Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Niðurfelling máls
- Gagnkrafa
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 371/2013.
|
Íbúðalánasjóður (Gunnar Sturluson hrl.) gegn ALMC hf. (enginn) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Niðurfelling máls. Gagnkrafa.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Í um að fellt yrði niður mál vegna ágreinings um kröfu sem Í hafði lýst við slit fjármálafyrirtækisins A hf. Við meðferð málsins í héraði féllst Í á afstöðu slitastjórnar A hf. til þess hvar skyldi skipa kröfu Í í réttindaröð samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og gerði þá kröfu að málið yrði fellt niður. A hf. hélt aftur á móti til streitu kröfum sínum um riftun tiltekins samnings aðila og að viðurkennt yrði að A hefði verið heimilt að jafna út kröfur að tiltekinni fjárhæð með skuldajöfnuði. Krafa A hf. þótti varða úrlausn sakarefnisins sem borið hefði verið undir dóm og var talið að uppfyllt væru önnur skilyrði 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 sbr. 2. tölulið 173. gr. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að málið yrði fellt niður. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að mál þetta verði fellt niður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti
I
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., sem nú ber nafn varnaraðila, slitastjórn 11. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins og rann kröfulýsingarfrestur út 18. júlí 2009. Á kröfulýsingarfresti lýsti sóknaraðili innlánskröfu að höfuðstól 2.183.858.564 krónur auk vaxtakröfu til 22. apríl 2009 að fjárhæð 63.422.892 krónur sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá lýsti hann kröfu samkvæmt vaxtaskiptasamningi að höfuðstól 460.104.987 krónur sem almennri kröfu. Slitastjórn varnaraðila lýsti þeirri afstöðu til krafnanna með bréfi 30. júlí 2009 að hafna bæri forgangsréttinum og flokka kröfurnar í heild sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 þar sem hinar lýstu kröfur hafi verið skuldabréfalán til félagsins sem breytt hafi verið í innlán áður en komið var að umsömdum gjalddaga skuldabréfsins. Var með bréfinu jafnframt lýst yfir riftun á þessum ráðstöfunum. Sóknaraðili andmælti þessari afstöðu með bréfi 5. ágúst 2009.
Í bréfi slitastjórnar varnaraðila til sóknaraðila 6. apríl 2010 var vísað til fyrri bréfaskipta og óformlegra funda aðila og tekið fram að slitastjórn hafi óskað eftir sérstakri úttekt á lögskiptum milli Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. og sóknaraðila sem leitt hafi til samnings 14. október 2008 um kaup þess fyrrnefnda á skuldabréfum af Kaupþingi banka hf. Þeirri úttekt væri ekki lokið en áskilinn væri réttur til að hafa uppi frekari riftunarkröfur á hendur sóknaraðila ef athugunin gæfi tilefni til þess. Með bréfi slitastjórnarinnar 4. maí 2010 var síðan lýst yfir riftum á þessum samningi. Jafnframt var í bréfinu tekið fram að riftunarkrafan næmi 4.242.654.236 krónum og var lýst yfir skuldajöfnuði við viðurkenndar almennar kröfur sóknaraðila.
Með bréfi slitastjórnar varnaraðila til Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2010 var beðið um dómsmeðferð vegna ágreinings aðila um lýstar kröfur sóknaraðila. Var tekið fram að ágreiningur aðila snerist um það að sóknaraðili krefðist þess að stærstur hluti krafna sinna yrði flokkaður sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en slitastjórn teldi að allar kröfur hans flokkist sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laganna, en að auki eigi varnaraðili skuldajafnaðarkröfur á hendur sóknaraðila sem séu hærri en heildarfjárhæð krafna sóknaraðila og að teknu tilliti til þess eigi sóknaraðili enga kröfu á hendur varnaraðila. Málið var þingfest 6. október 2010. Sóknaraðili lagði fram greinargerð í málinu 3. desember 2010. Var þar tekið fram að ágreiningur málsins sneri ekki að ætluðum rétti varnaraðila til skuldajafnaðar gegn kröfum sóknaraðila eða réttmæti riftunaryfirlýsingar varnaraðila. Varnaraðili skilaði greinargerð af sinni hálfu 10. febrúar 2011. Gerði hann þar meðal annars þær kröfur að staðfest yrði riftum sín á samningi aðila 14. október 2008 og að viðurkennt yrði að varnaraðila hafi verið heimilt að jafna út kröfur sóknaraðila samtals að fjárhæð 2.720.955.706 krónur með skuldajöfnuði 4. maí 2010. Sóknaraðili skilaði skriflegum andsvörum við gagnkröfunum 4. janúar 2012 og andmælti því meðal annars að framangreindar kröfur kæmust að í málinu. Í þinghaldi 12. febrúar 2013 lagði sóknaðili fram bókun þar sem hann lýsti því yfir að hann féllist á þá afstöðu varnaraðila að kröfur hans yrðu viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt félli hann frá öllum dómkröfum sínum í málinu. Í ljósi þess að forsendur fyrir rekstri málsins væru þar með brostnar óskaði hann eftir því að málið yrði fellt niður. Því andmælti varnaraðili og gekk hinn kærði úrskurður um þann ágreining 13. maí 2013.
II
Samkvæmt 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 er það skilyrði fyrir heimild til að hafa uppi sjálfstæða kröfu af hálfu þess sem verst í máli, sem rekið er samkvæmt XXIV. kafla laganna, að krafan varði úrlausn sakarefnisins sem borið hefur verið undir dóm. Gagnkröfu verður þó aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laganna, sbr. þó 2. tölulið 173. gr. Samkvæmt síðastgreindu ákvæði verður ekki leyst úr skyldu þriðja manns í málum sem fara eftir ákvæðum XXIV. kafla laganna nema um sé að ræða skyldu til greiðslu gagnkröfu ef hlutaðeigandi hefur sjálfur lýst kröfu um réttindi sín við gjaldþrotaskipti, ágreiningsmál um kröfu hans er rekið samkvæmt ákvæðum þess kafla, skilyrði væru til að höfða gagnsök um gagnkröfuna eða hafa hana uppi til skuldajafnaðar í einkamáli um kröfu hans og hann hefur sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dómi. Eins og að framan er rakið lýsti varnaraðili yfir skuldajöfnuði við kröfur sóknaraðila áður en ágreiningi aðila var vísað til dómstóla. Gagnkröfu varnaraðila var getið í bréfi hans til Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2010 þar sem beðið var um dómsmeðferð vegna ágreinings aðila. Varnaraðili hafði kröfuna með skýrum hætti uppi í greinargerð sinni til héraðsdóms, sem lögð var fram áður en sóknaraðili féll frá sínum kröfum og óskaði niðurfellingar málsins. Þá heldur sóknaraðili við þær kröfur sem hann lýsti við slit varnaraðila og að framan eru raktar þótt hann hafi fallið frá því að krefjast forgangs vegna meginhluta þeirra samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa varnaraðila varðar því úrlausn sakarefnis sem borið hefur verið undir dóm og með því að önnur skilyrði 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. tölulið 173. gr., eru uppfyllt verður kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2013.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. mars sl. um kröfu sóknaraðila þess efnis að málið verði fell niður, var þingfest 6. október 2010.
Sóknaraðili er Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík.
Varnaraðili er ALMC hf. (áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf.) Borgartúni 25, Reykjavík.
Fyrir dóminum gerði sóknaraðili upphaflega eftirfarandi dómkröfur:
a) Að krafa sóknaraðila að fjárhæð 2.247.281.456 krónur, sem sundurliðast í höfuðstól að fjárhæð 2.183.858.564 krónur og 20,5% vexti á dag af nefndum höfuðstól frá 2. mars 2009 til og með 22. apríl 2009, að fjárhæð 63.422.892 krónur, verði samþykkt sem forgangskrafa í slitameðferð varnaraðila, samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
b) Að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til skuldajöfnunar á öllum lýstum kröfum hans á hendur varnaraðila gagnvart kröfum varnaraðila samkvæmt 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Um er að ræða kröfur sóknaraðila að fjárhæð 2.247.281.456 krónur vegna innláns og 473.674.250 krónur vegna vaxtaskipta-samnings, sbr. kröfu nr. 217 í kröfuskrá varnaraðila.
c) Til vara er krafist bóta að fjárhæð 2.247.281.456 krónur samkvæmt 3. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og að viðmiðunardagsetning 3. mgr. 100. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé 9. mars 2009 í tilviki varnaraðila. Um er að ræða kröfur sóknaraðila að fjárhæð 2.247.281.456 krónur vegna innláns og 473.647.250 krónur vegna vaxtaskiptasamnings, sbr. kröfu nr. 217 í kröfuskrá varnaraðila.
d) Til vara er þess krafist, verði fallist á riftun varnaraðila að því er varðar kaupsamning aðila, dags. 17. október 2008, að sóknaraðila verði ekki gert að þola riftun nema á þeim fjárhæðum sem voru ógreiddar samkvæmt skilmálum skuldabréfsins (auðkenni STBR 07 9) þann 9. mars 2009, þannig að krafa sóknaraðila að fjárhæð 89.988.889 krónur verði samþykkt sem forgangskrafa í slitameðferð varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Um er að ræða vexti sem hefði átt að greiða af skuldabréfinu, dags. 19. desember 2008.
e) Að sóknaraðila verði dæmdur málskostnaður að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi varnaraðila að mati dómsins miðað við umfang og hagsmuni málsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Með framhaldsgreinargerð gerði sóknaraðili eftirfarandi kröfur:
a) Að dómkröfum varnaraðila nr. 1 og 4 verði vísað frá dómi.
b) Til vara er þess krafist að kröfu varnaraðila um staðfestingu á riftun hans á samningi aðila frá 14. október 2008, með fyrirsögninni Repurchase of Credit Linked Notes and Purchase og Bonds, verði hafnað.
c) Til þrautavara er þess krafist að því verði hafnað að varnaraðili hafi haft heimild til að jafna út kröfur sóknaraðila með skuldajöfnuði hinn 4. maí 2010.
Varnaraðili gerði upphaflega eftirfarandi dómkröfur:
1) Að staðfest verði riftun varnaraðila á samningi hans og sóknaraðila dags. 14. október 2008 með fyrirsögninni: Repurchase of Credit Linked Notes and Purchase og Bonds.
2) Að staðfest verði riftun varnaraðila á uppgreiðslu skuldabréfs í eigu sóknaraðila, útgefið af varnaraðila í flokki STBR 07 9, sem fram fór 17. október 2008, með þeim hætti að uppreiknuðu verðmæti bréfsins, 2.025.120.266 krónum, var breytt í innlán sóknaraðila hjá varnaraðila.
3) Að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að kröfur sóknaraðila, sem greinir í 2. tölulið dómkrafna varnaraðila, samtals að fjárhæð 2.247.281.456 krónur, skyldu njóta rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti við slitameðferð varnaraðila án tillits til þess hvort varnaraðili hefði heimild til að jafna þær út með skuldajöfnuði.
4) Að viðurkennt verði að varnaraðili hafi haft heimild til að jafna út kröfur sóknaraðila samtals að fjárhæð 2.720.955.706 krónur (2.247.281.456 + 473.647.250) með skuldajöfnuði hinn 4. maí 2010.
5) Að kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað.
6) Að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess í þessum þætti málsins að kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms. Verði krafa sóknaraðila tekin til greina krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi hans að mati dómsins.
II
Að framan er rakið að sóknaraðili gerði kröfu um að liðum 1 og 4 í dómkröfum varnaraðila verði vísað frá dómi. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 27. apríl 2012 var þeirri kröfu sóknaraðila hafnað.
Í þinghaldi hinn 12. febrúar sl. lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann lýsti því yfir að hann féllist á afstöðu varnaraðila þess efnis að kröfum þeim sem hann lýsti við slit varnaraðila teljist almennar kröfur en ekki forgangskröfur eins og hann hafði áður krafist. Taldi sóknaraðili þetta leiða til þess að fella bæri málið niður og gerði hann slíka kröfu. Varnaraðili lýsti því á hinn bóginn yfir að hann féllist ekki á að málið yrði fellt niður. Í þinghaldi hinn 19. mars sl. tjáðu lögmenn aðila sig munnlega um ágreininginn og að því búnu var krafa sóknaraðila tekin til úrskurðar.
III
Varðandi kröfu um niðurfellingu málsins byggði sóknaraðili á því að ekki sé lengur ágreiningur milli aðila málsins. Sóknaraðili hafi lýst því yfir að hann fallist á afstöðu varnaraðila varðandi rétthæð þeirra krafna sem hann lýsti á sínum tíma. Upphaflega hafi verið ágreiningur með aðilum málsins um rétthæð krafna sóknaraðila sem ekki hafi tekist að jafna. Ágreiningi um þetta hafi því, samkvæmt 2. mgr. 120. gr. og 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 verði vísað til héraðsdóms. Nefnd lög um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi ekki að geyma sér ákvæði um lok ágreinings eftir að mál hefur verið sent til héraðsdóms þ.e. hvað gera skuli ef ágreiningur er ekki lengur fyrir hendi líkt og hátti til í þessu máli. Í c-lið 105. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 segi að fella beri niður mál krefjist stefnandi þess. Í 2. mgr. 178. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. komi skýrt fram að ef ekki leiði annað af ákvæðum laganna gildi almennar reglur laga um meðferð einkamála um meðferð mála samkvæmt XXIV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þetta leiði til þess að c-liður 105. gr. laga um meðferð einkamála eigi hér við enda enga sérreglu að finna í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. varðandi niðurfellingu máls eftir að það er komið til héraðsdóms. Sóknaraðili heldur því fram að samkvæmt nefndum c-lið 105. gr. hafi hann fullt forræði á því að fella málið niður enda ákvæði skýrt hvað þetta varðar og ítrekað staðfest með dómum að niðurfelling máls sé á forræði stefnanda og stefndi geti ekki krafist efnisdóms þó hugur hans standi til þess að efnislega sé leyst úr öðrum ágreiningi aðila. Stefndi hafi ekki slíkan sjálfstæða rétt kjósi stefnandi að fella mál niður.
Sóknaraðili heldur því fram að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 592/2010 sé fordæmisgefandi varðandi úrlausn máls þessa en þar hafi mál verið fellt niður að kröfu sóknaraðila eftir að sóknaraðili lýsti því yfir að ekki væri lengur ágreiningur milli aðila. Þá bendir sóknaraðili á að í 4. mgr. 177. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. komi fram að það sé skilyrði fyrir því að varnaraðili komi að sjálfstæðri kröfu að krafan varði úrlausn sakarefnisins. Í þessu máli hafi sakarefnið snúist um rétthæð kröfu sóknaraðila. Til að kröfur varnaraðila komist að í málinu þurfi að liggja fyrir að hægt væri að hafa þær sjálfstætt uppi eftir ákvæðum XXIII. kafla laganna. Í þessu tilfelli sé svo ekki. Fyrsti liður kröfu varnaraðila sé riftunarkrafa í öðru máli þar sem atvik hafa ekkert með sóknaraðila að gera. Þá sé ekki hægt að hafa uppi kröfu um riftun í ágreiningsmáli eftir lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. án samþykkis sóknaraðila en slíkt samþykki sé ekki til staðar. Sóknaraðili hafi þvert á móti gert kröfu um að varnaraðili höfðaði mál eftir almennum reglum um meðferð einkamála varðandi þá kröfu sína en það hafi hann ekki gert. Auk þess telur sóknaraðili riftunarkröfu varnaraðila vera lögspurningu þar sem varnaraðili hafi ekki gert grein fyrir því hvaða fjárhæðir er um að ræða og þá liggi ekki fyrir hvort um greiðsluskyldu sé að ræða af hálfu sóknaraðila og engar kröfur hafðar uppi um slíkt.
Sóknaraðili telur kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð á grundvelli riftunar ekki tæka þar sem engin krafa liggi fyrir sem nota eigi til skuldajöfnunar. Þessi krafa sé því marklaus í skilningi kröfuréttar og lögspurning. Sóknaraðili tekur þó fram að enginn ágreiningur sé um það að gagnkvæmum kröfum aðila sé heimilt að skuldajafna. Þannig standi í raun eingöngu eftir riftunarkrafa varnaraðila en sú krafa uppfylli hvorki skilyrði laga um meðferð einkamála né laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem hún varði ekki sakarefnið. Auk þess uppfylli hún ekki skilyrði 2. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála til þess að hún sé höfð uppi til sjálfstæðs dóms enda þurfi í slíkum tilfellum að gagnstefna en það hafi ekki verið gert hér enda varla hægt.
Í þessu máli hafi ágreiningur í upphafi snúist um rétthæð kröfu sóknaraðila en á móti hafi varnaraðili uppi kröfu um riftun. Slíkum kröfum verði ekki skuldajafnað enda ekki skilyrði til þess. Þar sem sóknaraðili hafi fallist á afstöðu varnaraðila varðandi rétthæð kröfu sóknaraðila og þar sem kröfur varnaraðila sem hann hefur haft uppi gegn kröfum sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði til sjálfstæðs dóms beri að fella mál þetta niður en sú hafi orðið niðurstaðan í nefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 592/2010. Loks telur sóknaraðili að ekki sé hægt að fjalla um kröfur varnaraðila þar sem skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til þeirra en það sé skilyrði fyrir því að héraðsdómur skeri úr ágreiningi að skiptastjóri hafi tekið afstöðu til krafna áður en máli er skotið til héraðsdóms.
Varnaraðili vísar í málatilbúnaði sínum hvað þennan þátt málsins varðar, til þess að í 173. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé fjallað um þá sérreglu við hvaða aðstæður kröfur bús á hendur öðrum aðilum geti komið til úrlausnar eftir þeim sérstöku málsmeðferðarreglum sem gilda um mál af þeirri tegund sem hér er til umfjöllunar. Í nefndri grein komi fram að ekki verði leyst úr skyldu þriðja manns í málum sem fari eftir XXIV. kafla nema að um sé að ræða tilteknar aðstæður sem taldar eru upp í þremur liðum. Í 2. mgr. 173. gr. segi m.a. „skyldu til greiðslu gagnkröfu hvort sem er til skuldajafnaðar eða sjálfstæðrar dómsúrlausnar, ef hlutaðeigandi hefur sjálfur lýst kröfu um réttindi sín við gjaldþrotaskipti, ágreiningsmál um kröfu hans er rekið eftir ákvæðum XXIV. kafla, skilyrði væru til að höfða gagnsök um kröfuna eða hafa hana uppi til skuldajafnaðar í einkamáli um kröfu hans og hann hefur sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dómi.“ Í þessu máli hátti svo til að sóknaraðili hafi lýst kröfum í nokkrum liðum. Varnaraðila hafi síðan borið að taka afstöðu til þeirra og það hafi hann gert. Afstaðan hafi legið fyrir, eins og lög gera ráð fyrir, áður en ráðstafanir voru gerðar til að rifta ákvörðunum sem teknar voru af sóknaraðila í aðdraganda slitameðferðarinnar. Nákvæmlega með þessum hætti hafi mál þetta orðið til. Sóknaraðili hafi lýst kröfum sem forgangskröfum en slitastjórn hafnað því þar með hafi komið upp ágreiningur um rétthæð krafna sóknaraðila. Um leið telur varnaraðili að riftanlegar ákvarðanir hafi verið teknar sem nota megi til að jafna út almennar kröfur sóknaraðila sem og hugsanlegar forgangskröfur hans. Því haldi varnaraðili því fram að sóknaraðili eigi engar kröfur á hendur honum.
Að mati varnaraðila er mikill munur á atvikum í máli þessu og máli því sem sóknaraðili vísar til í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 592/2010. Þar hafi sóknaraðili málsins fallið frá öllum kröfum á hendur varnaraðila þess máls áður en gagnkröfur komu fram. Í því máli hafi því engar kröfur verið til að jafna út og þar af leiðandi ekki efni til að fjalla um gagnkröfurnar. Hér hátti hins vegar svo til að sóknaraðili eigi kröfur á varnaraðila þó svo að hann hafi fallið frá því að þær njóti forgangs. Sóknaraðili hafi þannig ekki lýst því yfir að hann eigi ekki kröfur á varnaraðila og þessum kröfum vilji varnaraðili jafna út með skuldajöfnuði.
Varnaraðili telur málmeðferðina vera í fullu samræmi við riftunarkafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og vísar hann í því sambandi til 148. gr. laganna um málshöfðunarfresti. Þar komi m.a. fram í 2. mgr. að frestur samkvæmt 1. mgr. greinarinnar gildi ekki um mótmæli gegn kröfum sem lýst er í þrotabú. Þetta þýði að þrotabú geti rekið riftunarmál til að jafna út kröfum sem lýst hefur verið í þrotabúið og þá gildi þessi málshöfðunarfrestur ekki. Af þessu leiði að öll skilyrði eru til þess að fjalla um riftunarkröfuna í þessu máli enda hafi sóknaraðili sjálfur efnt til ágreinings að hluta til um sína kröfu. Vísar varnaraðili hvað þetta varðar til 173. gr. nefndra laga. Sóknaraðili hafi sótt þing þegar gagnkrafan kom fram fyrir dóminum og ekki fallið frá kröfum sínum þá. Þvert á móti hafi hann lagt fram sérstaka bókun, framhaldsgreinargerð, þar sem hann tekur til varna gegn þessari kröfu. Hann telji síðar að hann geti komist hjá því að fjallað sé um riftunarkröfuna með því að falla frá ágreiningi um rétthæð kröfu sinnar og þannig komist hjá því að fjallað sé um það hvort hann eigi yfir höfuð almenna kröfu í búið. Varnaraðili heldur því fram að samkvæmt 173. gr. og 2. mgr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. fái þessi afstaða sóknaraðila ekki staðist.
Varnaraðili heldur því fram að ekki hafi verið ástæða til að gagnstefna þar sem eingöngu er gerð krafa um að riftun taki til þess að jafna út kröfur sem enn standa á búinu en ekki krafa um greiðsluskyldu sóknaraðila umfram það enda þótt varnaraðili telji kröfur sínar á hendur sóknaraðila hærri en þær kröfur sem hann lýsti í búið. Af þessu leiði að sóknaraðili hafi ekki forræði á því að fella málið niður enda hafi hann ekki fallið frá öllum kröfum í búið en varnaraðili eigi lögmæta gagnkröfu til að jafna út kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili andmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að hér sé um lögspurningu að ræða og ekki verði skorið úr þessum ágreiningi nema í almennu einkamáli enda verði slíkar spurningar heldur ekki hafðar uppi í málum sem rekin eru sem almenn einkamál. Mál þetta snúist um það hvort krafan sem lýst var sé greidd að fullu eða ekki.
Varðandi kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila, verði mál þetta fellt niður, vísar varnaraðili til 130. gr. laga um meðferð einkamála og telur að dæma beri sóknaraðila til greiðslu slíks kostnaðar enda hafi hann í því tilfelli að ástæðulausu efnt til þessa málareksturs.
III
Niðurstaða
Í þessum þætti málsins er, líkt og áður er rakið, til úrlausnar krafa sóknaraðila þess efnis að málið verði fellt niður.
Fyrir liggur að sóknaraðili hefur fallist á afstöðu varnaraðila varðandi rétthæð þeirrar krafna sem sóknaraðili lýsti við slit á varnaraðila. Að framan er rakið að sóknaraðili telur að eftir að hann féll frá ágreiningi um rétthæð kröfunnar beri að fella mál þetta niður. Varnaraðili krefst þess hins vegar að málinu verði fram haldið og í framhaldi af því tekin afstaða til yfirlýsinga hans um riftun og skuldajöfnun sem hann telur leiða til þess að sóknaraðili eigi engar kröfur á varnaraðila.
Mál þetta er rekið sem ágreiningsmál við slit á búi varnaraðila. Slík mál skal reka eftir reglum 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en um málsmeðferð fyrir héraðsdómi gildir XXIV. kafli laganna. Í 178. gr. laganna kemur fram að leiði ekki annað af ákvæðum laganna gildi reglur um meðferð einkamála í héraði. Ágreiningi aðila var réttilega skotið til héraðsdóms með bréfi slitastjórnar varnaraðila dagsettu 24. júlí 2010. Í því bréfi segir m.a. svo „Ágreiningur aðila snýst um stöðu kröfuhafans í réttindaröð, svo og rétt til skuldajafnaðar á móti kröfum hans. Kröfuhafinn krefst þess að stærstur hluti krafna hans verði flokkaður sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en slitastjórn telur að allar kröfur hans flokkist sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laganna, en að auki eigi félagið skuldajafnaðarkröfur sem séu hærri en heildarfjárhæð krafna sjóðsins og þess vegna eigi sjóðurinn, að teknu tilliti til skuldajafnaðarins engu (sic) kröfu á hendur félaginu.“
Varnaraðili hafði, í greinargerð sinni til dómsins, uppi sjálfstæðar kröfur á hendur varnaraðila þess efnis að samningi hans og sóknaraðila frá 14. október 2008 yrði rift svo og uppgreiðslu á ákveðnu skuldabréfi sem fram fór 17. október það ár eins og nánar er rakið í kröfugerð varnaraðila hér að framan. Þá krafðist hann þess að heimilt verði að jafna út kröfum sóknaraðila. Samkvæmt 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 er það skilyrði fyrir heimild til sjálfstæðrar kröfu af hálfu þess sem verst í máli, að krafa hans varði úrlausn sakarefnisins, sem borið hefur verið undir dóm. Þar kemur fram að gagnkröfu verði því aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laganna, sbr. þó 2. tölulið 173. gr. Kröfur þær til sjálfstæðs dóms sem varnaraðili gerði í greinargerð sinni, sem fram var lögð á dómþingi 10. febrúar 2011, uppfylla þessi skilyrði. Þegar af þessari ástæðu verður kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins hafnað og ákvörðun málskostnaðar látin bíða efnisdóms.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Elvar Guðmundsson héraðsdómslögmaður en af hálfu varnaraðila Ragnar Halldór Hall hæstaréttarlögmaður.
Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Íbúðalánasjóðs, þess efnis að mál þetta verði fellt niður er hafnað. Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.