Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/2005


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Aðilaskipti


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. janúar 2006.

Nr. 313/2005.

Sigurður Þ. Guðmundsson

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Tjónamati og skoðun ehf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn. Aðilaskipti að fyrirtækjum.

S var sagt upp hjá félaginu A 31. mars 2003 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Undir lok uppsagnarfrestsins féllst S á að vera áfram í hálfu starfi og sinnti eftir það sömu störfum og áður við smábáta- og farmtryggingar, og var starfstöð hans sú sama. A greiddi laun S fyrir júlímánuð 2003, en T fyrir ágúst og september, en náin tengsl voru milli félaganna. S var síðan sagt upp í lok september 2003. Þegar framangreint var virt, ásamt framburði S og forsvarsmanna T, þótti í ljós leitt að S hafi verið endurráðinn í hálft starf hjá A 1. júlí 2003, og sú ráðning hafi verið ótímabundin. S hafi því samkvæmt kjarasamningi notið áunnins þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá A eftir endurráðninguna. S reisti kröfur sínar á hendur T á því að aðilaskipti hafi orðið að rekstrinum 1. ágúst 2003 í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Mjög hafði dregið úr umfangi starfsemi A er S fluttist á launaskrá T. Fyrir lá að starfsemi tengd þeim tryggingum sem eftir stóðu fluttist í heild yfir til T, sem og þjónusta við alla þáverandi viðskiptavini A. Þegar þessi atvik voru metin í heild var talið að þegar T yfirtók umrætt verk hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum í merkingu laga nr. 72/2002. Samkvæmt því átti S rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti hjá T og voru kröfur hans teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 463.558 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.977 krónum frá 1. nóvember 2003 til 1. desember sama ár, af 239.954 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004 og af 463.558 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi mun hafa ráðið sig til starfa hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. í maí 1998. Samkvæmt framburði Halldórs Sigurðssonar og Baldvins Hafsteinssonar fyrir héraðsdómi miðlaði það félag tryggingum á erlendum markaði og annaðist umsjón ákveðinna trygginga, einkum ökutækjatrygginga og trygginga smábáta. Stefndi í máli þessu sá hins vegar um uppgjör á tjónum vegna þessara trygginga. Voru náin eignatengsl með félögunum og var Halldór framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar miðlunar ehf. og stjórnarformaður stefnda en Baldvin stjórnarformaður Alþjóðlegrar miðlunar ehf. en framkvæmdastjóri stefnda. Kom fram hjá Halldóri að Alþjóðleg miðlun ehf. hafi leigt húsnæði undir starfsemi sína af stefnda. Kvað Halldór starfsmenn Alþjóðlegrar miðlunar ehf. hafa verið milli 10 og 15, en þeim hafi öllum verið sagt upp þegar félagið hætti að sinna ökutækjatryggingum. Áfrýjanda var sagt upp störfum með bréfi 31. mars 2003. Óumdeilt er að honum bar þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Halldór kvað að þegar liðið hafi að lokum uppsagnarfrests hafi ekki verið aðrar tryggingar eftir hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. en tryggingar liðlega 200 smábáta og um 10 farmtryggingar. Í skýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kemur fram að skömmu fyrir fyrsta júlí 2003 hafi hann verið beðinn að vera áfram í hálfu starfi og hann fallist á það. Það er í samræmi við skýrslu Halldórs sem kvaðst síðasta virkan dag júnímánaðar 2003 hafa boðið honum að vinna áfram í hálfu starfi. Kvaðst áfrýjandi einkum hafa unnið við smábátatryggingar og farmtryggingar eftir endurráðninguna og hafi það verið sömu störf og hann sinnti áður og hafi starfstöð hans verið sú sama. Á launaseðli áfrýjanda fyrir júlímánuð 2003 kemur ekki fram hver var launagreiðandi en af reikningsyfirliti áfrýjanda sést að Alþjóðleg miðlun ehf. greiddi launin inn á reikning hans 18. ágúst 2003. Samkvæmt launaseðlum áfrýjanda fyrir ágúst og september 2003 var launagreiðandi hins vegar stefndi en launakjör óbreytt. Í lok september 2003 var áfrýjanda síðan sagt upp störfum. Var á launaseðli áfrýjanda fyrir september eingreiðsla vegna uppsagnar, sem stefndi telur samsvara launum á einnar viku uppsagnarfresti.

II.

Aðila greinir í fyrsta lagi á um hvort áfrýjandi hafi ráðist í hálft starf til Alþjóðlegrar miðlunar ehf. eða stefnda 1. júlí 2003 og hvort sú ráðning hafi verið tímabundin. Áfrýjandi sagði í skýrslu sinn fyrir héraðsdómi að aldrei hafi verið rætt við sig um að stefndi væri að yfirtaka rekstur Alþjóðlegrar miðlunar ehf. Þegar hann hafi fengið launaseðil fyrir ágústmánuð, þar sem stefndi hafi fyrst komið fram sem launagreiðandi, hafi hann spurt Baldvin Hafsteinsson hvort ekki væri um mistök að ræða en fengið þau svör að það skipti ekki máli. Aðspurður um það fyrir héraðsdómi hvort rætt hafi verið við áfrýjanda um að stefndi myndi greiða honum laun svaraði Halldór Sigurðsson því að það hafi legið „í eðli málsins“ vegna þess að Alþjóðleg miðlun ehf. hafði ekki verið með neina starfsemi og því ekki verið annað en nafnið eitt á þessum tíma. Baldvin kvaðst fyrir héraðsdómi ekki muna hvort rætt hafi verið sérstaklega við áfrýjanda um að hann færðist yfir á launaskrá hjá stefnda. Hann hafi hins vegar látið alla starfsmenn vita að Alþjóðleg miðlum ehf. myndi hætta starfsemi í ágúst. Þegar þessi framburður áfrýjanda og forsvarsmanna stefnda er virtur og litið til þess að fyrir liggur að Alþjóðleg miðlun ehf. greiddi áfrýjanda laun fyrir júlímánuð 2003 verður að miða við að hann hafi verið endurráðinn í hálft starf hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. 1. júlí 2003.

Þegar áfrýjandi var endurráðinn hafði starfsemi Alþjóðlegrar miðlunar ehf. dregist mjög saman eins og að framan er rakið. Í skýrslu fyrir héraðsdómi taldi áfrýjandi að ekki hafi verið samið um ráðningu hans til tiltekins tíma eða um tiltekin verkefni þótt framtíðin hafi verið óljós. Baldvin sagði í skýrslu sinni að búið hefði verið að gefa út tryggingar til áramóta. Á þessum tíma hafi ekki verið vitað hvernig smábátatryggingarverkefnið færi. Viðræður hafi verið um hvort þetta yrði áframhaldandi verkefni á vegum stefnda en síðan komið í ljós að svo gat ekki orðið. Verður samkvæmt þessu að miða við að áfrýjandi hafi verið ráðinn ótímabundið í hálft starf hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. frá 1. júlí 2003. Samkvæmt grein 18.1. í kjarasamningi milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins skulu áunnin réttindi haldast við endurráðningu innan eins árs. Áfrýjandi naut því áður áunnins þriggja mánaða uppsagnarfrests hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. eftir endurráðningu sína 1. júlí 2003.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á því að aðilaskipti hafi orðið að rekstrinum 1. ágúst 2003 í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þar með hafi skyldur Alþjóðlegrar miðlunar ehf. til greiðslu launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti  flust til stefnda samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna.

Í lögum nr. 72/2002 eru reglur sem svara til ákvæða tilskipunar nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Í 2. gr. laganna eru orðskýringar og í 4. tölulið greinarinnar segir að með aðilaskiptum sé átt við aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð eru í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72/2002 er um skýringu á aðilaskiptum í skilningi fyrrgreindrar tilskipunar vitnað til túlkunar Evrópudómstólsins á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/187/EBE í máli C-24/85 (Speijkers). Taldi dómstóllinn að um aðilaskipti væri að ræða ef fyrirtækið héldi einkennum sínum. Við mat á því átti að áliti dómstólsins meðal annars að líta til þess um hvers konar fyrirtæki væri að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti væru framseld og hvert væri verðgildi óhlutbundinna verðmæta. Þá skyldi líta til hvort meiri hluti starfsmanna flyttist til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi héldi viðskiptavinum framseljanda. Sá tími sem starfsemi liggur niðri og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin skyldi einnig hafa áhrif á þetta mat. Líta skyldi heildstætt á öll þessi atriði en ekki hvert og eitt sér. Í athugasemdum við frumvarpið var þess einnig getið að EFTA-dómstóllinn hafi litið með hliðstæðum hætti á aðilaskiptin og lagt áherslu á það hvort rekstri væri haldið áfram með sambærilegum hætti.

Eins og að framan er rakið hafði dregið mjög úr umfangi starfsemi Alþjóðlegrar miðlunar ehf. er áfrýjandi fluttist á launaskrá stefnda. Eftir stóðu þó samkvæmt fyrrnefndum skýrslum forsvarsmanna stefnda tryggingar rúmlega 200 smábáta og nokkrar farmtryggingar. Starfsemi tengd þessum tryggingum fluttist hins vegar í heild yfir til stefnda og var engin starfsemi eftir hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. Þjónusta við alla þáverandi viðskiptavini síðarnefnda fyrirtækisins fluttist því til stefnda. Áfrýjandi var eini starfsmaðurinn er áfram sinnti verkefnum við þessar tryggingar en telja verður í ljós leitt að eðli starfseminnar og verkefna áfrýjanda hafi ekki breyst við það að stefndi yfirtók verkið. Þegar þetta er metið í heild verður að telja að við þetta hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem hafi haldið einkennum sínum í merkingu laga nr. 72/2002. Samkvæmt því átti áfrýjandi eftir 1. mgr. 3. gr. laganna rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti hjá stefnda. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum og verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 463.558 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði  og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, Tjónamat og Skoðun ehf., greiði áfrýjanda, Sigurði Þ. Guðmundssyni, 463.558 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 119.977 krónum frá 1. nóvember 2003 til 1. desember sama ár, af 239.954 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004 en af 463.558 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2005.

Mál þetta var höfðað 22. mars 2004 og var dómtekið 20. desember sl.  Málið var endurflutt í dag og dómtekið.

Stefnandi er Sigurður Þ. Guðmundsson, Kleifarseli 9, Reykjavík.

Stefndi er Tjónamat & Skoðun ehf., Tryggvagötu 8, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 463.558 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af 119.977 krónum frá 1. nóvember 2003 til 1. desember 2003 og frá þeim degi af 239.954 krónum til 1. janúar 2004 og frá þeim degi af 463.558 krónum til greiðsludags.

Þess er krafist að dæmt verði að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. nóvember 2003 , en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.  Krafist er vaxta af málskostnaði skv. 3. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.  Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

Málavextir

Stefnandi hóf störf hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. í maí 1998 sem skrifstofumaður í bókhaldi.  Er fyrirtækið sá fram á rekstrarerfiðleika fyrri hluta árs 2003 var öllum starfsmönnum Alþjóðlegrar miðlunar sagt upp með bréfi dags. 31. mars 2003, með þriggja mánaða fyrirvara.  Af hálfu stefnda er því haldið fram að meðan uppsagnarfresturinn var að líða hafi eigendur Alþjóðlegrar miðlunar ehf., þeir Baldvin Hafsteinsson og Halldór Sigurðsson, lagt sig fram um að útvega starfsfólkinu nýja vinnu.  Það hafi tekist með alla starfsmennina nema tvo, stefnanda og einn annan.  Hafi þeir því verið þeir einu af starfsfólkinu sem unnu allan uppsagnarfrestinn. 

Síðasti starfsdagur stefnanda átti að vera 30. júní 2003.  Er líða tók að þeim degi varð að samkomulagi að stefnandi héldi áfram störfum í tæplega 50% starfi.  Um mánaðamótin ágúst/september 2003 var gerð breyting á launauppgjöri með þeim hætti að á launaseðli kom fram nýr launagreiðandi, Tjónamat & Skoðun ehf., í stað Alþjóðlegrar miðlunar ehf.  Í lok september var stefnanda síðan sagt upp störfum hjá stefnda án fyrirvara.

Stefnandi leitaði til Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem sendi bréf dags. 14. október 2003 þar sem krafist var útskýringa á af hverju stefnanda var ekki gefinn kostur á að starfa út uppsagnarfrest sinn en jafnframt var krafist úrbóta vegna þessa brots.  Því bréfi var ekki sinnt.

Þá var krafist launa í uppsagnarfresti, sbr. bréf Arnar Clausen hrl. dags. 4. nóvember 2003.  Því bréfi var ekki svarað.

Stefndi heldur því fram að þegar uppsagnarfresturinn var útrunninn hafi starfsemi Alþjólegrar miðlunar ehf. nánast engin verið, fyrir utan að halda utanum tryggingar smábáta, sem hafi verið u.þ.b. hálfsdags vinna fyrir einn starfsmann.  Við svo búið hafi verið tekin ákvörðun um að færa það verkefni yfir til fyrirtækisins Tjónamats og Skoðunar ehf., þ.e. stefnda í þessu máli, en það fyrirtæki sinni uppgjörum bótakrafna fyrir tryggingafélög á Lloyds markaðnum í London vegna vátryggingasamninga sem komist hafi á fyrir milligöngu Alþjóðlegrar miðlunar ehf.  Hafi stefnanda því verið boðið að sinna þessu verkefni fyrir stefnda í 50% starfi, en frá upphafi hafi verið ljóst að verkefnið myndi vera tímabundið þar sem fyrirsjáanlegt hefði verið, að það færi til annars fyrirtækis. 

Í lok september 2003 hafi stefnandi lokið verkinu fyrir stefnda.  Hafi þetta verkefni, fyrir stefnda, komið til fyrir þá sök að eigendum stefnda hafi verið ljóst að stefnandi gæti átt í miklum erfiðleikum með að fá vinnu annars staðar og því hafi  þetta verið gert í greiðaskyni við hann.  Hafi Halldór Sigurðsson rætt við stefnda síðasta dag uppsagnartímans og boðið honum að sinna verkefninu í hálfu starfi þar til það færi annað.  Hafi hann tekið skýrt fram að tilboðið hefði engin áhrif á uppsögn stefnanda hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. og felldi ekki úr gildi þá uppsögn.  Um væri að ræða nokkurskonar vinargreiða við stefnanda meðan hann leitaði sér að annarri vinnu á meðan smábátatryggingarnar héldust hjá stefnda. Stefnandi hafi engu svarað tilboðinu þá er Halldór bauð honum verkefnið, í lok júní 2003, en hafi hins vegar mætt til starfa á þriðjudagsmorgni 1. júlí 2003, sem stefndi hafi túlkað sem samþykki við hinu tímabundna verkefni fyrir fyrirtækið.  Ekki hafi verið gengið frá skriflegum ráðningarsamningi milli stefnanda og stefnda, en stefnanda hafi verið fullljóst að smábátatryggingarnar væru ekki fastar í hendi stefnda v/Alþjóðlegrar miðlunar ehf. og gætu farið fyrirvaralaust, eins og þá var komið fyrir Alþjóðlegri miðlun ehf.  Eftir að stefnandi hóf störf hjá Tjónamati og skoðun ehf., við hið tímabundna verkefni, hafi Halldór spurst margsinnis fyrir um hvort stefnandi væri búinn að finna sér aðra vinnu.  Þegar svo kom að því að fyrirmæli bárust frá Landssambandi smábátaeigenda um að þeir hefðu tekið ákvörðun um að færa verkefnið til Íslandstryggingar í lok september 2003, hafi stefnandi brugðist hinn versti við með hótunum um að réttur hans til áframhaldandi launa yrði sóttur af verkalýðsfélagi hans.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnanda var sagt upp störfum þann 31. mars 2003 með þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Stefnandi byggir kröfur sínar á því að með samkomulagi aðila um áframhaldandi störf í minna starfshlutfalli hafi réttaráhrif fyrri uppsagnar fallið niður og fyrra starfssamband endurnýjast, sbr. grein 18.1 í kjarasamningi VR, en þar segi að áunnin réttindi skuli haldast við endurráðningu innan eins árs.

Í september s.á. hafi stefndi tekið yfir starfssamning stefnanda og þar með öll réttindi og skyldur starfssambandsins, sbr. 3. gr. 1. nr. 72/2002 um aðilaskipti að fyrirtækjum, þar á meðal rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests.

Stefndi hafi í engu sinnt bréfum VR og Arnar Clausen hrl. og sé því gerð krafa um vangoldin laun sem nemi launum í uppsagnarfresti auk orlofs og desember­upp­bótar.  Desemberuppbót sé reiknuð að fullu til júní en síðan í hlutfalli við starfshlutfall.  Orlofsuppbót sé reiknuð miðað við starfshlutfall og starfstíma ( 30 vikur).

Krafan sundurliðist sem hér segi:

 

Laun v/október

48,87%

119.977

Laun v/nóvember

48,87%

119.977

Laun v/desember

48,87%

119.977

Orlof v/1. maí til 31. des 2003

 

146.152

Áður greitt orlof

 

-55.365

Desemberuppbót

 

34.842

Áður greidd desemberuppbót

 

-27.687

Orlofsuppbót

 

5.686

Samtals

 

463.559

 

Þar sem innheimtutilraunir, sbr. bréf frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, dags. 14. október 2003, og bréf Arnar Clausen hrl., dags. 4. nóvember 2003, hafi reynst árangurslausar og málshöfðun því nauðsynleg, sé hér farið fram á ítrustu kröfur samkvæmt lögum og kjarasamningum.

Kröfur um bætur kveður stefnandi styðjast við l. nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, l. nr. 30/1987 um orlof og l. nr. 19/1979 um uppsagnarfrest, l. nr. 72/2002 um aðilaskipti að fyrirtækjum, samningalög, l. nr. 7/1936, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnu­réttar og kjarasamninga Verslunarmannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda, og bókanir sem teljist hluti kjarasamninga.

Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði.  Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að samkomulag stefnanda og stefnda hafi falið í sér starf fyrir nýjan vinnuveitanda, þ.e. stefnda, frá 1. júlí 2003. Gerður hafi verið munnlegur ráðningar­samningur um að stefndi myndi frá 1. júlí 2003 sinna tilteknu verkefni fyrir stefnda í 50% starfi, en ekki Alþjóðlega miðlun ehf.  Ekki hafi verið um að ræða áframhaldandi störf fyrir Alþjóðlega miðlun ehf. og því hafi grein 18.1. í framlögðum kjarasamningi enga þýðingu í málinu.  Ekki hafi verið um að ræða að fyrra starfssamband endurnýjaðist.  Sé það trú stefnanda þá sé hann að beina kröfum sínum að röngum aðila sem eigi að leiða til sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Þá haldi stefnandi því ranglega fram að stefndi hafi yfirtekið öll réttindi og skyldur starfssambandsins, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002 um aðilaskipti að fyrirtækjum, þar á meðal rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests.  Lög nr. 72/2002 hafi enga þýðingu um sakarefnið, enda hafi engin aðilaskipti átt sér stað í skilningi laganna.  Alþjóðleg miðlun ehf. hafi haldið áfram hinni takmörkuðu starfsemi sinni allt þar til félagið var úrskurðað gjaldþrota í desember 2004, en stefnandi hafi sinnt hluta þeirrar starfsemi sem starfsmaður stefnda.  Það sé viðurkennd regla í vinnurétti að í tímabundinni ráðningu geti falist að ráðningu ljúki ákveðinn dag, eða að um sé að ræða ráðningu sem bundin sé við ákveðið verkefni og að semja megi fyrir fram um að henni ljúki þegar því verki er lokið.  Við það tímamark falli réttaráhrif ráðningarinnar niður án þess að starfsmaðurinn eigi neinar frekari kröfur á hendur vinnuveitanda sínum.

Stefnandi vísi í stefnu um kröfur um bætur til laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof og laga nr. 19/1979 um uppsagnarfrest án þess að gera nánari grein fyrir því á hvern hátt megi leiða rétt stefnanda af ákvæðum þessara laga.  Stefndi átti sig ekki á hvernig ákvæði þessara laga geti skipt máli fyrir sakarefnið en leyfir sér að mótmæla málsástæðum byggðum á ákvæðum þessara laga.  Með vísan til alls ofangreinds ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Um dómkröfur stefnda er vísað til almennra reglna vinnuréttarins, kröfuréttar, samningaréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Um málskostnaðar­kröfuna sérstaklega er vísað til XXI. kafla eml. nr. 91/1991, einkum ákvæða 130. gr.

Niðurstaða

Stefnandi bar fyrir dómi að þegar uppsagnarfrestur hans var að renna út hafi þess verið óskað að hann ynni áfram í hálfu starfi.  Hann bar að hann hefði unnið áfram sömu vinnu og áður, sem var aðallega í sambandi við smábátatryggingar.  Þá hefði hann haft sömu yfirmenn.  Hann bar að ekki hefði verið rætt við hann um að þetta hálfa starf yrði tímabundið eða verkefnabundið.  Hins vegar hafi hann vitað að starfsemin var mikið að minnka og hann hafi gert sér grein fyrir því að þetta yrði ekki framtíðarstarf.  Hann hafi samt átt von á að hann hefði starfið til áramóta og jafnvel fram yfir áramót.  Hann kvaðst hafa litið svo að uppsögnin væri runnin út og að honum yrði sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Halldór Sigurðsson eigandi stefnda bar fyrir dómi að hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. hefðu starfað 10-15 menn.  Fyrirtækið hefði farið í gjaldþrot.  Þegar verkefni hafi ekki verið til staðar hafi starfsfólkinu verið sagt upp.  Verkefni varðandi smábátatryggingar sem til stóð að færi til Íslandstryggingar hafi þó enn verið til staðar og hafi orðið að samkomulagi að það verk yrði unnið hjá stefnda.  Halldór Sigurðsson og Baldvin Hafsteinsson voru eigendur beggja fyrirtækja, Alþjóðlegrar miðlunar ehf. og Tjónamats og skoðunar ehf.

Halldór bar fyrir dómi að hann hefði talað við stefnanda áður en uppsagnarfresturinn rann út og boðið honum vinnu áfram hálfan daginn.  Kvaðst Halldór hafa sagt Sigurði að hann mætti ekki taka þetta boð þannig að um endurvakningu á ráðningarsamningi hans, sem búið var að segja upp, væri að ræða.  Kvað hann Sigurð ekki hafa svarað tilboði sínu en hann hafi komið til vinnu eftir að uppsagnarfresti lauk.

Samkvæmt framburði Baldvins Hafsteinssonar fyrir dómi kvaðst hann hafa gengið út frá því við Halldór að stefnandi færi á launaskrá hjá stefnda.  Það hafi alltaf legið fyrir að starf stefnanda hjá stefnda yrði verkefnabundið eða tímabundið.  Um hafi verið að ræða millibilsástand meðan verið var að færa tryggingastarfsemi frá einu félagi til annars.

Eins og að framan er rakið greinir málsaðila á um hvað samið var um milli þeirra eftir að uppsagnarfresti lauk.

Fyrir liggur að stefnanda var sagt upp hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. þann 30. mars 3003.  Uppsagnarfrestur var þrír mánuðir og lauk honum 30. júní 2003.  Á þeim tíma var starfsemi Alþjóðlegrar miðlunar ehf. nánast engin orðin samkvæmt því sem fram hefur komið.  Var því tekin sú ákvörðun að færa verkefni er varðaði smábátatryggingar, sem stefnandi starfaði við, yfir til stefnda.  Var stefnanda boðið eða hann beðinn að sinna starfi við þessar tryggingar í 50% starfi, sem hann gerði. 

Fram hefur komið að fyrirtækin Alþjóðleg miðlun ehf. og Tjónamat og skoðun ehf. voru rekin í sama húsnæði og að því leyti ekki skýr skil á milli þeirra.  Á framlögðum launaseðli stefnanda fyrir júlímánuð 2003 kemur ekki fram hver launagreiðandi er.  Á launaseðlum fyrir ágúst og september 2003 er launagreiðandi tilgreindur Tjónamat og skoðun ehf.  Á launaseðli fyrir septembermánuð, er auk launa, tilgreind eingreiðsla að fjárhæð 27.687 krónur sem stefndi heldur fram að sé greiðsla í viku vegna uppsagnar.

Ekkert í málinu bendir til að stefndi hafi yfirtekið starfsemi Alþjóðlegrar miðlunar ehf. og þar með ráðningarsamning stefnanda, enda hefur komið fram að starfsemi félagsins var nánast engin orðin á þessum tíma.  Fyrir liggur að uppsögn stefnanda var aldrei afturkölluð.  Samkvæmt gögnum sem fyrir liggja fékk stefnandi greidd laun frá stefnda og verður að líta svo á að hann hafi verið starfsmaður stefnda umræddan tíma.  Enginn skriflegur ráðningarsamningur var gerður milli aðila.  Stefndi heldur því fram að samkvæmt munnlegum samningi þeirra hafi stefnanda verið falin ákveðin verkefni tímabundið eða þar til þau færðust yfir til annars félags, sem ráðgert var.  Þykir framburður stefnanda sjálfs styðja þessa fullyrðingu en hann bar, eins og áður segir, fyrir dómi að hann hafi átt von á því að hann starfaði til áramóta. 

Samkvæmt því sem fram hefur komið þykir sýnt fram á að starfi stefnanda hjá Alþjóðlegri miðlun ehf. hafi lokið 30. júní 2003 er uppsagnarfresti lauk.  Í kjölfarið hafi stefnandi og stefndi gert samning  um tímabundið verkefni hjá stefnda sem lauk í september 2003.  Telja verður samkvæmt því að stefndi hafi, með þeim greiðslum sem stefnandi hefur þegar fengið, fullnægt skyldum sínum gagnvart stefnanda.

Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Tjónamat og skoðun ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Þ. Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.