Hæstiréttur íslands
Mál nr. 76/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2008. |
|
Nr. 76/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar 2008.
Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í dag, er þess krafist að X, kt. [...],[heimilisfang] í Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar 2008, kl. 16.00.
Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður mun skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum og ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á um 4600 g af amfetamíni og 600 g af kókaíni, sem fannst við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins Z við húsakynni Y á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Áður hefði lögreglu borist upplýsingar um að starfsmaður Z flutningsþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli sjái m.a. um að halda ákveðinni leið fyrir innflutning fíkniefna opinni. Um sé að ræða kærða en hann starfi sem yfirmaður á gólfi og hafi því óheftan aðgang að flugsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að þessi innflutningsleið hafi verið notuð áður og jafnframt eftir 15. nóvember sl.
Lögreglan hafi nú þegar handtekið fjölda manns og sitji nú m.a. 4 menn í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Gögn og upplýsingar, sem fundist hafa og aflað hefur verið, gefi mynd af málinu og hlutverkum þeirra sem því tengjast. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði alfarið neitað að vera viðriðinn innflutning fíkniefna. Mikið misræmi sé í framburði hinna handteknu, en aðrir sakborningar í málinu hafi tjáð sig um hlutverk kærða í umræddum innflutning.
Lögreglustjóri telur nýjar upplýsingar í málinu vekja grun um að sömu verknaðaraðferð hafi margsinnis verið beitt áður til að koma talsverðu magni fíkniefna til landsins. Upplýsingarnar bendi til þess að kærði hafi tekið þátt í skipulögðum innflutningi fíkniefna allt frá árinu 2004. Í gær hafi lögreglu borist þær upplýsingar um að kærði hefði selt heimilistölvu sína fyrr á árinu og hafi lögregla nú fengið tölvuna í hendur og rannsaki gögn úr henni í því skyni að leita gagna sem nýst gætu við rannsókn málsins. Kærði sé sagður hafa notað tölvuna til að fylgjast með ofangreindri sendingu.
Í greinargerð segir að rannsókn málsins miði áfram. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé umfang þess innflutnings sem farið hafi í gegnum hraðflutningaþjónustuna Z á síðustu mánuðum og árum og hverjir séu eigendur þeirra sendinga og sendingarinnar sem lögregla og tollgæsla haldlagði þann 15. nóvember sl. Þá eigi eftir að rannsaka fjármögnun innflutningsins og hverjir fleiri kunni að vera viðriðnir málið að öðru leyti. Þá snúist rannsóknin einnig um úrvinnslu banka- og tölvugagna.
Lögreglustjóri kveður magn fíkniefnanna, sem haldlögð voru þann 15. nóvember sl., benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi en ljóst sé að gangi kærði laus geti hann sett sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem enn gangi lausir og eftir eigi að yfirheyra eða þeir geti sett sig í samband við hann eða kærði komið undan gögnum sem hafi sönnunargildi sem ekki hafi verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Um lagarök vísar lögreglustjóri til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Brýnir rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist sé.
Fallist er á með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og að rannsóknarhagsmunir standi til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi, sbr. a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með hliðsjón af umfangi málsins verður fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. febrúar 2008 kl. 16.00.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 22. febrúar 2008.