Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


                                                        

Mánudaginn 11. apríl 2011.

Nr. 196/2011.

Great Northern International SAS/Seafoodexport

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

B.P. Skipum útgerð ehf.

(Kristján Ólafsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hans á hendur B var að hluta vísað frá dómi. Í málinu byggði G kröfu sína gagnvart B á ábyrgðaryfirlýsingum sem B hafði gefið út vegna skuldbindinga S gagnvart G. G hafði keypt hlutabréf í S og fjármagnað ýmsa þætti í rekstri þess í tengslum við kaupin og hafði S gefið út þrjú skuldabréf til G af þessum sökum. Bú S var síðar tekið til gjaldþrotaskipta. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að G byggði á að ábyrgðaryfirlýsingarnar tækju, auk þeirra skulda samkvæmt skuldabréfunum sem þar væri sérstaklega getið, til allra annarra skuldbindinga S gagnvart G en ekki væri að finna frekari rökstuðning fyrir gildissviði yfirlýsinganna. Þá væri dómkrafan í stefnu sögð tilkomin vegna skuldabréfanna, þess að G hefði ofgreitt vörur frá S og ekki fengið greiddar þóknanir sem hann hefði átti rétt á samkvæmt sölu- og markaðssetningarsamningi G við S, en frekari grein væri ekki gerð fyrir grundvelli kröfunnar. Var málinu því vísað frá dómi á grundvelli e. og g. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka dómkröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til frekari álita krafa hans um málskostnað í héraði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Great Northern International SAS/Seafoodexport, greiði varnaraðila, B.P. Skipum útgerð ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 14. febrúar sl., var höfðað 22. júlí 2010.

Stefnandi er Great Northern Int. SAS/Seafoodexport, skráningarnúmer: 413 959 610, 8 Boulevard Herriot, 13008 Marseille, Frakklandi.

Stefndi er B.P. Skip útgerð ehf., kt. 570491-1219, Lágmúla 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru:

1.        Aðallega: að ógiltur verði með dómi kaupsamningur stefnanda og stefnda, B.P. Skip útgerð ehf., um kaup stefnanda á hlutafé í Sæblómi hf., dagsettur 14. ágúst 2008. Jafnframt að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 750.000 bandaríkjadali auk dráttarvaxta eins og nánar greinir í stefnu.

Til vara: að viðurkennt verði með dómi réttmæti riftunar stefnanda á kaupsamningi hans og stefnda, B.P. Skip útgerð ehf., um hlutabréf í Sæblómi hf., dagsettum 14. ágúst 2008, sem lýst var yfir í bréfi, dagsettu 30. júní 2009. Jafnframt að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda 750.000 bandaríkjadali með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í stefnu.

2.       Að ógilt verði með dómi niðurfelling stefnanda, dagsett 29. október 2008, á ábyrgð stefnda fyrir skuldbindingum Sæblóms hf. gagnvart stefnanda samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu, dagsettri 18. júní 2008.

3.       Aðallega: að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.510.875 marokkósk dirham og 2.059.873 bandaríkjadali auk dráttarvaxta eins og nánar greinir í stefnu allt að frádregnum 1.091.809 evrum.

Til vara: að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 352.527.954 krónur auk dráttarvaxta eins og nánar greinir í stefnu.

Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu samkvæmt dómkröfum stefnanda nr. 1 og 2. Varðandi dómkröfu stefnanda nr. 3 er af hálfu stefnda aðallega krafist frávísunar

kröfunnar, til vara er krafist sýknu og til þrautavara er þess krafist að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega.

Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum mál­flutningi 14. febrúar sl. 

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.

I

Mál þetta er risið vegna kaupa stefnanda á hlutabréfum í Sæblómi hf. o.fl. Í stefnu kemur m.a. fram að í tengslum við fyrirhugaða fjárfestingu stefnanda í Sæblómi hf. og viðskipti við Sæblóm hf. hafi stefnandi fjármagnað ýmsa þætti í rekstri Sæblóms hf. að fjárhæð samtals 675.000 bandaríkjadalir og Sæblóm hf. gefið út skuldabréf (e. Promissory Note) af þessum sökum, eitt að fjárhæð 200.000 bandaríkjadalir, annað að fjárhæð 100.000 bandaríkjadalir og það þriðja að fjárhæð 375.000 bandaríkjadalir. Þá hafi stefndi gefið út ábyrgðaryfirlýsingar (e. Guarantee) vegna fyrrgreindra skuldabréfa Sæblóms hf. þar sem stefndi ábyrgist greiðslu á viðkomandi skuldum sem og öllum skuldbindingum Sæblóms hf. við stefnanda.

Þá kemur fram í stefnu að stefnandi og Sæblóm hafi 7. júní 2008 jafnframt gert með sér samning um sölu, markaðssetningu og samstarf (e. Sales, marketing & Strategic Alliance Contract). Við þennan samning hafi verið gerður viðauki (e. Contract Addendum), dagsettur 18. október 2009. Samningar þessir kveði á um sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum framleiddum af Fleur de Mer, dótturfélagi Sæblóms hf. Frá því að þessi samningur komst á og til dagsins í dag hafi skuldir Sæblóms gagnvart stefnanda safnast upp þar sem stefnandi hafi ofgreitt fyrir vöru. Sæblóm hf. hafi ekki greitt þóknanir samkvæmt ofangreindum samningi auk þess sem stefnandi hafi ekki fengið kröfur samkvæmt skuldabréfunum greiddar, samtals að fjárhæð 5.510,875 marokkósk dirham og 2.059.873 bandaríkjadali að frádregnum 1.091.809 evrum.

Þann 29. júlí 2009 hafi stefnandi sent Sæblómi hf. kröfu um greiðslu vegna eins af fyrrgreindum skuldabréfum. Engin greiðsla hafi verið innt af hendi. Sæblóm hf. hafi svo verið tekið til gjaldþrotaskipta 12. febrúar 2010. Stefnandi hafi ekki fengið greiðslu í samræmi við skuldabréfin né greiðslu á skuldum sem hafi orðið til á grundvelli viðskipta samkvæmt samningnum um sölu, markaðssetningu og samstarf frá 7. júní 2008 og krefji nú stefnda um greiðslu þeirra á grundvelli samningsbundinnar ábyrgðar stefnda.

II

Stefndi byggir aðalkröfu sína um frávísun kröfunnar frá dómi á að krafan sé svo vanreifuð að óhjákvæmilegt sé vísa að henni frá dómi. Í stefnu komi ekki fram nægilegar upplýsingar um grundvöll kröfu stefnanda til þess að stefndi geti tekið til varna með eðlilegum hætti. Kröfur stefnanda og fjárhæðir séu órökstuddar og engir reikningar lagðir fram. Eingöngu fylgi yfirlýsing frá frönskum endurskoðanda án þess að nokkur stoðgögn fylgi þeirri yfirlýsingu. Til þess að hægt sé að átta sig á málatilbúnaði stefnanda verði hann að leggja fram reikninga til stuðnings kröfu sinni og sýna fram á að reikningarnir séu fallnir í gjalddaga. Í stefnu sé krafan sögð á grundvelli skuldabréfanna, auk viðskipta á grundvelli sölu- og markaðssetningarsamnings. Í sundurliðun kröfufjárhæðar á dómskjali 24 verði hins vegar ekki ráðið að fjárhæð skuldabréfanna sé hluti kröfufjárhæðarinnar.

Þá komi fram í málatilbúnaði stefnanda að krafan byggi að stórum hluta á sölu- og markaðssetningarsamningi aðila og samkvæmt honum skulu aðilar leysa deilumál sín friðsamlega og er þar tekið fram að hvorugur geti skotið máli sínu fyrir dómstóla. Sé ekki hægt að komast að samkomulagi skuli deilan útkljáð endanlega samkvæmt reglum Alþjóðlega viðskiptaráðsins með einum gerðardómara sem skipaður er samkvæmt framangreindum reglum. Gerðardómurinn skal staðsettur í Genf í Sviss og skal málsmeðferðin fara fram á ensku en úrskurðað skal í deilunni í samræmi við frönsk lög. Af dómskjali nr. 52 og 53 liggi fyrir að aðilar málsins eiga í deilum vegna framkvæmdar samningsins. Þeirri deilu verði ekki skotið til íslenskra dómstóla.

Af ofangreindu sé ljóst að íslenskir dómstólar séu ekki bærir til að fjalla um kröfugerð stefnanda að því er varðar þann hluta fjárhæðarinnar sem byggir á viðskiptum aðila á grundvelli sölu- og markaðssetningarsamnings á dskj. nr. 23, sbr. og dskj. nr. 28.

Stefnandi hafi því hvorki gert nægjanlega grein fyrir málsástæðum sínum, né lagt fram nægjanleg gögn til að stefndi geti komið að efnisvörnum. Sé á því byggt að skilyrðum í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sé ekki fullnægt, einkum g-, e- og f- lið.

II

Stefnandi byggir á að yfirlit endurskoðandans sýni skýrlega fram á, og staðfesti, um hvaða fjárhæðir sé að ræða og á hverju þær byggi. Það að undirliggjandi reikningar liggi ekki fyrir komi ekki í veg fyrir að stefndi geti tekið til varna þar sem að á yfirlitinu komi fram allar upplýsingar um reikningana.

Þá byggir stefnandi á því að krafan í málinu byggi á ábyrgðum sem veittar hafi verið af hálfu stefnda en um þær fari samkvæmt íslenskum lögum, sbr. 11. gr. þeirra. Ákvæði í samningi stefnanda og Sæblóms hf. um sölu, markaðssetningu og samstarf um að deilumál aðila skuli útkljá samkvæmt reglum alþjóðlega viðskiptaráðsins með einum gerðardómara komi því ekki til álita við úrlausn máls þessa.

IV

Fyrir liggur að stefndi gaf út ábyrgðaryfirlýsingar til handa stefnanda vegna skulda Sæblóms hf. við stefnanda, sbr. dskj. 20-22. Bú Sæblóma hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 12. febrúar 2010. Samkvæmt 8. gr. ábyrgðaryfirlýsinganna verður greiðsluskylda stefnda samkvæmt þeim virk þegar í stað að vali stefnanda ef bú Sæblóma hf. er tekið til gjaldþrotaskipta.

Samkvæmt 1. gr. ábyrgðaryfirlýsinganna ábyrgist ábyrgðaraðili algerlega og skilyrðislaust, sameiginlega með öðrum ábyrgðaraðilum, ef einhverjir eru, og einn og sér, og óháð gildi eða fullnustuhæfi Skuldabréfsins, gagnvart Lánveitanda:

(i)    Rétta og tímanlega greiðslu á höfuðstól, vöxtum og öðrum fjárhæðum sem komnar eru á gjalddaga og fjárhæðum sem munu koma á gjalddaga (og ekki einungis innheimtanleika) frá Aðalskuldara til Lánveitanda, hvort sem þær eru til staðar núna eða koma til hér eftir samkvæmt Skuldabréfinu.

Byggir stefnandi á að ábyrgðaryfirlýsingarnar taki til, auk þeirra skulda samkvæmt skuldabréfunum sem þar er sérstaklega getið, allra annarra skuldbindinga og krafna Sæblóms hf. gagnvart stefnanda, sbr. grein 1 (i) í ábyrgðaryfirlýsingunum. Ekki er í stefnu að finna frekari rökstuðning fyrir gildissviði yfirlýsinganna.  

Í stefnu er dómkrafan sögð tilkomin vegna skuldabréfanna, vegna þess að stefnandi hafi ofgreitt vörur frá Sæblómi hf. og ekki fengið greiddar þóknanir sem hann átti rétt á samkvæmt sölu- og markaðssetningarsamningi stefnanda við Sæblóm ehf. Frekari grein er ekki gerð fyrir grundvelli kröfunnar. Þykir þannig reifun kröfunnar vera verulegum annmörkum háð að því er varðar skýrleika þeirra málsástæðna sem stefnandi byggir á.

Þá er fjárhæð kröfunnar sögð byggð á útreikningi á hinum ýmsu viðskiptum á milli stefnanda og Sæblóms hf. og að fjárhæðin hafi verið reiknuð út af endurskoðanda sem farið hafi yfir undirliggjandi gögn, staðfest hvernig fjárhæðin sundurliðast, bæði eftir því hvernig skuldin er tilkomin sem og eftir gjaldmiðlum.

Ekki verður ráðið af tilvitnuðum útreikningi endurskoðanda að hluti kröfufjárhæðarinnar sé vegna skuldabréfanna.

Þá eru þau gögn sem endurskoðandinn byggir útreikning sinn á ekki lögð fram í málinu. Skortir þannig á að viðhlítandi sönnunargögn hafi verið lögð fram til stuðnings kröfunni.

Uppfyllir kröfugerð stefnanda ekki ákvæði e- og g- liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefnandi byggir kröfu sína á samningsbundinni ábyrgð stefndu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum. Ákvæði í sölu- og markaðssetningarsamningi milli Sæblóma ehf. og stefnanda þar sem kveðið er á um það með hverjum hætti aðilar að honum skuli leysa úr ágreiningi sín á milli geta því ekki verið bindandi í lögskiptum stefnanda og stefnda sem byggja á tilvitnuðum ábyrgðaryfirlýsingum sem samkvæmt ákvæði í þeim skulu túlkaðar samkvæmt íslenskum lögum.

Samkvæmt því sem áður greinir um að kröfugerð stefnanda uppfylli ekki ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála verður frávísunarkrafa stefnda tekin til greina.

Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegrar dómsniðurstöðu i málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómkröfu stefnanda,  Great Northern Int. SAS/Seafoodexport, nr. 3 er vísað frá dómi.

Ákvörðun málskostnaðar bíður endanlegrar dómsniðurstöðu í málinu.