Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/2017
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Skuldabréf
- Gengistrygging
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2017. Hann krefst þess að viðurkennt verði að „veðskuldabréf, undirritað 14. febrúar 2007, nr. 0398-35-10149, milli áfrýjanda og SPRON, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig að fjárhæð samningsins sé bundin við gengi svissnesks franka og gengi japansks jens, í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsástæða áfrýjanda þess efnis að eftir skilmálabreytingu umþrætts láns 23. júlí 2010 hafi orðið breyting á tilgreiningu skuldarinnar, þannig að lánið hafi eftir það verið í íslenskum krónum, var ekki höfð uppi í héraði. Standa skilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki til þess að hún komist að fyrir Hæstarétti.
Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gunnar L. Benediktsson, greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2017.
Mál þetta sem dómtekið var 20. febrúar 2017 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. ágúst 2016 af Gunnari L. Benediktssyni, Smárarima 58, Reykjavík, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.
Kröfur aðila
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að veðskuldabréf, undirritað 14. febrúar 2007, nr. 0398-35-10149, milli stefnanda og SPRON, feli í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og sé verðtryggt þannig að fjárhæð samningsins sé bundin við gengi svissnesks franka og gengi japansks jens, í andstöðu við 13., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Atvik máls
Samkvæmt gögnum málsins sótti stefnandi um lán í erlendri mynt hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON). Viðmiðunarfjárhæð var í umsókn um lánið tilgreind íslenskar krónur 18.500.000 í myntunum JPY 30% og CHF 70%. Óskað var eftir láni til 30 ára með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. mars 2007. Til tryggingar láninu bauð stefnandi veð í fasteign sinni að Smárarima 58. Samkvæmt umsókninni var óskað eftir því að greiðsla afborgana og vaxta yrði millifærð af tilgreindum reikningi stefnanda hjá SPRON. Á umsóknina var ritað samþykki af hálfu SPRON, 9. febrúar 2007. Var fjárhæðin 18.500.000 krónur handrituð á umsóknar-blaðið sem og lánstími, fjöldi gjalddaga, fyrsti gjaldagi, uppgreiðsluþóknun og álag á LIBOR.
Hinn 13. júlí 2007 gaf stefnandi út tryggingarbréf í erlendri mynt til SPRON, með 4. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Smárarima 58, Reykjavík, til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum þeim sem hann, við útgáfu bréfsins eða síðar, kynni að skulda SPRON, í hvaða gjaldmiðli sem væri. Var hámarksfjárhæð bréfsins tilgreind tvöhundruð og tíuþúsund evrur.
Skuldabréf það sem mál þetta snýst um var gefið út af stefnanda, 14. febrúar 2007. Eru aðilar málsins sammála um að bréfið hafi við útgáfu fengið auðkennisnúmerið 0398-35-10149, en númerið kemur ekki fram á því eintaki bréfsins sem lagt var fram við þingfestingu málsins og merkt er sem dómskjal nr. 3. Skuldabréfið ber yfirskriftina veðskuldabréf í erlendri mynt. Samkvæmt texta þess viðurkennir stefnandi að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis nánar tilgreindar fjárhæðir í erlendum myntum. Væri fyrirgreiðsla Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis endurlánað erlent lánsfé veitt í formi fjölmyntaláns, þar sem myntir mættu á hverjum tíma vera allt að fimm að vali skuldara. Væri tilskilið að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefði aðgang að þeim myntum og Seðlabanki Íslands skráði þær. Upphafsmyntsamsetning lánsins var JPY 9.905.408 og CHF 237.789,20 miðað við tilgreint kaupgengi SPRON, 13. febrúar 2007. LIBOR vextir vegna JPY hluta lánsins eru tilgreindir með álagi 2,93313% en vegna CHF hluta lánsins með álagi 4,575%. Samkvæmt texta bréfsins átti skuldari, óskaði hann eftir breytingu á myntsamsetningu bréfsins, að tilkynna Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis um það með sannanlegum hætti að minnsta kosti þremur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils. Samkvæmt texta skuldabréfsins var umsaminn upphaflegur lánstími þrjú ár en skuldara heimilt að framlengja lánið níu sinnum til þriggja ára í senn, ef samkomuleg næðist um lánskjör. Samið var um mánaðarlega gjalddaga, í fyrsta sinn 1. apríl 2007. Vextir skyldu reiknast frá 15. febrúar 2007. Þrátt fyrir að bréfið sé sagt veðskuldabréf í yfirskrift þess eins og áður greinir og gert ráð fyrir tilgreiningu veðandlags í prentuðum texta þess er ekkert veðandlag tilgreint í bréfinu. Skuldfærslureikningur er tilgreindur og er hann sá sami og fram kom í áðurgreindri lánsumsókn stefnanda. Lánið mun hafa verið greitt í íslenskum krónum inn á tilgreindan reikning stefnanda, 15. febrúar 2007.
Samkvæmt gögnum málsins var skilmálabreyting gerð á láninu, 28. október 2008. Breytinguna er að finna á fyrirliggjandi dómskjali nr. 4. Í fyrirsögn skjalsins segir að um sé að ræða breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfs nr. 881. Aðilar málsins eru hins vegar sammála um að í reynd sé um að ræða breytingu á skuldabréfi nr. 0398-35-10149. Fól hún í sér að greiða skyldi 1/341 af höfuðstól lánsins á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. nóvember 2009. Vextir skyldu greiðast á eins mánaðar fresti í fyrsta sinn 1. nóvember 2008. Lokagjalddagi skyldi vera 1. apríl 2010 með heimild til að framlengja níu sinnum til þriggja ára í senn og einu sinni til eins árs, ef samkomulag næðist um lánskjör. Vextir skyldu reiknast frá 1. október 2008 og vaxtaálag á LIBOR vera eins og áður 2,5%. Þá var nýr ráðstöfunarreikningur tilgreindur. Í upphafstexta breytingarskjalsins er vísað til veðskuldabréfsins frá 14. febrúar 2007 „upphaflega að jafnvirði ISK 18.500.000 í eftirtöldum myntum: CHF 237.789,20 og JPY 9.905,408.“ Þá segir ennfremur í skjalinu: „Eftirstöðvar lánsins þann 27.10.2008 eru CHF 225.239,21 og JPY 9.382.623 ásamt áföllnum vöxtum CHF 856,47 og JPY 22.836“.
Með heimild í lögum nr. 125/2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 21. mars 2009 að taka yfir vald stofnfjárfundar SPRON, víkja stjórn sjóðsins frá og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var enn fremur stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., sem tók við eignum SPRON.
Ákvæðum skuldabréfsins frá 14. febrúar 2007 var enn breytt, 23. júlí 2010, með samkomulagi milli stefnanda og Arion banka h.f. f.h. Dróma hf. Var fyrirsögn samkomulagsins „framlenging erlends lánasamnings“. Fól breytingin í sér samkomulag um að eftirstöðvar lánsins skyldu greiddar með 33 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. ágúst 2010. Skyldi hver greiðsla nema 1/332 af eftirstöðvum lánsins, 1. júlí 2010. Á lokagjalddaga lánsins, 1. apríl 2013, skyldi lántaki greiða 301/332 hluta af eftirstöðvum lánsins 1. ágúst 2010, nema lánið yrði framlengt en þá skyldi hann greiða 1/332 hluta, sbr. nánar ákvæði samkomulagsins um framlengingarheimild. Vextir skyldu áfram greiddir eftirá á eins mánaðar fresti, næst þann 1. ágúst 2010. Þá fól breytingin í sér að vaxtalálag á LIBOR var hækkað úr 2,5% í 3,75% frá og með 1. júlí 2010. Ettirstöðvar lánsins þann 1. júlí 2010 voru sagðar YPY 9.378.956, CHF 225.136,52 og ISK 9.950. Eftirstöðvar eru tilgreindar að jafnvirði íslenskar krónur 40.438.211.
Þann 23. júlí 2010, gerðu stefnandi og Drómi hf. jafnframt framangreindu samkomulagi, samkomulag um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun samkvæmt skuldabréfinu frá 14. febrúar 2007 og gilti það til 31. desember 2010. Var fyrirsögn samkomulagsins „Samkomulag um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun láns í erlendri mynt“. Var samkomulagið sagt gert vegna óvissu sem upp væri komin um lögmæti erlendra lána bankans. Fól það í sér að stefnandi skyldi greiða mánaðarlega 5.000 krónur af hverri milljón króna af upphaflegum höfuðstól lánsins umreiknuðum í íslenskar krónur á lántökudegi eða samtals 92.500 krónur á mánuði. Í samkomulaginu er tekið fram að þegar bankinn telji að óvissu um lögmæti erlendra lána bankans hafi verið eytt muni hann tilkynna með tryggilegum hætti hvernig brugðist verði við. Verði ekki kominn fordæmisgefandi Hæstaréttardómur um erlend lán bankans, við lok gildistíma samkomulagsins, geti bankinn framlengt samkomulagið með einhliða tilkynningu til skuldara. Þá segir í samkomulaginu að skuldari fyrirgeri ekki betri rétti með því að gerast aðili að samkomulaginu og greiða samkvæmt því. Jafnframt feli innheimta umsaminnar mánaðalegrar fastrar krónutölu ekki í sér viðurkenningu af hálfu bankans á ólögmæti erlendra lána hans eða að greiðsluskylda skuldara samkvæmt upprunalegu láni hefði breyst.
Hinn 8. apríl 2011 sendi Drómi hf. stefnanda bréf sem bar fyrirsögnina „Yfirlýsing Dróma vegna SPRON lána í erlendri mynt.“ Í bréfinu kemur fram það álit bankans að tveir dómar sem Hæstiréttur hafi kveðið upp 14. febrúar og varðað hafi lögmæti lána sem Frjálsi Fjárfestingarbankinn hf. hafi veitt og bundin hafi verið erlendri mynt, en lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum, geti ekki talist fordæmisgefandi fyrir lán sem tilgreind séu í erlendri mynt, líkt og gildi um lán stefnanda hjá bankanum. Þar af leiðandi séu ekki til staðar forsendur til endurútreiknings lánsins að svo komnu máli. Hins vegar sé beðið stefnumarkandi dóma sem skeri úr um hvort endurreikna beri lán í erlendri mynt líkt og gengistryggð lán með ólögmætum lánaskilmálum. Með vísan til þessa hafi verið ákveðið að framlengja í tvo mánuði það úrræði að lántakendur greiði 5.000 krónur fyrir hverja upphaflega milljón láns og gera lánþegum þannig kleift að halda lánum sínum í skilum miðað við upphaflega fjárhæð lánsins.
Drómi tilkynnti stefnanda, 11. ágúst 2011, um endurútreikning lánsins skv. skuldabréfi nr. 10149, í íslenskar krónur, á grundvelli ákvæða til bráðbyrgða X og XI, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. A- og B-lið 2. gr. laga nr. 151/2010. Var niðurstaða útreikningsins 23.732.757 krónur. Stefnandi undirritaði yfirlýsinguna því til staðfestu að hann gerði ekki athugasemdir við útreikninginn eða niðurstöðu hans en hins vegar gerði hann þann fyrirvara að hann hefði ekki fyrirgert mögulegum betri rétti, sem hugsanlega kynni að leiða af niðurstöðu dómstóla eða lagasetningu. Sama dag og stefnandi undirritaði framangreinda yfirlýsingu gaf hann út veðskuldabréf til Dróma hf. fyrir hinni endurreiknuðu fjárhæð. Fékk bréfið auðkennisnúmerið 19234. Um svonefnt jafngreiðslulán var að ræða. Voru greiðslur samkvæmt bréfinu tryggðar með 1. veðrétti í fasteign stefnanda að Smárarima 58 í Reykjavík. Skyldi lánið endurgreiðast með 320 mánaðarlegum afborgunum og var gjalddagi fyrstu afborgunar, 1. ágúst 2011. Vextir af láninu voru breytilegir en við útgáfu bréfsins voru þeir 5,25% per anno og reiknuðust þeir frá 7. júlí 2011. Lánaflokkur er tilgreindur sem erlent endurreiknað lán. Stefndi fékk framangreint skuldabréf nr. 19234 framselt frá Dróma hf., 31. desember 2013.
Með bréfi dagsettu í apríl 2014 mun stefndi hafa tilkynnt stefnanda að lán sem hann hefði fengið hjá SPRON, 14. febrúar 2007, hefði ekki verið lán með ólögmætri gengistryggingu, heldur löglegt erlent lán og yrði umþrætt skuldabréf því ekki endur-reiknað meira en orðið væri, enda teldi stefndi skuldabréfið lögmætt erlent lán.
Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda
Krafa stefnanda í málinu byggir á því að lán það sem um sé deilt samkvæmt skuldabréfi nr. 0398-35-10149, hafi verið lán í íslenskri mynt, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, nánar tiltekið við gengi svissnesks franka og japanskra jena. Vísi stefnanda hvað þetta varði til þess að erlendur gjaldeyrir hafi aldrei skipt um hendur við gerð eða efndir framangreinds skuldabréfs. Stefnandi vísi til þess, að þrátt fyrir að upphæð lánsins sé ekki tilgreind í veðskuldabréfinu, þá hafi hún verið í íslenskum krónum þ.e. 18.500.000 krónur en ekki 9.905.408 jen og 237.789,20 svissneskir frankar. Af þessu megi ráða að lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin í íslenskum krónum, en ekki í jenum eða frönkum. Því hafi verið um að ræða lán í íslenskri mynt, tengt við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi vísi til þess að í lánsskjalinu sé vísað til kaupgengis SPRON á japönskum jenum og svissneskum frönkum, en það bendi til að um gengistengingu sé að ræða en ekki um lán í erlendum myntum. Stefnandi vísi til þess að í 2. gr. lánaskjalsins segi: „Gjaldfallnar fjárhæðir umreiknast ávalt í íslenskar krónur.“ Af þessu megi sjá að ekki hafi verið gert ráð fyrir öðru en að greitt væri af láninu í íslenskri mynt og þannig ekki mögulegt eða ekki gert ráð fyrir að greitt yrði af því í erlendri mynt. Stefnandi vísi til þess að í umræddu veðskuldabréfi segi: „Greiðslur verða skuldfærðar á tilgreindan reikning á gjalddaga og skuldbindur lántaki sig til að eiga næga innistæðu til ráðstöfunar greiðslu gjaldfallinnar skuldar.“ Af þessu megi sjá að skuldina hafi átt að greiða í íslenskum krónum sem yrðu skuldfærðar af innlánsreikningi stefnanda. Ekki hafi verið gert ráð fyrir greiðslum í erlendri mynt, enda um lán í íslenskum krónum að ræða. Stefnandi vísar til fyrirliggjandi samkomulags um breytingu á greiðsluskilmálum frá 28. október 2008, þar sem segi: „...upphaflega að jafnvirði ISK 18.500.000 í eftirtöldum myntum: CHF 237.789,20 og JPY 9.905.408“. Af þessu megi sjá að um hafi verið að ræða lán uppá 18.5 milljónir króna, en ekki lán í erlendum gjaldmiðlum. Af þessu leiði að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum og nægi ekki að reyna að klæða lánið í annan búning en það raunverulega sé. Þá vísi stefnandi til fyrirliggjandi framlengingarsamkomulags frá 23. júlí 2010 þar sem segi: „Upphafleg fjárhæð kr. 18.500.000“. Þá segi neðar í skjalinu að sundurliðun eftirstöðva þann 1. júlí 2010, séu JPY 9.378.956 og CHF 225.136,52 og ISK 9.950. Jafnvirði ISK 40.438.211. Af þessu megi sjá að upphafleg fjárhæð sé tilgreind í íslenskum krónum enda lánaðar íslenskar krónur og greitt af láninu með íslenskum krónum. Af þessu megi einnig sjá að lánið sé tengt við gjaldmiðlana, JPY og CHF. Stefnandi vísi til fyrirliggjandi samkomulags um tímabundna breytingu á greiðslutilhögun frá 23. júlí 2010. Þar segi: „Jafnvirði upphaflegrar fjárhæðar í ISK á útgáfudegi lánsins 18.500.000“. Þá segi í samkomulaginu að mánaðarleg fjárhæð greiðslu sé ISK 92.500. Þá segi enn frekar í tilvitnuðu skjali að: „Drómi hf. og ofangreindur skuldari lýsa sig hér með ásátta um, að til 31. desember 2010 greiði skuldari ofangreinds erlends láns mánaðarlega kr. 5.000,- af hverri milljón króna upphaflegs höfuðstóls lánsins umreiknuðu í íslenskar krónur á lántökudegi.“ Af þessu megi sjá að allar afborgunarforsendur lánsins hafi miðast við íslenskar krónur. Þá megi einnig sjá að gert sé ráð fyrir afborgunum í íslenskum krónum. Tekið skuli sérstaklega fram að stefnandi telji að það breyti engu varðandi framangreint þó að í veðskuldabréfinu frá 14. febrúar 2007 komi fram að stefnandi: „viðurkennir hér með að skulda Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eftirgreindar fjárhæðir í erlendum myntum.“ Í því sambandi minni stefnandi á áralanga dómaframkvæmd í fjármunarétti í þá veru að það sé raunverulegt inntak viðkomandi lánssamnings sem máli skipti en ekki í hvaða búning samningurinn sé klæddur. Aðalatriðið sé eftir sem áður það að stefnandi hafi fengið afhentar íslenskar krónur, greitt lánið til baka í íslenskum krónum og engin erlend mynt skipt um hendur. Stefnda hafi verið í lófa lagt að greiða stefnanda höfuðstólsfjárhæðina í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning í bankanum hefði raunverulega staðið til að lána erlenda gjaldmiðla en ekki íslenskar krónur sem tekið hafi mið af gengisbreytingu erlendra gjaldmiðla. Hvað allt framangreint varði sé a.m.k. ljóst að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán til stefnanda hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðli. Þá byggi stefnandi á því að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu ófrávíkjanleg. Í 2. gr. laganna sé mælt fyrir um hvaða ákvæði laganna séu frávíkjanleg, en þar segi að ákvæði II. kafla (almennir vextir) og IV. kafla (vextir af skaðabótakröfum) gildi því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Þá segi að einnig verði vikið frá öðrum ákvæðum laganna „að því marki sem þar er kveðið á um“, en hér sé átt við 6. og 12. gr. laganna. Þó sé ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Af skýringu 2. gr. leiði því að öll önnur ákvæði laganna eru ófrávíkjanleg, þar á meðal ákvæði VI. kafla um verðtryggingu. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að óheimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. þar sem kveðið sé á um að eingöngu sé heimilt að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gildi og birti mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Sé því óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum miðað við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Loks veki stefnandi sérstaka athygli á því að refsiákvæði 17. gr. laganna væri með öllu þýðingarlaust ef ákvæði 13. og 14. gr. væru frávíkjanleg. Til stuðnings framangreindu, vísi stefnandi sérstaklega til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4630/2013, sem kveðinn hafi verið upp upp miðvikudaginn 30. apríl 2014 sem og dóms Hæstaréttar Íslands, í máli nr. 155/2011, sem kveðinn hafi verið upp fimmtudaginn 9. júní 2011. Í tilvitnuðu dómum, þar sem héraðsdómur byggi á fordæmisgildi Hæstaréttar dómsins, sé á því byggt að við mat á því hvort lánssamningur sé lánssamningur í erlendri mynt eða lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra mynta, þurfi fyrst og fremst að leggja til grundvallar form og efni þess gernings sem um ræði. Þá beri að líta til atriða við samningsgerðina svo og framkvæmdar samningsins. Stefnandi vísi til þess að upphafleg lánsfjárhæð hafi verið 18.500.000 krónur. Hafi sú fjárhæð verið uppreiknuð í erlendar myntir eða 237.789,20 svissneska franka og 9.905.406 japönsk jen. Hafi raunverulega fjárhæð lánsins þannig verið ákvörðuð í íslenskum krónum. Þá vísi stefnandi máli sínu til stuðnings til dómskjala nr. 4., nr. 5. og nr. 6 en í þeim öllum sé fyrst og fremst fjallað um lánið sem lán upp á 18.500.000 krónur. Sú fjárhæð sé síðan reiknuð yfir í erlenda gjaldmiðla. Beri þannig öll önnur gögn með sér að um hafi verið að ræða lán í formi íslenskra króna tengt við gengi erlendra gjaldmiðla. Í tilvitnuðum dómum, við mat á því hvort lán sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli, sé miðað við hvort lánið sé greitt út í íslenskum krónum eða erlendri mynt sem og hvort ráð sé gert fyrir að lánið sé greitt til baka í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Sé lánið greitt út í íslenskum krónum sem og greitt af því í íslenskum krónum, bendi allt til þess að um lán í íslenskum krónum sé að ræða, sem óheimilt hafi verið að tengja við gengi erlendra gjaldmiðla. Það eigi við í því máli sem hér sé til meðferðar, enda lánið greitt út í íslenskum krónum og greitt af því í íslenskum krónum. Til stuðnings framangreindu vísi stefnandi sérstaklega til dóma Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 þar sem fjallað sé með ítarlegum og rökstuddum hætti um sams konar ágreiningsefni, þ.e.a.s. verðtryggingu sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í báðum þessum málum hafi Hæstiréttur komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að slík verðtrygging væri ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum um verðtryggingu í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi reisi málatilbúnað sinn á því að ákvæði veðskuldabréfsins um gengistryggingu séu ógild og því beri að fallast á framsettar kröfur hans á hendur stefnda. Stefnandi vísi til þess að í framangreindum dómum hafi við mat á því hvort um gengistryggt lán hafi verið að ræða verið talið að einvörðungu skyldi horft til samnings aðila enda geti niðurstaða málsins ekki ráðist af því hvort stefndi hafi fjármagnað lánafyrirgreiðslu sína á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði. Samkvæmt veðskuldabréfi sem aðilar þessa máls hafi gert vegna fasteignaláns stefnanda sé ljóst að umrætt lán sé í íslenskum krónum, þ.e. ISK 18.500.000,-. Þá hafi afborganir verið innheimtar í íslenskum krónum. Sé það því engum vafa undirorpið að lánssamningur aðila samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi teljist vera í íslenskum krónum í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í ákvæðinu segi m.a. að með verðtryggingu sé átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu og að um heimildir til verðtryggingar fari skv. 14. gr. sömu laga. Í 1. mgr. síðarnefnda ákvæðisins sé heimild til verðtryggingar takmörkuð við vísitölu neysluverðs, sbr. þó 2. mgr. 14. gr. þar sem heimilt sé að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæli breytingar á almennu verðlagi. Samkvæmt skýrum texta fyrrgreindra ákvæða sé því óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Brjóti því gengistrygging veðskuldabréfsins í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001.
Til stuðnings kröfum sínum vísi stefnandi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 2., 13. og 14. gr. laganna. Þá vísi stefnandi til almennra reglna kröfu- og samningaréttarins, m.a. um endurheimtu ofgreidds fjár, brostnar forsendur og reglna um ógild samningsákvæði. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda
Stefndi byggir á því að skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum fari ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001. Við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skipti einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin sé tilgreind í þeim. Stefndi telji ljóst af dómaframkvæmd Hæstaréttar, sem fjalli um þetta efni, að umþrætt skuldabréf sé að sönnu um lögmætt lán í erlendum myntum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 520/2011, nr. 551/2011, nr. 552/2011, nr. 524/2011, nr. 715/2012, nr. 3/2013, nr. 446/2013, nr. 187/2014, nr. 235/2014, nr. 25/2014 og nr. Fyrst beri að nefna að heiti umþrætts skuldabréfs tilgreini lánið sem erlent lán, höfuðstóll lánsins sé tilgreindur nákvæmlega í hinum erlendu myntum og þar, eða annars staðar í skuldabréfinu, komi íslensk fjárhæð hvergi nærri, auk þess sem vextir lánsins, það er LIBOR-vextir af hvorri mynt auk 2,5% álags, séu ljóslega vextir af erlendum myntum, sem ekki bjóðist á lánum í íslenskum krónum. Engu máli skipti í þessu samhengi þó lánið hafi verið greitt til stefnanda í íslenskum krónum, og allar afborganir hans hafi verið inntar af hendi í íslenskum krónum. Til viðbótar við ofangreint vísi stefndi til reglna viðskiptabréfaréttarins um að umþrætt skuldabréf hafi að geyma tæmandi lýsingu á réttindum sem það veiti og þeim takmörkunum sem á þeim réttindum kunni að vera. Því skipti ekki máli, hvernig lánsfjárhæð eða önnur efnisatriði séu, eftir atvikum, tiltekin í viðaukum við skuldabréfið, sbr. í því samhengi m.a. dóma Hæstaréttar í málum nr. 757/2012 og nr. 3/2013. Þá sé vísað til þess að þær skilmálabreytingar, sem gerðar hafi verið á skuldabréfinu, 28. október 2008 og 23. júlí 2010, hafi ekki lotið að breytingu á eðli skuldbindingarinnar, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 616/2015. Þá sé tilvísunum stefnanda til hinna ýmsu dóma Hæstaréttar, til að mynda dóma í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010 og nr. 155/2011 hafnað, enda eiga þeir ekki við í málinu. Þá sé öðrum málsástæðum sem stefnandi byggi kröfur sínar á mótmælt.
Stefndi vísi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. reglna um túlkun samninga. Þá sé sérstaklega vísað til þeirra sjónarmiða sem fram hafi komið í dómaframkvæmd um mat á því hvort lánaskuldbindingar séu að sönnu í erlendum myntum eða gengistryggðar. Þá sé vísað til 2. gr., 4. gr. og 18. gr. og bráðabirgða-ákvæðis X í lögum nr. 38/2001, sbr. einnig lög nr. 151/2010. Einnig sé vísað til reglna viðskiptabréfaréttarins. Þá vísi stefndi til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Um málskostnað vísist til laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.
Forsendur og niðurstaða
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort lán samkvæmt skuldabréfi, sem aðilar eru sammála um að hafi borið auðkennisnúmerið 0398-35-10149, útgefnu af stefnanda, 14. febrúar 2007, hafi falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og þar með ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Samkvæmt ítrekuðum dómafordæmum Hæstaréttar Íslands, byggðum á orðalagi framangreindra ákvæða laga nr. 38/2001 og lögskýringargögnum, ber við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þess löggernings eða þeirra löggerninga, sem liggja til grundvallar lánsskuldbindingu. Í því sambandi ber einkum að líta til þess hvernig skuldbinding í lánssamningi er tilgreind, heiti lánsskuldbindingar og tilgreiningar vaxta.
Skuldabréf það, sem liggur til grundvallar lögskiptum aðila máls þessa, ber yfirskriftina „Veðskuldabréf í erlendri mynt“. Þykir yfirskriftin benda til þess að bréfið feli í sér skuldbindingu í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Þá er upphafsmyntsamsetning bréfsins tilgreind nákvæmlega í japönskum jenum (JPY) og svissneskum frönkum (CHF). Styður það enn frekar að bréfið feli í sér skuldbindingu í erlendri mynt. Þá ber lánsfjárhæðin LIBOR vexti sem styður að um erlent lán sé að ræða.
Fyrir liggur að skilmálum skuldabréfsins frá 14. febrúar 2007 var breytt 28. október 2008 og 23. júlí 2010. Síðari breytingar, sem gerðar voru tímabundið vegna óvissu sem þá þótti vera til staðar um lögmæti „erlendra lána bankans“, þykja ekki hafa þýðingu fyrir úrslit máls þessa.
Í upphafstexta skilmálabreytingarinnar frá 28. október 2008 er vísað til skuldabréfsins frá 14. febrúar 2007 „upphaflega að jafnvirði ISK 18.500.000 í eftirtöldum myntum: CHF 237.789,20 og JPY 9.905,408.“ Þá segir ennfremur í skjalinu: „Eftirstöðvar lánsins þann 27.10.2008 eru CHF 225.239,21 og JPY 9.382.623 ásamt áföllnum vöxtum CHF 856,47 og JPY 22.836“.
Skilmálabreytingin frá 23. júlí 2010 ber fyrirsögnina „Framlenging erlends lánasamnings“. Fól breytingin m.a. í sér að vaxtaálag á LIBOR var hækkað úr 2,5% í 3,75%. Upphafleg fjárhæð lánsins er tilgreind 18.500.000, eftirstöðvar lánsins þann 1. júlí 2010 sagðar YPY 9.378.956, CHF 225.136,52 og ISK 9.950 og eftirstöðvar tilgreindar að jafnvirði íslenskar krónur 40.438.211.
Framangreindar skilmálabreytingar, sem báðar innihalda nákvæma tilgreiningu umrædds láns í japönskum jenum og svissneskum frönkum þykja ekki styðja þá staðhæfingu stefnanda að lánið frá 14. apríl 2007 hafi verið lán í íslenskum krónum. Breytir tilgreining jafnvirðis lánsins í íslenskum krónum engu í þeim efnum enda verður að telja að lánsskjalið sjálft hafi að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veitir og þeim takmörkunum, sem á þeim réttindum kunni að vera, nema síðara samkomulag leiði með ótvíræðum hætti til annars. Þá verður ekki talið að lánsumsókn stefnanda frá febrúar 2007 breyti efni lánssamningsins.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að sú staðreynd að útborgun lánsins hafi verið í íslenskum krónum og hann hafi greitt af skuldabréfinu í íslenskum krónum staðfesti að um hafi verið að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum. Af dómum Hæstaréttar, sérstaklega dómum í málum nr. 524/2011 og nr. 757/2012 verður hins vegar ályktað að ekki skipti máli þótt framangreindar greiðslur hafi fari fram í íslenskum krónum, þegar skýrt komi fram í viðkomandi lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt.
Með vísan til alls framangreinds og ítrekaðra dómafordæma Hæstaréttar Íslands þykir verða að leggja til grundvallar dómi í máli þessu að stefnandi hafi tekið gilt lán í erlendum gjaldmiðli. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.
Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Arion banki h.f., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars L. Benediktssonar, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.