Hæstiréttur íslands
Mál nr. 218/1999
Lykilorð
- Sameignarfélag
- Slit
- Uppgjör
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2000. |
|
Nr. 218/1999. |
Gísli Ólafsson Ólafs Ragnar J. Jónsson og Íselco sf. (Jóhannes Sigurðsson hrl. Einar S. Hálfdánarson hdl.) gegn Margeiri Jóhannssyni (Einar Gautur Steingrímsson hdl.) og gagnsök |
Sameignarfélag. Slit. Uppgjör.
G, R og M voru sameigendur að félaginu Í. Í maí 1993 sagði M sameignarsamningnum upp frá og með 1. janúar 1994 og í júlí 1993 var staðfest viljayfirlýsing G og R um að kaupa hlut M í félaginu. Fór M þá í sumarfrí og var samið um að hann fengi greidd laun í fríinu. Endurskoðendur voru fengnir til að meta hlut hvers sameigenda í félaginu og lá matið fyrir í september 1993. Samkomulag um kaup G og R á hlut M tókst þó ekki fyrr en með dómsátt í apríl 1996. Við uppgjör á grundvelli dómsáttarinnar gerðu aðilar ákveðna fyrirvara, sem síðan reis ágreiningur um. Krafðist M launa til 1. janúar 1994. Talið var að á grundvelli ákvæða samkomulagsins hefði M ekki átt rétt til launagreiðslna nema til þess tíma er mat endurskoðendanna lá fyrir og voru honum dæmd laun fram til þess tíma. Þá krafðist M leiðréttingar varðandi uppgjör á réttarsátt. Talið var að forsendur þær sem gengið hafði verið út frá varðandi eigið fé Í hefðu verið rangar og hefði M gert ítrekaða fyrirvara við þær og var M dæmd greiðsla úr hendi G og R vegna leiðréttinga á réttarsáttinni. G og R höfðu uppi gagnkröfur vegna bifreiðakostnaðar M og kvittana fyrir móttöku á póstkröfubögglum, sem G og R töldu að M hefði notað til að draga sér eða öðrum fé. Ekki var talið að G og R hefðu fært sönnur á þessar kröfur sínar og voru þær því ekki teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 8. júní 1999. Þeir krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum gagnáfrýjanda. Til vara krefjast þeir sýknu að svo stöddu og til þrautavara að þeim verði gert að greiða lægri fjárhæð en krafist er. Verði þeir dæmdir til þess að greiða gagnáfrýjanda einhvern hluta krafna hans gera þeir kröfu um að vextir verði ekki dæmdir hærri en samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Þá gera þeir áskilnað um að verði þeim gert að greiða einhvern hluta krafna gagnáfrýjanda komi nánar tilgreindar fjárhæðir til skuldajafnaðar. Loks krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málinu var gagnáfrýjað 22. september 1999. Endanlegar dómkröfur gagnáfrýjanda eru þær að aðaláfrýjendur verði in solidum dæmdir til greiðslu á 3.146.327 krónum með eftirgreindum ársvöxtum samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga: Af 948.193 krónum frá 1. september 1993 til greiðsludags, af 408.080 krónum frá 1. október 1993 til greiðsludags, af 408.080 krónum frá 1. nóvember 1993 til greiðsludags, af 408.080 krónum frá 1. desember 1993 til greiðsludags, af 716.626 krónum frá 1. janúar 1994 til greiðsludags. Auk þess krefst hann meðalvaxta banka og sparisjóða af skuldbréfalánum, samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands af 257.368 krónum frá 13. janúar 1994 til 29. október 1996, en dráttarvaxta af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags. Verði dráttarvöxtum hnikað til síðara tímamarks krefst hann vegins meðaltals útlánsvaxta banka og sparisjóða af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta „frá þeim degi sem dráttarvextir verða reiknaðir“. Þá er þess krafist að skuldajafnaðarkröfum aðaláfrýjanda verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af þeim kröfum. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Málsatvik eru skýrlega reifuð í héraðsdómi. Kemur þar fram að gagnáfrýjandi sendi 19. maí 1993 sameigendum sínum, aðaláfrýjendunum Gísla og Ragnari, uppsögn á sameignarsamningi þeirra um Íselco sf. miðað við 1. janúar 1994. Með samkomulagi 12. júlí 1993 var staðfest viljayfirlýsing Gísla og Ragnars um að kaupa hlut gagnáfrýjanda í sameignarfélaginu. Samið var um að fá tvo endurskoðendur til að meta fyrirtækið og hlut hvers sameiganda í því miðað við uppgjör 13. júlí 1993. Þá var ákveðið að gagnáfrýjandi færi í sumarfrí frá og með 13. júlí til þess tíma að umrætt mat endurskoðenda lægi fyrir og fengi hann greidd laun í sumarfríinu. Gagnáfrýjandi fékk greidd laun fyrir júlí 1993, en engin síðan. Endurskoðendur skiluðu matinu 13. september 1993. Þrátt fyrir það varð ekki samkomulag um kaup Gísla og Ragnars á hlut gagnáfrýjanda fyrr en með dómsátt milli hans og allra aðaláfrýjenda 29. apríl 1996 um kaupverðið, svo sem nánar greinir í héraðsdómi. Réttarsátt þessi var gerð upp 5. nóvember 1996. Við uppgjörið gerðu aðilar ákveðna fyrirvara. Ágreiningur málsaðila varðar kröfur samkvæmt þessum fyrirvörum sem raktir eru í héraðsdómi.
II.
Umrædd réttarsátt málsaðila átti rót sína að rekja til fyrrgreinds mats endurskoðenda á grundvelli upphaflegs samkomulags sameigendanna, en með því var úrganga gagnáfrýjanda úr sameignarfélaginu færð fram til 13. júlí 1993. Hafði gagnáfrýjandi ítrekað fallist á, að uppgjör á hlut hans yrði miðað við það tímamark, þrátt fyrir töf eða brest á efndum samkomulagsins. Með tilliti til þess og ákvæða samkomulagsins getur gagnáfrýjandi ekki átt rétt á launagreiðslum nema til þess tíma er mat endurskoðendanna lá fyrir, úr því að ekki var um annað samið. Aðaláfrýjendur hafa ekki hrakið útreikning gagnáfrýjanda á orlofi eða kaupi í sumarleyfi. Með þessari athugasemd en annars með skírskotun til rökstuðnings héraðsdómara ber að staðfesta úrlausn héraðsdóms um laun og orlof.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta það er þar segir um uppgjör á réttarsátt.
Engin heildarúttekt hlutlausra aðila hefur farið fram á þeim kostnaðarfærslum í bókhaldi félagsins sem gagnkrafa aðaláfrýjenda til skuldajafnaðar er tengd. Hafa þeir því ekki fært sönnur á þessar kröfur sínar og verða þær þegar af þeirri ástæðu ekki teknar til greina.
Samkvæmt því sem að framan er rakið skal niðurstaða héraðsdóms um höfuðstól, vexti og málskostnað vera óröskuð.
Rétt þykir að aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjendur, Gísli Ólafsson Ólafs, Ragnar J. Jónsson og Íselco sf., skulu greiða gagnáfrýjanda, Margeiri Jóhannssyni, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 1999.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 15. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 15. og 16. júlí 1997. Málið var þingfest 4. september 1997.
Stefnandi er: Margeir Jóhannsson, kt. 020832-4449, Brúnastekk 4, Reykjavík.
Stefndu eru: Gísli Ólafsson Ólafs, kt. 031136-3429, Hverafold 38, Reykjavík, Ragnar J. Jónsson, kt. 220329-3219, Brekkusmára 3, Kópavogi, og Íselco sf., kt. 600171-0469.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum gert að greiða honum 3.366.664 krónur auk eftirfarandi vanskilavaxta p.a., samkvæmt 10. gr., samanber 12. gr. vaxtalaga:
Af 411.093 krónum frá 1. september 1993 til greiðsludags.
Af 574.363 krónum frá 1. september 1993 til greiðsludags.
Af 445.343 krónum frá 1. október 1993 til greiðsludags.
Af 445.343 krónum frá 1. nóvember 1993 til greiðsludags.
Af 445.343 krónum frá 1. desember 1993 til greiðsludags.
Af 445.343 krónum frá 1. janúar 1994 til greiðsludags.
Af 342.468 krónum frá 1. janúar 1994 til greiðsludags.
Auk þess er krafist meðalvaxta banka og sparisjóða af skuldabréfalánum samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands, af 257.368 krónum frá 13. janúar 1994 til 29. október 1996, en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags. Verði dráttaravöxtum hnikað til síðara tímamarks er krafist vegins meðaltals útlánsvaxta banka og sparisjóða af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi sem dráttarvextir verða reiknaðir.
Stefnandi krefst þess ennfremur að gagnkröfum til skuldajafnaðar verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af gagnkröfum.
Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaðar að mati dómsins. Verði stefndu dæmdir til að greiða stefnanda einhvern hluta krafna hans er gerð krafa um að vextir verði miðaðir við meðalinnlánsvexti banka og sparisjóða af óbundnum innlánsreikningum, eins og þeir eru á hverjum tíma, samkvæmt útreikningi Seðlabanka Íslands.
Verði stefndu gert að greiða stefnanda einhvern hluta krafna hans er höfð uppi gagnkrafa til skuldajafnaðar að fjárhæð 361.912 krónur. Þá er ennfremur gerð gagnkrafa til skuldajafnaðar um dráttarvexti, samkvæmt meðfylgjandi útreikningi, tímabilið 29. febrúar 1988 til 1. september 1993, samtals 285.336 krónur.
Til vara er gerð krafa um sýknu að svo stöddu.
II
Óumdeild málsatvik
Stefnandi og stefndu Gísli og Ragnar gerðu 8. janúar 1971 með sér samning um stofnun sameignarfélagsins Íselco sf. og var markmiðið með stofnuninni að flytja inn rafvörur, vélar og tæki. Málsaðilar störfuðu allir hjá sameigarfélaginu og var verkaskipting þeirra sú að stefnandi sá um bókhald og fjárreiður, stefndi Gísli um pantanir, innkaup og sölumál en stefndi Ragnar um erlendar bréfaskriftir og sölumál. Jóhann Pétur, sonur stefnanda, starfaði hjá sameignarfélaginu með skóla en varð að námi loknu fastur starfsmaður. Vann hann ásamt föður sínum að greiðslu reikninga, bókhaldi og öðrum hjárhagslegum málefnum félagsins.
Á árinu 1992 kom í ljós að Jóhann hafði dregið sér fé úr sjóðum félagsins og var honum gert að láta af störfum.
Eftir að upplýst varð um fjárdrátt Jóhanns versnuðu samskipti stefnanda og sameigenda hans. Fór svo að stefnandi sendi sameigendum sínum 19. maí 1993 uppsögn á sameignarfélagssamningnum miðað við 1. janúar 1994. Vísað var til 1. mgr. 7. gr. samningsins hvað varðaði uppsögnina. Óskað var eftir tafarlausum viðræðum um hvort annar eða báðir sameigendanna vildu halda áfram starfsemi fyrirtækisins á grundvelli 2. mgr. 7. gr. samningsins og eftir að viðræður um uppgjör að öðru leyti hæfust eigi síðar en 1. ágúst. Framangreind 7. gr. sameignarfélagssamningsins er svohljóðandi:
„Samningi þessum getur hvor okkar sagt upp með 6 mánaða fyrirvara og skal uppsögn, sem á að vera skrifleg, miðast við áramót. Verði félaginu slitið á þennan hátt skulu reikningar félagsins gerðir upp og ágóða og eignum skipt skv. 2. gr. Eigi félagið þá ekki fyrir skuldum, skal það er á vantar greitt af okkur að jöfnu.
Vilji sá eða þeir er eigi hafa sagt upp halda starfseminni áfram, skal honum eða þeim heimilt að taka við fyrirtækinu eins og það er með eignum og skuldum, skv. fyrrnefndu reikningsuppgjöri gegn því að greiða þeim er upp hafa sagt þeirra hlut, skv. uppgjörinu innan 6 mánaða frá lokum reikningsskilanna. Heimild til að halda firmanafninu er bundin samþykki okkar allra, sbr. þó 8. gr."
Í bréfi dags. 28. júní 1993 var því lýst yfir að stefndu Gísli og Ragnar neyttu réttar síns til að lýsa því yfir að þeir hygðust halda starfsemi félagsins áfram.
Með samkomulagi undirrituðu af málsaðilum 12. júlí 1993 var staðfest viljayfirlýsing stefndu Gísla og Ragnars um að kaupa hlut stefnanda í sameignarfélaginu. Samkomulag varð um að fá þá Svein Jónsson og Einar Ólafsson, löggilta endurskoðendur, til að meta fyrirtækið og hlut hvers sameigenda í því miðað við uppgör 13. júlí 1993. Þá var ákveðið að stefnandi færi í sumarfrí frá og með 13. júlí til þess tíma að umrætt mat endurskoðenda lægi fyrir, „væntanlega fyrri hluta ágústmánaðar n.k.", og að hann fengi greidd laun í sumarfríi sínu. Stefnandi fékk greidd laun 1. ágúst 1993 en engin síðan.
Endurskoðendurnir skiluðu matinu 13. september 1993. Samkvæmt því var eigið fé félagsins talið 16.818.289 krónur en matsverð þess, þegar tillit hafði verið tekið til mats á verðmæti fasteignar, áhalda, tækja og viðskiptavildar, 57.376.781 krónur miðað við 13. júlí 1993. Eignarhluti hvers eiganda var því metinn á 19.125.594 krónur.
Stefndu Gísli og Ragnar sættu sig ekki við þetta verðmat og nokkur bréfaskipti fóru á næstu mánuðum milli lögmanna málsaðila. Stefndu Gísli og Ragnar sökuðu m.a. stefnanda um að tengjast bókhaldsmisferli sonarins. Ekki náðist samkomulag um yfirtöku stefndu Gísla og Ragnars á sameignarfélaginu eða um uppgjör. Stefnandi hóf hins vegar ekki störf hjá félaginu að nýju og hafði eftir þetta því engin afskipti af rekstri þess.
Svo fór að stefndu höfðuðu mál á hendur stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur (mál nr. E-2740/1994) og kröfðust viðurkenningar á því að þeir mættu leysa hluta hans til sín á tilteknu verði auk þess sem þeir gerðu á hendur honum skaðabótakröfur. Stefnandi gagnstefndi fyrir kaupverði fyrirtækisins, greiðslu launa og fleira. Öllum kröfum stefndu (aðalstefnanda í því máli) var vísað frá dómi eða þær felldar niður. Sátt náðist með aðilum 29. apríl 1996 um kröfu stefnanda (gagnstefnanda í því máli) um kaupverð Íselco sf. Stefnandi féll frá öllum öðrum kröfum í gagnsök en lögmaður hans lét hins vegar færa til bókar að sáttin tæki aðeins til þeirra krafna, sem ennþá væru til umfjöllunar í málinu samkvæmt endanlegri kröfugerð.
Samkvæmt réttarsáttinni skyldu stefndu greiða stefnanda 17.360.643 krónur hinn 29. október 1996 og innleysa þannig hlut stefnanda í félaginu. Í sáttinni kom fram að fjárhæð hennar hvíldi á eftirfarandi forsendum:
· „Greiðsla til Margeirs var lækkuð um kr. 149.740,00 sem er 1/3 af mismuninum á kr. 16.818.289,00 og kr. 16.369.068,00 sem er misræmi milli uppgjörs og mats Einars Ólafssonar og Sveins Jónssonar, löggiltra endurskoðenda.
· Greiðsla til Margeirs var lækkuð um 1/3 af kr. 492.111,96 þar sem skuldabréfaeign var talin offærð í uppgjörinu 12. júlí 1993.
· Komi í ljós að ofangreindar leiðréttingar hafi ekki verið á rökum reistar skulu greiðslur til Margeirs hækka sem því nemur að viðbættu vegnu meðaltali skuldabréfavaxta af óverðtryggðum skuldabréfum skv. útreikningi Seðlabanka Íslands frá 14. janúar 1994, höfuðstólsfærðar á 12. mánaða fresti."
Réttarsátt þessi var gerð upp 5. nóvember 1996 með greiðslu til stefnanda að fjárhæð samtals 14.500.783 krónur. Í uppgjörinu kemur eftirfarandi fram:
„Margeir Jóhannsson lýsir því yfir að réttarsátt aðilanna frá 29.04.1996 í héraðsdómsmálinu nr. E-2740/1994 er að fullu upp gerð að öðru leyti en því að leiðréttingar sem þar eru boðaðar hafa ekki farið fram og áskilur Margeir sér allan rétt í því sambandi. ...
Margeir Jóhannsson vill taka eftirfarandi fram sérstaklega:
1. Að hann áskilji sér allan rétt til að láta þá endurskoðun fara fram sem ráðgerð er í sáttinni.
2. Að hann áskilji sér rétt til að krefjast óuppgerðra launa og/eða orlofs.
3. Að hann áskilji sér rétt til að krefjast launa í uppsagnarfresti til áramóta 1993/1994.
4. Að hann áskilji sér rétt til að krefjast 1/3 af óskiptum verðmætum sem ekki er getið um í uppgjöri Einars Ólafssonar og Sveins Jónssonar, lögg. endurskoðenda, frá 12. júlí 1993, komi slík verðmæti fram. ...
Íselco s/f vill tala eftirfarandi fram sérstaklega:
Félagið áskilur sér rétt til skaðabóta eða endurgreiðslu fjármuna sbr. umkrafðar fjárhæðir í stefnu í héraðsdómsmálinu nr. E-2740/1994."
Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:
|
Krafa um orlof |
kr. 574.363 |
|
Leiðrétting á réttarsátt |
kr. 257.368 |
|
Laun í uppsagnarfresti |
kr. 2.226.715 |
|
Orlof af launum í uppsagnarfresti |
kr. 342.468 |
|
Atvinnuleysisbætur |
kr. (34.250) |
|
Samtals |
kr. 3.366.664 |
Gagnkröfur stefnda til skuldajafnaðar sundurliðast þannig:
|
Gagnkrafa |
kr. 337.407 |
|
Dráttarvaxtakrafa |
kr. 285.336 |
|
Gagnkrafa viðurkennd í stefnu |
kr. 24.555 |
|
Samtals |
kr. 647.298 |
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Um kröfur stefnanda
Stefnandi byggir launa- og orlofskröfu sína á því að Iselco sf. hafi frá upphafi verið sjálfstæður skattaðili og afkoma félagsins og eigenda verið skattalega aðskilin. Sameigendurnir hafi smám saman allir orðið launþegar hjá félaginu.
Stefnandi kveður ákvæði sameignarfélagssamnings aðila hafa verið þess efnis að uppsögn hans skyldi miðast við áramót. Uppsögn stefnanda hafi þýtt að hann skyldi ganga úr félaginu 1. janúar 1994, en vinna hjá því og bera af því hagnað og þola tap til þess dags. Kaupverð skyldi greiða hálfu ári síðar eða 1. júlí 1994.
Á meðan stefnandi hafi verið í sumarfríi, í samræmi við undirritað samkomulag við meðeigendur, hafi þeir látið skipta um skrár í fyrirtækinu og hindrað þannig aðgang hans að því. Þessu hafi verið mótmælt með bréfi dags. 4. ágúst 1993 og bent á að sala hefði ekki farið fram og þessi hegðun væri brot á sameignarfélagssamningi. Þess hafi verið krafist að stefnandi fengi afhenta lykla og tryggður sami réttur í fyrirtækinu og félagar hans hefðu.
Stefnanda hafi ekki verið greidd nein laun 1. september 1993. Með bréfi 6. september 1993 hafi þess verið krafist að stefnandi fengi laun sín greidd. bent hafi verið á að sameignarfélagssamningurinn og samkomulagið frá 12. júlí hefði verið brotið og allur réttur áskilinn.
Stefnandi kveður nokkuð einkennilega stöðu hafa verið komna upp þegar mat endurskoðenda lá fyrir 13. september. Í fyrsta lagi hafi stefndu Ragnar og Gísli engan vilja sýnt til að byggja uppgjör sitt á samkomualginu frá 12. júlí 1993. Í öðru lagi hafði engin sala á fyrirtækinu farið fram. Í þriðja lagi hafi stefndu útilokað einn félagsmanna frá aðgangi að fyritækinu. Í fjórða lagi hafi þeir neitað að greiða honum réttmæt laun og í fimmta lagi hafi þeir ráðskast með fyrirtækið, skuldbundið það og stefnanda án nokkurs samráðs við hann. Af öllu þessu hafi verið ljóst að stefndu Ragnar og Gísli hafi alls ekki viljað hleypa honum inn í fyrrtækið eða að hann efndi skyldur sínar við það í formi vinnuframlags. Ekki hafi heldur verið haft fyrir því að svara mótmælum stefnanda um þessi atriði.
Stefnandi telur að með því að aðilar hafi ekki komið sér saman um annað hafi vinnusamningur stefnanda við félagið verið í gildi til 1. janúar 1994 og sem eigandi félagsins hafi hann borið af því hagnað og tap. Ítrekað hafi verið gerð krafa um að hann fengi laun sín greidd, afhenta lykla og gæti óhindrað starfað að félaginu til áramóta en þessum kröfum hafi ekki verið svarað af hálfu stefndu.
Því hafi fyrst verið haldið fram í bréfi lögmanns stefndu 25. október 1993 að stefnandi ætti ekki „rétt á launum, eða öðru eftir að hann gekk úr fyrirtækinu og er þá miðað við 13.07.1993.” Stefnandi telur þetta þvert á orðalag samkomulagsins frá 12. júlí sem eingöngu hafi kveðið á um að stefnandi tæki sér sumarfrí og sérstaklega tekið fram í 2. gr. að hann fengi greidd laun í sumarfríi sínu. Það samkomulag hafi í engu getað talist slit á ráðningarsamningi stefnanda og félagsins.
Með bréfi 28. nóvember 1993 hafi því verið beint til stefndu hvort aðilar væru sammála um að miða uppgjör fyrirtækisins við 13. júlí 1993. Skýrlega hafi komið fram í því bréfi að þar hafi eingöngu verið átt við uppgjör og verðmat skv. sameignarfélagssamningi en ekki ráðningarslit, enda þess krafist að stefnandi fengi greidd laun til áramóta og að minnsta kosti hlyti hann að eiga rétt til uppsagnarfrests.
Í greinargerð stefndu í málinu nr. E-2740/1994 hafi verið gefin svohljóðandi málflutningsyfirlýsing; „enginn munnlegur samningur um uppsagnarfrest var á milli félaganna né heldur var Margeiri meinað að vinna til áramóta.” Með þessari yfirlýsingu hafi verið dregið í land með að Margeir hafi hætt störfum 13. júlí og í framhaldi reynt að skýra út af hverju skipt hafi verið um skrár.
Bréfi stefnanda frá 28. nóvember hafi verið svarað af hálfu stefndu 6. desember 1994 og því haldið fram að enginn ráðningarsamningur hafi nokkurn tíma verið í gildi við stefnanda. Þetta sé að sjálfsögðu mikill misskilningur þar sem allir eigendur félagsins hafi haft munnlegan ráðningarsamning við félagið og fengið greitt samkvæmt kjarasamningum að öðru leyti en því að laun þeirra hafi verið talsvert hærri en kjarasamningar hafi gert ráð fyrir. Í þessu bréfi sé því haldið fram að stefnandi hafi hætt með því að mæta ekki í vinnu. Stefnandi telur að um augljósan fyrirslátt hafi verið að ræða, enda hafi stefndu ekki haft fyrir því að svara kvörtunum stefnanda sem fyrst hafi verið settar fram 4. ágúst um að hann fengi ekki að njóta réttinda og skyldna sem eigandi í félaginu og fengi ekki að gegna störfum sínum þar. Þessu bréfi hafi verið svarað af hálfu stefnanda með bréfi 28. desember 1993.
Stefnandi hafi strax í byrjun árs 1994 hafist handa við að innheimta kaupverð fyrirtækisins og laun. Stefndu hafi í kjölfarið höfðað mál á hendur stefnanda en stefnandi gagnstefnt. Málinu hafi lokið 29. apríl 1996 með réttarsátt sem eingöngu hafi tekið til uppgjörs á kaupverði Íselco sf. Eftir eigi að útkljá allar aðrar kröfur aðila.Stefnandi kveður kröfur sínar í meginatriðum þríþættar.
1.Krafa um orlof.
Stefnandi kveður orlofsskuldbindinguna hafa verið tekna inn í verðmat fyrirtækisins. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi átt ógreitt 30,5 daga orlof 1. ágúst 1993, miðað við 408.000 króna mánaðarlaun, eða 574.363 krónur.
2.Leiðrétting á réttarsátt:
Stefnandi kveður kröfu þessa byggða á fyrirvörum í réttarsáttinni. Fyrirvarar þessir hafi átt rætur að rekja til misræmis á reiknuðu eigin fé félagsins, annar vegar í mati löggiltra endurskoðenda frá 13. september 1993 þar sem eigið fé hafi verið talið 16.818.289 krónur og hins vegar í efnahagsreikningi sem fylgt hafi matinu en þar hafi eigið fé verið talið kr. 16.369.068 krónur. Í sáttinni hafi verið byggt á lægri tölunni. Eendurskendurnir hafi síðar gefið þá skýringu á þessu misræmi að að rangt uppgjörseyðublað hafði fylgt matinu. Endanlegt uppgjör komi heim og saman við mat þeirra á eigin fé félagsins. Skylt sé því að leiðrétta sáttina um 1/3 af þessum mismuni eða um 149.740 krónur.
Þá hafi af hálfu stefndu var fullyrt við gerð sáttarinnar að skuldabréfaeign félagsins væri offærð. Stefnandi hafi ekki getað metið það af gögnum málsins og ákveðið að tefja ekki gerð sáttarinnar með skoðun á því atriði. Hafi því verið ákveðið að kanna þetta mál til hlítar. Engar upplýsingar hafi síðar borist frá stefndu um hvaða skuldabréf félagið hafi átt 12. júlí 1993, um höfðustól þeirra eða uppsafnaða vexti, þótt eftir því hafi verið leitað. Sé því ekki um annað að ræða en að krefja þá um þessa fjárhæð samkvæmt sáttinni.
Ennfremur hafi við gerð sáttarinnar láðst að taka tillit til þess að félagið hafi greitt bifreiðakostnað eigendanna og viðurkennir stefnandi að honum hafi borið að greiða til félagsins 47.781 krónur til að jöfnuður náist með eigendum, sem þýði að í uppgjöri milli aðila beri honum að greiða 2/3 af þeirri fjárhæð, eða 31.854 krónur. Hefði þessi tala átt að dragast frá sáttarafjárhæðinni í upphafi. Stefnandi viðurkennir jafnframt að sonur hans hafi, án hans vitundar, látið félagið bera fjármagnskostnað sem honum tilheyrði að fjárhæð 36.833 krónur og að 2/3 af þeirri fjárhæð hefðu átt að dragast frá sáttarfjárhæðinni eða 24.555 krónur. Samtals leiðréttist sáttin um eftirtalið:
|
Skýrt misræmi á mati félagsins og uppgjöri sem fylgdi |
kr. 149.740 |
|
Bakfærð leiðrétting á skuldabréfaeign |
kr. 164.037 |
|
Uppgjör vegna rekstrarkostnaðar á bifreið |
kr. (31.854) |
|
Endurgreiddur fjármagnskostnaður |
kr. (24.555) |
|
Samtals |
kr. 257.368 |
Dráttarvaxtakrafa stefnanda miðast við ákvæði sáttarinnar um meðaltalsvexti. Stefnandi kveður það almenna reglu og viðskiptavenju að almennir vextir séu taldir gjaldfalla með höfuðstólnum og af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta séu reiknaðir dráttarvextir.
3. Laun til áramóta.
Stefnandi vísar til þess að í gildi hafi verið munnlegur ráðningarsamningur milli sameigenda og félagsins, samanber framlagða launaseðla. Efni ráðningarsamningsins til fyllingar séu kjarasamningar þeir sem Verslunarmannafélag Íslands hafi gert, enda farið eftir þeim í samskiptum félagsmanna við félagið sjálft, auk þess sem festa hafi komist á framkvæmdina, sem í vinnurétti sé talið ígildi ráðningarsamnings. Hinn munnlegi ráðningarsamningur hafi engin ákvæði geymt um lengd uppsagnarfrests, en samkvæmt framangreindum kjarasamningi sé hann 5 mánuðir. Ráðningarsamningnum hafi aldrei verið sagt upp með öðrum hætti en þeim að 19. maí 1993 hafi stefnandi í reynd sagt honum upp frá og með áramótum 1993/1994.
Stefnandi kveðst ekki hafa gengið út úr sameignarfélaginu 13. júlí 1993. Aðilar málsins hafi löngu síðar gert með sér sérstakt samkomulag um að réttaráhrif útgöngu hans úr sameignarfélaginu yrðu í ýmsum atriðum miðuð við þann dag. Samkomulagið hafi ekki tekið til ráðningarsamningsins. Ljóst sé að hver sameigenda geti átt í samningssambandi við sameignarfélag eins og hver annar þriðji aðili. Ráðningarsamningar falli almennt niður vegna vanefnda eða uppsagnar og hvorugu hafi verið til að dreifa í þessu tilviki og hafi hann því staðið óhaggaður. Ekkert sé komið fram í málinu sem bendi til slíkra brota stefnanda að ráðningarsamningurinn teljist hafa fallið niður án uppsagnar eða tilkynningar.
Stefnandi telur að þar sem hann hafi lofað sameigendum sínum að vera í sumarleyfi til 13. september hafi ekki hvílt á honum skylda til að koma í vinnu fyrr. Fyrir þann tíma hafi stefndu verið búnir að vanefna vinnusamninginn með því að greiða honum ekki laun 1. september. Stefnandi hafi því ekki verið skyldugur til að inna gagngjald sitt af hendi. Stefnandi hafi verið meira en fús til að inna af hendi vinnuskyldur sínar en sameigendur hans í engu svarað umkvörtunarefnum hans og ekki viljað hleypa honum inn í fyrirtækið. Beri stefnanda því laun til áramóta og orlof af þeim.
Samkvæmt framlögðum launaseðlum, sem séu að hluta ráðningarsamningur við fyrirtækið, eigi stefnandi að fá greiddar 37.263 krónur vegna reiknaðra bifreiðahlunninda.
Stefnandi telur orlofsprósentuna hafa verið 15,385 sem byggist á því að aðilar hafi verið sammála um að orlof samkvæmt ráðningarsmaningi skyldi vera 40 virkir dagar á ári. Laun hafi verið greidd eftir á.
Krafa stefnanda sundurliðast því þannig:
|
Laun 01.09.1993-31.12. 1993 = 5x 408.080 |
kr. 2.040.400 |
|
Bifreiðahlunnindi 01.09.1993-31.12.1993 = 5x37.263 |
kr. 186.315 |
|
Samtals |
kr. 2.226.715 |
|
Orlof 15,38% |
kr. 342.468 |
|
Samtals |
kr. 2.569.183 |
Um gagnkröfur stefnda
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að krafa stefndu sé vanreifuð. Kröfunni hafi áður verið vísað frá í þessum búningi með Hæstaréttardómi 1996, bls. 2315. Þá sé vaxtakrafan vanreifuð og ekki í samræmi við ákvæði einkamálalaga um framsetningu kröfugerðar. Af þessum ástæðum eigi að vísa kröfunni frá dómi.
Stefnandi byggir á því að kröfur hans og stefndu séu ekki af sömu rót runnar og skilyrði skuldajöfnunar því ekki fyrir hendi. Stefnda sé óheimilt að skuldajafna meintum kröfum sínum á móti launakröfum, sbr. 1. gr. laga um greiðslu verkkaups nr. 28/1930. Kröfum stefnanda á grundvelli sáttarinnar sé beint gegn fyrrum sameigendum stefnanda þeim Gísla og Ragnari en gagnkröfurnar séu í raun kröfur stefnda Íselco sf. á hendur honum. Því sé ekki um gagnkvæmni að ræða og skilyrði skuldajafnaðar því ekki fyrir hendi.
Ennfremur er á því byggt að heilmiklar peningafærslur hafi átt sér stað innan fyrirtækisins með óbókfærða peningaeign. Sameigendurnir hafi skipt þessum peningum á milli sín. Þá hafi þeir fyrir hver áramót gert pöntun um áfengi sem félagið hafi keypt og afhent þeim. Þeir hafi pantað mismunandi mikið áfengi, stefnandi yfirleitt minnst, en mismunurinn jafnaður með öðrum hætti. Þá hafi hver sameigenda fengið ár hvert 200.000 króna greiðslu fyrir sumarleyfi. Stefndu hafi slengt fram nótum úr bókhaldi án þess að famkvæma nokkurt uppgjör á milli sameigendanna. Stefnandi telur að bifreiðakostnaður sá sem gagnkrafan byggist að hluta til á hafi allur verið uppgerður og stefnandi hafi í engu haft fé af stefndu með rangfærslum á póstkröfum. Ætíð hafi verið við það miðað að jöfnuður ríkti með sameigendunum og peningagreiðslur m.a. inntar af hendi til að ná jöfnuði.
Stefnandi telur fráleitt að ætla dóminum að skera úr því hvort skattsvik þau sem félagið stundaði hafi bitnað á stefndu Ragnari og Gísla eða skattinum. Ekki sé hægt að bjóða dómstólum upp á að fjalla um samninga um ráðstöfun á fé sem fengið hafi verið með slíkum hætti.
Þá telur stefnandi að kröfur stefndu, þótt réttar væru, séu allar fyrndar og vísar til þess að vextir fyrnist á fjórum árum.
Um þá málsástæðu stefndu að krafa um laun í uppsagnarfresti sé fyrnd vísar stefnandi til þess að hann hafi fengið greidd laun 1. ágúst 1993 og síðan átt að fá greidd laun mánaðarlega til áramóta. Krafan geti því ekki verið fyrnd. Þá hafi ekki verið fjallað um launakröfu hans í réttarsátt aðila eins og skýrt komi fram í fyrirvara stefnanda við uppgjör sáttarinnar.
IV
Málsástæður og lagarök stefndu
Um kröfur stefnanda
Sýknukrafan er aðallega byggð á því að orlofskrafan sé fyrnd. Ekki hafi verið um að ræða neinn sérstakan vinnusamning milli félagsins og stefnanda heldur hafi réttarsambandið milli þeirra einvörðungu byggst á sameignarfélagssamningi þeirra. Mál þetta hafi verið höfðað með stefnu birtri 15. júlí 1997. Kröfur um gjaldkræf laun fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. grein laga nr. 14/1905. Samkvæmt 8. grein laga nr. 30/1987 um orlof skal vinnuveitandi við lok ráðningartíma greiða launþega öll áunnin orlofslaun hans. Launþeganum skulu greidd áunnin orlofslaun samkvæmt framanskráðu næsta virkan dag fyrir töku orlofs. Réttur greiðsludagur orlofsins hafi því í síðasta lagi verið 12. júlí 1993.
Stefndu mótmæla því að stefnandi eigi rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti og telja að sú krafa styðjist ekki við sameignarfélagssamning aðila. Sameigendurnir hafi rekið saman atvinnu og því verði að líta á þá sem atvinnurekendur en ekki sem launþega.
Hafi krafa stefnanda um laun í uppsagnarfresti átt einhvern rétt á sér hefði átt að taka hana með í uppgjör aðilanna, færa hana þar til skuldar og að hluta til lækkunar á því sem kom til skipta. Stefnandi hafi fengið greidda fulla vexti af eignarhluta sínum frá 13. janúar 1994 og séu þeir innifaldir í sáttafjárhæðinni. Krafa um laun í uppsagnarfresti sé raunverulega krafa um áframhaldandi arð, en svo sem ársreikningur ársins 1993 beri með sér hafi verið búið að eyðileggja fjárhag félagsins, sem aldrei hafi náð sér síðan.
Í uppsögn stefnanda á sameignarfélagssamningnum 19. maí 1993 felist einnig uppsögn á meintum vinnusamningi enda samstarfið þá orðið óbærilegt. Hvað sem öðru líði hafi grundvöllur samstarfs aðila verið brostinn 13. júlí 1993. Þá hafi sameignarfélaginu í raun verið slitið og nýtt félag tekið við rekstrinum. Stefnandi hafi ekki getað átt rétt á að vinna áfram hjá fyrrum sameigendum sínum.
Stefndu mótmæla sérstaklega að svokölluð reiknuð bifreiðahlunnindi verði greidd stefnanda með peningum. Reiknuð bifreiðahlunnindi sé tala sem skattyfirvöld geri kröfu til að greiddur sé tekjuskattur af, hafi launamaður full umráð bifreiðar, burtséð frá meintum raunverulegum hlunnindum. Athygli sé vakin á að þessu hafi verið hætt frá maí 1993, þegar eigendur keyptu þær bifreiðar félagsins sem þeir hafi áður notið hlunninda af.
Stefndu telja launakröfuna vanreifaða að því leyti að ef um vinnusamning hafi verið að ræða hljóti hann að hafa verið við félagið og því óútskýrt hvers vegna þeir tveir sem eftir standa eigi að bera allan kostnað af efndum hans.
Þá byggja stefndu á því að í vinnurétti séu skyldur vinnuveitanda og launþega gagnkvæmar. Til þess að segja stefnanda upp störfum hefði þurft samþykki stefnanda sjálfs. Skilja verði málatilbúnað stefnanda þannig að hann telji sig hafa sagt upp vinnusamningi sínum með sex mánaða og tólf daga uppsagnarfresti með bréfi dag. 19. maí 1993. Fráleitt sé að stefnandi geti haft sjálfdæmi um uppsagnarfrest sinn þegar stefndu hafi ekki getað sagt honum upp til að verja hagsmuni sína.
Stefndu telja engan munnlegan samning um uppsagnarfrest hafa verið á milli sameigendanna né heldur hafi stefnanda verið meinað um að vinna til áramóta. Skipt hafi verið um skrár í fyrirtækinu eftir að Jóhann Pétur, sonur stefnanda, hafi hirt gögn úr bankahólfi fyrirtækisins og ástæða hafi verið til að ætla að hann hefði enn lykla að húsakynnum Íselco sf. Af sömu ástæðu hafi veirð skipt um skrár eftir að rökstuddur grunur hafi vaknað um hlutdeild stefnanda í brotum og um sjálfstæð brot hans. Það hafi verið skilningur aðila að stefnandi hefði samþykkt að hafa ekki lyklavöld meðan athugun færi fram á umfangi brotanna.
Stefndu telja brot stefnanda einnig gera það að verkum að hann eigi ekki rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti þótt um slíkan rétt hefði verið samið. Skilja verði framburð stefnanda fyrir dómi 22. apríl 1994 þannig að hann hafi viðurkennt hlutdeild í bókhaldsbrotum sonar síns, en þau hafi verið aðferðin til að fremja fjármunabrotin.
Mótmælt er kröfu stefnanda um leiðréttingu á sátt, á þeim grundvelli að misræmi á milli svokallaðs mats og uppgjörs eigi að leiða til hækkunar á sáttafjárhæð. Uppgjöri sem gert hafi verið í samræmi við 7. grein samkomulags aðila frá 13. júlí 1993 verði ekki breytt.
Þá er mótmælt kröfu um leiðréttingu á sátt á þeim grundvelli að bakfæra eigi leiðréttingu á skuldabréfaeign og það eigi að leiða til hækkunar á sáttafjárhæð. Skuldabréfaeign hafi sannarlega verið offærð í uppgjörinu og hafi leiðréttingin því átt fullan rétt á sér.
Um gagnkröfur til skuldajafnaðar
Af hálfu stefndu er því haldið fram að þeir Gísli og Ragnar hafi á árinu 1970 ákveðið að stofna innflutningsfyrirtæki en talið sig vanta þekkingu á fjárreiðum og bókhaldi og því ákveðið að bjóða stefananda til samstarfs. Þeir hafi strax komið sér upp fastri verkaskiptingu sem haldist hafi síðan og stefnandi séð bæði um fjárreiður og bókhald. Þegar á leið hafi stefnandi ráðið son sinn sér til aðstoðar. Öllum hafi verið þessi skipting starfa ljós. Viðskiptamenn hafi samið við stefnanda um greiðslukjör, endurskoðandi félagsins hafi beint reikningi sínum til hans og hafi haft samskipti við hann. Í bókhaldinu sjáist handskrift stefnanda víða, hann hafi fært handfærðar undirbækur á móti syni sínum og leiðbeint þeim sem leyst hafi soninn af. Hann hafi þannig haft yfirumsjón með öllu bókhaldi og fjárreiðum Íselco sf. Þá hafi hann annast færslur varðandi ýmis skjöl sem notuð hafi verið við að hafa fé af félaginu og einnig svarað fyrirspurnum skattyfirvalda.
Stefndu kveða ítarlega athugun hafa verið gerða á bókhaldi Íselco hf., eins og það hafi verið fært undir stjórn stefnanda undanfarin ár, og hafi hún leitt í ljós að næstum allt sé í ólagi sem þar standi. Erfitt sé að finna aðra skýringu á fyrirkomulagi bókhaldsins en þá að bókhaldið hafi vísvitandi verið fært með þeim hætti að erfitt yrði að rekja viðskipti félagsins, m.ö.o. í þeim tilgangi að dylja raunverulegar hreyfingar fjármuna félagsins.
Stefndu kveða stefnanda árlega hafa afhent endurskoðendum hreyfingarlista og handskrifuða lista sem átt hafi að sýna lokaafstemmingu helstu efnahagsliða bókhaldsins. Endurskoðendur félagsins hafi því í raun aðeins annast uppstillingu á lokatölum bókhalds félagsins án nokkurrar sjálfstæðrar athugunar þótt stefnandi léti annað í veðri vaka við sameigendur sína.
Stefndu telja ýmis atriði varðandi færslu bókhaldsins stangast á við þágildandi lög um bókhald nr. 51/1968 og reglugerð um bókhald nr. 417/1982. Stefndu telja að af framangreindu megi sjá að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um allt athæfi sonar síns og hafi með öllum athöfnum sínum og athafnaleysi stuðlað að því að það gæti gengið átölulaust fyrir sig. Hann hafi auðgast af sumum þessara athafna og séð til þess að vitneskja um ýmislegt það sem hann hafi séð í bókhaldi fyrirtækisins bærist ekki sameigendum hans. Hann beri því fulla skaðabótaábyrgð á öllu tjóni Íselco sf. til jafns við son sinn. Með atferli sínu hafi stefnandi brotið gegn félaginu með þeim hætti að félögum hans sé rétt að krefjast endurgreiðslu þess fjár sem hann hafi haft af félaginu án heimildar.
Í greinargerð stefndu eru taldir upp allir þeir reikningar vegna einkabifreiða stefnanda sem hann lét Íselco sf. greiða fyrir sig án heimildar. Ljósrit þessarra reikninga hafa verið lögð fram í málinu. Stefndu kveða skjölin bera það með sér að vera ekki vegna bifreiða sem félagið hafi átt. Stefnandi hafi hins vegar haft bifreið til afnota frá fyrirtækinu líkt og aðrir eigendur og hafi félagið kostað rekstur hennar að öllu leyti. Honum hafi verið með öllu heimildarlaust að láta félagið greiða kostnað vegna einkabifreiða sinna. Stefndu kveða endurgreiðslu stefnanda að fjárhæð 110.019 krónur vera tekna með í útreikning gagnkröfufjárhæðar og eins 47.781 krónu sem stefnandi hafi viðurkennt í stefnu að honum hafi borið að greiða.
Stefndu kveða sendingar böggla með pósti hafa verið algengar hjá Íselco sf. Sá háttur hafi verið hafður á að burðargjald fyrir bögglana hafi verið greitt með því að líma á þá frímerki. Við afhendingu gefi pósthús út kvittun fyrir viðtöku póstkröfubögguls og á henni komi fram hve mikill hluti burðargjaldsins sé virðisaukaskattur svo að sendandi geti nýtt sér innskatt vegna sendingarinnar. Slík kvittun sé ekki greiðslufylgiskjal. Stefnandi hafi sett slíkar kvittanir inn sem greiðslufylgiskjöl og merkt þau þannig allt þar til fjármunabrot sonar hans, hafi komið í ljós og dregið sér eða öðrum fé með þessum hætti. Þessar kvittanir séu lagðar fram og merktar sérstaklega til aðgreiningar frá öðrum skjölum málsins.
Af hálfu stefndu er því mótmælt að tekjur félagsins hafi verið vantaldar og að þeir Gísli og Ragnar hafi tekið þátt í skattsvikum félagsins. Stefnandi hafi verið þar einn að verki. Þátttaka félagsins í eldsneytiskostnaði félagsmanna hafi alla tíð verið talin fram sem hlunnindi. Þá hafi greiðslur vegna sumarleyfa sameigenda verið 150.000 krónur á ári, utan einu sinni 200.000 krónur, og sú greiðsla hafi átt að mæta ýmsum kostnaði í utanlandsferðum, sem að hluta til hafi verið viðskiptaferðir og að hluta skemmtiferðir. Þessi kostnaður hafi verið færður í bókhald félagsins sem ferðakostnaður og því tekjur færðar á móti.
Stefndu mótmæla því að gagnkrafa þeirra til skuldajafnaðar sé fyrnd þar sem hún varði uppgjör á réttarsambandi því sem stefnandi byggi sínar kröfur á.
V
Niðurstaða
Um kröfugerð stefnanda
1.Um laun og orlof.
Fyrir liggur að stefnandi og stefndu Gísli og Ragnar áttu jafnan hlut í sameignarfélaginu Íselco sf. og ráku saman atvinnustarfsemi í nafni félagsins Stefnandi starfaði að rekstrinum fram til 13. júlí 1993. Enginn skriflegur ráðningarsamningur lá til grundvallar störfum hans hjá félaginu en hann og aðrir sameigendur fengu mánaðarlega greidd laun frá félaginu. Félagið gaf út launaseðla, greiddi staðgreiðslu af laununum og færði launagreiðslur á launamiða.
Stefnandi sagði sem fyrr segir upp sameignarfélagssamningnum 19. maí 1993 miðað við næstu áramót. Sameigendurnir komust að samkomulagi 12. júlí 1993 um að fá endurskoðendur til að meta fyrirtækið og hlut hvers þeirra miðað við uppgjör 13. júlí 1993. Þá var samkomulag um að stefndi færi í sumarleyfi 13. júlí til þess tíma að umrætt mat endurskoðenda lægi fyrir og fengi greidd laun í sumarfríi sínu. Í niðurlagi samkomulagsins kom fram að miðað væri við að þeir Gísli og Ragnar keyptu hlut stefnanda í fyrirtækinu samkvæmt mati endurskoðendanna. Ekki var fjallað sérstaklega um hvort stefnandi kæmi aftur til starfa að loknu sumarleyfi.
Sem fyrr segir lá mat endurskoðenda á verðmæti sameignarfélagsins ekki fyrir fyrr en 13. september 1993. Verðmatið leiddi hins vegar ekki til samkomulags um uppgjör fyrr en löngu síðar eða með réttarsátt 29. apríl 1996. Áður eða 6. mars 1996 hafði stefnandi sent firmaskrá Reykjavíkur tilkynningu um að hann hefði gengið úr félaginu 13. júlí 1993.
Fyrir liggur að stefnandi gekk ekki formlega úr sameignarfélaginu fyrr en með uppgjöri á réttarsáttinni sem fór fram 5. nóvember 1996. Umrædd réttarsátt var grundvölluð á fyrrnefndu mati endurskoðendanna og því miðað við uppgjör 13. júlí 1993. Stefnandi bar samkvæmt því ekki ábyrgð gagnvart sameigendum sínum á rekstri sameignarfélagsins frá þeim degi og naut ekki arðs af því. Þrátt fyrir fyrirvara stefnanda í uppgjöri dags. 5. nóvember 1996 verður að líta svo á að í sáttinni felist eftirfarandi samkomulag um að miða útgöngu stefnanda úr félaginu við 13. júlí 1993.
Stefnandi kom ekki aftur til starfa hjá sameignarfélaginu eftir 13. september 1993. Honum var ekki sagt upp störfum hjá sameignarfélaginu. Svo virðist sem stefnandi hafi ekki gert tilraun til að koma aftur til starfa en hann bauð hins vegar skriflega fram vinnuframlag sitt. Því var í engu svarað af hálfu stefndu og af þeirra hálfu hefur verið viðurkennt að skipt hafi verið um skrár í húsnæði félagsins. Því verður að líta svo á að stefndu hafi sýnt í verki að þeir óskuðu ekki eftir frekara vinnuframlagi af hálfu stefnanda.
Telja verður að þær mánaðarlegu greiðslur sem stefnandi og meðeigendur hans fengu frá félaginu í formi launagreiðslna hafi byggst á samkomulagi sameigenda félagsins, sem ekki verði jafnað við ráðningarsamning við launþega. Líta verður svo á að sameigendurnir hafi á grundvelli sameignarfélagssamningsins átt rétt á slíkum greiðslum gegn vinnuframlagi í þágu félagsins.
Taka verður tillit til þess að það var stefnandi sem átti frumkvæðið að því að ganga út úr sameignarfélaginu. Þá ber einngi að líta til þess að 12. júlí 1993 náðist samkomulag um að miða kaupverð stefndu á félaginu við mat á verðmæti þess miðað við 13. júlí 1993 en þetta uppgjör varð síðar grundvöllur að réttarsátt um endanlegt kaupverð. Í umræddu verðmati á fyrirtækinu var því ekki gengið út frá því að á félaginu hvíldi skylda til að greiða stefnanda laun eftir 13. júlí 1993.Samkvæmt framansögðu þykir stefnandi ekki hafa haft stöðu launþega gagnvart sameignarfélagingu og átti hann því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti án vinnuframlags á grundvelli kjarasamnings Verslunarmannafélags Reykjavíkur eða annarra kjarasaminga. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að samkomulag hafi verið með sameigendunum um að þeir nytu launa án vinnuframlags eða að starfslok hans hafi verið með þeim hætti að réttlætt geti kröfu um laun til ársloka 1993.
Í samkomulagi sameigenda Íselco sf. frá 12. júlí kemur skýrt fram að stefnandi skuli vera í sumarfríi þar til mat löggiltra endurskoðenda liggi fyrir og fá greidd laun í sumarfríinu. Sem fyrr segir lá mat löggiltra endurskoðenda fyrir 13. september 1993. Stefnandi fékk greidd laun frá sameignarfélaginu 1. ágúst vegna júlí en hefur ekki fengið greidd frekari laun. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu átti hann ógreitt orlof 1. ágúst 1993 vegna 30,5 virkra daga. Í uppgjöri því sem lá til grundvallar mati löggiltra endurskoðenda er bókfærð skuld vegna ógreidds áunnis orlofs starfsmanna rúmlega 3 m.kr. Því virðist sem tekið hafi verið tillit til kostnaðar vegna ótekins orlofs stefnanda í mati á verðmæti félagsins sem lá til grundvallar fyrrnefndri réttarsátt málsaðila. Með vísan til þess samkomulagsins sem sameigendur gerðu 12. júlí 1993, og annars þess sem að framan greinir, þykir krafa stefnanda um að félaginu hafi borið að greiða honum laun í sumarfríi frá 1. ágúst til 13. september 1993 eiga við rök að styðjast.
Bifreiðahlunnindi sem færð voru á launaseðla stefnanda voru til komin vegna skattskyldra afnota stefnanda af bifreið í eigu sameignarfélagsins. Í fyrrnefndu samkomulagi kom ekki fram að stefnandi skyldi njóta bifreiðahlunninda í launuðu sumarfríi. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á gegn neitun stefndu að hann eða stefndu hafi á þessum tíma notið slíkra hlunninda. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að stefndu beri að geiða stefnanda fjárhæð sem nemur reiknuðum bifreiðahlunnindum frá 1. ágúst til 13. september.
Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 15. og 16. júlí 1997. Fyrir liggur að laun sameigendanna voru greidd eftirá og laun fyrir ágúst því ekki gjaldkræf fyrr en 1. september og laun fyrir sepember gjaldkræf 1. október. Af því leiðir að krafa stefnanda var ekki fyrnd þegar málið var höfðað og um tómlæti af hálfu stefnanda um innheimtu kröfunnar var ekki að ræða.
Miðað við að mánaðarlaun stefnanda voru 408.080 ber að fallast á kröfu hans, samtals að fjárhæð 575.022 krónur (408.080 x 1 9/22 = 575.022).
2. Um uppgjör á réttarsátt.
Í mati Sveins Jónssonar og Einars Ólafssonar löggiltra endurskoðenda dagsettu 13. september 1993 á verðmæti Íselco sf. kom fram að samkvæmt uppgjöri 13. júlí 1993 væri eigið fé félagsins 16.818.289 krónur. Fram er komið að í rekstrar- og efnahagsyfirliti Íselco sf., 1. janúar til 12. júlí 1993, sem málsaðilar höfðu við hendina við gerð fyrrnefndar réttarsáttar, var eigið fé félagsins talið vera 16.369.068,84 krónur. Þetta rekstrar- og efnahagsyfirlit var lagt fram í dómsmáli aðila nr. 2740/1994. Óumdeilt er að við gerð réttarsáttar í því máli var gengið út frá því að upplýsingar um eigið fé í umræddu rekstrar- og efnahagsyfirliti væru réttar en rangar í niðurstöðum matsins. Eins og fram kemur í sáttinni var greiðsla til stefnanda því lækkuð um 1/3 af mismuninum eða um 149.740 krónur. Sá fyrirvari var hins vegar gerður að reyndist leiðréttingin ekki vera á rökum reist skyldu greiðslur til stefnanda hækka sem því næmi að viðbættum tilgreindum vöxtum. Umræddum endurskoðendum var í kjölfarið send fyrirspurn um þetta misræmi og í bréfi þeirra frá 17. maí 1996 er það skýrt þannig:
„Meðfylgjandi er rekstarreikningur 1/1 - 13/1 (sic) 1993 og efnahagsreikningur hinn 13. 07. 1993, þar sem fram kemur að eigið fé er kr. 16.818.289 sem er til samræmis við tilgreint eigið fé í áðurnefndu mati. Það rekstrar og efnahagsyfirlit sem þú vitnar í var uppkast að uppgjöri og endanlegar lokafærslur vegna eignfærslu á fyrirframdreiddum fasteignagjöldum og tryggingum frá 13. júlí til áramóta 1993 ekki fært."
Bréfi þessu fylgdi rekstrarreikningur og efnahagsreikningur þar sem eigið fé var tilgreint það sama og í matinu.
Í uppgjöri á réttarsáttinni frá 5. nóvember 1996 kemur skýrt fram að hún sé að fullu upp gerð að öðru leyti en því að leiðréttingar þær sem hafi verið boðaðar hafi ekki farið fram og að stefnandi áskilji sér allan rétt í því sambandi.
Samkvæmt framansögðu þykir enginn vafi leika á því að forsendur þær sem gengið var út frá í réttarsáttinni varðandi eigið fé Íselco sf. voru rangar. Stefnandi gerði ítrekað fyrirvara við þessar forsendur og stefndu sættu sig við þann fyrirvara. Þar sem fyrir liggur að aðilar voru sammála um að leggja niðurstöðu matsins til grundvallar kaupverði við gerð réttarsáttarinnar þykir stefnandi eiga rétt á að ná fram umræddri leiðréttingu á henni.
Við gerð réttarsáttarinnar var fjárhæð greiðslu til stefnanda lækkuð, miðað við mat endurskoðendanna, um 1/3 af 492.111,96 krónum, þar sem skuldabréfaeign var talin offærð í uppgjörinu frá 12. júlí 1993. Sá fyrirvari var gerður við þessa leiðréttingu að kæmi í ljós að hún væri ekki á rökum reist skyldu greiðslur til stefnanda hækka sem því næmi, að viðbættum tilgreindum vöxtum. Þessi fyrirvari var ítrekaður við uppgjör sáttarinnar 5. nóvember 1996. Lögmaður stefnanda hefur í máli þessu skorað á stefndu að leggja fram upplýsingar um skuldabréfaeign félagsins 12. júlí 1993, því til stuðnings að skuldabréfaeignin hafi í raun verið minni en fram kom í efnahagsreikningi þeim sem mat endurskoðendanna grundvallaðist á. Stefndu hafa ekki orðið við þessum áskorunum en gefið stefnanda heimild til að leita af sér grun í bókhaldi félagsins.
Vitnið Sigurður Tómasson löggiltur endurskoðandi er nú endurskoðandi Íselco hf. Hann bar fyrir dómi að fyrsta verk sitt fyrir félagið hafi verið uppgjör ársins 1993. Komið hafi í ljós að skuldabréfalisti frá banka var ekki í samræmi við upplýsingar í bókhaldi. Skuldabréfaeign hafi verið rangt færð í ársbyrjun 1993 og leiðrétting hafi verið gerð í árslok 1993 með höfuðstólsfærslu.
Vitnið Anna Björk Haraldsdóttir fyrrverandi starfsmaður Íselco hf. bar að hún hafi tekið við bókhaldi félagsins þegar Jóhann Pétur lét af störfum. Hún staðfesti framburð endurskoðandans um að skuldabréfaeign hafi verið rangt færð í bókhaldi.
Með framburði vitnanna Sigurðar og Önnu þykir fram komin sönnum um að leiðrétting sú sem gerð var í réttarsáttinni vegna offærðrar skuldabréfaeignar hafi átt við rök að styðjast. Ber því að sýkna stefndu af þessum kröfulið.
Stefnandi hefur fallist á að frá kröfum vegna leiðréttingar á réttarsáttinni beri að draga 31.854 krónur vegna uppgjörs á rekstrarkostnaði bifreiðar stefnanda og 24.555 krónur vegna endurgreidds fjármagnskostnaðar. Samkvæmt því ber stefndu að greiða stefnanda 93.331 krónu (149.740 - 31.854 - 24.555 = 93.331) vegna leiðréttingar á réttarsáttinni, auk samningsvaxta samkvæmt ákvæðum hennar eins og síðar greinir.
Um gagnkröfur stefndu.
Fyrir liggur að réttarsáttin frá 29. apríl 1996 tók aðeins til uppgjörs á kaupverði stefndu Gísla og Ragnars á hlut stefnanda í sameignarfélaginu. Við uppgjör réttarsáttarinnar 5. nóvember 1996 gerði Íselco sf. þann fyrirvara að félagið áskildi sér rétt til skaðabóta eða endurgreiðslu fjármuna.
Í greinargerð stefnda eru gagnkröfurnar, 2/3 af 506.111 krónum eða 337.407 krónur, taldar upp í tveimur köflum. Annar kaflinn lýtur að bifreiðakostnaði stefnanda en stefndu telja að stefnandi hafi án heimildar látið félagið greiða reikninga vegna einkabifreiða sinna. Samtals er um að ræða 24 reikninga að fjárhæð 167.980 krónur sem taldir eru upp í stefnu og lagðir hafa verið fram í ljósriti. Tekið hefur verið tillit til 110.019 króna endurgreiðslu stefnanda og 31.854 króna, sem stefnandi hefur dregið frá stefnukröfum sínum. Hinn kaflinn lýtur að kvittunum fyrir móttöku á póstkröfubögglum sem stefndu telja að stefnandi hafi nýtt sér til að draga sér eða öðrum fé. Samtals er um að ræða 30 færslur að fjárhæð 338.131 króna, sem taldar eru upp í stefnu og þar vísað til fylgiskjala úr bókhaldi Íselco sf. sem lögð hafa verið fram í ljósriti.
Gagnkrafa stefndu er rækilega sundurliðuð og fjöldi fylgiskjala lagður fram henni til stuðnings. Engu að síður miklum erfiðleikum háð að tengja fjárhæðir einstakra kröfuliða við þau fylgiskjöl sem byggt er á. Ekki verður þó talið að krafan sé svo vanreifuð að ekki verði lagður á hana efnisdómur.
Stefnandi hefur haldið því staðfastlega fram að aðilar málsins hafi sammælst um að rangfæra bóhald félagsins til þess m.a. að komast hjá skattgreiðslum og póstkröfukaflinn í greinargerð stefndu lúti að slíkri háttsemi. Þá bendir hann á að félagið hafi keypt áfengi fyrir hver áramót samkvæmt pöntun sameigendanna og mismiklar pantanir hafi verið jafnaðar með ýmsu móti. Þá hafi sameigendur fengið framlag vegna sumarleyfisferða. Einnig hafi ýmiss bifreiðakostnaður þeirra verið greiddur og jöfnuði náð með ýmsu móti. Stefnandi heldur því fram að með þeirri endurgreiðslu, að fjárhæð 110.019 krónur, sem hann hafi innt af hendi til fyrirtækisins og þeim 31.854 krónum sem honum hafi borið að greiða til félagsins vegna ójafnaðs bifreiðakostnaðar og hann hafi fært til lækkunar kröfum sínum, hafi náðst jöfnuður með sameigendunum að þessu leyti.
Framangreindur málatilbúnaður stefnanda er studdur ýmsum skjölum sem stafa frá stefnanda og stefndu Gísla og Ragnari og þykir auk þess hafa nokkra stoð í framburði stefnda Ragnars fyrir dómi en hann kannaðist við áfengispantanir sameigenda, að stefnandi hafi að jafnaði pantað minnst en mismuninum hafi verið jafnað með öðru móti. Þá kannaðist hann við framlög félagsins til sumarleyfisferða, sem þó hafi að hluta verið viðskiptaferðir. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hagnaður af nótulausum viðskiptum hafi skilað sér til félagsins eða eigenda þess. Hins vegar hafi hann ekkert eftirlit haft með bókhaldi eða fjárreiðum.
Stefndi Gísli kom ekki fyrir dóm, þrátt fyrir kvaðningu. Gísli mun haldinn Parkinssonssjúkdómi. Lagt var fram í málinu vottorð læknis um að hann hefði ráðlagt Gísla að mæta ekki fyrir dómi til að gefa skýrslu og að því valdi heilsufarsástæður.
Stefndu hafa lagt fram ýmsa kostnaðarreikninga úr bókhaldi félagsins sem þeir telja að stefnandi hafi ranglega látið félagið greiða. Eins fullyrða þeir að stefnandi hafi dregið sér eða öðrum fé sem nemur tvífærðum póskostnaði. Núverandi endurskoðandi félagsins bar fyrir dómi að ekki hafi verið viðhafðar góðar reikningsskilavenjur í félaginu. Ýmis atriði hafi vakið athygli í bókhaldinu og ýmislegt hafi ekki stemmt.Engin heildarúttekt hlutlausra aðila hefur farið fram á þeim kostnaðarfærslum í bókhaldi félagsins sem varða greiðslu á reikningum sem ekki varða beint rekstur félagsins sjálfs og því ekki ljóst hvort félagið hefur greitt eingöngu greitt reikninga vegna einkaneyslu stefnanda en ekki samsvarandi reikninga vegna stefndu Gísla og Ragnars. Ekkert mat liggur heldur fyrir á því tjóni sem stefndu telja að stefnandi hafi valdið þeim. Ekki hefur heldur verið gerð grein fyrir með hvaða hætti stefnandi á að hafa dregið sér eða öðrum afrakstur af misferli með kvittanir fyrir móttöku póstböggla. Framburður vitna gefur enga vísbendingu um að hvort eða í hvaða mæli félagið hafi verið látið greiða reikninga vegna einkaneyslu stefnanda umfram stefndu og heldur ekki um hvernig meintur fjárdráttur í tengslum við kvittanir fyrir móttöku pósböggla á að hafa verið framkvæmdur.
Stefnandi þykir hins vegar hafa leitt að því talsverðar líkur að fjárhagslegum samskiptum sameigendanna við félagið hafi verið þannig háttað að félagið hafi greitt vegna þeirra ýmiss konar kostnað sem ekki geti talist til rekstarkostnaðar í þeirri starfsemi sem félagið stundaði og að þess hafi a. m. k. að einhverju leyti verið gætt að jöfnuður ríkti að þessu leyti með sameigendunum.
Með hliðsjón af öllu framangreindu þykja stefndu ekki hafa fært að því fullnægjandi sönnur að stefnandi skuldi þeim þær fjárhæðir sem þeir telja að framlögð gögn úr bókhaldi vitni um. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna stefnanda af gagnkröfum stefndu í máli þessu.
Til áréttingar skal tekið fram að þótt kröfur stefnanda sem til greina hafa verið teknar og gagnkrafa stefndu til skuldajafnaðar varði fjárhagsleg samskipti sameigenda sameignarfélags þykja þær ekki svo tengdar efnislega eða í tíma að þær geti talist af sömu rót runnar. Gagnkröfurnar teldust því ekki, þótt sannaðar væru, hæfar til skuldajafnaðar í málinu, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.
Samantekt
Samkvæmt framansögðu er fallist á stefndu beri, á grundvelli samkomulags sameigenda Íselco sf. frá 12. júlí 1993, að greiða stefnanda laun í sumarleyfi hans frá 1. ágúst til 13. september 1993, samtals 575.022 krónur, auk dráttarvaxta eins og segir í dómsorðum. Þá ber stefndu að greiða stefnanda, vegna leiðréttingar á réttarsátt málsaðila frá 29. apríl 1996, 93.331 krónu, ásamt samnings- og dráttarvöxtum eins og segir í dómsorðum.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðin 150.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Einar Gautur Steingrímsson hdl. en Einar S. Hálfdánarson hdl. af hálfu stefnda. Nokkur dráttur varð á meðferð málsins, m.a. vegna þess að sáttatilraunir stóðu lengi yfir og gagnaöflun málsaðila var viðamikil og tók langan tíma.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Stefndu Gísli Ólafsson Ólafs, Ragnar J. Jónsson og Íselco sf., greiði in solidum stefnanda, Margeiri Jóhannssyni 575.022 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 408.080 krónum frá 1. september 1993 til 1. október 1993 en af 575.022 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Einnig greiði stefndu in solidum stefnanda 93.331 krónu, ásamt meðalvöxtum banka og sparisjóða af óverðtryggðum skuldabréfalánum, samkvæmt auglýsingum Seðlabanka Íslands, frá 14. janúar 1994 til 16. júlí 1997, en frá þeim degi til greiðsludags dráttarvexti, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta.
Stefnu greiði in solidum stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.