Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-72

Jóna Sigríður Einarsdóttir (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (Þórey S. Þórðardóttir lögmaður ) og Isavia ANS ehf. (Stefán Geir Þórisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lífeyrisréttur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Niðurlagning stöðu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 31. maí 2024 leitar Jóna Sigríður Einarsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 307/2023: Jóna Sigríður Einarsdóttir gegn Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Isavia ANS ehf. Gagnaðili Isavia ANS ehf. leggst ekki gegn beiðninni. Gagnaðili Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tekur ekki afstöðu til hennar.

3. Málið varðar réttindi leyfisbeiðanda í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þegar starf hennar hjá Flugmálastjórn Íslands var lagt niður í árslok 2006 og fært til Flugstoða ohf. var hún í 65% starfshlutfalli sem flugumferðarstjóri. Starfið var í júní 2011 flutt til Isavia ohf. og starfshlutfall aukið í 100%. Áfram var þó greitt í B-deild sjóðsins miðað við 65% starfshlutfall. Leyfisbeiðandi krefst viðurkenningar á rétti hennar til aðildar að B-deild miðað við 100% starfshlutfall frá og með 1. júní 2011.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila með vísan til forsendna hans. Í héraðsdómi kom fram að í þeim tilvikum þegar staða sjóðfélaga sem greitt hefur í B-deild lífeyrissjóðsins er lögð niður skuli áframhaldandi iðgjaldagreiðslur í sjóðinn miðast við þau laun sem sjóðfélagi hafði og greitt var af í sjóðinn þegar staða hans var lögð niður. Í dóminum var rakið að starf leyfisbeiðanda hefði verið lagt niður í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þegar það var fært til Flugstoða ohf. í árslok 2006. Eftir það greiddi leyfisbeiðandi iðgjöld í B-deild lífeyrissjóðsins í samræmi við ákvæðið og miðað við það starf sem hún gegndi áður hjá Flugmálastjórn Íslands. Héraðsdómur hafnaði því þeirri málsástæðu leyfisbeiðanda að hún ætti rétt á að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins miðað við starfshlutfall hennar á hverjum tíma og þar með eftir að hún jók starfshlutfall sitt úr 65% í 100%. Þá kom fram í dóminum að lögbundnum réttindum og skyldum samkvæmt lögum nr. 1/1997 yrði ekki breytt með samningum á milli þriðju aðila og án aðkomu lífeyrissjóðsins en leyfisbeiðandi hafði meðal annars byggt kröfu sína á samkomulagi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Flugstoða ohf. frá 3. janúar 2007.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að sakarefnið sé mikilvægt almennt séð og fyrir hana sérstaklega. Af forsögu 2. mgr. 30. gr. laga nr. 1/1997 megi ráða að ætlunin með orðalagsbreytingum á ákvæðinu, miðað við hvernig það stóð upphaflega í 2. mgr. 17 gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, hafi ekki verið að gera greinarmun á rétti sjóðfélaga B-deildar til að greiða í sjóðinn miðað við starfshlutfall eins og það er á hverjum tíma eftir því hvort aðild byggist á grundvelli 2. mgr. 30. gr. laga nr. 1/1997 eða annarra ákvæða sömu laga. Ágreiningslaust sé að sjóðfélagar sem vinni hjá launagreiðanda er hafi heimild til að greiða fyrir starfsmenn sína í B-deild geti aukið við það starfshlutfall sem greitt er af til sjóðsins en sjóðurinn virðist vilja, án lagastoðar, láta aðrar reglur gilda um sjóðfélaga sem eru aðilar að sjóðnum á grundvelli 2. mgr. 30 . gr. laga nr. 1/1997. Leyfisbeiðandi vísar til þess að ekki hafi reynt á álitefnið fyrir dómstólum áður. Þá leiði niðurstaða dómsins til þess að leyfisbeiðandi verði í tveimur aðskildum störfum hvað lífeyrisöflun varðar. Enn fremur séu í húfi umtalsverð fjárhagsleg og persónubundin réttindi hennar. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til með vísan til framangreindra sjónarmiða.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.