Hæstiréttur íslands
Mál nr. 414/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
|
|
Miðvikudaginn 22. ágúst 2012. |
|
Nr. 414/2012. |
Anna Sigrún Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson (Helgi
Jóhannesson hrl.) gegn Vorlandi ehf. og Þórshúsum ehf. (Óskar Sigurðsson
hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing.
A og V kærðu úrskurð héraðsdóms þar
sem hafnað var kröfu þeirra um að sýslumanninum á Hvolsvelli yrði gert að afmá
úr þinglýsingabók stofnskjal fyrir fimm landspildur úr jörðinni Háfshjáleigu í
Rangárþingi ytra. A og V, sem voru eigendur nærliggjandi jarðar, héldu því fram
að 4 af spildunum væru að stærstum hluta úr óskiptu sameignarlandi nokkurra
samliggjandi jarða á svæðinu og að fimmta spildan væri að stærstu leyti skipt
út úr þeirra landi auk nærliggjandi jarðar. Byggðu þau kröfur sínar aðallega á
þinglýstum gögnum. Af hálfu nú- og þáverandi eigenda landsins Háfshjáleigu var
aðallega vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 72/2009 því til stuðnings að A
og V hefðu ekki sýnt fram á eignarrétt að því landssvæði sem stofnskjalið tók
til. Í dómi Hæstaréttar kom fram að málið væri rekið eftir 3. gr.
þinglýsingarlaga. Í slíku máli yrði ekki litið til efnisatriða að baki skjali
sem þinglýst hefði verið, heldur einungis leyst úr því hvort þinglýsing hefði
verið formlega rétt eða ekki. Við úrlausn í málinu yrði því ekki lagt mat á
þann efnislega ágreining sem á milli málsaðila væri um landamerki og
eignarhald. Var það niðurstaða Hæstaréttar að öllum formskilyrðum
þinglýsingarinnar hefði verið fullnægt þegar stofnskjalið var afhent til
þinglýsingar og að A og V hefðu ekki bent á ný atriði sem leitt gætu til þess
nú að þinglýsingarstjóri, innan þeirra marka sem honum væri heimilt að breyta
fyrri ákvörðun, endurskoðaði þá ákvörðun. Var úrskurður héraðsdóms því
staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál
þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og
Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að sýslumanninum á Hvolsvelli verði gert að afmá úr þinglýsingabók stofnskjal fyrir eignirnar Háfshjáleiga land 1 (landnúmer 207724), Háfshjáleiga land 2 (landnúmer 207725), Háfshjáleiga land 3 (landnúmer 207726), Háfshjáleiga land 4 (landnúmer 207727) og Háfshjáleiga land 5 (landnúmer 207728). Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Í Djúpárhreppi hinum forna í Rangárþingi ytra eru jarðirnar Háfur, Háfshóll, Háfshjáleiga, Horn og Hali og kallast einu nafni Háfshverfi. Mun Háfur hafa verið landnámsjörð en hinar jarðirnar byggðar út úr henni og síðar skipt með nánar tilgreindum hætti. Þann 18. maí 2006 undirritaði eigandi Háfshjáleigu, sem þá var varnaraðilinn Vorland ehf., skjal þar sem stofnaðar voru fimm nánar tilgreindar landspildur í Háfshverfi og var í stofnskjalinu vísað til þágildandi ákvæða 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga. Fram kom í stofnskjalinu að númer þess lands sem spildurnar fimm voru teknar úr væri 165382, en það er landnúmer Háfshjáleigu. Um lögun lóðanna var vísað til uppdrátta sem fylgdu stofnskjalinu þegar það var afhent til þinglýsingar. Hinar nýju spildur voru í stofnskjalinu tilgreindar sem Háfshjáleiga land 1 til 5 með landnúmerunum 207724 til 207728. Landspildur 1 til 4 eru á bilinu 12,1 til 16,8 hektarar að stærð og liggja samsíða suðvestan við þjóðveginn út í Háfshverfi sunnan við gamlan farveg Kálfalækjar, en landspilda 5 er 97 hektarar að stærð og liggur upp með bökkum Þjórsár.
Varnaraðilinn Vorland ehf. óskaði eftir umsögn hreppsráðs Rangárþings ytra um framangreind landskipti með bréfi 22. maí 2006. Því erindi svaraði hreppsráðið með bréfi 24. maí sama ár. Þar kemur fram að með erindi Vorlands ehf. hafi fylgt stofnskjöl og uppdráttur. Í svarbréfinu segir: „Hreppsráðið gerir ekki athugasemdir við landskiptin samkvæmt framlögðum gögnum með fyrirvara um að eignarréttur á viðkomandi landi sé þinglýstur og óumdeildur og að sýnd mörk milli jarða á uppdrætti séu rétt og ber sá sem leggur fram beiðni um umsögn, alla ábyrgð á að svo sé.“ Afrit bréfsins var sent skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra. Að fenginni umsögn hreppsráðs staðfesti landbúnaðarráðuneytið landskiptin með bréfi 30. maí 2006 sem móttekið var til þinglýsingar degi síðar sem skjal nr. 896. Stofnskjalið var móttekið til þinglýsingar sama dag sem skjal nr. 895.
Með afsali 31. júlí 2008 mun Vélfang ehf., nú þrotabú VF45 ehf., hafa eignast landspildu 1 með landnúmeri 207724, og með afsölum 22. desember 2010 mun Vorland ehf. hafa selt varnaraðilanum Þórshúsum ehf. landspildur 2, 3, 4 og 5 með landnúmerum 207725 til 207728. Þinglýstur eigandi jarðarinnar Háfshjáleigu nú er varnaraðilinn Þórshús ehf. samkvæmt afsali 22. október 2009. Með kaupsamningi 30. ágúst 2011 munu Helgi Sigurðsson og Anna Marín Kristjánsdóttir hafa orðið eigendur landspildu 4 með landnúmeri 207727.
II
Með bréfi 12. mars 2007 til sýslumannsins á Hvolsvelli kröfðust tveir af eigendum Háfshóls þau Sigurjón Sigurðsson og sóknaraðilinn Anna Sigrún Guðmundsdóttir þess, að þinglýsing fyrrgreinds stofnskjals frá 18. maí 2006 yrði ógilt og afmáð úr þinglýsingabókum. Sagði í bréfinu að spilda sú sem hlaut landnúmerið 207728, Háfshjáleiga land 5, væri að öllu leyti þinglýst eign jarðarinnar Háfshóls „samkvæmt samkomulagsskiptum í skiptagjörð XVIII 25. júní 1929 svo sem er þinglýst í bókum embættis yðar. Hinir svonefndu Háfshólsbakkar, sem þér hafið ranglega og ólöglega þinglýst eign Vorlands ehf. ... hafa óslitið og samfellt verið eign Háfshólsjarðarinnar frá skiptagjörðinni XVIII og ekki verið vefengt eignarhald Háfshólseigenda á Háfshólsbökkum í tvennum málaferlum Háfs- og Háfshjáleigubænda á hendur Háfshólseigendum 1975-1981 og 1997-1999. Á þeim 77 árum sem liðin eru frá skiptagjörðinni 1929, athugasemdalaust af hendi hlutaðeigandi hvað varðar eignarhald á Háfshólsbökkum, er fráleitt að Háfur eða Háfshjáleiga geti með nokkru móti átt þar tilkall þar sem hefðarréttur með tímans tönn útilokar slíkt.“
Um spildur með landnúmerum 207724, 207725, 207726 og 207727 sagði í bréfinu að þær væru „að hluta til útmældar úr óskiptu sameignarlandi allra Háfstorfubýlanna og því með öllu rangt og ólöglegt að þinglýsa þessu landi á nokkurn aðila.“ Þá segir í bréfinu að „[v]ér krefjumst þess ... að þegar í stað verði ofangreindur ólöglegur og rangur þinglýsingargerningur ógiltur og afmáður úr bókum embættisins.“
Með bréfi sýslumannsins á Hvolsvelli 21. mars 2007 til Sigurjóns Sigurðssonar og sóknaraðilans Önnu Sigrúnar Guðmundsdóttur var hafnað kröfu þeirra um að leiðrétta þinglýsingu fyrrgreinds stofnskjals með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga, þar sem ljóst væri að ekki hefðu orðið mistök hvað þinglýsingu skjalsins varðar „og verður því nefnd þinglýsing ekki leiðrétt“. Í bréfi sýslumanns er þeim Sigurjóni og Önnu Sigrúnu hins vegar bent á 2. mgr. 27. gr. laganna, efni greinarinnar tekið upp og sagt: „Þér eruð því beðin að koma því á framfæri við undirritaða, hvort óskað sé þinglýsingar yfirlýsingar þar sem mótmælt er þinglýsingu nefndra skjala, en sýnt þykir að þau rök sem þegar hafa verið færð fram í yfirlýsingu dags. 12. mars s.l. hvað landamerki jarðanna varðar séu veigamikil og yfirlýsingin því tæk til þinglýsingar. Að svo búnu yrði síðan ákveðið hversu langur frestur yrði veittur til sönnunar staðhæfinga þeirra er áðurnefnd yfirlýsing hefur að geyma.“ Í hinum kærða úrskurði er rakið að þau Sigurjón og Anna Sigrún hafi með bréfi 30. mars 2007 krafist þess að sýslumaðurinn á Hvolsvelli þinglýsti kröfu þeirra um leiðréttingu vegna þinglýsingar stofnskjalsins, en aðilar hafi ekki fært fram rök fyrir kröfum sínum um þinglýsingu athugasemdar innan þess frests sem sýslumaður setti. Sigurjón og Anna Sigrún reyndu í framhaldinu, en án árangurs, að hnekkja landskiptunum með erindum sem þau beindu til sveitarstjórnar Rangárþings ytra, landbúnaðarráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins.
III
Sóknaraðilar, sem eru eigendur að 33,3% eignarhluta í jörðinni Háfshól, óskuðu með bréfi 15. apríl 2011 eftir því við sýslumanninn á Hvolsvelli að stofnskjöl um þær fimm landspildur í Háfshverfi sem áður greinir yrðu afmáð úr þinglýsingabók. Í bréfinu segir að „[í] ljósi þess að við teljum okkur hafa fært nægilegar sönnur á að eignarheimildir séu svo sannarlega ekki óumdeildar og að það ríki enginn vafi á að sýnd mörk milli jarða á uppdrætti séu röng, þá er þess hér með krafist að þinglýsingarstjóri hlutist þegar í stað til um að aflýsing fari fram á skjali nr. 895 og nr. 896 mótteknu til þinglýsingar 31. maí 2006, þar sem spildurnar fjórar, auðkenndar sem Háfshjáleiga land 1-4, landnúmer 207724 til 207727 sem eru að stórum hluta skipt út úr óskiptu sameignarlandi jarðanna Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu sunnan Kálfalækjar ... Einnig er Háfshjáleiga land 5 og með landnúmerinu 207728 að mestu leyti skipt úr landi Háfshóls en að hluta til úr landi Hala“. Í bréfinu er vitnað til eftirtalinna ákvæða þinglýsingalaga, kröfunni til stuðnings: „6. gr. d. og e. lið, svo og 7. gr. 1. og 2. mgr. með vísan í 8. gr. lið 1. svo og 21. gr. um afsal sem eignarheimild einnig 27. gr. um rangfærslu eða mistök. Einnig er vísað til Ákvæða til bráðabirgða að lokinni 55. gr.“ Í lok bréfsins segir: „Er hér með skorað á yður herra sýslumaður að aflýsa röngum þinglýsingum á löndum 1-5, en að öðrum kosti að framvísa löggildum skjölum um eignarrétt Vorlands ehf./Þórshúsa ehf. á áður nefndum löndum innan 15 daga frá dagsetningu þessa bréfs.“
Með bréfi sýslumanns til sóknaraðila 1. júní 2011 var erindi þeirra hafnað. Segir þar að umrædd skjöl, sem fengið hafi þinglýsingarnúmerin 895/2006 og 896/2006, hafi fullnægt formskilyrðum þinglýsingalaga þegar þeim var þinglýst, og áréttað að ekki væri á valdsviði þinglýsingarstjóra að kveða upp efnisdóma í ágreiningi um landamerki heldur verði slíkt til lykta leitt í einkamáli fyrir dómi. Sóknaraðilar vildu ekki una þessari úrlausn og með bréfi til sýslumanns 27. júní 2011 tilkynnti lögmaður þeirra að þau hygðust bera úrlausnina undir Héraðsdóm Suðurlands. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi. Þá var og hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að lagt yrði fyrir sýslumanninn á Hvolsvelli að afmá úr þinglýsingabók stofnskjali um þær fimm landspildur sem áður greinir.
IV
Eins og rakið er í köflum II og III hér að framan hafa eigendur Háfshóls, þar með talin sóknaraðilinn Anna Sigrún Guðmundsdóttir, tvívegis leitað eftir því við sýslumanninn á Hvolsvelli, að þinglýsing stofnskjals um þær fimm landspildur í Háfshverfi í Rangárþingi ytra sem um ræðir í málinu verði með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga leiðrétt með því að skjalið verði afmáð úr þinglýsingabók, fyrst árið 2007 og aftur 2011. Úrlausn sýslumanns hið fyrra sinni var ekki borin undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra í samræmi við ákvæði 3. gr. þinglýsingalaga. Er það úrskurður héraðsdóms um úrlausn sýslumanns í hinu seinna máli sem er til endurskoðunar hér fyrir dómi.
Gögn málsins bera með sér að lengi hefur verið ágreiningur með eigendum jarða í Háfshverfi um merki milli jarðanna. Deila eigendur í því sambandi meðal annars um þýðingu landskipta sem fram fóru á svæðinu 1929, sáttargjörðar frá 1932 í framhaldi landskiptanna, og hvort úrlausn hafi fengist um eignarhald og landamerki milli jarða í Háfshverfi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 431/1998 og 72/2009. Sóknaraðilar, sem eru eins og áður greinir meðal eigenda Háfshóls, byggja kröfur sínar á því, að af þinglýstum gögnum og þá sérstaklega landskiptagerðinni 1929 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 431/1998 leiði, að landspildur 1 til 4 séu að stærstum hluta úr óskiptu sameignarlandi Háfshóls, Horns, Hala, Háfs og Háfshjáleigu. Þá telja sóknaraðilar að landspilda 5 sé að stærstum hluta úr landi Háfshóls en að hluta úr landi Hala, og leiði það af skiptagjörð fyrir Háfshól 18. júní 1933 og þinglýstu afsali fyrir jörðinni 5. júní 1934. Varnaraðilar byggja hins vegar á því að fyrir liggi dómur Hæstaréttar í máli nr. 72/2009 sem staðfesti að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á eignarréttarlegt tilkall til þess landsvæðis sem stofnskjalið taki til, en ágreiningur í því dómsmáli varði sama landsvæði og stofnskjalið tilgreini. Eignarrétti sóknaraðila að því landsvæði sem stofnskjalið tilgreini hafi því verið hafnað með dómi þessum.
Mál þetta er rekið samkvæmt 3. gr. þinglýsingalaga. Í slíku máli verður ekki litið til efnisatriða að baki skjali sem þinglýst hefur verið, heldur einungis leyst úr því hvort þinglýsing sú sem fram fór, eða önnur úrlausn þinglýsingarstjóra, hafi eins og málið lá fyrir honum verið formlega rétt eða ekki. Verður því eftir þessari málskotsleið ekki skorið úr um hvort réttur sá sem krafist er þinglýsingar á sé til staðar eða ekki, og í slíku máli verður heldur ekki úr því skorið hvort réttur sá sem sagður er standa þinglýsingu í vegi sé fyrir hendi eða ekki. Af framangreindu leiðir að við úrlausn þess, hvort fallist verður á kröfur sóknaraðila um leiðréttingu þinglýsingar stofnskjalsins með því að afmá það úr þinglýsingabók á grundvelli 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga, verður ekki lagt mat á þann efnislega ágreining sem er milli málsaðila um landamerki og eignarhald og áður er gerð grein fyrir. Koma sjónarmið málsaðila í þeim efnum því ekki til skoðunar í málinu í tengslum við kröfu sóknaraðila um leiðréttingu á þinglýsingu stofnskjalsins.
Þegar stofnskjalið 18. maí 2006 var afhent til þinglýsingar 31. maí sama ár giltu um stofnskjöl fasteigna og þinglýsingu þeirra meðal annars ákvæði 14. og 17. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og ákvæði 2. 4. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga svo sem þeim var breytt með 9. gr. laga nr. 45/2000. Var það skilyrði samkvæmt ákvæðum þessum, að nýja fasteign skyldi stofna með þinglýsingu stofnskjals og þar tilgreint hvað skyldi koma fram í skjalinu. Voru ákvæði 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga efnislega samhljóða ákvæðum 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna um það hvað skyldi koma fram í stofnskjali, með þeirri undantekningu einni að samkvæmt f. lið 14. gr. síðarnefndu laganna skyldi í stofnskjali tilgreina nafn og kennitölu eiganda lands. Eins og áður er rakið var öllum þessum formskilyrðum fyrir þinglýsingu stofnskjalsins 18. maí 2006 fullnægt þegar það var afhent til þinglýsingar. Sóknaraðilar hafa ekki bent á ný atriði sem leitt geta til þess nú að þinglýsingarstjóri, innan þeirra marka sem honum er heimilt að breyta fyrri ákvörðun, endurskoði þá ákvörðun sína frá árinu 2007 að hafna kröfu sóknaraðila um að leiðrétta þinglýsingu stofnskjalsins með því að afmá það úr þinglýsingabók. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að hafna því að leggja fyrir sýslumanninn á Hvolsvelli að afmá úr þinglýsingabók stofnskjalið 18. maí 2006.
Málsóknarheimild sú sem mælt er fyrir um í 3. gr. þinglýsingalaga er sérstaks eðlis og veitir þeim sem telur á sér brotið með ákvörðun þinglýsingarstjóra heimild til að leita úrlausnar dómtóla um þá ákvörðun. Í slíku máli verður eins og áður segir ekki með bindandi hætti kveðið á um efnisleg réttindi að baki skjali, heldur aðeins hvort þinglýsingarstjóri hafi farið að lögum þegar hann tók ákvörðun sína. Þessi málsóknarheimild girðir ekki fyrir að felldur verði síðar dómur í einkamáli sem rekið er milli tveggja eða fleiri aðila til að fá leyst úr ágreiningi um efnisleg réttindi þeirra, og slíkur dómur kann eðli máls samkvæmt að leiða til þess að breytt verði í kjölfarið þinglýsingu í samræmi við niðurstöðu hans.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Anna Sigrún Guðmundsóttir og Vilhjálmur Guðmundsson, greiði varnaraðilum, Vorlandi ehf. og Þórshúsum ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður
Héraðsdóms Suðurlands 23. maí 2012.
Með bréfi dagsettu 27. júní 2011 kærði Karl Axelsson
hrl., fyrir hönd Önnu Sigrúnar Guðmundsdóttur, kt.
190353-5759, og Vilhjálms Guðmundssonar, kt.
230256-2179, úrskurð þinglýsingarstjóra sýslumannsins á Hvolsvelli frá 1. júní
2001, þar sem hafnað hafi verið að afmá úr þinglýsingabók stofnskjal með
þinglýsinganúmerinu 895/2006.
Eru dómkröfur sóknaraðila þær að að lagt verði fyrir þinglýsingarstjóra
sýslumannsembættisins á Hvolsvelli að stofnskjal fyrir eignirnar Háfshjáleiga land 1, landnr. 207724, Háfshjáleiga
land 2, landnr 207725, Háfshjáleiga land 3, landnr 207726, Háfshjáleiga land 4, landnr
207727 og Háfshjáleiga land 5, landnr 207728 verði afmáð úr þinglýsingabók.
Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi þinglýsingarstjórans á Hvolsvelli
eða þess aðila sem telst varnaraðili málsins fyrir héraðsdómi.
Varnaraðilar
eru Vorland ehf. og Þórshús ehf.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi,
en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast varnaraðilar í öllum tilvikum
málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi
og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu varnaraðila til
að greiða virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Málið var þingfest þann 22. september 2011. Að ósk sóknaraðila, sem ekki sætti andmælum,
var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram í málinu og fór aðalmeðferð
málsins fram 28. mars 2012 og var málið tekið til úrskurðar að henni lokinni.
Málavextir.
Sóknaraðilar
lýsa málavöxtum svo að þeir séu eigendur 33,3% eignarhlutar í jörðinni Háfshól
í Rangárþingi ytra, landnr. 165383. Með bréfi, dags. 15. apríl 2011, hafi
sóknaraðilar óskað eftir því við þinglýsingarstjóra sýslumannsins á Hvolsvelli
að fimm tiltekin stofnskjöl fyrir lóðir í Háfshverfi í Rangárþingi ytra yrðu
afmáð úr þinglýsingabók. Erindi þessu
hafi verið hafnað með ákvörðun þinglýsingarstjóra sem hafi borist sóknaraðilum
3. júní 2011. Í ákvörðun þinglýsingarstjóra 1. júní 2011 hafi falist úrlausn um
þinglýsingu sem hægt sé að bera undir héraðsdóm, sbr. 3. gr. þinglýsingalaga
nr. 39/1978.
Þann
18. maí 2006 hafi fyrirsvarsmenn varnaraðila Vorlands ehf., þau Þór Fannar
Ólafsson og Stefanía Anna Gunnarsdóttir, undirritað stofnskjal þar sem stofnaðar hafi verið fimm tilteknar
landspildur í Háfshverfi í Rangárþingi ytra. Á þeim tíma hafi varnaraðili
Vorland ehf. verið eigandi jarðarinnar Háfshjáleiga. Á stofnskjalinu komi fram
að umræddar lóðir væru teknar úr landi Háfshjáleigu, landnr.
165382. Hinar nýju spildur hafi fengið landnúmerin 207724, 207725, 207726,
207727 og 207728. Kveða sóknaraðilar fjórar fyrsttöldu spildurnar liggja
suðvestan við þjóðveginn út í Háfshverfi, sunnan við gamla farveg
Kálfalækjar. Segir að þær séu hver um
sig milli 12 og 16 hektarar. Spilda 5, landnr. 207728
liggi hins vegar upp með bökkum Þjórsár og sé alls 97 hektarar.
Þá
lýsa sóknaraðilar því að með afsali, dags. 31. júlí 2008, hafi Vélfang ehf. (nú
þrotabú VF45 ehf) eignast
spildu Háfshjáleigu land, landnr. 207724. Með
afsölum, dags. 22. desember 2010 hafi Vorland ehf. selt spildur nr. 207725,
207726, 207727 og 207728 til Þórshúsa ehf.
Þór Fannar Ólafsson og Stefanía Anna Gunnarsdóttir bændur í Háfshjáleigu
hafi undirritað afsölin fyrir hönd varnaraðila Vorlands ehf., en m.a. hafi
Sindri Aron Þórsson og Víðir Reyr Þórsson, synir Þórs Fannars undirritað
afsalið fyrir hönd varnaraðila Þórshúss ehf.
Þá hafi sérstök yfirlýsing um framsalið verið undirrituð samhliða
afsalinu og yfirlýsingunni verið þinglýst samhliða afsölunum. Í umræddri
yfirlýsingu hafi verið tekið fram að:
„Vorland ehf. framselur hér með Þórshúsi
ehf. kt. 411007-0140, allar kröfur um bætur sem
félagið kann að eiga á hendur eigendum Háfshóls, Hala og Háfi 1 vegna
ágreinings um landamerki...[...].“
Þá segir að
núverandi stjórnarformaður varnaraðila Þórshúsa ehf. sé Víðir Reyr Þórsson og
framkvæmdastjóri Þór Fannar Ólafsson.
Kveða
sóknaraðilar að með kaupsamningi, dags. 30. ágúst 2011, hafi Helgi Sigurðsson, kt. 191259-2709 og Anna Marín Kristjánsdóttir, kt. 200761-6699, orðið eigendur að spildu Háfshjáleigu
land, landnr. 207727, en á veðbókarvottorði
eignarinnar sé getið um þau málaferli milli jarða í Háfshverfi og taka m.a. til
spildunnar.
Þá
geta sóknaraðilar þess að 26. nóvember 2009 hafi gengið dómur í Hæstarétti
vegna ágreinings um landamerki í Háfshverfi. Upphaflegir stefnendur í málinu
hafi verið eigendur jarðanna Hala og Háfshóls og málinu verið beint að eigendum
Háfs og Háfshjáleigu. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að dómkrafa eigenda
Hala og Háfshóls, sem hafi falið í sér tiltekna landamerkjalínu, hafi ekki
verið tekin til greina. Af hálfu eigenda Háfs og Háfshjáleigu hafi hins vegar
ekki verið gagnstefnt í málinu og því engin niðurstaða fengist um eignarhald á
því landi sem hér sé til umfjöllunnar.
Er málavaxtalýsingu sóknaraðila ekki sérstaklega mótmælt
af hálfu varnaraðila. Af hálfu
varnaraðila kemur fram að varnaraðili, Þórshús ehf., sé eigandi að þremur
spildum, sem krafa sóknaraðila tekur til, og leiði Þórshús ehf. rétt sinn frá
varnaraðila, Vorlandi ehf. Nánar tiltekið sé varnaraðili Þórshús ehf.
þinglýstur eigandi að Háfshjáleigu land 2, landnúmer 207725, Háfshjáleigu land
3, landnúmer 207726, og Háfshjáleigu land 5, landnúmer 207728. Háfshóll og
tilgreint land úr Háfshjáleigu myndi ásamt Háfi og Hala svokallað Háfshverfi.
Jörðin Háfur sé landnámsjörð en hinar jarðirnar þrjár hafi verið byggðar út úr
henni og síðar skipt með nánar tilgreindum hætti.
Með framangreindu stofnskjali 18. maí 2006 hafi varnaraðili Vorland ehf.,
sem þá hafi verið eigandi Háfshjáleigu, afmarkað umræddar fimm spildur, sem
nefndar hafi verið Háfshjáleiga land 1-5.
Hafi landskiptin verið samþykkt af sveitarstjórn 24. maí 2006 og
staðfest af landbúnaðarráðuneytinu 30. maí sama ár. Sóknaraðilar hefi gert
tilraunir til þess að fá þinglýsingu stofnskjals varnaraðila afmáða úr
fasteignabók á þessum tíma. Með bréfi sýslumannsins á Hvolsvelli 21. mars 2007
hafi verið hafnað að leiðrétta þinglýsingu greinds skjals með vísan til 1. mgr.
27. gr. þinglýsingalaga nr. 39, 1978 en sóknaraðila boðið að koma á framfæri
röksemdum með vísan til 2. mgr. 27. gr. sömu laga. Þáverandi lögmaður
sóknaraðila hafi með bréfi, dags. 30. mars 2007, krafist þess að sýslumaðurinn
á Hvolsvelli þinglýsti kröfu um leiðréttingu vegna þinglýsingar
stofnskjalsins. Hins vegar hafi
sóknaraðilar ekki fært fram rök fyrir kröfum sínum um þinglýsingu athugasemdar
í fasteignabók viðkomandi eigna innan þess frests sem sýslumaður hafi veitt
þeim. Eftir þetta hafi sóknaraðilar
reynt að hnekkja umræddum landskiptum með því að beina athugasemdum til
sveitarstjórnar Rangárþings ytra sem og landbúnaðarráðuneytisins vegna
staðfestingar þess á landskiptunum. Með bréfi sveitarstjóra Rangárþings ytra 2.
apríl 2007 hafi þeim kröfum sóknaraðila verið hafnað. Jafnframt hafi landbúnaðarráðuneytið hafnað
því þann 14. júní 2007 að afturkalla eða ógilda ákvörðun sína varðandi umrædd
landskipti. Sóknaraðilar hafi eftir þetta beint kæru til
félagsmálaráðuneytisins hinn 28. júní 2007 vegna ákvörðunar Rangárþings ytra,
en félagsmálaráðuneytið hafi hafnað kröfu sóknaraðila um þetta með úrskurði 8.
ágúst 2007 og bent á að ágreining um eignarheimildir að umræddu landi yrði að
útkljá fyrir dómstólum.
Vegna framangreinds dómsmáls, sem dæmt var í Hæstarétti
26. nóvember 2009 er tekið fram af hálfu varnaraðila að með því hafi verið skorið
úr þrætu sóknaraðila og varnaraðila, Vorlands ehf., varðandi landamerki og
eignarhald. Af hálfu sóknaraðila og sameigenda þeirra sem og eiganda Hala hafi
kröfur verið settar fram í fjórum kröfuliðum, sem lotið hafi að tiltekinni
afmörkun á landi sem og kröfu um viðurkenningu á eignarráðum þeirra að landi í
tilteknum eignarhlutföllum, sem þau hafi talið sameignarland
Háfshverfisjarðanna. Greindir kröfuliðir og afmörkun þess lands, sem
sóknaraðilar hafi talið tilheyra sér,
annað hvort að öllu leyti eða í tilteknum hlutföllum, hafi tekið til þeirra
fimm spildna, sem varnaraðili, Vorland ehf., hafði afmarkað með stofnskjali.
Kröfuliðir sóknaraðila tölusettir 1, 2 og 3 hafi skarast við spildu nr. 5 en
kröfuliður 4 skarast við spildur nr. 2, 3 og 4.
Varnaraðili, Vorland ehf., hafi í málinu byggt á því að
við afmörkun sína á umræddum fimm spildum hafi verið farið eftir fyrirmælum
landskiptagerðar frá 25. júní 1929 sem og framkvæmd mála í kjölfar skiptanna,
sem og að umrætt land tilheyrði Háfshjáleigu á grundvelli skiptagerðar frá 23.
júlí 1951. Efnislega hafi því verið uppi ágreiningur um túlkun
landskiptagerðarinnar frá 1929, þ.e. hvernig bæri að afmarka það land, sem
skiptin tóku til, og hverjum tilheyrði landið.
Niðurstaða Hæstaréttar hafi aðallega byggt á því að kröfur sóknaraðila,
um landamerki eða eignarhald, gætu ekki átt sér stoð í orðalagi
landskiptagerðarinnar frá 1929. Með dómi Hæstaréttar hafi því verið tekin
efnisleg afstaða til eignarréttartilkalls sóknaraðila til þess lands, sem
stofnskjalið tók til, og kröfum sóknaraðila hafnað.
Eftir þetta hafi sóknaraðilar aftur hafið málarekstur
sinn með þeim kröfum til sýslumanns sem nú séu orðnar að þessu dómsmáli.
Málsástæður og
lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðilar skipta málsástæðum
sínum í tvennt, þ.e. annars vegar varðandi spildur nr. 1-4 og hins vegar
varðandi spildu nr. 5. Verður þeirri
skiptingu fylgt hér.
Varðandi spildurnar Háfshjáleiga land 1 landnr. 207724, Háfshjáleiga land 2, landnr.
207724 Háfshjáleiga land 3, landnr. 20776 og
Háfshjáleiga land 4, landnr. 207727 vísa sóknaraðilar
til þess að þær spildur liggi suðvestan við þjóðveginn út í Háfshverfi, sunnan
við gamla farveg Kálfalækjar. Land
umræddra fjögurra spildna sé að stærstum hluta úr óskiptu sameignarlandi
jarðanna Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu. Þetta verði leitt af
þinglýstum gögnum og er sérstaklega vísað til landskiptagerðar fyrir
Háfshverfisjarðir frá 25. júní 1929. Þetta leiði enn fremur af dómi Hæstaréttar
í máli nr. 431/1998.
Með
því að bera saman framangreind þinglýst gögn hafi þinglýsingarstjóra mátt vera
ljóst að stofnskjalið væri rangt bæði að efni og formi. Það standist ekki að
umræddu landi hafi einungis verið skipt úr landi Háfshjáleigu. Stofnskjalið
hafi því ekki verið gefið út af
réttmætum eigendum landsins, sbr. ákvæði þágildandi f. liðar 14. gr. laga nr.
6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þá hafi upprunalandið verið rangt og
stofnskjalið því í bága við c. lið 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna
og þágildandi ákvæðis c. liðar 2. mgr. 20. gr. þinglýsingarlaga nr. 38/1978.
Þetta
leiði til þess að afmá beri stofnskjalið úr bókum sýslumanns, sbr. ákvæði 6, 7.
og 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Varðandi Háfshjáleigu land 5, landnr.
207728 vísa sóknaraðilar til þess að spildan sé að stærstu leyti skipt úr landi
Háfshóls en að hluta úr landi jarðarinnar Hala.
Þetta verði m.a. leitt af skiptagjörð fyrir jörðina Háfshól frá 18. júní
1933 og þinglýstu afsali fyrir jörðina, dags. 5. júní 1934, en önnur gögn leiði
til sömu niðurstöðu. Með einfaldri skoðun á hinum þinglýstu gögnum hafi
þinglýsingarstjóra mátt vera ljóst að útilokað væri að hin 97 ha. spilda væri
að öllu leyti úr landi Háfshjáleigu. Auk þess hafi þinglýsingarstjóri boðað til
sérstaks sáttarfundar árið 2005 með jarðeigendum í Háfshverfi vegna þess lands
sem spilda 5 tekur yfir. Sá fundur hafi farið fram 20. desember 2005 án þess að
sættir tækjust. Þinglýsingarstjóra hafi þannig verið full kunnugt um að
ágreiningur væri með aðilum um eignarhald á landinu.
Veigamesta
atriðið varðandi það hvort stofnskjalið hafi uppfyllt formreglur laga nr.
6/2001 og þinglýsingarlaga nr. 38/1978 sé þó sú staðreynd að allir
hlutaðeigandi aðilar séu sammála um að stofnskjalið hafi ekki verið undirritað
af öllum eigendum upprunalandsins. Óumdeilt sé að þáverandi eigandi
Háfshjáleigu, Vorland ehf., hafi ekki haldið því fram að hin geysistóra landspilda
sé einungis úr landi þeirrar jarðar. Þvert á móti hafi eigendur Háfshjáleigu
alltaf haldið því fram að spildan hafi einnig tilheyrt jörðinni Háfi, landnr. 165384. Sé enginn ágreiningur um að stofnskjalið
hafi ekki verið undirritað af öllum landeigendum. Sýslumannsembættið á
Hvolsvelli hafi því í besta falli verið blekkt þegar stofnskjalið hafi verið
látið bera það með sér að spildan væri einungis úr landi Háfshjáleigu, landnr. 165382.
Vísa
sóknaraðilar til fulyrðinga sem fram hafi komið hjá
varnaraðila Vorlandi ehf., sem gefið hafi út stofnskjalið, en í greinargerð
Vorlands ehf. í máli E-527/2007 fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem áður er vikið
að, hafi sagt:
„Spildur 1-4 voru úr landi Háfshjáleigu
en spilda nr. 5 úr sameiginlegu landi Háfs og Háfshjáleigu og er sú spilda í
sameign stefnda og Ólafs Þórarinssonar
[...]
Það er einungis Ólafur Þórarinsson sem
getur talið til réttinda yfir spildu nr. 5 með stefnda [Vorlandi]“
Þá minna
sóknaraðilar á að þegar ofangreindar landspildur voru stofnaðar í þinglýsingarbók
og Landskrá fasteigna hafi Ólafur Þórarinsson verið eigandi jarðarinnar Háfs. Í
dómi héraðsdóms í ofangreindu máli hafi m.a. sagt:
„Stefndi Vorland segist vera eigandi
Háfshjáleigu og þann 18. maí 2006 hafi hann afmarkað fimm spildur sem nefndar
hafi verið Háfshjáleiga, land 1-5. Hafi spildur 1-4 verið úr landi
Háfshjáleigu en spilda nr. 5 úr sameiginlegu landi Háfs og Háfshjáleigu og
sé sú spilda í sameign stefnda og Ólafs Þórarinssonar. „
Kveðast
sóknaraðilar ósammála umræddri staðhæfingu Vorlands ehf. í
greinargerðinni. Telja sóknaraðilar að
umrætt land sé að stærstum hluta úr landi Háfshóls og hluta jarðarinnar Hala.
Óumdeilt sé hins vegar að spilda 5 hafi ekki tilheyrt Háfshjáleigu einni þegar
umrætt stofnskjal var gefið út.
Ítreka
sóknaraðilar að fyrirsvarsmenn Vorlands ehf., hafi aldrei reynt að halda því
fram að land sem spilda 5 tekur yfir sé úr landi Háfshjáleigu eða hafi komið í
hlut þeirrar jarðar við landskipti í Háfshverfi. Málatilbúnaðurinn hafi hins
vegar verið sá að allt land í Háfshverfi tilheyri landnámsjörðinni Háfi (og
Háfshjáleigu) nema það hafi sérstaklega verið lagt til annarra jarða í
hverfinu. Hæstiréttur hafi hins vegar tekið
afstöðu til þessarar fullyrðingar í máli nr. 431/1998 sem varðaði
eignarhald á Háfsfjöru. Í niðurstöðu héraðsdóms Suðurlands sem staðfestur var
með vísan til forsendna hafi komið fram eftirfarandi:
“Þegar allt þetta er virt, verður litið
svo á að stefndu [eigendur Hala og Háfshóls] hafi tekist að færa fullgild rök
fyrir því, að landsvæði þau innan marka Háfshverfisins, sem ekki hafa verið
lögð til einstakra jarða, hafi verið í óskiptri sameign jarðanna í
Háfshverfinu. Í samræmi við þetta verður að sýkna stefndu af aðalkröfu
stefnenda í máli þessu.”
Sé þannig
vafalaust að ofangreint stofnskjal fyrir Háfshjáleigu
land 5 hafi ekki uppfyllt formreglur þágildandi ákvæðis 2. mgr. 20. gr.
þinglýsingalaga. Í fyrsta lagi segir í c lið umrædds ákvæðis að binda skyldi
þinglýsingu stofnskjals því skilyrði að þar kæmi fram ,,landnúmer þess lands sem lóð er tekin úr.“ Gegni sama máli um
ákvæði 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Ljóst sé fyrir liggi afdráttarlaus viðurkenning þess aðila sem gaf
út umrætt stofnskjal að landið sem stofnað var hafi tilheyrt fleiri jörðum en
Háfshjáleigu. Sé ljóst að umrætt atriði varði form viðkomandi skjals en ekki
efni enda ekki getið um öll landnúmer sem máli skipti og undirritun skorti frá
öllum landeigendum. Stofnskjalið hafi því ekki verið gefið út af réttmætum
eigendum landsins, sbr. ákvæði þágildandi f. liðar 14. gr. laga nr. 6/2001 um
skráningu og mat fasteigna.
Samkvæmt
27. gr. þinglýsingarlaga nr. 38/1978 hafi þinglýsingastjóra borið með vísan til
27. gr. þinglýsingarlaga nr. 38/1978 að verða við erindi sóknaraðila frá 15.
apríl 2011 og leiðrétta þinglýsingarbók og afmá úr henni stofnskjal með
þinglýsingarnúmerið 895/2006. Geti varnaraðilar ekki byggt á því að núverandi
eigendur umræddra spildna hafi verið grandlausir enda beri þinglýst gögn
skýrlega með sér að ágreiningur sé um eignarhaldið og vísa sóknaraðilar í því
efni til þinglýstrar yfirlýsingar um framsal fjögurra spildna til Þórshúsa
ehf., þinglýst kaupsamnings Vélfangs ehf. (nú þrotabú VF45
ehf). og þinglýsingar stefnu inn á eignirnar. Þá
benda sóknaraðilar á að sömu aðilar hafi frá upphafi verið fyrirsvarsmenn
Vorlands ehf. og Þórhúsa ehf. Þór Fannar Ólafsson
bóndi í Háfshjáleigu hafi t.d. frá upphafi verið framkvæmdastjóri Þórshúsa ehf.
Málsástæður og
lagarök varnaraðila.
Varnaraðilar
kveða ágreining málsins í grundvallaratriðum snúast um það hvort umrædd
þinglýsing 31. maí 2006 á stofnskjali fyrir margnefndum fimm spildum hafi verið
rétt eða ekki miðað við þau gögn, sem þá lágu fyrir, og hvort sýslumanni hafi
borið að afmá stofnskjalið með ákvörðun sinni 3. júní 2011. Í þessu máli verði ekki leyst úr efnisatvikum
að baki meintu eignaréttartilkalli eða öðrum kröfum sóknaraðila til þessara
spildna. Varnaraðilar byggja á að
ákvörðun sýslumanns um þinglýsingu skjalsins hafi verið rétt sem og að hafna
kröfu sóknaraðila um að skjalið yrði afmáð.
Varnaraðilar
byggja á því að vísa beri málinu frá dómi og byggja á því að á árinu 2007 hafi
sóknaraðilar krafist þess hjá sýslumanninum á Hvolsvelli að stofnskjalið yrði
afmáð úr bókum embættisins. Þeirri kröfu
hafi sýslumaður hafnað 21. mars 2007. Báðum sóknaraðilum hafi verið kynnt sú
úrlausn. Sú úrlausn hafi, af sóknaraðilum, ekki verið borin undir héraðsdóm
skv. 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr.
39/1978. Ekki sé þeim nú unnt að setja aftur fram sömu kröfu til sýslumanns til
að fá fram sömu úrlausn og áður til þess eins að búa til nýjan kærufrest.
Þá
vísa varnaraðilar til þess að nefndar spildur hafi gengið kaupum og sölum frá
varnaraðila, Vorlandi ehf., til grandlausra rétthafa í skilningi
þinglýsingalaga. Kaupsamningum og afsölum hafi verið þinglýst í fasteignabók
viðkomandi fasteigna. Umfjöllun um hvort rétt eða rangt hafi verið af
þinglýsingarstjóra að þinglýsa umræddum stofnskjölum á árinu 2006 geti engin
áhrif haft á gildi þeirrar úrlausnar að þinglýsa kaupsamningi og afsali vegna
spildnanna. Hafi sóknaraðili ekki gert kröfur um afmáningu þeirra skjala eða
sett fram athugasemdir til sýslumanns með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr.
39/1978. hafi því sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af því að fjallað sé um
þá ákvörðun sýslumanns 31. maí 2006 að þinglýsa umræddum stofnskjölum, sbr. 1.
mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Um
lögvarða hagsmuni í þessu samhengi, sbr. 3. gr. þinglýsingalaga, fari
skv. almennum reglum einkamálaréttarfars. Séu slíkir hagsmunir ekki fyrir hendi
í málinu. Þá benda varnaraðilar á að
þegar hafi verið dæmt um einkaréttarlegt tilkall sóknaraaðila
til þess sama landnæðis og stofnskjalið taki til. Því beri að vísa málinu frá
með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr.91/1991.
Verði
ekki fallist á frávísun kveðast varnaraðilar byggja á því að hafna beri öllum
kröfum sóknaraðila, bæði á grundvelli þess sem fyrr segir um úrlausn sýslumanns
frá 21. mars 2007 sem og eftirfarandi.
Í
fyrsta lagi vísa varnaraðilar til þess að núverandi eigendur umræddra fimm
spildna séu grandlausir í skilningi þinglýsingalaga. Varnaraðili, Þórshús ehf., byggir á því að
hann sem lögpersóna sé grandlaus og þinglýstur framsalshafi spildna nr. 2, 3 og
5, samkvæmt þinglýstu afsali frá 22. desember 2010. Við þær kringumstæðum séu
engin lagaskilyrði til að fallast á kröfur sóknaraðila um afmáningu stofnskjals
sem þinglýst var 31. maí 2006. Sóknaraðili hefði eftir atvikum getað haft uppi
viðurkenningarkröfu eða eftir atvikum skaðabótakröfu á hendur varnaraðila,
Vorlandi ehf., en reglur eignarréttar - traustfangsreglur og þinglýsingarreglur
standi í vegi fyrir því að unnt sé að fallast á slíka kröfu gagnvart
grandlausum þriðja manni, sbr. 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 33. gr.
þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Þá
byggja varnaraðilar á því málsástæður sóknaraðila um að spildurnar fimm séu að
stærstum hluta úr óskiptu landi Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu
standist ekki. Þá standist ekki að að
a.m.k. hafi eigandi Háfs þurft að undirrita stofnskjalið og þess vegna hefði sýslumanni borið að fallast á kröfur
sóknaraðila um afmáningu stofnskjalsins.
Þessum málsástæðum sóknaraðila vísa varnaraðilar á bug og byggja á því
að sýslumanni hafi verið rétt að þinglýsa stofnskjalinu 31. maí 2006, enda hafi
verið fullnægt fyrirmælum þágildandi 2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 6. gr. laga nr.
39/1978 sem og 12. og 13. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Þegar stofnskjalið hafi
verið afhent til þinglýsingar hafi það verið áritað af hálfu sveitarstjóra
Rangárþings ytra um staðfestingu landskipta samkvæmt 13. gr. jarðalaga nr.
81/2004 auk þess sem því hafi fylgt bréf landbúnaðarráðuneytisins, dags. 30.
maí 2006, þar sem staðfest hafi verið sú skipting á jörðinni Háfshjáleigu, sem
hafi falist í stofnskjalinu, og að lögbýlisréttur fylgdi áfram jörðinni
Háfshjáleigu. Hafi því að öllu leyti verið farið að fyrirmælum nefndra laga.
Ljóst
sé af málatilbúnaði sóknaraðila að sóknaraðilar byggi fyrst og fremst á því að
sýslumaður hafi átt að skera úr um efnislegt inntak meintra réttinda
sóknaraðila. Úr því verði hins vegar ekki skorið í máli þessu. Sóknaraðilar
verði því fyrst að fara í venjulegt einkamál til viðurkenningar á meintum
réttindum sínum og efnislegu inntaki þeirra og/eða til ógildingar á
fyrirliggjandi heimildarskjölum, hvort heldur sem er stofnskjali eða síðari
kaupsamningum og afsölum.
Vísa
varnaraðilar til þess að fyrir liggi skýr dómur Hæstaréttar í máli nr. 72/2009
sem staðfesti að sóknaraðilar geti ekki sýnt fram á eignarréttarlegt tilkall
til þess landsvæðis, sem stofnskjalið taki til.
Ekki þurfi frekari sönnunar við fyrir því að sóknaraðilar geti ekki gert
kröfu um afmáningu skjalsins, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Umrætt hæstaréttarmál hafi tekið til sama
lands og stofnskjalið tilgreini. Óyggjandi sönnur fyrir efnislegum rétti
varnaraðila séu því ljósar. Ekki þurfi meira til. Þinglýsingarstjóri hafi ekki
getað tekið ákvörðun í andstöðu við
umræddan hæstaréttardóm enda ekki hans hlutverk að endurskoða dóm Hæstaréttar.
Beri
því að hafna kröfum sóknaraðila.
Vegna
þess sem segi í greinargerð sóknaraðila um meint efnisleg réttindi þeirra til
umræddra landspildna taka varnaraðilar fram umrætt land tilheyri þeim ekki og
hafi varnaraðilar ekki sýnt fram á eignarréttarlegt tilkall sitt. Kröfum þeirra um þetta hafi verið hafnað með
áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 72/2009. Sé því ljóst að sóknaraðilar
geti engar kröfur gert hvað varðar greint stofnskjal, þ.e. að það taki til
lands í eigu þeirra. Í það minnsta hafi
verið rétt af sýslumanni að hafna kröfu sóknaraðila um að skjalið yrði afmáð.
Byggja
varnaraðilar á því að sóknaraðilar geti ekki gert tilkall til spildnanna á
grundvelli landskiptagerðarinnar frá 25. júní 1929. Kröfum þeirra um það hafi
verið hafnað fyrir dómi. Hafi verið gerð
og undirrituð sátt 20. janúar 1932 og aðilar látið þess sérstaklega getið að
með henni væri lokið öllum ágreiningi um landamerk nefndra jarða og full og
óhagganleg sátt komin milli þeirra um allt hvað varðaði landamerki. Hafi þannig
verið búið að semja um það land sem hver jörð í torfunni fengi í sinn hlut og
afmörkun lands. Eins og staðfest hafi verið í nefndum dómi Hæstaréttar komi
ekki fram í umræddum heimildum að hið umþrætta landsvæði tilheyri eða hafi
komið í hlut Háfshóls við skiptin. Minna varnaraðilar á að kröfum sóknaraðila
um að umrætt landsvæði væri sameignarland Háfshverfisjarðanna í tilgreindum
hlutföllum hafi verið hafnað.
Það
land sem stofnskjalið tók til hafi tilheyrt
Háfi og Háfshjáleigu í kjölfar skiptanna 1929 og afmarkað með girðingu,
sbr. 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919. Landinu hafi svo verið skipt innbyrðis milli
Háfs og Háfshjáleigu 1951 og komið í hlut Háfshjáleigu. Við hina formlegu afgreiðslu sýslumanns við
þinglýsingu stofnskjalsins eða ákvörðun hans 3. júní 2011 skipti engu að
varnaraðili, Vorland ehf., hafi í dómsmáli því sem sóknaraðilar vísa til,
tilgreint að faðir eiganda Vorlands ehf. ætti hlutdeild í því landi sem
tilgreint sé sem spilda 5 á grundvelli munnlegs samkomulags þeirra. Það geti
engu breytt engu um afgreiðslu og úrlausn sýslumanns. Hið munnlega samkomulag eiganda Vorlands ehf.
og Ólafs Þórarinssonar hafi aðeins verið milli þeirra og snúið að innbyrðis
hagnýtingu Vorlands ehf. og Ólafs á landinu.
Það geti engu máli skipt út á við og geti síst skapað sóknaraðilum
einhvern rétt eða tilkall til þessa lands eða hnekkt úrlausn sýslumanns. Þá sé
óumdeilt samkvæmt nefndum dómi Hæstaréttar að sóknaraðilar eigi ekki tilkall
til og geta ekki sýnt fram á tilkall til hins umþrætta landsvæðis á grundvelli
skiptagerðarinnar frá 1929.
Ákvörðun
sýslumanns um að þinglýsa umræddum skjölum, sem og sú afsgreiðsla
sýslumanns að hafna kröfum sóknaraðila um að skjölin yrðu afmáð hafi verið í
samræmi við fyrirmæli þinglýsingalaga og þinglýsingaframkvæmd.
Sóknaraðilar
hafi ekki sýnt fram á að úrlausnir sýslumanns 31. maí 2006 og/eða 3. júní 2011
hafi farið í bága við ákvæði þinglýsinga- eða jarðalaga. Ekki hafi heldur verið
sýnt fram á að landið, sem krafa þeirra tekur til, hafi fallið í þeirra hlut
við landskiptagerðina árið 1929 eða 1932.
Þá hafi sóknaraðilar hvorki fært fullnægjandi
sönnur á staðhæfingu sína um að mistök
hafi orðið, í skilningi 2. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga, við þinglýsingu
stofnskjalsins og síðari kaupsamninga og afsala varnaraðila né fært veigamikil rök fyrir þeirri
staðhæfingu sinni, eins og áskilið sé í umræddu lagaákvæði. Minna varnaraðilar á veigamikla hagsmuni sína
sem og grandleysi þeirra um hin meintu og óljósu réttindi sóknaraðila.
Varnaraðilar
vísa til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum 2., 3., 2. mgr. 6. gr., 2. mgr.
7., 18., 19., 24., 25., 27. og 33. gr. laganna, rannsóknarskyldu
þinglýsingarstjóra, 72. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944,
sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og meginreglna eigna- og
fasteignakauparéttar. Þá er einnig byggt á 25. gr. og 116. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa er byggð á 129. og 130. gr. laga nr.
91/1991.
Niðurstaða.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að máli þessu verði
vísað frá dómi. Í því efni vísa varnaraðilar
til þess að ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 1. júní 2011 sé efnislega sama
ákvörðun og ákvörðun þinglýsingarstjóra frá 21. mars 2007 og sé því löngu
liðinn fjögurra vikna frestur sá sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr.
þinglýsingalaga nr. 39/1978. Á þetta
fellst dómurinn ekki. Sú ákvörðun
þinglýsingastjóra sem krafist er breytinga á er frá 1. júní 2011, en ekki frá
21. mars 2011. Verður ekki séð að neinu
breyti að nefndar ákvarðanir séu um sama málefni, en varnaraðilar hafa ekki
rennt stoðum undir það að lög girði fyrir að síðari ákvörðun þinglýsingarstjóra
um sama málefni verði borin undir dóm.
Ákvörðun þinglýsingarstjóra 1. júní 2011 bars sóknaraðilum 3. júní og
var hún borin undir héraðsdóm með bréfi 27. júní 2011, sem barst dóminum 30. júní
2011. Var þá ekki liðinn umræddur
frestur.
Í annan stað byggja varnaraðilar á því að sóknaraðilar
hafi ekki lögvarða hagsmuni af málarekstri þessum, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga
nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í
málatilbúnaði sóknaraðila kemur berlega fram að þau telja að umræddum spildum
hafi í raun verið skipt út úr landi jarðarinnar Háfshóls, sem óumdeilt er að
þau eiga að hluta. Að þessu gættu verður
ekki fallist á að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að bera mál
þetta undir dóminn. Getur ekki breytt
þessu að spildurnar kunni að hafa skipt um eigendur frá því umræddum skjölum
var þinglýst.
Verður því frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.
Til stuðnings kröfum sínum hvað varðar spildur nr. 1 5
vísa sóknaraðilar til þess að land spildnanna sé að stærstum hluta úr óskiptu
sameignarlandi jarðanna Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu. Fái það ekki staðist að landinu hafi aðeins
verið skipt út úr landi Háfshjáleigu, en þar með hafi stofnskjalið ekki verið
gefið út af réttmætum eigendum landsins, sbr. ákvæði þágildandi f liðar 14. gr.
laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en jafnframt hafi þá
upprunalandið verið ranglega tilgreint og hafi því stofnskjalið einnig verið í
bága við c lið 14. gr. nefndra laga nr. 6/2001 sem og þágildandi c lið 2. mgr.
20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Ekki var á valdi þinglýsingarstjóra að skera úr um
eignarréttarlegan ágreining vegna umrædds lands, né heldur um landamerki,
heldur aðeins um það hvort skilyrði til þinglýsingar væru uppfyllt. Í þessu máli verður ekki skorið úr um annað
en það sem var á valdi þinglýsingarstjóra að taka ákvörðun um.
Í þágildandi f lið 14. gr. laga nr. 6/2001 kom fram að
tilgreina skyldi í stofnskjali nafn og kennitölu eiganda lands, en í umræddu
skjali, sem móttekið var til þinglýsingar 31. maí 2006, kemur fram að eigandi
landsins sé Vorland ehf. og er einnig getið kennitölu félagsins. Er þannig uppfyllt téð skilyrði.
Í nefndum c lið 14. gr. laga nr. 6/2001 er á um það
kveðið að í stofnskjali skuli koma fram „afmörkun fasteignar á
hnitsettum uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum, sé um
skiptingu eða samruna lands að ræða“.
Í hinu þinglýsta skjali kemur fram að stærð lóðanna komi fram í töflu og
lögun þeirra eins og fram komi á meðfylgjandi uppdrætti/uppdráttum, sbr.
fylgiskjal. Kemur jafnframt fram að
hnitsett lóðarblað fylgi. Kemur fram í
gögnum málsins að stofnun spildnanna hafi verið staðfest af hreppsráði
Rangárþings ytra sem og Landbúnaðarráðuneytinu.
Verður þannig talið að stofnskjalið uppfylli téð skilyrði, en ekki var á
valdi þinglýsingarstjóra að skera úr um eignarréttarlegan ágreining eða
ágreining um landamerki, enda getur þinglýsing ekki fært þinglýsingarbeiðanda
eignarrétt að landi sem hann ekki hafði fyrir þinglýsinguna.
Í þágildandi c lið 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr.
39/1978 var kveðið á um að binda skyldi þinglýsingu stofnskjals fasteignar því
skilyrði að fram kæmi landnúmer þes lands sem lóð
væri tekin úr. Í margnefndu stofnskjali
kemur fram að lóðirnar séu teknar úr landi nr. 165382 og er þannig skilyrðið
uppfyllt.
Vegna krafna sinna um afmáningu þinglýsingar vegna spildu
nr. 5, sem hefur landnúmerið 207728 og er að sögn langstærsta spildan, vísa
sóknaraðilar til þess að sú spilda sé að mestu skipt úr landi Háfshóls en að
hluta úr landi jarðarinnar Hala. Þetta
liði m.a. af skiptagjörð fyrir jörðina Háfshól frá 18. júní 1933 og þinglýstu
afsali fyrir jörðina, dags. 5. júní 1934.
Þá hafi stofnskjalið ekki fullnægt formreglum þar sem skjalið hafi ekki
verið undirritað af öllum eigendum upprunalandsins. Séu því ekki uppfyllt
skilyrði c liðar 2. mgr. 20. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og f liðar 14. gr.
laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.
Í margnefndu stofnskjali er því lýst að umræddri spildu
nr. 5 sé skipt úr landnúmeri 165382 og er þannig fullnægt skilyrðum c liðar 2.
mgr. 20. gr. þágildandi þinglýsingalaga nr. 39/1978. Þá kemur fram að landeigandi landsins sem
spildunni er skipt úr sé Vorland ehf. og er skjalið undirritað vegna
félagsins. Er þannig jafnframt uppfyllt
skilyrði þágildandi f liðar 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat
fasteigna. Breytir í þessu efni engu að
milli Vorlands ehf. og Ólafs Þórarinssonar hafi verið samkomulag eða samningur
um að Ólafur ætti í raun einhvern hluta landsins með Vorlandi ehf., eins og
leiddar hafa verið nokkrar líkur að, en þess er jafnframt að geta að þó að
sóknaraðilar hafi vísað til þess að samkvæmt fullyrðingum Vorlands ehf. sjálfs,
í öðru dómsmáli, væri Ólafur eigandi hluta landsins, þá kemur jafnframt fram að
sóknaraðilar séu ósammála því að Ólafur hafi átt einhvern hluta landsins. Geta þeir við svo búið ekki byggt á því að
Ólafur hafi verið eigandi landsins að einhverju leyti.
Ofansögðu til viðbótar hefur ekki verið sýnt fram á það
af hálfu sóknaraðila að þinglýsing margnefnds stofnskjals hafi gengið í berhögg
við þinglýstar eignarheimildir, hvorki þeirra sjálfra né annarra.
Verður þannig ekki fallist á kröfur sóknaraðila um að
afmá skuli þinglýsingu stofnskjalsins, hvorki hvað varðar spildur nr. 1 4, né
heldur hvað varðar spildu nr. 5.
Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða að sóknaraðilar
skuli greiða varnaraðilum málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 1. mgr.
115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan
úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Frávísunarkröfu varnaraðila, Vorlands ehf. og Þórshúss
ehf., er hafnað.
Kröfu sóknaraðila, Önnu Sigrúnar Guðmundsdóttur og
Vilhjálms Guðmundssonar, um að lagt verði fyrir þinglýsingarstjóra
sýslumannsembættisins á Hvolsvelli að afmá úr þinglýsingabók stofnskjal fyrir
eignirnar Háfshjáleiga land 1, landnr. 207724, Háfshjáleiga land 2, landnr
207725, Háfshjáleiga land 3, landnr 207726, Háfshjáleiga
land 4, landnr 207727 og Háfshjáleiga land 5, landnr 207728, er
hafnað.
Sóknaraðilar greiði varnaraðilum in
solidum kr. 693.094 í málskostnað.