Hæstiréttur íslands
Mál nr. 460/1999
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 9. mars 2000. |
|
Nr. 460/1999. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Sveini Gunnari Jónassyni og (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Sigurjóni Sigurgeirssyni(Tómas Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Ómerking. Heimvísun.
SG og S voru ásamt fleirum ákærðir fyrir líkamsárás og var málinu áfrýjað að því er meinta árás SG og S á K varðaði. Talið var að samningu héraðsdóms væri verulega áfátt, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Voru ályktanir héraðsdómara af framburði ákærðu og vitna, sem komu fyrir dóm, taldar óskýrar og orka tvímælis og var talið að ekki yrði úr þessu bætt fyrir Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Var héraðsdómur ómerktur að því er varðaði sakarefnið, sem var til endurskoðunar, og málinu vísað til héraðsdóms að nýju og kveðið á um að sönnunarfærsla skuli fara fram fyrir þremur dómurum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Haraldur Henrysson.
Ríkissaksóknari skaut málinu af hálfu ákæruvalds til Hæstaréttar 1. nóvember 1999. Krefst hann sakfellingar ákærðu samkvæmt ákæru í lið II í hinum áfrýjaða dómi og heimfærslu brots til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, refsiþyngingar að því er varðar ákærða Svein Gunnar og refsiákvörðunar að því er varðar ákærða Sigurjón.
Ákærði Sveinn Gunnar krefst aðallega sýknu af ákæruatriðum, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði Sigurjón krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar, sem lög leyfa, og að hún verði skilorðsbundin.
I.
Í hinum áfrýjaða dómi var fjallað um þrjár ákærur ríkissaksóknara 11. júní 1999, sem allar snerust um ætlaðar líkamsárásir aðfaranótt 27. september 1998 við veitingastaðinn Subway í Austurstræti í Reykjavík. Fyrir Hæstarétti er aðeins til endurskoðunar úrlausn í II. kafla dómsins á ákæru gegn ofangreindum ákærðu fyrir líkamsárás á Kristin Rúnar Magnússon. Í I. kafla dómsins var fjallað um ákæru á hendur Kristni Rúnari Magnússyni ásamt öðrum manni fyrir líkamsárás á ákærða Svein Gunnar. Voru þeir sakfelldir fyrir þá árás og var hún talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í III. kafla dómsins var fjallað um ákæru gegn ákærða Sveini Gunnari og öðrum manni fyrir árás á Kristin Ólaf Kristinsson, sem í ákærunni var talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Var sýknað af þeirri ákæru.
II.
Svo sem áður greinir gerðust atvik máls þessa aðfaranótt 27. september 1998. Aðalmeðferð málsins fór fram 15. og 22. september 1999, en ákærði Sigurjón hafði gefið skýrslu fyrir dóminum 30. júní 1999. Eins og sjá má af reifun framburðar vitna í héraðsdómi mundu sum þeirra óljóst eftir atvikum, að minnsta kosti í smáatriðum. Við skýrslutöku var oft með ýmsum hætti borinn undir vitni framburður þeirra við skýrslugerð hjá lögreglu, sem telja verður eðlilegt eftir að leitað hafði verið eftir sjálfstæðri frásögn. Finna verður þó að því að spurningar, sem að þessu lutu, voru oft ekki markvissar sem skyldi og framburður var ekki ætíð skýrlega borinn undir vitni til staðfestingar.
Sakarmat í máli þessu ræðst fyrst og fremst af mati á sönnunargildi framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi. Þar þarf einnig að koma til mat á því hvernig framburður samrýmist því, sem áður er fram komið við lögreglurannsókn og af hverju misræmi stafar ef um það er að ræða, enda hafi yfirheyrsla meðal annars snúist um það. Telja verður að héraðsdómari hafi ekki gætt þess sem skyldi að hafa ofangreind atriði í huga við atvikalýsingu sína í dóminum og rökstuðning fyrir niðurstöðu. Eins og málið lá fyrir hefði verið rétt að greina frá því helsta, sem fram kom þegar lögregla kom á vettvang. Reifun framburðar í dóminum er í ýmsum tilvikum ónákvæm. Þar vantar t.d. stundum vísan til þess, sem fram kom fyrir dóminum um framburð hjá lögreglu og afstöðu vitna til hans. Á þetta meðal annars við um framburð vitnanna Brynju Hjaltalín, Ingvars Arnarsonar, Katrínar Jónsdóttur og Sunnu Áskelsdóttur. Einnig vantar með öllu reifun á framburði Kristins Ólafs Kristinssonar um sakarefni það, sem hér er til úrlausnar, en hann var yfirheyrður ítarlega um það fyrir dómi. Þá kemur ekki fram í dóminum frásögn um sak- og myndbendingar, sem fram fóru hjá lögreglu. Ekki er heldur að finna þar sjálfstæða lýsingu á klæðnaði ákærðu umrætt sinn, en vitni vísuðu gjarnan til klæðaburðar þeirra, sem veittust að Kristni Rúnari, þar sem hann lá í götunni. Allt eru þetta atriði, sem skiptu máli við heildarmat á því, hvort nægileg sönnun væri fram komin fyrir sekt ákærðu.
Þá verður einnig að finna að því að röðun á reifun framburðar í héraðsdómi fer eftir því, hvenær vitni komu fyrir dóminn, en ekki eftir því sakarefni, sem þau bera um. Er þetta til baga við lestur dómsins.
Í niðurstöðukafla héraðsdóms er ekki tekin afstaða til trúverðugleika afturhvarfs ákærða Sveins Gunnars frá skýrri játningu á spörkum í Kristin Rúnar í yfirheyrslu hjá lögreglu 7. október 1998 að viðstöddum verjanda sínum. Þar er einungis sagt að mjög sé á reiki hver eða hverjir hafi veitt umrædd spörk og beri vitnum ekki saman um lýsingar og verði að telja verulegan vafa leika á því, hvort ákærðu spörkuðu í Kristin Rúnar. Þennan rökstuðning verður að telja ófullnægjandi í ljósi þess hvernig málið lá fyrir. Þannig höfðu ýmis vitnanna gefið nokkuð afdráttarlausar lýsingar, sem gátu bent til þess að annar eða báðir ákærðu ættu hér hlut að máli. Sum vitni nefndu gælunafn annars ákærða í þessu sambandi og vitni bentu á sama ákærða við sak- og myndbendingar. Til alls þessa þurfti dómarinn að taka afstöðu með skýrum hætti og meðal annars meta trúverðugleika þeirra vitna, sem hér um ræðir.
Samkvæmt framansögðu er samningu héraðsdóms verulega áfátt, sbr. 1. mgr. 135. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ályktanir héraðsdómara af framburði ákærðu og vitna, sem komu fyrir dóm, eru óskýrar og orka tvímælis. Verður ekki úr þessu bætt fyrir Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Þykir því óhjákvæmilegt, sbr. 5. mgr. sömu greinar, að ómerkja héraðsdóminn að því er varðar sakarefni það, sem hér er til endurskoðunar, og vísa málinu til héraðsdóms að nýju, þar sem sönnunarfærsla fari fram fyrir þremur dómurum, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu laga.
Samkvæmt þessu ber að fella kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti á ríkissjóð, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Kafli II í hinum áfrýjaða dómi er felldur úr gildi og er málinu að því leyti vísað til héraðsdóms til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms varðandi ákærða Sigurjón Sigurgeirsson er staðfest. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sveins Gunnars Jónassonar í héraði, eins og þau eru ákveðin í héraðsdómi, greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda beggja ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttar-lögmanns og Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 1999.
Ár 1999, þriðjudaginn 12. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Gretu Baldursdóttur, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1571/1999: Ákæruvaldið gegn K, P, Sveini Gunnari Jónassyni, Sigurjóni Sigurgeirssyni og Ó.
Málið er höfðað með þremur ákærum Ríkissaksóknara, dagsettum 11. júní sl.
I
[...]
II
Ákæra á hendur Sveini Gunnari Jónassyni kt. 080176-4149, Tryggvagötu 6, Reykjavík, og Sigurjóni Sigurgeirssyni kt. 060876-5179, Birtingakvísl 10, Reykjavík, “fyrir líkamsárás við veitingastaðinn Subway í Austurstræti, Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998 með því að ákærði Sveinn Gunnar sló Kristin Rúnar Magnússon kt. 090579-3479, í andlitið með krepptum hnefa svo hann skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund og spörkuðu þá ákærðu báðir í höfuð Kristins Rúnars þar sem hann lá, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbrot, glóðarauga hægra megin, bólgu og mar á höfði hægra megin ofan og aftan við eyra og sprungu í hvirfilbeini þar undir, marblett og bólgu aftan við vinstra eyra og heilamar og heilablæðingu framan til í heila er hafði í för með sér framheilaskaða.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”
III
[...]
[...]
Af hálfu ákærða Sveins Gunnars Jónassonar er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Til vara krefst hann þess að refsing verði felld niður eða að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa og þá að refsing verði skilorðsbundin. Komi til afplánunar refsingar er gerð krafa um að gæsluvarðhald ákærða frá 28. september 1998 til 23. október sama ár komi með fullri dagatölu til frádráttar frá dæmdri refsingu. [...] Þá krefst hann þess að hæfileg málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Af hálfu ákærða Sigurjóns Sigurgeirssonar er þess krafist að hann verði sýknaður og allur sakarkostnaður felldur á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun verjanda. Til vara gerir hann þær kröfur að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin. Komi til afplánunar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist dragist að fullu frá refsingu. Jafnframt er þess krafist að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun.
[...]
Málavextir
Aðfaranótt sunnudagsins 27. september 1998 brutust út slagsmál fyrir utan veitingastaðinn Subway í Austurstræti, Reykjavík. Á vettvangi voru Jón Gunnar Kristjánsson og Halldór Viðar Halldórsson með myndbandsupptökuvél og kváðust hafa byrjað upptöku þegar átök virtust vera í uppsiglingu. Þeir afhentu lögreglu myndbandið í þágu rannsóknar málsins. Á myndbandinu sést hluti þeirra slagsmála sem hér er fjallað um. Um er að ræða þrjú nokkurn vegin aðskilin slagsmál:
I) Árás á Svein Gunnar Jónasson II) Árás á Kristin Rúnar Magnússon og III) Árás á Kristin Ólaf Kristinsson.
I. Árás á Svein Gunnar Jónsson
[...]
II) Árás á Kristin Rúnar Magnússon.
Á myndbandi því sem liggur frammi í málinu sést hvar Kristinn Rúnar slær í tvígang til Sigurgeirs Sigurjónssonar með flösku í hendinni og hvar Sveinn Gunnar slær Kristin Rúnar síðan í andlitið með krepptum hnefa. Sést síðan hvar Kristinn Rúnar fellur aftur fyrir sig. Síðan sést hvar hann liggur í götunni og menn eru á hlaupum þar í kring. Meðal annarra sjást þar ákærðu Sveinn Gunnar og Sigurjón á hlaupum.
Ákærði Sveinn Gunnar gaf skýrslu hjá lögreglu 27. september 1998 varðandi þetta sakarefni meðal annars. Hann kvaðst muna , að eftir árásina á sig, hafi verið eins og allir hafi ráðist gegn öllum. Hann hafi tekið einhvern strák þarna og hent honum eitthvað til. Einnig kvaðst hann halda að hann hafi slegið einhvern stóran snoðklipptan strák sem þarna var. Kveðst hann halda að það sé sá sami og byrjaði að setja út á bolinn hans Egils. Það næsta sem hann sá var að strákurinn sem hann sló lá í götunni rotaður. Veit hann þó ekki hvort það var vegna höggsins eða af öðrum orsökum. Síðan sá hann að einhver af þessum strákum var að slá Óla. Hafi hann gripið þennan strák og hent honum burtu. Síðan hafi hann hlaupið í burtu í átt að torginu. Áður hafi hann heyrt að sjúkrabíllinn væri að koma. Hafi hann þá verið orðið mjög hræddur og sér liðið illa, bæði vegna högganna sem hann hlaut og einnig út af stráknum sem lá rotaður í götunni. Taldi hann að hann hefði ekki sparkað í þann sem hann hafði slegið niður og sá engan sparka í hann.
Sveinn gaf skýrslu hjá lögreglu á ný 7. október 1998, en þá hafði hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna meintrar aðildar hans að slagsmálum þeim sem hér er fjallað um. Hann var þá spurður hvers vegna hann hafi slegið Kristin Rúnar og kvaðst hann hafa séð að Kristinn Rúnar hafi slegið til Grjóna með flösku og því hafi hann slegið hann. Honum var sagt að nokkur vitni hafi borið að maður sem svari til lýsingar á honum hafi sparkað ítrekað í höfuðið á Kristni Rúnari þar sem hann lá í götunni eftir umrætt högg. Kvaðst hann hafa sparkað tvisvar í hann en ekki oftar. annað fór í hausinn, hitt gæti hafa lent þar líka
Sigurjón Sigurgeirsson gaf skýrslu hjá lögreglu 27. september 1998. Hann kvaðst hafa verið staddur í miðbæ Reykjavíkur síðast liðna nótt. Hann hafi verið þar ásamt nokkrum félögum sínum. Með honum hafi verið þeir Pétur Þór Guðjónsson, Svenni, Ólafur Gunnþór Höskuldsson og Steini. Hafi leiðir skilið er liðið hafi á nóttina en þeir félagar mælt sér mót hjá veitingastaðnum Subway í Austurstræti. Hafi hann fyrst hitt Kristin Rúnar beint fyrir framan útidyrahurð veitingastaðarins. Hann hafi aldrei séð þann mann áður og þekkti hann ekkert. Hafi félagi hans Pétur Þór farið að gantast með að þessi maður minnti hann á annan félaga Sigurjóns sem kallaður væri Elli og segist Sigurjón hafa farið að kalla hann Ella í gamni. Hafi Kristinn Rúnar brugðist ókvæða við og verið með einhverja tilburði sem ekkert hafi þó orðið úr. Minnti Sigurjón að Kristinn Rúnar og Svenni hafi einnig eitthvað verið búnir að deila.
Kvaðst hann ekki muna greinilega hvað gerðist eftir þetta, annað en það að hann hafi verið að ræða við mann er hann sá að Svenni stóð álengdar og hélt fyrir andlit sitt. Hafi hann rokið til og gengið að Svenna og í millitíðinni afhent einhverjum jakkann sinn sem sé hvítur jakkafatajakki. Kvaðst hann hafa spurt hvað hafi eiginlega gerst og hafi hann verið orðinn reiður. Hafi hann síðan rokið að manni sem hann hafi verið að deila við áður og tekið hann kverkataki. Það næsta sem hann vissi var að Kristinn Rúnar lá í götunni. Kvaðst hann ekki hafa séð hver hafi slegið og sparkað í Kristin Rúnar, hafi nokkur fjöldi fólks verið þarna og þetta litið út eins og allsherjar slagsmál sem hafi tekið fljótt af. Hafi hann heyrt síðar að Svenni hafi slegið Kristin Rúnar í andlitið með þeim afleiðingum að sá féll í götuna. Einnig hafi hann heyrt að Svenni hafi sparkað í Kristin Rúnar a.m.k. tvisvar í höfuðið. Hann neitaði því alfarið að hafa slegist við Kristin Rúnar eða að hafa sparkað í eða til hans. Hann staðfesti þetta í skýrslu sem tekin var af honum 2. október 1998 og neitaði því alfarið að hafa nokkurn tíma sparkað í höfuð Kristins Rúnars.
Þann 28. september 1998 krafðist lögreglustjórinn í Reykjavík gæsluvarðhalds yfir þeim Sigurjóni Sigurgeirssyni og Sveini Gunnari Jónassyni. Var Sigurjón úrskurðaður í gæsluvarðhald til 9. október 1998 og Sveinn Gunnar til 19. október 1998. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var gæsluvarðhald síðan framlengt vegna Sigurjóns til 30. október 1998 og vegna Sveins Gunnars til 15. desember 1998.
Með dómi Hæstaréttar 23. október 1998 var úrskurður varðandi Svein Gunnar felldur úr gildi og í framhaldi hans voru þeir báðir, Sveinn Gunnar og Sigurjón leystir úr gæsluvarðhaldi.
Í vottorði Garðars Guðmundssonar læknis til Lögreglunnar í Reykjavík dags. 28. september 1998 segir að Kristinn Rúnar hafi komið á slysadeild sjúkrahúss Reykjavíkur í neyðarbíl. Við skoðun sé hann meðvitundarlaus og með áverkamerki á höfði. Bólgu og mar á höfði hægra megin ofan og aftan við eyrað, marblett og bólgu bak við vinstra eyra og glóðarauga hægra megin. Væg áfengislykt úr vitum og æla í kringum vit. Hafi rannsóknir sýnt sprungu í hauskúpu hægra megin, staðsetta undir ytra áverkasvæðinu. Blóðslikju inni í höfuðkúpu á yfirborði heilans og grunur um heilamar á afmörkuðu svæði vinstra megin. Blóð í kinn og ennisholum og grunur um nefbrot. Minniháttar vökvasafn í brjóstholi hægra megin. Í vottorði sama læknis dags. 8. október 1998 segir að ástand Kristins Rúnars einkennist af verulegu minnisleysi, skapgerðarbreytingum og þráhyggjukenndu atferli. Sýni nýjar myndatökur af heilanum greinileg merki um skaða á ennislöppum báðum megin, þó meira vinstra megin. Sé líklegt að Guðný Daníelsdóttir læknir á Grensásdeild geti eftir 3-6 mánuði tjáð sig um þá varanlegu heilaskaða, sem til staðar geti verið en út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggi sé líklegt að einhver varanlegur skaði hafi átt sér stað.
Samkvæmt læknisvottorði Guðnýjar Daníelsdóttur sérfræðings í orku- og endurhæfingarlækningum 27. október 1998 þá segir að Kristinn Rúnar hafi hlotið heilamar og heilablæðingu framan til í heila, sprungu í hvirfilbein hægra megin og nefbrot. Hann hafi verið tekin inn á Grensásdeild til mats og áframhaldandi meðferðar þann 12. október 1998 en hann hafi eirt illa og ekki haft innsæi í eigið sjúkdómsástand þannig að hann hafi verið útskrifaður 21. október 1998. Hafi verið lagt til að hann tæki sér frí frá námi og störfum og kæmi í endurmat á Grensásdeild í byrjun næsta árs. Vísað var í meðfylgjandi niðurstöður prófana og kemur fram í vottorði Sigríðar Bjarnadóttur iðjuþjálfa að Kristinn geti ekki farið strax að vinna á hinum almenna vinnumarkaði. Hann geti ekki farið eftir flóknum fyrirmælum. Hann skilji þau ekki og geti þess vegna ekki framkvæmt þau. Ef vandamál komi upp í daglegu lífi Kristins sé erfitt að segja til um hvernig hann bregðist við vegna skerts sveigjanleika, færni til rökhugsunar, sjálfsgagnrýni og spennu. Hann eigi í miklum erfiðleikum með skilning á skrifuðu og mæltu máli. Einnig beri nokkuð á minnistruflunum. Ekki hafi verið hægt að vinna að markvissri þjálfun með Kristni vegna þess að hann telji sig vera orðinn frískan.
Dr. María K. Jónsdóttir gerði mat á Kristni og í vottorði hennar 24. október 1998 kemur fram að enn sé of snemmt að segja til um hvaða bata Kristinn muni endanlega ná en ljóst sé að eins og stendur sé fötlun hans talsvert mikil.
Í vottorði Guðnýjar Daníelsdóttur 25. maí 1999 kemur fram í samantekt að Kristinn hafi í september 1998 hlotið framheilaskaða. Þessi skaði skilji eftir ummerki á heilaskanni og í heilariti. Hann hafi minnistruflanir, dómgreind, innsæi og sjálfsgagnrýni sé skert. Skaphöfn hans sé breytt, hann sé skapminni, eða tilfinningalega flatari en áður. Hann hafi lyktartap og svefntruflanir. Líkamlegt úthald sé skert. Allt séu þetta fylgifiskar heilaskaða. Svo segir að nú séu um það bil 8 mánuðir liðnir frá slysinu og að svo stöddu sé ekki unnt að segja fyrir um endanlegan bata. Þó Kristinn eigi eftir að taka framförum sé ljóst að hann sitji uppi með fötlun sem setji honum skorður varðandi valkost í námi, leik og starfi og rýri lífsgæði hans.
Verða nú raktir framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi varðandi þetta sakarefni.
Ákærði Sveinn Gunnar kvað ástæðu þess að hann sló Kristin Rúnar niður hafi verið sú að hann réðist að Grjóna með bjórflösku. Hann kvaðst ekki muna að hafa sparkað í hann eða að hafa séð þegar Kristinn Rúnar fellur í götuna. Varðandi viðurkenningu hans hjá lögreglu þegar skýrsla var tekin af honum á Litla Hrauni um að hann hafi sparkað tvisvar í Kristin Rúnar eftir að hann sló hann, þá kveður hann lögregluna hafa sagt sér að það sæist á myndbandinu að hann hefði gert það. Þess vegna hafi hann talið réttast að viðurkenna það þótt hann myndi það alls ekki.
Ákærði Sigurjón Sigurgeirsson minnist þess ekki að hafa lent í einhverjum átökum við Kristinn Rúnar umrædda nótt, hins vegar hafi þeir átt í einhverjum ryskingum. Þetta hafi allt byrjað með því að þeir strákarnir fóru niður í bæ til að skemmta sér en þeir hafi verið að koma úr veislu frá vini þeirra. Þeir hafi hitt þessa stráka sem þeir þekktu ekkert hjá Subway. Allt hafi byrjað á því að af hálfu Kristins Rúnars hafi verið verið að “veiða bögg” eða bara, búa til slagsmál. Hann hafi byrjað að ýta við sér og hafi hann þá eiginlega bakkað úr þessu. Hafi einhver vinur Kristins Rúnars ætlað að stökkva upp á bak hans, en Svenni hafi tekið í þann, ýtt honum frá eða eitthvað. Árásina á Svein Gunnar kvaðst hann ekki hafa séð. Hann hafi verið hinum megin við götuna þegar það var að rífast við Krumma, þeir hafi verið í einhverjum ryskingum, en það hafi ekki verið nein slagsmál, ekki handalögmál, þeir aðeins verið að ýta hvor við öðrum og eitthvað svona. Síðan hafi hann séð Svein Gunnar alblóðugan í framan upp við Búnaðarbankavegginn, að því er hann minnti.
Aðspurður um hvers vegna hann hafi farið úr jakkanum kvað hann allt hafa virst vera á leiðinni í áflog og hann viljað vera tilbúinn. Hann kvaðst ekki hafa orðið reiður þegar hann sá Svein Gunnar, en ekki hafi hann verið sáttur við þetta..
Hann kvaðst ekki hafa séð þegar Kristinn Rúnar var kýldur, því þetta hafi farið allt í logandi slagsmál. Hann hafi svo séð að Kristinn Rúnar lá í götunni og síðan voru bara allir á brott og hafi þeir farið á Ingólfstorg. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa sparkað í áttina eða í Kristin Rúnar. Ástæðu þess að hann hafi misst af sér annan skóinn kvað hann vera þá að þeir hafi verið lausir og hélt hann að stigið hafi verið á hæla hans. Hann kvaðst hafa hvatt vini sína til að vera tilbúna þar sem þessir strákar hafi verið til alls vísir.
Kristinn Rúnar Magnússon gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst ekkert muna frá því sem átti sér stað umrædda nótt. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann sérstaklega finna fyrir því að minni hans væri ekki eins gott og það hafi verið eftir árásina. og hann gleymi hlutum frekar nú en áður. Hann neitaði því að hafa sagt læknum að hann væri albata, hann hafi bara sagt allt til að losna við þau. Hann kvaðst geta unnið fullan vinnudag. Hann hafi fundið fyrir ofþreytu þegar hann byrjaði Hann kvaðst alltaf hafa verið hraustur áður en slysið varð. Ástæðu þess að honum gekk ekki vel í skóla áður kvað hann vera þá að hann hafi mætt illa. Lyktarskyn hans hafi að mestu horfið við slysið.
Vitnið Örn Óskar Guðjónsson kom fyrir dóminn og gaf skýrslu og kvað það vera misskilning að hann hafi sagt við Svein Gunnar að hann, vitnið, hafi slegið og sparkað í Kristin Rúnar þar sem hann lá.
Vitnið Gunnar Már Ólafsson kom fyrir dóminn og kvaðst hafa orðið vitni að því að dökkhærður þrekinn maður hafi sparkað í höfuð á liggjandi manni. Kannaðist hann við hann því hann hafði einhvern tíma áður ráðist á vin hans. Hann mundi ekki hvernig hann var klæddur. Hafi sparkið lent hægra megin á höfði Kristins Rúnars. Hann sá ekki hvort höfuðið kastaðist til, en ekki hefði hann viljað fá þetta högg á sig. Aðspurður vegna skýrslu hans hjá lögreglu 27. september 1998 kvaðst hann nú muna að þetta hafi verið maður í hvítum jakkafötum sem kallaður var Grjóni sem hafi sparkað. Hann sá ekki hvort einhver annar sparkaði hann hafi verið að fylgjast með öðru. Telur hæpið að honum skjátlist.
Gísli Guðmundsson kvaðst hafa séð átök umrædda nótt. Hann hafi séð hóp af strákum sem tókust á og einn datt í jörðina og svo sá hann þegar einhverjir spörkuðu í hann. Sýndist honum Grjóni vera einn af þeim. Ekki viss en telur sig vita að hann átti stóran þátt í þessu, hann hafi verið fljótur að forða sér og hljóti einhver ástæða að vera fyrir því. Ekki mundi hann fullkomlega að þetta hefði verið hann sem sparkaði en honum sýndist það. Vitnið bar hjá lögreglu á vettvangi þann 27. september 1998 að hann hefði séð mann í hvítum jakkafötum sparka í lappirnar á Kristni Rúnari og hafi hann fallið við það og skollið í götuna. Síðan hafi hann séð einhvern sparka tvisvar í höfuð hans og taldi það vera manninn í hvítu jakkafötunum, sem hann kannaðist við og héti Grjóni, hann gaf síðan skýrslu hjá lögreglu daginn eftir og þá bar hann öðruvísi. Hann gaf síðan skýrslu hjá lögreglu 1. október 1998 og kvað ástæðu þessa misræmis vera þá að hann hafi verið undir áhrifum áfengis þessa nótt. Hann taldi að Grjóni hafi sparkað í einhvern liggjandi mann en gat ekki fullyrt neitt um hver það var.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir öðrum slagsmálum en þessum. Hann taldi sérstaklega aðspurður að hann hafi ekki verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma, en þó geti það verið allavega var hann töluvert ölvaður.
Vitnið Þór Ólafsson gaf skýrslu fyrir dómi og kvað Svein Gunnar hafa kýlt Kristin Rúnar og við það hafi Kristinn Rúnar dottið í götuna í götuna. Hann hafi hins vegar ekki séð neinn sparka í Kristin Rúnar liggjandi, enda hafi hann snúið baki, þegar Kristinn Rúnar datt í götuna.
Vitnið Ásgeir Bragason kvaðst hafa verið að koma af kaffihúsi og verið að keyra Austurstrætið. Þá hafi hann og vinnufélagi hans orðið vitni að því að verið var að misþyrma manni illilega. Hann hafi legið í götunni rotaður og einn aðili að sparka í hausinn á honum. Þá hafi þeir hringt á lögregluna. Ekki gat hann lýst þeim aðila en hann hafi verið dökkur yfirlitum. Allavega hafi hann sparkað tvisvar. Eftir það hafi hann hlaupið yfir götuna og ráðist á annan aðila, minnti hann. Í lögregluskýrslu 29. september 1998 kvað hann þann sem sparkaði hafa verið dökkhærður í hvítum eða ljósum buxum, og síðan hafi annar maður komið að þessum sem lá í götunni og veitt honum spark í höfuðið. Mundi hann ekki hvernig sá var klæddur. Þegar hann skoðaði myndbandið kvað hann þann sem sparkaði vera þann sem var í hvítum buxum og blárri skyrtu. Tveir menn hafi sparkað hann hafi horft á það. Annar þeirra hafi verið í hvítum buxum og dökkhærður.
Vitnið Olgeir Olgeirsson kvaðst hafa séð árás á einhvern mann, barsmíðar og spörk og læti í þeim einstaklingi sem fallinn var í jörðina. Tveir menn hafi komið hlaupandi að honum og sparkað í hann, sá fyrri hafi meðal annars sparkað í höfuð hans. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hvar spark þess sem síðar sparkaði lenti. Mikill fjöldi manns hafi verið þarna í kring og mikil læti. Treysti hann sér ekki til að lýsa þeim sem spörkuðu. Síðan hafi átök haldið áfram hinum megin við götuna og þar hafi annar þeirra sem sparkaði í þann sem lá verið. Treystir sér ekki til að benda á einn eða neinn af myndbandinu.
Vitnið Brynja Hjaltalín kvaðst lítið muna. Hún man þegar Kristinn Rúnar féll í götuna og síðan hafi strákur sparkað í höfuð hans, tveir strákar minnir hana. Annar var í hvítum fötum minnir hana, en hinn í dökkum fötum, annars man hún það ekki. Vitninu var sýnt myndbandið en hún áttaði sig ekki á því hverjir spörkuðu í Kristin Rúnar. Minnir að það hafi verið þessi Sveinn og strákurinn í hvítu fötunum.
Garðar Garðarsson læknir kom fyrir dóminn. Hann kvað heilamar geta orsakast af því að maður skellur aftur fyrir sig. Taldi hann að aðalorsakavaldurinn hafi verið að Kristinn Rúnar fékk högg beint í andlitið og skall aftur fyrir sig. Taldi hann ytri merki um spark vinstra megin. Fannst lækninum ólíklegt að áverkar Kristins Rúnars gætu stafað af spörkum einum saman.
Guðný Daníelsdóttir endurhæfingarlæknir kom fyrir dóminn og kvað sér finnast það ekki fjarri lagi að möguleiki væri á því að eitthvað af þeim áverkum á heilanum hafi orsakast af spörkum, svo hafi hann skollið líka í götuna og fengið þungt högg. Hún staðfesti að hún hefði allar sínar upplýsingar um heilsu Kristins Rúnars fyrir slysið frá aðstandendum hans. Aðspurð um hvort hún teldi að Kristinn Rúnar hefði hlotið stórfellt líkams-og heilsutjón kvað hún að andlega og félagslega teldi hún hann mun verr settan eftir slysið og að hann sitji uppi með merkjanleg einkenni sem komi fram á þar til gerðum prófum.
María Jónsdóttir taugasálfræðingur kom fyrir dóminn. Hún kvað hafa hitt Kristinn síðast í júní og taldi hún hann vera með mikla skerðingu þar sem framtíðarmöguleikar hans væru allt aðrir nú en fyrir slysið.
Vitnið Sævar Ingi Jónsson kom fyrir dóminn. Hann var spurður út í þær fullyrðingar Sveins Gunnars að hann hafi aldrei játað það í rauninni að hafa sparkað í Kristin Rúnar, hann hafi ekki munað eftir því að hafa gert það, þar sem hann lá í götunni. Hafi vitnið tjáð honum, áður en hann fór í Héraðsdóm, vegna fyrirtöku gæsluvarðhaldsúrskurðar, að það væri til staðar myndband þar sem það sæist því miður þar sem hann veitti Kristni þungt högg þannig að hann félli í götuna og síðast sæist hann sparka tvisvar í hann, í höfuð hans þá væntanlega. Vitnið kvaðst ekki muna tímaröðina á þessu en muna eftir að hann játaði að hafa slegið hann og sparkað í hann.
Hann kvaðst ekki geta fullyrt um tímaröðina, það er hvort hann hafi verið búin að tilkynna Sveini Gunnari um umrætt myndband á þessum tíma en það gæti verið. Kvað hann það viðtekna venju að í skýrslutökum væri reynt að fá sjálfstæðan framburð og síðan væru borin undir viðkomandi framburðir vitna og annað. Kvaðst hann ekki leggja mönnum orð í munn.
Vitnið Sváfnir Hermannsson gaf skýrslu fyrir dómi. Honum var sýnt myndbandið. Hann kvaðst hafa verið þarna á ferð og séð mann skella í götuna og verða fyrir miklu höfuðhöggi. Hafi honum greinilega verið hent í götuna. Síðan hafi komið maður aðvífandi að honum og sparkað illþyrmilega í hann, svo honum hafi ofboðið. Hafi hann sparkað í skrokkinn og örugglega í höfuðið líka því það danglaði til. Hafi hann sparkað nokkrum sinnum í manninn og síðan horfið á braut.
Ekki kvaðst hann hafa séð annan mann og reyna að sparka. Um klæðaburð þess sem sparkaði kvaðst vitnið minna að hann hafi verið í dökkri treyju með röndum að framan. Hann hafi verið frekar grannur. Aðspurður kvað vitnið þennan sem sparkaði hafa staðið við þann sem hann sparkaði í og hafi þeir verið þar tveir einir. Síðan hafi safnast fólk þarna saman. og þá hafi honum hafi brugðið við. Um aðdragandann kvað hann hafa blossað upp einhver læti þarna. Svo er það það næsta sem hann hafi séð var að maðurinn fellur í götuna með miklum dynk og síðan hafi þessi spörk átt sér stað.
Eftir að vitnið skoðaði myndbandi kvaðst hann halda að atburðir þeir sem hann lýsti hafi gerst áður en það sem sést á myndbandinu. Hann sá ekki þann sem sparkaði á myndbandinu.
Katrín Jónsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og var henni sýnt myndband af atburðunum. Hún kvaðst hafa heyrt þegar Kristinn Rúnar féll í götuna og þá farið að fylgjast með því sem var að gerast. Hafi maðurinn virtist vera meðvitundarlaus, eftir að hann féll í götuna og einn maður hafi verið þarna og sparkað í höfuðið á honum ítrekað og síðan hlaupið í burtu eftir það. Hafi hún farið upp að manninum og reynt að hlú að honum eftir bestu getu. Varðandi lýsingu á þeim manni sem hún sá sparka í höfuð Kristins Rúnars, mundi hún eftir að hrokkið, dökkt, svona axlarsítt hár. Hann hafi verið í einhvers konar sporttreyju, síðerma.
Ingvar Arnarson kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa setið í tröppum í gömlu Antíkbúðinni, sem reyndar sé búið að rífa núna. Sá hann hvar einn úr þeim hóp sem var fyrir framan Subway datt út úr hópnum og skall í jörðina. Hafi það verið eins og hann hafi rotast, hann hafi ekkert hreyft sig. Þá hafi einn tekið sig til og gengið út úr fyrir hópinn og sparkað tvisvar í hausinn á honum. Hafi hann eiginlega legið þarna einn. Hann minnti að sá sem sparkaði hefði verið í strigaskóm og minnti í brúnum buxum.
Sunna Áskelsdóttir kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á staðnum þegar umræddur atburður átti sér stað. Kvaðst hún einna helst muna eftir að maður lá í götunni og annar maður kom og tók svona tilhlaup og sparkaði í hausinn á honum. Það er það eina sem hún mundi var að hausinn dinglaði. Hún mundi ekki hvernig maðurinn leit út sem sparkaði og ekki hvort hann sparkaði oftar en einu sinni.. Ekkert rifjaðist upp hjá vitninu við að skoða myndbandið.
Hildur Sif Lárusdóttir gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kveðst hafa verið á staðnum þegar umræddir atburðir gerðust og hafa verið í för með Þór. Hafi hún hitt nokkra stráka sem hún þekkti, allir hafi verið undir áhrifum áfengis og eitt leitt af öðru. Áður en hún vissi af þá voru bara komin slagsmál. Enginn hafi í raun vitað hvað hafi gerst.
Kvaðst hún halda að strákurinn sem lenti inn á spítala hafi byrjað að æsa sig upp við einhvern annan strák. Síðan hafi þau bara séð að sá var lagstur niður á jörðina, hann hafi líklega rotast. Sýndist henni sem dökkklæddur strákur sparkaði í hann.
Staðfesti vitnið að það sem hún hefði sagt hjá lögreglu hlyti að vera það sem hún hafi séð. Hafi sá sem sparkaði verið í dökkum buxum og skóm, og dökkum jakka eða peysu og hana minnti að eitthvað hvítt hefði verið í peysunni. Hún kvaðst ekki muna hvort einhverjir fleiri hafi verið í kringum þennan sem lá og vera að reyna að sparka í hann, þetta hafi verið orðið algjört kaos, allir verið komnir út um allt þarna.
Vitnið kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þarna. Eftir að hafa horft á myndbandið treysti hún sér ekki til að benda á þann sem sparkaði.
III. Árás á Kristin Ólaf Kristinsson.
[...]
Niðurstaða
I.
[...]
II. Ákærðu Sveinn Gunnar Jónasson og Sigurjón Sigurgeirsson, eru ákærðir fyrir árás á Kristin Rúnar Magnússon með því að ákærði Sveinn Gunnar sló hann, í andlitið með krepptum hnefa svo hann skall aftur fyrir sig í götuna og missti meðvitund og spörkuðu þá ákærðu báðir í höfuð Kristins Rúnars þar sem hann lá, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut nefbrot, glóðarauga hægra megin, bólgu og mar á höfði hægra megin ofan og aftan við eyra og sprungu í hvirfilbeini þar undir, marblett og bólgu aftan við vinstra eyra og heilamar og heilablæðingu framan til í heila er hafði í för með sér framheilaskaða. Telur dómurinn sannað með framburði ákærða Sveins Gunnars, sem fær stoð í myndbandsupptöku af atburðinum og studdur er gögnum málsins að öðru leyti að Sveinn Gunnar hafi slegið Kristin Rúnar hnefahögg í andlit. Á sama hátt telst sannað að Kristinn Rúnar féll aftur á bak og skall í götuna. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að sparkað hafi verið í höfuð Kristins Rúnars eftir að hann féll í götuna, um það bera flest vitnin. Hins vegar er mjög á reiki hver eða hverjir hafi veitt honum þessi spörk og ber vitnum ekki saman um lýsingu á þeim sem spörkuðu. Verður að telja verulegan vafa leika á því hvort ákærðu spörkuðu í Kristin, en á myndbandsupptöku sjást þeir hlaupa þar sem hann liggur en ekki verður af myndinni séð að þeir hafi sparkað. Verða ákærðu að njóta þess vafa og með hliðsjón af 45. og 46. gr. um meðferð opinberra mála verður ekki talin fram komna næga sönnun til þess að þeir hafi sparkað í Kristin Rúnar. Verður ákærði Sveinn Gunnar því sýknaður af þessum hluta ákærunnar og ákærði Sigurgeir Sigurjónsson sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu.
Þegar litið er til læknisvottorða og dómsframburðar Garðars Guðmundssonar læknis þar sem segir að heilamar geti orsakast af því að maður skellur aftur fyrir sig, verður því ekki neitað að hinir alvarlegu áverkar sem lýst er hafi einkum stafað af falli Kristins Rúnars. Hins vegar þykir sannað að Kristinn Rúnar hafi fengið spörk í höfuðið eftir að hann skall í götuna og er því ekki útilokað að einhverjir þeirra áverka sem hann hlaut stafi af einhverju leyti vegna þeirra. Guðný Daníelsdóttir orku- og endurhæfingarlæknir taldi ekki fjarri lagi að tjón Kristins Rúnars mætti rekja til þess að hann hafi fengið spark.
Af gögnum málsins þykir sannað að Sveinn Gunnar hafi slegið Kristin Rúnar í andlitið með krepptum hnefa, enda taldi hann vini sínum ógnað. Einnig þykja gögn málsins staðfesta að Kristinn Rúnar hefur hlotið stórfellt heilsutjón af þeirri árás sem hann varð fyrir umrædda nótt. Hins vegar þykir ekki sannað svo óyggjandi sé að afleiðingar þeirrar árásar sem hann varð fyrir megi eingöngu rekja til árásar ákærða Sveins Gunnars á hann og þykir því rétt að heimfæra verknað ákærða undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt sakavottorði ákærða Sveins Gunnars þá hlaut hann þrjá dóma á árinu 1993 fyrir brot á 259., 155., 244., og 157. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot. Þann 18. september 1996 gekkst hann undir sátt í Héraðsdómi Reykjavíkur með greiðslu sektar vegna brota á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Verður refsing hans ákveðin með hliðsjón af sakarferli ákærða og þykir hún hæfileg 2 mánaða fangelsi. Þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að 2 árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september 1998 til 23. október 1998 til frádráttar refsingu.
III.
[...]
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Sigurgeirssonar, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns að fjárhæð krónur 250.000 greiðist úr ríkissjóði.
[...]
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sveins Gunnars Jónassonar, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns að fjárhæð kr. 250.000 greiðist að hálfu úr ríkissjóði en þykir rétt að Sveinn Gunnar greiði hann að hálfu. Annan sakarkostnað sem kann að hafa hlotist af broti hans greiði hann að hálfu.
[...]
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari.
Dómsorð:
[...]
Ákærði Sigurgeir Sigurjónsson skal vera sýkn af af öllum kröfum ákæruvaldsins.
Sveinn Gunnar Jónasson sæti fangelsi í 2 mánuði. Skal fullnustu refsingarinnar frestað og falli hún að tveimur árum liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Komi til afplánunar komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 28. september 1998 til 23. október 1998 til frádráttar refsingu.
[...]
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Sigurgeirssonar, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns að fjárhæð krónur 250.000 greiðist úr ríkissjóði.
[...]
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sveins Gunnars Jónassonar, Ómars Stefánssonar héraðsdómslögmanns að fjárhæð kr. 250.000 greiðist að hálfu úr ríkissjóði en þykir rétt að Sveinn Gunnar greiði hann að hálfu. Annan sakarkostnað greiði hann að hálfu.
[...]