Hæstiréttur íslands
Mál nr. 547/2013
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 3. apríl 2014. |
|
Nr. 547/2013. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Ásbjörn Jónsson hrl.) (Kristján Stefánsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Meðdómsmaður. Ómerking héraðsdóms.
X var ákærður fyrir tilraun
til manndráps með því að hafa veist að A með hnífi með þeim afleiðingum að
lífshættulegur áverki hlaust af. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómara
hefði frá öndverðu mátt vera ljóst að niðurstaða þess myndi ráðast af mati á
munnlegri frásögn X og vitnisburði A fyrir dómi. Þá hefði sönnunarfærslan fyrir
dómi meðal annars falist í því að X sýndi dóminum hvernig hann hefði beitt
hnífnum en leggja varð mat á trúverðugleika þeirrar frásagnar með hliðsjón af
öðrum gögnum málsins. Hefði að réttu lagi borið að neyta heimildar 4. mgr. 3.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að þrír dómarar skipuðu dóm í
málinu. Þar sem þessa var ekki gætt þótti óhjákvæmilegt að ómerkja hinn
áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með upphafi aðalmeðferðar. Var
málinu því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2013 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til
vara að refsing verið milduð og einkaréttarkrafa lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði
gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en
til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína. Að
auki krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða útlagðan kostnað sinn að
fjárhæð 67.965 krónur, svo og 257.275 krónur vegna kostnaðar af því „að halda
fram kröfum brotaþola undir lögreglurannsókn“.
Ríkissaksóknari höfðaði mál þetta með
ákæru 6. febrúar 2013, þar sem ákærða var gefin að sök tilraun til manndráps
með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 3. febrúar 2012 veist að A með hnífi
með 8 cm löngu blaði, rekið hnífinn í tvígang í
framanverðan kviðinn á honum og í kjölfarið stungið hann í hægri síðu, yfir
neðstu rifjum við nýrnastað, með þeim afleiðingum að lífshættulegur áverki
hlaust af. Var þetta talið
varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt
læknisvottorði 25. mars 2014 kom fram á röntgenmyndum, sem teknar voru af A við
komu á sjúkrahús í kjölfar atburða, að hnífurinn gekk inn á milli 10. og 11.
rifs skáhalt niður á við og um 12 cm inn á við.
Við rannsókn málsins hjá
lögreglu voru teknar skýrslur meðal annars af ákærða, A og C, sem var í för með
ákærða í umrætt sinn. Kom fram í skýrslu hennar að hún hefði ekki séð þau atvik
sem ákæra lýtur að. Ekki var til að dreifa öðrum vitnum sem gátu borið um
hvernig það bar til að ákærði lagði til A með hnífnum.
Eins og mál þetta var vaxið
samkvæmt framansögðu mátti héraðsdómara frá öndverðu vera ljóst að niðurstaða
þess mundi ráðast af mati á munnlegri frásögn ákærða og vitnisburði A fyrir
dómi. Þá er þess að gæta að sönnunarfærslan fyrir dómi fólst meðal annars í því
að ákærði sýndi dóminum hvernig hann hefði setið á hækjum sér þegar hann beitti
hnífnum en leggja varð mat á trúverðugleika þeirrar frásagnar með hliðsjón af
öðrum gögnum málsins. Að þessu virtu hefði að réttu lagi borið að neyta
heimildar 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að þrír
dómarar skipuðu dóm í málinu. Með því að þess var ekki gætt er óhjákvæmilegt að
ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með upphafi
aðalmeðferðar 16. maí 2013. Verður málinu því vísað heim í hérað til löglegrar
meðferðar.
Eftir þessum úrslitum málsins
verður að fella á ríkissjóð málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun
réttargæslumanns brotaþola, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, en
rétt er að ákvörðun um annan sakarkostnað í héraði bíði nýs dóms í málinu. Þá
verður að leggja á ríkissjóð allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin
málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að
meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá upphafi aðalmeðferðar 16. maí 2013. Er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, greiðast úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin
málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ásbjörns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur,
og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 7. mars
sl. og dómtekið 11. júní sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 6.
febrúar 2013, á hendur X, kt. [...], [...], fyrir tilraun
til manndráps, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 3. febrúar 2012, við [...],
veist að A, með hnífi með 8 sm löngu hnífsblaði,
rekið hnífinn í tvígang í framanverðan kviðinn á A og í kjölfarið stungið hann
í hægri síðu, yfir neðstu rifjum við nýrnastað, með þeim afleiðingum að
lífshættulegur áverki hlaust af. A hlaut 2-3 sm
langan og 6-8 sm djúpan skurð þar sem hnífurinn fór á
milli rifja, inn í nýrað og særði miltað með þeim afleiðingum að fjarlægja
þurfti miltað og sauma nýrað. Þá hlaut A tvö grunn sár á framanverðum kviði.
Telst háttsemin varða við 211. gr.,
sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði
dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess einnig
krafist að hnífur af gerðinni Sheffield, sem lögregla
lagði hald á undir rannsókn málsins, verði gerður upptækur samkvæmt 1. tölulið
1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga.
Einkaréttarkrafa.
Af hálfu A, kennitala [...], er þess
krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr.
3.257.257, með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 3. febrúar 2012
til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist
dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um
réttargæsluþóknun úr hendi kærða, brotaþola að skaðlausu skv. framlögðum
reikningi.
Ákærði kom fyrir dóminn við
þingfestingu málsins og játaði þá háttsemi sem lýst er í ákærunni en neitaði
sök. Þá mótmælti ákærði bótakröfunni.
Lagði ákærði fram greinargerð 3.
apríl sl. Aðalmeðferð hófst þann 16. maí 2013 og var framhaldið 11. júní sl. Var
málið dómtekið að málflutningi loknum. Krafðist ákærði sýknu en til vara
vægustu refsingar sem lög leyfa.
Málsatvik.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var
tilkynnt um slagsmál þann 3. febrúar 2012 við [...]. Fylgdi tilkynningunni að
maður hefði verið stunginn í kvið. Þegar lögreglan kom á vettvang sat brotaþoli
á gangstéttinni á móts við [...] og hélt um vinstri síðu. Aðspurður kvaðst hann
hafa verið stunginn nokkrum sinnum í síðuna. Sýndi hann lögreglu áverka á
vinstri síðu og sá lögregla nokkur stungusár og að líffæri voru byrjuð að ganga
út. Var ákærði handtekinn í kjölfar í íbúð í húsinu. Við leit í íbúðinni fannst
hnífur sem lögregla lagði hald á, en hann hafði hugsanlega verið notaður við
verknaðinn.
Á
vettvangi upplýsti B, sem býr í íbúð [...] að [...], að C hafi komið í heimsókn
til hennar fyrr um daginn ásamt D en D hafi fengið bifreiðina [...] að láni frá
A. Því næst hafi X komið til þeirra. Hafi A hringt í C og hún ætlað að skila
bifreiðinni til hans við Hátún í Reykjavík. Að C sögn hafi A ekki komið þangað
og C því komið aftur í [...] á bifreiðinni. Stuttu síðar hafi X og C farið
aftur út og B heyrt öskur frá C og X frá bifreiðastæðinu, og í einni manneskju
til viðbótar sem hún hafi ekki kannast við. Hún hafi því farið út á svalir og
séð mann í lopapeysu og C á bifreiðastæðinu en ekki X. Því næst hafi
dyrabjallan hringt og hún farið til dyra og hafi þá C og X komið inn og C
hringt í Neyðarlínuna.
Rannsóknargögn.
Lögregla lagði hald á hníf sem fannst
á heimili B að [...] og var DNA-sýni sent til Noregs til rannsóknar.
Niðurstöður sýndu að á hnífum greindist sama DNA-snið og DNA-snið brotaþola. Liggja
fyrir ljósmyndir af hnífnum og kemur fram að um sjálfskeiðung sé að ræða með
svörtu skefti af gerðinni Sheffield og sé blað
hnífsins eineggja og átta sentímetra langt. Mesta breidd blaðsins mælist 2,7
sm.
Ljósmyndir
liggja fyrir af vettvangi og sést að fyrir framan bifreið brotaþola er lítill
runni en brotaþoli lýsti því að ákærði hefði allt í einu komið stökkvandi yfir
trjágróður.
Af
ljósmyndum frá [...] sést að bifreiðin var staðsett á bílaplani í beinni
sjónlínu frá íbúðum vitnanna B og E. Þá sést á myndum að ekki er sjónlína frá
svölum þessara íbúða að aðalinngangi blokkarinnar þar sem hann snýr til
annarrar áttar. Þá sést æla á gólfi fyrir framan póstkassa í forstofu.
Læknisvottorð dagsett 1. febrúar [2013].
Í vottorðinu segir að við komu á
slysadeild þann 3. febrúar 2012 hafi brotaþoli verið með tvö grunn nokkurra
millimetra löng sár framanvert á kviði aðeins vinstra megin við miðju. Það geti
verið grunn stungusár eftir eitthvað oddhvasst, hníf eða slíkt. Aftanvert á
hægri síðu yfir neðstu rifum, um það bil yfir nýrnastað, er hann með stungusár
sem sé tveir til þrír cm á lengd. Út úr því sári
standi fitusepi, sem að gangi inn og út við öndun. Það beri þess merki að þar
sé um dýpra sár að ræða. Á sneiðmynd sjáist að það hafi verið stungusár þar sem
hafi gengið inn á milli rifja, inn í nýrað og virst hafa sært miltað í kantinn.
Blæðing sjáist í kringum nýra og milta. Brotaþoli hafi verið tekinn strax til
aðgerðar. Talsvert sár hafi verið í milta og hafi þurft að fjarlægja það.
Einnig hafi verið blæðing úr áverka á nýra sem hafi þurft að sauma. Í aðgerð
hafi blætt um það bil einn lítri. Í niðurstöðum segir að um sé að ræða alldjúpt
stungusár á vinstri síðu sem olli áverka á nýra og milta. Erfitt sé að fullyrða
nákvæmlega hversu djúpt það sé en miðað við þegar sárið var skoðað á sneiðmynd
sé að lágmarki um að ræða sex til átta cm djúpt sár.
Áverkarnir verði að teljast lífshættulegir og mun tilviljun hafa ráðið hvort
þetta hefði farið í stærri æðar sem valdið hefði mikilli blæðingu og ef
nýrnaslagæðin eða miltisslagæðin hefðu skorist í sundur þá hefði brotaþola
getað blætt út á mjög stuttum tíma.
Þá
segir í vottorðinu að brotaþoli hafi verið á gjörgæslu í tvo daga og útskrifast
af spítalanum 7. febrúar 2012. Hann hafi fengið sýkingu í skurðsárið og þurft
að leggjast aftur inn til sýklalyfjameðferðar en útskrifast eftir tvo daga.
Líkamlegar afleiðingar þessara verka séu hugsanleg lýti af örum á kvið eftir
aðgerðina og sárin. Eftir miltistöku þurfi fólk að fá bólusetningu fyrir
lungnabólgubakteríum og sé alltaf hættara en öðrum við ákveðnum bakteríusýkingum.
Kviðarholsaðgerðir geti valdið samvexti í kvið sem aftur geti leitt til ýmissa
vandamála í viðvarandi verkjum og hugsanlega garnaflækju síðar. Brotaþoli hafi
verið í miklu áfalli eftir árásina og mætt í viðtöl á vegum áfallateymis eftir
útskrift á spítalanum.
Matsgerð
Rannsóknastofu í lyfja og eiturefnafræði liggur fyrir og kemur þar fram að
mælst hafi tetrahýdrókannabínól í blóði brotaþola
1,5ng/ml.
Ljósmyndir
af fatnaði brotaþola og ákærða liggja frammi sem staðfesta blóðbletti og
skemmdir.
Ljósmyndir
af ákærða liggja fyrir þar sem sjá má ákomu á hægri sköflungi og við vinstra
herðablað, rispur á vinstri úlnlið og roðabletti á enni.
Vottorð
læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða liggur fyrir. Segir í
vottorðinu að kúla sé á miðju enni, trúlega eftir högg, ca
4 x 2,5 cm. Nef sé svolítið marið og rautt en óbrotið.
Margar grunnar húðrispur séu á vinstri úlnlið lófamegin og mar og eymsli við
vöðvafestu ulnart. Þá séu roðaför um báða úlnliði sem
séu sennilega eftir handjárn. Hendur og fingur séu eðlileg að sjá og engin
áverkamerki. Brjóstkassi sé eðlilegur sem og bak og rass. Vinstra megin á baki
sé húðrispa, sem gæti verið eftir fingur. Fótleggir séu eðlilegir en smá yfirborðshrafl
á hægra hné og framan á vinstri legg.
Í
matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að í blóði ákærða
hafi mælst morfín 170 ng/ml.
Ljósmyndir
liggja fyrir af C og réttarlæknisfræðileg skoðun. Kemur fram á ljósmyndum sár á
vinstri öxl og mar á vinstri og hægri framhandlegg. Húðrispur sjást á
handarbaki hægri handar og rispa á fingurgóm. Mar sést á vinstra hné.
Í
vottorði læknis um réttarlæknisfræðilega skoðun á C kemur fram að nef sé aumt
en engin áverkamerki. Handleggir séu eðlilegir en á vinstri öxl sé lítið sár.
Handarbök séu þakin sprautuförum og þar sé mar og bólga á vinstra handarbaki
fyrir miðhandarbeini. Roðarispa sé á vinstra brjóstinu miðlægt. Læri eðlileg
nema roðablettur framan á vinstra hné sem gæti verið eftir eitthvert hnjask.
Ljósmyndir
eru í málinu af fatnaði C auk rannsóknar á þeim. Kemur þar fram að framan á
hlýrabol var blóðblettur og á framhlið neðarlega. Þá var rifa á hlýrabolnum. Þá
eru ljósmyndir af leggingsbuxum C þar sem fram koma
fjórir smáir blettir sem gefa svörun við blóði. Var fatnaður C ekki rannsakaður
frekar af lögreglu.
Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.
Ákærði lýsti því svo hjá lögreglu að hann
hafi verið að verja sig og kærustu sína, en brotaþoli hafi verið tvisvar sinnum
stærri en ákærði. Hann hafi ekki átt annarra kosta völ, brotaþoli hefði annars
barið hann til dauða. Sagði hann kærustu sína, C, hafa farið út á bílaplan og
hann komið á eftir henni tveimur mínútum síðar. Þá hafi þessi maður verið að
atast í henni og rifið í hana. Ákærði
hafi komið nær og A byrjað að öskra á hann og sagt þau hafa stolið bílnum hans.
Ákærði hafi þá sagt við kærustu sína: „Komdu, förum heim“, og þau lagt af stað
gangandi. Brotaþoli hafi hlaupið á eftir
þeim og kýlt ákærða. Ákærði hafi náð að hlaupa aðeins áfram en kærasta hans
orðið eftir og byrjað að útskýra hlutina fyrir A en A þá aftur ráðist að henni.
Ákærði hafi þá hlaupið að og A þá kýlt hann fjórum sinnum í andlitið. Ákærði
hafi þá náð að rífa sig frá og hann og kærasta hans náð að hlaupa inn á
stigagang hússins en ekki náð að komast inn þegar brotaþoli náði þeim og hélt
áfram að berja þau. Ákærði hafi reynt að verja sig en ákærði væri miklu stærri
en hann. Ákærði, sem sé eiturlyfjasjúklingur og vegi um 60 kíló, hafi dottið á
jörðina og brotaþoli þá sparkað í hann og einnig í höfuðið. Ákærði hafi þá
tekið upp hnífinn en ekki vitað þá hvað var „úti á hnífnum“ og þau síðan farið
inn. Ákærði kvaðst hafa stungið brotaþola tvisvar í fótinn með hnífnum. Ákærði
hafi legið á gólfinu og reyndi hann að lýsa með látbragði fyrir lögreglu
hvernig hann hafi náð með hnífnum ofar á A. Kvaðst ákærði ekki hafa ætlað að
drepa brotaþola, heldur fæla hann í burtu. Ákærði kvaðst ekkert þekkja til
brotaþola né vita deili á honum. Ákærði lýsti aftur aðdragandanum að átökum
þeirra, en hann kvaðst hafa heyrt kærustu sína segja við ákærða að hún hafi
ekki stolið bílnum hans, heldur vinkona þeirra, sem hafi skilið þau eftir með
bifreiðina. Aðspurður um hvað ákærði hafi notað til að verja sig, lýsti ákærði
verkfærinu svo að það væri fjölnota hnífur með skærum, töng og naglaþjöl á og
hann haldi að hann hafi tekið vasahnífinn fram úr verkfærinu. Sagði ákærði
þetta hafa verið sjálfsvörn, kærasta hans hafi verið ófrísk og einhver
rugludallur byrjað að berja þau. Aðspurður síðar hjá lögreglu um upphaf
átakanna kemur fram að ákærði safnaði hnífum og gat ekki skýrt það hvers vegna
hann hafi beðið C um að fela hnífinn, auk þess að hann gat ekki skýrt það hvers
vegna hann væri ekki með áverka í samræmi við ofbeldisfulla árás brotaþola.
Ákærði lýsti því ítrekað fyrir lögreglu að þegar hann stakk brotaþola hafi hann
legið á gólfinu, brotaþoli sparkað
ítrekað í höfuð hans en ákærði náð í hnífinn í vasa sinn, dregið hann út eða
opnað hnífinn og stungið brotaþola í fótinn í þeim tilgangi að hann hætti að
sparka í sig.
Ákærði
kom fyrir dóminn og kvað málavexti þá að hann og kærasta hans hafi verið í partíi
og einhverra hluta vegna verið á bifreið brotaþola. C hafi farið út úr íbúðinni
einhverjum mínútum á undan ákærða en þau hafi ætlað að skila bifreið brotaþola.
Þegar hann kom út sá hann brotaþola berja C og vissi ekki hvað var að gerast.
Ákærði gekk að þeim og kvaðst hafa öskrað á brotaþola og spurt hvað væri í
gangi. C hafi flúið inn í húsið og brotaþoli byrjað að berja hann og sparka í
hann. Ákærði hafi beðið hann að hætta en hann ekki orðið við því. Leikurinn
hafi færst inn í húsið en ákærði verið mjög hræddur. Hann hafi vitað að þetta
snerist um bifreiðina og ekki vitað hvað hann ætlaði sér með ákærða. Ákærði
hafi bara viljað að brotaþoli myndi hætta. Ákærði hafi verið með hníf á sér og
tekið hann upp og ætlað að stinga brotaþola í fótinn. Ákærði kvaðst hafa legið
á gólfinu og ekki séð aðra leið en að stinga brotaþola. Ákærði hafi ætlað að
skaða fót brotaþola en á sama tíma verið að skýla andliti sínu þannig að hann
sá ekki vel hvar hann stakk. Stungan hafi farið eitthvað ofar en í fótinn og
ákærða liði mjög illa yfir þessu en ákærði hafi ekki ætlað að bana brotaþola.
Þeir hafi verið staddir í forstofu hússins við stigaganginn en hann myndi það
ekki svo vel. Árásin hafi staðið yfir í nokkrar mínútur, fimm eða tíu mínútur.
Brotaþoli hafi fyrst ráðist að kærustu hans, hún hafi fyrst flúið inn í íbúðina
og hann síðan á eftir henni. Ákærði kvaðst minna að hann hafi sagt brotaþola að
láta kærustu sína í friði. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann kallaði eftir
aðstoð. Eftir hnífstunguna fór ákærði inn í íbúðina og sagði kærustu sinni að
hringja í lögregluna en hann hafi ekki sagt henni að hann hefði stungið
brotaþola. Tilgangurinn með því að hringja í lögreglu hafi verið að kæra árás
brotaþola á sig. Aðspurður um það hvers vegna hnífstungan lenti í kvið brotaþola,
kvaðst ákærði hafa verið í hnipri, eins og hann sýndi dóminum stöðu sína, á
gólfinu og á hækjum sér þegar hann beitti hnífnum. Hann hafi skýlt andliti sínu
með vinstri handlegg, tekið hnífinn og stungið frá sér. Hann hafi talið þá að
hann hefði einungis stungið brotaþola einu sinni en viti núna að það var oftar.
Aðspurður hvers vegna hann bæri hníf á sér, kvaðst hann hafa notað hnífinn við
eiturlyfin en hann hafi keypt hnífinn þremur dögum fyrir atvikið. Hann hafi
tekið hnífinn upp í sjálfsvörn. Aðspurður sagðist ákærði hafa örugglega verið
með áverka á sér eftir árásina og honum hafi verið illt alls staðar. Ákærði
kvað C hafa verið inni í íbúðinni þegar ákærði stakk brotaþola og hún hafi ekki
séð þegar það gerðist.
Ákærði
kvaðst hafa verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma og neytt harðra
fíkniefna. Hann hafi ekki verið í góðu líkamlegu ástandi þessa nótt, sextíu
kíló þegar þetta gerðist. Þá hafi hann verið mjög hræddur, bæði um sig og
kærustu sína. Brotaþoli hafi verið mjög ógnandi fyrst þegar þau voru við
bifreiðina og hafi sagt við þau að þau fengju að „borga“ fyrir þetta. Þá hafi C
flúið og hann gengið frá ákærða. Ákærði hafi gengið í átt að íbúðinni en brotaþoli
komið hlaupandi á eftir honum. Það sé ósatt hjá brotaþola að ákærði hafi verið
ógnandi og brotaþoli flúið hann. Ákærði kvað ekkert annað hafa vakað fyrir sér
en að verja sig til að brotaþoli léti sig í friði.
Í
dag kvaðst ákærði hafa verið laus við fíkniefni frá 3. febrúar 2012 en ekki
farið í meðferð. Ákærði vinni í dag í [...]. Hann og C búi saman og þau eigi
von á barni í júlí. Ákærði kvaðst muna eftir því að brotaþoli spurði um hund en
ákærði kvaðst ekkert vita um hann. Þá kvað ákærði það ósatt að hann hafi farið
inn í íbúðina eftir stunguna og komið aftur út. C hafi tekist að flýja inn en
ekki honum.
Aðspurður
um það misræmi á frásögn C að hún hafi verið að koma frá [...] þegar hún hitti
ákærða á bílaplaninu og hans frásögn að C hafi farið út úr íbúðinni rétt á
undan honum þegar þau hittu brotaþola, kvaðst hann hafa verið búinn að þrýsta á
C að skila bifreiðinni og hélt að þau hefðu mælt sér mót við [...]. Brotaþoli
hafi ekki komið þangað og hún komið aftur til baka. Þau hafi ætlað að fara með
bifreiðina heim til brotaþola, kannski hafi C komið inn til að sækja sig en
hann muni það ekki nákvæmlega. Brotaþoli hafi verið staddur við bifreiðina
fyrst þegar ákærði sá hann.
C, unnusta ákærða, skýrði svo frá
fyrir lögreglu 3. febrúar 2012 að D, vinkona hennar, hafi verið á bifreið
ákærða og ekið C til Keflavíkur til að sækja föt og hafi A verið með þeim. C
hafi verið á leiðinni í meðferð og þurft að fara heim til sín til að sækja
fatnað og fleira í Reykjanesbæ. A hafi farið heim til sín til að sækja föt, en
hún og D farið aftur til Reykjavíkur án þess að sækja A. D hafi þurft að koma
við hjá Von í Síðumúla þar sem hún ætlaði að sækja um meðferð á Vogi. Áður hafi
þær farið og sótt ákærða, sem hafi farið með þeim inn á Von. D hafi farið þar
inn og skilið bifreiðina eftir í gangi og C og ákærði beðið eftir henni í
bifreiðinni. D hafi síðan komið út með einhverjum manni og sagst þurfa að
skreppa en ekki komið aftur. C hafi því farið á bifreiðinni í [...] aftur. A
hafi síðan hringt í hana sama kvöld og beðið hana um að skila bifreiðinni við [...]
eða við Hátún. Hann hafi verið „brjálaður“ í símanum. Hún hafi reynt að skýra
út fyrir A að það hafi verið D en ekki hún sem hafi verið með bifreiðina í láni
eða stolið henni, C hafi bara setið uppi með bifreiðina. C hafi síðan farið að [...]
daginn eftir, samkvæmt samkomulagi við A. A hafi ekki komið en sími F hafi
orðið batteríslaus og hún því ekki getað hringt aftur í hann. Hún hafi beðið
þar í um hálfa klukkustund en farið þá aftur upp í [...]. Þegar hún kom þangað
hafi A komið gangandi að henni, ráðist á hana og dregið hana á hárinu. Hún hafi
öskrað og ákærði þá komið og A þá ráðist á ákærða. C hafi reynt að stía þeim í
sundur en átökin borist út á götu og A verið hálfpartinn ofan á ákærða. C hafi
hlaupið inn og ætlað að hringja á lögregluna. C sagðist vita að ákærði gengi
með hníf á sér en hún hafi ekki séð ákærða stinga til A. Þegar hún var komin
inn á ganginn hafi ákærði komið inn á eftir henni og sagst hafa stungið A. Hún
hafi hlaupið inn til B og hringt á Neyðarlínuna. Ákærði hafi komið í kjölfar
þess, hent hnífnum til hennar og B og sagt þeim að fela hann.
C
kom fyrir dóminn og lýsti atvikum þannig að hún og D hafi farið með brotaþola
til Keflavíkur kvöldinu fyrir atvikið. D hafi verið með bifreiðina að láni. C
hafi verið að ná sér í föt í Keflavík og þær síðan farið aftur til Kópavogs.
Þau hafi farið daginn eftir að Von í Síðumúla og D farið inn til að sækja um
meðferð, komið út og skilið sig eftir með bifreiðina. Brotaþoli hafi hringt í hana
og sagt henni að koma og skila bifreiðinni. Hún hafi komið af fjöllum þar sem
hún hafi haldið að D væri með bifreiðina að láni. Hún og brotaþoli hafi mælt
sér mót við [...] en brotaþoli ekki komið þangað. Sími hennar hafi orðið
rafmagnslaus, hún ekið upp í [...], farið inn til að hlaða síma sinn og síðan
hafi þau ætlað að hringja í brotaþola og skila honum bifreiðinni. Hún hafi
farið út og ákærði á eftir henni en þegar hún kom út á bifreiðastæðið hafi brotaþoli
verið þar og ráðist að henni og öskrað. Ákærði hafi komið á eftir sér og skipað
brotaþola að sleppa henni. Þeir hafi byrjað að slást og hún reynt að ganga í
milli. Það hafi ekki gengið og hún tvisvar reynt að hringja í lögregluna en hún
hafi verið búin að hlaða símann í smátíma. Síminn hafi aftur orðið batteríslaus
úti og hún þá hlaupið inn í íbúðina til B. Ákærði hafi komið hlaupandi inn í
íbúðina á eftir henni og sagst hafa stungið brotaþola og hent hníf til hennar
og beðið hana um að fela hnífinn en hún myndi ekki til þess að hafa snert
hnífinn. Hún hafi síðan hringt í lögreglu úr heimasíma B. C kvað það ekki rétt
eftir sér haft í lögregluskýrslu að hún hafi verið að hringja dyrabjöllunni
þegar ákærði stakk brotaþola, hún hafi verið komin inn í íbúðina og ekki séð
þegar brotaþoli var stunginn. Aðspurð taldi hún mögulegt að hún hafi ekki verið
komin inn í íbúðina til B en hún hafi verið komin inn á ganginn. C taldi að
ákærði hafi kastað upp eftir að hann stakk brotaþola. Kvaðst hún ekki hafa
hugmynd um það hversu langan tíma þetta tók. C kvað lögreglu hafa tekið
ljósmyndir af þeim áverkum sem hún hlaut eftir árás brotaþola. Upplýsti C að
hún og ákærði hafi verið í mikilli fíkniefnaneyslu á þessum tíma. Þá kvaðst C
muna til þess að D hafi verið með hund í bifreiðinni sem hún hélt að D væri að
gæta fyrir vin sinn. Hún hefði hins vegar ekki hugmynd um það hvað varð um
hundinn. Þá hafi D sent brotaþola símanúmer hennar í sms en C hafi ekki
þekkt neitt til brotaþola.
Skýrsla
var tekin af A af lögreglu 7. febrúar 2012. Lýsti hann atvikum þannig að hann
hafi komið gangandi að bifreið sinni og fundið stelpu með lyklana að bílnum.
Hún hafi hent lyklinum í hann og sagt: „Ég ætlaði að koma með bílinn til þín“. A
kvaðst hafa gripið í hnakkadrambið á henni og labbað með hana að bílnum og
litið inn í bílinn og séð að það var ekki allt í lagi þar. A hafi hent henni
inn í bílinn og sagt: „Líttu í kring um þig og sjáðu hvað þú ert búin að gera“.
Sagði hann bílinn hafa verið í algjöru rusli. Stelpan hafi síðan bara farið og
þá hafi ákærði komið eins og sjimpansi, þar sem
stelpan var að ganga, og gólað eitthvað. A kvaðst vita að ákærði hafi verið
búinn að keyra bílinn daginn áður eða sama dag og gengið að honum og sagt: „Þú
veist kannski eitthvað um hundinn minn,“ og hann svarað: „Hundinn þinn,“ og A
svarað aftur „Hundinn minn, hvar er hann.“ A hafi þá tekið í síðuna á ákærða og
til þess að láta hann finna fyrir því að A væri að tala við hann. Þá hafi
ákærði byrjað að verða svolítið hræddur en samt verið stór karl í sér. Ákærði
hafi farið í burtu og komið aftur til baka og stúlkan verið að segja eitthvað
sem A kvaðst ekki hafa nennt að hlusta á. Ákærði hafi þá kallað eitthvað á
pólsku svo A hafi gengið aftur að honum og hrint honum og sagt honum að fara að
leita að hundinum og ákærði skyldi ekki láta sjá sig, hann hefði ekkert þarna
að gera og sagt síðan: „Farðu að bílnum, athugaðu hvort hann er í bílnum.“
Einhverjar ryskingar hafi orðið þar fyrir utan. Ákærði og stelpan hafi farið
inn í stigagang hússins eftir að einhver kona, B, kom út á svalirnar og byrjaði
að gjalla eitthvað sem A hafi ekki heyrt. A kvaðst hafa sagt: „Þið eruð hérna,
þú veist af hverju, takið bílinn minn hérna og svo er það lalalalala.“
A kvaðst hafa verið reiður. Ákærði hafi farið inn í ganginn og sagt: „Ég veit
hvar hundurinn þinn er“. A kvaðst hafa gengið að hurðinni og ákærði haldið þá í
hurðina og A þrykkt hurðinni upp og sagt: „Hvar er hundurinn?“ Ákærði hafi þá
sagt: „Ég ætla að drepa þig.“ A hafi svarað: „Já gerðu það“. Stelpan hafi sagt
eitthvað og af framburðinum verður ekki annað skilið en að ryskingar hafi þá
byrjað og A í kjölfarið áttað sig á því að hann var með hnífinn í sér. Ákærði
hafi síðan komið á eftir sér út á götu með hnífinn og sagst ætla að skera A á
háls. Ákærði hafi ráðist á handlegginn á A og væri hann með fjórar litlar
skrámur eftir að hafa slegið til ákærða. A kvað C hafa kvatt ákærða til að
drepa sig í anddyrinu.
Aðspurður
hverjir hafi verið með bifreið A sagði hann að tvær stelpur hafi farið með sér
til Keflavíkur, D og C. Aðspurður hver hafi ekið, sagði A það hafa verið vin
sinn frá Reykjavík. A kvað D síðar hafa látið hann hafa símanúmer C í sms og hann hringt í hana í framhaldi. Aðspurður aftur um
atvikið inni í anddyri blokkarinnar kvaðst A bara hafa lent í ryskingum og allt
í einu hafi hann séð að hann var blóðugur. Ákærði hafi allt í einu tekið upp
eitthvert ryðgað járn og sagst ætla að skera hann á háls: „I am going to
cut your throat.“ A hafi sagt ákærða að tala íslensku nei, engelsku og verið að „djóka
eitthvað“ og þá hafi ákærði hlaupið á eftir sér og „dúf,
dúff, dúff.“ A kvaðst hafa
verið inni í stigaganginum þegar hann fann fyrir hitanum og áttaði sig á því að
hann var stunginn. A kvaðst hafa hugsað: „Hvað er hann að kýla og svona og ég
sparka hér og þar og næ einhverju svona höggi á mig og af hverju slappar hann
ekki af og.“ Ákærði og C hafi verið inni í stigaganginum þá. A kvaðst hafa sagt ákærða að láta sig vera en
ákærði farið eitthvað í hann og A sagt honum að hann mætti ekki slást og tekið
ákærða niður í götuna og hafi alltaf ýtt honum í burtu en ákærði komið aftur
eins og sogskál. Kvað A ákærða hafa átt upptökin að átökunum, honum hefði
fundist A kannski svívirða hana of mikið með því að þjófkenna hana eða segja
við hana að hún væri drusla.
Aðspurður
hvort A hafi séð hnífinn játti hann því. Um hafi verið að ræða heimatilbúinn
hníf en ákærði hafi verið með tvo hnífa. Hann hafi séð annan hnífinn vel, hann
hafi verið um þriggja sentímetra breiður og ákærði þá sagt: „Now I am going
to cut your
throat“. Þá hafi hann séð ákærða setja hinn hnífinn
niður á endanum en sá hnífur hafi verið teipaður á
endanum, járnstykki, ekkert sem hægt sé að kaupa, heldur heimatilbúinn. Ástæðan
fyrir stungunni hafi verið hvatning frá C um að drepa hann.
A kom fyrir dóminn og kvað málavexti
vera þá að hann hafi hitt stúlkur á leið í meðferð sem hafi þurft að komast til
Keflavíkur en hann hafi verið að fara þangað. Hann viti ekki mikil deili á
stelpunum en hafi boðið þeim með sér. Þegar þau komu til Keflavíkur hafi hann
farið heim til sín en hann hafi ætlað að sækja konu sína. Stúlkurnar hafi þá farið
í burtu á bifreiðinni en hundurinn hans hafi verið í bifreiðinni. Hann hafi
fengið spurnir af bifreiðinni í Kópavogi og farið þangað. Hann hafi séð
bifreiðina á plani fyrir utan [...] og litið inn í hana og ekki séð hundinn.
Hann hafi verið á leið frá bifreiðinni þegar önnur stúlkan kom út úr húsinu.
Hann hafi kallað til hennar og henni brugðið og komið með einhverjar afsakanir.
Þau hafi gengið að bifreiðinni og hann spurt hana um hundinn. Þá hafi bifreiðin
verið útötuð í ís og skemmdir verið innan og utan á bifreiðinni. Aðspurður kvað
A engar ryskingar hafa verið á milli sín og konunnar en hann hafi tekið í hnakkadrambið
á henni og sýnt henni bifreiðina og sýnt henni meðferðina á bifreiðinni og spurt
hana hvort hún sæi hundinn hans í bifreiðinni. Hún hafi verið með einhverjar
afsakanir. Ákærði hafi þá komið stökkvandi yfir runna fyrir framan bifreiðina
og ráðist á sig. Ákærði hafi verið með bakpoka á sér. Ákærði hafi aftur og
aftur gert atlögu að A en hann reynt að koma honum af sér. A hafi ítrekað spurt
um hundinn og ákærði ýmist sagt að hann væri búinn að drepa hann eða týna
honum. A kvaðst hafa tekið því illa. Ákærði hafi þá gert sér grein fyrir því að
hann hefði ekkert í A og hörfað inn í húsið. Ákærði og stelpan hafi farið aftur
inn í húsið og haldið hurðinni opinni og A á eftir þeim. A kvaðst hafa verið
orðinn þreyttur á því að ákærði hefði annaðhvort selt eða drepið hundinn. Hann
hafi álitið að hundurinn væri inni í húsinu og hafi lokað hurðinni og ítrekað
við ákærða að hann vildi fá hundinn. Hann hafi þá áttað sig á því að hann var
særður en ekki fundið neinn sársauka, heldur bara séð blóð. Ákærði hafi hangið
einhvern veginn á A og stungið hann nokkrum sinnum og stúlkan þá legið á
dyrabjöllunni. Hann hafi ákveðið að fara aftur út og sest úti á gangstétt. Hann
hafi velt því fyrir sér að enginn hafi séð árásina. Þar sem hann hafi setið á
gangstéttinni hafi ákærði komið út þrisvar sinnum aftur á eftir honum og veist
að honum og hótað að drepa hann. A kvaðst aldrei
hafa séð hnífinn en vitað að ákærði væri með hníf. Hann hafi þá gengið yfir
götuna og sest og hringt fyrst í konu sína og síðan í lögreglu. A kvaðst ekki
hafa skilið hvað ákærði sagði en verið ógnandi og hótað að skera hann á háls. A
kvaðst eingöngu hafa viljað fá vitneskju um það hvar hundurinn væri og verið
orðinn reiður. A neitaði að hafa veist að ákærða en hann hafi varið sig. Þeir hafi
þó einu sinni verið í fangbrögðum. Kvaðst A halda að í heildina hafi
atburðurinn tekið um tíu mínútur.
A kvaðst hafa gengið til sálfræðings
eftir þetta og eigi langt í land með að ná sér. Hann hafi orðið fyrir hnífstungu
úti í [...] fyrir nokkrum árum en hann reyni að hugsa ekki mikið um þetta. Árásin
hafi verið mikið álag fyrir hann og fjölskylduna. A kvaðst hafa legið á
sjúkrahúsi í mánuð eftir árásina og verið á miklum sýklalyfjum. Hafi þurft að
fjarlægja miltað. Ákærði kvaðst eiga erfitt með að vera innan um fólk, hann
geti ekki farið í verslunarmiðstöðvar, kvikmyndahús eða aðra fjölmenna staði.
Aðspurður
um misræmi i frásögn hans hjá lögreglunni kvaðst A hafa verið á gjörgæslu þegar
lögreglan kom og tók skýrsluna af honum og undir mjög miklu álagi eftir
aðgerðina. Hann viti því varla hvað hann hafi sagt lögreglunni. Aðspurður hvort
A hafi verið ógnandi, kvað hann það geta verið, til þess að ganga úr skugga um
það hvort hundurinn hafi verið inni í íbúðinni.
B,
íbúi að [...] í Kópavogi, kom fyrir dóminn og kvað ákærða og C hafa verið gesti
hjá sér umrætt sinn. Kvaðst hún ekki hafa séð atvikið sjálft. Lýsti hún því svo
að hún hafi heyrt mikinn hávaða utandyra og farið út á svalir hjá sér til að
þagga niður í fólkinu. Hún hafi séð brotaþola hlaupa á eftir C og slá til
hennar en C komið hlaupandi yfir bílaplanið. Hún hafi ekki séð ákærða þá. C
hafi kallað til B, þegar hún hljóp fram hjá svölunum, hvort hún mætti hringja á
lögreglu hjá henni. Brotaþoli hafi einnig hlaupið fram hjá svölunum og stoppað
þar og bannað sér að opna fyrir C og jafnframt hótað henni ef hún opnaði fyrir henni.
Í því hafi dyrasíminn hringt og hún opnað fyrir C en hún hafi vitað að C var
með batteríslausan síma. Þetta hafi verið áður en brotaþoli var stunginn því að
brotaþoli hafi ekki verið blóðugur þegar hann var fyrir framan svalirnar hjá
henni. Ákærði hafi á þessum tímapunkti verið úti. C hafi hringt til lögreglu og
verið inni hjá sér þar til lögreglan kom. Ákærði hafi síðan hringt dyrasímanum og
annaðhvort hún eða C hleypt honum inn. Ákærði hafi farið inn á salerni og
kastað þar upp en síðan farið aftur út úr íbúðinni. Hún hafi ekki séð ákærða
með hníf. Taldi hún varla nema fimm til sex mínútur hafa liðið frá því að hún
var úti á svölunum og þar til að ákærði kom svo inn til hennar. B kvaðst búa á
fyrstu hæð og svalirnar væru þannig að hún sæi yfir bílaplanið en ekki inn í
anddyri blokkarinnar. Kvað B C hafa komið inn áður til að hlaða símann sinn,
svo hún vissi til þess að sími C hafi verið batteríslaus.
E kom fyrir dóminn og kvaðst búa á
sömu hæð og B að [...] í Kópavogi. Hún hafi heyrt háreysti, hávaða og rifrildi
fyrir utan íbúð sína umrædda nótt og litið út um glugga hjá sér. Hún hafi séð
tvær litlar manneskjur fyrir utan og einn stóran mann. Hún hafi ekki heyrt
orðaskil en náði því að litla fólkið væri erlent. Hún hefði þó greint að stóri
maðurinn var að saka litla fólkið um að hafa skemmt bifreiðina hans. Fólkið
hafi komið alveg upp að húsinu og hún séð þegar fólkið kom upp að svölunum á íbúð
[...]. Þar hafi hún séð þann stóra steyta hnefann og heyrt hann hrópa: „Ætlarðu
að hleypa þeim inn?“ og heyrt B svara því neitandi. Nokkru seinna hafi hún
heyrt skræki frammi á gangi og síðan eins og róandi karlmannsrödd. Meira hafi
hún ekki heyrt né séð. Hún hafi svo heyrt daginn eftir að stóri maðurinn hafi
verið stunginn en hún hefði frekar búist við því að litli maðurinn hefði verið
stunginn. Kvað hún aðspurð að stóri maðurinn hafi verið ógnandi og reiknaði með
að hann hefði lamið þann litla. Henni hafi fundist sá stóri ógna þeim litlu og
að þau litlu hafi hörfað undan honum. Hún hafi haft það á tilfinningunni að
fólkið tilheyrði B svo hún vildi ekki skipta sér meira af því. Sagði hún
svalirnar hjá sér vera samliggjandi svölum á íbúð B en steyptur veggur á milli
þeirra.
D
kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna eftir þessu atviki. Hún muni þó að hún, C
og brotaþoli hafi farið til Keflavíkur en brotaþoli hafi ætlað að sækja dóp en
brotaþoli hafi lánað henni bifreiðina. Þau hafi skutlað brotaþola í eitthvert
hús, þær hafi beðið eftir honum en hann ekki komið né svarað síma. Þær hafi því
farið til Reykjavíkur og farið upp í Von til að sækja um að komast í meðferð.
Hún hafi þar hitt annan aðila og skilið C eftir með bifreiðina. Aðspurð kvaðst
hún muna eftir hundi í bifreiðinni en viti ekkert meira um hann. Meira viti hún
ekki um málið.
G
lögreglumaður kvaðst fyrir dómi hafa komið á vettvang og gert frumskýrslu um
atvikið. Brotaþoli hafi legið á gangstéttinni á móti [...] og gert honum stutta
grein fyrir því sem gerðist og bent á að ákærði væri inni í íbúð í húsinu.
Ákærði hafi þá komið út úr íbúðinni og verið handtekinn þar. Ákærði hafi þá
ekkert viljað við lögregluna ræða. C hafi sagt þeim inni í lögreglubifreiðinni
að ákærði hafi komið inn og sagst hafa stungið brotaþola og hún tekið við
hnífnum frá ákærða. Fannst lögreglunni sá framburður stangast á við vettvang
þar sem æla hafi verið í forstofunni og framan á veski hennar, sem var inni í
íbúðinni, og því hljóti C að hafa verið
með ákærða þegar hann kastaði upp. Aðspurður kvað G C fyrst hafa verið mjög
æsta og í vímuefnaástandi en síðar hafi hún viljað ræða við lögregluna. Kvaðst
hann aðspurður muna til þess að C hafi gefið þá skýringu strax að ákærði hafi
komið að þegar hún kallaði á hjálp.
H
lögreglumaður sagðist hafa farið á vettvang í umrætt sinn. Hafi maður hálflegið
úti á gangstétt þar og sagt þeim að hann hafi verið stunginn nokkrum sinnum.
Sagði hann lögreglu að ákærði ásamt stúlku hafi hlaupið inn í blokkina. Ákærði
hafi síðan komið út úr íbúðinni og hafi hann verið handtekinn. Við öryggisleit
á manninum hafi þeir fundið lítinn vasahníf og við leit í íbúðinni hafi fundist
hnífur sem reyndist vera sá hnífur sem stungið var með. Með ákærða hafi verið
stúlka, sem hafi sagt þeim strax að hún hafi ekki séð þegar brotaþoli var
stunginn en hún hefði tekið við hníf af ákærða. Þá hafi æla verið í forstofunni
við póstkassana og einnig á veski inni í íbúðinni sem stúlkan kvaðst eiga.
I
lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fengið þrjá hnífa afhenta þegar
hann kom á vettvang. Einn hnífur hafi verið á ákærða og annar í íbúðinni en
hann mundi ekki hvaðan þriðji hnífurinn var. Þá hafi hann fengið upplýsingar um
að átök hafi verið utandyra og átökin hafi tengst bifreið brotaþola sem stóð á
bílastæðinu. Hafi æla verið í anddyrinu á húsinu. Hafi haldlagðir munir verið
sendir í rannsókn.
J,
sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kom fyrir dóminn
og kvaðst hafa fengið fatnað aðila til rannsóknar. Hafi blóð verið í
stuttermabol og peysu brotaþola og hafi
einnig gat verið í bolnum og peysunni. Í fatnaði ákærða hafi fundist
blóðblettir í buxum hans og hettupeysu. Þá hafi blóðsýni á hnífsblaði hnífs sem
var haldlagður samsvarað blóði úr ákærða.
K
læknir kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á vakt þegar brotaþoli leitaði á
bráðamóttöku. Brotaþoli hafi verið með tvö grunn stungusár framarlega á kvið og
dýpra sár ofanvert á síðunni vinstra megin. Hafi strax vaknað grunur um að þar væri
frekari áverki. Stungusárið gekk inn í ellefta rif aftan við kviðarholið,
skarst í miltað og síðan í nýra. Brotaþoli fór strax í aðgerð þar sem miltað
var fjarlægt og tvö sár á nýra saumuð saman. Virtist sárið vera sex til átta sm djúpt. Blæðing hafi verið í kringum milta og nýra.
Ástæða hafi verið til að kanna hvort áverki væri í brjóstholi, sem reyndist
ekki vera. Stungan hafi verið það ofarlega að áverki gæti hæglega endað í
brjóstholi. Hafi áverkinn verið lífshættulegur. Hefði áverki verið á æð við
milta hefði sjúklingi hæglega getað blætt út á stuttum tíma. Kvað hann
eftirköst þess að missa milta helst vera að sjúklingi sé hættara við sýkingum.
L
sálfræðingur kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið með A í meðferð hjá sér
veturinn 2012 til 2013. A hafi leitað til hennar þegar hann var nýlega kominn á
[...]. Hafi ástæða þess verið hnífstunguárás sem hann varð fyrir árið 2004.
Hafi þau farið að vinna með áfallastreituröskun sem A var að kljást við. Rót
áfallastreituröskunar A sé fyrri árásin en síðari árásin varð til þess að festa
fyrri röskun í sessi. A sé óöruggur, eigi erfitt með traust, eigi við vímuefnafíkn
að stríða og forðist fjölmenna staði. Taldi hún að hann þyrfti á áframhaldandi
meðferð að halda og ætti að ná bata væri unnið með hann áfram.
Forsendur og niðurstöður.
Ákærði krafðist sýknu í máli þessu og
kvaðst hafa verið að verjast árás brotaþola. Hann hafi ætlað að stinga
brotaþola í fótinn til að losna við spörk hans en ekki ætlað að bana honum.
Að
öllum framburði virtum, telur dómurinn aðdraganda málsins vera að C og D fóru
ásamt brotaþola til Keflavíkur á bifreið brotaþola. Í bifreiðinni hafi verið
hundur brotaþola, enda mundi D til þess að hundur hafi verið í bifreiðinni. D
og C fóru frá Keflavík án þess að taka brotaþola með sér og er sú frásögn C
trúverðug um það að hún hafi talið að D hafi verið með bifreiðina í láni. Fóru
þær í Von þar sem D ætlaði að sækja um að komast í meðferð og sat C eftir með
bifreiðina er D yfirgaf hana. Þá er trúverðug sú frásögn C að hún hafi farið að
[...] í þeim tilgangi að hitta brotaþola og skila honum bifreiðinni. Sú frásögn
C að farsími hennar hafi orðið rafmagnslaus fær einnig stoð í frásögn B sem
sagði C hafa komið inn til að hlaða símann sinn. Styður það einnig framburð C
að hún hafi farið aftur út og sími hennar orðið rafmagnslaus í annað sinn er
þau áttu í útistöðum við brotaþola. Þá samrýmist sá framburður ákærða að C hafi
farið út skömmu á undan honum frá B, framburði brotaþola, sem sagðist hafa séð C
við bifreiðina og ákærða koma að þeim stuttu síðar. Er framburður ákærða og C
að þessu leyti eins fyrir lögreglu og fyrir dóminum.
Hvað
varðar aðdraganda átakanna, lýsti brotaþoli því fyrir lögreglu að hann hafi
hitt C við bifreiðina og hafi orðið reiður þegar hann sá bifreiðina og að
hundurinn var ekki þar og þá tekið í hnakkadrambið á henni. Hún hafi hent
lyklinum í hann og sagst hafa ætlað að skila bifreiðinni. Kemur það heim og
saman við frásögn ákærða og C. Þá kvaðst ákærði hafa gripið í hnakkadrambið á
henni og labbað með hana að bílnum og hent henni inn í bílinn með athugasemdum.
Þá hafi ákærði komið að honum og veist að honum.
Ákærði
sagði fyrir dóminum að brotaþoli hafi ráðist að sér ógnandi og hafi hann orðið
hræddur, enda hafi hann ekki haft roð við ákærða sem hafi verið miklu stærri en
ákærði. Hann og C hafi því hlaupið inn í anddyri blokkarinnar. Fær þetta stoð í
framburði B sem býr á fyrstu hæð og kvaðst hafa farið út á svalir til að þagga
niður í fólkinu. Þá styður framburður E einnig þennan framburð en hún kvaðst
hafa séð stóra manninn steyta hnefa og verið ógnandi á eftir litla fólkinu. Að
virtum framburði ákærða, B og E telur dómurinn sannað að brotaþoli hafi komið
hlaupandi á eftir ákærða og C, ógnandi og með krepptan hnefa, að blokkinni og
hafi þau endað inni í forstofu hússins. Brotaþoli kvað sjálfur fyrir dóminum að
hann hafi verið reiður og varið sig og lýsti hann því einnig að þeir hafi verið
í fangbrögðum og einnig að það gæti verið að hann hafi verið ógnandi í þeim
tilgangi að ganga úr skugga um hvort hundurinn væri inni í íbúðinni. Þá kemur
framburður ákærða og C heim og saman við framburð brotaþola fyrir lögreglu þar
sem hann kvaðst hafa tekið í síðuna á ákærða til þess að láta hann finna fyrir
því að brotaþoli væri að tala við hann en ákærði hafi þá orðið svolítið hræddur
en samt verið stór karl í sér. Telur dómurinn frásögn ákærða um aðdraganda
árásarinnar trúverðuga þar sem hún fær stoð í framburði annarra vitna og
brotaþola sjálfum.
Framburður
brotaþola hefur verið nokkuð á reiki. Hann lýsti fyrir lögreglu hvernig hnífa
ákærði hefði verið með og lýsti tveimur vopnum. Fyrir dóminum neitaði hann því
að hafa séð hnífinn nokkurn tímann. Þrátt fyrir að brotaþoli segi fyrir dóminum
að hann hafi ekkert vitað hvað hann sagði í lögregluskýrslunni, þar sem hann
hafi verið nývaknaður eftir erfiða aðgerð, þá liggur fyrir að brotaþoli fór í
aðgerð strax við komu á bráðamóttökuna 3. febrúar en lögregluskýrslan var tekin
7. febrúar, sama dag og ákærði fór heim af sjúkrahúsinu. Þá er framburður
brotaþola fyrir lögreglu í meginatriðum í samræmi við framburð ákærða, C, B og E,
bæði fyrir lögreglu og dóminum. Þá liggur fyrir að sú lýsing sem brotaþoli gaf
á verkfærunum, sem ákærði átti að hafa verið með og notað við árásina, er í
engu samræmi við þá hnífa sem lögregla lagði hald á og fann á ákærða.
Ákærði
hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi verið að verja sig fyrir árás
brotaþola sem hafi verið mun miklu stærri en ákærði sjálfur. Báðir komu fyrir
dóminn og er mikill stærðarmunur á þeim. Þá liggur fyrir að bæði ákærði og
brotaþoli voru undir áhrifum fíkniefna, þrátt fyrir neitun brotaþola þar um. Ákærði
lýsti því fyrir lögreglu að hann hafi legið á grúfu á gólfinu og verið að verja
sig þegar hann stakk brotaþola. Fyrir dóminum sýndi ákærði í hvaða stöðu hann
var. Telur dómurinn tungumálaörðugleika skýra þetta misræmi ákærða en um leið
og hann sýndi afstöðu sína, sitjandi á hækjum sér með handlegg fyrir andlitinu,
þá talaði hann um að vera á grúfu.
Ákærða
og vitnum ber ekki saman um það hvar C var þegar brotaþoli var stunginn, en C
kvaðst ekki hafa orðið vitni að árásinni þar sem hún hafi verið komin inn í
íbúð B. Brotaþoli heldur því fram að hún hafi verið í anddyrinu og hvatt ákærða
til verka. Framburði brotaþola til stuðnings er sú staðreynd að uppköst voru
bæði í anddyri og á handtösku C sem fannst í íbúðinni. Þrátt fyrir þetta
misræmi, telur dómurinn engu breyta hvort C hafi verið við það að komast inn,
en hún segist hafa legið á dyrabjöllunni, eða komin inn í íbúð B sem er á
fyrstu hæðinni, atburðarásin hlýtur að hafa verið það hröð að ekki er víst að
hún hafi gert sér grein fyrir hnífstungunni þegar hún átti sér stað. Hins vegar
kemur sá framburður brotaþola um að ákærði hafi komið út á eftir honum, heim og
saman við þá frásögn B og C að ákærði hafi komið nokkru seinna inn í íbúðina á
eftir C, þegar hann henti hnífnum til hennar. Ákærði neitar því hins vegar.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa
stungið ákærða en neitar því að ásetningur hafi staðið til að bana honum.
Ákærði krefst sýknu á grundvelli 12.
gr. laga nr. 19/1940 um neyðarvörn. Ákærði kveðst hafa óttast um líf sitt og
unnustu sinnar en brotaþoli hafi verið miklu stærri og þyngri en ákærði. Ákærði
hafi verið í lélegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu og ekki geta varist.
Brotaþoli hefur viðurkennt að hafa reiðst og tekið í ákærða og C og vitnið E
ber að ákærði hafi lagt á flótta undan brotaþola frá bifreiðastæðinu að
blokkinni. Ákærði kveðst hafa verið innikróaður og ekki átt neinnar undankomu
auðið er brotaþoli sparkaði í hann og barði. Þá hafi enginn ásetningur verið
hjá ákærða að bana brotaþola heldur einungis að hræða hann og meiða í fótunum til
að losna við spörk hans. Réttarlæknisfræðileg rannsókn á ákærða sýndi að hann
var með kúlu á miðju enni, trúlega eftir högg, ca 4 x
2,5 cm, nef var marið og rautt. Margar grunnar
húðrispur voru á vinstri úlnlið lófamegin og mar og eymsli við vöðvafestu ulnart. Þá séu roðaför um báða úlnliði sem séu sennilega
eftir handjárn. Vinstra megin á baki var húðrispa, sem gæti verið eftir fingur.
Á hægra hné og framan á vinstri legg var
smá yfirborðshrufl. Samrýmast þessir áverkar
framburði ákærða um að á hann hafi verið ráðist og hvernig.
Réttarlæknisfræðileg
rannsókn á C sýna einnig áverka á henni sem samrýmast frásögn hennar um atlögu
brotaþola að henni á bifreiðastæðinu.
Þegar
framburður vitna og ákærða fyrir dóminum og lögreglu er metinn, og þá
sérstaklega brotaþola sjálfs, telur dómurinn sannað að ákærði hafi orðið fyrir
árás brotaþola áður en til hnífstungunnar kom. Ákærði taldi sig vera borinn
ofurliði og árásarmaðurinn miklum mun stærri en ákærði, enda ákærði kominn á
hækjur sér og varðist spörkum og höggum þegar hann tók upp hnífinn.
Telur
dómurinn ósannað, þegar á allt er litið, að ásetningur ákærða hafi staðið til
að svipta brotaþola lífi. Ákærði reyndi sannanlega að flýja brotaþola en lenti
í ógöngum. Er varhugavert að fullyrða að ákærði hafi beitt hnífnum í þeim
tilgangi að bana brotaþola eða að honum hafi hlotið að vera ljóst að stungan gæti
leitt til bana. Er því ekki unnt að sakfella hann fyrir brot gegn 211. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Með hliðsjón af
aðstæðum öllum verður þó að telja að ákærði hafi farið út fyrir takmörk
leyfilegrar neyðarvarnar með því að beita hnífnum sér til varnar og veita
brotaþola þá áverka sem lýst er í ákæru. Verður ekki fallist á að árás
brotaþola hafi gefið ákærða tilefni til svo harkalegra viðbragða sem raunin
varð. Verður þessi verknaður ákærða því ekki metinn honum refsilaus með vísan
til 1. mgr. eða 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Gekk ákærði mun lengra
í atlögu sinni en árásin á hann gaf tilefni til og verður ákærði því talinn
sekur um líkamsárás er varði við 2. mgr. 218. gr. laganna, sbr. 11. gr. laga
nr. 20/1981.
Að
virtum atvikum öllum telur dómurinn, við ákvörðun refsingar, verða að horfa til
3. mgr. 218. gr. b. laga nr. 19/1940. Telur dómurinn sannað að brotaþoli hafi
átt upptökin að átökunum með því að hafa veist að C í upphafi eins og rakið er
að ofan og brotaþoli lýsti sjálfur, sem ákærði reyndi í framhaldi að verja.
Hrakti ákærði þau síðan af bifreiðastæðinu inn í anddyri blokkarinnar þar sem
ákærði varð undir í árás brotaþola er hann greip til hnífsins.
Samkvæmt
sakavottorði ákærða hefur honum tíu sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis brot
frá árinu 2007. Þau brot hafa þó ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Með
vísan til alls þess sem að ofan er rakið, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin
fangelsi í átján mánuði. Tæpt eitt og hálft ár er liðið frá því brotið átti sér
stað. Ákærði kveðst vera hættur neyslu fíkniefna, þó svo engin vottorð hafi
verið lögð fram því til staðfestu, hann er í fastri launaðri vinnu í [...],
kominn í sambúð og á von á barni í júlí nk. með sambýliskonu sinni. Þykir
dóminum rétt með vísan til þessa að skilorðsbinda fimmtán mánuði
refsingarinnar, og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði
almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Að
þessum málalokum virtum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem
er samkvæmt yfirliti 275.018 krónur, málflutningslauna skipaðs verjanda ákærða,
á rannsóknarstigi og fyrir dómi, Unnars Steins Bjarndals hdl., 1.054.200 krónur
að meðtöldum virðisaukaskatti, og 67.488 krónur í aksturskostnað og þóknun
skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Páls Kristjánssonar hdl., 426.700 krónur.
Einkaréttarkrafa.
Í málinu gerir brotaþoli kröfu um að
honum verði dæmdar 3.257.257 krónur í skaðabætur með tilgreindum vöxtum og
sundurliðast þannig í kröfugerð brotaþola: 3.000.000 króna í miskabætur og
257.275 krónur í kostnað við að halda bótakröfunni uppi. Að auki er krafist
þóknunar réttargæslumanns. Ákærði mótmælti bótakröfunni.
Við
aðalmeðferð málsins lagði brotaþoli fram reikninga vegna lyfjakostnaðar og
komugjalda á heilsugæslu auk reiknings fyrir sálfræðivottorði. Er ekki gerð
grein fyrir þessum kostnaði í bótakröfunni og verður því að vísa þeirri kröfu
frá dómi sem of seint fram kominni. Í þinghaldi þann 7. mars 3013 var Stefán
Karl Kristjánsson hdl. skipaður réttargæslumaður brotaþola en við upphaf
aðalmeðferðar var Páll Kristjánsson hdl. skipaður í hans stað. Með vísan til
síðari málsliðar 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður bótakrefjanda ekki
dæmdur málskostnaður við að halda uppi bótakröfu hafi honum verið skipaður
réttargæslumaður.
Fyrir
liggur að brotaþoli varð fyrir andlegu og líkamlegu tjóni við atlögu ákærða.
Varð að fjarlægja milta úr brotaþola og sauma nýra hans saman. Samkvæmt
vitnisburði K læknis eru afleiðingar þess að missa milta aukin sýkingarhætta og
því gæti verið þörf á meiri lyfjagjöf vegna þess. Þá kvað L sálfræðingur fyrir
dóminum áhrif árásarinnar hafa vakið upp minningar brotaþola um árás árið 2004
sem hann hafi verið að vinna úr. Segir í greinargerð hennar: „Þar sem ljóst
þykir að einkenni áfallastreituröskunar eftir seinni hnífstunguárásina
styrktust enn frekar er það mat undirritaðrar að A hefur þörf fyrir sértæka
þjónustu til að vinna úr áfallatengdum þáttum. Þar sem A hefur verið að glíma
við áfallastreituröskun í áraraðir eru líkur á að sú vinna gæti tekið lengri
tíma en muni bæta lífsgæði hans til muna“. Af þessu verður ekki annað ráðið en
að andlegt ástand brotaþola í dag, eigi sér ekki eingöngu rætur í árásinni
2012. Hitt er annað að brotaþoli á eftir að búa við það sem eftir er að hafa
misst milta og búa við afleiðingar þess. Þykja miskabætur með vísan til 26. gr.
laga nr. 50/1993 hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Bótakrafan var fyrst birt
ákærða við þingfestingu málsins þann 7. mars sl. Skal hann því greiða vexti
samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. febrúar 2012 til 7. apríl 2013, en
samkvæmt 6. gr., sbr. 5. gr., frá þeim degi til greiðsludags.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari
kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, kt.
[...], skal sæta fangelsi í átján mánuði en fresta skal fullnustu fimmtán mánaða
refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði
almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði allan sakarkostnað,
samtals 1.823.406 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Unnars
Steins Bjarndal hdl., 1.054.200 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 67.488
krónur í aksturskostnað auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns, Páls
Kristjánssonar hdl., 426.700 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði A, kt
. [...], 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr.
38/2001 frá 3. febrúar 2012 til 7. apríl 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6.
gr., sbr. 5. gr., laganna frá þeim tíma til greiðsludags.