Hæstiréttur íslands
Mál nr. 353/2007
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2008. |
|
Nr. 353/2007. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Davíð Guðbrandssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Fyrning.
D krafði V hf. um greiðslu skaðabóta úr slysatryggingu ökumanns vegna líkamstjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi 22. maí 2001. Í matsgerð læknis og lögfræðings, sem aðilar höfðu komið sér saman um að afla, var talið að heilsufar D hefði verið orðið stöðugt mánuði eftir slysið. D var ekki talinn hafa hnekkt þessari niðurstöðu. Þó að ætla yrði honum nokkurn tíma til að afla mats um afleiðingar slyssins var talið að honum hefði átt að vera unnt að ljúka undirbúningi kröfugerðar á árinu 2001. Hefði fjögurra ára fyrningartími samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 því byrjað að líða við lok þess árs. Krafan var því talin fyrnd þegar málið var höfðað 3. nóvember 2006 og V hf. sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. júlí 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefst stefndi skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi 22. maí 2001, þegar hann ók bifreið sinni RZ 274 aftan á aðra bifreið á Hafnargötu í Keflavík. Bifreið stefnda var vátryggð hjá áfrýjanda og er ekki ágreiningur um að ökumannstrygging bifreiðarinnar tók til slyssins. Meðal gagna málsins er vottorð 14. apríl 2005 frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem tekið er að mestu upp í hinn áfrýjaða dóm. Í vottorðinu kemur ekki beinlínis fram hvenær stefndi leitaði á heilbrigðisstofnunina en málsaðila greinir ekki á um að það hafi verið strax eftir slysið. Í málinu liggur fyrir að stefndi leitaði ekki læknis á ný vegna afleiðinga slyssins fyrr en 26. apríl 2005, er hann sneri sér til Sigurjóns Sigurðssonar læknis. Samkvæmt vottorði Sigurjóns 20. október 2005 kvartaði stefndi þá aðallega um einkenni frá mjóbaki. Slíkra einkenna er ekki getið í fyrrnefndu vottorði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Aðilar málsins komu sér saman um að leita til Jörundar Gaukssonar héraðsdómslögmanns og Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar læknis til að meta afleiðingar slyssins á heilsu stefnda. Stóðu þeir sameiginlega að matsbeiðni 27. janúar 2006 og var hún af hálfu áfrýjanda undirrituð „með fyrirvara um fyrningu“. Matsmenn luku matsgerð 25. júní 2006, sem að hluta er tekin upp í héraðsdóm. Stefndi byggir kröfu sína á henni. Þar er lagt til grundvallar að hann hafi í slysinu hlotið hálstognun, mar á bæði hné og tognun í mjóbaki. Af framburði matsmanna fyrir dómi verður ráðið að þeir hafi lagt vottorð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og frásögn stefnda um afleiðingar slyssins til grundvallar matinu, þó þannig að ekki hafi verið tekin með einkenni, sem matsmenn telja að ekki fái samrýmst þessum upplýsingum miðað við þá lýsingu á slysinu sjálfu sem stefndi hefur gefið.
Áfrýjandi byggir kröfu sína um sýknu annars vegar á því að krafa stefnda sé fyrnd og hins vegar á því að stefndi hafi ekki sannað að þær afleiðingar sem metnar séu í matsgerðinni eigi rót sína að rekja til slyssins.
Fyrir dómi kvað stefndi áverkana eftir slysið hafa íþyngt sér strax um sumarið 2001, er hann fór að vinna líkamlega vinnu. Samkvæmt fyrrgreindri matsgerð var heilsufar stefnda orðið stöðugt einum mánuði eftir slysið. Verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði stefnda en að þá hafi hann verið kominn með þau einkenni sem leiddu til þess nokkrum árum síðar að hann leitaði eftir örorkumati. Hann leitaði ekki læknismeðferðar á þessu tímabili, þannig að ekki var um að ræða óvissu um afleiðingarnar sem gæti tengst von um árangur af slíkri meðferð. Stefndi kveðst hafa leitað óhefðbundinna lækninga en án varanlegs árangurs. Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn sem að þessu lúta. Þar sem hann leitaði ekki læknis liggur heldur ekkert fyrir um að heilsufar hans hafi farið versnandi. Stefndi hefur því ekki hnekkt niðurstöðu matsmanna um að heilsufar hans hafi verið orðið stöðugt einum mánuði eftir slysið. Í 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er kveðið svo á að bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þó að stefnda sé ætlaður nokkur tími til að afla mats um afleiðingar slyssins verður talið að hann hafi getað lokið þeim undirbúningi kröfugerðar á árinu 2001, og átti hann þess því fyrst kost að leita fullnustu hennar á því ári. Verður því talið að fyrningartími kröfu hans hafi byrjað að líða við lok þess árs. Krafan var samkvæmt þessu fyrnd þegar mál þetta var höfðað 3. nóvember 2006. Þetta leiðir þegar til þess að áfrýjandi verður sýknaður af kröfu stefnda og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort stefnda hafi tekist sönnun um að slysið hafi haft þær afleiðingar sem metnar voru í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda verður staðfest.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfu stefnda, Davíðs Guðbrandssonar.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda skal vera óraskað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Davíð Guðbrandssyni, [kt.], Hagamel 20, Reykjavík, á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., [kt.], Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu sem birt var 3. nóvember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 3.972.696 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 3. nóvember 2002 til 20. október 2006, en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Helstu málavextir eru að stefnandi ók bifreið sinni, sem vátryggð var hjá stefnda, á kyrrstæða bifreið að Hafnarstræti 34 í Keflavík hinn 22. maí 2001.
Í læknisvottorði frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, dags. 14. apríl 2005, segir að stefnandi hafi ekki verið í bílbelti, er slysið varð, og bifreið hans hefði ekki verið búin líknarbelgjum. Haft er eftir stefnanda að hann hefði þeyst fram en haldið við með höndum og fótum. Hafi hann þó skollið með bæði hné í mælaborðið. „Kvartar um óveruleg eymsli þar, neitar öðrum einkennum í neðri útlimum.“ Þá segir:
Við skoðun er hann með smá roða framan á báðum hnéskeljum en a.ö.l. engar aðra áverka að sjá. Engir áverkar á kvið eða brjóstkassa. Engin óþægindi frá efri útlimum, engin eymsli í kvið eða brjóstkassa. Hann er með verk í hálsvöðva vinstra megin og aðeins hægra megin. Takmörkuð hreyfigeta í hálshryggnum vegna verkja þó aðallega vinstra megin. Greiningin er því hálshnykkur, tognun á öxl, áverkar á hné.
Leitar ekki aftur læknis vegna þessa slyss skv. sjúkraskrám.
Hvað fyrra heilsufar hvað stoðkerfið varðar þá leitar hann til Gunnars B. Gunnarssonar bæklunarlæknis í september árið 2000 og þá vegna bakverkja, kemur þá fram að hann hafi tognað illilega í baki 3 vikum áður. Verið að taka bólgustillandi lyf sem hjálpa lítið ásamt verkjalyfjum. Að ráði Gunnars tók hann bólgueyðandi lyf reglubundið í mánuð en lagaðist ekki. Gerð var því röntgen myndataka af hrygg sem sýndi ekki neinar sjúklegar breytingar. Pöntuð var segulómskoðun í Domus Medica og átti hann tíma þann 24.11.2000 en mætti ekki. Gunnar lagði til áframhaldandi þjálfun og verkjalyf eftir þörfum. ... Síðast leitað hann til læknis hér við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 28.10.2002 og þá vegna einkenna frá þvagfærum en ekki stoðkerfis vandamála. Síðan hefur hann ekki leitað til læknis hér.
Í læknisvottorði Sigurjóns Sigurðssonar frá 20. október 2005 varðandi slys stefnanda hinn 22. maí 2001 segir m.a. að stefnandi hafi fljótlega eftir slysið farið að finna fyrir vaxandi verkjum í mjóbakinu sem hafi síðan farið vaxandi. Hafi hann þess vegna leitað til „hnykkjara og Kínverja“ til meðferðar. Þá segir:
Þrátt fyrir meðferð þeirra þá lagaðist hann lítið og hann leitar síðan til undirritaðs þann 26.04.05 vegna áframhaldandi einkenna og kvartaði þá aðallega um einkenni frá mjóbaki. Vegna þessa sendi undirritaður hann í segulómun af lendhrygg sem síðan var tekin þann 10.05.05 og var niðurstað þessarar rannsóknar að um disc degenerativar breytingar á tveimur neðstu lendhryggjarliðum væri að ræða en lítill miðlínuprolaps L.4, L.5 og breið discprotution sem þrengdi að beggja vegna á L.5,S.1.
Undir fyrirsögninni Ályktun í læknisvottorðinu segir:
Hér er um að ræða mann sem lendir í því sem ökumaður að aka aftan á kyrrstæðan bíl, við þetta kastast hann til og fær slink á hryggsúluna og rekur bæði hné í mælaborðið. Ekki hefur verið um mikla meðferð að ræða en þó hefur hann leitað töluvert til hnykkjara og kínverja en þrátt fyrir það hefur hann enn nokkur einkenni sem há honum í daglegu lífi. Segja má að hann hafi í þessu slysi hlotið væga hálstognun, miðlungs tognun í mjóbaki sem hefur haft það í för með sér að eitthvað hefur komið fyrir tvo neðstu lendhryggjarliði. Fyrir slysið var Davíð hraustur og hafði ekki nein einkenni frá baki.
Nú er það langur tími liðinn frá því að áverki þessi átti sér stað að vart er að vænta frekari bata og frekari meðferðarmöguleikar eru ekki fyrir hendi fyrir utan þeir sem hann getur gert sjálfu með reglulegri hreyfingu. Tímabært er því að meta afleiðingar slyssins.
Með matsbeiðni, dags. 27. janúar 2006, fengu aðilar þá Jörund Gauksson héraðsdómslögmann og Sigurð Ásgeir Kristinsson lækni til að láta í té rökstutt álit eða mat á eftirfarandi:
A. Hvort heilsufar Davíðs er orðið stöðugt svo hægt sé að meta varanlegar afleiðingar slyssins og ef svo er hvenær heilsufar Davíðs var orðið stöðugt.
Að því gefnu að heilsufar Davíðs sé orðið stöðugt óskast álit á eftirfarandi:
B. Hver er tímabundin óvinnufærni Davíðs að öllu leyti eða hluta á tímabilinu frá því tjón varð og þar til heilsufar var orðið stöðugt.
C Hvort og þá hversu lengi Davíð hefur verið veikur þannig að hann teljist eiga rétt til þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 allt frá slysdegi og þar til heilsufar var orðið stöðugt. Í þessu sambandi óskast einnig greint á milli þess tíma sem Davíð hefur annars vegar verið rúmfastur og hins vegar veikur án þess að vera rúmliggjandi.
D. Hver er varanlegur miski Davíðs af völdum slyssins skv. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga.
E. Hver er varanleg örorka Davíðs af völdum slyssins, metin skv. 1.-3. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Þá er bætt við af hálfu stefnda eftirfarandi:
F. Hvenær var tímabært að meta slysið.
Af hálfu stefnda var skrifað undir matabeiðnina með fyrirvara um fyrningu.
Matsgerðin er dags. 25. júní 2006. Þar segir undir kaflaheitinu Forsendur:
Við mat á varanlegum miska er stuðst við hálstognunareinkenni með vissri leiðni niður að herðablöðum og efri hluta brjóstbaks. Það er stuðst við maráverka á bæði hné þegar Davíð skellur með hné í mælaborð. Búast má við bólguviðbrögðum í hnéskeljarsinum og eymslum í kringum hnéskeljar í kjölfar þessa en skoðun hefur gefið slíkt til kynna. Einnig er stuðst við tognunareinkenni í mjóbaki. Við áreksturinn kastast Davíð fram á við beltislaus. Heldur fast á móti með fótum og höndum en fær væntanlega við þetta sveigju á mjóbakið þegar höggið kemur. Hann hafði vissulega þekkta mjóbakssögu fyrir en hún var ekki löng og upplýsingar um hana ekki miklar. Þau mjóbakseinkenni virtust einnig samkvæmt sögu liggja aðeins hærra og hafa gengið fljótt yfir. Eymsli Davíðs hafa verið neðst á mjóbakssvæði með leiðni út í rasskinnar og sannreyndist þetta við skoðun þar sem að þó nokkur eymsli finnast við mót lendhryggs og spjaldhryggs svo og á rassvöðvasvæði. Brjósklossagan og leiðnisverkur verður hins vegar ekki tengdur slysinu beint enda virðast þau óþægindi byrja verulega síðar. Með hliðsjón af framansögðu þá telst varanlegur miski hæfilega metinn 12 stig. Matsmenn telja að afleiðingar slyssins valdi Davíð ekki sérstökum erfiðleikum í lífi hans í skilningi 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 umfram það sem felst í því mati sem fram fór út frá læknisfræðilegu sjónarmiði.
Matsmenn telja þegar litið er til eðli áverkanna að ekki hafi verið að vænta frekari bata 1 mánuði eftir slysið og telst það því stöðugleikapunktur.
Tímalengd atvinnutjóns og þjáninga. Á slysdegi var Davíð byrjaður í sumarfríi og vann síðan sína sumarvinnu án forfalla og því er ekki um óvinnufærni að ræða og þar af leiðandi almennt ekki réttur til þjáningarbóta. Í skaðbótalögum nr. 50/1993 er þó heimilt þegar sérstaklega stendur á að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé vinnufær. Slík mat byggir á sanngirnismati á atvikum í hverju einstöku tilviki og má þá líta til þess hversu miklar þjáningar voru og annarra sérstakra aðstæðna. Að mati matsmanna eru heldur ekki skilyrði til að meta honum þjáningabætur á þessum grundvelli.
Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að Davíð er 26 ára á matsdegi en slysið varð 22. maí 2001. Á slysdegi var Davíð í leiklistarnámi og lauk því eins og áætlað var árið 2003 án tafa. Hann hefur síðan unnið sem lausráðinn leikari en jafnframt verið á köflum í almennri verkamannavinnu. Matsmenn leggja því til grundvallar varanlegri örorku að Davíð vinni sem leikari og verkamaður á stundum auk heimilisstarfa út hefðbundna starfsævi. Frá slysi hefur Davíð verið atvinnulaus á köflum en tekið að sér störf á sviði leiklistar auk ýmissa annarra starfa en undanfarna mánuði verið lausráðinn við Borgarleikhúsið. Atvinnusaga Davíðs eftir nám er því nokkuð óstöðug og nýtur hann ekki enn starfsöryggis sem fastráðinn leikari og ólíklegt að það tengist slysinu.
Matsmenn telja að fyrra heilsufar hafi ekki áhrif á þetta mat og hefur þá bæði verið tekið tillit til áfengismeðferðar og bakvandkvæði fyrir slys.
Matsmenn hafa metið einkenni Davíðs til [12] stiga varanlegs miska og telja einkenni þess eðlis að þau geti haft áhrif á getu Davíðs til framangreindra starfa í framtíðinni. Styður þessi niðurstaða framburð Davíðs að hann muni ekki geta unnið ýmiss erfið líkamleg störf sem hann reyndi í sumarvinnu og hafi reynt að sneiða hjá erfiðustu æfingum í námi og sem leikari.
Þegar litið er til eðlis áverka eða einkenna Davíðs og þeirra starfa sem lögð eru til grundvallar varanlegri örorku verður að telja að tekjuskerðing sé líkleg í framtíðinni, sérstaklega þegar líður á starfsævina. Matsmenn telja að þessi einkenni hafi og geti jafnframt takmarkað nokkuð möguleika hans á starfsvali. Þegar Davíð lenti í slysinu var hann í námi og því ekki hægt að byggja á samanburði á tekjum fyrir og eftir slys við mat á varanlegri örorku.
Að öllu framanvirtu telja matsmenn varanlega örorku hæfilega metna 10%.
Með bréfi, dagsettu 20. september 2006, krafði lögmaður stefnanda stefnda um bætur samtals að fjárhæð 3.972.696 kr. Í bréfinu segir að með hliðsjón af niðurstöðum matsmanna og skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum, verði skaðabótakrafa Davíðs vegna líkamstjóns hans sundurliðuð með eftirfarandi hætti, og þá sé miðað við lánskjaravísitölu í september 2006 (5.213 stig), sbr. 15. gr. skaðbótalaga:
1) Varanlegur miski , skv. 4. gr. skaðabótalaga.
Matsmenn telja varanlegan miska Davíðs 12 stig. Því er krafist í bætur fyrir varanlegan miska: kr. 6.353.500,- x 12% = kr. 762.420,-.
2) Varanleg örorka, skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga.
Varanleg örorka Davíðs vegna afleiðinga slyssins 22. maí 2001 er metin 10%. Davíð var 21 ára og 200 daga gamall á stöðugleika punkti. Er notast við stuðulinn 16,843 (17,106 16,626 = 0,48 x 200/365 = 0,263. 17,106 0,263 = 16,843).
Við bæturnar verður að styðjast við 3. mgr. 7. gr. skaðabótalag.
Bætur vegna varanlegrar örorku nemi því: kr. 1.906.000,-
(1.200.000,- x 5.213/3.282) x 10% x 16,843 = 3.210.276,-.
Stefndi hafnaði kröfu stefnanda og var í bréfi hans til lögmanns stefnanda, dagsettu 25. september 2006, því lýst að málið hefði fyrnst hinn 1. janúar 2006 með hliðsjón af dómi Hæstaréttar nr. 58/2006.
Stefnandi byggir á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en bifreið hans hafi verið tryggð lögboðinni slysatryggingu farþega og ökumanns hjá stefnda. Vaxtakröfu sína kveðst hann byggja á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vaxta sé krafist frá 3. nóvember 2002, en dráttarvaxta frá 20. október 2006 samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda bréflega um greiðslu skaðabóta, en þá hafi öll gögn legið fyrir sem stefndi þurfti til að meta tjónsatvik og fárhæð bóta.
Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda hafi fyrnst. Vísað er til þess að slysið varð 22. maí 2001. Þá hafi verið í gildi umferðarlög nr. 50/1987, en í ákvæði 99. gr. laganna komi fram hvenær krafa samkvæmt 13. kafla laganna fyrnist. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakröfur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Bent er á að stefnandi hafi mátt vita um kröfu sína á slysdegi og átt þess kost að leita fullnustu hennar þegar heilsufar hans var orðið stöðugt. Í því sambandi er vísað til þess að stefndi hefði m.a. lagt fyrir matsmenn að meta hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins, en matsmenn hefðu látið því ósvarað.
Áréttað er að heilsufar stefnanda hafi orðið stöðugt mánuði eftir slysið að mati matsmanna, eða 22. júní 2001. Þá hefði verið tímabært að meta líkamstjón stefnanda af völdum slyssins. Upphafstími fyrningarfrestsins hefði því verið 1. janúar 2002 samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og honum lokið 1. janúar 2006. Á þeim tíma hafi stefnandi ekki krafið stefnda um bætur.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að stefndi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við slysið 22. maí 2001. Skortur sé á læknisvottorðum í þá veru. Eingöngu sé til vottorð um komu stefnanda einu sinni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir slysið og síðan vottorð Sigurjóns Sigurjónssonar vegna komu stefnanda til hans fjórum árum eftir slysið. Þá er byggt á því að stefnandi hafi ekki takmarkað tjón sitt með því að leita sér læknisaðstoðar og stunda eðlilega endurhæfingu. Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að aðdragandi þessa máls hafi verið sá að hann hafi verið að aka niður Hafnagötu í Keflavík í góðu veðri er skyndilega hafi bifreið stöðvast stuttan spöl fyrir framan hann. Kvaðst hann hafa tekið seint eftir því, ökumaðurinn hefði stoppað bifreið sína til að hleypa öðrum út úr stæði. Hafi hann lent aftan á honum. Hann hefði lítið náð að bremsa og lent aftan á bifreiðinni á u.þ.b. 50 til 60 km hraða.
Stefnandi kvaðst ekki hafi verið í öryggisbelti en reynt að halda sér, hanga á stýrinu. Hann hafi skollið með fótum fram á mælaborðið, með hné upp í mælaborð. Hann kvaðst ekki muna að hafa skollið á stýrið. Hafi hann náð að halda sér einhvern veginn en fengið slink á sig. Kvaðst hann hafa staulast út úr bílnum eftir þetta. Hann kvaðst ekki muna hvernig hann fór niður á heilsugæslu, en þangað hefði hann farið [skömmu eftir áreksturinn]. Hann tók fram að þáverandi kærasta hans hefð verið með honum í bifreiðinni. Hún hefði verið í belti. Þau hefðu farið samdægurs, stuttu eftir slysið [á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja]. Bifreiðin hefð verið óökufær, verið dregin í burtu og farið á haugana. Þau hefðu farið á bráðamóttöku eða slysamóttöku. Þar hafi læknir verið sem hefði skoðað þau bæði. Ekki hafi verið um mikla skoðun að ræða. Hafi læknirinn þreifað eitthvað á honum og togað í hann og spurt hann hvar hann fyndi til. Hafi læknirinn sagt honum að þarna væri um að ræða hnykk á háls og tognun í öxl eða öxlum og einhver áverki á hnjánum, bólgur á hnjánum.
Stefnandi kvaðst ekki muna eftir að hafa fengið lyfseðil eða nokkuð annað. Læknirinn hefði ekkert frekar gert fyrir hann. Hann hefði sagt honum að þetta myndi bara lagast, ganga til baka.
Stefnandi sagði að framvindan hjá honum hefði verið að hann hefði ekki lagast. Hann hefði farið að vinna þetta sumar, verið í fríi frá námi, sumarfríi. Hafi þetta farið að íþyngja honum meira og meira. Hafi hann stirðnað upp og verið mjög stífur fyrstu daga og vikur. Kvaðst hann virkilega hafa farið að finna fyrir þessu þegar hann hóf nám aftur, þar sem mikil líkamsþjálfun á sér stað og mikið sé unnið með líkamann í náminu, sem hann var í. Kvaðst hann hafa orðið að hlífa sér mikið. Þetta hefði ekki lagast.
Stefnandi kvaðst hafa farið í nudd hjá kínverskum nuddara á Skólavörðustíg, sem þáverandi leikfimikennari hans hefði bent honum á að fara til. Þá hefði hann farið til hnykkjara sem líka hefði verið með nálarstungur. Hafi hann nokkrum sinnum farið til svona gauka. Hafi hann síðan reynt að hlífa sér í skólanum þegar það var unnt.
Stefnandi kvaðst ekki vita nákvæmlega hvenær honum hefði verið ljóst að þetta myndi ekki lagast eins og læknirinn hafði sagt honum. Í náminu hefði verið álag, en hvort sem hann hefði verið að æfa eða ekki, þá hefði hann aldrei verið góður. Hafi það lokist upp fyrir honum, þegar náminu var að ljúka, að þetta myndi ekki lagast af sjálfu sér. Aðeins meira en ári eftir útskrift hefði hann leitað til Sigurjóns Sigurðarsonar læknis.
Stefnandi sagði að mjóbaksverkurinn væri m.a. vandamál í dag. Vöðvar í baksvæðinu niður í axlir og sem leitar upp í háls og einhverjar festingar við hnakka orsaki mikinn hausverk. Þetta væru verkir sem færu einnig niður í herðablöð og undir herðablöð, fram í axlir. Mesti daglegi verkurinn væri í kringum axlarsvæðið. Mjóbaksverkurinn væri viðráðanlegri. Kæmi hann í meiri skorpum.
Stefnandi kvaðst ekki hafa leitað til læknis fyrr en hann fór til Sigurjóns vegna þess að hann hefði verið að bíða eftir að þetta lagaðist, eins og honum hefði verið sagt. Hafi hann reynt að hlífa sér eins og hann gat og leitað óhefðbundinna lækninga að tilmælum leikfimikennara síns.
Stefnandi kvaðst hafa farið til sjós sem háseti sumarið 2005. Sem háseti hefði hann gert ýmislegt. Á neðra dekki hafi þetta verið hálfgerð frystihúsavinna, en um frystitogara hefði verið að ræða. Hásetinn taki þar á móti aflanum sem kemur niður í lest og þar væri hann unnin. Þar væri staðið við snyrtiborð og fiskurinn hausaður, flagaður og snyrtur. Gangi þetta þannig eftir dekkinu fram að pökkunarlínu, þar sem honum væri pakkað í neytendapakkningar og settur í frystitæki og þaðan ofan í lest. Vinnan á efra dekkinu væri þannig að baslað væri við að hífa inn trollið og koma aflanum niður í þar til gerðar lestar. Stefnandi kvaðst einungis hafa farið einn túr sumarið 2005, en aftur núna síðast sumar annan túr. Hafi honum verið boðin staða um borð sem hann hefði ekki getað þegið.
Stefnandi kvaðst m.a. hafa reynt að vinna í malbikun eitt sumar eftir slysið. Hafi hann orðið frá að hverfa eftir einn og hálfan mánuð, mikið hefði verið bograð og unnið með skóflu og það hefði hann ekki getað. Þá hafi hann unnið við verslunarstörf í fríhöfninni í Leifsstöð. Hann hafi unnið á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og svo ýmis leiklistarverkefni.
Stefnandi sagði að tognun, sem hann varð fyrir áður en slysið varð, hafi orðið við vinnu hans sem flutningamaður við að bera sófa upp stiga. Hafi hann fengið slink á bakið. Hann hefði verið frá vinnu í líklega þrjá daga og síðan hefði þetta lagast.
Jörundur Gauksson héraðsdómslögmaður og Sigurður Ásgeir Kristinsson læknir komu fyrir réttinn og gáfu skýrslu til skýringar og staðfestingar á matsgerð, er liggur fyrir í málinu, og um atriði sem tengjast henni.
Ályktunarorð: Með bréfi 27. janúar 2006 til Jörundar Gaukssonar og Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar óskuðu aðilar eftir mati þeirra á heilsutjóni stefnanda af völdum slyssins er hann varð fyrir 22. maí 2001. Stefndi stóð að matinu með fyrirvara um fyrningu á bótakröfu. Matsgerðinni lauk og er hún dagsett 25. júní 2006.
Ákvæði 99. gr. XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 um fébætur og vátryggingu, fjalla um fyrningu bótakrafna. Þar segir að allar bótakröfur samkvæmt þessum kafla, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð beri, og vátryggingafélagi, svo og endurkröfur vátryggingafélags, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Og síðan segir að kröfur þessar fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.
Samkvæmt matsgerðinni var heilsufar stefnanda orðið stöðugt einum mánuði eftir slysið, eða 22. júní 2001. Stefnanda var að sjálfsögðu ókunnugt um það á þeim tíma. Hann lauk námi í Leiklistarskóla Íslands í júní 2003 og bar fyrir rétti að á þeim tímamótum hefði honum fyrst komið í hug að veikindi hans vegna slyssins myndu ekki hverfa af sjálfu sér.
Upplýst er að stefnandi leitaði til Sigurjóns Sigurðssonar læknis vegna vanlíðanar sinnar og í læknisvottorði Sigurjóns, sem dagsett er 20. október 2005, lýsir læknirinn því yfir að nú væri svo langur tími liðinn frá því að áverki þessi átti sér stað að vart væri að vænta frekari bata. Frekari meðferðarmöguleikar væru ekki fyrir hendi utan þeirra sem stefnandi gæti sjálfur staðið að með reglulegri hreyfingu. Tímabært væri því að meta afleiðingar slyssins.
Eftir matsgerðina 25. júní 2006 átti stefnandi þess fyrst kost að leita fullnustu á bótakröfu sinni vegna slyssins. Og með bréfi til stefnda, dagsettu 20. september 2006, krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnanda á grundvelli matsgerðarinnar. Verður ekki talið að krafan hafi verið fyrnd á þeim tíma.
Eins og áður sagði stóð stefndi að matinu með stefnanda með fyrirvara um fyrningu á bótakröfu. Þar sem stefndi reyndi ekki að fá matinu hnekkt, með mati dómkvaddra matsmanna, verður að álykta, að stefnandi hafi með matsgerðinni 25. júní 2006 sannað líkamstjón sitt vegna slyssins 22. maí 2001 með fullnægjandi hætti. Málsástæða stefnda um hugsanlegan ótilgreindan bata stefnanda, hefði hann stundað „eðlilega“ endurhæfingu og farið fyrr til læknis, er óskýr og vanreifuð, einkum í ljósi þess að hann byggir kröfu sína um fyrningu á því að upphafstími hennar hefði verið 1. janúar 2002.
Tölulegur ágreiningur er ekki um bótakröfu stefnanda og verður stefndi því, samkvæmt framangreindu, dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Davíð Guðbrandssyni, 3.972.696 krónur auk 4,5% ársvaxta frá 3. nóvember 2002 til 20. október 2005, en með dráttarvöxtum af allri fjárhæðinni, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði 1.022.424 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 1.018.524 krónur.