Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Þriðjudaginn 21. september 2010.

Nr. 536/2010.

A

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Gunnar Eydal hrl.)

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um A yrði svipt sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2010, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.  

Varnaraðili krefst að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. september 2010.

Með beiðni, dagsettri 31. ágúst 2010, hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], [...], Reykjavík, verði svipt sjálfræði tímabundið í 12 mánuði á grundvelli a-liðar 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili mótmælir kröfunni, en krefst þess til vara að sviptingu sjálfræðis verði markaður skemmri tími en í 12 mánuði.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi greinst með alvarlega átröskun 14 eða 15 ára gömul og hafi átt við þann sjúkdóm síðan. Átröskunarsjúkdómur varnaraðila sé kominn á mjög alvarlegt stig. Þá hafi hún ítrekað greinst með geðrof. Að mati geðlæknis hafi hún nánast ekkert sjúkdómsinnsæi. Hún hafi verið vistuð nauðug á geðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss 11. ágúst sl. Meðferðaraðilar hafi nú ákveðið að reyna að koma varnaraðila í langtíma endurhæfingu á deild 12 á Kleppsspítala. Óhjákvæmilegt þyki að svipta varnaraðila sjálfræði til þess að meðferðaráætlun hennar haldi. Sé það mat meðferðaraðila og lækna að nauðsynlegt sé að sjálfræðissvipting vari í 12 mánuði til að unnt verði að veita varnaraðila viðeigandi meðferð. Með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum og aðstæðum að öðru leyti verði að telja að sjálfræðissvipting í þann tíma sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila.

Meðal gagna málsins er vottorð Tómasar Zoëga yfirlæknis, dagsett 24. ágúst 2010, þar sem kemur fram að varnaraðili hafi veikst af átröskun um fermingaraldur og átt við þann sjúkdóm síðan. Hún hafi margsinnis legið á geðdeild Landspítalans, oft um lengri tíma. Áður en til þess kom hafi hún verið í viðtölum hjá sálfræðingum utan stofnunar. Hún hafi lengst af búið í foreldrahúsum. Aðalvandi varnaraðila sé alvarleg átröskun. Þyngd hennar hafi verið nokkuð stöðug á bilinu 45 til 50 kg, en hún sé 169 sm á hæð. Þegar þyngd hennar nái 50 kg verði hún mjög kvíðin, fyllist þráhyggju og festist í matarvenjum sem eru ekki venjulegar. Hún auki hreyfingu, verði erfið og léttist aftur. Hún búi við brenglaða líkamsímynd. Hún hafi fengið geðrofseinkenni og aðsóknarranghugmyndir á árinu 2008 og fengið geðrofshugmyndir af og til síðan. Ástand varnaraðila á síðustu vikum hafi verið með þeim hætti að sjúkdómsinnsæi hennar sé nánast ekkert. Hún sé með þráhyggjuhugmyndir um að hún ætli að standa við að borða eðlilega, en á sama tíma tali hún um að hún geti ekki borðað þetta eða hitt. Það hafi þurft að sitja yfir henni stöðugt allan sólarhringinn, en ef það væri ekki gert væri hún á stöðugri hreyfingu um deildina, gjarnan með mjög þungan bakpoka í því skyni að brenna fleiri hitaeiningum en hún tekur inn. Á fyrstu dögum innlagnar hafi hún verið með aðsóknarranghugmyndir, en þráhyggja hafi yfirtekið þær hugmyndir upp á síðkastið. Varnaraðili fái að hringja eitt símtal á dag. Hún noti þau símtöl gjarnan til atvinnuleitar, en algjörlega óraunhæft sé að hún geti sinnt vinnu eins og ástand hennar er. Þrátt fyrir meðferð sálfræðinga, lyfjameðferð og stuðning af ýmsu tagi, m.a. með hjálp matarfræðinga, hafi ekki tekist að koma í veg fyrir að sjúkdómur varnaraðila þróaðist yfir í mjög langt og illvígt ástand. Meðferðaraðilar séu komnir í þrot. Þrátt fyrir mikla meðferð séu sjúkdómseinkenni varnaraðila mjög langvarandi og erfið. Því hafi meðferðaraðilar tekið þá ákvörðun að freista þess að koma henni í langtíma endurhæfingu á deild 12 á Kleppsspítala. Þess sé óskað að varnaraðili verði svipt sjálfræði í allt að 12 mánuði til þess að koma megi fram viðeigandi meðferð.

Guðlaug Þorsteinsdóttir geðlæknir kom fyrir dóminn sem vitni. Guðlaug sagðist hafa verið læknir varnaraðila í um 10 ár. Varnaraðili þjáist af átröskun og lotugræðgi, en á síðari árum einnig af þunglyndi með geðrofseinkennum. Guðlaug sagðist meðmælt því að varnaraðili verði svipt sjálfræði. Veikindi hennar hefðu færst mjög í aukana síðustu ár og þarfnist hún reglubundinnar meðferðar um lengri tíma. Aðspurð sagðist Guðlaug telja að til að ná tilhlýðilegum árangri væri nauðsynlegt að varnaraðili yrði svipt sjálfræði lengur en í 6 mánuði. Veikindi hennar hefðu ágerst mjög á liðnu sumri og hefði hún haft miklar ranghugmyndir og aðsóknarhugmyndir er hún var vistuð nauðug á geðdeild í ágústmánuði. Varnaraðili þurfi að vera undir stöðugu eftirliti, gæta þurfi þess að hún borði, taki lyf og koma í veg fyrir að hún sé á stanslausri hreyfingu í því skyni að grennast. Þá ýti það undir þunglyndissjúkdóm hennar og kvíða sem hún þjáist af að hún er vannærð og tekur ekki lyfin sín. Varnaraðili vilji fara af geðdeild, en það væri glapræði ef hún útskrifaðist. Sagðist Guðlaug telja varnaraðila í raunverulegri lífshættu fái hún ekki meðferð. Í ljósi sjúkrasögu hennar sé þrautaúrræði að leggja hana inn á deild 12 á Kleppsspítala.

Halldóra Jónsdóttir geðlæknir kom einnig fyrir dóminn sem vitni. Hún sagðist hafa verið læknir varnaraðila frá því að hún var lögð inn á deild 12 á Kleppsspítala 26. ágúst sl. Halldóra rakti sjúkrasögu varnaraðila og sagðist telja rétt að svipta hana sjálfræði í 12 mánuði svo sem krafist er. Meðferð varnaraðila gangi hægt fyrir sig. Hún sé innsæislaus og óraunsæ um veikindi sín. Hún hafi ekki verið til samvinnu um meðferð, reynt að strjúka af deildinni og það stundum tekist. Hún sé nú á lokaðri deild þar sem hún sé látin fylgja stífri áætlun um hvað hún borðar. Hún njóti lyfjameðferðar, auk þess sem hún fái aðstoð frá sálfræðingi og iðjuþjálfa. 

Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum og kom fram hjá henni að hún væri mjög ósátt við að dveljast á geðdeild. Hún sagðist hafa tekið fullan þátt í meðferðinni þar. Hún væri sátt við líkama sinn, en myndi þó „líða illa í eigin skinni“ ef hún þyngdist. Þá teldi hún sig tilbúna að fara að vinna. Varnaraðili sagðist ekki vera viss um að hún væri veik. Hún væri ekki sátt við að vera á lyfjum, en hefði þó ákveðið að hlíta lyfjameðferð um 6 mánaða skeið og sjá hvaða áhrif það hefði á líðan hennar. Þá myndi hún fylgja „matarplani“, sem hún hefði sjálf unnið. Hún sagðist ekki þola við á deildinni og ekki geta lengur tekið þátt í meðferðinni þar.

Niðurstaða

Með framangreindu vottorði Tómasar Zoëga yfirlæknis og vætti geðlæknanna Guðlaugar Þorsteinsdóttur og Halldóru Jónsdóttur, sem og framburði varnaraðila sjálfrar, er sýnt fram á að varnaraðili sé ófær um að ráða persónulegum högum sínum sjálf í skilningi a-liðar 4. gr. lögræðislaga, þannig að ekki verði tryggt að hún muni hlíta nauðsynlegri læknismeðferð. Verður varnaraðili svipt sjálfræði til að tryggja megi að hún njóti læknismeðferðar við sjúkdómi sínum. Er svipting sjálfræðis miðuð við 12 mánuði, sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, til að tryggja að hún njóti viðeigandi læknismeðferðar.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í 12 mánuði.

Þóknun skipaðs verjanda, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.