gildi hennar var lægra en ella hefði orðið.  Þar með urðu greiðslur til stefnanda lægri en ella.  Áhrifin eru reiknuð í áðurnefndri matsgerð Jökuls M. Péturssonar. 

Enginn fyrirvari var í verksamningi aðila um breytingar á skattheimtu eða laga­breytingar yfirleitt sem áhrif hefðu á vísitöluna.  Er þó vel þekkt að hér á landi hefur oft verið reynt að hafa áhrif á vísitöluhækkanir með ýmsum ráðum.  Þessum tilraunum hefur þó fækkað eftir að vísitöluhækkanir launa voru aflagðar. 

Stefnandi ber fyrir sig ákvæði í ÍST 30 þar sem mælt er fyrir um að báðir aðilar geti krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem hafa áhrif á kostnað sem reglur samnings um verðbreytingar endurspegli ekki.  Ákvæði þetta tekur samkvæmt orðanna hljóðan ekki til þess þegar lög hafa áhrif á verðbreytingamæli samnings.  Regla þessi er undantekning og er útilokað að hún verði skýrð svo rúmt að hún heimili endurskoðun samningsfjárhæðar í þessu tilviki. 

Staðfest hefur verið með framangreindri matsgerð hvaða áhrif breytingar á reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts höfðu á byggingarvísitölu og þar með verð­bætur til stefnanda.  Í hlutfalli við samningsfjárhæðina eru áhrifin lítil.  Er því ekki hægt að fallast á að forsendur fyrir samningsfjárhæðinni og verðtryggingu hennar hafi brostið.  Þá skiptir ekki máli þó ekki hafi verið beinn og upplýstur tilgangur löggjafans með setningu laga nr. 10/2009 að lækka byggingarvísitölu eða að lækka verklaun stefnanda.  Loks verður ekki fallist á að 36. gr. samningalaga komi stefnanda að haldi.  Ekki er hægt að tala um að tiltölulega lítil lækkun verklauna sé bersýnilega ósanngjörn. 

Samkvæmt framansögðu er öllum málsástæðum stefnanda hafnað og verða stefndu sýknaðir af kröfum hans.  Rétt er að stefnandi greiði hvorum stefnda 400.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

Stefndu, íslenska ríkið og Vegagerð ríkisins, eru sýknuð af kröfum stefnanda, Ósafls sf.

Stefnandi greiði hvorum stefnda 400.000 krónur í málskostnað.