Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/1998
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 11. mars 1999. |
|
Nr. 325/1998. |
Þrotabú Antons ehf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Sparisjóði vélstjóra (Erla S. Árnadóttir hrl.) og gagnsök |
Gjaldþrotaskipti. Riftun.
Félagið A var í viðskiptum við sparisjóðinn V. A seldi veitingarekstur sinn til B sem greiddi hluta kaupverðsins með því að gefa út skuldabréf beint til V. V keypti síðan veðskuldabréfið fyrir 6.831.159,60 kr. og var andvirði þess ráðstafað til lækkunar á skuld A við V. Bú A var tekið til gjaldþrotaskipta og höfðaði þrotabúið mál til riftunar þessara ráðstafana á grundvelli þess að V hafi fengið veðskuldabréfið afhent til greiðslu á skuldum A innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti. Í málinu var ekki sýnt fram á að samið hefði verið fyrir fram um að greiða ætti skuldir A með þessu formi og var fallist á að greiðsla hefði verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Talið var að greiðslan hafi ekki geta virst vera venjuleg og var krafa þrotabús A um riftun tekin til greina. Var V dæmdur til að greiða þrotabúi A 6.831.159,60 kr. ásamt dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 1998. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að þola riftun á greiðslu skulda Antons ehf. við hann, sem fram fór með afhendingu veðskuldabréfs að upphaflegri fjárhæð 7.000.000 krónur, útgefnu 10. júní 1996 af Bónusvideó ehf. Einnig krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.831.159,60 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. ágúst 1996 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 25. ágúst 1998. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað, sem hann krefst að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var hlutafélagið Anton stofnað 1988 og átti aðallega að hafa með höndum veitingarekstur. Allt frá því ári mun félagið hafa átt bankaviðskipti við gagnáfrýjanda. Vegna þessara viðskipta gaf félagið út í apríl og nóvember 1994 þrjú tryggingarbréf, hvert að fjárhæð 1.000.000 krónur, sem veittu gagnáfrýjanda veðrétt í þremur fasteignum til tryggingar hvers konar skuldum félagsins við hann. Ein fasteignin var í eigu stjórnarmanns í félaginu, en hinar tvær tilheyrðu mönnum, sem ekki verður séð að hafi átt hlut að því. Í október á sama ári gaf félagið að auki út tryggingarbréf til gagnáfrýjanda að fjárhæð 1.700.000 krónur með veði í eignarhluta þess í fasteign að Nýbýlavegi 14 í Kópavogi.
Með samningi 3. apríl 1996, sem var breytt með viðauka 10. júní sama árs, seldi Anton hf. veitingarekstur sinn ásamt öllu, sem honum tilheyrði, fyrir 9.000.000 krónur. Kaupandinn, Bónusvideó ehf., greiddi 2.000.000 krónur með peningum hinn fyrrnefnda dag, en þann síðarnefnda greiddi hann eftirstöðvar kaupverðsins með því að gefa út skuldabréf að fjárhæð 7.000.000 krónur, sem var tryggt með fyrsta veðrétti í fasteign að Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Var skuldin verðtryggð og átti að greiðast ásamt meðaltalsvöxtum af sambærilegum skuldabréfum með mánaðarlegum afborgunum á tíu árum. Skuldabréfið var gefið út beint til gagnáfrýjanda. Hinn 25. júlí 1996 gaf Anton hf. út yfirlýsingar, þar sem samþykkt var að þrjú af þeim fjórum tryggingarbréfum, sem fyrr var getið, með veði í fasteignum félagsins, stjórnarmanns þess og eins áðurnefnds veðsala til viðbótar, myndu framvegis ná til skuldar Bónusvideó ehf. samkvæmt veðskuldabréfinu 10. júní 1996. Þessum yfirlýsingum, sem í tveimur tilvikum voru sérstaklega áritaðar um samþykki veðsala, var þinglýst 13. og 23. ágúst 1996. Síðastnefndan dag keypti gagnáfrýjandi veðskuldabréfið frá 10. júní 1996 fyrir 6.831.159,60 krónur. Af þeirri fjárhæð var samtals 246.622,80 krónum varið samdægurs til að greiða vanskil frá tímabilinu 20. apríl til 20. ágúst 1996 af tveimur skuldabréfum, útgefnum af Antoni hf. Jafnframt voru þá greiddar eftirstöðvar þessara skuldabréfa, alls 1.584.127,20 krónur, en í málinu liggur ekkert fyrir um að þær hafi verið felldar í gjalddaga vegna þeirra vanskila, sem áður er getið. Hinn 26. ágúst 1996 var síðan afgangi kaupverðs skuldabréfsins, 5.000.409,60 krónum, ráðstafað til lækkunar á skuld félagsins við gagnáfrýjanda vegna yfirdráttar á tékkareikningi, en eftir þá greiðslu stóð hún í 416.072,04 krónum.
Með bréfi, sem barst héraðsdómi 22. júlí 1996, kom fram krafa lánardrottins um að tekið yrði til gjaldþrotaskipta bú Antons, sem þá var orðið einkahlutafélag. Úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp 17. janúar 1997. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti mun aðaláfrýjandi í raun vera eignalaus ef frá er talin krafan, sem hann sækir í málinu. Við gjaldþrotaskiptin munu lánardrottnar félagsins hafa lýst kröfum að fjárhæð samtals 33.159.395 krónur. Gagnáfrýjandi er ekki meðal þeirra.
Í málinu leitar aðaláfrýjandi riftunar á framangreindum ráðstöfunum, sem leiddu til greiðslu á skuldum Antons ehf. við gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi reisir málsóknina aðallega á ákvæði 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til vara á 134. gr. laganna, en að því frágengnu á 141. gr. þeirra. Málsástæðum aðilanna er gerð skil í hinum áfrýjaða dómi.
II.
Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er því haldið fram að fyrirsvarsmenn Antons ehf. hafi óskað eftir því um vorið 1996 að félagið fengi að greiða skuldir sínar við hann með skuldabréfi frá Bónusvideó ehf., sem vildi kaupa rekstur þess. Þessi fyrirætlan hafi gengið eftir og gagnáfrýjandi fengið veðskuldabréfið afhent í júní 1996, en það hafi þá verið gefið út beint á nafn hans. Aðaláfrýjandi hefur ekki mótmælt þessari lýsingu gagnáfrýjanda á aðdraganda þeirrar ráðstöfunar, sem deilt er um í málinu.
Samkvæmt þessu fékk gagnáfrýjandi veðskuldabréfið afhent til greiðslu á skuldum Antons ehf. innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Greiðsla á peningakröfu með viðskiptabréfi á hendur þriðja manni getur almennt ekki talist venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum. Breytir þar engu þótt viðtakandi greiðslunnar sé lánastofnun. Gagnáfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að samið hafi verið fyrir fram um að greiða ætti í þessu formi skuldir Antons ehf., sem um ræðir í málinu. Verður því fallist á það með aðaláfrýjanda að greiðsla á skuldum félagsins hafi verið innt af hendi með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og áður greinir hefur gagnáfrýjandi viðurkennt að sér hafi um vorið 1996 verið kunnugt um að skuldabréf, sem Anton ehf. óskaði eftir að nýta til greiðslu skulda sinna, myndi koma til vegna sölu á atvinnurekstri félagsins. Sem bankastofnun félagsins mátti gagnáfrýjanda vera kunnugt um að það ætti litlar sem engar eignir að öðru leyti. Skuldabréfið var ritað á eyðublað frá gagnáfrýjanda og var gefið út til hans, þótt það hafi í raun verið greiðsla til Antons ehf. Andvirði þess var að hluta varið til að greiða skuldir, sem ekki verður séð að hafi verið komnar í gjalddaga. Í þessu ljósi gat greiðslan með engu móti virst vera venjuleg eftir atvikum. Samkvæmt þessu og með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður krafa aðaláfrýjanda um riftun tekin til greina.
Gagnáfrýjandi hafði hag af greiðslu á skuldum Antons ehf. með andvirði veðskuldabréfsins, sem um ræðir í málinu, í skilningi upphafsmálsliðar 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þótt hann kunni að hafa átt kost á að ganga að einhverju leyti eða öllu að veðum og ábyrgðarmönnum til fullnustu á þeim, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1996, bls. 911. Gagnáfrýjandi hefur ekki borið því við að veðskuldabréfið hafi ekki komið sér að notum sem greiðsla. Telja verður að tjón aðaláfrýjanda svari til fullrar fjárhæðar greiðslunnar. Verður gagnáfrýjandi því dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 6.831.159,60 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 26. júní 1997, en þá var liðinn mánuður frá því að aðaláfrýjandi krafði hann fyrst um greiðslu, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Rift er greiðslu á skuld Antons ehf. við gagnáfrýjanda, Sparisjóð vélstjóra, með skuldabréfi að fjárhæð 7.000.000 krónur, útgefnu 10. júní 1996 af Bónusvideó ehf.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi Antons ehf., 6.831.159,60 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. júní 1997 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur Reykjavíkur 26. maí 1998.
Mál þetta sem dómtekið var 28. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 3. október 1997.
Stefnandi er þrotabú Antons ehf., kt. 610788-1659, Kringlunni 7, Reykjavík.
Stefndi er Sparisjóður vélstjóra, kt. 610269-2229, Borgartúni 18, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að rift verði með dómi greiðslu á þeim hluta skuldar Antons ehf.., kt. 610788-1659, við Sparisjóð vélstjóra, kt. 610269-2229, sem fram fór með afhendingu veðskuldabréfs upphaflega að fjárhæð kr. 7.000.000 útgefið af Bónusvídeói ehf., kt. 621292-3159.
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 6.831.159, 60 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. ágúst 1996 til greiðsludags. Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða tímabili í fyrsta sinn 23. ágúst 1997, en síðan árlega þann sama dag.
3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæð verði lækkuð og málskostnaður verði felldur niður.
Í stefnu er málavöxtum og málsástæðum lýst svo, að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. janúar 1997 hafi Anton ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur við skiptin hafi verið 22. júlí 1996. Við lestur gagna úr bókhaldi Antons ehf. hafi komið í ljós að þann 23. ágúst 1996 hafi forsvarsmenn fyrirtækisins afhent stefnda veðskuldabréf að nafnvirði 7.000.000 króna gefið út af Bónusvídeó hf. 10. júní 1996. Bréfið hafi verið tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni Lækjargötu 2, Hafnarfirði. Bréf þetta hafi verið tilkomið vegna sölu Antons hf. á rekstri flatbökuveitingastaða og heimsendingarþjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá stefnda muni Sparisjóðurinn hafa keypt bréfið á 6.831.159,60 krónur. Hafi fénu verið ráðstafað þannig að 5.000.409,60 hafi farið inn á viðskiptareikning Antons hf. og það sem eftir stóð 1.830.750 krónur farið til greiðslu á tveimur veðskuldarbréfum. Bæði skuldabréfin hafi verið í vanskilum. Því er haldið fram að í raun hafi framangreind fjárhæð 5.000.409,60 krónur verið notuð til að greiða inn á yfirdráttarheimild stefnanda, vegna reiknings við Sparisjóðinn nr. 040742 eftir að 1.830.750 krónur hefðu verið nýttar til uppgreiðslu tveggja samhljóða skuldabréfa sem hafi verið í vanskilum. Greiðandi umræddra bréfa hafi verið Anton ehf. og á greiðsludegi þann 23. ágúst 1996 hafi 5 mánaðarlegar afborganir verið fallnar í gjalddaga. Samkvæmt skilagreinum frá stefnda hafi ógjaldfallnar eftirstöðvar á hvoru þessara bréfa þann 23. ágúst 1996 numið um kr. 767.014,10. Þegar þetta hafi legið fyrir í apríl 1997 hafi skiptastjóri sent áskorun til stefnda um skil á skuldabréfinu dags. 26. maí 1997. Þar sem þeirri áskorun hafi ekki verið sinnt sé gripið til málshöfðunar þessarar. Byggir stefnandi á því að um sé að ræða gerning milli stefnda og forsvarsmanna Antons ehf., sem hafi átt sér stað eftir frestdag. Er á því byggt að stefndi hafi vegna eðlis viðskiptasambands síns við Anton ehf. mátt hafa vitneskju um bága fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Þá er einnig á því byggt að greiðslur til stefnda, það er afhending skuldabréfsins, hafi verið greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri, greidd fyrr en eðlilegt var og greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu Antons ehf. verulega. Loks er á því byggt að framangreind ráðstöfun á skuldabréfinu sé á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til 20. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 einkum 134. gr. 139. gr. og 141. gr. laganna.
Af hálfu stefnda er málavöxtum lýst á þá leið að félagið Anton ehf. hafi stofnað tékkareikning hjá stefnda í júlí 1988. Um nokkurra ára skeið hafi stefndi talið félagið góðan viðskiptamann sem ekki hafi verið í vanskilum. Á árinu 1996 hafi félagið hins vegar verið komið í vanskil gagnvart stefnda. Hafi það skuldað yfirdrátt á tékkareikningi og einnig átti stefndi kröfu á félagið samkvæmt tveimur skuldabréfum nr. 41388 og 41389. Til tryggingar skuldum þessum hafi verið tryggingabréf með allsherjarveði í fjórum fasteignum auk tveggja tryggingavíxla sem samtals hefðu verið að fjárhæð 2.750.000 krónur.
Fyrirsvarsmenn félagsins hafi óskað eftir því við fyrirsvarsmenn stefnda vorið 1996 að greiða skuldir þessar með skuldabréfi. Í apríl hafi þess verið óskað að greiðsla ætti sér stað með bréfi með sjálfskuldarábyrgð, en því verið hafnað af hálfu stefnda. Í júní hefði verið farið fram á að keypt yrði skuldabréf að fjárhæð 7.000.000 króna tryggt með veði í Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Bréfið hafi þeir kvaðst mundu fá afhent frá Bónusvídeói ehf., sem hafi viljað kaupa rekstur fyrirtækisins. Stefndi hafi samþykkt þessa ráðstöfun og skuldabréfið verið gefið út beint á nafn stefnda en bréfið er dags. 10. júní 1996. Stefndi hefði haft bréfið í vörslum sínum frá því í júní 1996, en endanleg bókun á ráðstöfun andvirðis beðið þess að gengið yrði frá þinglýsingum. Þar sem veðtrygging bréfsins í Lækjargötu 2, Hafnarfirði hafi verið á mörkum þess að uppfylla kröfu stefnda um veðhæfni hafi verið ákveðið að sum þeirra tryggingabréfa, sem stefndi átti fyrir til tryggingar skuldum Antons ehf., stæðu áfram á viðkomandi fasteignum. Yfirlýsingar hér að lútandi hafi verið undirritaðar 25. júlí 1996. Yfirlýsingar sem vörðuðu eignir í Reykjavík hafi verið afhentar til þinglýsingar 9. ágúst sama ár. Vegna athugasemda þinglýsingardeildar í Kópavogi varðandi frágang hafi skjal er varðaði eign í því umdæmi ekki verið afhent til þinglýsingar fyrr en 22. ágúst sama ár og innfært næsta dag. Að aflokinni þessari þinglýsingu hafi kaup á skuldabréfinu verið bókuð 23. ágúst 1996 og andvirðinu ráðstafað eins og fram kemur í málinu. Eins og að framan greini hafi skuldir Antons ehf. verið tryggðar með allsherjarveði í fjórum fasteignum.
Skiptastjóri þrotabúsins hafi óskað upplýsinga hjá stefnda um kaupin á skuldabréfinu og hafi þær verið látnar í té með bréfi 16. apríl 1997. Skiptastjóri hafi lýst yfir riftun með bréfi dags. 26. maí 1997, en í framhaldi af því hafi lögmaður stefnda mótmælt því munnlega við skiptastjóri að stefndi mótmælti riftun.
Í stefnu komi fram að stefnandi telji hina meintu riftanlegu ráðstöfun hafi átt sér stað eftir frestdag og vísi hann til stuðnings kröfu sinni jöfnum höndum til 134., 139., 141., gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Stefndi telur að ráðstöfunin hafi átt sér stað fyrir frestdag. Skuldabréfið sé gefið út 10. júní 1997 á nafn stefnda, enda hafi þá verið afráðið að bréfið yrði keypt. Bréfið hafi verið afhent í júní, en eftir verið að ganga frá þinglýsingu yfirlýsinga. Stefndi tekur fram að hann telji sig í öllum tilvikum getað borið fyrir sig 1. mgr. 142. gr. laganna óháð því hvort greiðsla teljist hafa átt sér stað fyrir eða eftir frestdag. Um riftun á grundvelli 139. gr., þ.e.a.s. riftun á greiðslu skuldar eftir frestdag, mótmælir stefndi því að skilyrði riftunar hafi verið fyrir hendi á þeim grundvelli. Skuldabréfið sem útgefið sé af Bónusvídeó ehf.. 10. júní 1996 hafi verið afhent stefnda strax eftir útgáfu þess og kaup þess samþykkt. Bókun hafi átt sér stað 23. ágúst 1996. Beiðni Tollstjórans í Reykjavík um gjaldþrotaskipti hafi borist Héraðsdómi 22. júlí 1996, en úrskurður um gjaldþrotaskipti verið kveðinn upp 17. janúar 1997. Í birtingavottorði komi fram að kvaðning vegna gjaldþrotabeiðninnar hafi verið birt 2. september 1996. Er stefndi tók við skuldabréfinu hafi honum verið ókunnugt um að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá félaginu og honum verið ókunnugt um það 23. ágúst 1996, að óskað hefði verið eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins. Skuldir félagsins hafi verið tryggðar með þeim hætti sem lýst hefur verið og stefndi hafi því ekki lokað reikningunum eða hafið lögfræðiinnheimtu vegna vanskila. Mótmælt er athugasemdum í stefnu um eðli viðskiptasambands stefnda og hins gjaldþrota félags. Stefndi hafi enga ástæðu haft til að ætla að óskað hefði verið gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Stefndi hafi ekki haft upplýsingar um skuldastöðu félagsins að öðru leyti en því sem varðaði hann sjálfan. Stefnda hafi þótt eðlilegt að við sölu á rekstri félagsins yrði andvirðið notað til að greiða skuldir viðskiptabanka félagsins, sem hefðu áður haft veð í eignum þriðja manns til tryggingar. Til marks um góða trú stefnda megi einnig benda á að hann hafi sleppt hluta af þeim tryggingum er hann hafði fyrir hina umdeildu ráðstöfun. Nái krafa stefnanda fram að ganga eigi stefndi ekki möguleika á að endurheimta þær.
Um riftun á grundvelli 134. gr., þ.e.a.s. riftun á greiðslu skuldar á síðustu 6 mánuðum fyrir frestdag, segist stefndi mótmæla því að skilyrði hafi verið fyrir hendi samkvæmt þessu ákvæði. Ekki hafi verið um óeðlilegan greiðslueyri að ræða en skuldir Antons ehf. hafi verið tryggðar fyrir hina umdeildu ráðstöfun. Skuldirnar sem hafi verið greiddar hafi verið í vanskilum, því hafi ekki verið greitt fyrr en eðlilegt var. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að greiðslan hafi skert greiðslugetu fyrirtækisins verulega. Greiðslan með skuldabréfinu hafi verið eðlileg og venjuleg eins og hér stóð á. Skuldir Antons ehf. hafi verið tryggðar að stórum hluta í eignum þriðja manns og viðtaka á skuldabréfi útgefnu af þriðja aðila hafi því verið eðlileg í þessu tilviki.
Verði fallist á riftun með heimild í þessu ákvæði bendir stefndi á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga. Samkvæmt því ákvæði skuli riftunarþoli aðeins greiða búi fjárhæð sem svarar til þess sem greiðsla hefði komið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni búsins. Ekki hafi verið sýnt fram á meint tjón búsins. Stefndi telji að sýkna eigi hann af kröfu stefnanda, þar sem greiðsla skulda Antons ehf.. hefði fengist hvort sem var með því að knýja fram nauðungarsölu á hinum veðsettu eignum. Eignir þessar hafi staðið fyllilega undir tryggingunum eins og framlögð gögn málsins sýni. Greiðslan hafi því ekki komið að þeim notum, sem áskilin séu í 1. mgr. 142. gr.
Þá segir um riftun á grundvelli 141. gr. að henni sé mótmælt. Viðtaka skuldabréfsins hafi ekki verið ótilhlýðileg eins og sýnt hafi verið fram á hér að framan. Stefndi hafi ekki vitað um ógjaldfærni Antons ehf. og ekki getað vitað um hana, eins og einnig hafi verið sýnt fram á. Stefnda hafi verið ókunnugt um árangurslaust fjárnám hefði verið framkvæmt hjá félaginu eða óskað hefði verið gjaldþrotaskipta. Um þetta hafi stefndi heldur ekki getað vitað. Þvert á móti hafi stefndi mátt með réttu telja að með sölu rekstrarins gæti félagið staðið við skuldbindingar við stefnda og aðra hugsanlega lánardrottna.
Niðurstaða.
Í svari stefnda við fyrirspurn lögmanns stefnanda dagsettu 16. apríl 1997 kemur fram að stefndi keypti skuldabréf af stefnanda að fjárhæð 7.000.000 króna 23. ágúst 1996 og að stærsti hluti þess hafi farið inn á reikning stefnanda eða samtals 5.000.409,60 krónur. 1.830.750 krónur fóru til greiðslu á skuldabréfum sem stefnandi hafði gefið út til stefnda. Bréfi þessu fylgir kaupnóta dagsett 23. ágúst 1996 þar sem fram kemur að stefndi keypti skuldabréfið af stefnanda fyrir 6.831.159,60 krónur.
Af þessum gögnum er sýnt að greiðsla fór fram eftir frestdag sem ekki er deilt um að var 22. júlí 1996 og þegar litið er til ráðstöfunar andvirðis skuldabréfsins er sýnt fram á að greiddar voru skuldir stefnanda við stefnda, annars vegar yfirdráttarskuld á reikningi stefnanda hjá stefnda og hins vegar tvö skuldabréf.
Stefnandi byggir á því að rifta beri greiðslu ofangreindra skulda stefnanda við stefnda með því að greitt var eftir frestdag sbr. 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga. Þá telur hann að stefnda hafi mátt vera kunnugt um hversu komið var fyrir stefnanda þar sem stefndi var viðskiptabanki stefnanda og að sala til Bónusvideó á þeim rekstri sem eftir var hefði átt að vera vísbending um að stefnandi væri ekki gjaldfær.
Þessu er mótmælt af stefnda sem byggir á því að stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita að komin væri fram krafa um gjaldþrotaskipti.
Stefndi tók við skuldabréfi, útgefnu af þriðja aðila til stefnda sjálfs, í júní 1996 úr hendi forsvarsmanna stefnanda. Þykja þessi kaup stefnda á skuldabréfi af viðskiptamanni sínum eðlileg og venjuleg í skilningi reglu 1. mgr. 134. gr. laganna þegar litið er til þess að stefndi er bankastofnun. Beiðni um gjaldþrotaskipti á búi stefnanda barst héraðsdómi Reykjaness 22. júlí 1996 og úrskurður um gjaldþrotsskiptin var kveðinn upp 17. janúar 1997. Þá kemur fram í málinu að kvaðning vegna beiðninnar var birt 2. september 1996. Lögð hefur verið fram yfirlýsing frá Reikningstofunni ehf. þar sem fram kemur að upplýsingar um að fram hefðu farið 4 árangurslausar aðfarargerðir hjá stefnanda hafi ekki verið aðgengilegar stefnda fyrr en um mánaðamótin október nóvember 1996. Vitnið Gylfi Sveinsson forsvarsmaður Reikningstofunnar staðfesti þetta fyrir dómi en upplýsingar um fjárhagslega stöðu viðskiptamanna stefnda annars staðar en hjá stefnda sjálfum er að fá úr skrám sem Reikningstofan ehf. sendir til banka og lánastofnana.
Eins og hér háttar til þykir stefndi hafa sýnt fram á að forsvarsmönnum hans hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um að krafa um gjaldþrotaskipti væri komin fram er umrædd viðskipti með skuldabréfið áttu sér stað og verður því þeirri málsástæðu stefnanda að riftun verði byggð á 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga hafnað.
Þá þykir með sömu rökum verða að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að riftun verði byggð á ákvæði 141. gr. laganna þar eð ekki er sýnt fram á að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda 23. ágúst 1996.
Með vísan til þess sem hér að framan segir verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Stefndi, Sparisjóður Vélstjóra, skal sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Antons ehf.
Málskostnaður fellur niður.