Hæstiréttur íslands

Mál nr. 167/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kári Ólafsson fulltrúi)
gegn
X (Unnsteinn Örn Elvarsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu L um heimild til rannsóknar á efnisinnihaldi farsíma í eigu X. Eftir að málið barst Hæstarétti var rétturinn upplýstur um að hin umkrafða rannsókn hefði þegar farið fram. Var málinu því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. mars 2017 þar sem sóknaraðila var heimiluð rannsókn á efnisinnihaldi farsíma í eigu varnaraðila sem haldlagður var í þágu rannsóknar sakamáls. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Með bréfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 14. mars 2017 var upplýst að rannsókn á farsíma varnaraðila hefði þegar farið fram í kjölfar uppkvaðningar hins kærða úrskurðar. Samkvæmt því er sú rannsóknaraðgerð sem varnaraðili leitast við að fá hnekkt með kæru sinni þegar um garð gengin. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.