Hæstiréttur íslands
Mál nr. 445/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Innsetningargerð
- Bókhald
- Haldsréttur
|
|
Miðvikudaginn 17. janúar 2001. |
|
Nr. 445/2000. |
Byggðaþjónustan ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn þrotabúi Félagsprentsmiðjunnar ehf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Innsetningargerð. Bókhald. Haldsréttur.
Þ, þrotabú F ehf., krafðist þess að frumgögn, sem bókhald F ehf. var grundvallað á, svo og bókhaldsbækur, sem B ehf. hafði unnið upp úr því, yrðu tekin úr vörslum B ehf. og afhent Þ. Fallist var á það með B ehf. að bókhaldsgögn Þ hefðu aukist að verðmæti fyrir Þ fyrir tilverknað B ehf. Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum var lagt til grundvallar að B ehf. hefði mátt líta svo á að Þ hefði samþykkt að greiða fyrir verk hans. Eins og til háttaði í málinu var almenn skírskotun Þ til opinberra hagsmuna ekki talin geta leitt til þess að vikið yrði til hliðar rétti B ehf. og var fallist á að hann hefði haldsrétt í bókhaldsgögnum Þ, þar sem fullnaðaruppgjör hefði ekki farið fram. Var kröfu Þ um innsetningu í allt bókhald F ehf. því synjað, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. desember 2000. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2000, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að allt bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. verði tekið úr vörslum sóknaraðila með beinni aðfarargerð og fengið skiptastjóra varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið, að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað og sóknaraðila dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að undanskildu ákvæði hans um málskostnað, sem sóknaraðila verði gert að greiða í héraði auk kærumálskostnaðar.
Sóknaraðila hefur verið veitt kæruleyfi fyrir Hæstarétti, en hagsmunir hans í málinu ná ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem verður beitt við málskot þetta, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um málskostnað í héraði þegar af þeirri ástæðu ekki til álita.
I.
Í greinargerð sinni til Hæstaréttar hefur sóknaraðili gert nokkra grein fyrir því í hverju vinna hans í þágu varnaraðila hafi falist. Hafi hann fengið í hendur bókhaldsgögn frá Félagsprentsmiðjunni ehf., en með því segist hann vísa til frumgagna, sem tilgreind séu í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Um sé að ræða gögn viðkomandi rekstri félagsins á árinu 1999 fram til 15. september sama árs, er bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Á grundvelli þessarra gagna hafi sóknaraðili unnið bókhald, en í því felist að gerðar hafi verið bókhaldsfærslur, sem skráðar séu í tilteknar bókhaldsbækur, sem nánar greini í 9. gr. og 10. gr. laga nr. 145/1994. Nánar skýrir hann það svo að vinna hans hafi falist í að koma skipulagi á þessi bókhaldsgögn, gefa frumgögnum fylgiskjalanúmer, merkja skölin til færslu á bókhaldsreikningum og setja upp ákveðið bókhaldskerfi á grundvelli þessara gagna og gera afstemmingar. Bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. árið 1999 sé því bækur, sem færðar hafi verið á grundvelli frumgagna bókhalds og sé afrakstur vinnu sóknaraðila. Hafi Félagsprentsmiðjan ehf. eða varnaraðili aldrei orðið eigandi bókhaldsins, enda hafi hvorugur innt af hendi fullnægjandi greiðslu fyrir. Ákveðinn hluti þess hafi þó verið afhentur varnaraðila, svo sem nánar komi fram í hinum kærða úrskurði.
Að því er varðar sjálf frumgögnin viðurkennir sóknaraðili að þau séu eign varnaraðila. Hann reisir kröfu sína hins vegar á því að verðmætisaukning hafi orðið á þessu gagnasafni, sem felist í því skipulagi, sem komið hafi verið á gögnin. Sá, sem tæki við færslu þeirra gæti auðveldlega nýtt sér þau númer, sem sett hafi verið á skjölin og aðrar færslumerkingar. Öll vinna við flokkun og skipulagningu væri þá óþörf, þ.e. sú bókaravinna, sem inna þyrfti af hendi áður en bókhaldið yrði rannsakað af endurskoðanda, eins og skiptastjóri varnaraðila virðist telja nauðsynlegt.
Í málatilbúnaði sínum heldur varnaraðili fram að verðmæti í bókhaldinu séu ekki fjárhagsleg og því ókleift að krefjast haldsréttar í því. Haldsréttur sé ekki annað en veðréttur, en einungis sé unnt að taka veð í fjárhagslegum verðmætum, sbr. 37. gr. laga nr. 90/1989. Eini kostur sóknaraðila til að gæta réttar síns hafi verið að lýsa kröfu á hendur varnaraðila. Það hafi hann ekki gert og því tapað hugsanlegum rétti sínum.
II.
Í beiðni varnaraðila um aðför er þess krafist að „allt bókhald“ Félagsprentsmiðjunnar ehf. verði tekið úr vörslum sóknaraðila, „en nánar er um að ræða bókhald ársins 1999“. Samkvæmt orðanna hljóðan beinist krafan ekki eingöngu að því að fá afhent frumgögn, sem bókhaldið er grundvallað á, heldur einnig þær bókhaldsbækur, sem sóknaraðili hefur unnið upp úr því. Engar frekari skýringar eru fram komnar af hálfu varnaraðila á þessu. Þótt krafan sé að þessu leyti ekki allskostar skýr er ekki næg ástæða til að hafna henni af þessum sökum.
Engin efni eru til að vefengja að sóknaraðili hafi innt af hendi verðmæt störf í þágu varnaraðila. Verður fallist á með sóknaraðila að bókhaldsgögn varnaraðila hafi aukist að verðmæti fyrir hann sjálfan fyrir tilverknað hins fyrrnefnda. Er þá einkum horft til þess að varnaraðili þyrfti að verja til þess tíma og fjármunum að koma þeim í sambærilegt horf og nú ef hann fengi bókhaldsgögnin afhent í þeirri mynd, sem sóknaraðili tók við þeim, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1666.
III.
Í málatilbúnaði sóknaraðila er haldið fram að skiptastjóri varnaraðila hafi beinlínis beðið um það verk, sem hinn fyrstnefndi innti af hendi og áður er getið. Hafi skiptastjórinn haft samband við fyrirsvarsmann sóknaraðila í september og október 1999 og ýtt á eftir að bókhaldsvinnu yrði lokið. Af hálfu varnaraðila er þessu mótmælt.
Í hinum kærða úrskurði er greint frá skýrslutöku skiptastjórans af fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsprentsmiðjunnar ehf. 1. nóvember 1999, en þar kom fram að sóknaraðili ynni þá að færslu bókhaldsins. Hefur skiptastjóranum eigi síðar en þann dag verið fullkunnugt um þau störf varnaraðila, sem hér um ræðir. Mátti hann þá einnig vita að ekki gat verið öðrum en varnaraðila til að dreifa til að greiða fyrir það verk. Hann gerði sóknaraðila þó ekki viðvart um að ekki stæði til að greiða fyrir verkið. Þá eru í hinum kærða úrskurði jafnframt rakin bréfaskipti málsaðila í síðari hluta nóvember 1999, þar sem skiptastjóri varnaraðila bað um að fá í hendur bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. án þess að minnst væri á bókhaldsgögn, sem að baki lágu. Þessi bréfaskipti renna jafnframt stoðum undir að sóknaraðili mátti líta svo á að varnaraðili samþykkti að greiða fyrir verk hins fyrrnefnda.
Til stuðnings kröfu um aðför ber varnaraðili fyrir að opinberir hagsmunir séu í húfi. Er einkum vísað til þess að kröfuhöfum leiki hugur á að kanna nánar gerninga, sem Félagsprentsmiðjan ehf. stóð að í ágúst 1999 skömmu áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Til þess þurfi þeir að fá bókhaldið í hendur. Nánari skýring er ekki fram komin. Slík almenn skírskotun til opinberra hagsmuna getur ekki eins og hér háttar leitt til þess að vikið verði til hliðar rétti sóknaraðila. Verður fallist á að hann hafi haldsrétt í bókhaldsgögnum varnaraðila, þar sem fullnaðaruppgjör hefur ekki farið fram. Verður kröfu varnaraðila um innsetningu í allt bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. því synjað, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, þrotabús Félagsprentsmiðjunnar ehf., um að honum verði með beinni aðfarargerð afhent bókhald og bókhaldsgögn í vörslu sóknaraðila, Byggðaþjónustunnar ehf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2000.
Málsaðilar eru:
Gerðarbeiðandi er þrotabú Félagsprentsmiðjunnar ehf., kt. 501195-3169, Laugavegi 97, Reykjavík. Eftirleiðis nefndur sóknaraðili.
Gerðarþoli er Byggðaþjónustan ehf., kt. 430194-2169, Auðbrekku 22, Kópavogi. Hér eftir nefndur varnaraðili.
Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 29. ágúst sl. með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda, sem dagsett er 23. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar 30. október sl. að afloknum munnlegum málflutningi.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær, að krafist er dómsúrskurðar um að allt bókhald þb. Félagsprentsmiðjunnar ehf., sem varnaraðili, Byggðaþjónustan efh., hefur undir höndum verði tekið úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengið skiptastjóra þrotabús Félagsprentsmiðjunnar ehf. en nánar sé um að ræða allt bókhald ársins 1999. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola að mati dómsins.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur, að vera sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Einnig krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda að mati réttarins.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Félagsprentsmiðjan ehf. var tekin til gjaldþrotaskipta að eigin ósk með úrskurði uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. september 1999. Smári Hilmarsson hdl. var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptastjóri tók skýrslu af Viðari Sigurðssyni, framkvæmdarstjóra og aðaleiganda Félagsprentsmiðjunnar ehf. 1. nóvember 1999. Steingrímur Þormóðsson hrl., lögmaður Viðars, var viðstaddur skýrslutökuna, en Steingrímur gætir hagsmuna varnaraðila í þessu máli. Framkvæmdarstjórinn gerði grein fyrir sölu ýmissa eigna félagsins skömmu fyrir gjaldþrot þess og hvernig andvirði þeirra hafi verið ráðstafað. Hann vísaði í þessu sambandi til bókhalds félagsins, sem væri í vörslu Ingimundar Magnússonar, sem væri að ljúka við að færa bókhald félagsins og myndi skila því til skiptastjóra uppfærðu til 1. september 1999. Viðar upplýsti enn fremur, að Ingimundur hafi verið endurskoðandi félagsins og hafi séð um færslu á öllu bókhaldi félagsins. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli skiptastjóra og Ingimundar Magnússonar, fyrirsvarsmanns varnaraðila. Báðir málsaðilar vísa til bréfa þessara til stuðnings kröfum sínum og verður efni þeirra því rakið í stórum dráttum.
Skiptastjóri ritaði varnaraðila bréf dags. 24. nóvember 1999. Þar er þess getið, að kröfulýsingarfrestur renni út þann sama dag og fyrirhugaður sé skiptafundur með kröfuhöfum 8. desember og nauðsynlegt að bókhald félagsins liggi fyrir á fundinum. Í bréfinu segir m.a. orðrétt svo: ,,Félagsprentsmiðjan ehf. seldi hluta af starfsemi sinni þann 20.08. 99, og leikur kröfuhöfum forvitni á að vita hvað varð um andvirði þessara samninga, en framkvæmdastjóri hefur vísað til þess að allt slíkt komi fram í bókhaldi.” Svarbréf Ingimundar Magnússonar, fyrirsvarsmanns, varnaraðila er dags. 25. nóvember s.á. og hljóðar svo: ,,Hef móttekið fax varðandi Félagsprentsmiðjuna ehf. Bókhald er fært til 15.09.1999 Afstemmingar eru á lokastigi en sérstök vinna hefur verið lögð í skuldunautalistann. Við gerum ráð fyrir að rekstrar og efnahagsreikningar fyrir tímabilið 1.01.-15.09. 1999 verði tilbúinn til afhendingar þann 30.11. n.k. Hver greiðir okkur þessa vinnu? Mér er ekkert að vanbúnaði að mæta á skiptafund 8.12.n.k. kl. 14.00.” Skiptastjórinn sendi varnaraðila bréf í framhaldinu, sem dagsett er 28. nóvember s.á. Þar segir m.a. svo: ,,Mér skildist á Viðari framkv.stjóra að hann hefði staðið skil á reikningum vegna vinnu við bókhald, það ekki rétt. Gott væri að vita hver skuldin er í dag.” Svarbréf Ingimundar Magnússonar er dags. 8. desember s.á. og er svohljóðandi: ,,Sendi þér með bréfi þessu eftirtalin gögn v/þrotabús Félagsprentsmiðjunnar ehf. 1. Ársreikninga 1-01.-15. 09. 1999. 2. Yfirlit yfir helstu eigna og greiðsluhreyfingar 20.08-15.09 1999. 3. Lokareikning v/ bókhalds 1999. Það er rétt hjá Viðari Sigurðssyni að hann stóð að fullu skil á mánaðarlegum innborgunarreikningum, en lokavinna unnin í sept-nóv. var reikningsfærð núna”.
Skiptafundur var haldinn í þrotabúinu 8. desember 1999. Á fundinn mættu, auk skiptastjóra, Steingrímur Eiríksson hdl., lögmaður Íslandsbanka hf., og áðurnefndur Ingimundur Magnússon. Steingrímur óskaði eftir því á fundinum, að löggiltur endurskoðandi á vegum KPMG Endurskoðunar hf. yfirfæri og skoðaði bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. fyrir gjaldþrot félagsins, m.a. varðandi ráðstafanir forsvarsmanna þess í tengslum við eignasölu, þ.e. hvort andvirði eigna hafi skilað sér inn í búið og með hvaða hætti, eins og fram kemur í fundargerð. Þar er einnig skráð, að Steingrímur lýsi yfir því, að hann ábyrgðist kostnað f.h. Íslandsbanka hf. allt að kr. 200.000. Einnig er fært til fundarbókar, að Ingimundur Magnússon lýsti því yfir, að hann muni ekki afhenda bókhald Félagsprentsmiðjunnar efh., nema gegn greiðslu á ógreiddum reikningi að fjárhæð kr. 203.373. Steingrímur Eiríksson hdl. skoraði á skiptastjóra að leita allra leiða til að fá bókhald félagsins í hendur svo að unnt yrði að yfirfara það í framangreindum tilgangi. Ingimundur Magnússon hefur síðan neitað að afhenda skiptastjóra bókhald Félagsprentsmiðjunnar efh., nema gegn greiðslu áðurnefndrar fjárhæðar. Skiptastjóri höfðaði því mál f.h. þrotabúsins á hendur varnaraðila og gerði þær dómkröfu, að varnaraðila verði gert að afhenda honum allt bókhald Félagsprentsmiðjunnar efh. fyrir árið 1999, sem varnaraðili hefði undir höndum.
Máli þessu lauk með frávísunarúrskurði, sem upp var kveðinn 16. júní sl. Á því var m.a. byggt, að kröfu um afhendingu gagna, sem tilheyra þrotabúi, sem beint er gegn öðrum en þrotamanni sjálfum eða forráðamanni félags eða stofnunar, sem sé til gjaldþrotaskipta, verði að leggja fyrir sem beiðni um beina aðfarargerð, samkvæmt ákvæðum 12. kafla laga nr. 90/1989.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo, að Viðar Sigurðsson, framkvæmdastjóri hins gjaldþrota félags, hafi lýst því yfir við skýrslutöku 1. nóvember 1999, að varnaraðili sé u.þ.b. að ljúka við að færa bókhald félagsins til 1. september það ár og að því verði skilað til skiptastjóra næstu daga. Á þessum tíma hafi svo virst að ekkert væri því til fyrirstöðu að bókhaldið yrði afhent. Nokkrum dögum síðar hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins afhent allt bókhald frá fyrri árum, sem hann hafði undir höndum.
Sóknaraðili byggir innsetningarkröfu sína í bókhald Félagsprentsmiðjunnar ehf. á því, að hann eigi ótvíræðan rétt til fá það afhent. Varnaraðili eigi ekki haldsrétt í bókhaldi þó svo að ógreiddur sé reikningur fyrir vinnu við færslu bókhaldsins. Sóknaraðili hafi ekki ábyrgst sérstaklega greiðslu á reikningi fyrir vinnu við bókhaldið, enda hefði varnaraðili þurft að fá skýlausa heimild fyrir því hjá skiptastjóra þrotabúsins. Þrotabúið hafi heldur ekki óskað eftir því við varnaraðila að þessi vinna yrði innt af hendi. Ef svo hefði verið, myndi krafa varnaraðila hafa notið réttinda sem búskrafa í þrotabúið. Ljóst sé að hluti þeirrar vinnu, sem málið snúist um, hafi verið unnin áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Skiptastjóri hafi ekki óskað eftir þessari vinnu. Varnaraðili hafi ekki lýst kröfu í þrotabúið og sé því ljóst að um almenna kröfu væri að ræða, hefði kröfu verið lýst af hálfu varnaraðila. Því hafi skiptastjóra ekki gefist færi á að fjalla um kröfu varnaraðila. Engu að síður sé ljóst, að skiptastóri hefði samþykkt kröfuna sem almenna kröfu, en ekki sem búskröfu.
Ljóst sé, að varnaraðila hafi verið fullkunnugt um að bú Félagsprentsmiðjunnar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Steingrímur Þormóðsson, sem gæti hagsmuna varnaraðila í málinu hafi verið lögmaður Viðars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Félagsprentsmiðjunnar ehf. og verið viðstaddur skýrslutöku skiptastjóra 1. nóvember 1999. Í því sambandi bendir sóknaraðili á það, að bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta að beiðni fyrirsvarsmanna þess. Beiðninni til héraðsdóms hafi fylgt reikningsuppgjör, sem varnaraðili hafi staðið að. Sú staðreynd renni enn frekari stoðum undir vitneskju fyrirsvarsmanna varnaraðila um gjaldþrot Félagsprentsmiðjunnar ehf. Varnaraðila hafi þannig verið fullkunnugt um stöðu mála og verið í lófa lagið að hætta bókhaldsvinnu sinni eða krefja skiptastjóra um ábyrgð fyrir greiðslu. Þessu hafi varnaraðili ekki sinnt og verði að bera hallann af þessu tómlæti sínu.
Sóknaraðili byggir innsetningarkröfu sína á því, að verulegir opinberir hagsmunir liggi til grundvallar kröfunni. Bókhaldsgögn veiti mikilsverðar upplýsingar um ástæður gjaldþrotsins, sem skiptastjóra beri að kanna lögum samkvæmt. Þeirri lagaskyldu geti hann ekki sinnt, nema hann fái fullan aðgang að bókhaldi félagsins. Skiptastjóri geti heldur ekki sinnt þeirri lagaskyldu að telja fram til skatts fyrir þrotabúið, hafi hann ekki aðgang að bókhaldi félagsins. Þá hvíli sú skylda á skiptastjóra, að vekja athygli ríkislögreglustjóra á atvikum sem vikið sé að í 84. gr. gjaldþrotaskiptalaga (gþskl.) nr. 21/1991. Aðgangur að bókhaldi félagsins sé forsenda þess, að þeirri skyldu verði fullnægt.
Því sé ljóst, að verulegir opinberir hagsmunir séu fyrir hendi að fá bókhald félagsins, enda verði skiptum ekki lokið nema það verði afhent skiptastjóra.
Þvingun sú, sem varnaraðili beiti í þessu efni, sé ólögmæt. Væri haldsréttur endurskoðenda viðurkenndur, gætu þeir neitað skattyfirvöldum um bókhald og gögn úr bókhaldi. Slíkt fengi ekki staðist, enda verði að telja opinbera hagsmuni ríkari en hagsmuni endurskoðenda og engin lagarök til að staðfesta haldsrétt í bókhaldi.
Sóknaraðili byggir einnig á því, að haldsréttur geti ekki stofnast í bókhaldi. Vísar sóknaraðili til gagnályktunar 37. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 þessu til stuðnings. Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði sé heimilt að gera í fjárnám eignum, sem hafi fjárhagslegt gildi s.s. í peningum, fasteign, eða lausafé, o.fl. sem sé hægt að tilgreina nægilega. Ljóst sé, að í bókhaldi Félagsprentsmiðjunnar ehf. felist ekki fjárhagsleg verðmæti, enda sé ekki hægt að krefjast uppboðs á því, sbr. 6. gr. uppboðslaga nr. 90/1991. Haldsréttur sé ekkert annað en veðréttur, en einungis sé mögulegt að taka veð í fjárhagslegum verðmætum.
Varnaraðili hafi ekki átt annan kost að lögum, en lýsa kröfu í þrotabú Félagsprentsmiðjunnar ehf. sem hann hafi ekki gert og hafi því glatað hugsanlegum rétti sínum á hendur þrotabúinu.
Loks byggir sóknaraðili á því, að jafnræði hröfuhafa búins yrði raskað, ef krafa varnaraðila næði fram að ganga. Tilgangur gjaldþrotaskipta sé að jafna aðstöðu kröfuhafa. Næði krafa varnarðila fram að ganga, sé ljóst að jafnræði kröfuhafa yrði verulega raskað og byði upp á misnotkun.
Sóknaraðili styður málskostnaðarkröfu sína með vísan til 1. og 3. mgr. 129. gr. svo og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðili byggir á því, að fyrirsvarsmaður varnaraðila hafi í bréfi til skiptastjóra frá 25. nóvember 1999 spurst fyrir um það, hver myndi greiða kostnað af bókhaldsvinnu í þágu þrotabúsins. Skiptastjóri hafi svarað þessu með því að spyrjast fyrir um það, hvenær bókhaldið yrði tilbúið, þar sem hann þyrfti á því að halda. Hafi fyrirsvarsmaður varnaraðila skilið þetta svo, að sóknaraðili myndi greiða fyrir vinnuna. Þegar bókhaldið var að fullu fært og frágengið hafi skiptastjóri hafnað að greiða fyrir þá vinnu, sem látin var í té, eftir að Félagsprentsmiðjan ehf. hafði verið tekin til gjaldþrotaskipta. Því hafi varnaraðili gert að skilyrði fyrir því að afhenda bókhaldið að fá greiðslu fyrir vinnu starfsmanna sinna. Afstaða varnaraðila hafi byggst á dómi Hæstaréttar í máli nr. 289/1994, H.1994:1666. Skiptastjóri hafi hins vegar Hæstaréttardóminn ekki hafa fordæmisgildi í þessu máli, þar sem opinberir hagsmunir krefjist þess, að varnaraðili afhendi bókhaldið. Varnaraðili sé annarrar skoðunar og styðji kröfur sínar eftirfarandi rökum:
a. Að varnaraðili hafi óumdeilanlega innt umkrafða bókhaldsþjónustu af hendi eftir gjaldþrot Félagsprentsmiðjunnar ehf. Þjónustan hafi verið veitt með fullu samþykki skiptastjóra, sem hefði átt að upplýsa varnaraðila um það í tæka tíð, að þjónustan yrði ekki greidd, fyrst afstaða hans sé nú á þann veg. Aftur á móti sé ekki öðrum til að dreifa en sóknaraðila sem kaupanda þessarar þjónustu. Varnaraðili bendir í þessu samhengi á 14. og 15. gr. kaupalaga nr. 39/1922, en þar komi fram sú grundvallarregla, að seljanda sé óskylt að láta seldan hlut af hendi nema kaupverðið sé samtímis greitt.
Varnaraðili byggir einnig á því, að bókhaldsgögnin, færð í það kerfi, sem félagið hafi útbúið, geri bókhaldið verðmætt fyrir sóknaraðila. Vinna hafi verið unnin, sem ella hefði þurft að fá annan til að vinna. Án þessarar vinnu myndi bókhaldið eitt ekki koma að neinum notum og alls ekki á þann hátt, sem sóknaraðili lýsi nú yfir, að hann ætli að nýta það. Varnaraðili hafi þannig skapað verðmæti fyrir sóknaraðila, sem beri að greiða fyrir.
b. Hvað varði þá óskilgreindu opinberu hagsmuni, sem sóknaraðili byggi kröfu sína á, þá sé ljóst, að allir, sem komi að bókhaldinu, hafi hagsmuni af því að það hafi þegar verið fært og að nú sé hægt að rekja sig áfram gegnum það. Þannig sé það í þágu opinberra hagsmuna að bókhaldið hafi verið fært, enda sé það forsenda þess, að hægt sé að senda málið til skattrannsóknar, unnt sé að kanna, hvort ýmsir fjármunalegir gerningar stjórnenda Félagsprentsmiðjunnar ehf. fari í bága við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, eða ákvæði annarra laga er varða opinbera hagsmuni. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á það, að skiptastjórar uppfylli sjaldnast þá lagaskyldu að færa bókhald þrotabúa, á þeirri forsendu að það sé of kostnaðarsamt. Bókhaldsvinna varnaraðila uppfylli því lagaskilyrði að þessu leyti. Hún gagnist einnig þrotabúinu við lögmælt framtal til skatts, þ.m.t. virðisaukaskatts, sbr. 2. mgr. 91. gr. skattalaga nr. 75/1981 og 4. mgr. 49. gr. laga um virðisaukaskatt. Einnig sé það í verkahring skiptastjóra að tilkynna skattstjóra sérstaklega um gjaldþrotaskipti sbr. 2. ml. . mgr. 5. gr. laga um virðisaukaskatt.
Í ljósi þess, að nauðsynlegt hafi verið að færa bókhald fyrir sóknaraðila, sé eðililegt að varnaraðili hafi trúað því og treyst, að hann fengi greitt fyrir vinnu sína. Samkvæmt framansögðu sé vandséð að opinberir hagmunir krefjist þess að varnaraðili fái ekki umkrafða greiðslu.
Varnaraðili hafi aldrei neitað að afhenda bókhaldið. Aðeins gert þá kröfu að fá fyrst greitt fyrir vinnu sem nauðsynlegt var að inna af hendi og sóknaraðila bar að láta vinna.
Varnaraðili vekur enn fremur athygli á því, að oftar en ekki komi upp það vandamál í sambandi við gjaldþrotaskipti félaga, að bókhald sé ófært. Sé þá leitað til stærstu kröfuhafa í búið um að þeir beri kostnað af færslu bókhaldsins. Slíkt kosti oft háar fjárhæðir. Hér liggi bókhaldið fyrir uppfært, en aðeins þurfi að greiða lága fjárhæð fyrir þá vinnu, sem innt hafi verið af hendi við færslu þess og frágang.
c. Varnaraðili mótmælir þeirri skoðun sóknaraðila að máli skipti, að ekki sé hægt að bjóða bókhaldið upp á nauðungaruppboði að gengnu fjárnámi. Það eigi ekki að ráða úrslitum, að vinna sú, sem varnaraðili lét í té skapi ekki almenn verðmæti, enda sé því svo farið með marga þjónustu. Vinnan sé nauðsynleg og verðmæt fyrir þann sem óski eftir þjónustunni, en ekki aðra. Nefna megi mörg dæmi þessa, s.s. vinnu skósmiðs sem sérsmíði skó eftir pöntun. Sú aðstaða leiði ekki til þess, að skósmiðurinn eigi ekki haldsrétt (lögveð) í skónum gagnvart þeim, sem pantaði þá.
d. Varnaraðili mótmælir að öðru leyti öllum málsástæðum sóknaraðila og bendir á, að sóknaraðili vísi ekki til viðeigandi ákvæða aðfararlaga kröfum sínum til grundvallar og krafa hans sé of seint fram komin. Einnig séu kröfur hans óskýrar um margt og geti það leitt til frávísunar málsins.
Varnaraðili vísar til lagareglna um haldsrétt, svo sem þeim sé lýst í Uppboðsrétti Stefáns M. Stefánssonar bls. 38, en þar sé því lýst, að haldsréttur sé í sumum tilvkikum bein uppboðsheimild en í sumum tilvikum ekki. Varnaraðili vísar enn fremur til þeirra lagaákvæða, sem áður hefur verið gerð grein fyrir af hans hálfu.
Forsendur og niðurstaða:
Á því er byggt af hálfu varnaraðila, að krafa hans sé til orðin eftir að bú Félagsprentsmiðjunnar efh. var tekið til gjaldþrotaskipta. Krafan sé því utan skuldaraðar, svonefnd búskrafa, sem ekki þurfi að lýsa í þrotabú, sbr. 4. tl. 118. gr. gþskl. Báðir málsaðilar eru sammála um það, að Félagsprentsmiðjan ehf. hafi fyrir gjaldþrot sitt greitt varnaraðila að fullu fyrir veitta þjónustu til loka ágústsmánaðar 1999. Aftur á móti er óljóst, hvort hluti þeirrar vinnu, sem varnaraðili krefur þrotabúið um, hefur átt sér stað á tímabilinu frá 1. september 1999 fram til þess, er bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta hinn 15. sama mánaðar, enda liggja engir reikningar frá varnaraðila fyrir í málinu.
Í máli þessu er aðstaðan sú, að skiptastjóri og fyrirsvarsmaður varnaraðila virðast fyrst hafa átt bréfleg samskipti sín í milli undir lok nóvembermánaðar 1999. Vikið er að því að framan, (sjá bls. 2) að skiptastjóri óskaði eftir því við varnaraðila í bréfi dags. 24. nóvember að fá bókhald þrotabúsins. Í svarbréfi varnaraðila frá 25. sama mánaðar kemur fram, að varnaraðili hafði þá þegar lagt í verulega vinnu við bókhald félagsins (þrotabúsins), án þess að hafa áður aflað sér samþykkis skiptastjóra. Við fyrirspurn varnaraðila um greiðslu kostnaðar, (sjá einnig bls. 2) svaraði skiptastjóri með því að spyrjast fyrir um ,,hver skuldin væri í dag.”
Að mati dómsins felst í þessari spurningu skiptastjóra ekki ótvírætt greiðsluloforð, enda þótt varnaraðili kysi að túlka svarið á þann veg. Fyrirsvarsmaður varnaraðila, sem er rekstrarfræðingur að mennt, hlaut að hafa vitneskju um það, að beins og ótvíræðs samþykkis skiptastjóra var þörf, svo að krafan nyti þess forgangs, sem varnaraðili gerir kröfu til.
Varnaraðili afhenti sóknaraðila ársreikning Félagsprentsmiðjunnar ehf. fyrir tímabilið frá 1. janúar 1999 til 15. september s.á og yfirlit yfir helstu eigna- og greiðsluhreyfingar fyrir tímabilið 20. ágúst 1999 til 15. september s.á., eins og áður er lýst. Varnaraðila var óskylt að afhenda sóknaraðila þessi gögn, nema greiðsla kæmi fyrir og kann að hafa átt haldsrétt í þeim.
Öðru máli gegnir um bókhaldsgögn þau, sem sóknaraðili gerir kröfu til að varnaraðila verði gert skylt að fá afhent.
Í 2. mgr. 87 gr. gþskl. er skiptastjóra lögð sú skylda á herðar að gera ráðstafanir til að fá bókhaldsgögn þrotamanns í hendur, þegar eftir skipun sína í starfið. Ákvæði 1. mgr. 81. gr. gþskl. snýr aftur á móti að þriðja manni. Þar er öllum þeim sem hafa umráð eigna þrotabús gert skylt að afhenda þær skiptastjóra.
Í 6. gr. laga um bókhald nr. 145/1994 segir m.a., að bókhaldi skuli haga þannig að rekja megi á skýran og aðgengilegan hátt viðskipti og notkun fjármuna. Það skuli veita svo sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag sem þarfir eigenda, lánardrottna og hins opinbera krefjast og nauðsynlegar eru til að meta megi tekjur og gjöld, eignir og skuldir.
Bókhaldsgögn eru því meðal þýðingarmestu stjórntækja í rekstri félaga eða einstaklinga í rekstri. Þau veita upplýsingar um afkomu félags á hverjum tíma og greinir frá rekstrarlegum aðgerðum stjórnenda þess. Því verður að telja, að það sé almennt í þágu opinberra hagsmuna, að skiptastjóri í viðkomandi þrotabúi fái í hendur öll bókhaldsgögn gjaldþrota félags. Síðan er það skiptastjóra að ákveða, hvernig skuli með bókhaldsgögn fara, hvort ráðist sé í kostnað við færslu bókhalds hins gjaldþrota félags eða ekki. Sú ákvörðun hlýtur að ráðast af fjárhag þrotabús og afstöðu og ákvörðun skiptastjóra þar um.
Niðurstaðan er því sú, að varnaraðila ber að skila sóknaraðila öllum bókhaldsgögnum, sem tengjast rekstri Félagsprentsmiðjunnar ehf. og varnaraðili hefur undir höndum.
Fallist er á kröfu sóknaraðila, með vísan til þess sem að framan er rakið.
Engu að síður þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Allt bókhald þb. Félagsprentsmiðjunnar ehf., sem varnaraðili, Byggðaþjónustan efh., hefur undir höndum skal tekið úr vörslum varnaraðila með beinni aðfarargerð og fengið skiptastjóra þrotabús Félagsprentsmiðjunnar ehf. en um er að ræða allt bókhald ársins 1999.
Málskostnaður fellur niður.