Hæstiréttur íslands

Mál nr. 217/2004


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004.

Nr. 217/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Birni Sigurðssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Hegningarauki. Skaðabætur.

B var ákærður fyrir líkamsárás, með því að hafa slegið A hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann skarst á augabrún, bólgnaði á vörum og þrjár postulínskrónur í gómum hans brotnuðu. B neitaði sök. Þótti sannað, með vitnisburði A og ýmist með beinum eða óbeinum stuðningi af vitnisburði þriggja annarra vitna, að B hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök. B átti nokkurn sakarferil að baki og var dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi, en dómurinn var hegningarauki við 7 mánaða skilorðsbundinn dóm.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. maí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að ákærði verði dæmdur til að greiða A 310.610 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að fyrrgreindri kröfu A verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Björn Sigurðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2004.

Málið er höfðað með ákæru, útgefinni 9. desember 2003, á hendur: ,,Birni Sigurðssyni, kt. 110580-3209, fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. nóvember 2002, að Smiðshöfða 10, Reykjavík, slegið A, kt. [...], hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll í gólfið og hlaut 4 sm langan skurð á hægri augabrún, bólgnaði á vörum og þrjár postulínskrónur í gómum hans brotnuðu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þá krefst A skaðabóta að fjárhæð 665.270 kr. auk vaxta frá 3. nóvember 2002, sbr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001, og dráttarvaxta, sbr. 15. gr. sömu laga, frá 21. júlí 2003.”

 

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi.  Komi til sakfellingar er þess krafist að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing vegna hegningaraukaáhrifa og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún sæti verulegri lækkun. Réttargæslu- og málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins úr ríkissjóði í tilviki aðalkröfu.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 3. nóvember 2002, var lögreglan send að Smiðshöfða 10 vegna slagsmála, sem þar voru sögð eiga sér stað.  Í skýrslunni segir að rætt hafi verið við A, sem hafi sagst hafa lent í átökum við ákærða, sem væri farinn af vettvangi.  Segir í skýrslunni að A hafi verið rólegur og borið sig vel og hafi sem minnst úr þessu viljað gera.  Hafi hann talið að ekki væri ástæða fyrir lögreglu að hafa frekari afskipti af þessu.  Í skýrslunni er lýst skrámu, sem A hafði á augabrún og tvær til þrjár tennur hafi verið lausar eða brotnar. Síðar sömu nótt ræddi lögreglan við ákærða, sem kvaðst ekki hafa lent í neinum átökum og hann hafi ekki slegið A.

26. febrúar 2003 lagði A fram kæru á hendur ákærða vegna atburðarins, sem lýst er í ákærunni. 

7. nóvember 2003 var ákærði boðaður til skýrslutöku og fékk hann þá fyrst að vita af kærunni á hendur sér.  Hann neitaði sök.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa komið að Smiðshöfða 10 um miðnæturleytið þetta kvöld ásamt J, kunningja sínum. Þeir hafi stoppað þarna í 30 – 40 mínútur uns þeir fóru á krá, en komu síðan aftur að Smiðshöfða 10. Lögreglan hafi komið þangað um svipað leyti að sögn ákærða.  Ákærði kvaðst ekki þekkja A og ekki vita hvort hann var að Smiðshöfða 10 á þessum tíma.  Hann kvaðst ekki hafa séð nein átök á staðnum.

Vitnið, A, kvaðst hafa verið staddur að Smiðshöfða 10 á þeim tíma, sem hér um ræðir, er ákærði kom þangað.  Hafi þeir ákærði átt einhver orðaskipti en hann hafi síðan ekki vitað fyrr en hann lá í gólfinu eftir að ákærði sló hann skyndilega en þeir ákærði hafi ekki verið að rífast.  Hann kvað ákærða hafa hrækt á gólfið fyrr um kvöldið og kvaðst A hafa rætt það við kunningja ákærða og beðið ákærða að þrífa upp eftir sig.  Það hafi verið í tengslum við þetta atvik sem ákærði sló hann. A kvaðst hafa rætt við lögregluna um nóttina og greint frá því að hann hafi lent í átökum við ákærða og í átökunum hafi hann hlotið skurð á augabrún og misst þrjár postulínskrónur. A kvaðst hafa verið farinn á slysavarðstofuna er ákærði kom á staðinn öðru sinni sömu nótt. 

A lagði fram kæru 26. febrúar 2003.  Hann lýsti því  að það hefði verið fyrir misskilning, sem hann kom ekki fyrr til lögreglunnar til að leggja fram kæru, þar sem  honum hafi verið greint svo frá að hann þyrfti ekki að koma og kæra fyrst lögreglan hefði skrifað skýrslu um málið.

Vitnið, R, kvað hafa verið partí á þáverandi heimili sínu að Smiðshöfða 10 á þessum tíma.  Hún kvaðst þekkja bæði ákærða og A.  R kvaðst ekki hafa séð atburðinn sem lýst er í ákærunni.  Hún kvaðst hafa séð ákærða og vin hans hlaupa fram hjá sér og út eftir að atburðurinn, sem í ákærunni greinir og A greindi henni frá því sem átti sér stað. Skurður hafi verið á augabrún A og brotnar í honum tennur.

Vitnið, D, kvaðst hafa verið staddur að Smiðshöfða 10 og hann hafi séð hnefahögg, en ekki muna hvernig mennirnir, sem í hlut áttu litu út og ekki vita hver kýldi hvern.  Við höggið hafi annar mannanna dottið á borð, að því er vitnið minnti.  Við þetta hafi pilturinn hlotið skurð á enni, eða augabrún.  Maðurinn sem féll í gólfið hafi síðan staðið aftur á fætur og farið inn á snyrtinguna til að þrífa sig.  Hann kvaðst ekki vita hvað varð um manninn sem sló.  Fram kom að vitnið mundi mjög illa eftir þessum atburðum. 

Tekin var skýrsla af D hjá lögreglunni 1. október sl.  Þar eru nafngreindir ákærði og A. D kvað ástæðuna þá að lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna hafi sagt sér hvað mennirnir hétu.  D kvaðst ekki þekkja þessa menn.

Vitnið, J, kvaðst ásamt ákærða hafa farið að Smiðshöfða 10 á þeim tíma, sem hér um ræðir.  Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að atburði, eins og þeim sem lýst er í ákærunni, og engin átök hafi orðið meðan þeir ákærði dvöldu þarna, en hann kvað þá hafa dvalið á staðnum í 5 mínútur. Eftir að vitninu var kynntur framburður ákærða, sem kvaðst hafa dvalið á staðnum í 30 – 40 mínútur, kvað vitnið sig minna að þeir hefðu dvalið þar skemmri stund.

Vitnið, Oddur Ólafsson lögreglumaður, kom á vettvang og kvaðst hafa rætt þar við ákærða og spurt hann að því hvort hann hefði lent í átökum, en  hann sagt svo ekki vera. Oddur kvaðst hafa rætt við A, sem hafi verið rólegur og rétt væri, það sem greinir í frumskýrslu, að hann hafi verið rólegur og hafi viljað sem minnst úr þessu gera og ekki væri ástæða til lögregluafskipta. Þetta hafi verið ástæða þess að ekki voru tekin niður nöfn fólks, sem var á vettvangi og ákveðið hafi verið að eyða ekki meiri tíma í þetta mál.

 

Niðurstaða

Samkvæmt læknisvottorði A, dagsettu 14. mars 2003,  kom hann á slysadeild kl. 01.32 aðfaranótt 3. nóvember 2002.  Segir í vottorðinu að A hafi verið sleginn í andlitið í samkvæmi í iðnaðarhúsnæði við Smiðshöfða.  Í læknisvottorðinu er lýst áverkum, sem eru hinir sömu og lýst er í ákæru.  Annað læknisvottorð, dagsett 28. janúar 2003, styður þetta og einnig vottorð tannlæknis, dagsett 14. mars 2003.

Vitnið, A, lýsti því hvernig ákærði sló hann í andlitið svo hann hlaut áverkana, sem lýst er í ákærunni.

Vitnin, R og D, sáu áverka á A og vitnið, R, kvað ákærða hafa hlaupið á brott en stuttu síðar greindi A henni frá því sem gerðist og þá lýsti hún áverkunum á A, sem greinilega eru hinir sömu og í ákæru greinir. Vitnið, D, sá mann sleginn og lýsti áverkum á augabrún.

Vitnið, Oddur Ólafsson lögreglumaður, staðfesti frumskýrslu, sem hann ritaði, en þar er því lýst að A hafi verið með skrámu á augabrún og tvær til þrjár tennur hafi verið lausar eða brotnar og að hann hafi sagt ákærða hafa slegið sig.  Öll eru þessi vitni trúverðug.

Framburður ákærða, um að hann hafi ekki lent í átökum á þessum tíma og að hann þekki ekki A og viti ekki hvort hann hafi verið að Smiðshöfða 10 á þessum tíma, er ekki trúverðugur. Er þessi framburður ákærða andstæður vitnisburði sem rakinn hefur verið. Að öllu ofanrituðu virtu er sannað, með vitnisburði A og ýmist með beinum eða óbeinum stuðningi af vitnisburði R, D og Odds Ólafssonar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærunni greinir.

Með vísan til alls ofanritaðs og til læknisvottorða A er sannað að afleiðingar árásar ákærða urðu þær, sem lýst er í ákærunni.

Brot ákærða er samkvæmt því rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Ákærði á að baki nokkurn sakaferil.  Hann hefur tvisvar sinnum frá árinu 2000 hlotið dóma fyrir líkamsárás.  Síðari dómurinn er sektardómur frá því í desember 2001 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði hlaut 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi í 3 ár fyrir fíkniefnabrot með dómi 16. janúar 2003.  Ber nú að dæma hegningarauka við þann dóm. Er skilorðsdómurinn dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60., 77. og 78. gr almennra hegningarlaga.

Þykir refsing ákærða þannig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorðs 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði er bótaskyldur vegna háttsemi sinnar.

A krefst 300.000 króna í skaðabætur vegna kostnaðar við tannviðgerðir.  Sú krafa er studd vottorði tannlæknis um ætlaðan viðgerðarkostnað, en í vottorðinu segir að í málinu séu ,,ansi mörg spursmál, sem tíminn einn mun leiða í ljós”.  Þessi krafa er of óljós og ekki er ljóst hvert tjón A verður.  Krafan er samkvæmt þessu ekki dómtæk og ber að vísa henni frá dómi.

Krafist er 250.000 króna í miskabætur.  A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 75.000 krónur.

Ákærði er dæmdur til að greiða A samtals 30.610 krónur vegna útlagðs kostnaðar vegna þriggja læknisvottorða.  Þá greiði ákærði A 30.000 krónur í lögmannsþóknun við að halda kröfunni fram.

Ákærði er samkvæmt þessu dæmdur til að greiða A 135.610 krónur í skaðabætur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en upphafstími dráttarvaxta miðast við 7. desember 2003, en þá var mánuður liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 100.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.

Eins og rakið var lagði A fram kæru á hendur ákærða 26. febrúar 2003.  Ákærði fékk ekki að vita af kærunni fyrr en tekin var af honum skýrsla 7. nóvember 2003, eða rúmum 8 mánuðum síðar.  Þessi dráttur á málinu hjá lögreglu er ámælisverður.

Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Björn Sigurðsson, sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 135.610 krónur í skaðabætur auk vaxta, skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2002 og til 7. desember 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi að telja og til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 100.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.