Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-325
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Eignarréttur
- Fjöleignarhús
- Sameign
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 16. desember 2021 leitar Ragnar Þór Egilsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. nóvember sama ár í máli nr. 373/2020: Ragnar Þór Egilsson gegn Bergþóru Heiðu Guðmundsdóttur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi aðila um hvort þvottaherbergi í kjallara fjöleignarhúss sé sameign þeirra eða séreign leyfisbeiðanda. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 3. júní 2020 var fallist á viðurkenningarkröfu gagnaðila um að herbergið væri sameign þeirra. Þá var viðurkennt að tilteknar framkvæmdir leyfisbeiðanda, meðal annars í umræddu herbergi, væru ólögmætar og var honum gert skylt að koma sameigninni í fyrra horf að viðlögðum dagsektum. Í dómi Landsréttar var ekki talið að leyfisbeiðanda hefði tekist sönnun þess að herbergið væri séreign hans. Var dómur héraðsdóms því staðfestur að öðru leyti en því að dagsektir kæmu til að liðnum 30 dögum frá uppsögu dóms Landsréttar.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í þeim efnum telur hann að dómur Landsréttar feli í sér breytingu á gildandi rétti hvað varðar gildi þinglýstra skjala enda hafi rétturinn ekki metið vægi eignaskiptayfirlýsingar með réttum hætti. Þá gangi dómurinn gegn skýru fordæmi Hæstaréttar. Þannig sé dómur Landsréttar jafnframt bersýnilega rangur að efni til. Loks telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að standi dómur Landsréttar óbreyttur muni verðmæti eignar hans rýrna verulega og hafa þannig teljandi áhrif á hans eigna- og fjárhagsstöðu.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.