Hæstiréttur íslands

Mál nr. 247/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 16. apríl 2012.

Nr. 247/2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. apríl 2012.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 20. apríl 2012, kl. 16:00.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verð hafnað.

Í greinargerð Lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að tilkynning hafi borist frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis þann 6. apríl 2012, um að kærði hafi verið stöðvaður á tollhliði, vegna gruns um að hann hefði fíkniefni falin í fórum sínum, í kjölfar komu hans til landsins með flugi[...] frá London. Við skoðun í farangri kærða hafi fundist sjampóbrúsi sem hafi innihaldið meint fíkniefni. Um það leyti sem kærði hafi verið tekinn til skoðunar af tollgæslunni hafi A, kt. [...], einnig verið tekinn til skoðunar vegna gruns um að hann hefði fíkniefni í fórum sínum í kjölfar komu hans til landsins með sama flugi og kærði. Við skoðun tollgæslunnar hafi komið í ljós að A hafi ekki haft fíkniefni í fórum sínum. Hins vegar hafi fundist gögn í fórum hans sem tengdu hann við kærða og ferðalag hans. Samkvæmt niðurstöðum tæknideildar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu virðist sem að um hafi verið að ræða um það bil 187 gr af meintu kókaíni. Lögregla telji sig hafa rökstuddan grun um að kærði og A hafi í samvinnu staðið að innflutningum á hinum meintu fíkniefnum.

Við rannsókn lögreglu hafi einnig komið fram sterkar vísbendingar um að fleiri aðilar hafi verið viðriðnir innflutninginn á hinum meintu fíkniefnum. Lögregla telji sig hafa sterkar vísbendingar um það hvaða aðila sé um að ræða og vinni nú að því að hafa upp á þeim.

Lögregla hafi nú yfirheyrt kærða og A í tvígang og vinni nú að því að bera framburði þeirra saman við hvorn annan og einnig við önnur gögn í málinu. Þá hafi lögregla einnig aflað síma- og bankagagna kærða og A og vinni lögregla nú að því að fara yfir þau gögn og greina innihald þeirra. Vísist nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og miðað við þau gögn sem lögregla hafi þegar aflað og rannsakað virðist sem að málið muni vinda nokkuð upp á sig og muni það verða umfangsmeira en upphaflega hafi verið útlit fyrir. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð kærða og X til landsins, tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Þá vinni lögregla einnig að því að hafa upp á þeim aðilum sem hún telji að tengist þessu máli með beinum hætti. Telji lögreglan að þau fíkniefni sem X hafi komið með til landsins og kærði hafi milligöngu um að yrðu flutt til landsins, bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði kunni að verða beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á kærða, af hendi samverkamanna kærða, gangi kærði laus, á meðan rannsókn málsins sé á frumstigum hjá lögreglu. Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til föstudagsins 20. apríl 2012, kl. 16:00.

Niðurstaða.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem varðað getur fangelsi. Samkvæmt greinargerð lögreglustjóra er rannsókn málsins enn í fullum gangi og ætlar lögregla að málið verði umfangsmeira en í fyrstu var talið. Að því gættu er fallist á það með lögreglustjóranum á Suðurnesjum að kærði geti torveldað rannsókn málsins og haft áhrif á hugsanlega samverkamenn sína og gagnkvæmt, haldi hann óskertu frelsi. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. apríl 2012, kl. 16:00.

Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæslu stendur.