Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Fasteign
- Skóli
- Viðurkenningarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2012. |
|
Nr. 367/2011.
|
Sigþór Rögnvar Grétarsson (Óðinn Elísson hrl.) gegn Fjarðabyggð (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Fasteign. Skóli. Viðurkenningarkrafa.
S krafði F um bætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann hljóp á hurð í grunnskóla með þeim afleiðingum að gler í hurðinni brotnaði og skarst hann töluvert. Taldi S að í hurðinni hefði átt að vera öryggisgler eða að líma hefði átt á glerið sjálflímandi öryggisfilmu. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir m.a. að ekki hafi verið skylt að hafa öryggisgler eða plastfilmu á glerinu í viðkomandi hurð og að ekki yrði séð að F hefði brotið gegn ákvæðum laga um grunnskóla. Ekki mætti rekja slysið til atvika, eða athafna/athafnaleysis sem F bæri skaðabótaábyrgð á, heldur til aðgæsluleysis S sjálfs. Var F því sýknað af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2011. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir í húsnæði Grunnskólans á Eskifirði 16. október 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyss áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Áfrýjandi höfðaði málið í héraði gegn stefnda og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Báðir þessir aðilar voru sýknaðir með hinum áfrýjaða dómi. Við málsskot þetta leitar áfrýjandi aðeins endurskoðunar á héraðsdómi að því er stefnda snertir.
Við rekstur málsins í héraði aflaði áfrýjandi matsgerðar, þar sem svarað er spurningum um eiginleika svonefnds flotglers, eins og var í hurðinni sem áfrýjandi slasaðist við, og öryggisglers. Þá er einnig svarað spurningum um eiginleika plastfilmu sem líma megi á gler og höggþunga sem þurfi til að brjóta annars vegar flotgler og hins vegar öryggisgler. Matsgerð þessi verður ekki talin geta ráðið úrslitum í málinu.
Samkvæmt gögnum málsins var ein heil rúða í hurðinni sem áfrýjandi fór í gegnum og slasaðist, en ekki tvær svo sem talið er í forsendum héraðsdóms. Þverbitar eru á hurðinni innan við rúðuna og utan við hana í þeirri hæð sem greinir í héraðsdómi.
Með athugasemdum um þessi atriði verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður fyrir Hæstarétti látinn niður falla.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 8. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigþóri Rögnvari Grétarssyni, Naustabryggju 4, Reykjavík, á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík og Fjarðabyggð, Hafnargötu 2, Reyðarfirði, vegna Grunnskólans á Eskifirði, með stefnu birtri 10. nóvember 2009.
Stefnandi krefst þess, að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Fjarðabyggðar, vegna slyss sem hann varð fyrir í húsnæði Grunnskólans á Eskifirði hinn 16. október 2007 sem og réttur stefnanda til greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda, Fjarðabyggðar, hjá stefnda Sjóvá vegna slyssins. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað.
Stefndu krefjast þess til vara að vera aðeins taldir skaðabótaskyldir að hluta vegna slyss stefnanda hinn 16. október 2007 og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Hinn 16. október 2007 slasaðist stefnandi er hann hljóp á hurð í Grunnskólanum á Eskifirði með þeim afleiðingum að gler í hurðinni brotnaði og skarst hann töluvert. Stefnandi var í kapphlaupi við samnemanda sinn en gat ekki stöðvað sig og lenti á hurðinni. Um var að ræða neyðarútgang sem er við enda stigagangs á efri hæð skólans. Neyðarútgangurinn liggur út á svalir. Í hurðinni var 4 mm verksmiðjugler með loftbili. Stefnandi var á 16 aldursári þegar slysið varð.
Með bréfi dagsettu 22. október 2008 óskaði lögmaður stefnanda eftir afstöðu stefndu til bótaskyldu vegna atviksins. Bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda, Fjarðabyggðar, var hafnað með tölvubréfi, dagsettu 27. nóvember 2008, en bótaskylda úr almennri slysatryggingu var viðurkennd.
Hinn 7. janúar 2009 var ákvörðun tryggingafélagsins skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar dags. 3. mars 2009 var að greiðsluskylda væri ekki fyrir hendi úr ábyrgðartryggingu stefnda Fjarðabyggðar. Byggði niðurstaðan á að ekki hefði verið sýnt fram á að tjónsatburðinn mætti rekja til vanbúnaðar eða vanrækslu sem stefndi Fjarðabyggð bæri ábyrgð á. Meiðsl stefnanda mætti fyrst og fremst rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs við leik í skólanum.
Með matsbeiðni dags. 25. mars 2009 var þess farið á leit við Atla Þór Ólason lækni að hann mæti tímabundna og varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins. Var það niðurstaða matsmannsins að stefnandi hefði hlotið 30% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyssins.
Hinn 10. júní 2010 voru stefnanda greiddar bætur að fjárhæð 1.677.732 kr. úr almennri slysatryggingu Fjarðabyggðar fyrir skólabörn á grundvelli matsgerðarinnar.
Hinn 18. júní 2010 var Hjalti Sigmundsson byggingatæknifræðingur og húsasmíðameistari dómkvaddur til að meta hið umbeðna sem sneri að eiginleikum annars vegar öryggisglers og hins vegar flotglers/verksmiðjuglers. Matsgerð hans er dagsett í október 2010.
Vegna höfnunar stefnda, Sjóvár, á skaðabótaskyldu Fjarðabyggðar og þar með greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu Fjarðabyggðar hjá félaginu, telur stefnandi nauðsynlegt að höfða mál þetta til að fá tjón sitt að fullu bætt samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Um málsgrundvöllinn: Stefnandi byggir málshöfðun sína á því að slys það sem hann varð fyrir hinn 16. október 2007 sé skaðabótaskylt úr ábyrgðartryggingu stefnda, Fjarðabyggðar, sem í gildi var hjá stefnda, Sjóvá, á slysdegi, á grundvelli sakarreglu íslensks skaðabótaréttar. Skaðabótaábyrgð er á því byggð að slys stefnanda hafi verið afleiðing saknæmrar háttsemi stefnda, Fjarðabyggðar, og athafnaleysis. Er á því byggt að stefndu beri að bæta stefnanda það tjón sem hann varð fyrir á grundvelli I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, en stefndi, Fjarðabyggð, var með gilda ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Sjóvá, á slysdegi.
Stefnandi byggir á því að ljóst sé að slys hans megi rekja til eiginleika og eðlis glersins sem var í hurð þeirri sem hann hljóp á er slysið varð og olli tjóni hans. Þá hafi húsakynni skólans verið vanbúin hvað varðaði þá hurð sem stefnandi slasaði sig á. Slysið megi þannig rekja til þess að í hurðinni hafi ekki verið öryggisgler eins og að mati stefnanda hefði verið rétt að hafa í hurðinni, heldur venjulegt tvöfalt verksmiðjugler (þ.e. flotgler), sem hafi aukið verulega hættuna á tjóni því sem stefnandi varð fyrir. Þá er á því byggt að með tilliti til eðlis þess glers sem var í hurðinni hefði verið rétt að líma sjálflímandi öryggisplast báðum megin á rúðuna til að takmarka hættu á því að nemendur skólans eða aðrir ættu á hættu að skera sig á glerinu ef það brotnaði. Byggt er á því, að það hafi verið saknæmt af hálfu stefnda, Fjarðabyggðar, að hafa ekki öryggisgler í hurðinni og að það hafi verið saknæmt athafnaleysi að líma ekki sjálflímandi öryggisplast á rúðuna fyrst ekki var haft öryggisgler í henni, enda gat mikil hætta stafað af rúðunni ef hún brotnaði. Að mati stefnanda hefði að öllum líkindum verið unnt að koma í veg fyrir tjón hans með því að útbúa hurðina með öryggisgleri eða plastfilmu á það gler sem í hurðinni var.
Málssókn og kröfugerð byggir á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en stefnandi hefur mikla hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist og efni skaðabótakröfu hans á hendur stefndu. Sýnt hefur verið fram á líkamstjón stefnanda og hagsmuni með framlögðu örorkumati.
Tegund glersins er í andstöðu við fyrirmæli byggingarreglugerðar: Stefnandi byggir á því að stefnda, Fjarðabyggð, sem eiganda og rekstraraðila Grunnskólans á Eskifirði, hafi verið það bæði rétt og skylt að hafa öryggisgler í hurðum skólabygginga. Engu máli skipti þó að um sé að ræða hurð í flóttaleið eða neyðarútgang. Stefnandi byggir á því að önnur tegund glers sé ekki til þess fallin að uppfylla þær kröfur er gerðar eru í 2. mgr. 158. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem sett er með stoð í 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í tilvitnuðu ákvæði reglugerðarinnar segir að flóttaleiðir, og aðgengi að þeim, skuli vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar. Einnig er það sérstaklega áréttað að fyrirbyggja skuli eins og kostur sé, að fólk slasist vegna hruns byggingarhluta (t.d. glers).
Stefnandi byggir á því, að ljóst sé að þegar venjulegt flotgler brotni, stafi af því verulega mikil slysahætta, eins og raun varð á í tilviki stefnanda. Stefnandi byggir á því að venjulegt flotgler, líkt og var í hurðinni, brotni í stóra, skörðótta og flugbeitta glerhluta. Þegar öryggisgler brotni sé hins vegar ekki um slíka hættu að ræða, þar sem það brotni í smáa glermola. Mismunandi eiginleika glersins þegar það brotnar megi sjá á framlögðum myndum og upplýsingum. Stefnandi byggir á því að framangreindir eiginleikar öryggisglers dragi verulega, ef ekki alveg, úr hættu á því að hægt sé að skera sig á glerinu ef til þess komi að það brotni. Glerhlutar öryggisglers geti aldrei valdið jafn miklu líkamstjóni og stefnandi hafi orðið fyrir. Hefði því verið rétt að hafa öryggisgler í umræddri hurð sem stefnandi slasaðist á.
Þá er á því byggt að í 15. mgr. 79. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, með síðari breytingum, sé kveðið á um að öryggisgler skuli vera í anddyrum opinberra bygginga og veitinga- og samkomuhúsa og merkja skuli til viðvörunar glerfleti við aðkomuleiðir þeirra. Stefnandi byggir á því að sömu rök og búi að baki reglu 15. mgr. 79. gr. eigi við um áðurnefnda hurð sem gegndi hlutverki neyðarútgangs í skóla, enda sé brýnt að fyllsta öryggis sé gætt í því umhverfi. Þarna hafi verið um útgönguleið úr byggingunni að ræða sem lúti sömu sjónarmiðum og hurðir í anddyri bygginga. Þá sýna myndir af hurðinni að engin merki hafi verið fyrir hendi til viðvörunar eins og áskilið sé í framangreindu ákvæði 15. mgr. 79. gr. byggingarreglugerðar. Glerið í hurðinni hafi því ekki fullnægt skilyrðum ákvæðisins.
Af hálfu stefnda, Sjóvá, hafi því verið haldið fram í tölvupósti félagsins hinn 27. nóvember 2009 að í gögnum hönnuða sé ekki getið um það að öryggisgler eigi að vera í hurðinni og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir í úttektum byggingarfulltrúa eða eftirlitsaðila við frágang hurðarinnar. Stefnandi vísar til þess að engin gögn hafi verið lögð fram þessari fullyrðingu stefnda, Sjóvá, til stuðnings, hvorki gögn hönnuða né úttektir viðeigandi aðila. Þá verði ekki séð hvernig slík gögn geti dregið úr þeirri ábyrgð sem stefndi, Fjarðabyggð, ber á því að umbúnaður glersins og hurðarinnar hafi ekki fullnægt þeim kröfum laga og reglugerða sem við hafi átt.
Um sérstakar kröfur um aukið öryggi í grunnskólum: Stefnandi byggir á því að í grunnskólum megi og þurfi almennt að gera ráð fyrir því að börn ærslist og hlaupi á göngum og í öðrum rýmum, sama á hvaða aldri þau eru. Með tilliti til þessa sé óforsvaranlegt að sú tegund glers sem valin sé í hurðir neyðarútganga, sé ekki burðugri og öruggari en svo, að það brotni við að börn og ungmenni lendi á því, t.d. í leikjum eða ærslum.
Stefnandi byggir á því að skólayfirvöldum hafi verið í lófa lagið að hlutast til um það að tegund glerja í hurðum skólahúsnæðisins uppfyllti áðurnefnd skilyrði 2. mgr. 158. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og skilyrði þágildandi laga nr. 66/1995 um grunnskóla sem í gildi voru á slysdegi (sbr. nú lög nr. 91/2008), sbr. 2. ml. 2. mgr. 18. gr. og 20. gr. laganna, þar sem segir m.a. að grunnskóli sé vinnustaður nemenda og að við hönnun og byggingu skólahúsnæðis skuli taka mið af þörfum nemenda og líðan og leggja áherslu á öruggt náms- og starfsumhverfi.
Tegund glersins er í andstöðu við fyrirmæli Rb-blaðs: Stefnandi byggir á því að tegund glersins í hurðinni hafi verið í andstöðu við fyrirmæli sem finna má í Rb-blaði nr. (72).002.2, útgefnu af Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins í desember 2002. Rb-blað þetta ber yfirskriftina: Innréttingar og búnaður í grunn- og leikskólum m.t.t. öryggis barna. Segir í 1. kafla að blaðið fjalli um fastar innréttingar og búnað í grunn- og leikskólum m.t.t. öryggis barna. Markmiðið sé að fækka slysum á börnum í grunn- og leikskólabyggingum. Blaðið sé unnið í samstarfi við Árvekni. Í kafla 1.1. sem ber yfirskriftina: Gluggar, gler og speglar, segir í 5. og 6. mgr. að allt gler í hurðum og annað gler innandyra skuli vera a.m.k. 3 mm þykkt og hert. Í eldri grunn- og leikskólum sé best að skipta í öryggisgler öllu gleri sem sé í barnahæð. Einnig sé hægt að líma sjálflímandi öryggisplast báðum megin á rúðuna eða fjarlægja hana. Rétt er að árétta að ekki hafði verið límt slíkt öryggisplast á þá rúðu sem stefnandi slasaði sig á umrætt sinn. Er byggt á því af hálfu stefnanda að þar sem ekki var öryggisgler í rúðu þeirri sem stefnandi slasaði sig á hafi stefnda Fjarðabyggð borið að líma á rúðuna öryggisplast.
Um orsakatengsl milli tegundar og eðlis glers og varanlegra afleiðinga slyss stefnanda: Stefnandi byggir á því að skýr orsakatengsl séu á milli áverka hans og alvarleika þeirra, og þeirrar staðreyndar að í hurðinni hafi verið flotgler, sem sé þess eðlis að það brotnar í stóra og flugbeitta glerhluta, sérstaklega þar sem ekki hafi verið límd sjálflímandi öryggisfilma á glerið.
Í áðurnefndum tölvupósti frá stefnda Sjóvá, 27. nóvember 2008, þar sem skaðabótaskyldu stefnda, Fjarðabyggðar, er hafnað er á því byggt að höggið á hurðina hafi vafalaust verið töluvert. Erfitt sé að útiloka að ekkert hefði gerst ef öryggisgler hefði verið í hurðinni. Framangreindri staðhæfingu mótmælir stefnandi harðlega. Stefnandi byggir á því að ekkert hafi komið fram um það í gögnum málsins hvort höggið hafi verið töluvert eða lítið. Stefnandi byggir á því að hægt sé að fullyrða að ef öryggisgler hefði verið í hurðinni, hefði stefnandi ekki orðið fyrir því alvarlega líkamstjóni sem slysið hafði í för með sér. Ljóst er að öryggisgler er æskilegt og nauðsynlegt á þeim stöðum þar sem ýtrasta öryggis þarf að gæta, svo sem í hurðum grunnskóla sem í er gler sem er í hæð þeirra barna sem sækja skólann. Eins og áður hefur verið rakið er það almennt þekkt að slíkt gler brotnar ekki eins og venjulegt flotgler og veitir auk þess aukna vörn gegn álagi en um þetta er vísað til þess sem fram kemur á heimasíðu Glerverksmiðjunnar Samverks. Stefnandi mótmælir því sem fram hefur komið af hálfu stefnda, Sjóvá, að spurning sé hvort yfirhöfuð sé réttlætanlegt að hafa öryggisgler í hurð á flóttaleið. Stefnandi byggir á því að öryggisgler hafi ekki eingöngu þann eiginleika að brotna síður en aðrar tegundir glerja, heldur brotni öryggisgler einnig á annan og mun hættuminni hátt en venjulegt flotgler.
Engin eigin sök stefnanda: Stefnandi telur slysið ekki mega rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs, líkt og stefndi, Sjóvá, hefur byggt á í málinu. Þá var jafnframt á því byggt í áliti Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum að slys stefnanda mætti fyrst og fremst rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs við leik í skólanum. Stefnandi byggir eins og fyrr segir á því að auknar kröfur verði að gera til öryggis og aðbúnaðar í grunnskólabyggingum og megi kröfur þess efnis finna víða eins og rakið hefur verið hér að framan. Þannig byggir stefnandi á því að aðbúnaður glersins hafi verið í andstöðu við reglur, ákvæði laga og önnur fyrirmæli sem sett hafa verið og leiða má af framangreindum heimildum um öryggi í grunnskólum og að þetta hafi verið orsök slyssins. Það hafi verið óforsvaranlegt að hafa annað en öryggisgler í hurð skólabyggingarinnar, enda sé ávallt sú hætta fyrir hendi að börn í byggingunni geti í leik eða ærslum rekist utan í hana. Verði gler í hurðum skólabygginga að vera þannig úr garði gert að það þoli það fyrirsjáanlega hnjask sem kann að verða af leik skólabarna í húsnæðinu, s.s. með því að líma á það sjálflímandi öryggisplast. Af hálfu stefnanda er því alfarið hafnað að alla sök slyssins megi rekja til athafna hans sjálfs. Athafnir hans megi ekki telja aðgæsluleysi eða gáleysi heldur venjuleg ærsl og leik skólabarna sem eðlilegur sé og fyrirsjáanlegur í grunnskólabyggingum. Stefnandi byggir á því að a.m.k. verði að telja að stefndi Fjarðabyggð beri verulegan hluta sakar vegna slyssins.
Samantekt um málsástæður stefnanda: Af öllu framangreindu telur stefnandi ljóst að umbúnaður hurðarinnar hvað varðar gler það sem í henni var, hafi verið óforsvaranlegur og falið í sér brot á reglum settum með stoð í 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem og öðrum fyrirmælum um öryggi, innréttingar og búnað í grunn- og leikskólum sem vísað hefur verið til hér að framan. Þá hafi umbúnaðurinn ekki verið í samræmi við þær kröfur sem leiða má af þágildandi grunnskólalögum um húsnæði og aðbúnað skólamannvirkja og öryggi skólabarna í þeim sem og tilvísuðu Rb-blaði. Byggir stefnandi á því að ef öryggisgler hefði verið í þeirri hurð sem stefnandi hljóp á hefði verið hægt að verulegu eða öllu leyti að koma í veg fyrir slys hans. Þá er á því byggt að rétt og skylt hafi verið að hafa á rúðunni sem stefnandi slasaði sig á sjálflímandi öryggisplast báðum megin og að slík ráðstöfun hefði getað komið að verulegu eða öllu leyti í veg fyrir skaðann sem slysið olli stefnanda. Þá er á því byggt af hálfu stefnanda að hann hafi aðeins verið í venjulegum og eðlilegum leik sem alltaf megi búast við af skólabörnum í skólabyggingum og að orsakir slyssins megi eingöngu rekja til þess glers sem var í hurðinni.
Stefndi, Fjarðabyggð, ber fulla ábyrgð á framangreindum vanbúnaði á því gleri sem stefnandi slasaði sig á í Grunnskólanum á Eskifirði og ber á grundvelli þess skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Tilvísanir í lagaákvæði: Um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls er vísað til 2. mgr. 25. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Um bótaábyrgð vísar stefnandi til meginreglna íslensks skaðabótaréttar svo og almennu sakarreglunnar. Þá er vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 37. gr. laganna, sem og þeirra reglna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Einkum er vísað til byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sérstaklega 79. og 158. gr. Þá er vísað til þágildandi grunnskólalaga nr. 66/1995 um grunnskóla sem í gildi voru á slysdegi, sbr. nú lög nr. 91/2008, sem og annarra reglna eða reglugerða sem varða húsnæði skólamannvirkja. Vísað er til reglugerðar nr. 519/1996 um lágmarksaðstöðu grunnskóla. Vísað er til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum I. kafla laganna.
Um aðild málsins vísast til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga sem og III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og varðandi fyrirsvar málsins. Um varnarþing vísast til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 42. gr. varðandi heimild til að stefna málinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur. Varðandi málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Aðalkrafa stefndu um sýknu er á því byggð að tjón stefnanda sé ekki að rekja til atvika sem stefndi, Fjarðabyggð, beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Slys stefnanda sé hvorki að rekja til saknæmrar háttsemi né athafnaleysis stefnda eða starfsmanna hans, hvorki hafi verið um vanbúnað né vanrækslu að ræða. Slys stefnanda sé fyrst og fremst að rekja til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og ef til vill óhappatilviljunar.
Stefndu mótmæla því að slys stefnanda megi rekja til eiginleika og eðlis glersins sem var í umræddri hurð. Einnig er því mótmælt að hurðin hafi verið vanbúin og brotið í bága við sett lög og reglur.
Umrædd hurð var eins og áður segir í neyðarútgangi á annarri hæð skólabyggingarinnar. Liggur neyðarútgangurinn út á svalir og er hann ekki notaður sem útgönguleið úr skólahúsinu. Í hurðinni var 4 mm verksmiðjugler með loftbili á milli. Umbúnaður þessi er í fullu samræmi við byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem sett er með stoð í 37. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Stefndu mótmæla því að tegund glersins hafi verið í andstöðu við fyrirmæli byggingarreglugerðar. Stefnandi hefur máli sínu til stuðnings vísað til 2. mgr. 158. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en ákvæðið er í 7. kafla reglugerðarinnar sem fjallar um brunavarnir bygginga. Tilvitnuð grein reglugerðarinnar hljóðar svo: „158. gr. Flótti úr eldsvoða. 158.1 Bygging skal vera þannig hönnuð og byggð að fólk sem í henni er geti flúið eldsvoða. 158.2 Flóttaleiðir og aðgengi að þeim skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar. Allan þann tíma sem er ætlaður til flótta skal tryggja, eftir því sem kostur er, að hiti, reykur eða eiturgufur fari ekki yfir hættumörk í flóttaleið. Fyrirbyggja skal eins og kostur er að fólk skaðist vegna hruns byggingarhluta (t.d. glers) eða troðnings og einnig að fólk verði innlyksa í skotum og endum ganga. 158.3 Frá hverju því rými í byggingu þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skulu vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða. Þær skulu vera þannig skipulagðar og frágengnar að allir í viðkomandi rými geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma. 158.4 Brunamálastofnun ríkisins gefur út leiðbeiningar um skipulag og frágang flóttaleiða. Hafa ber hliðsjón af viðurkenndum stöðlum og leiðbeiningum.“
Tilvitnuð grein fjallar um flóttaleiðir vegna eldsvoða og á því ekki við um atvik í máli þessu. Hins vegar eru skilyrði reglugerðarinnar uppfyllt að fullu. Flóttaleiðin, þ.e. umræddur neyðarútgangur, uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru í 2. mgr. 158. gr. sem og öðrum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar. Aðgengi er einfalt, leiðin auðrötuð og greiðfær. Jafnframt er fyrirbyggt eins og kostur er að fólk skaðist vegna hruns byggingarhluta eða troðnings eða verði innlyksa í skotum eða endum ganga.
Hvergi er í settum lögum eða reglum gerð sú krafa að öryggisgler skuli vera í sérstökum neyðarútgöngum eða í venjulegum gluggum bygginga. Stefnandi vísar til 15. mgr. 79. gr. byggingarreglugerðar til stuðnings málatilbúnaði sínum um að öryggisgler hafi átt að verða í hurð neyðarútgangsins. Ákvæði 15. mgr. 79. gr. er svohljóðandi: „79.15 Öryggisgler skal vera í anddyrum opinberra bygginga, veitinga- og samkomuhúsa og merkja til viðvörunar glerfleti við aðkomuleiðir þeirra.“ Ákvæðið á eingöngu við um anddyri opinberra bygginga. Umræddur neyðarútgangur sem stefnandi slasaðist við er ekki anddyri byggingarinnar, heldur neyðarútgangur á annarri hæð sem liggur út á svalir. Sömu sjónarmið verða því ekki lögð til grundvallar þegar af þeirri ástæðu að eðli málsins samkvæmt er mikill umgangur um anddyri opinberra bygginga en nær enginn umgangur er um neyðarútgang sem þennan. Er því alfarið mótmælt að um útgönguleið úr byggingu sé að ræða sem lúti sömu sjónarmiðum og hurðir í anddyri opinberra bygginga eins og stefnandi byggir á. Hvað merkingar á gleri í hurðinni varðar þá er í fyrsta lagi vísað til þess að umrætt ákvæði eigi ekki við um neyðarútganginn. Í öðru lagi er vísað til þess að ekki séu orsakatengsl á milli tjóns stefnanda og þess að glerið í hurðinni var ekki merkt sérstaklega. Tilgangur skyldu til merkingar samkvæmt 15. mgr. 79. gr. er að ekki séu ómerktir glerfletir sem valdið geta því að fólk átti sig ekki á að glerið sé til staðar og gangi á það. Stefnandi vissi fullvel að þarna var hurð með gleri í og hefðu merkingar á glerinu því ekki breytt neinu um slys hans.
Opinberir eftirlitsaðilar hafa aldrei gert athugasemdir við gerð eða frágang glersins í neyðarútganginum enda uppfyllir það allar kröfur. Þessu til stuðnings leggja stefndu fram afrit af lokaúttekt byggingafulltrúa og eldvarnareftirlits, frá 1. mars 2004, og eftirlitsskýrslur Heilbrigðiseftirlits Austurlands.
Stefndu mótmæla því jafnframt að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 65/1995 um grunnskóla. Við hönnun og byggingu skólans var tekið mið af þörfum nemenda og líðan og áhersla lögð á öruggt náms- og starfsumhverfi. Er því mótmælt að óforsvaranlegt hafi verið að hafa ekki öryggisgler á þessum stað í grunnskólabyggingu en eins og áður segir eru hvergi gerðar kröfur um slíkt í reglum er um skólabyggingar gilda. Frágangur var með þeim hætti að ekki er slysahætta af venjulegum leikjum og ærslum grunnskólabarna. Alþekkt er að töluvert afl þarf til að brjóta gler. Fjarri lagi er að skaðabótaábyrgð verði lögð á stefnda, Fjarðabyggð, á grundvelli sakar sem felist í því að hafa ekki miðað frágang neyðarútgangs við að gler myndi ekki brotna ef drengur á 16 aldursári hlypi á það á fullri ferð.
Stefnandi vísar til Rb-blaðs nr. (72).002.2 en um er að ræða blað sem Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins vann í samstarfi við Árvekni. Blaðið er samantekt yfir atriði sem gott er að hafa í huga þegar leikskólar og grunnskólar eru hannaðir og byggðir. Tillögur þær sem koma fram í blaðinu eru hins vegar hvorki lagalegs eðlis né fela þær í sér skyldu fasteignaeigenda til aðgerða.
Stefndu mótmæla því alfarið á grundvelli framangreinds að metið verði stefnda, Fjarðabyggð, til sakar að í hurðinni hafi ekki verið öryggisgler. Jafnframt er því mótmælt með sömu rökum að stefnda hafi borið að líma plastfilmu á glerið.
Þá mótmæla stefndu fullyrðingum stefnanda um mismunandi eiginleika öryggisglers og flotglers/verksmiðjuglers sem ósönnuðum sem og að slysið hefði ekki orðið hefði öryggisgler verið í hurðinni eða plastfilma á glerinu.
Slys stefnanda er fyrst og fremst að rekja til aðgæsluleysis hans sjálfs. Stefnandi var á 16 aldursári þegar slysið varð. Hann gjörþekkti einnig aðstæður og vissi af neyðarútganginum við enda gangsins. Engu að síður fór hann í kapphlaup við samnemanda sinn af svo miklum krafti að hann náði ekki að stöðva sig við enda gangsins og lenti á hurðinni af miklu afli. Engum blöðum er um það að fletta að höggið hefur verið töluvert þar sem glerið brotnaði. Stefnandi mátti í ljósi aldurs, þroska og þekkingar á aðstæðum gera sér grein fyrir þeirri hættu sem fólgin var í athöfnum hans í umrætt sinn. Hann sýndi ekki af sér tilhlýðilega aðgæslu og því fór sem fór.
Af framangreindu er ljóst að slys stefnanda verður ekki rakið til atvika, athafna eða athafnaleysis sem stefndi, Fjarðabyggð, ber skaðabótaábyrgð á. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Verði ekki fallist á aðalkröfu um sýknu gerir stefndi kröfu um verulega lækkun. Varakrafa stefndu er á því byggð að í öllu falli eigi stefnandi sök á tjóni sínu sjálfur að mestu leyti. Beri því að skipta sök og leggja stærstan hluta tjónsins á stefnanda sjálfan. Um nánari rökstuðning fyrir varakröfu er vísað til rökstuðnings fyrir aðalkröfu.
Um lagarök vísa stefndu einkum til meginreglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og orsakatengsl. Þá er vísað til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í málinu gerir stefnandi kröfur um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu vegna slyss er hann varð fyrir 16. október 2007. Við aðalmeðferð lýsir stefnandi slysinu þannig, að hann hafi komið út úr náttúrufræðitíma og farið í kapphlaup á gangi skólans við bekkjarsystur sína. Hann hafi verið á sokkaleistunum og til að ná henni hafi hann reynt að hlaupa eins hratt og hann gat. Þegar hann nálgaðist enda gangsins, þar sem hurðin var, fór hann að hægja á sér og reyndi að spyrna við fótum neðst á hurðaumbúnaðinum. Síðan kveðst stefnandi hafa sett hendurnar á trébita á milli glerjanna í hurðinni en hann hafi runnið af honum og á efra glerið í hurðinni og farið í gegn.
Í framburði Ara Björns Arasonar fyrir dómi kvaðst hann hafa séð slysið. Hann kveður að stefnandi ásamt skólasystur þeirra hafi verið í kapphlaupi á ganginum. Hann hafi séð þau koma hlaupandi. Þau hafi hægt á sér og stefnandi hafi ekki getað hægt nógu mikið á sér og hann hafi lent á rúðunni og farið í gegnum hana og yfir „handriðið“ sem er á rúðunni og endað á bakinu úti á svölunum. Kemur þessi lýsing heim og saman við lýsingu föður stefnanda er hann tilkynnir stefnda um slysið, en þar segir: „Sigþór R. var að hlaupa ásamt öðrum nemanda á gangi skólans og lenti á hurð við enda gangsins sem er neyðarútgangur með gleri. Lenti hann í gegnum rúðuna og út á svalir fyrir utan.“
Í gögnum liggja fyrir myndir af hurð þessari og lýsingar á henni. Rúða sú sem brotnaði var 70x150 cm að stærð og var efri rúðan í hurðinni en hurðin var með tveimur rúðum. Á milli þeirra er þverbiti úr timbri sem er 12 cm á breidd. Hæð frá gólfi að efri brún þverbitans var 106 cm. Á hurðinni var svokölluð panikslá og var hún í 115 cm hæð frá gólfi.
Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi lendir hann á þverbitanum og rennur af honum og lendir á rúðunni sem hann brýtur, þ.e. efri rúðunni. Bil þetta er 9 cm. Síðan upplýsa vitni að hann hafi farið í gegnum rúðuna og lent út á svölum. Vegna stöðu panikslárinnar á hurðinni liggur ekki alveg ljóst fyrir hjá stefnanda hvernig slysið átti sér stað, en ekki er dregið í efa að hann slasaðist í umrætt skipti.
Stefnandi byggir mál sitt gagnvart stefndu á sakarreglunni. Stefnandi telur það saknæma háttsemi og athafnaleysi að hafa ekki öryggisgler í nefndri hurð eða líma ekki sjálflímandi filmu á glerið þannig að ekki stafaði eins mikil hætta af glerinu, ef það brotnaði. Þá sé saknæmt að líma ekki viðvörunarlímmiða á glerið. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til 15. mgr. 79. gr. og 2. mgr. 158. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu nær skylda til að hafa öryggisgler aðeins til anddyra opinberra bygginga, en eins og að framan greinir var hurð þessi neyðarútgangur og fellur því ekki undir ákvæðið. Þá er engin skylda að hafa sjálflímandi plastfilmu á glerinu. Þá verður ekki séð hverju það skipti hér hvort viðvörunarlímmiði hefði verið á glerinu því hér var ekki hætta á því að gengið væri á glerið auk þess sem öllum er ljóst að gler geti brotnað.
Ákvæði 2. mgr. 158. gr. kveður á um flóttaleiðir og verður ekki annað séð en að neyðarútgangurinn hafi fullnægt skilyrðum ákvæðisins. Þótt kveðið sé á um það í 2. mgr. 158. gr. að „fyrirbyggja skuli eins og kostur er að fólk skaðist vegna hruns byggingarhluta (t.d. glers)“ þá verður að skýra ákvæði þetta með hliðsjón af ákvæðum 13. og 14. mgr. 79. gr. sömu reglugerðar þar sem kveðið er á um að stórir gluggafletir í þökum, skuli hafa öryggisgler.
Stefnandi hefur einnig vísað til Rb-blaðs nr. (72).002.2 sem útgefið er af Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins í desember 2002. Þar kemur fram að best sé í eldri grunn- og leikskólum að skipta í öryggisgler öllu gleri sem er í barnahæð. Blað þetta er ekki hluti byggingarreglugerðar og er einungis til leiðbeiningar þar sem þar á við. Rb-blaðið kveður á um að best sé að skipta um gler í barnahæð. Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi á þessum tíma um 173 cm á hæð eða hátt í meðalhæð fullorðinna karlmanna. Stefnandi getur því ekki byggt rétt sinn á þessum fyrirmælum.
Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki skylt að hafa öryggisgler eða plastfilmu á glerinu í viðkomandi hurð. Þá verður ekki séð að stefndu hafi í máli þessu brotið gegn ákvæðum laga nr. 65/1995 um grunnskóla.
Stefnandi var á 16 ári þegar slysið átti sér stað, hávaxinn og grannur, og að ljúka grunnskólanámi. Hann vissi mætavel að hurðin var neyðarútgangur. Hurðin var með tveimur glerjum og stefnandi vissi um hættuna á því að lenda á glerinu eftir hlaupið, því hann bar fyrir dómi að hann hefði ætlað að setja hendurnar á þverbitann, sem var úr tré, en hefði runnið af honum og á rúðuna. Er slysið átti sér stað sýndi stefnandi ekki af sér tilhlýðilega aðgæslu og er það ástæða slyssins. Slysið er því ekki að rekja til atvika, eða athafna/athafnaleysis sem stefndi, Fjarðarbyggð, ber skaðabótaábyrgð á.
Niðurstaða málsins er því sú að stefndu eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndu, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Fjarðabyggð eru sýknuð af öllum kröfum stefnanda, Sigþórs Rögnvars Grétarssonar.
Málskostnaður fellur niður.