Hæstiréttur íslands
Mál nr. 347/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gerðardómur
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Viðar Már Matthíasson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 30. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 2. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2017, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétti hefur varnaraðili teflt fram þeirri málsástæðu að málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Málsástæða þessi kom ekki fram undir rekstri málsins í héraði og kemur því ekki til álita við úrlausn þess fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga, nema að því leyti sem rétturinn metur án kröfu hvort þeir gallar séu á málatilbúnaði sem frávísun varði.
Ágreiningur í máli þessu lýtur að greiðsluskyldu varnaraðila á grundvelli samnings sem sóknaraðili telur hafa komist á milli aðila um verktöku vegna framkvæmda að lóðinni Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík. Með stefnu í málinu lagði sóknaraðili fram óundirritaðan verksamning milli aðila, dagsettan 1. október 2015, sem hann kveður þó aðila ekki hafa samþykkt.
Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var eingöngu gerð krafa um frávísun málsins á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og studdi hann kröfuna þeim rökum að í 4. mgr. 11. gr. verksamnings þess sem sóknaraðili byggði kröfu sína á, væri ákvæði um að aðilar væru sammála um að allan ágreining, deilur eða kröfur sem kynnu að rísa vegna eða í tengslum við verksamninginn skyldi leggja til úrlausnar gerðardóms. Hafi sakarefnið því verið undanskilið lögsögu dómstóla. Í þinghaldi til flutnings um frávísunarkröfu varnaraðila var á hinn bóginn bókað eftir lögmanni hans að hann ,,telji samninginn ekki vera skuldbindandi á milli aðila og ekki í gildi“.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma afsala aðilar gerðarsamnings sér meðferð almennra dómstóla um þann réttarágreining sem samningurinn tekur til. Kann það að leiða til þess að réttaröryggi þeirra sem að gerðarsamningi standa skerðist. Því eru gerðar skýrar formkröfur til gerðarsamnings. Þeir skulu vera skriflegir og skal glögglega koma fram að um gerðarsamning sé að ræða, hverjir séu aðilar samningsins og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst.
Í 2. gr. laga nr. 53/1989 segir að hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni sem eigi undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi skuli ekki vísa því frá dómi nema krafa hafi komið fram um það.
Eins og rakið hefur verið er verksamningur sá sem sóknaraðili lagði fram með stefnu í héraði óundirritaður og hefur varnaraðili lýst því yfir að hann sé ekki í gildi og óskuldbindandi milli aðila. Samkvæmt framangreindu vefengja báðir aðilar að hinn óundirritaði verksamningur sé skuldbindandi fyrir þá. Er því ekki fyrir að fara í málinu gildum gerðarsamningi þar sem aðilar afsala sér meðferð almennra dómstóla um þann réttarágreining sem risið hefur milli þeirra. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Landhlíð ehf., greiði sóknaraðila, ÞG verktökum ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2017.
Mál þetta, sem höfðað var af ÞG verktökum ehf., Lágmúla 7 í Reykjavík, með stefnu birtri 16. janúar 2017, á hendur Landhlíð ehf., Hlíðarenda í Reykjavík, var tekið til úrskurðar um kröfu stefnda um frávísun 21. apríl 2017.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 49.652.855 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 48.377.461 krónu frá 31. janúar 2016 til 19. janúar 2017 og af 49.652.855 krónum frá 19. janúar 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi, sem hér er sóknaraðili, krefst þess í þessum þætti málsins að því verði vísað frá dómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Stefnandi, sem hér er varnaraðili, krefst þess í þessum þætti málsins að kröfu um frávísun verði hafnað. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu fyrir þennan þátt málsins.
I.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Forsaga málsins tengist uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á lóðinni Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík. Stefndi var eigandi leigulóðar- og byggingarréttinda lóðarinnar á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað. Ágreiningur málsins hverfist um fjárkröfu stefnanda á hendur stefnda, en um kröfu sína vísar stefnandi til útlagðs kostnaðar og fyrir vinnu við verkframkvæmdir á lóðinni frá haustmánuðum 2015 til vormánaða 2016.
Á meðal gagna málsins er hluthafasamkomulag um stefnda 23. september 2015. Aðilar að hluthafasamkomulaginu eru stefndi sjálfur og félögin Arcus ehf. og Hlíðarfótur ehf. Tilgangur þessa hluthafasamkomulags mun hafa verið að ramma inn samstarf samningsaðila um uppbyggingu á lóðinni Hlíðarenda 1-7 í Reykjavík og var stefnda þannig ætlað að vera samstarfsvettvangur Arcusar ehf. og Hlíðarfótar ehf. Hluthafasamkomulag þetta var gert áður en stefnandi kom að framkvæmdum á svæðinu, en félagið Arcus ehf. mun vera systurfélag stefnanda.
Um verktöku sína á lóðinni, sem hafði vinnuheitið D reitur, vísar stefnandi til samkomulags, sem er á meðal gagna málsins og er dagsett 1. október 2015. Samkomulagið er óundirritað en með fyrirsögninni „Verksamningur milli Landhlíðar ehf. og ÞG Verktaka, Hlíðarendi D reitur“.
Tafir urðu á verkframkvæmdum á D reitnum síðla árs 2015, af ástæðum sem hér er óþarfi að rekja. Kaup Arcusar ehf. á stefnda gengu til baka 23. apríl 2016 með stoð í hluthafasamkomulaginu 23. september 2015. Eftir það var Hlíðarfótur ehf. eini eigandi stefnda.
Stefnandi vísar til þess að ekki hafi verið óskað eftir frekara vinnuframlagi af hans hálfu að þessum atvikum liðnum. Hafi hann setið eftir með ógreiddan kostnað vegna verkframkvæmdanna, en fyrir honum hafi verið gefinn út reikningur, að fjárhæð 48.377.461 króna, samsvarandi fjárhæð dómkröfu stefnanda í málinu. Stefndi hefur ekki greitt reikninginn þrátt fyrir ítrekaðar kröfur stefnanda. Stefndi hafnaði greiðsluskyldu í bréfi til stefnanda 26. júlí 2016, sem er á meðal gagna málsins.
Stefndi hefur í málinu aðeins haft uppi þá frávísunarkröfu sem hér er til meðferðar, en áskilið sér rétt til að skila síðar greinargerð um efnisvarnir.
II.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísunarkröfu
Stefndi krefst frávísunar málsins með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda hafi sakarefnið verið undanskilið lögsögu dómsins með samningi. Krafa stefnanda sé grundvölluð á óundirrituðum verksamningi frá 1. október 2015. Í 11. gr. skjalsins segi að: „allur ágreiningur, deilur eða kröfur sem kunna að rísa vegna eða í tengslum við verksamning[inn], þar á meðal vegna stofnunar hans, gildi, samningsbrots eða riftunar ...“, sem aðilar næðu ekki að leysa sín á milli, skyldi lagður til úrlausnar gerðardóms. Í ljósi þess að stefnandi byggi á því að samningurinn 1. október 2015 sé í gildi milli hans og stefnda beri honum að lúta öllum ákvæðum hans. Því heyrði ágreiningur málsins undir gerðardóm.
Aðrir samningar að baki framsetningu stefnanda á kröfu í málinu, meðal annars hluthafasamkomulagið 23. september 2015, vísi einnig nánast samhljóða til gerðardómsmeðferðar vegna ágreinings um eða í tengslum við samningana, þá hjá Gerðardómi Viðskiptaráðs Íslands. Skyldi reglugerð um þann gerðardóm vera gerðarsamningur á milli aðila téðs hluthafasamkomulags, en að henni slepptri giltu lög nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma, um málsmeðferðina.
Aðilar málsins hafi forræði á sakarefninu og hafi þar með réttilega ákveðið að leggja ágreining um sakarefnið í gerð, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989. Það hafi verið gert með skýrum og skriflegum samningi og séu því uppfylltar formkröfur síðastgreindra laga, sbr. einkum 3. gr. þeirra.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, aðallega 24. gr. og 99. gr. Þá vísar stefndi til laga nr. 53/1989, einkum 1.-3. gr. þeirra. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.
II.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísunarkröfu
Sýknukrafa stefnanda í þessum þætti málsins er á því byggð að ágreiningur málsins heyri undir lögsögu almennra dómstóla og því sé ekki ástæða til að vísa málinu frá.
Stefnandi vísar um kröfu sína til þess að skriflegum og skýrum gerðarsamningi, í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989, sé ekki fyrir að fara í málinu. Með samningi um gerðardómsmeðferð afsali aðilar sér meðferð almennra dómstóla um þann réttarágreining sem samningur taki til. Það afsal kynni að skerða réttaröryggi þeirra sem að gerðarsamningi stæðu. Því yrði að gera ríkar kröfur til sönnunar um það að aðilar hafi við gerð samnings viljað fara þá leið að leggja málið í gerð. Við úrlausn ágreiningsins í þessum þætti málsins þyrfti, auk framangreinds, að líta til þess að 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989 heimilaði aðilum eftir atvikum að semja um ráðstöfun á rétti samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir almennum dómstólum ríkisins. Yrði að hafa þá staðreynd að leiðarljósi við mat á því hvort nægilega skýrlega hafi verið samið um að leggja ágreiningsefni málsins undir gerðardóm.
Óundirritaði verksamningurinn frá 1. október 2015 feli í sér staðfestingu á munnlegu samkomulagi á milli nátengdra aðila. Slíkt dugi ekki til að undanskilja sakarefnið lögsögu héraðsdóms, líkt og greina megi af fyrirmælum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989. Ákvæði 11. gr. óundirritaða verksamningsins sé hvorki skriflegt né nægilega nákvæmt, meðal annars um skipun gerðarmanna og málsmeðferð, í skilningi þess lagaákvæðis. Hér sé því um að ræða tilvik sem félli undir 2. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989 sem hafi þau réttaráhrif að 11. gr. óundirritaða verksamningsins sé óskuldbindandi.
Stefnandi byggir aukinheldur á því að frávísunarkrafa stefnda og málsástæður henni til stuðnings varði efni málsins en ekki form, sem horfi því til sýknu en ekki frávísunar máls frá dómi.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 91/1991, meðal annars 4. mgr. 17. gr. og 1. mgr. 33. gr. Þá vísar stefnandi til laga nr. 53/1989, einkum 1.-3. gr. þeirra. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 hafa dómstólar vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Eigi mál samkvæmt þessu ekki undir dómstóla, vísar dómari máli frá dómi.
Frávísunarkrafa stefnda er á því byggð að stefnandi hafi samið um að ágreiningur þessi eigi ekki undir almenna dómstóla heldur gerðardóm samkvæmt 11. gr. verksamnings, sem er óundirritaður, en tilgreindur á milli aðila málsins og dagsettur 1. október 2015. Að áskorun stefnanda upplýsti lögmaður stefnda í þinghaldi 21. apríl 2017, að stefndi teldi að verksamningurinn 1. október 2015, væri óskuldbindandi. Hins vegar ítrekaði lögmaður stefnda, í málflutningi um frávísunarkröfuna, þá málsástæðu stefnda að í ljósi þess að stefnandi byggi á því að verksamningurinn 1. október 2015 sé í gildi milli hans og stefnda, beri stefnanda að lúta öllum ákvæðum verksamningsins, þar með talið gerðardómsákvæðinu í 11. gr.
Gerðardómsákvæði 11. gr. téðs verksamnings er lýst hér að framan. Stefnandi byggir á því að ákvæðið geti ekki bundið hann, sökum þess að samningurinn sé óundirritaður og því aðeins staðfesting á munnlegu samkomulagi stefnanda og stefnda. Slíkt dugi ekki til að mæta formkröfum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989. Ákveðið innbyrðis ósamræmi er hins vegar í málatilbúnaði stefnanda um þennan þátt málsins að mati dómsins, enda byggir stefnandi kröfur sínar í öllum grundvallaratriðum á verksamningnum 1. október 2015. Stefnandi virðist þar með gera ráð fyrir því að honum sé í sjálfvald sett að ákveða hvaða fyrirmæli samningsins gilda og hverjum skuli vera rutt til hliðar, eftir því sem honum hentar hverju sinni. Á það er ekki fallist með stefnanda, sem fer með forræði á sakarefni málsins og hefur kosið að styðja kröfur sínar með málsástæðum sem ganga út frá því að verksamningurinn sé bindandi fyrir aðila og jafnframt stefnanda. Getur stefnandi því ekki vikist undan þeirri skyldu að leggja ágreining við stefnda fyrir gerðardóm svo sem 11. gr. samningsins mælir fyrir um, svo lengi sem ákvæðið uppfyllir skilyrði laga nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma um form og efni.
Verksamningurinn 1. október 2015 er skriflegur samningur, sem stefnandi hefur, svo sem fyrr segir, kosið að leggja til grundvallar kröfugerð í málinu líkt og um bindandi samning sé að ræða. Í verksamningnum kemur og fram hverjir séu aðilar að samningnum, það er stefnandi og stefndi. Auk þess tilgreinir 11. gr. verksamningsins að öllum ágreiningi samningsaðila eða kröfum vegna eða í tengslum við samninginn, þar á meðal vegna stofnunar hans, gildis, samningsbrots eða riftunar, beri að vísa til gerðardóms til úrlausnar. Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir 11. gr. verksamningsins að mati dómsins áskilnað 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989. Af sömu ástæðum verður hafnað sjónarmiðum stefnanda á þá leið að gerðarsamningurinn sé óskuldbindandi sökum þeirra krafna um skýrleika sem fram koma í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989. Þá ber og til þess að líta að komist aðilar ekki að samkomulagi um skipan gerðardóms, vegna óleysts ágreinings í skilningi 11. gr. verksamningsins, eiga þeir kost á því að bregðast við því á þann hátt sem greinir í 4. gr. sömu laga.
Að því sögðu er það niðurstaða dómsins að vísa beri kröfum stefnanda á hendur stefnda frá dómi.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Þórður Clausen héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.