Hæstiréttur íslands
Mál nr. 679/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2009. |
|
Nr. 679/2008. |
Vörður tryggingar hf. (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Óskari Pétri Jensen (Viðar Lúðvíksson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
V hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem meðal annars var fallist á kröfu Ó um að R væri vanhæfur til að gegna matsstörfum í máli sem Ó höfðaði gegn V hf. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til tengsla R við V hf. og þess að ekki væri unnt að útiloka að þau gætu haft áhrif við mat dómara á sönnunargildi matsgerðar hans, samkvæmt 59. gr. laga nr. 91/1991. Var því dómkvaðning R felld úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að Ragnar Jónsson bæklunarskurðlæknir væri vanhæfur til að gegna matsstörfum í máli sem varnaraðili rekur á hendur sóknaraðila og að dómkveðja beri nýjan matsmann í hans stað. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrri ákvörðun héraðsdóms um að dómkveðja Ragnar Jónsson til þess að vera matsmaður í fyrrgreindu máli verði staðfest. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði gerði varnaraðili á dómþingi 24. september 2008 kröfu um „að Ragnar Jónsson, læknir, verði úrskurðaður vanhæfur til að gegna matsstörfum í þessu máli og að nýr matsmaður verði kvaddur í hans stað.“ Fylgdi kröfunni skrifleg greinargerð þar sem færð voru fram rök fyrir henni. Telja verður að í fyrri hluta kröfunnar felist krafa um að dómkvaðning Ragnars Jónssonar læknis verði afturkölluð og að fallist hafi verið á þá kröfu í hinum kærða úrskurði. Ekki verður talið að varnaraðili geti krafist dómkvaðningar nýs matsmanns í stað þess sem dómkvaddur var og hann telur vanhæfan, þar sem það var sóknaraðili sem hafði óskað dómkvaðningar og hefur forræði á kröfu um skipun nýs matsmanns.
Sóknaraðili lagði fram á sama dómþingi 24. september 2008 skjal sem bar heitið „Athugasemdir vegna rangfærslna ... hrl. um úrskurð í máli nr. E-2353/2008.“ Hefur skjal þetta að geyma athugasemdir við fyrrnefnda skriflega greinargerð varnaraðila, aðallega að því er varðar staðreyndir málsins. Þar er hins vegar ekki nefnt hvaða dómkröfur sóknaraðili geri í tilefni af kröfum varnaraðila. Við munnlegan flutning um ágreiningsefni málsaðila 24. nóvember 2008 var hins vegar fært til bókar að sóknaraðili gerði þá kröfu „að ekki verði fallist á kröfu stefnanda.“ Verður það talið fullnægjandi.
Í 2. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið svo á að dómari skuli kveðja þann til matsstarfa sem aðilar eru sammála um að kveðja skuli nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Í 3. mgr. greinarinnar kemur meðal annars fram að þann einn megi kveðja til að framkvæma mat sem er að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um það atriði sem á að meta. Þessar reglur eru settar til að tryggja svo sem unnt er sönnunargildi matsgerðar í dómsmáli í þágu beggja málsaðila, matsbeiðanda og matsþola. Af 59. gr. laga nr. 91/1991 verður ráðið að afstaða vitnis til aðila máls sé meðal þeirra atriða sem geti skipt máli, þegar dómari metur sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Í hinum kærða úrskurði er lýst tengslum matsmannsins við sóknaraðila. Er ekki unnt að útiloka að þau geti haft áhrif við mat dómara á sönnunargildi matsgerðar hans samkvæmt nefndu lagaákvæði. Þegar framangreint er haft í huga og jafnframt að varnaraðili bókaði athugasemd við dómkvaðningu matsmannsins, er hún fór fram á dómþingi 25. ágúst 2008, þykir rétt að staðfesta hinn kærða úrskurð á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Í greinargerð til Hæstaréttar telur varnaraðili að tilefni sé til að gera sóknaraðila eða málflutningsumboðsmanni hans réttarfarssekt samkvæmt XXII. kafla laga nr. 91/1991 vegna óviðurkvæmilegra ummæla í skjalinu sem sóknaraðili lagði fram 24. september 2008 og fyrr var getið. Ekki þykja efni til að sinna þessari ábendingu.
Sóknaraðili gerði ekki kröfu um málskostnað við meðferð málsins í héraði og kemur krafa hans þar að lútandi því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felld er úr gildi dómkvaðning Ragnars Jónssonar læknis sem fram fór á dómþingi í málinu nr. E-2353/2008 í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. ágúst 2008.
Sóknaraðili, Vörður tryggingar hf., greiði varnaraðila, Óskari Pétri Jensen, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2008 í máli nr. E-2353/2008:
Óskar Pétur Jensen, Túngötu 11, Sandgerði höfðaði mál þetta 28. mars 2008 á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík til heimtu skaðabóta vegna líkamsáverka sem hann hafi orðið fyrir í umferðarslysi 25. júlí 2002.
Tilkvaddir matsmenn, læknir og lögmaður, komust að þeirri niðurstöðu 21. apríl 2005 að við áreksturinn hefði stefnandi líklega fengið væga tognun í hálsi en orsakasamband við bakeinkenni væru óljóst og ósannað því að hann hefði ekki farið að finna til í baki fyrr en þremur til fjórum mánuðum eftir slysið og ekki leitað til lækna vegna þess fyrr en átta mánuðum eftir slysið. Þeir mátu varanlegan miska 7 stig og varanlega örorku 7%.
Á grundvelli þessarar matsgerðar gerði stefndi upp tjónabætur sem stefnandi veitti viðtöku með fyrirvara. Eftir það aflaði stefnandi matsgerðar læknis og lögmanns, dags. 26. september. Þar segir m.a. að matsmennirnir taki undir þess álits, sem fram komi í hinu fyrra mati, hvað varði einkenni frá hálsi og efra baki og telji þau hæfilega metin til 7% varanlegs miska og 7% varanlegrar örorku. Vísað er til þess að meðferðarlæknir vegna brjóskloss stefnanda telji vera meiri líkur en minni að brjósklosið hafi komið við áverkann 25. júlí 2002 og geti matsmenn tekið undir það álit þar sem ekkert annað í heilsufarssögu geti skýrt orsök brjósklossins. Telji málsaðilar sannað að rekja megi einkenni eftir brjósklos í baki til slyssins telja matsmenn þau einkenni hæfilega metin til 13 stiga í miska og varanlegri örorku. Meginniðurstaða er sú að varanleg örorka og læknisfræðileg örorka eru metin 20% með fyrirvara um orsakasamband vegna brjóskloss.
Meginágreiningur málsaðila lýtur að því orsakasambandi sem hér var greint. Í greinargerð stefnda er vísað til álitsgerðar Magnúsar Páls Albertssonar bæklunarskurðlæknis, dags. 20. maí 2008, varðandi afleiðingar umferðarslyss sem stefnandi lenti í hinn 25. júlí 2002 og skoðist hún sem hluti greinargerðarinnar. Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar segir: „Í ljósi framanritaðs er það faglegt álit mitt að brjósklos það sem greindist hjá tjónþola og um hefur verið fjallað er ekki orsakað af umræddu umferðarslysi sem átti sem átti sér stað þann 25. júlí 2002. Ég tel ekki vera læknisfræðileg orsakatengsl á milli umferðarslyssins og brjósklossins.“
Með matsbeiðni, dags. 4. júní 2008, óskaði stefndi eftir dómkvaðningu tveggja sérfróðra og óvilhallra matsmanna, bæklunarskurðlækna þar sem að minnsta kosti annar væri sérfræðingur í bakskurðlækningum og báðir með reynslu af matsstörfum til þess að láta í té skriflegt og rökstutt álit um það, sem meginefni, hvort læknisfræðilegt orsakasamband sé á milli umrædds umferðarslyss og brjóskloss sem stefnandi hafi greindist með eftir segulómun hinn 28. apríl 2004. Á dómþingi 27. júní sl. voru dómkvaddir Brynjólfur Y Jónsson bæklunarskurðlæknir, sem aðilar höfðu tjáð sig ásátta um, og Jósep Blöndal skurðlæknir sem dómarinn taldi ranglega að væri bæklunarskurðlæknir. Þegar dómaranum varð hið sanna ljóst, samkvæmt athugasemd lögmanns stefnda, dómkvaddi hann Ragnar Jónsson bæklunarskurðlækni í stað Jóseps Blöndal. Bakskurðlækningar eru ekki viðurkennd sérfræðigrein.
Á dómþingi 24. september sl. var lögð fram krafa stefnanda um að úrskurðað yrði samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 að Ragnar Jónsson sé vanhæfur til að gegna matsstörfum í málinu og að nýr matsmaður verði kvaddur í hans stað. Stefnandi telur ljóst að víðtæk tengsl matsmannsins Ragnars Jónssonar við stefnda og starfsmann félagsins, Magnús Pál Albertsson, - en þeir starfi saman á einkarekinni heilbrigðisstofnun, Orkuhúsinu sf. -, auk þeirrar staðreyndar að Ragnar sé trúnaðarlæknir Vátryggingafélags Íslands hf., gefi stefnanda réttmætt tilefni til að draga óhlutdrægni hans í efa. Mótmæli stefnda gegn kröfunni koma fram í athugasemdum við hana sem voru lagðar fram 24. september sl. Meðal ætlaðra rangfærslna er að Magnús Páll Albertsson sé starfsmaður stefnda en hins vegar hafi hann veitt honum ráðgjöf í einstökum málum Magnús Páll og Ragnar starfi ekki saman heldur reki þeir hvor sína læknastofu en að vísu undir sama þaki og með sama leigusala og þeir séu vinir. Ragnar Jónsson sé ekki og hafi ekki verið trúnaðarlæknir stefnda eða Vátryggingafélags Íslands hf. heldur sinnt ráðgjöf fyrir félögin á grundvelli verktöku.
Eftir að málinu hafði tvívegis verið frestað til gagnaöflunar var ágreiningsefni aðila, sem um ræðir í þessum þætti málsins, tekið til munnlegs málflutnings 24. þ.m. og að því búnu tekið til úrskurðar.
Ragnar Jónsson og Magnús Páll Albertsson hafa læknastofur á sömu hæð Orkuhússins og sameiginlegt símanúmer í móttöku þar svo og símbréfanúmer.
Um sögu stefnda segir á heimasíðu hans: „...Rætur félagsins liggja í stofnun Vélbátasamtryggingar Eyjafjarðar en það var stofnað árið 1926. Það var síðar nefnt Vélbátatrygging Eyjafjarðar GT og svo Vörður vátryggingafélag hf. Má því segja að Vörður hafi orðið 80 ára árið 2006. ...Á haustmánuðum 2004 hófust viðræður á milli forsvarsmanna Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. um samruna félaganna. Töldu eigendur og stjórnendur beggja félaga þann samruna afar heppilegan þar sem ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir svo litlum rekstrareiningum. Í tengslum við fyrirhugaðan samruna eignaðist Baugur 100% hlutafjár Varðar vátryggingafélags en þegar samrunaviðræður voru á lokastigi tilkynnti Baugur um sölu á öllu hlutafé Varðar til VÍS. Eftir stuttar viðræður á milli stjórnenda Íslandstryggingar hf. og VÍS var ákveðið að samrunaáformum þeim sem farið höfðu af stað milli Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. yrði fram haldið og var samruni félaganna ákveðinn í lok árs 2004. Var félögunum síðan rennt saman þann 1. janúar 2005 og fékk sameinað félagið nafnið Vörður Íslandstrygging hf.. .Í júní 2007 var nafni félagsins breytt í Vörður tryggingar hf.“
Fylkir Þór Guðmundsson, fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri stefnda og nú starfsmaður Vátryggingafélags Íslands, bar vætti fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa starfað hjá stefnda frá árinu 1996 fram á árið 2007, fyrst sem almennur starfsmaður, síðan sem skrifstofustjóri, forstöðumaður trygginga- og tjónasviðs og að lokum sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hann kvaðst hafa leitað til Ragnars Jónssonar á að giska fimmtán sinnum á árabilinu 2000 til 2006 og fengið frá honum gegn greiðslu greinargerðir um hvort óvinnufærni tjónþola stöfuðu af tilteknum slysum og hvort örorkumöt væru sanngjörn. Ragnar hafi verið einn þriggja fjögurra lækna sem hann leitaði þannig til. Þá kvaðst hann telja, þótt ekki félli innan núverandi starfssviðs hans að fylgjast með því, að Ragnar innti sambærileg störf af höndum fyrir Vátryggingafélag Íslands.
Þegar með vísun til þeirrar þjónustu sem fram er komið að Ragnar Jónsson hefur innt af hendi fyrir stefnda er niðurstaða úrskurðarins sú að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að veita stefnanda ástæðu til að draga óhlutdrægni hans í efa. Einnig með vísun til tengsla hans við Magnús Pál Albertsson verður hann ekki talinn uppfylla það skilyrði að geta talist óaðfinnanlegt vitni í skilningi 3. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu ber að fallast á kröfur stefnanda.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Fallist er á að Ragnar Jónsson sé vanhæfur til að gegna matsstörfum í þessu máli og að dómkveðja beri nýjan matsmann í hans stað.