Hæstiréttur íslands
Mál nr. 601/2014
Lykilorð
- Lífsgjöf
- Riftun
- Óskipt bú
|
|
Fimmtudaginn 19. mars 2015. |
|
Nr. 601/2014.
|
A (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn B og C (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Lífsgjöf. Riftun. Óskipt bú.
Með vísan til 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 krafðist A riftunar á gjafaafsali D, móður aðila sem setið hafði í óskiptu búi eftir andlát föður þeirra, til B og C fyrir nánar tilgreindum fasteignum, svo og viðurkenningar á eignarrétti dánarbús D að fasteignunum. Reisti A kröfur sínar á því að gjöfin hefði verið umfram það sem D hefði verið heimilt að gefa úr óskipta búinu og að sameiginleg erfðaskrá hennar og föður aðila girti fyrir að hún mismunaði systkinunum með þeim hætti sem gert hefði verið. Með vísan til dóms Hæstaréttar 12. mars 2014 í máli nr. 32/2014 var því slegið föstu að fyrrgreind erfðaskrá takmarkaði ekki rétt D til lífsgjafa innan marka 15. og 17. gr. erfðalaga. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra dánarbúsins hefðu eignir þess verið metnar á 1.238.998.123 krónur og verðmæti gjafaafsalsins til B og C hefði verið 100.000.000 krónur. Gjöfin hefði því ekki verið óhæfilega há miðað við efni búsins, sbr. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. september 2014. Hann krefst þess að rift verði gjafaafsali D 23. mars 2012 til stefndu fyrir fasteignunum E, [...],[...], fastanúmer [...], ásamt öllum mannvirkjum, innbúi og öðru, sem á eigninni er og henni fylgir og fylgja ber, og landspildu úr jörðinni F í [...],[...], fastanúmer [...], sem liggur á norðurbakka [...] að landamerkjum áðurgreindrar landareignar, E. Jafnframt krefst hann þess að viðurkenndur verði eignarréttur dánarbús D að framangreindum fasteignum. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og að áfrýjanda verði gert að greiða sér óskipt málskostnað fyrir Hæstarétti.
Aðilar máls þessa eru börn D, sem lést [...], og G, er lést [...] sama ár. Eins og rakið er í héraðsdómi gerðu D og G erfðaskrá 20. október 1986, þar sem fram kom sameiginleg ósk þeirra og vilji um að það þeirra, sem lengur lifði, skyldi hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum sínum. Þá sagði þar í 4. gr. að hið langlífara mætti ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, er það fengi með erfðaskránni, þannig að í bága færi við réttindi barna þeirra hjóna eða niðja þeirra. D gerði síðan erfðaskrá 18. mars 2008, þar sem kveðið var á um að tvö þriggja barna hennar, stefndu í máli þessu, skyldu erfa, auk lögmælts erfðahluta síns, 1/3 hluta allra þeirra eigna, sem hún léti eftir sig.
Í tilefni af síðarnefndu erfðaskránni krafðist áfrýjandi þess með bréfi 22. janúar 2013 til Héraðsdóms Reykjavíkur að hún yrði metin ógild og að erfðaskráin frá 20. október 1986 yrði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi D, sem tekið hafði verið til opinberra skipta með úrskurði 24. september 2012 að kröfu áfrýjanda. Fallist var á kröfu áfrýjanda með úrskurði héraðsdóms 20. desember 2013, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 12. mars 2014 í máli nr. 32/2014 um að erfðaskráin frá 20. október 1986 yrði lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi D. Í dóminum kom meðal annars fram að tilgreind ákvæði erfðaskrárinnar sýndu að það hafi verið sameiginlegur vilji beggja að börn þeirra, eða niðjar þeirra, fengju jafnan hlut við skipti á eignum. Með 4. gr. erfðaskrárinnar hafi heimild langlífari maka til að ráðstafa eignum, sem hann fékk með erfðaskránni, verið takmörkuð með erfðasamningi á þann hátt að það mætti ekki gerast með dánargjafagerningum eða erfðaskrá. Á hinn bóginn takmörkuðu framangreind ákvæði erfðaskrárinnar samkvæmt orðum sínum ekki sérstaklega heimildir til að ráðstafa eignum með gerningi í lifanda lífi. Af þessari niðurstöðu Hæstaréttar er ljóst að umrædd erfðaskrá takmarkaði ekki rétt hins langlífara til lífsgjafa í skilningi erfðaréttar.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962 teljast hjúskapareignir beggja hjóna til óskipts bús, svo og séreign sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála á að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu. Þá segir í 12. gr. laganna að maki, sem situr í óskiptu búi, hafi í lifanda lífi eignarráð á fjármunum þess og beri ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða. D var 5. mars 2012 veitt leyfi til setu í óskiptu búi og fór hún því samkvæmt framansögðu eftir það með eignarráð á fjármunum búsins og hafði þar með heimild til ráðstöfunar á eignum þess innan þeirra marka sem kveðið er á um í 15. og 17. gr. erfðalaga.
Með afsali D 23. mars 2012 gaf hún stefndu fasteignina E, ásamt öllum mannvirkjum og innbúi, og landspildu úr jörðinni F, hvort tveggja í [...]. Krefst áfrýjandi riftunar á þessum löggerningi og vísar um lagaheimild í því efni til 2. mgr. 15. gr. erfðalaga. Þar segir að hafi maki gefið gjöf úr óskiptu búi, sem er óhæfilega há miðað við efni búsins, geti erfingi fengið henni hrundið með dómi, ef viðtakandi sá eða átti að sjá að gefandi sat í óskiptu búi og að gjöf var úr hófi fram.
Sönnunarbyrði um að skilyrði 2. mgr. 15. gr. erfðalaga séu uppfyllt hvílir á þeim sem rifta vill gerningi. Þá ber við mat á því hvort gjöf samkvæmt málsgreininni sé úr hófi fram að miða við hag búsins á þeim tíma sem gefið var og skiptir þá ekki máli hvort gjöfin var til lögerfingja eður ei. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra dánarbúsins 11. maí 2013 um eignir þess voru þær metnar á 1.238.998.123 krónur og er þá ekki með talið verðmæti þeirrar gjafar, sem krafist er riftunar á. Eru aðilar sammála um að verðmæti hennar sé um 100.000.000 krónur, en sú fjárhæð skiptist að jöfnu milli stefndu. Að framangreindu virtu verður ekki talið að gjöfin hafi verið óhæfilega há miðað við efni búsins á þeim tíma sem hún átti sér stað. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest, þar með talið ákvæði hans um málskostnað.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A, greiði stefndu, B og C, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. júní 2014, að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af A, [...], á hendur B, [...], Reykjavík, og C, [...],[...], með stefnu áritaðri um birtingu 11. mars 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að rift verði með dómi gjafaafsali D, dagsettu 23. mars 2012, gefið út til handa stefndu, um afsal fasteignanna E, fastanúmer [...], ásamt öllum mannvirkjum, innbúi og öðru sem á eigninni er og eigninni fylgir og fylgja ber, og landspildu úr jörðinni F, [...], fastanúmer [...], sem liggur á norðurbakka Sandavatns að landamerkjum áðurgreindrar landareignar, E.
Stefnandi krefst þess einnig að viðurkenndur verði eignarréttur dánarbús D að þeim fasteignum sem fyrrgreind dómkrafa tekur til.
Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins ásamt virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast þess að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað að skaðlausu.
II
Málsatvik eru þau að aðilar málsins eru alsystkini og börn hjónanna G, sem lést [...], og D, sem lést 2. júlí 2012. Eftir lát G fékk D leyfi til setu í óskiptu búi og var það leyfi í gildi þar til hún lést. Ekki standa aðrir til arfs eftir þau hjónin.
G stofnaði, ásamt fleirum, fyrirtækið [...] hf. árið 1954. Með árunum eignaðist hann og fjölskylda hans stærstan hluta fyrirtækisins. G gaf börnum sínum þremur hluti í fyrirtækinu og fékk stefnandi í upphafi um 20% en stefndu tæplega 4,5% hvort um sig. Hlutur Gvar 31,5% og D 22%. Sá hlutur sem eftir stóð dreifðist á nokkra aðila.
G og D gerðu gagnkvæma erfðaskrá, dagsetta 20. október 1986. Í henni kemur fram að það hafi verið sameiginleg ósk þeirra hjóna og vilji að það þeirra sem lengur lifði ætti að hafa heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum þeirra. Í 4. gr. erfðaskrárinnar segir: „Langlífara má ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, er það fær með erfðaskrá þessari, þannig að í bága komi við réttindi barna okkar eða niðja þeirra.“ Í 6. gr. erfðaskrárinnar segir að eftir andlát hins langlífara skuli eignir þeirra skiptast að jöfnu milli barna þeirra hjóna og niðja. Í 7. gr. erfðaskrárinnar kemur fram að í hlut stefnanda ætti að koma hlutabréf þeirra hjóna í [...]. Segir þar jafnframt að yrðu skiptin ekki jöfn milli barna hjónanna vegna þessa ætti stefnandi að greiða öðrum lögerfingjum muninn samkvæmt samkomulagi en ella samkvæmt mati tveggja óvilhallra manna.
Eftir að G lést, gaf D út gjafaafsal, dagsett 23. mars 2012. Skjalið var móttekið til þinglýsingar 3. apríl sama ár og fært í þinglýsingarbækur daginn eftir. Með gjafaafsalinu gaf D stefndu fasteignir sem tilgreindar eru:
1. E, [...], landnúmer [...] , fastanúmer [...], ásamt öllum mannvirkjum og innbúi, sem á eigninni eru og öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber. Fasteignamat eignarinnar er kr. 26.145.000.
2. Landspilda úr jörðinni F, [...]. Fastanúmer jarðarinnar er [...]. Nánar tiltekið liggur landið á norðurbakka [...] á landamerkjum ofanskráðrar landareignar, E, og takmarkast af hreppamörkum að vestanverður. Landspildan er ekki til sem sérgreind í þinglýsingabókum, en hefur verið metin á kr. 5.000.000 í skattframtali mínu og eiginmanns míns heitins, G, kt. [...]
Í gjafaafsalinu kemur fram að engar veðskuldir hvíli á eigninni Eog að gjöfin sé gefin án nokkurra skilyrða annarra en að eignarhluti hvors gjafþega um sig skuli vera séreign.
Dánarbú D var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2012, að kröfu stefnanda. Skiptastjóri var skipaður Helgi Birgisson hrl. Á skiptafundi 9. nóvember 2012 var bókuð krafa stefnanda þess efnis að þeim gjafagerningum, sem tilgreindir eru í dómkröfum stefnanda, yrði rift. Af hálfu stefndu var því mótmælt að skilyrði riftunar væru fyrir hendi. Skiptastjóri tók þá fram að stefnandi yrði að reka riftunarmálið sjálfur og yrði dánarbúið ekki aðili að því.
D sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn þegar umdeild gjöf var gefin. Stefnandi var meðerfingi hennar og stefndu að dánarbúi G. Umdeild gjöf var ekki borin undir stefnanda og kveðst hann ekki hafa vitað um gerninginn fyrr en eftir að gjafaafsalinu hafi verið þinglýst og eftir andlát móður hans. Stefnandi unir ekki þessari ráðstöfun og telur að óheimilt hafi verið að gefa slíka gjöf út úr óskiptu búi án samþykkis hans. Þá hafi stefndu ekki fallist á að gjafagerningurinn gangi til baka og stefnanda sé því nauðugur sá kostur að höfða þetta mál til riftunar gjöfinni.
III
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að þótt móðir hans, D, hafi, við útgáfu leyfis til setu í óskiptu búi, fengið eignarráð yfir fjármunum búsins í samræmi við 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, hafi eignarráðin þó verið takmörkunum háð, sbr. 15. og 17. gr. sömu laga. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. geti erfingi fengið gjöf hrundið með dómi hafi gjöf verið gefin úr óskiptu búi og sé gjöfin óhæfilega há miðað við efni búsins. Tilskilið sé að viðtakanda hafi verið eða átt að vera ljóst að gefandi hafi setið í óskiptu búi og að gjöf hafi verið úr hófi fram. Að mati stefnanda sé ljóst að stefndu, viðtakendur gjafar, hafi vitað eða átt að vita að móðir þeirra hafi setið í óskiptu búi þegar gjöfin hafi verið gefin. Þá telur stefnandi að verðmæti gjafarinnar hafi verið verulega umfram það sem gefandanum hafi verið heimilt að gefa úr óskiptu búinu. Stefnandi leggi til grundvallar að gjöfin hafi á þeim tíma þegar hún hafi verið gefin verið að minnsta kosti 100.000.000 króna virði. Verði framangreindu mótmælt af hálfu stefndu áskilji stefnandi sér rétt til að afla mats dómkvaddra matsmanna um verðmætið. Raunar telji stefnandi ljóst að jafnvel þótt gjöfin yrði aðeins talin til 30.000.000 króna hafi ráðstöfunin engu að síður verið ólögmæt og riftanleg.
Stefnandi telur að maka, sem sitji í óskiptu búi, sé óheimilt að mismuna erfingjum, sem eigi hlut í óskipta búinu, með þeim hætti sem hér hafi verið gert. Það sérstaka úrræði, að leyfa langlífari maka að sitja í óskiptu búi, sé fyrst og fremst til þess að raska ekki hagsmunum langlífari maka, sem búskipti myndu ella hafa í för með sér. Ákvæði 15. og 17. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hafi hins vegar verið sett sem varnagli við óhæfilegum ráðstöfunum langlífari maka.
Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því að móður aðila hafi verið óheimilt að mismuna erfingjum eiginmanns hennar með umdeildum gjafagerningi vegna ákvæða í sameiginlegri og gagnkvæmri erfðaskrá þeirra hjóna, sem staðfest hafi verið fyrir lögbókanda 20. október 1986. Í 1. gr. hennar séu fyrirmæli um að það hjóna sem lengur lifi skuli hafa heimild til að sitja í óskiptu búi eftir hið skammlífara. Í 4. gr. skrárinnar segi að hið langlífara megi ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum sem það fái með erfðaskránni, þannig að í bága komi við réttindi barna þeirra. Í 6. gr. skrárinnar segi að eftir andlát hins langlífara skuli eignir þeirra skiptast að jöfnu milli barna þeirra hjóna. Í 5. gr. skrárinnar segi að erfðaskránni geti hvorugt hjónanna breytt eða afturkallað hana án samþykkis hins.
Móðir aðila hafi undirritað texta nýrrar erfðaskrár 18. mars 2008. Í texta nýrrar erfðaskrár lýsi hún því meðal annars yfir að hún felli úr gildi allar eldri erfðaskrár sínar. Stefnandi telji þessa erfðaskrá ekki geta haft gildi og kveðst hafa efnt til vefengingarmáls um gerninginn í tengslum við opinber skipti á dánarbúinu. Vegna fyrirmæla í erfðaskránni frá 20. október 1986 hafi móður aðila verið óheimilt að gera nýja erfðaskrá sem hafi farið í bága við skýr ákvæði þeirrar eldri. Samþykki beggja hjónanna hefði þurft til þess að afturkalla hana eða breyta henni. Samþykki hafi ekki legið fyrir af hálfu föður aðila. Hann hafi, af heilsufarsástæðum, verið ófær um að gefa samþykki sitt í mars 2008 og ekki sé vitað til þess að fært hafi verið í tal við hann, fyrr eða síðar, að ástæða hafi verið til að breyta erfðaskránni eða afturkalla hana.
Stefnandi byggir kröfur sínar enn fremur á því að ákvörðun móður hans um gjöfina hafi verið byggð á röngum forsendum og villu um staðreyndir. Um þetta vísi stefnandi til bréfs Þórunnar Guðmundsdóttur hrl. til skiptastjóra dánarbús D, Helga Birgissonar hrl., 1. nóvember 2012. Í bréfinu segir meðal annars um aðdraganda gjafaafsalsins:
Ég aðstoðaði D einnig í þessu máli. Tildrögin voru þau að D heitin óskaði eftir því að hitta mig 20 mars 2012. Hún lá þá á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut. Ég fór til fundar við hana og með mér var fulltrúi minn, Fanney Frímannsdóttir hdl. D sagði mér frá því að hún vildi gefa börnum sínum B og C eignirnar fyrir norðan. Rökin voru þau sömu og fyrir ráðstöfuninni þeim til hagsbóta í erfðaskránni á árinu 2008, þ.e. að hún vildi jafna hlut barna sinna, þar sem A hefði fengið svo stóran hlut af fyrirtækinu. Henni hefði ávallt sviðið það óréttlæti.
Stefnandi telji að í framangreindum texta birtist ákveðin villa um staðreyndir sem haldið hafi verið að móður hans og hafi leitt til þess að hún hafi ákveðið að mismuna erfingjum með þeim hætti sem lýst sé í bréfinu, umdeildum gjafagerningi og erfðaskránni frá 2008. Villan lúti að því að stefnandi hafi fengið „svo stóran hlut“ í fyrirtæki fjölskyldunnar. Hér sé átt við [...] Hlutafé í því félagi hafi verið selt um mitt ár 2007. Andvirði hlutafjáreignar hjónanna G og D sé uppistaðan í peningaeign dánarbúsins. Stefnandi hafi ekki fengið neitt af því fé í sinn hlut. Hann hafi hins vegar sjálfur verið hluthafi í félaginu og hafi starfað þar um áratugaskeið eftir að hann hafi lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands. Hann hafi sjálfur lagt fé til fyrirtækisins á þeim tíma þegar það hafi átt í ákveðnum erfiðleikum. Systkini hans hafi ekki viljað taka þátt í að rétta hag fyrirtækisins. Með þessum hætti hafi hlutafjáreign stefnanda í fyrirtækinu aukist en ekki systkina hans. Hann hafi þar af leiðandi átt stærri hlut í félaginu en þau þegar fyrirtækið hafi svo síðar verið selt. Stefnandi hafi fengið nákvæmlega sama verð fyrir sína hluti í félaginu og aðrir hluthafar hafi fengið við sölu þess, þar á meðal systkini hans. Af þessum sökum sé að mati stefnanda augljóst að móðir hans hafi gefið sér, eða henni verið talin trú um, atvik sem hafi valdið því að hún hafi lagt rangar forsendur til grundvallar ákvörðun um umdeildan gjafagerning. Stefnandi telji afar ólíklegt að móðir hans hefði ráðist í að gera gjafagerninginn hefði hún gert sér betur grein fyrir framangreindum hlutabréfaviðskiptum. Þegar gjafagerningurinn hafi verið gerður hafi hún legið á hjartadeild Landspítalans, farin að heilsu og kröftum og hafi látist fáeinum mánuðum síðar.
Stefnandi telur ósennilegt að móðir hans hafi átt frumkvæði að umdeildri ráðstöfun. Líklegra sé að systkini hans, gjafþegarnir, hafi komið gjafagerningnum til leiðar og haft milligöngu um að Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður hafi farið til móður þeirra í þeim erindagjörðum að færa gerninginn í letur.
Stefnandi leggur áherslu á að ráðstafanir, eins og umdeildur gjafagerningur, verði ekki réttlættar með því að aðeins „lítill hluti“ af búi hafi verið látinn af hendi. Þótt eignir séu miklar í dánarbúinu hafi engin sýnileg ástæða verið fyrir því að þessum eignum hafi verið ráðstafað án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Þegar það liggi svo skýrt fyrir sem í þessu tilviki að ráðstöfunin hafi gagngert verið til að hygla tveimur erfingjum á kostnað eins sé, að mati stefnanda, deginum ljósara að um sé að ræða löggerning, sem ákvæði 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 hafi gagngert verið sett til að bregðast við.
IV
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að umdeild gjöf hafi ekki verið óhæfileg samkvæmt 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þvert á móti hafi hún rúmast innan þeirrar ráðstöfunarheimildar sem móðir þeirra hafi farið með í óskiptu búi eftir fráfall föður þeirra, sbr. II. kafla erfðalaga nr. 8/1962.
Til viðbótar við framangreinda málavaxtalýsingu telja stefndu að eftirfarandi atvik skipti máli við úrlausn málsins. G, faðir aðila, gaf á sínum tíma börnum sínum þremur hluti í fyrirtækinu [...] hf., sem fjölskyldan átti þá stærstan hlut í. Stefndu kveða stefnanda upphaflega hafa fengið um 20% hlut í fyrirtækinu en síðar hafi hlutur hans jafnan verið um 27%. Eignarhlutföll í fyrirtækinu hafi haldist um árabil. Faðir aðila hafi alla tíð lagt áherslu á að gætt skyldi að því að hlutir fjölskyldumeðlima héldust óskertir. Á meðan fyrirtækið hafi að mestu leyti verið í eigu fjölskyldunnar hafi arðgreiðslur verið í lágmarki. Á hinn bóginn hafi miklir fjármunir verið teknir út úr fyrirtækinu í þágu fjölskyldunnar, einkum hjónanna G og D og stefnanda og fjölskyldu hans. Alþekkt sé að stefnandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi borist mikið á og haft mikið umleikis. Þau hafi byggt sér glæsihús á sjávarlóð í [...], fest kaup á bújörð á Suðurlandi og eignast sumarbústað við Þingvallavatn. Stefndu hafi aldrei haft fjármuni til ráðstöfunar í líkingu við það sem stefnandi hafi haft. Þetta hafi verið öllum þeim ljóst sem kunnugir hafi verið fjölskyldunni, þar á meðal starfsfólki [...].
Faðir aðila lét af störfum sem forstjóri [...] hf. 1. mars 1998. Við starfslokin gerði hann starfslokasamning þess efnis að hann fengi full laun frá félaginu til æviloka auk ýmissa annarra hlunninda. Tekið er fram í samningnum að lifði móðir þeirra lengur skyldi hún fá sömu laun og hlunnindi og faðir þeirra hefði notið. Eftir að faðir aðila hætti í rekstri fyrirtækisins kveða stefndu að hallað hafi undan fæti og að töluverður hallarekstur hafi verið frá árinu 2001. Sumarið 2002 hafi Euroice, félag skrásett í Lúxemborg, veitt [...] hf. víkjandi lán og í desember sama ár hafi lögmaður Euroice tilkynnt að félagið vildi breyta láninu í hlutafé í fyrirtækinu. Hlutur Euroice í fyrirtækinu hafi orðið 16,7% eftir breytinguna. Við þetta hafi eignarhlutir allra annarra hluthafa rýrnað. Eignarhlutur föður aðila hafi orðið 24,9%, stefnanda 21,2% og móður aðila 16,7%. Vegna rekstrarstöðu fyrirtækisins hafi stefnandi lagt það til í bréfi, dagsettu 26. janúar 2004, að tekið yrði annað víkjandi lán. Í bréfinu kemur fram að [...] hf., einkahlutafélag í eigu stefnanda og G og D, barna stefnanda, hafi boðist til að lána [...]hf. 160.000.000 króna gegn því að sá hlutur yrði 40% af heildarhlutafé félagsins, yrði láninu breytt í hlutafé. Í bréfinu segir að fyrir hafi legið mat Deloitte & Touche á félaginu og samkvæmt því hafi heildarvirði félagsins átt að vera á bilinu 419.000.000-461.000.000 króna. Var það lagt til að miðað yrði við að virði félagsins við lánveitinguna yrði 400.000.000 króna. Tillagan, samkvæmt bréfinu, var samþykkt. [...] ehf. breytti láninu í hlutafé árið 2005.
Stefndu kveða að hluthöfum hafi aðeins verið veittur sjö daga frestur til þess að svara framangreindri tillögu og að þau hafi haft afar takmarkaðar upplýsingar um raunverulega stöðu fyrirtækisins. Telja verði að matið á virði félagsins árið 2004 hafi verið óeðlilega lágt í ljósi þess að félagið hafi skilað hagnaði upp á 116.500.000 krónur á því ári og eignir þess numið tæpum tveimur milljörðum króna. Þá hafi matið verið fráleitt sé litið til þess að félagið hafi verið selt á tífalt hærra verði einungis þremur árum síðar.
Til þess sé að líta að faðir aðila hafi fengið heilablóðfall árið 2001. Við það hafi andleg heilsa hans skerst, eins og fram komi í greinargerð yfirlæknis á öldrunarlækningadeild Landspítalans, dagsettri 24. september 2007. Í greinargerðinni komi fram að skerðingin í kjölfar heilablóðfallsins hafi einkum falist í tvennu, frumkvæði og framkvæmdasemi hafi orðið minni og hann hafi áttað sig verr á aðstæðum sínum. Afturför hafi orðið í heilsu föður þeirra næstu ár eftir heilablóðfallið og árið 2005 hafi verið staðfest að hann hafi verið með töluverða heilabilun. Í framangreindri greinargerð segi að þegar komið hafi verið fram á mitt ár 2007 hafi andlegri heilsu hans enn hrakað og hafi hann meðal annars ekki alltaf þekkt eiginkonu sína. Hafi hann verið lagður inn á heilabilunardeild á Landakoti í júní 2007. Þar hafi hann dvalist í um eitt ár en flust þaðan á Sóltún þar sem hann hafi dvalist til dánardags, 7. janúar 2012.
Stefnandi hafi alfarið séð um fjármál foreldra sinna frá árinu 2001. Á þeim tíma þegar [...] hf. hafi tekið framangreint víkjandi lán hafi faðir aðila verið ófær um að taka ákvarðanir og skilja eðli ráðstöfunar af þessu tagi. Stefndu virðist sem foreldrum þeirra hafi verið sent fyrrgreint bréf um fyrirhugaða lánveitingu en kveða að móðir þeirra hafi síðar ekki kannast við það að málið hafi verið rætt við hana eða henni skýrt frá því hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir eignastöðu þeirra hjóna.
Með lánveitingu [...] hf. til [...]hf. hafi stefnandi og börn hans eignast 40% í fyrirtækinu í gegnum [...] hf., til viðbótar við þann hluta sem stefnandi hafi átt fyrir. Um leið hafi eignarhlutur annarra fjölskyldumeðlima rýrnað. Eftir lánveitinguna hafi G aðeins átt 14,92% hlutafjár í stað 28%, D átt 10,53% í stað 20% og hlutur hvors stefndu verið 2,32% í stað 4,5% áður. Því megi ljóst vera að við hlutafjáraukninguna hafi hagsmuna stefndu og foreldra þeirra ekki verið gætt né heldur gætt að þeirri grundvallarreglu, sem haldið hafði verið í heiðri, að hlutir fjölskyldumeðlima í fyrirtækinu héldust óskertir.
Í júlí 2007 hafi verið gengið frá sölu [...] hf. Stefndu og móðir þeirra hafi ekkert frétt af þeim áformum fyrr en sunnudaginn 15. júlí og mánudaginn 16. júlí. Kaupsamningurinn um félagið sé dagsettur 18. júlí. Vegna sumarleyfa og vinnu úti á landi hafi ekkert þeirra verið í Reykjavík á þessum tíma. Stefnandi og börn hans hafi hins vegar hringt í stefndu og móður þeirra og krafist þess að þau gæfu samþykki sitt og umboð samdægurs, ella fengju þau ekkert fyrir sín bréf. Hvorki stefndu né móðir þeirra hafi fengið að sjá kaupsamninginn fyrr en eftir að gengið hafi verið frá kaupunum. Móðir aðila hafi oft rætt það, þann tíma sem hún hafi átt ólifað, hvað henni hafi þótt þessi tímapressa óþægileg, einkum vegna þess að hún hafi ekki getað ráðfært sig við neinn og henni hafi fundist eins og henni hafi verið stillt upp við vegg. Síðar hafi enda komið í ljós að fleira hafi hangið á spýtunni.
Faðir aðila hafi á þessum tíma verið vistaður á lokaðri heilabilunardeild Landakotsspítala. Stefnandi og sonur hans, G, hafi farið þangað 16. júlí 2007 og að þeirra áeggjan hafi faðir aðila skrifað undir umboð til handa syni stefnanda til að selja öll hlutabréf hans í [...] hf. Í umboðinu hafi einnig falist heimild til handa syni stefnanda til að fella úr gildi eftirlaunasamning föður aðila við fyrirtækið. Af sama tilefni hafi móðir aðila veitt syni stefnanda umboð til sölu hlutabréfanna en í umboðinu sé ekki minnst á eftirlaunasamninginn sem hún hafi þó verið aðili að. Hún hafi ekki verið upplýst um ógildingu eftirlaunasamningsins fyrr en allt hafi verið um garð gengið og hafi hún þá reiðst mjög yfir því að gengið hefði verið svo freklega á hlut þeirra hjóna. Mun henni hafa misboðið að vera þannig svipt samningsbundnum eftirlaunaréttindum án þess að fá tækifæri til að hafa nokkuð um þá ráðstöfun að segja.
Þegar stefnda, C, hafi verið greint frá fyrirhugaðri sölu [...]hf. hafi hann farið fram á það við stefnanda að honum yrði, í félagi við stefndu, B, og móður þeirra, gert kleift að kaupa [...], sumarhús að [...] í Hvalfjarðarsveit, við [...]. Á uppvaxtarárum sínum hafi stefndu dvalist þar öll sumur ásamt móður sinni og bundist staðnum sterkum tilfinningaböndum. Síðar hafi eignin komist í eigu fyrirtækisins. Stefnandi hafi tjáð stefnda, C, að hann myndi kanna möguleikann á því. Í kaupsamningnum um [...] hf. komi hins vegar fram, undir ákvæðinu „Ráðstafanir heimilar seljendum“, að gefa skyldi út afsal til handa dóttur stefnanda, Ernu, fyrir sumarhúsi í eigu félagsins í [...], án greiðslu. Stefndu kveða þennan gerning, það er, þetta ákvæði, ekki hafa verið borinn undir stjórnarfund né heldur hafi samþykkis móður aðila verið aflað, stefndu eða annarra hluthafa, svo vitað sé. Stefnandi hafi síðan tilkynnt stefndu og móður þeirra að þeim stæði til boða að kaupa eignina af dóttur hans. Stefndu og móðir þeirra hafi verið ósátt við þessa tilhögun og hafi talið að verið væri að hygla dóttur stefnanda umfram þau og aðra hluthafa. Þeim hafi fundist afar óeðlilegt að þau borguðu dóttur stefnanda fyrir eign sem þau sjálf hefðu átt, móðir þeirra að fullu með föður þeirra á ákveðnum tíma en þau öll síðar, að hluta, í gegnum eignarhlut þeirra í [...] hf.
Stefndu telja að móðir þeirra hafi, að öllu framangreindu yfirstöðnu, talið augljóst að stefnandi, sem hafi farið með fjármál þeirra hjóna, gætti ekki hagsmuna þeirra svo sem eðlilegt væri. Henni hafi auk þess sárnað mjög að faðir þeirra skyldi ekki hafa haft hana á nokkurn hátt með í ráðum eða upplýst hana um ráðstöfun eigna þeirra. Móðir aðila hafi ítrekað rætt þessi mál við stefndu og tengdadóttur sína og hafi í framhaldinu óskað eftir því að faðir þeirra yrði sviptur fjárræði og honum skipaður fjárhaldsmaður. Úrskurður um fjárræðissviptinguna hafi gengið í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. september 2007. Með bréfi, dagsettu 10. október 2007, hafi sýslumaðurinn í Reykjavík skipað föður þeirra fjárhaldsmann.
Stefndu kveða að stefnandi muni hafa orðið æfur við móður þeirra vegna ákvörðunar um fjárræðissviptingu föður þeirra. Hafi hann slitið á öll samskipti við hana og stefndu. Með bréfi, dagsettu 21. nóvember 2007, hafi stefnandi krafist þess að fjárhaldsmanni föður þeirra yrði vikið úr starfi fjárhaldsmanns. Fjárhaldsmaður föður þeirra hafi svarað bréfinu 5. desember 2007. Sýslumaður hafi hafnað kröfu stefnanda og fjárhaldsmaðurinn hafi áfram gegnt stöðu sinni þar til faðir þeirra lést. Eftir að faðir þeirra hafi verið sviptur fjárræði hafi móðir þeirra byrjað að setja sig inn í fjármál þeirra hjóna. Hún hafi verið skarpgreind kona, hafi haft áhuga á þessum málum og hafi þessi þátttaka hennar eflt sjálfstraust hennar til muna. Hún mun hafa rætt um eftirlaunasamninginn og fleiri mál við fjárhaldsmann föður þeirra og um möguleg viðbrögð, meðal annars, hvort ástæða væri til að höfða misneytingarmál á hendur stefnanda og syni hans. Jafnframt liggi fyrir að fjárhaldsmaður föður þeirra hafi sent fyrrgreindri dóttur stefnanda bréf, dagsett 12. nóvember 2007. Hún hafi þá verið forstjóri [...] hf. Í bréfi fjárhaldsmannsins komi fram sú afstaða hans að afsalið á eftirlaunasamningnum væri ógilt og hefði falið í sér misneytingu samkvæmt 31. gr. samningalaga nr. 7/1936. Móðir þeirra hafi hins vegar ákveðið að aðhafast ekki frekar enda hafi hún verið sannfærð um að faðir þeirra hefði aldrei, ekki undir nokkrum kringumstæðum, höfðað mál gegn sonarsyni sínum.
Svo sem fyrr greini hafi foreldrar aðila gert sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá árið 1986. Eftir þær sviptingar, sem að framan greini, muni móðir aðila hafa talið að forsendur fyrir erfðaskránni væru brostnar með öllu. Hún hafi afturkallað erfðaskrána 18. mars 2008 með tilkynningu til fjárhaldsmanns föður aðila. Fjárhaldmaðurinn hafi ritað undir tilkynninguna og engar athugasemdir gert við efni hennar. Með því að afturkalla erfðaskrána hafi móðir aðila viljað bæta börnum sínum, stefndu, það ójafnræði sem hún hafi talið þau hafa sætt vegna upphaflegs ójafnvægis í eignahlutföllum og aðstöðumun í Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf. og vegna þeirra eignabreytinga í félaginu sem að framan greini. Þetta komi meðal annars fram í framlögðu bréfi Þórunnar Guðmundsdóttur hrl., dagsettu 1. nóvember 2012.
Stefndu hafi fengið fyrir fram greiddan arf í mars 2008 sem hafi numið 100.000.000 króna til hvors þeirra um sig. Með gjafaafsali, dagsettu 23. mars 2012, hafi móðir aðila gefið stefndu fasteignina E og landspildu úr jörðinni F í [...]. Stefndu eigi eignirnar að jöfnu, 50% hvort. Rökin fyrir gjafaafsalinu hafi verið þau sömu og fyrir ráðstöfuninni þeim til hagsbóta í erfðaskránni árið 2008. Móðir þeirra hafi leitast við að jafna hlut barna sinna, eins og fram komi í framangreindu bréfi Þórunnar Guðmundsdóttur hrl.
Þá telja stefndu umdeilda gjöf ekki hafa verið óhæfilega, samkvæmt 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962, heldur þvert á móti rúmast innan þeirra ráðstafanaheimilda sem móðir þeirra hafi farið með í hinu óskipta búi eftir fráfall föður þeirra, sbr. II. kafla laganna. Ljóst sé að maki sem sitji í óskiptu búi hafi í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins, sbr. 12. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að langlífari maki hafi forræði á eignum búsins og frjálsan ráðstöfunarrétt yfir eignum. Auk þess sé ljóst af ákvæði 2. mgr. 15. gr. laganna að gert sé ráð fyrir því að maki sem sitji í óskiptu búi geti gefið gjafir úr því. Hann megi hins vegar ekki gefa gjöf sem sé óhæfilega há miðað við efni búsins enda sé viðtakandi grandsamur þar um. Þau skilyrði telji stefndu ekki vera fyrir hendi.
Í þessu máli sé deilt um gjafaafsal, dagsett 23. mars 2012, sem fól í sér að stefndu var gefið sumarhús foreldra sinna ásamt fasteignaréttindum við [...] í [...]. Nánar tiltekið sé um að ræða E, fastanúmer [...], og landspildu úr jörðinni F í [...], landnúmer [...]. Þegar gjöfin var gefin hafi fasteignamat E verið 26.145.000 krónur og landspildan úr F metin á 5.000.000 króna í skattframtölum móður aðila. Því sé ljóst að gjöfin hafi verið metin á samtals 31.145.000 krónur. Hins vegar megi fallast á það með stefnanda að heildarverðmæti fasteignanna gæti numið 100.000.000 króna. Við mat á því hvort sú gjöf sé óhæfilega há verði að meta hana með hliðsjón af eignastöðu hins óskipta bús. Fyrir liggi yfirlit yfir eignir dánarbúsins, sem unnið sé af skiptastjóra þess. Af yfirlitinu sjáist að eignastaða búsins sé nú um 1.238.998.123 krónur. Rétt sé þó að árétta að verðmætin geti verið meiri þar sem enn liggi ekki fyrir mat á hlutabréfum. Auk þess sé málverk eftir Aivazovsky metið í neðri mörkum og gæti því selst á hærra verði. Þá árétti stefndu jafnframt að ekki liggi fyrir upplýsingar um erlendar eignir föður þeirra, sem stefndu telji þó að geti numið hundrað milljónum króna. Gögn um þessa fjármuni muni alfarið hafa verið í vörslu stefnanda en engar upplýsingar fáist þar að lútandi.
Í þessu samhengi sé ítrekað að stefndu hafi fengið fyrir fram greiddan arf, samtals að fjárhæð 200.000.000 króna, í mars 2008. Sá arfur komi verðbættur til frádráttar arfi stefndu við skipti á dánarbúinu, sbr. 29. og 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sé eignastaða búsins virt í samhengi við gjöfina sé eðlilegt að jafnframt sé litið til hins fyrir fram greidda arfs. Vísitala neysluverðs í mars 2008 hafi verið 290,4 stig og í apríl 2013 hafi hún verið 411,5 stig. Miðað við þær forsendur hafi fyrir fram greiddi arfurinn numið samtals 283.402.204 krónum í apríl 2013.
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að leggja beri til grundvallar að heildareignir búsins, að teknu tilliti til fasteignanna og hins fyrir fram greidda arfs, nemi að minnsta kosti 1.622.400.327 krónum en áréttað sé að sú tala kunni að hækka. Hlutfall gjafarinnar miðað við forsendur stefnanda sjálfs nemi því einungis rúmum 6% af heildinni en sé að öllum líkindum enn minni hlutur af búinu í heild.
Loks leggja stefndu áherslu á að meta beri gjafagerninginn sem tvær sjálfstæðar gjafir sem hafi þá aðeins numið um 3% af heildareignum búsins til hvors stefnda um sig.
Að framangreindu virtu sé fjarstæðukennt að halda því fram að gjöfin hafi verið óhæfilega há miðað við efni búsins, sbr. fyrrgreindan áskilnað 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í málinu.
Þá telja stefndu enn fremur að líta verði til tilgangs móður þeirra með umdeildri gjöf. Það muni hafa verið skýr forsenda föður þeirra fyrir því að gefa stefnanda stærri hluta en stefndu í [...] hf., og fela honum stjórn og forræði félagsins, að hann gætti ávallt hagsmuna foreldra sinna og systkina. Faðir þeirra hafi lagt mikla áherslu á samheldni innan fjölskyldunnar. Móðir þeirra muni að sögn alla tíð hafa verið ósammála föður þeirra um þennan upphaflega mismun milli systkinanna en hafi getað réttlætt hann fyrir sér á þessum forsendum og með þeim skilyrðum sem hann hafi sett. Þegar gjöfin hafi verið innt af hendi hafi gríðarleg eignarfærsla þá þegar orðið á eign fjölskyldunnar í [...] hf., til hagsbóta fyrir stefnanda og fjölskyldu hans. Eins og að framan greini hafi móðir aðila verið afar ósátt við þá þróun mála og talið að stefnandi hafi brotið gegn upphaflegum vilja föður þeirra. Hún hafi viljað kappkosta að jafna stöðu barna þeirra eins og þau hjónin hefðu alla tíð viljað og stefnt að með erfðagerningnum frá árinu 1986. Með umdeildri gjöf hafi hún því leitast við að jafna hlut barna sinna þó að litlu leyti væri. Hún hafi með réttu talið að hlutur stefndu hafi skerst verulega hin síðari ár vegna ráðstafana stefnanda og fjölskyldu hans.
Stefndu hafna öllum tilvísunum stefnanda til erfðaskrárinnar frá 20. október 1986. Ljóst sé að móðir aðila hafi afturkallað erfðaskrána með bréfi, dagsettu 18. mars 2008, og gert nýja erfðaskrá sama dag. Hin gagnkvæma erfðaskrá sé því ekki í gildi samkvæmt efni sínu. Stefndu telja rétt að geta þess að stefnandi reki nú mál fyrir héraðsdómi um lögmæti afturköllunarinnar í tengslum við opinber skipti á dánarbúinu. Stefndu hafi hins vegar hafnað málatilbúnaði stefnanda og telji afturköllunina gilda og þá jafnframt nýrri erfðafyrirmæli móður þeirra. Fallist héraðsdómur á kröfu stefnanda í framangreindu máli og ógildi erfðaskrána frá árinu 2008 og leggi til grundvallar erfðaskrána frá árinu 1986, sé allt að einu ljóst að hún komi ekki í veg fyrir að móðir þeirra hafi getað gefið umdeilda gjöf. Málsástæður stefnanda virðist byggjast á misskilningi um efni tilvitnaðrar erfðaskrár. Í 4. gr. hennar segi að hið langlífara megi ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum sem það fái með erfðaskránni. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ljóst að takmörkunin taki einungis til ráðstafana hins langlífara með erfðaskrá eða dánargjafagerningi. Umþrætt gjafaafsal hafi hins vegar komið til framkvæmda á meðan móðir þeirra var enn á lífi og því verið lífsgjöf, í skilningi erfðaréttar, sem ekki hafi fallið undir framangreinda takmörkun. Jafnframt liggi fyrir að móðir þeirra hafi ekki fengið eignirnar með hinni gagnkvæmu erfðaskrá enda hafi hún verið skylduerfingi og auk þess maki föður þeirra, með rétt til setu í óskiptu búi og þar af leiðandi með ráðstöfunarrétt yfir eignum búsins. Hún hafi því fengið eignirnar á grundvelli fyrirmæla erfðalaga.
Með vísan til alls framanritaðs telja stefndu að sýkna beri þau af kröfum stefnanda í málinu. Vísa þau um kröfu sína til erfðalaga nr. 8/1962, einkum 12. og 15. gr. laganna.
V
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort D, móður aðila, hafi verið heimilt með gjafaafsali, dagsettu 23. mars 2012, að gefa stefndu þessa máls annars vegar jörðina E og hins vegar landspildu úr jörðinni F, eins og nánar greinir í dómkröfum málsins, úr óskiptu búi hennar og látins maka hennar, G, föður aðila.
Í málatilbúnaði aðila er vísað til þess að stefnandi reki mál fyrir héraðsdómi um lögmæti afturköllunar móður aðila á gagnkvæmri erfðaskrá þeirra hjóna frá árinu 1986, í tengslum við opinber skipti á dánarbúi hennar. Leyst hefur verið úr þeim ágreiningi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 32/2014. Var niðurstaða réttarins sú að með sameiginlegri erfðaskrá D og G hefði falist erfðasamningur sem girt hefði fyrir að annað þeirra gæti síðar einhliða breytt henni eða afturkallað hana. Skyldi hin sameiginlega erfðaskrá frá árinu 1986 lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi móður aðila. Verður sú niðurstaða höfð til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.
Í niðurstöðu Hæstaréttar Íslands er vísað til 4. gr. erfðaskrárinnar frá árinu 1986, um að langlífari maki mætti ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, sem það fengi með erfðaskránni, þannig að í bága kæmi við réttindi barna þeirra eða niðja þeirra. Segir í dóminum að með 4. gr. erfðaskrárinnar hafi heimild langlífari maka til að ráðstafa eignum, sem hann hafi fengið með erfðaskránni, verið takmörkuð með erfðasamningi á þann hátt að það mætti ekki gerast með dánargjafagerningum eða erfðaskrá. Ákvæði erfðaskrárinnar takmörkuðu hins vegar ekki, samkvæmt orðum sínum, sérstaklega heimildir til að ráðstafa eignum með gerningum í lifanda lífi. Af hálfu stefnanda er ekki byggt á því að umdeild gjöf skyldi koma til framkvæmdar eftir að móðir aðila létist, samkvæmt skilgreiningu erfðaréttar á dánargjöf. Gjöfin skyldi enda koma, og kom í raun, til framkvæmdar í lifanda lífi móður aðila. Erfðaskráin frá árinu 1986 takmarkaði því ekki heimildir hennar til þess að gefa út umdeilt gjafaafsal.
Kemur þá til skoðunar hvort umdeild gjöf hafi verið óhæfilega há miðað við efni búsins samkvæmt 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í 12. gr. laganna kemur fram sú meginregla að maki, sem sitji í óskiptu búi, hafi í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Samkvæmt ákvæðinu fer maki, sem situr í óskiptu búi, með forræði og forsjá búsins en er þó ekki eiginlegur eigandi og þarf sem forsjáraðili að gæta hagsmuna annarra erfingja. Meginreglan er eftir sem áður sú að maki, sem situr í óskiptu búi, hefur fulla heimild til að ráðstafa eignum búsins með bindandi hætti, hvort sem er með sölu eða gjöfum eða öðrum löggerningum sem ætlast er til að komi til efnda í lifanda lífi makans. Í 2. mgr. 15. gr. laganna er hins vegar kveðið á um úrræði fyrir erfingja, til þess að fá gjöf maka úr óskiptu búi hrundið með dómi, sé hún óhæfilega há miðað við efni búsins. Af orðalagi 2. mgr. 15. gr. er ljóst að við mat á því hvenær tilefni er til riftunar á grundvelli ákvæðisins er fyrst að líta til þess hversu há gjöfin er í hlutfalli við stærð búsins í heild. Við munnlegan málflutning lýstu aðilar þessa máls því yfir að ágreiningslaust væri að umdeild gjöf væri um það bil 100.000.000 króna virði og að það væri um 6% af heildareign hins óskipta bús, eða um 1/16 hluti. Þrátt fyrir að gjöf að andvirði um 100.000.000 króna sé há á alla hefðbundna mælikvarða verður ekki litið fram hjá því að hún getur vart talist óhæfilega há sé litið til stærðar búsins í heild og hlutfalls gjafarinnar þar af. Við mat á því hvað telst til óhæfilegrar gjafar miðað við efni búsins er einnig rétt að líta til ákvæðis 1. mgr. 15. gr., sem kveður á um að erfingi geti krafist skipta sér til handa, sanni hann að maki vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn. Séu þessi ákvæði lesin saman má ætla að með 2. mgr. sé kveðið á um úrræði fyrir erfingja sem telji maka, sem sitji í óskiptu búi, rýra eignir búsins um of og ekki gæta hagsmuna annarra erfingja. Ekki þykir sannað af hálfu stefnanda málsins að umdeild gjöf hafi rýrt eignir hins óskipta bús þannig að hagsmuna annarra erfingja hafi ekki verið gætt. Gjöfin var til stefndu, tveggja barna D og G af þremur. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að með gjöfinni hafi systkinum hans verið hyglað með óviðhlítandi hætti, sé litið á málið heildstætt, meðal annars með hliðsjón af því hvernig verðmætum hafði áður verið deilt út til barnanna þriggja, í lifanda lífi föður þeirra. Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að með gjöfinni hafi systkinum hans verði hyglað með þeim hætti að áhrif hafi á afkomu hans eða lífsviðurværi.
Loks er, við mat á því hvort gjöf teljist óhæfilega há miðað við efni bús, eðlilegt að líta til tilefnis gjafar og þeirra hvata sem liggja henni að baki. Fram kemur í bréfi Þórunnar Guðmundsdóttir hrl. til skiptastjóra dánarbús D, dagsettu 1. nóvember 2012, að hún hafi aðstoðað D við útgáfu gjafaafsalsins og að tilgangur D með gjöfinni hafi verið að jafna hlut barna hennar, þar sem stefnandi hefði fengið svo stóran hlut í fyrirtækinu, [...] hf. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn meðal annars á því að ákvörðun móður hans um gjöfina hafi byggst á röngum forsendum og villu um staðreyndir sem haldið hafi verið að móður hans og leitt til þess að hún hafi ákveðið að mismuna erfingjum með þeim hætti sem lýst sé í bréfinu. Villan lúti að því að stefnandi hafi fengið svo stóran hlut í [...]hf. og rekur stefnandi nánar í stefnu málsins hvernig hlutafé hans í fyrirtækinu hafi aukist þar til það hafi verið selt um mitt ár 2007. Hann hafi hins vegar fengið sama verð fyrir sína hluti í fyrirtækinu og aðrir hluthafa við sölu þess. Stefnandi kveðst telja afar ólíklegt að móðir hans hefði ráðist í að gera gjafagerninginn hefði hún gert sér betur grein fyrir framangreindum hlutabréfaviðskiptum. Stefnandi færir þó engar sönnur fyrir því að svo hafi verið, hvorki fyrir því að móðir hans hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig hann jók hlut sinn í fyrirtækinu né heldur fyrir því að það eitt og sér hefði breytt ákvarðanatöku hennar. Óumdeilt er í málinu að stefnandi fékk upphaflega, í lifanda lífi D og G, mun stærri hlut en systkini hans í [...]hf. Stærri hlutur stefnanda í fyrirtækinu ásamt öðrum atvikum leiddi svo til þess að stefnandi hagnaðist á rekstri fyrirtækisins umfram systkini hans. Þótt sú atburðarás, sem leiddi til þessa hagnaðar, kunni að hafa verið eðlileg með hliðsjón af fjármögnun og annarri þátttöku stefnanda í rekstri fyrirtækisins, hefur ekki verið sýnt fram á annað en að D hafi, þrátt fyrir allt, viljað jafna hlut barna sinna. Ekki er hægt að virða þann vilja að vettugi enda er hann í samræmi við gagnkvæman vilja þeirra hjóna, D og G, sem birtist í 6. og 7. gr. erfðaskrárinnar frá árinu 1986, um að eignir þeirra skiptust að jöfnu milli barna þeirra.
Loks telur stefnandi ósennilegt að móðir hans hafi átt frumkvæði að umdeildri gjöf. Sá sem krefst riftunar á grundvelli 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði ákvæðisins fyrir riftun séu fyrir hendi. Hefur stefnandi ekki leitt að því líkur með málatilbúnaði sínum eða framlögðum gögnum að móðir hans hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að geta tekið sjálfstæða ákvörðun um umdeilda gjöf.
Að öllu framangreindu virtu, það er, stærð hinnar umdeildu gjafar í hlutfalli við heildareign hins óskipta bús, tilefni gjafarinnar, hvernig verðmætum hafði áður verið deilt út til erfingjanna, í lifanda lífi beggja hjóna, og að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hafa af því sérstaka hagsmuni að fá gjöfinni rift, verður ekki talið að skilyrði 2. mgr. 15. gr. erfðalaga nr. 8/1962 fyrir riftun gjafar, um að gjöf sé óhæfilega há miðað við efni óskipts bús, sé fyrir hendi. Verða stefndu þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfum stefnanda, án þess að gæta þurfi að því hvort önnur skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu, og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu in solidum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, B og C, eru sýkn af kröfum stefnanda, A
Stefnandi greiði stefndu 500.000 krónur í málskostnað.