Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Miðvikudaginn 19. febrúar 2003. |
|
Nr. 63/2003. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Björn Þorri Viktorsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til föstudagsins 14. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Það athugast að aðfinnsluverður dráttur varð á því að málið bærist Hæstarétti eftir að varnaraðili hafði kært úrskurð héraðsdómara, en samkvæmt bréfi hans til réttarins 18. þessa mánaðar mun kæra varnaraðila hafa mislagst á skrifstofu Héraðsdóms Reykjavíkur og ekki borist honum í hendur fyrr en þann dag.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði bönnuð för frá Íslandi allt til föstudagsins 14. mars 2003 kl. 16.00.
[...]
Heimild til farbanns sé í 110. gr. sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Kærða er orðin uppvís að innflutningi fíkniefna til landsins en rannsókn málsins er ekki lokið þótt hún sé langt komin. Kærða er búsett í Frakklandi og verður að telja að veruleg hætta sé á því að hún reyni að koma sér undan refsingu verði för hennar héðan af landinu ekki heft. Atferli það sem hún er grunuð um getur varðað hana fangelsisrefsingu. Ber með heimild í 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. oml. að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina og banna kærðu för frá Íslandi, allt til kl. 16.00 föstudaginn 14. mars 2003.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærðu, X, er bönnuð för af landinu, allt til kl. 16.00, föstudaginn 14. mars 2003.