Hæstiréttur íslands
Mál nr. 490/2005
Lykilorð
- Ómerking
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 490/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Ómerking. Frávísun frá héraðsdómi.
X var ákærður fyrir ærumeiðingar með því að hafa birt nánar tiltekin ummæli um tvo lögreglumenn á vefsíðu sinni og einnig í Kastljósi Ríkisútvarpsins og Útvarpi Sögu. Lutu ummælin að því að lögreglumennirnir hefðu lekið upplýsingum til fíkniefnasala og að annar þeirra hefði eyðilagt rannsókn máls þar sem sonur X var brotaþoli. Í ljósi atvika þótti nauðsynlegt að málið yrði rannsakað vandlega af óháðum aðila. Vegna forsögu þess og fyrri afskipta lögreglustjórans var það talið þess eðlis að rétt hefði verið að vísa því til ríkissaksóknara, sbr. til hliðsjónar 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 6. gr. laga nr. 29/1998. Varð því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. nóvember 2005. Ákæruvaldið krefst sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.
Ákærði krefst aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa.
Í héraðsdómi er því lýst að tveir rannsóknarlögreglumenn hafi með vísan til b. liðs 2. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 71/1995, krafist þess að fram færi opinber rannsókn vegna ummæla ákærða, sem birst hafi á heimasíðu á veraldarvefnum, Kastljósi Ríkisútvarpsins og Útvarpi Sögu, þar sem þeir hafi verið bornir alvarlegum ásökunum, sem varðað hafi starf þeirra. Kærum lögreglumannanna var beint til lögreglustjórans í Reykjavík en þar starfa þeir. Rannsókn málsins var fengin rannsóknarlögreglumanni við það sama embætti. Hefur hann aflað endurrita af heimasíðunni og fjölmiðlaþáttunum þar sem kærð ummæli birtust. Þá hefur hann tekið skýrslur af ákærða, sem kannaðist við að hafa viðhaft ummælin. Að því búnu var málið sent ríkissaksóknara til afgreiðslu. Hvorki var tekin skýrsla af lögreglumönnunum né af nafngreindum heimildarmanni að ummælum ákærða. Ákæra var gefin út á þessum grunni 11. apríl 2005. Ummælin sem ákært er út af varða annars vegar ásakanir, sem ákærði segist hafa eftir öðrum, um að lögreglumennirnir leki upplýsingum til fíkniefnasala og hins vegar að annar þeirra hafi eyðilagt rannsókn máls.
Af gögnum málsins má ráða að það á rót sína að rekja til þess að í janúar 1999 hafi syni ákærða verið stungið ofan í farangurgeymslu bifreiðar og í kjölfar þess hafi verið gengið í skrokk á honum. Sagði annar lögreglumannanna fyrir dómi að þetta hefði verið svona dæmigert „handrukkunarmál“. Hafi hann séð um rannsóknina ásamt öðrum en þarna hafi komið við sögu menn með nokkurn brotaferil. Málið hafi verið fellt niður á síðari stigum. Að gefnu tilefni frá Hæstarétti aflaði ríkissaksóknari frekari gagna um málið. Kom fram að það var fellt niður af lögreglustjóranum í Reykjavík að því er tvo sakborninga varðaði, en ríkissaksóknari ákærði einn sakborning fyrir brot á 225. gr. almennra hegningarlaga. Í héraðsdómi var ákæran ekki talin uppfylla skilyrði þess lagaákvæðis og sýknað af því broti. Hins vegar var talið að árás ákærða væri nægilega lýst í ákæru svo að sakfella mætti fyrir 217. gr. almennra hegningarlaga og var ákærði dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í 45 daga.
Að því er hinn lögreglumanninn varðar kom fram að hann hafði haft afskipti af syni ákærða vegna annarra mála. Ákærði bar fyrir héraðsdómi, svo sem þar er nánar lýst, að hann hafi rætt við lögreglumennina báða vegna þessara atburða og einnig við tvo af yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík. Hann heldur því fram að með ummælunum hafi fyrir honum vakað að vekja athygli á fíkniefnavandanum í þjóðfélaginu og hvernig hann og fjölskylda hans hafi persónulega orðið fyrir barðinu á mönnum sem tengdust fíkniefnasölu.
Að framan er því lýst að lögreglumennirnir kærðu ummælin, sem ákært er út af, til yfirmanns síns lögreglustjórans í Reykjavík, sem fól rannsókn þess starfsfélaga þeirra við embættið. Hvorki var aflað skýrslu frá nafngreindum heimildarmanni ákærða né kærendum. Þar sem lögreglumennirnir kærðu vegna ummæla, sem þeir tóku alvarlega og fyrir lágu ásakanir um misferli í opinberu starfi var nauðsynlegt að málið yrði vandlega rannsakað af óháðum aðila. Ekkert liggur fyrir um að lögreglumaðurinn, sem kom að rannsókn málsins, hafi litið vilhallt á málið. Hins vegar gat svo litið út frá sjónarhóli utanaðkomandi í ljósi forsögu þess og fyrri afskipta lögreglustjórans í Reykjavík. Var sú aðstaða fyrir hendi að lögreglustjóranum í Reykjavík hefði verið rétt að vísa málinu til ríkissaksóknara sem þá hefði farið með málið, sbr. til hliðsjónar 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 6. gr. laga nr. 29/1998. Þar sem þetta var ekki gert verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.
Allur áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. október 2005.
Mál þetta sem dómtekið var 4. október sl. er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 11. apríl 2005 á hendur X, [...], Reykjavík, fyrir ærumeiðingar gagnvart lögreglumönnunum A, [...] og B, [...], með því að hafa í október 2004:
1. Birt á heimasíðum á vefslóðunum www.dopsalar.tk og „www.dopsalar.blogspot.co“, eftirfarandi ummæli undir fyrirsögninni „DOPSALAR“:
„Lögreglumenn sem margir sögðust fá uppl. hjá. Og bar ég það upp á þá báða
[A]
[B]“.
2. Haft eftirfarandi ummæli um lögreglumennina í sjónvarpsþættinum Kastljós í Ríkissjónvarpinu 19. október:
„Ég hef fengið upplýsingar frá mörgum um að þeir leki upplýsingum, það er ekki um að þeir séu að selja dóp eða neitt svoleiðis heldur upplýsingaleki sem er verið að ræða um í sambandi við þá“.
3. Haft eftirfarandi ummæli um lögreglumanninn B í viðtali á Útvarpi Sögu 20. október „(...) málið var eyðilagt segi ég alveg fullum hálsi af þeim sem fór með rannsókn málsins“ og síðar í sama viðtali um lögreglumennina báða: „(...) ég sagði við hann að ég skyldi láta handtaka hann og leita hjá honum og hann sagðist engar áhyggjur hafa því að hann nafngreindi þessa tvo menn og sagði það að þeir létu sig vita áður en að það yrði leitað hérna, eða áður en hann yrði „Burstaður“ svo ég noti hans eigin orð“.
Þetta er talið varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 813.295 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi til 23. desember 2004, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.
Af hálfu B er krafist skaðabóta að fjárhæð 747.310 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 14. október 2004 til 29. janúar 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags.
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu en til vara að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málavextir.
Hinn 14. október 2004 krafðist A rannsóknarlögreglumaður þess með vísan til 2. tl. b í 242. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga að fram færi opinber rannsókn vegna ummæla sem birtust á vefsíðu á veraldarvefnum þar sem hann var borinn alvarlegum sökum. Þá lagði B rannsóknarlögreglumaður einnig fram kæru á hendur ákærða vegna ærumeiðandi ummæla í garð hans sem birtust á heimasíðu ákærða og komu fram í viðtali við ákærða í þættinum Kastljósi sem sýndur var 19. október 2004. Viðbótarkæra var lögð fram af hálfu A 20. og 21. október 2004 vegna ummæla í Kastljósi og í viðtali við ákærða á Útvarpi Sögu. Einnig lagði B fram viðbótarkæru vegna ærumeiðandi ummæla ákærða í því sama viðtali.
Vefsíðu þá sem um ræðir hafði ákærði sett upp með yfirskriftinni „DOPSALAR“. Hafði hún að geyma lista með nöfnum ýmissa aðila sem ákærði hélt fram að seldu fíkniefni eða væru viðriðnir sölu fíkniefna á einhvern hátt. Þá kom fram á listanum að margir segðu lögreglumennina A og B veita þessum aðilum upplýsingar.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu hinn 19. október 2004 vegna hinna meintu brota. Kannaðist hann við að hafa birt þá síðu sem um ræðir á veraldarvefnum og kvað tilganginn hafa verið þann að vekja athygli á fíkniefnavandanum. Kvaðst hann setja fólk á listann fengi hann upplýsingar frá að lágmarki þremur aðilum sem bendluðu viðkomandi við fíkniefni. Hann væri hins vegar ekki málkunnugur þeim aðilum sem veittu þessar upplýsingar. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um að lögreglumennirnir nafngreindu hefðu látið sakborninga vita af aðgerðum lögreglu fyrirfram. Kvaðst hann hafa látið yfirmenn í lögreglunni vita um grunsemdir sínar um upplýsingaleka frá lögreglumönnunum.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. október 2004 var ákærði spurður frekar um framburð sinn við yfirheyrslu deginum áður. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um lögreglumennina hjá C en þær hafi hann fengið staðfestar hjá heimildarmönnum og nöfn þeirra gæfi hann ekki upp. Þá var ákærði yfirheyrður 29. desember 2004 vegna ærumeiðandi ummæla í Kastljósi og í útvarpsþætti á Útvarpi Sögu.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, X, kannast við að ummæli í ákæru séu rétt eftir honum höfð. Aðspurður kvað hann ástæðu þess að hann hafi sett upp vefsíðu þá sem um ræðir á heimili sínu að vekja athygli á fíkniefnavandanum hér á landi. Hann hafi tekið þátt í umræðum á spjallrásum en einnig hafi hann komið fram í fjölmiðlaviðtölum eftir að hann birti síðuna. Ástæða þess að hann hafi nafngreint lögreglumennina tvo sem um ræðir hafi verið sú að þegar syni hans var rænt á árinu 1999 hafi C, sem hafi staðið að því, nafngreint lögreglumennina. Hafi C sagt að hann hefði ekki neinar áhyggjur af því að verða handtekinn þar sem lögreglumennirnir myndu vara hann við. Ónefndir heimildarmenn hafi einnig nefnt nöfn þessara lögreglumanna og hafi það staðfest það sem C sagði við hann. Annar lögreglumaðurinn, B, hafi haft með rannsókn ránsmálsins á árinu 1999 að gera og hafi sú rannsókn verið þannig að ákærða hafi verið ljóst að þær upplýsingar sem hann hafði fengið um lögreglumanninn og upplýsingaleka hafi verið sannar. Nánar spurður kvaðst ákærði byggja það á því að B hafi sagt við hann að ekki yrði kært fyrir mannrán. Hafi ákærði kvartað við Ómar Smára um þær rannsóknaraðferðir en hann hafi einnig greint honum frá því þegar C nafngreindi lögreglumennina á sínum tíma. Einnig hafi hann síðar rætt við Geir Jón Þórisson og upplýst hann um málið. Aðspurður kvaðst ákærði hafa borið þessar upplýsingar upp á lögreglumennina og hafi þeir báðir þrætt fyrir þetta. Önnur samskipti kvaðst ákærði ekki hafa haft við þá.
Spurður um eftirfarandi ummæli sín í útvarpsþætti á Útvarpi sögu, „ málið var eyðilagt segi ég alveg fullum hálsi af þeim sem fór með rannsókn málsins“, kvað hann B hafa reynt að færa sök á afbroti yfir á son sinn af þeim sem í raun framdi afbrotið. Þá hafi sá aðili ekki verið kærður fyrir brottnámið á syni ákærða. Hafi þetta í raun verið upphafið á því að ákærði hafi farið að safna saman upplýsingum þeim sem hann setti síðar inn á netið.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa lokað heimasíðunni eftir að Persónuvernd fór að hafa afskipti af málinu en það væri rangt að það hafi verið gert að tilstuðlan Persónuverndar.
Varðandi skaðabótakröfur sem gerðar eru af hálfu lögreglumannanna á hendur honum kvaðst ákærði hafna þeim í ljósi þess að um gamlar upplýsingar væri að ræða sem hann hafi upplýst yfirmenn lögreglunnar um á árinu 1999.
Vitnið, A, rannsóknarlögreglumaður hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, skýrði svo frá að hann hafi fengið upplýsingar um það frá öðrum lögreglumanni að nafn hans væri komið á netið í tengslum við fíkniefni. Kvað hann engan fót fyrir því sem þar er haldið fram. Hafi þetta komið sér mjög illa fyrir hann enda byggðist starf hans mikið á trúnaði sem hann hafi unnið sér inn undanfarin ár hjá ýmsum aðilum. Sé það því mjög slæmt ef aðilar sem jafnan hafa gefið honum upplýsingar hætti að gera það sökum vantrausts í garð hans. Kvaðst hann hafa orðið var við að svo væri og hafi aðilar m.a. vísað beint í umfjöllun fjölmiðla um málið. Spurður um afskipti af ákærða í hans starfi kvaðst vitnið hafa haft afskipti af D syni ákærða. Kvað hann rangt að ákærði hafi rætt við vitnið um upplýsingaleka af hans hálfu áður en síðan birtist á netinu. Þá hafi yfirmenn hans aldrei rætt við hann um þetta mál að fyrra bragði. Honum væri þó kunnugt um að ákærði hafi eitthvað kvartað undan honum á árinu 1999 og hafi það tengst inntaki starfs hans sem lögreglumanns sem ákærði vildi meina að væri að „stússast“ fyrir fíkniefnasala. Hafi hann talað við einhvern yfirmann, sennilega Geir Jón, sem hafi síðan rætt við vitnið. Á þeim tíma hafi vitnið starfað í almennri deild en ekki fíkniefnadeild. Aðspurður kvaðst hann ekki geta bent á neitt sem skapað gæti óvild ákærða í hans garð.
Vitnið, B, rannsóknarlögreglumaður í ofbeldisbrotadeild, skýrði svo frá að hann hafi fengið fregnir af því að nafn hans væri inni á heimasíðu þeirri sem um ræðir. Þá hafi hann heyrt af þessu í gegnum tvítuga stjúpdóttur sína sem sagði þetta mál á milli tannanna á fólki. Hann hafi ákveðið að kæra eftir að ákærði fór í fjölmiðla. Kvað hann þetta hafa haft mikil áhrif í starfi hans og loði þetta orðspor jafnvel við hann ennþá á meðal þeirra sem hann hafi afskipti af í starfi sínu, m.a. hjá þeim sem hann yfirheyri. Þá hafi fólk honum tengt verið mjög miður sín vegna þessa máls. Kvað vitnið þetta koma illa við hann þar sem hann starfi af fullum heiðarleika og erfitt sé að rétta hlut sinn eftir svona nokkuð. Fletti hann nafni sínu upp á leitarvefnum „Google“ geti hann fundið umfjöllun um sig sem „skítuga löggu“.
Um tilefni þessara ummæla sem ákærði hefur vitnað um kvað vitnið son ákærða hafa lent í „handrukkurum“ og honum hafi verið hent í skott á bifreið og hann laminn eitthvað. Þar hafi komið við sögu menn með langan sakarferil sem lítið vildu tjá sig um málið. Málið hafi verið fellt niður á síðari stigum en það hafi ekki verið hann sem hafi tekið ákvörðun um það. Þá hafi einnig komið fram ábendingar frá ákærða sem hafi verið fylgt en þær ekki staðist. Einnig hafi vitnið komið að rannsókn á máli þar sem sonur ákærða var viðriðinn landasölu en honum væri ókunnugt um hvernig því máli lyktaði. Hafi hann ekki haft önnur afskipti af syni ákærða. Aðspurður kvað vitnið ákærða ekki hafa viðrað þær ásakanir sem um ræðir við hann áður en vefsíðan var sett upp. Hann hafi þó hringt í hann einhverju sinni og verið þá ósáttur við rannsókn máls. Einnig hafi hann fengið spurnir af því að ákærði hafi rætt eitthvað við Ómar Smára. Hans yfirmenn hafi þó aldrei rætt við vitnið að fyrra bragði um þessar ásakanir.
Vitnið, Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, kvað aðspurður sig ekki reka minni til þess að ákærði hafi rætt við hann um ætlaðan upplýsingaleka lögreglumannanna tveggja áður en ásakanir í þeirra garð birtust á netinu. Hann hafi þó rætt við vitnið um rannsókn tiltekins máls þar sem sótt var að syni hans. Sérstaklega hafi ákærði haft áhyggjur af velferð sonar síns. Hafi hann kannað það sérstaklega hvort ekki væri verið að rannsaka það mál og reyndist svo vera. Aðspurður kvað vitnið ákærða ekki hafa rætt við hann um vísvitandi klúður á rannsókninni.
Vitnið, Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, kvað aðspurður einu samskipti sem hann hafi átt við ákærða hafa verið fyrir um fimm árum þegar ákærði ræddi við hann um son sinn og að lögreglumaðurinn A ætti í „óeðlilegu“ sambandi við hann til þess að fá upplýsingar hjá honum. Eitthvað hafi sú umræða tengst fíkniefnum. Hafi sannleiksgildi þessara fullyrðinga verið kannað en ekkert fram komið sem studdi þær. Ekkert hafi ákærði þó rætt við vitnið um umrædda heimasíðu.
Niðurstaða.
Í máli þessu er óumdeilt að ákærði hafði uppi þau ummæli sem hér um ræðir. Hann hefur lýst því hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi sett heimasíðuna www.dopsalar.tk upp á heimili sínu og verður því með vísan til forráðasvæðisreglu 4. gr. almennra hegningarlaga ekki á það fallist með ákærða að íslenska ríkið eigi ekki refsilögsögu í málinu þótt netþjónn sá sem notaður var hafi verið í útlöndum. Þá er til þess að líta að afleiðingar brotsins komu fram hér á landi.
Verjandi ákærða byggir á því til stuðnings kröfu ákærða um sýknu í málinu að meint brot hans geti aldrei talist móðgun samkvæmt 234. gr., eins og byggt sé á í ákæru, enda hafi kærendur málsins ekki kært málið á þeim grundvelli heldur litið sjálfir svo á að um ærumeiðandi aðdróttanir væri að ræða samkvæmt 235. gr. sömu laga.
Upphaf máls þessa má rekja til þeirrar kröfu A rannsóknarlögreglumanns í bréfi, dagsettu 14. október 2004, að fram færi opinber rannsókn með skírskotun til 2. tl. b í 242. gr. almennra hegningarlaga vegna ummæla sem birtust á vefsíðu á veraldarvefnum þar sem hann sem lögreglumaður væri borinn þeim sökum að gefa upplýsingar „til aðila úti í bæ“. Taldi A að um skýrt brot væri að ræða samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá lagði B rannsóknarlögreglumaður einnig fram kæru á hendur ákærða vegna „ærumeiðandi ummæla og óhróðurs“ í garð hans sem birtust á fyrrgreindri heimasíðu ákærða og komu jafnframt fram í viðtali við ákærða í þættinum Kastljósi sem sýndur var 19. október 2004. Viðbótarkærur voru síðan lagðar fram af hálfu B 20. og 21. október 2004 vegna „aðdróttana og rógburðar í minn garð“ í tilefni af ummælum ákærða í greindum Kastljóssþætti og í viðtali við hann á Útvarpi Sögu. Einnig lagði B fram viðbótarkæru vegna „ærumeiðandi ummæla og óhróðurs“ ákærða í því sama viðtali.
Ákærði hefur haldið því fram að fyrir honum hafi vakað að vekja athygli á fíkniefnavandanum í þjóðfélaginu en hann lýsti því hér fyrir dómi hvernig hann og hans fjölskylda hafði persónulega orðið fyrir barðinu á aðilum sem tengdust fíkniefnasölu.
Brot ákærða er í ákæru heimfært undir móðgun samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga en greinin hljóðar svo: „Hver, sem meiðir æru annars manns með móðgunum í orðum eða athöfnum, og hver sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári“. Ákvæði 235. gr. laganna um aðdróttun hljóðar hins vegar svo: „Ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 1 ári“. Dómaframkvæmd ber það með sér að ekki sé tilgangur greindra ákvæða að leggja slíkar hömlur á tjáningarfrelsi manna samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu að þeim sé gert ókleift að taka þátt í opinberri umræðu með því að lýsa skoðunum sínum eða mati á samfélagslegum málefnum. Tjáningarfrelsið hefur hins vegar ekki verið talið njóta verndar með vísan til þessara ákvæða þegar ljóst er af ummælunum að þau hafa þann tilgang einan að særa menn eða lítilsvirða á ófyrirleitinn hátt og verða þannig ekki réttlætt með vísan til hagsmuna almennings af því að fá að njóta slíkrar umræðu opinberlega.
Samkvæmt verknaðarlýsingu 234. gr. almennra hegningarlaga er það skilyrði að æra manns sé meidd með móðgun í orði eða athöfnum. Þau ummæli sem hér um ræðir fela í sér fullyrðingar eða staðhæfingar um lögreglumennina tvo og vísar ákærði í þessu sambandi til upplýsinga sem hann kvaðst hafa fengið frá heimildarmönnum sínum, einn er tilgreindur með nafni en aðrir eru ónafngreindir. Í ummælum hans felst hinsvegar ekki gildisdómur um staðreyndir og er raunar vandséð að að baki þeim búi þær virðingarverðu hvatir að vekja athygli á fíkniefnavanda þjóðfélagsins.
Það er mat dómsins að ummæli þau sem ákært er út af, og skoða verður í samhengi við umfjöllunarefnið, feli öll í sér ærumeiðandi aðdróttanir um refsivert athæfi, þ.e. brot lögreglumannanna í opinberu starfi. Með þessum aðdróttunum var vegið mjög freklega að starfsheiðri þeirra, fyrst með birtingu á heimasíðu ákærða og síðar með viðtölum í fjölmiðlum. Eru aðdróttanir sem þessar til þess fallnar að skaða þá, bæði persónulega og í starfi sínu sem lögreglumenn, en einnig koma þau niður á trúverðugleika lögreglunnar í heild. Dómurinn getur hins vegar ekki fallist á það með sækjanda að ummæli þessi geti talist móðgun í skilningi 234. gr. almennra hegningarlaga og þannig fallið undir verknaðarlýsingu greinarinnar. Þar eð refsikrafa ákæruvaldsins er eingöngu byggð á því að ákærði hafi brotið gegn þeirri lagagrein en ekki 235. gr. sömu laga þykir ekki verða komist hjá því að sýkna ákærða af refsikröfu í máli þessu.
Með vísan til þessarar niðurstöðu er skaðabótakröfum vísað frá dómi.
Sakarkostnaður málsins, 123.610 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Ragnheiði Harðardóttur vararíkissaksóknara.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Sakarkostnaður málsins, 123.610 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.