Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-135
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Skaðabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
Með beiðni 3. apríl 2020 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. febrúar sama ár í málinu nr. 641/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við hana gegn vilja hennar með því að beita hana tilgreindu ofbeldi og ólögmætri nauðung. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í málinu var leyfisbeiðandi jafnframt ákærður fyrir brot gegn sama ákvæði með því að hafa haft samræði við B gegn vilja hennar með því að beita hana tilgreindu ofbeldi og ólögmætri nauðung. Var leyfisbeiðandi sakfelldur samkvæmt báðum ákæruliðum fyrir héraðsdómi en sýknaður af þeim síðari í Landsrétti. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða brotaþola skaðabætur.
Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Byggir hann á því að niðurstaða málsins hafi almenna þýðingu þar sem Landsréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur hafi verið rangur að hluta. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar hvað sakfellingu varðar sé rangur enda hafi það mál ekki verið rannsakað af lögreglu með nokkrum hætti. Leyfisbeiðandi hafi bent á margar misfellur í málinu sem rétturinn hafi enga afstöðu tekið til. Vísar leyfisbeiðandi til þess að hann geri ekki kröfu um endurskoðun á mati Landsréttar á munnlegum framburði heldur á gögnum málsins en hann telur að mat réttarins á þeim gögnum hafi verið rangt. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.