Hæstiréttur íslands
Mál nr. 415/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Miðvikudaginn 29. nóvember 2000. |
|
Nr. 415/2000. |
Fiskir ehf. (Guðbjörn Jónsson) gegn Kvótaþingi Íslands og íslenska ríkinu (enginn) |
Kærumál. Flýtimeðferð.
Með því að ekki var talið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að um ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í skilningi þeirrar lagagreinar væri að ræða, var hafnað beiðni F hf. um flýtimeðferð á máli er félagið hugðist höfða á hendur K og íslenska ríkinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2000, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð á máli, sem hann hyggst höfða á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að flýtimeðferð verði heimiluð í málinu.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2000.
Beiðni um flýtimeðferð barst dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í hendur 6. þ.m. undirrituð af Guðbirni Jónssyni formanni Landssambands íslenskra fiskiskipaeigenda f.h. landssambandsins. Beðið er um flýtimeðferð á máli sem Fiskir ehf., kt. 590899-2249, hyggst höfða gegn Kvótaþingi Íslands, kt. 560798-2029, Skúlagötu 4, R. og sjávarútvegsráðuneytinu til vara.
Niðurstaða:
Með bréfi dags. 7. þ.m. synjaði dómstjórinn í Reykjavík framangreindri beiðni. Hinn 10. nóvember bast Héraðsdómi Reykjavíkur kæra á þeirri synjun. Kæruna verður að skilja með þeim hætti að óskað sé eftir úrskurði um synjunina samkvæmt 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991. Beiðandi var látinn vita af þeirri niðurstöðu dómsins og gerði hann ekki athugasemdir við hana.
Samkvæmt þeirri stefim sem beiðninni fylgdi er aðalstefnukrafan sú að stefnda, væntanlega Kvótaþingi Íslands, verði gert að endurgreiða kr. 21.317.851 með þar til greindum vöxtum, til vara er gerð krafa um skaðabætur og til þrautavara að gjald fyrir veiðiheimildir verði lækkað verulega.
Í l. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um það að aðili geti óskað eftir flýtimeðferð einkamáls sem hann hyggst höfða vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds og það færi ella eftir almennum reglum laganna. Auk þess þarf að vera brýn þörf á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðilans.
Þegar um er að ræða kröfur af því tagi sem að framan greinir, þ.e. kröfur um endurgreiðslu fjár eða skaðabætur, án þess að um sé að ræða beina ákvörðun eða athöfn stjórnvalds, þótt kröfurnar út af fyrir sig séu gerðar á hendur stjórnvaldi, þá þykir ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að um sé að ræða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds í skilningi þeirrar lagagreinar. Við þetta bætist að ekki verður betur séð en óverulegur hluti þeirrar fjárhæðar sem aðalkrafan hefur að geyma hafi runnið í ríkissjóð, meginhlutinn hafi runnið til þess aðila sem yfirráð hafði á þeim veiðiheimildum sem fyrirhuguð málsókn sýnist snúast um.
Samkvæmt því sem að framan er rakið er framangreindri beiðni um flýtimeðferð hafnað.
Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Beiðni Landssambands íslenskra fiskiskipaeigenda um flýtimeðferð í máli því
sem Fiskir ehf. hyggst höfða gegn Kvótaþingi Íslands og sjávarútvegsráðuneytinu er synjað.