Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2001


Lykilorð

  • Manndráp
  • Líkamsárás
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. maí 2001.

Nr. 24/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Rúnari Bjarka Ríkharðssyni

(Andri Árnason hrl.)

 

Manndráp. Líkamsárás. Kynferðisbrot. Miskabætur.

R var ákærður fyrir kynferðisbrot, manndráp og líkamsárás með því að hafa þröngvað fyrrum sambúðarkonu sinni, X, til kynferðismaka, banað vinkonu hennar, Y, með fjölmörgum hnífsstungum og veitt Z, sambúðarmanni Y, hnífsáverka. Þótti nægileg sönnun vera fram komin fyrir sekt R og voru brot hans heimfærð til 194., 211. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. R var dæmdur til að sæta fangelsi í 18 ár og til að greiða X, Z og foreldrum Y bætur. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 15. janúar 2001 að tilhlutan ákærða, sem krefst þess að refsing verði milduð. Að öðrum kosti verði hinn áfrýjaði dómur felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný. Ákærði krefst þess og að bótakröfum, að undanskilinni kröfu um útfararkostnað, verði vísað frá dómi en lækkaðar ella.

Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfest, refsing hans þyngd og hann dæmdur til greiðslu skaðabóta eins og í ákæru greinir, að undanskilinni kröfu um bætur fyrir missi framfæranda.

I.

Samkvæmt gögnum málsins ber að fallast á þá úrlausn héraðsdóms, að ákærði hafi 4. febrúar 2000 þröngvað fyrrum sambúðarkonu sinni til kynferðismaka með hótun um ofbeldi og 5. mars sama ár þröngvað henni til holdlegs samræðis og annarra kynferðismaka, þannig að varði við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992. Daginn eftir hinn síðargreinda verknað kærði brotaþoli ákærða.

Gögn málsins lýsa því að ákærði hafi brugðist illa við kærunni og borið sig undan henni á mannamótum. Gögnin benda og til að ákærði hafi komið heim til vinkonu fyrrum sambúðarkonu sinnar 15. apríl 2000 í hefndarhug. Hann braut þar upp útidyrahurð og réðist inn vopnaður hnífi og er atlögu hans að stúlkunni og sambúðarmanni hennar ýtarlega lýst í héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna dómsins er hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða.

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin í héraðsdómi fangelsi 18 ár.

II.

Í málinu hafa eftirfarandi bótakröfur verið gerðar á hendur ákærða.

Z, sambúðarmaður Y heitinnar, krefst miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, að fjárhæð 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. apríl 2000 til 20. desember sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig bóta að fjárhæð 76.790 krónur vegna kostnaðar af gagnaöflun í héraði og fyrir Hæstarétti, auk dráttarvaxta af 15.540 krónum frá 28. september 2000, en af 29.750 krónum frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.

Foreldrar Y heitinnar, B og A, krefjast hvort um sig miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 15. apríl 2000 til 20. desember sama ár en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og bóta að fjárhæð 30.500 krónur vegna kostnaðar af gagnaöflun, auk þess sem B krefst dráttarvaxta. Faðir Y krefst einnig bóta vegna útfararkostnaðar samtals að fjárhæð 226.288 krónur, auk dráttarvaxta. Kröfur ofangreindra aðila um bætur vegna kostnaðar við að halda kröfum þeirra fram eru settar fram með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Af hálfu X er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur hvað varðar dæmdar bætur henni til handa.   

Framkomnar bótakröfur eru nægilega ljósar til þess að leggja megi dóm á þær og verður krafa ákærða um frávísun þeirra því ekki tekin til greina. Ber hann bótaábyrgð á sakargrundvelli.

Með vísan til forsendna héraðsdóms er ákvæði hans um miskabætur til X staðfest.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar nýjar álitsgerðir Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis og Margrétar Arnljótsdóttur sálfræðings um andlegt ástand brotaþolanna Z, B og A. Með vísan til forsendna héraðsdóms og með hliðsjón af gögnum málsins um hagi bótakrefjenda í kjölfar verknaða ákærða þykja miskabætur til brotaþolanna B og A hæfilega ákveðnar 800.000 krónur til hvors um sig. Eftir atvikum þykja miskabætur til Z hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur.

Staðfesta ber ákvörðun héraðsdóms um bætur vegna útfararkostnaðar. Þá verða og teknar til greina bótakröfur sem settar hafa verið fram á grundvelli 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Vextir greiðist eins og í dómsorði greinir.

Staðfesta ber ákvörðun héraðsdóms um málsvarnarlaun og annan áfallinn kostnað. Eftir atvikum þykir mega staðfesta ákvörðun hans um réttargæsluþóknun. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Rúnar Bjarki Ríkharðsson, sæti fangelsi 18 ár og komi óslitin gæsluvarðhaldsvist hans frá 15. apríl 2000 refsingu til frádráttar.

Ákærði greiði X 1.000.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. mars 2000 til 20. desember sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 15. apríl 2000 til 20. desember sama ár en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags og 76.790 krónur með dráttarvöxtum af 15.540 krónum frá 28. september 2000 til 15. nóvember sama ár, en af 29.750 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 15. apríl 2000 til 20. desember sama ár en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, svo og 30.500 krónur með dráttarvöxtum af 18.000 krónum frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.

Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 15. apríl 2000 til 20. desember sama ár en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, og 226.288 krónur með dráttarvöxtum af 201.820 krónum frá 15. maí til 8. júní 2000 en af 226.288 krónum frá þeim degi til greiðsludags, svo og 30.500 krónur án vaxta.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur, þóknun Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z, B og A fyrir Hæstarétti, samtals 100.000 krónur, og Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns X fyrir Hæstarétti, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykja­ness 20. desember 2000.

Málið er höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara útgefnum 12. október 2000 á hendur ákærða, Rúnari Bjarka Ríkharðssyni, kt. 160878-5849, [ . . . ].  Með fyrri ákærunni eru ákærða gefin að sök eftirfarandi „kynferðisbrot gegn fyrrum unnustu sinni, X, fæddri árið [ . . . ].

I.

Með því að hafa, föstudaginn 4. febrúar 2000, í bifreið ákærða, [ . . . ], sem hann hafði stöðvað við fisktrönur (sic) í [ . . . ] þröngvað stúlkunni með ofbeldi til munn­maka.

 

II.

Með því að hafa, sunnudaginn 5. mars 2000, á heimili ákærða að [ . . . ], þröngvað henni með ofbeldi til samræðis í endaþarm og leggöng og auk þess til munnmaka.

 

Teljast þessi brot varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40, 1992.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

 

María Thejll hdl., skipaður réttargæslumaður X, kt. [ . . . ], [ . . . ], krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða stúlkunni krónur 1.000.000 í miskabætur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. mars 2000 til greiðslu­­dags.  Þá krefst hún þóknunar að mati dómsins vegna réttargæslustarfa í þágu X.

 

Með seinni ákærunni er málið höfðað á hendur ákærða „fyrir manndráp og líkams­árás.

I.

Fyrir manndráp, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 15. apríl 2000 veist að Y, fæddri [ . . . ], á heimili hennar að [ . . . ]., og banað henni með fjölmörgum hnífstungum, í síðu, brjósthol, höfuð og víðar í líkama hennar.

 

Telst þetta brot varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.

Fyrir líkamsárás, með því að hafa síðar sömu nótt á sama stað og í I. kafla ákæru greinir, í átökum við sambýlismann Y, Z, veist að honum með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut nokkra grunna skurði og rispur á bringu, báða framhandleggi og vinstri kinn.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

 

Sif Konráðsdóttir hrl., skipaður réttargæslumaður Z og A og B, foreldra hinnar látnu, krefst þóknunar fyrir réttargæslu í málinu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.  Þá gerir hún, fyrir hönd umbjóðenda sinna, eftirgreindar bótakröfur: 

 

1.             Z, kt. [ . . . ], [ . . . ], krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum krónur 8.729.496 í bætur fyrir missi fram­færanda, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. október 2000 til greiðsludags, krónur 2.000.000 í miska­bætur, auk dráttarvaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og loks krónur 45.290 í bætur vegna kostnaðar við gagnaöflun, með dráttar­­vöxtum af krónum 15.540 frá 28. september til 15. nóvember 2000, en af krónum 45.290 frá þeim degi til greiðslu­dags.

 

2.             Móðir Y, B, kt. [ . . . ], [ . . . ], krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni krónur 1.000.000 í miskabætur, auk dráttarvaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og krónur 18.000 í bætur vegna kostnaðar af gagnaöflun, auk dráttarvaxta frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.

 

3.             Y, A, kt. [ . . . ], [ . . . ], krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum krónur 226.288 í bætur vegna útfarar­kostnaðar, með dráttarvöxtum af krónum 201.820 frá 15. maí til 8. júní 2000, en af krónum 226.288 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst hann miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð krónur 1.000.000, auk dráttarvaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og bóta að fjár­hæð krónur 18.000 vegna kostnaðar af gagnaöflun.

Andri Árnason hrl., skipaður verjandi ákærða, krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru vegna ætlaðra kynferðisbrota, en til vara að viðkomandi háttsemi verði felld undir 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 40/1992.  Komi til sýknu í þeim þætti málsins krefst verjandi þess að bótakröfu X verði vísað frá dómi, en ellegar verði ákærði sýknaður af kröfu hennar eða bætur lækkaðar stórlega að mati dómsins. 

Varðandi seinni ákæruna fyrir ætlað manndráp og líkamsárás krefst verjandi þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru fyrir manndráp, en til vara að sú hátt­semi verði heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.  Verjandi krefst þess að ákærði verði hins vegar alfarið sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás.  Varðandi framlagðar bótakröfur í þeim þætti málsins gerir verjandi sömu dómkröfur og varðandi bótakröfu X, að öðru leyti en því að fallist er á kröfu A um bætur vegna útfararkostnaðar, eins og sú krafa er sett fram.

Komi til sakfellingar krefst verjandi þess að til frádráttar dæmdri refsingu komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 15. apríl 2000, sbr. 76. gr. almennra hegningar­laga.

Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna.

Ákæra fyrir ætluð kynferðisbrot.

I.

Að morgni mánudagsins 6. mars 2000 kom X á lögreglu­stöðina í [ . . . ] í fylgd vinkvenna sinna Y og F og tjáði vakthafandi lögreglumanni, Víkingi Sveinssyni, að fyrrverandi kærasti hennar, ákærði í málinu, hefði nauðgað henni.  Víkingur bar síðar fyrir dómi að X hefði verið mjög illa á sig komin og í miklu ójafnvægi.  Hún hefði verið áberandi taugaóstyrk og greint óljóst frá viðvarandi hrotta­­skap ákærða og fleiri en einni nauðgun, sem hún hefði sætt af hans hálfu.  Að sögn Víkings hefði stúlkan ekki þorað að leggja fram kæru af ótta við að ákærði dræpi hana.  Hann hefði því ráð­lagt henni að leita stuðnings hjá Fjölskyldu- og félags­þjónustu Reykjanesbæjar.  Ekki var fært í dagbók lögreglu um komu X á lögreglustöðina. 

X leitaði sama morgun, laust fyrir kl. 10, til Hjördísar Árnadóttur félagsmálastjóra í Reykjanesbæ ásamt vinkonum sínum tveimur og greindi henni frá því sem gerst hefði.  Hjördís bar fyrir dómi að stúlkan hefði tjáð sér að fyrrverandi unnusti hennar hefði nauðgað henni kvöldið áður á heimili sínu að [ . . . ], en þar hefði hún verið að gæta yngri systkina hans á meðan foreldar hans væru erlendis.  Stúlkan hefði ekki verið beðin um að greina nákvæmlega frá atburða­rás, enda hefði Hjördís viljað að lögregla annaðist þá hlið málsins.  [ . . . ].

Að fyrirlagi Hjördísar fór X sama dag um kl. 12:40 á neyðar­mót­töku vegna nauðgunar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur.  Í fylgd með henni voru vinkonur hennar tvær.  Þar tók á móti henni Þuríður Anna Guðna­dóttir hjúkrunar­fræðingur.  Í mót­tökuskýrslu Þuríðar Önnu, sem hún staðfesti fyrir dómi, kemur fram að X hafi greint frá því að fyrrverandi kærasti hennar hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi kvöldið áður á heimili sínu.  Þuríður Anna bar að stúlkan hefði verið yfir­veguð og haldið ró sinni meðan á frá­sögn stóð, en hún hefði engu að síður greinilega verið óttaslegin.  Kristín Andersen kvensjúkdómalæknir skoðaði X sama dag.  [ . . . ]  Kristín bar að stúlkan hefði verið ótrúlega greinargóð miðað við aðstæður en verið að því komin að gráta nokkrum sinnum á meðan á frásögn stóð.  Að mati Kristínar hefði frásögn hennar verið afar trúverðug.                  

X var í framhaldi af læknisrannsókn boðið að ræða við lögmann á vegum neyðarmóttökunnar, Maríu Thejll hdl.  Lögmaðurinn fylgdi henni síðan á lög­­reglustöðina í [ . . . ], þar sem X lagði fram formlega kæru á hendur ákærða vegna nauðgunar. 

Samkvæmt framburðarskýrslu, sem Jóhannes Jensson lögreglufulltrúi skráði eftir X sama dag, mun hún hafa greint frá sambandi sínu og sambúð með ákærða á heimili foreldra hans, þar sem henni hefði fundist hún vera kúguð af ákærða og meðal annars þurft að sæta fyrir­mælum hans varðandi útivistar­tíma.  Að sögn X hefði þá tekið steininn úr aðfaranótt sunnudagsins 30. janúar 2000 er hún hefði hringt til ákærða og tilkynnt honum að hún myndi verða lengur að heiman en hann hefði leyft henni (kl. 04:30).  Væru hún og vinkonur hennar enn að skemmta sér og hyggðust fara heim til kærasta einnar þeirrar.  Ákærði hefði brugðist ókvæða við og kallað hana „hóru“ og fleira í þeim dúr.  Næst hefði hún talað við hann í síma um kl. 19:30 að kvöldi sunnudagsins og sagt honum að hún færi heim til móður sinnar í [ . . . ] og hefði hún bannað honum að fara þangað.  Hún hefði síðan heyrt frá móður sinni seinna um kvöldið og fengið að vita að ákærði væri þar staddur.  Að sögn X hefði hún því dregið að fara heim til sín fram til kl. 01:30, í þeirri von að ákærði yrði farinn, en þá hitt hann fyrir á heimilinu.  Ákærði hefði gist þar um nóttina.  Miðvikudaginn 2. febrúar hefði hún ætlað að sækja eigur sínar heim til ákærða og hefði hann lofað að aka henni því næst heim.  Þess í stað hefði hann ekið framhjá [ . . . ]., til Reykja­víkur og þaðan upp í hest­­húsa­byggð í Mos­fells­sveit áður en hann hefði fengist til að aka henni heim.  Að sögn X hefði hún verið logandi hrædd og grátið mikið í bif­reið­inni.  Eigurnar hefði hún ekki fengið.  Daginn eftir hefði hún hitt ákærða fyrir til­viljun á skemmti­stað, en ekki rætt við hann.  Hann hefði síðan ítrekað hringt í hana um nóttina og meðal annars sagt „að hún skildi endanlega fá að finna fyrir því í þetta skiptið“.

Samkvæmt sömu skýrslu greindi X næst frá því að föstu­daginn 4. febrúar hefði hún farið til fundar við ákærða í þeim tilgangi að ræða málin og reyna að sættast.  Munu þau hafa ekið um í bifreið ákærða og hann síðan haldið út í [ . . . ] þar sem hann hefði stöðvað bifreiðina við fiskitrönur einhvers staðar við [ . . . ] og því næst sagt: „Nú ferð þú niður og tottar hann á mér.  Þú skalt gera það hvort sem er með góðu eða illu“.  Að sögn X hefði hún neitað og farið að gráta, en ákærði þá gripið í hár hennar, keyrt höfuð hennar niður að getnaðar­lim sínum og þrýst munni hennar á liminn, svo fast að við lá að hún kúgaðist.  Ákærða hefði orðið sáðlát í munn hennar og hún skyrpt sæðinu út úr sér.  Eftir að ákærði hefði lokið sér af með þessum hætti hefði hann ekið í miklum flýti til [ . . . ], sagst þurfa að flýta sér til vinnu og skilið hana eftir, í rigningu, fyrir utan sýslu­skrifstofuna í [ . . . ].

Daginn eftir hefði hún farið heim til ákærða í því skyni að nálgast eigur sínar, sem enn hefðu verið í bifreið hans.  Ákærði hefði ekki verið heima, en hún hefði talað við fósturföður hans og sagt honum frá framkomu ákærða, án þess að nefna kynferðis­nauðungina við [ . . . ].  Hún hefði síðan náð tali af ákærða og hefði hann skipað henni að leiðrétta gagnvart fósturföðurnum þennan misskilning um framkomu sína, „annars færi verr“.  Eigurnar hefði hún loks fengið að kvöldi sunnudagsins 6. febrúar.

Samkvæmt skýrslunni greindi X næst frá samtölum sínum við móður ákærða, sem hefði verið búin að vekja máls á því við hana, áður en slitnað hefði upp úr sambúðinni með ákærða, að hún myndi gæta dætra hennar, tveggja og þriggja ára, á meðan móðirin og fósturfaðir ákærða færu til útlanda.  Þær hefðu síðan haldið sambandi sín á milli eftir sambúðarslitin. 

Að sögn X hefði ákærði síðan haft samband við hana um miðjan febrúar og spurt hvort hún gæti aðstoðað hann og S bróður hans við barna­pössunina.  Ákærði hefði lagt mikla áherslu á að hún gæti treyst honum og að ekkert myndi gerast.  Hún hefði fallist á þetta eftir nokkra umhugsun og af því tilefni farið til dvalar og gistingar heima hjá ákærða miðvikudaginn 1. mars.  Þar hefði hún fengið afnot af hjónaherbergi á efri hæð hússins, við hliðina á herbergi telpnanna.  Allt hefði gengið með ágætum fram á laugardag er S hefði hellt sér yfir hana með alls kyns niðrandi ummælum. 

Að kvöldi sunnudagsins 5. mars hefði ákærði farið í heimsókn til kunningja síns.  Á meðan hefði S vinkona hennar komið í heimsókn og dvalið fram til kl. 23.  Ákærði hefði þá verið kominn heim á ný.  Þau hefðu síðan setið tvö, sitt hvorum megin við borð í stofu á neðri hæð hússins, og verið að reykja þegar ákærði hefði mælt, alvarlegur á svip: „Nú ætla ég að fara með mjög alvarlegt mál og þetta er ekki fyndið.  Þú skalt ekki grípa fram í fyrir mér og þú svarar þegar ég segi þér að svara“.  Því næst hefði hann sagt: „Þetta er hefnd.  Ég er búinn að hugsa mikið út í það.  Hún skal verða framkvæmd hér og nú á þessu kvöldi hvort sem er með góðu eða illu.“  Að sögn X hefði hún spurt í hverju sú hefnd væri fólgin og hefði hann þá svarað: „Kynlíf, að sjálfsögðu!“  Hún hefði síðan reynt að ræða frekar við hann og spurt hvort þau gætu ekki leyst úr þessu með öðrum hætti, en hann hefði neitað því og orðið æstur.  Í framhaldi af því hefði ákærði fært sig yfir í sófa í stofunni og sest þar.  Ákærði hefði síðan spurt hvort hún ætlaði ekki að gera þetta og hefði hún spurt á móti hvort hún réði einhverju um það.  Á þeirri stundu hefði hún verið orðin afar hrædd og setið þögul á sínum stól.  Ákærði hefði síðan skipað henni að koma til sín, en hún hefði neitað og hann þá staðið upp og gert sig líklegan til að sækja hana.  Hún hefði sprottið á fætur og í framhaldi af því hefði hafist eltingarleikur kringum borðið, sem staðið hefði stutta stund.  Þau hefðu síðan staðið sitt hvorum megin borðsins er ákærði hefði sagt: „Hvað ætlarðu að gera.  Ætlarðu að kalla í S?  Heldurðu virkilega að S viti ekki hvað eigi að gerast hérna í kvöld.“  Eltingar­leikurinn hefði síðan hafist á ný og hún í framhaldi af því hlaupið upp á efri hæð hússins og inn í herbergi telpnanna, með ákærða á hælunum.  Þar hefði henni tekist að halda við hurðina um stund áður en ákærði hefði ruðst inn.  Að sögn X hefði hún þá hljóðað og ákærði rifið í hár hennar og gráa hneppta peysu, sem hún hefði verið í.  Henni hefði síðan tekist að rífa sig lausa og farið inn í herbergi til S.  Þar hefði S setið og horft á sjón­varp, en litið upp er hún hefði komið inn, grátandi og öskrandi, fylgst með því er ákærði hefði náð taki á henni og síðan snúið sér að sjónvarpinu á ný, eins og ekkert hefði í skorist.  Ákærði hefði þá haldið í peysu hennar og ýtt henni á undan sér út úr her­bergi S, að stiganum milli hæða og áfram niður stigann með þeim afleiðingum að hún hefði misst fótanna og runnið á bakinu niður stigann, án þess að ákærði hefði nokkru sinni misst tak á peysunni.  Þegar þau hefðu komið niður stigann hefði ákærði rifið í hár hennar og dregið hana áleiðis inn í svefnherbergi sitt.  Á leiðinni hefði hún náð að klóra hann til blóðs á hægri vanga.  Ákærði hefði í framhaldi af því rykkt í peysu hennar og rifið hana við sauma, bæði á öxl og við síðu, en því næst hefði hann dregið hana inn í herbergi sitt, við hlið stigans.  Er þangað kom hefði hún fyrst séð myndbandsupptökuvél á þrífæti, sem staðsett hefði verið við endann á rúmi hans og snúið að því.  Ákærði hefði síðan tekið hana háls­taki inni í herberginu og hert verulega að, en slakað á takinu er hún hefði beðið um að fá að anda.  Tárin hefðu þá streymt niður kinnar hennar og ákærði sagt: „Hættu að grenja.  Slappaðu af, slappaðu af.  Hættu þessu, hættu þessu.“  Ákærði hefði því næst skipað henni að afklæðast og sjálfur byrjað að klæða sig úr fötum.  Hún hefði hlýtt og sett föt sín á gólfið, en í framhaldi af því hefði hann skipað henni að setja sængina úr rúminu á gólfið.  Hún hefði því næst spurt hvers vegna hann væri með upp­tökuvél í herberginu og hefði hann svarað: „Ég ætla að taka þetta upp.  Ef þú ert með einhverja stæla þá hef ég þetta á þig.“  [ . . . ] Ákærði hefði síðan byrjað að klæða sig og hún þá spurt hvort hún mætti líka fara í fötin.  Hann hefði leyft henni það, en bannað henni að fara upp í herbergi sitt og sagt: „Við ætlum að fara fram og fá okkur að reykja“.  Þau hefðu því næst farið fram í stofu og kveikt sér í sígarettu.  Þar hefði ákærði sagt „Ég ætla að vona að ég hafi náð að troða einhverju inn í hausinn á þér núna og að þú skiljir mig“.  Í framhaldi af því hefði hann sagt henni að hún skildi hafa svar handa honum á fimmtudagskvöldinu næst á eftir um það hvort þau myndu ekki taka saman aftur.  Einhvern tíma á meðan á þessu samtali stóð hefði S komið niður í stofu og þeir bræður þá rætt lítillega um knatt­spyrnu.  Hún hefði ekki þorað að segja neitt af ótta við ákærða og eingöngu hugsað um að friða hann.  Hann hefði síðan veitt henni leyfi til að fara upp í herbergi til sín.  Þar hefði hún legið grátandi alla nóttina og heyrt í ákærða er hann hefði farið til vinnu um kl. 04:30 um morguninn.  Að sögn X hefði hún ákveðið að kæra umrætt kyn­ferðisbrot og því hefði hún hvorki þvegið sér né skipt um föt áður en hún hefði farið á lögreglustöð og síðar í rann­sókn á neyðarmóttöku vegna nauðgunar.  Áður hefði hún beðið I í mötu­­­neytinu í fjölbrautaskólanum, sem verið hefði vinkona móður ákærða, að líta eftir telpunum.  Hún hefði greint I frá þessu, en beðið hana um að nefna þetta ekki við aðra þar sem hún hefði sjálf viljað greina frá atburðinum.  Samkvæmt nefndri skýrslu hófst skýrslugjöf X kl. 16:19 og lauk kl. 21:30 að kvöldi mán­dagsins 6. mars.

Jóhannes Jensson lögreglufulltrúi í [ . . . ] bar fyrir dómi að hann hefði skráð framangreinda skýrslu X eftir frásögn hennar og á köflum tekið orða­­lag hennar óbreytt upp í texta skýrslunnar og þá haft viðkomandi ummæli innan gæsa­lappa.

S bar fyrir dómi að hún hefði komið í heimsókn til X á heimili ákærða að kvöldi sunnu­dagsins 5. mars.  Ákærði hefði þá ekki verið heima, en hann hefði komið heim skömmu síðar.  Hún hefði aðeins rætt lítil­lega við hann og kvatt X og farið frá henni um kl. 23.

I rekur mötuneyti Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  I bar fyrir dómi að X hefði komið til hennar að morgni mánudagsins 6. mars og beðið hana að líta eftir systrum ákærða, svo hún gæti farið til læknis.  I hefði spurt um tilefni læknisskoðunarinnar og hefði stúlkan þá brotnað niður og sagt frá því grátandi að ákærði hefði nauðgað henni kvöldið áður og tekið upp á mynd­­band.   

II.

Næst gerðist það í málinu mánudaginn 6. mars, að lögregla gerði húsleit á heimili ákærða kl. 22:30 og handtók bróður hans S.  Lagt var hald á myndbandsupptökuvél og þrífót í eigu fóstur­föður ákærða, sem voru í her­bergi á efri hæð hússins og gráa hneppta peysu og önnur föt í eigu X, sem lágu á gólfi í hjónaherbergi á efri hæð.  Ákærði var handtekinn skömmu síðar þar sem hann var gestkomandi að [ . . . ] og færður heim til sín.  Þar heimilaði hann lög­reglu leit í herbergi sínu.  Við leitina fundust meðal annars ruslafata með bláleitum kodda í, blátt handklæði, vaselíndós og myndbandsspólur, sem lagt var hald á í þágu máls­rannsóknar.  Áður hafði ákærði vísað lögreglumönnum á Sanyo video 8 mynd­bands­spólu fyrir upp­tökuvél, sem einnig var haldlögð.

S var yfirheyrður kl. 23:27 að kvöldi sama dags vegna gruns um aðild að ætluðu kynferðisbroti.  Viðstaddur skýrslugjöfina var fósturfaðir hans, E.  S greindi frá því að hann hefði verið að spila tölvu­leik inni í her­bergi sínu á efri hæð hússins um kl. 23 kvöldið áður er hann hefði heyrt einhver læti í ákærða og X fyrir utan herbergið.  Þau hefðu öskrað á hvort annað, síðan hefði hurð verið skellt og rétt á eftir hefði X komið inn í herbergið til hans.  Hann hefði litið upp og séð hana öskra.  Ákærði hefði komið inn strax á eftir henni, sagt eitthvað á þá leið hvað væri að henni og því næst hefði hann „rykkt“ henni út úr herberginu, með því að taka í hönd hennar og toga hana fram á gang.  Að sögn S hefði X öskrað þegar ákærði hefði rykkt í hana og sagði aðspurður að þau öskur hefðu verið bæði hræðslu- og reiði­öskur.  Hann hefði síðan haldið áfram í tölvuleiknum og ekki heyrt meira í ákærða og X.  Seinna, eða um kl. 00:30, hefði hann farið niður í eldhús og þá séð þau sitjandi í stofu.  Hann hefði ekki rætt sérstaklega við ákærða, en sagt honum að systur þeirra hefðu ekki vaknað.  Því næst hefði hann farið aftur upp í her­bergi sitt.  S kvaðst ekki hafa vitað til þess að ákærði hefði haft nokkuð slæmt í hyggju gagnvart X.

S gaf skýrslu vitnis fyrir dómi.  Hann kvaðst muna lítið eftir máls­atvikum 5. mars 2000, en skýrði frá því að hann hefði greint sinn verið í tölvuleik í herbergi sínu á efri hæð hússins er hann hefði heyrt ákærða og X rífast fyrir utan herbergi hans.  Hurðinni að herberginu hefði verið hallað að stöfum og hefði hann ekki skipt sér af rifrildinu.  X hefði síðan komið inn í dyragættina eitt augnablik, án þess að koma inn og verið að tala við ákærða, sem hefði verið fyrir utan og ekki komið í gættina.  S kvaðst hafa litið upp sem snöggvast, en því næst hefði X horfið úr gættinni.  Skömmu seinna hefði hann heyrt að þau hefðu farið niður á neðri hæð hússins og hefði hann þá farið fram og gáð hvort systur hans hefðu nokkuð vaknað við lætin.  Því næst hefði hann haldið áfram í viðkomandi tölvuleik.  Seinna hefði hann svo farið niður í eldhús til að fá sér að drekka og hefði hann þá séð ákærða og X vera að reykja við borð­stofu­borð.  S var fyrir dómi kynntur sá framburður hans hjá lögreglu 6. mars 2000 að hann hefði heyrt ákærða og X öskra á hvort annað fyrir utan herbergi hans og staðfesti hann þann framburð.  Því næst var honum kynntur sá fram­burður hans hjá lögreglu að X hefði komið öskrandi inn í herbergi hans og ákærði fylgt henni strax á eftir og í framhaldi af því rykkt henni út úr her­berginu.  S bar að hann myndi ekki eftir að ákærði hefði komið inn í her­bergið til hans, en sagði engu að síður að ákærði hefði örugglega rykkt henni út úr her­berginu, eins og hann hefði greint frá í lög­­reglu­skýrslunni, sem hann kvað vera efnis­lega rétta.   

Við könnun lögreglu á haldlögðum munum 7. mars kom í ljós að áður­nefnd Sanyo video 8 myndbandsspóla hafði að geyma upptöku af kynferðis­mökum ákærða og X, sem lögregla taldi samsvara lýsingu hennar á atburða­rás í áður­greindri kæruskýrslu.  Hið haldlagða handklæði og ruslafata voru sama dag send rann­sóknastofu í réttarlæknisfræði og þess óskað að Gunnlaugur Geirs­son prófessor í réttar­­læknisfræði myndi kanna hvort í þeim finndist sæði.  Samkvæmt álits­gerð prófessorsins dagsettri 14. mars 2000, sem hann stað­festi fyrir dómi, svöruðu blettir úr handklæðinu og blettir á bláum kodda úr rusla­fötunni til þess að um sæði væri að ræða.  Sæðis­frumur hefðu greinst við smá­sjár­skoðun og væri ekkert því til fyrir­­stöðu að staðreyna frá hverjum sæðið stafaði, ef efni þættu til.

Gunnlaugur Sigurjónsson heilsugæslulæknir í [ . . . ] var kvaddur í fanga­geymslu lög­reglunnar í [ . . . ] um miðjan dag 7. mars til að líta á áverka í andliti ákærða.  Sam­kvæmt áverka­vottorði dagsettu 15. mars 2000, sem læknirinn staðfesti fyrir dómi, var ákærði með þrjár rispur í andliti, á hægri vanga.  Sú fyrsta hefði verið rétt aftan og neðan við eyra, um 1 sm. að lengd, með stefnu niður og aðeins fram á við.  Önnur hefði verið um 2 sm. framar, í sömu stefnu, með upphaf nokkru fyrir framan eyra, um 4 sm. löng og náð niður á vanga.  Sú þriðja hefði verið þrískipt; byrjað rétt ofan við hægra auga, á efra augnloki og náð niður fyrir og utan við augað, um 2 sm. að lengd.  Síðan hefði verið heil húð, en rispan byrjað aftur um 5 mm. aftar, í hæð við neðri enda efsta hlutans og náð um 1 sm. beint niður.  Síðan hefði aftur komið heil húð á um 5 mm. kafla, en rispan byrjað svo aftur og hún legið beint niður um 5 sm. á lengd.  Rispurnar hefðu verið tæplega 0,5 sm. á breidd.  Gunnlaugur kvað útlit rispanna samrýmast því að þrír fingur hefðu verið dregnir niður eftir andliti ákærða og neglur klórað upp húð.

Ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins 7. mars kl. 19:40 að viðstöddum Andra Árnasyni, tilnefndum verjanda.  Ákærði kvað rangt að hann hefði sett X einhver fyrirmæli varðandi útivistartíma meðan á sambúð þeirra stóð.  Hann kannaðist við að upp úr sambúðinni hefði slitnað í kjölfar rifrildis gegnum síma aðfaranótt sunnudagsins 30. janúar 2000.  Einnig kannaðist hann við að hafa hitt hana á heimili móður hennar að kvöldi sunnudagsins og aftur í vikunni á eftir, en þá hefði hún viljað nálgast eigur sínar.  Á miðvikudeginum hefðu þau meðal annars farið saman í ökuferð til Reykja­víkur.  Þá hefðu þau hist fyrir til­viljun á veitingastað að kvöldi fimmtudagsins, en sökum ölvunar myndi hann ekki hvað hann hefði sagt við hana.  Hann kvaðst ekki kannast við að hafa hótað henni um nóttina.  Næst hefði hann hitt hana föstudaginn 4. febrúar, fyrir utan blómabúð í [ . . . ], en þar hefði hann verið staddur í bifreið sinni [ . . . ].  Hún hefði ekki sest inn í bifreiðina og hefðu þau ekki sést meira þann dag.  Daginn eftir hefði hún komið á heimili hans til að nálgast eigur sínar, sem vera áttu í bifreiðinni, en hann hefði ekki verið heima.  Kvöldið eftir hefðu þau hist og farið með eigurnar heim til móður hennar að [ . . . ].  Þar hefðu þau haft samfarir tvívegis.  Að sögn ákærða hefðu þau haldið áfram símasambandi eftir það og meðal annars rætt þá hugmynd hans að hún myndi aðstoða hann við að gæta yngri systkina hans í byrjun mars á meðan foreldrar hans væru erlendis.  Hún hefði síðan komið heim til hans eftir miðjan febrúar, föstudaginn 18. að því er hann minnti, og samþykkt að hjálpa honum að gæta barnanna.  Við það tæki­færi hefðu þau haft samfarir.  Næst hefði hún komið heim til hans 1. mars í tengslum við barnapössunina.  Allt hefði gengið vel fram á laugardagskvöld er komið hefði til rifrildis milli hennar og ákærða og bróður hans.  Hún hefði síðan farið í heim­sókn til systur sinnar, en komið aftur um kl. 01:30 aðfaranótt sunnudagsins 5. mars og hefðu þau þá haft samfarir í herbergi hans.  Um kl. 20 að kvöldi sunnudagsins hefði hann síðan verið að sýsla með myndbandsupptökuvél inni í herbergi sínu, með það í huga að fá X inn í herbergi til sín seinna um kvöldið og taka sam­farir við hana upp á myndband, án hennar vitundar.  Hann hefði síðan farið á rúntinn og komið heim um kl. 21.  S vinkona X hefði verið í heim­sókn.  Eftir að hún var farin hefði komið til rifrildis milli hans og X,  um kl. 21 eða 21:30.  Hann hefði kallað hana heimska og hún svarað í sömu mynt og hefði hann þá eitthvað tekið í hana og beðið hana að haga sér almennilega.  Þess í stað hefði hún klórað hann til blóðs á hægri vanga.  Því næst hefði hún hlaupið upp stiga upp á efri hæð hússins og hann á eftir.  Þar hefði hann tuskað hana aðeins til í sjón­varps­holi fyrir framan svefnherbergi, en í framhaldi af því hefði hún hlaupið inn í her­bergi til yngri systkina hans og þaðan inn í herbergi til S bróður hans.  Þar hefði ákærði rifið í hár hennar þegar hann hefði tekið hana út úr herberginu.  Honum hefði síðan tekist að róa hana niður frammi í sjónvarpsholi og eftir nokkra stund hefðu þau farið saman niður stigann, sest inn í stofu og fengið sér sígarettu.  Hún hefði síðan beðið hann afsökunar á klórinu og eftir það hefði allt fallið í ljúfa löð milli þeirra.  Í fram­haldi af því hefði hann spurt hana hvort hún væri reiðubúin til samfara og hefði hún svarað því með orðunum „allt í lagi“.  Þau hefðu síðan farið inn í herbergi hans og hún þá séð mynd­bands­upptökuvélina inni í skáp.  Hann hefði þá tekið hana fram og sagt henni að hann ætlaði að taka upp.  Hún hefði ekki hreyft athugasemdum við því.  [ . . . ]  Hann hefði slökkt á upptökunni strax eftir síðara sáðlátið og þau klætt sig og farið fram í stofu til að fá sér sígarettu.  Klukkan hefði þá verið um 01.  S hefði komið niður í eld­­hús og fengið sér að drekka, en því næst hefði hann farið aftur upp, án þess að þeir ættu orðastað.  Eftir samræður í stofunni hefði hann farið með upp­töku­vélina og gengið frá henni í her­bergi á efri hæð, en þá hefði X verið orðin eitthvað fúl þar sem hún hefði gengið til náða í herbergi foreldra hans, án þess að bjóða honum góða nótt.  Hann hefði sofið einn í sínu herbergi og vaknað um kl. 04:30 um nóttina og farið til vinnu sinnar í [ . . . ].

Ákærði var yfirheyrður öðru sinni af lögreglu 12. apríl síðastliðinn og aftur 4. maí.  Þá voru í þágu rannsóknar málsins teknar vitnaskýrslur af [ . . . ].

Framangreind vitni komu öll fyrir dóm vegna málsins að Y frá­taldri, en hún lést sviplega á heimili sínu í [ . . . ] aðfaranótt laugar­dagsins 15. apríl 2000.  Eins og áður segir hafði Y áður gefið skýrslu vitnis hjá lög­­reglu.  Hún skýrði þá meðal annars frá því að X, sem væri besta vinkona hennar, hefði greint henni frá því að hún hefði hitt ákærða við bifreið hans einhvers staðar í [ . . . ] eftir að upp úr sambúð þeirra hefði slitnað.  Þar hefði hún gert ákærða enn og aftur ljóst að allt væri búið á milli þeirra og hefði hann þá brjálast og sagt við hana að „totta hann á sér“ og að ef hún myndi ekki gera það þá myndi hann drepa hana.  Y kvaðst ekki muna hvaða dag þetta hefði verið, en sagði það hafa verið annað hvort í lok janúar eða byrjun febrúar 2000.  X hefði ekki tjáð sig meira um þetta atvik.  Að sögn Y hefði hún síðan frétt af því sem gerst hefði á heimili ákærða sunnudaginn 5. mars 2000 er F hefði hringt til hennar að morgni 6. mars og skýrt henni frá því.

Sveinbjörn Halldórsson rannsóknarlögreglumaður í [ . . . ] tók framan­greinda skýrslu af Y heitinni.  Sveinbjörn bar fyrir dómi að stúlkan hefði greint frá málsatvikum á þann veg sem lýst væri í skýrslunni og hann skráð vitnisburð hennar niður.  Sveinbjörn kvaðst ekki kunna skýringu á því af hverju frásögn hennar af atburðinum 5. mars hefði ekki verið ítarlegri.   

III.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa þegið munnmök frá X í bifreið sinni við fiskitrönur í [ . . . ] föstudaginn 4. febrúar 2000, en kvaðst ekki hafa þröngvað henni til kyn­ferðis­makanna.  Hann lýsti því síðan hvernig samband þeirra hefði kulnað og hann misst virðingu fyrir henni eftir um það bil eins árs sambúð.  Kynlíf þeirra í milli hefði lengi einkennst af því að hann hefði farið fram á kynferðislegt samneyti við hana og hún oft ekki samþykkt slíkt beint, heldur látið undan fyrir fortölur hans.  Þannig hefði hann yfirleitt fengið hana til við sig.  Ákærði kvaðst hafa þekkt veikleika hennar og oft hafa notfært sér þá.  Hann hefði vitað að hún hefði ekki kjark í sér til að neita honum um kynferðislega greiða, þótt hún væri ekki sátt við samfarir þeirra eða önnur kyn­ferðis­mök.  Þannig hefði því líklega verið farið föstudaginn 4. febrúar.  Þann dag hefðu þau hist og ekið um [ . . . ] í bifreið hans í eina til tvær klukkustundir.  Á meðan hefðu þau rætt saman.  Hann hefði síðan ekið áleiðis til [ . . . ] og stöðvað bifreiðina við fiskitrönur utan við þorpið.  Þar hefði hann skyndilega spurt hana hvort hún vildi hafa við hann kynferðismök.  Hún hefði síðan látið að vilja hans, eins og svo oft áður.  Ákærði kvaðst ekki muna að öðru leyti hvað þeim hefði farið á milli í bifreiðinni áður en komið hefði til munn­makanna, en að lokinni fullnægingu hefði hann þurft að flýta sér til vinnu og því ekki getað ekið henni heim.  Hann hefði því ekið til [ . . . ], skilið hana eftir við sýsluskrifstofuna og sagt henni að hann myndi hitta hana aftur um kvöldið og koma henni heim.

Ákærði hélt fast við fyrri framburð sinn um að hann hefði haft samræði við X á heimili móður hennar tveimur dögum síðar. Eftir það hefðu þau haft samræði að minnsta kosti tvisvar; í seinna skiptið 3. eða 4. mars.  Aðdragandinn hefði ávallt verið hinn sami, þ.e. hann hefði farið fram á kynlíf og hún látið undan.

Ákærði kvað rétt samkvæmt ákæru að hann hefði haft samræði við X sunnudaginn 5. mars 2000.  Hann kvað það hafa gerst að undangengnum „galsa­fengnum átökum“ þeirra í milli, en mótmælti því að samræðið hefði verið gegn hennar vilja.  Hann lýsti því síðan hvernig honum og X hefði sinnast, fljót­­lega eftir að S hefði farið heim.  Þau hefðu síðan rifist og hún klórað hann í andlitið.  Hann hefði reiðst og henni verið brugðið.  Skömmu síðar hefði hún róast og hefðu þau sest inn í stofu og fengið sér sígarettu.  Hann hefði síðan farið inn á baðherbergi, séð áverka í andliti sínu og ekki verið beint sáttur.  Nokkru áður hefði hann verið búinn að ákveða, vegna þess hve auðvelt hefði verið að fá hana til lags við sig, að taka samræði milli þeirra upp á mynd­band.  Hann hefði svo rætt þetta við hana og hún fallist á myndbandsupptökuna.  Skömmu áður hefði hann komið myndbandsupptökuvél fyrir í herbergi sínu á neðri hæð hússins.  Þegar þau hefðu síðan gengið inn í herbergið hefði hún fengið bakþanka. Hann hefði þá sagt henni að upptakan væri bara fyrir sig.  Ákærði vísaði síðan til þess er fram kæmi á mynd­­bandi því, sem lögregla hefði hald­lagt undir rannsókn málsins.

Nánar aðspurður um áverka í andliti sínu greindi ákærði frá því að hann hefði gripið í hendur X og þá hefði hún klórað hann í framan.  Í framhaldi af því hefði hún hlaupið upp á efri hæð hússins og hann fylgt henni eftir.  Þar hefði hún hlaupið inn í herbergi til systra hans og lokað á eftir sér.  Hann hefði síðan opnað dyrnar, gripið í hana og dregið hana fram, enda hefði hún verið með hróp og köll þar inni og hann óttast að hún myndi vekja telpurnar.  X hefði síðan hlaupið inn í herbergi til bróður hans, S, og þá verið orðin hálfmóðursjúk.  Ákærði kvaðst hafa farið inn í herbergið á eftir henni og sagt henni að koma með sér út.  Hún hefði síðan fylgt honum fram sjálfviljug.  Þar hefði hann „tuskað hana aðeins til“.  Á þeirri stundu hefði hann vitað að hún hefði verið að flýja undan honum og að hún hefði verið „skjálfandi hrædd“. Hann hefði því reynt að róa hana og sagt að hann hyggðist ekki gera henni mein.  Hún hefði þó áfram virst vera hrædd og hrasað í stiganum á leiðinni niður.  Ákærði kvað mögu­legt að hann hefði þá gripið í peysu hennar, en það hefði hann þá gert til að reyna að koma í veg fyrir að hún rynni niður stigann.  Hann kvaðst ekki hafa rifið í hár hennar.  Hann hefði síðan farið inn á bað­her­bergi og séð áverkana í andliti sínu og þá orðið reiðari en áður.  Í framhaldi af því hefði hann farið inn í herbergi sitt og þaðan inn í stofu, þar sem tekið hefði allt að eina til eina og hálfa klukkustund að róa hana niður og fá hana með for­tölum til kynferðis­maka.  Hún hefði síðan gengið sjálf­viljug til kynferðismaka inni í herbergi hans, þótt hún hefði aldrei sagt já við þeim eða samþykkt þau öðruvísi berum orðum.  Eftir það hefði hann ekki beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi.  Nánar aðspurður af verjanda um það hvort eitthvað í hans fari hefði gefið til kynna að hún gæti skilið það svo að hann myndi beita hana líkamlegu ofbeldi ef hún tæki ekki þátt í kynferðis­mökunum kvaðst ákærði eiginlega ekki vita það og sagði svo orðrétt: „Allavegana ekki, ekki skildist mér það, eða þú veist, ég allavegana var ekkert, ekkert endilega að spá í það sko“.  

Ákærði kvaðst hafa fjölfaldað umrætt mynd­band í fjórum til fimm eintökum daginn eftir, en hann hefði síðar hent spólunum án þess að sýna þau nokkrum manni.  Aðspurður kvaðst hann hins vegar hafa, að eigin frum­kvæði, greint félögum sínum og öðrum frá því að hann hefði „nauðgað stúlku“ og tekið allt upp á myndband.  Að sínu viti hefði hann þó ekki litið á þetta sem nauðgun og bætti því við að hann hefði í gegnum árin notað það hugtak í frjáls­legri merkingu um samræði.  Jafnframt kvað hann vitnin M, Jóhann S og S gera of mikið úr frásögn hans af ætlaðri „nauðgun“.

X bar fyrir dómi að hún hefði hitt ákærða fyrir utan heimili hans föstudaginn 4. febrúar 2000, en þangað hefði hún farið í þeim tilgangi að sækja eigur sínar, sem verið hefðu í bifreið ákærða.  Hann hefði verið á útleið og hún sest inn í bifreið hans og ekið með honum „nokkra rúnta“ um [ . . . ]. Þaðan hefði ákærði ekið áleiðis til [ . . . ], uns hann hefði stöðvað bifreiðina við fiskitrönur fyrir utan þorpið.  Um leið hefði hún orðið rosalega hrædd og strax gert sér grein fyrir að eitthvað myndi gerast.  Ákærði hefði síðan skipað henni að sjúga á honum getnaðar­­liminn.  Hún hefði neitað og hann þá rifið í hár hennar, tekið buxur sínar aðeins niður og þrýst höfði hennar mjög fast niður á liminn, þannig að hún hefði verið að kúgast.  Þannig hefði þetta ekki gerst áður.  Hann hefði umrætt sinn ekki beðið hana um að sjúga liminn, heldur skipað henni að gera það og þröngvað henni til þess.  Á greindum tíma hefðu þau verið hætt saman og hefði hún verið því „Guðsfegin“.  X staðfesti frásögn sína hjá lögreglu um að ákærði hefði hótað henni og sagt að hún skyldi sjúga lim hans „með góðu eða illu“. Grátandi hefði hún látið að vilja hans, en honum hefði staðið á sama.  Ákærða hefði síðan orðið sáð­lát í munn hennar og hún opnað dyrnar sín megin og spýtt sæðinu út.  Hann hefði síðan sagst vera orðinn of seinn til vinnu og því hent henni út úr bifreiðinni, í grenjandi rigningu, fyrir utan sýslu­skrifstofuna í [ . . . ].  Hún hefði síðan hringt í bestu vinkonu sína, Y, sem komið hefði að sækja hana.  Hún hefði greint Y strax frá atvikinu, en ekki þorað að leggja fram kæru, enda verið „drulluhrædd“ við ákærða.  Hún kvaðst ekki hafa greint öðrum en Y frá þessu fyrr en eftir atvikið 5. mars 2000.

X þvertók fyrir að hafa átt kynferðislegt samneyti við ákærða frá þeim tíma er þetta hefði gerst og þar til hann hefði þröngvað henni til kyn­ferðis­maka á heimili sínu að kvöldi sunnudagsins 5. mars.  Vinkona hennar S hefði þá komið í heimsókn, en farið heim um kl. 23 og hún þá ætlað upp í herbergi að sofa.  Ákærði hefði kallað í hana og spurt hvort hún vildi ekki fá sér eina sígarettu með honum.  Hún hefði fallist á það og þau sest inn í stofu á neðri hæð hússins.  Ákærði hefði síðan sagt við hana, alvarlegur á svip, að hann þyrfti að segja henni svo­lítið, sem væri ekki fyndið og hún mætti ekki grípa fram í fyrir honum á meðan.  Því næst hefði hann greint frá því að hann hyggði á „hefnd“, sem hann væri búinn að hugsa mikið um og skyldi framkvæmd þá um kvöldið, með góðu eða illu.  Hefndin væri af kynferðislegum toga.  Hann hefði síðan spurt hvort hún ætlaði ekki að þýðast hann, en hún hefði svarað því neitandi og verið stjörf af ótta.  Hann hefði í framhaldi af því ætlað að grípa til hennar, en hún sprottið á fætur og hefði síðan hafist smá eltingarleikur um stofuna, sem endað hefði með því að hún hefði hlaupið upp á efri hæð hússins.  Þar hefði hún hlaupið grátandi inn í svefnherbergi yngri systkina ákærða og öskrað rosalega hátt.  Ákærði hefði síðan þrifið í hár hennar og kýlt hana og hún hlaupið út og inn í her­bergi til S, bróður hans.  S hefði litið á hana, en ekkert gert og ákærði því næst komið inn, náð taki á peysu hennar og dregið hana út með valdi.  Þar hefði hún runnið niður stiga á bakinu og ákærði tekið hana hálstaki fyrir neðan stigann.  Hún hefði klórað hann í framan og ákærði kýlt hana í andlitið og hún þá misst af sér gleraugun.  Því næst hefði hann hert mjög að hálsi hennar og dregið hana nauðuga inn í herbergi sitt.  Þar hefði hann sleppt takinu og hún séð myndbandsupptökuvélina þar inni fyrsta sinni og fengið „algjört sjokk“.  Hún hefði spurt hvað hann ætlaðist fyrir með vélina og hann sagt að þá hefði hann eitthvað á hana.  Jafn­framt hefði hann ítrekað að „þetta“ yrði gert með góðu eða illu.  [ . . . ] X lýsti því síðan með sama hætti og hjá lögreglu hvernig hún hefði fengið leyfi ákærða til að þurrka sjálfri sér og klæðast á ný og því næst orðið að reykja sígarettu með honum, áður en hún hefði fengið leyfi til að ganga til náða í hjónaherbergi á efri hæð hússins, um kl. 00:30 til 01 að því er hún taldi fyrir dómi.

F bar fyrir dómi að X hefði hringt til Y föstu­daginn 4. febrúar, en Y hefði þá verið stödd á vinnustað vitnisins að [ . . . ].  X hefði sagst vera stödd fyrir utan sýslu­­skrifstofuna í [ . . . ]og hefði Y náð í hana þangað og komið með hana á vinnustaðinn.  Þar hefði X greint frá því að ákærði hefði farið með hana út í [ . . . ] og þröngvað henni til munnmaka, en í framhaldi af því hefði hann hent henni út úr bifreið sinni fyrir utan sýsluskrifstofuna.  X hefði liðið hræðilega illa og verið svo hrædd að hún hefði ekki þorað að gera neitt í málinu.  F stað­festi fyrir dómi þau ummæli sín úr lögregluskýrslu 8. mars 2000 að X hefði umrætt sinn greint frá hótun ákærða þess efnis „að ef hún myndi ekki fara niður og „totta hann á honum“ þá myndi hann drepa hana.“ 

F bar enn fremur að hún hefði hringt til X að morgni mánu­dagsins 6. mars og beðið hana að sækja sig út í [ . . . ] þar sem hún hefði verið stödd hjá kærasta sínum.  Er þær hittust hefði X greint frá því að ákærði hefði nauðgað henni.  Þær hefðu síðan farið ásamt Y á lög­reglu­stöðina í [ . . . ] þar sem Víkingur Sveinsson lögreglumaður hefði tekið á móti þeim.

I vann á greindum tíma með ákærða í hlaðdeild [ . . . ].  Hann bar fyrir dómi að hann hefði þekkt ákærða ágætlega gegnum vinnuna og hefðu þeir rætt mikið um „enska boltann“ og einnig um kynlífs­athafnir.  Ákærði hefði meðal annars greint honum frá kynlífi sínu og X og sagst ætla að nauðga henni á heimili sínu og taka það upp á myndband.  I kvaðst vera fullviss um að ákærði hefði rætt þetta við hann fyrir 5. mars síðastliðinn; líklega skömmu eftir að upp úr sambúð hans og X hefði slitnað.  Að sögn ákærða hefði hann ætlað að hrinda þessu í fram­kvæmd tiltekna helgi þegar foreldrar hans myndu verða erlendis.  I bar enn fremur að ákærði hefði einn daginn mætt til vinnu klóraður í andliti og sagt að X hefði klórað hann þegar hann hefði verið að reyna að nauðga henni.  Ákærði hefði síðan ekki sést næstu einn eða tvo daga á eftir.  I hefði þá gert sér grein fyrir hvað hefði gerst.  Fyrir dómi staðfesti I áður gefinn vitnisburð á rannsóknarstigi málsins um að ákærði hefði greint frá því að áður en hann hefði nauðgað X hefði hann tuskað hana til, dregið hana á hárinu niður stiga og barið hana.  Þá hefði ákærði síðar greint frá því að hann og X hefðu líf­tryggt sig og hefði hann haft í flimtingum að myrða hana og fá greidda líftrygginga­fjár­hæðina.  Einnig hefði hann rætt um að drepa vin­konu X, sem byggi við [ . . . ], til að komast að X, þar sem vinkonan væri alltaf með henni.  Hefði ákærði talað um að þetta yrði að gerast fljótlega.

G vann á greindum tíma með ákærða í hlaðdeild Flugleiða.  Hann bar fyrir dómi að ákærði hefði verið frá vinnu mánudaginn 6. mars, en síðan hefði hann mætt næsta dag á eftir og þá verið klóraður í andliti.  Aðspurður hefði hann sagst hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni, sem hefði verið að passa fyrir móður hans og tekið það upp á myndband.  Hún hefði þó verið reiðubúin til kynmaka í fyrstu en síðan snúist hugur og viljað hætta, en ákærði haldið áfram engu að síður. G bar einnig um það að ákærði hefði í nokkur skipti, upp úr mánaðamótum febrúar-mars, haft í flimtingum að drepa X, en hann hefði sagst vera búinn að líf­tryggja hana fyrir átta milljónir króna.

Á er kunningi ákærða og fyrrverandi samstarfsmaður.  Hann bar fyrir dómi að ákærði hefði hringt til hans miðvikudaginn 8. mars og greint frá því að hann hefði nauðgað X á heimili sínu og tekið það upp á mynd­band.  Ákærði hefði sagt að hann hefði ekki verið sérlega harðhentur við hana, en sam­ræðið hefði þó ekki verið með hennar vilja.  Þá hefði ákærði í sama símtali greint frá eldra atviki við fiskitrönur í [ . . . ], en hefði ekki kallað það nauðgun, heldur hefði hún þá „tottað hann á honum“.  [ . . . ] Tveimur dögum eftir umrætt atvik hefðu þau síðan haft tví­vegis sam­farir á heimili hennar á [ . . . ].  Á var fyrir dómi kynntur vitnisburður hans hjá lögreglu 17. apríl 2000 um að ákærði hefði í nefndu símtali kannast við að hafa „nauðgað“ X tvisvar.  Samkvæmt skýrslunni hefði ákærði tjáð vitninu að í fyrra skiptið hefði hann þröngvað henni til munn­maka í bifreið sinni við fiskitrönur, annað hvort 4. eða 6. febrúar 2000 og í seinna skiptið hefði hann nauðgað henni á heimili sínu að [ . . . ] og tekið það upp á myndband.  Ákærði hefði og samkvæmt skýrslunni greint frá því að hann hefði ekki neinar áhyggjur þótt myndbandsupptakan hefði komist í hendur lögreglu þar sem það kæmi ekki fram á myndbandinu að um grófa nauðgun væri að ræða og það yrði ekki í samræmi við þá lýsingu sem X gæfi við yfirheyrslu.  Á staðfesti síðan fyrir dómi að ákærði hefði tekið svo til orða og hefði lögregla haft rétt eftir sér við nefnda skýrslu­gjöf.                  

M, J og S voru á greindum tíma málkunnugir ákærða.  Þeir báru fyrir dómi að þeir hefðu verið staddir á heimili J og S að kvöldi sunnudagsins 12. mars 2000 er ákærði hefði komið í heimsókn, klóraður á vanga og greint frá því að hann hefði nauðgað einhverri stúlku og tekið það upp á myndband. 

M kvað ákærða hafa montað sig af þessum verknaði og hefði hann lýst hluta atburðarásarinnar í smáatriðum.  Sumt af því hefði verið frekar ógeðslegt.  Fram hefði komið að ákærði hefði dregið stúlkuna á hárinu út úr herbergi bróður síns og að hún hefði einhvern veginn dottið í stiganum heima hjá honum.  Einnig hefði hann slegið hana og tekið hana hálstaki og þannig lokað fyrir öndunarveg hennar.  Í fram­haldi af því hefði hann sagt henni að „totta sig“.  M bar einnig að hann hefði spurt ákærða hvort ekki sæist á myndbandinu að um nauðgun væri að ræða.  Ákærði hefði svarað því til að það sæist ekki svo mikið á mynd­bandinu; aðeins það að hún væri að gráta.  M kvaðst hafa farið á lög­reglu­stöðina í [ . . . ] strax daginn eftir og gefið skýrslu vegna málsins. 

J bar um það að ákærði hefði sagst hafa tuskað stúlkuna til og dregið hana á hárinu áður en hann hefði nauðgað henni.  Ákærði hefði hlegið að þessu framferði sínu í garð stúlkunnar og einnig hlegið að því að hún hefði eitthvað verið að væla á meðan á verknaðinum hefði staðið. 

S bar fyrir dómi að ákærði hefði greint frá því að stúlkan hefði klórað hann og náð að hlaupa upp stiga á efri hæð hússins og þar inn í herbergi bróður hans, sem hefði látið þetta afskipta­laust.  Ákærði hefði dregið hana þaðan út og nánast hrint henni niður stigann aftur.

S bar fyrir dómi að hún hefði hitt ákærða í starfsmanna­samkvæmi hjá hlaðdeild Flugleiða 1. apríl 2000.  Þar hefði hann viðurkennt fyrir henni að hafa nauðgað X, en sagði það hafa verið and­lega nauðgun, eða þannig að hún hefði samþykkt það á endanum.  Ákærði hefði sagst eiga fleiri ein­tök af myndbandi með nauðguninni og boðið henni að horfa á slíkt myndband.  Jafnframt hefði hann sagt að það væri ekki eins slæmt og af væri látið.  S kvað ákærða einnig hafa sagt í samkvæminu að hann ætti eftir að gera eitthvað verra af sér.  Þegar hún hefði innt hann nánar út í þau orð hefði hann sagt: „Bíddu bara, þú átt ekki von á góðu“.

Ó, sambýlismaður S, vann á greindum tíma með ákærða í hlaðdeild Flug­leiða.  Hann bar fyrir dómi að hann hefði rætt við ákærða í starfs­manna­samkvæminu 1. apríl og ákærði greint frá því að hann hefði nauðgað X og tekið það upp á myndband.  Orðrétt hefði ákærði sagt: „Þetta var ekki neitun.  Þetta var andleg nauðgun“.  Hann hefði síðan sagst eiga eintak af mynd­bandinu og boðið vitninu og nokkrum öðrum að fara með sér heim til að horfa á það.  

G er fyrrverandi vinnufélagi ákærða.  Hann bar fyrir dómi að ákærði hefði átt það til að hringja í hann og þá oft rætt almennt um munn­mök, endaþarmsmök og nauðganir.  Einhverju sinni hefði hann sagt frá því að hann hefði nauðgað fyrrverandi kærustu sinni, X, á heimili sínu og tekið það upp á myndband.  Ákærði hefði greint nánar frá atburðinum og rætt um munnmök í því sambandi og eitthvað fleira, sem vitnið hefði ekki nennt að leggja á minnið.

D er fyrrverandi vinnufélagi ákærða.  Hann bar fyrir dómi að hann hefði verið að vinna sem dyra­vörður á veitingastaðnum [ . . . ] aðfara­nótt laugardagsins 15. apríl 2000 er ákærði hefði komið til hans og greint frá því að fyrra bragði að hann hefði nauðgað fyrrverandi kærustu sinni og tekið það upp á mynd­band.  Eitthvert yfirvald hefði síðan komist yfir myndbandið og hefði ákærði sagt að hann væri líklega á leið í fangelsi vegna þessa.  

Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur bar fyrir dómi að hún hefði verið með X í sálfræðimeðferð fram til mánaðamóta maí-júní 2000 og átt við hana sex viðtöl.  Ragnheiður staðfesti fyrir dómi álitsgerð sína um stúlkuna, dagsetta 23. október 2000.  Þar segir meðal annars að líðan X hafi verið slæm í upphafi meðferðar.  Hún hafi þjáðst af kvíða og mikilli hræðslu, átt erfitt með svefn og fengið martraðarkennda drauma, tengda ætluðu kynferðisbroti.  Þá hafi hún fundið fyrir einbeitingarskorti og úthaldsleysi, sem komið hefði niður á námi hennar.  Einnig hafi hún fundið fyrir mikilli reiði og niðurlægingu og hefði sjálfsmynd hennar verið neikvæð.  Ragnheiður bar að augljóst hefði verið að umrædd háttsemi hefði haft djúpstæð áhrif á tilfinningalega og félagslega líðan stúlkunnar, sem væri ágætlega rök­­hugsandi einstaklingur, í góðum raunveruleikatengslum og í góðu sambandi við til­­finningar sínar. 

Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur bar fyrir dómi að hún hefði verið með X í sálfræðimeðferð frá því í september síðastliðnum. Guðbjörg Ragna staðfesti fyrir dómi álitsgerð sína um stúlkuna, dagsetta 23. október 2000.  Þar segir meðal annars að X hafi verið mjög örvæntingarfull í upp­hafi meðferðar og átt í alvarlegri tilvistarkreppu.  Hún hafi átt erfitt með svefn og vaknað flesta morgna með vonleysis­tilfinningu og þurft að beita sig hörðu til að fara á fætur á morgnana og í skóla.  Hún hafi átt mjög erfitt með einbeitingu og verið að gefast upp í námi.  Viðtalsmeðferð hafi meðal annars miðað að því að stúlkan skoðaði samskipti sín við meintan brotamann og óttann sem hún hefði lifað í á meðan þau voru par.  Einnig hvernig andlát bestu vinkonu hennar hafi breytt lífi hennar.  Guð­laug Ragna bar að stúlkan væri búin að mæta í tólf viðtöl.  Hún ætti þó enn langt í land með að ná sér og hefði mikla þörf fyrir áframhaldandi sálfræðimeðferð.

Gísli Torfason námsferilsstjóri í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og umsjónar­kennari X bar fyrir dómi að námsframvinda stúlkunnar hefði verið þokkaleg fram að vorönn 2000, en síðan hefði hallað undan fæti.  Skóla­sókn hefði hrakað verulega og stefndi í það að henni myndi seinka um að minnsta kosti eitt ár í námi sínu á sjúkra­­liðabraut.  Fram kom hjá Gísla að hann hefði þekkt X persónulega frá hausti 1996 og bar hann að framkoma hennar hefði breyst veru­lega síðan mál þetta kom upp.  Áður hefði hún verið mátulega borubrött, skemmti­leg og mjög stríðin, en í dag minnti hún hann stundum á „kalda, blauta tusku“.   

IV.

Meðal framlagðra gagna í málinu er margumrædd myndbandsupptaka af kyn­ferðis­mökum milli ákærða og X.  Óumdeilt er að upp­takan fór fram inni í herbergi ákærða á heimili hans að [ . . . ] síðla kvölds sunnudaginn 5. mars 2000.  Dómendur hafa skoðað upptökuna, sem varir saman­lagt í tæpar 43 mínútur.  Samkvæmt myndbandinu voru gerð tvö hlé á upp­tökunni, annars vegar eftir 15:59 mínútna langt myndskeið og hins vegar þegar liðnar voru 18:09 mínútur af upptöku.  Í bakgrunni heyrist skvaldur, úr sjónvarpi, á erlendri tungu, sem mun vera úr kvikmyndinni „O Quatrilho“ eða Ást í spilunum, sem sýnd var á sjónvarpsstöðinni Sýn og mun samkvæmt dagskrá hafa átt að hefjast kl. 22:35 að kvöldi sunnudagsins.  Rannsókn fór ekki fram á því hvort sýning myndarinnar hefði hafist á tilgreindum tíma.  Um efni myndbandsins verður nánar fjallað í niður­stöðum dómsins hér á eftir.

V.

Ákærða og X ber saman um að slitnað hafi upp úr sambúð þeirra í kjölfar rifrildis aðfaranótt sunnudagsins 30. janúar síðastliðins og að hún hafi þá flutt heim til móður sinnar, að [ . . . ].  Þau höfðu þá búið saman í nær tvö ár á heimili foreldra ákærða að [ . . . ]. X mun síðan hafa reynt að nálgast eigur sínar í vikunni á eftir og meðal annars farið heim til ákærða í þeim tilgangi föstudaginn 4. febrúar.  Að hennar sögn mun ákærði hafa verið á útleið og hún því sest inn í bifreið hans, en þar hefðu eigur hennar verið geymdar.  Ákærði og X eru ein til frásagnar um hvað síðan gerðist.  Þeim ber saman um að ákærði hafi ekið um [ . . . ] einhverja stund og að þaðan hafi hann haldið bifreiðinni áleiðis til [ . . . ], uns hann hafi stöðvað hana við fiski­trönur fyrir utan þorpið og skyndilega farið fram á að X hefði við hann munn­­mök.  Óumdeilt er að ákærða varð sáðlát í munn hennar og að hún hafi skyrpt sæðinu út um dyr bifreiðarinnar. 

Samkvæmt vitnisburði X fyrir dómi hefði ákærði hótað henni og sagt: „Nú ferð þú niður og tottar hann á mér.  Þú skalt gera það hvort sem er með góðu eða illu“.  Hún hefði verið rosalega hrædd og neitað og hann þá rifið í hár hennar, tekið buxur sínar aðeins niður og þrýst höfði hennar fast niður á reistan getnaðarliminn, þannig að hún hefði verið að kúgast.  Grátandi hefði hún látið að vilja hans.  Fram kom í vitnis­burði hennar að hún hefði áður fullnægt honum á slíkan hátt, en aldrei þannig að hann hefði þröngvað henni til þess.  Þau hefðu verið hætt saman á greindum tíma og hefði hún verið því „Guðsfegin“ eins og hún orðaði það fyrir dómi. 

Ákærði greindi frá því fyrir dómi, að eftir að hann hefði stöðvað bifreiðina við fiskitrönurnar hefði hann skyndilega spurt X hvort hún væri reiðubúin að hafa við hann munnmök.  Eins og til skýringar kvað hann kynlíf þeirra í milli lengi hafa einkennst af því að hann hefði farið fram á kyn­ferðis­legt samneyti við hana og hún oft ekki samþykkt slíkt beint, heldur látið undan fyrir fortölur hans.  Þannig hefði hann yfirleitt fengið hana til við sig.  Ákærði hefði þekkt veikleika hennar og oft not­fært sér þá.  [ . . . ]  Hann hefði því ekki þröngvað henni til munn­makanna.

Ákærða og X ber saman um að eftir að honum varð sáðlát hafi hann sagst þurfa að flýta sér til vinnu og því hafi hann skilið við hana í [ . . . ], fyrir utan sýsluskrifstofuna.  Mun ákærði hafa lofað að hitta hana síðar og aka henni heim á [ . . . ].  X bar að ákærði hefði skilið við hana, hrædda, með tárin í augum, í grenjandi rigningu fyrir utan sýsluskrifstofuna.  Hún hefði því hringt til bestu vinkonu sinnar, Y, sem hefði sótt hana á staðinn.  Hún hefði greint Y frá atvikinu, en verið „drulluhrædd“ við ákærða og því ekki þorað að leggja fram kæru.  Samkvæmt vætti X hefði hún ekki greint öðrum en Y frá þessu fyrr en eftir að hún kærði ákærða fyrir ætlaða nauðgun á heimili hans sunnudaginn 5. mars síðastliðinn.

Við mat á trúverðugleika og þar með sönnunargildi framburðar ákærða og X fyrir dómi ber á það að líta, að við rannsókn málsins þrætti ákærði fyrir að X hefði sest inn í bifreið hans föstudaginn 4. febrúar.  Hann hvarf frá þeim framburði fyrir dómi og viðurkenndi að hún hefði haft við hann munnmök í bifreiðinni umræddan dag, eftir að hann hefði skyndilega stungið upp á því við fiski­trönur nálægt [ . . . ].  Þótt ekki sé loku skotið fyrir það að hún hafi látið undan fortölum hans, eins og svo oft áður, ber að hafa í huga að þau höfðu slitið sambandi sínu og stoðar ákærða því vart að bera fyrir sig hver hefði verið hinn almenni aðdragandi að kynlífi þeirra í milli á sambúðartímanum.  Þykja þau ummæli ákærða hér að framan bera vott um drottnun hans yfir X og lítilsvirðingu fyrir kynfrelsi hennar.  Hér skiptir einnig máli, að tilgangur með för X heim til ákærða umræddan dag var sá einn að nálgast eigur sínar hjá ákærða, en samkvæmt framburði þeirra beggja hafði hún fyrr reynt að nálgast eigurnar, án þess að ákærði léti þær af hendi.  Er með ólíkindum, í ljósi samskipta þeirra dagana á undan, að hún hefði haft í huga munnmök við ákærða við fiskitrönur á afviknum stað milli [ . . . ].  En fleira kemur til.  Vitnisburður X fyrir dómi samrýmist frá­sögn hennar við rannsókn málsins og er hann að áliti dómsins sannferðugur.  Þótt hún hafi ekki kært atvikið til lögreglu fyrr en rúmlega mánuði síðar greindi hún bestu vin­konu sinni, Y, frá því sama dag.  Lýsing Y á samtali vin­kvennanna við skýrslugjöf hjá lögreglu 7. mars síðastliðinn styður frásögn X, en af kunnum ástæðum gafst Y ekki tækifæri til að staðfesta vitnisburð sinn fyrir dómi.  Þá rennir vætti Á  stoðum undir frásögn X, en vitnið bar fyrir dómi að ákærði hefði greint sér frá því í símtali 8. mars síðastliðinn að hann hefði þröngvað X til að „totta hann á honum“ við fiski­trönur í [ . . . ] 4. eða 6. febrúar sama ár.  Samkvæmt vætti Á hefði ákærði verið mun hrifnari af munnmökum en sam­förum og viljað að stúlkur tækju lim hans „allan ofan í kok“ eins og hann hefði orðað það í áheyrn vitnisins.  Ákærði hefði sagt vitninu í nefndu símtali að X hefði gert það svoleiðis við hann við fiski­trönurnar.

Þegar framangreind atriði eru virt telur dómurinn eigi varhugavert að leggja til grund­vallar sannferðugan vitnisburð X fyrir dómi, enda fær hann stoð í lögregluskýrslu Y og vitnisburði Á og sam­rýmist að auki framburði ákærða fyrir dómi, allt fram til þess er ákærði fór skyndilega fram á að hún hefði við hann munnmök.  Breytir engu um þá niðurstöðu þótt X hafi farið heim til ákærða daginn eftir atburðinn, enda fór hún þangað, sem fyrr, til þess eins að nálgast eigur sínar, en þær hafði ákærði ekki látið af hendi daginn áður.  Þá hefur X gefið sínar skýringar á því af hverju hún fór til dvalar á heimili ákærða dagana 1.-6. mars, þrátt fyrir það sem á undan væri gengið.  Þótt slíkt kunni að virðast einkennilegt fyrir þá sem ekki þekkja til X gæti þar hafa ráðið hverflyndi hennar í samskiptum sínum við ákærða, fyrir og eftir atburðinn 4. febrúar 2000.     

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 46. gr., 47. gr. og 3. mgr., sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er að áliti dómenda sannað, að ákærði hafi greint sinn þröngvað X með ofbeldi til munnmaka.  Ber að refsa honum fyrir þá háttsemi samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

Ákærða er í sömu ákæru gefið að sök að hafa sunnudaginn 5. mars 2000, á heimili sínu að [ . . . ], þröngvað X með ofbeldi til sam­ræðis í endaþarm og leggöng og auk þess til munnmaka.

Ákærði játaði greiðlega við rannsókn og meðferð málsins að hafa greint sinn haft kyn­ferðis­mök við x, í herbergi sínu að [ . . . ], en hún hefði verið þeim samþykk og fallist á að hann tæki atburðinn upp á myndband.  Ákærði vísaði til þess er sæist á myndbandi því sem lögregla haldlagði á heimili hans 6. mars síðast­liðinn.  [ . . . ] Samrýmist efni myndbandsins að því leyti einnig vitnisburði X við rannsókn og meðferð málsins, en hún bar að ákærði hefði þröngvað henni til kynferðismakanna og tekið þau upp á myndband til að geta notað gegn henni síðar.

Fyrir dómi sagði ákærði að framangreind kynferðismök hefðu farið fram að undan­gengnum „galsafengnum átökum“ milli hans og X.  Fyrir kyn­ferðis­mökin hefði hann elt hana upp á efri hæð hússins og dregið hana öskrandi út úr svefnherbergi systra sinna og „tuskað hana aðeins til“ í sjónvarpsholi fyrir framan herbergi S bróður síns.  Kvaðst ákærði á þeirri stundu hafa vitað að X hefði verið að flýja undan honum og að hún væri „skjálfandi hrædd“.  Þau hefðu síðan farið niður í stofu og hann náð að róa hana niður á einni til einni og hálfri klukkustund áður en hann hefði fengið hana með fortölum til kyn­ferðis­maka.  Hún hefði síðan gengið sjálfviljug til kyn­ferðismakanna inni í her­bergi hans.  Áður hafði ákærði greint lögreglu frá því að hann hefði „tuskað hana aðeins til“ í sjónvarpsholinu og rifið í hár hennar inni í her­bergi bróður síns.  Einnig kom fram í skýrslu ákærða hjá lögreglu, að kynferðis­mökin hefðu staðið yfir í eina til eina og hálfa klukkustund og verið lokið um kl. 01.      

X bar við rannsókn og meðferð málsins að ákærði hefði tilkynnt henni, laust eftir kl. 23 umrætt kvöld, að hann hyggðist hefna sín á henni og að sú hefnd yrði af kynferðislegum toga.  Hún yrði framkvæmd þá um kvöldið, hvort heldur „með góðu eða illu“.  X lýsti því fyrir dómi hvernig hún hefði flúið undan ákærða, stjörf af ótta, upp á efri hæð hússins.  Þar hefði hann rifið í hár hennar og kýlt hana í andlitið inni í herbergi systra sinna, áður en hún hefði hlaupið inn í herbergi til S.  Þar hefði ákærði þrifið í peysu hennar og dregið hana fram á gang, þar sem hún hefði runnið á bakinu niður stigann.  Ákærði hefði því næst tekið hana háls­taki fyrir neðan stigann og dregið hana þannig rakleitt inn í herbergi sitt.  Þar hefði hún séð umrædda upptökuvél og fengið „algjört sjokk“.  Ákærði hefði síðan ítrekað að hann hyggðist hafa við hana kynferðismök „með góðu eða illu“. Á þeirri stundu hefði hún verið ofboðslega hrædd og hugsað með sér, að ef hún tæki ekki þátt í kyn­ferðis­mökum myndi hann gera eitthvað enn verra við hana.  X lýsti því einnig hvernig kynferðismökin hefðu farið fram og hvernig henni hefði liðið á meðan.  Hún kvaðst telja að klukkan hefði verið milli 00:30 og 01 um nótt þegar hún hefði fengið leyfi til að ganga til náða.

Vitnisburður X og lýsing á kynferðis­mökum hennar og ákærða samrýmist því sem sést á umræddu myndbandi.  [ . . . ] Er það álit dómsins, að mynd­bands­upptakan sýni, svo ekki verði um villst, að um þvinguð kynferðismök var að tefla.  Því til áréttingar má nefna, að þegar ákærði hafði fengið fullnægingu öðru sinni heyrist og sést á mynd­bandinu, að X biður um leyfi til að standa upp úr rúminu og einnig til að þurrka sér.  Að öllu þessu virtu telur dómurinn óhætt að slá því föstu, að X hafi ekki tekið þátt í kyn­ferðis­mökunum af fúsum og frjálsum vilja, eins og ákærði heldur fram.  Bendir vitnisburður hennar eindregið til þess að ákærði hafi þröngvað henni til kynferðismakanna með ofbeldi og hótun um beitingu ofbeldis.

Vætti S styður vitnisburð X um það hvenær komið hefði til átaka milli hennar og ákærða um kvöldið, en S bar fyrir dómi að hún hefði farið frá X um kl. 23.  Fær það einnig stoð í vitnisburði S, bróður ákærða, sem bar fyrir dómi að hann hefði heyrt ákærða og X öskra á hvort annað fyrir utan herbergi hans um kl. 23.  X hefði síðan komið inn til hans og öskrað og ákærði „rykkt“ henni út úr herberginu.  Þau hefðu síðan farið niður á neðri hæð hússins.  Að þessu virtu fær ekki staðist sá framburður ákærða, að komið hefði til rifrildis og átaka milli hans og X um kl. 21 eða 21:30 um kvöldið.      

Svo virðist sem ákærði hafi verið lausmáll við kunningja sína og vinnu­­félaga og greint þeim frá kynferðismökum við X umrætt sinn.  Þannig bar vitnið G fyrir dómi að ákærði hefði greint frá því á vinnustað 7. mars að hann hefði nauðgað fyrrverandi kærustu sinni, sem hefði verið að passa fyrir móður hans og tekið það upp á myndband.  Vitnið Á bar fyrir dómi að ákærði hefði sagt frá því í símtali 8. mars að hann hefði nauðgað X á heimili sínu og tekið það upp á myndband.  Að sögn ákærða hefði hann ekki verið sérlega harð­­hentur við hana, en samræðið hefði þó ekki verið með hennar vilja.  Vitnin M, J og S báru fyrir dómi að ákærði hefði komið í heimsókn til þeirra 12. mars og greint frá því að hann hefði nauðgað stúlku og tekið það upp á mynd­band.  M kvað ákærða enn fremur hafa sagt að hann hefði dregið stúlkuna á hárinu út úr herbergi bróður síns og að hún hefði einhvern veginn dottið í stiga heima hjá honum.  Einnig hefði hann slegið hana og tekið hana hálstaki og lokað fyrir öndunarveg hennar.  Í framhaldi af því hefði hann sagt henni að „totta sig“.  J bar að ákærði hefði sagst hafa tuskað stúlkuna til og dregið hana á hárinu áður en hann hefði nauðgað henni.  Stúlkan hefði eitthvað verið að væla meðan á verknaðinum hefði staðið.  S bar að stúlkan hefði náð að hlaupa upp stiga á heimili ákærða og þar inn í herbergi bróður hans, sem hefði látið þetta afskiptalaust.  Ákærði hefði dregið hana þaðan út og nánast hrint henni niður stigann.  Vitnin S og Ó báru fyrir dómi að þau hefðu hitt ákærða í samkvæmi 1. apríl og hann sagt að hann hefði nauðgað X.  Að sögn ákærða hefði verið um „andlega nauðgun“ að ræða.  Vitnið G bar fyrir dómi að ákærði hefði einhverju sinni sagt frá því í símtali að hann hefði nauðgað X á heimili sínu og tekið það upp á myndband.  Vitnið D bar fyrir dómi að ákærði hefði komið að máli við sig á veitingastað aðfaranótt 15. apríl og greint frá því að fyrra bragði að hann hefði nauðgað fyrrverandi kærustu sinni og tekið það upp á mynd­band.  Loks ber að nefna kunningja ákærða og vinnu­félaga, I, en hann bar fyrir dómi að ákærði hefði greint frá því, lík­lega skömmu eftir að slitnað hefði upp úr sambúð hans og X, að hann hyggðist nauðga henni á heimili sínu, á meðan foreldrar hans væru erlendis, og taka það upp á mynd­band.  Vitnið fullyrti að ákærði hefði rætt um þetta fyrir 5. mars síðast­­­liðinn.  Ákærði hefði síðan mætt til vinnu 6. mars, klóraður í andliti, og sagt frá því að hann hefði tuskað X til, dregið hana á hárinu niður stiga og barið hana, áður en hann hefði nauðgað henni.

Framburður nefndra vitna, einkum vætti M, J, S og I, styður tvímælalaust vitnisburð X um að ákærði hafi beitt hana ofbeldi og þröngvað henni til samræðis umrætt sinn.  Áverkar í andliti hennar og aðgerðir í kjölfar atburðarins renna einnig stoðum undir það að eitthvað alvarlegt hafi gerst.  Má því til stuðnings einkum benda á vætti I, sem X leitaði til í Fjöl­brautaskóla Suðurnesja að morgni mánu­dagsins 6. mars, vætti Þuríðar Önnu Guðna­dóttur hjúkrunar­­fræðings og Kristínar Andersen kvensjúkdómalæknis, sem ræddu við hana sama dag á neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Sjúkrahúsi Reykja­víkur og síðast en ekki síst vætti Víkings Sveins­sonar lög­reglu­manns í [ . . . ], sem ræddi við hana á lögreglustöð snemma að morgni sama dags.  Bar vitnið að X hefði verið mjög illa á sig komin og í miklu ójafn­­vægi.

Þegar framangreind atriði eru virt þykir eigi varhugavert að leggja til grund­vallar vitnisburð X, en hann er að áliti dómsins áreiðanlegur og trú­verðugur í alla staði.  Velkist dómurinn því ekki í vafa um að ákærði hafi umrætt kvöld hótað henni og beitt hana líkam­legu ofbeldi, svo sem lýst er í vitnis­­­burði hennar að framan og í beinu framhaldi af því þröngvað henni til munnmaka og samræðis í enda­þarm og leggöng, eftir að hafa vakið hjá henni slíkan ótta um velferð sína að hún lét undan vilja hans.  Er háttsemin rétt færð til refsiákvæða í ákæru og varðar við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

 

Ákæra fyrir ætlað manndráp og líkamsárás.

I.

Aðfaranótt laugardagsins 15. apríl síðastliðins kl. 04:28 var óskað eftir sjúkra­bifreið að [ . . . ] í [ . . . ].  Sjúkraflutningsmennirnir Þorvaldur Helgi Auðuns­son og Guðjón Herbert Eyjólfsson fóru á staðinn.  Er þangað kom lá ung stúlka, nakin í blóði sínu, á baðherbergisgólfi í kjallaraíbúð hússins.  Dimmt var í baðherberginu og kveiktu þeir ljós. Á gólfinu var mikið blóð, sem var byrjað að kekkja.  Blóð var einnig á veggjum baðherbergisins.  Vegna þrengsla inni á baðherberginu var stúlkan færð inn í stofu þar sem sjúkraflutningsmennirnir reyndu lífgunartilraunir.  Blóðvökva var dælt í líkama stúlkunnar til að halda uppi blóð­þrýstingi, en vegna fjölda stungusára á líkama hennar hefði vökvinn runnið út jafn­harðan.  Þar sem lífgunartilraunir á vett­vangi báru ekki árangur var stúlkan færð á Landspítalann-háskólasjúkrahús í Foss­vogi.  Hún komst aldrei til meðvitundar og var úrskurðuð látin kl. 06:15.

Þorvaldur Helgi Auðunsson og Guðjón Herbert Eyjólfsson komu fyrir dóm vegna málsins og staðfestu framangreinda lýsingu.  Að sögn þeirra voru tveir menn inni í íbúðinni, G og Z og virtust þeir báðir vera í losti og nánast óviðræðuhæfir.  Z hefði þó greint frá því að „brjálaður maður“ hefði verið á staðnum og stungið stúlkuna með hnífi. 

Lögreglu var tilkynnt um atburðinn klukkan 04:35.  Skúli Jónsson og Garðar Helgi Magnússon fóru á vettvang.  Er þangað kom var búið að færa stúlkuna, Y, inn í stofu og lá hún þar á stofugólfinu.  Samkvæmt vætti Skúla fyrir dómi hefði G verið ölvaður, en rólegur og ekki með áverka.  Z hefði á hinn bóginn verið í miklu uppnámi, blóðugur og með áverka.  Gr hefði sagt að ákærði, sem áður hefði verið kærður fyrir nauðgun, hefði gert þetta.  Mennirnir hefðu verið handteknir og færðir á lögreglustöð. 

Lögregla hóf þegar leit að ákærða.  Af öryggisástæðum var jafnframt óskað eftir að vin­konur hinnar látnu, X, S og F, kæmu á lögreglustöð á meðan leitað væri að ákærða.   

Kl. 04:59 hafði E, stjúpfaðir ákærða, símasamband við lög­reglu og tilkynnti að hann hefði skömmu áður séð ákærða fara blóðugan út af heimili þeirra að ­[ . . . ].  Að sögn E væri blóð á baðherbergisgólfi á neðri hæð hússins, sem sýnilega hefði verið reynt að þrífa.  Vitnið staðfesti greinda frá­­sögn fyrir dómi.

Kl. 06:16 hringdi G í Neyðarlínuna og óskaði eftir sjúkra­bifreið að [ . . . ].  Gunnar Stefánsson sjúkraflutningsmaður fór á staðinn við annan mann.  Þar tók ákærði á móti honum, með handklæði vafið um aðra hönd sína.  Gunnar bar fyrir dómi að ákærði hefði verið ölvaður, en rólegur og gefið þá skýringu á áverka sínum á hendi, að hann hefði brotið glas og skorið sig á því.  Að sögn Gunnars hefði ákærði einnig verið með sár á höfði.

G bar fyrir dómi að ákærði hefði komið heim til hennar um morguninn, blóðugur á annarri hendi og í andliti.  Hann hefði verið rólegur og beðið hana að sækja fyrir sig glas, sem hann hyggðist brjóta í gólfið og láta líta svo út, sem hann hefði skorið sig á glasinu.  Ákærði hefði lagt að henni að skýra lög­reglu frá því, að hann hefði verið hjá henni um nóttina og skorið sig á glasi.  Einnig kom fram í vætti G að ákærði hefði hringt til hennar kvöldið áður, fyrir mið­nætti, og sagt: „Ég er orðinn svo hræðilega fullur að ég mun örugg­lega drepa einhvern í kvöld“.  Að sögn vitnisins hefði ákærði sagt þetta í „gríntón“.

Samkvæmt yfirliti frá Landssímanum mun ákærði hafa hringt tví­vegis til G umrætt kvöld og nótt; annars vegar kl. 22:54 að kvöldi föstudagsins 14. apríl og hins vegar kl. 00:19 eftir miðnætti.   

Ákærði var færður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gert var að sárum hans, en þaðan var hann færður í fangageymslu lögreglu.

Kristján Baldvinsson heilsugæslulæknir tók ákærða blóðsýni kl. 08:05 í þágu rannsóknar málsins.  Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á blóðsýninu reyndist etanól­magn í blóði ákærða 1.45 ‰.  G Z var einnig tekið blóð; G kl. 09:35 og Z kl. 09:50.  Magn etanóls í blóði G reyndist 1.17 ‰ og í blóði Z 0.25 ‰.

Að beiðni lögreglu fór fram læknisskoðun á Z, sem sami læknir fram­kvæmdi á lögreglustöð kl. 10:15.  Í framlögðu áverkavottorði segir svo um þá skoðun: „Við skoðun finnast í (sic) vinstri brjósthelmingi að framan fleiri þverlægar skurfur, sem ná ekki í gegn um húð.  Maðurinn segir þær vera eftir hníf sem reynt var að reka í hann.  Aumir bólguhnúðar og mar eru um báða framhandleggi miðja.  Grunn skurfa er yfir hægri hnéskel.  Hrufl er ofarlega á hægri fótlegg framanverðum.”

Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag.  Frá þeim degi hefur hann setið í gæsluvarðhaldi.

Ákærði gaf ítarlega framburðarskýrslu við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar 15. apríl.  Hann var síðan yfirheyrður hjá lögreglu 17. apríl, 4. maí, 8. maí, 30. maí og 30. júní.  G hafði réttarstöðu grunaðs manns meðan á rann­sókn málsins stóð.  Hann var yfirheyrður af lögreglu dagana 15. apríl, 19. apríl. 8. maí og 8. júní. 

Þá voru í þágu rannsóknar málsins teknar vitnaskýrslur af [ . . . ]. 

Flest vitnin komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins.  Verður getið um vitnis­burð þeirra hér á eftir að því leyti sem horfir til skýringar á málavöxtum.

II.

   Ákærði skýrði svo frá við aðalmeðferð máls, að hann hefði átt frí föstudaginn 14. apríl.  Hann hefði ætlað að selja bifreið sína og því verið að þrífa hana fyrri hluta dags.  Hann hefði meðal annars tekið hníf úr bifreiðinni og stungið honum í vasa sinn áður en hann hefði farið með bifreiðina á bílasölu.  Hann hefði farið í áfengisverslun og keypt tvær kippur af bjór.  Vinur hans, G, hefði sótt hann á bíla­söluna og þeir farið heim til G og verið í tölvuleikjum fram að kvöldmat.  Ákærði hefði farið í mat til ömmu sinnar, en síðan farið heim og skipt um föt.  Hann hefði tæmt úr öllum vösum og stungið sömu hlutum, GSM síma, peningum og hnífnum, í flýti í þau föt sem hann hefði klætt sig í.  Því næst hefði hann farið heim til G og fljótlega byrjað að drekka bjórinn, sem hann hefði keypt fyrr um daginn.  Að sögn ákærða hefði hann verið „í símanum“ um kvöldið.  Hann hefði drukkið úr 9-10 bjórdósum áður en þeir félagar hefðu pantað leigubifreið um kl. 01 og haldið á veitingastaðinn Rána.

   Sama kvöld efndu K og S til fagnaðar á heimili sínu á efri hæð hússins [ . . . ] og buðu vinum sínum, G og L.  Tilefni fagnaðarins var að halda upp á að þau væru nýflutt í húsið.  Einnig buðu þau ungum leigjendum sínum úr kjallara hússins, Y og Z, en þau voru þá nýflutt inn og voru að standsetja íbúð sína.  Um miðnætti mun hópurinn hafa ákveðið að fara á Rána.

   Ákærði greindi frá því fyrir dómi að hann hefði séð Y og Z kærasta hennar tilsýndar á dansgólfinu inni á Ránni, en hann hefði ekki talað við þau um nóttina.  Z hefði hann aldrei rætt við; aðeins séð hann einu sinni eða tvisvar áður.  Að sögn ákærða hefðu hann og G farið að ræða sín á milli, að gaman væri að berja kærastann.  Ætlunin hefði verið að láta verða af því á staðnum.  Kvað ákærði svona umræður oft skapast þegar menn væru komnir „í slæmt ölvunar­ástand“, svo sem hann hefði verið í um nóttina.  Hann hefði verið kominn í það ástand að hann hefði verið reiðubúinn að gera flest alla vitleysu.  G hefði nokkru síðar komið til hans inni á staðnum og greint frá því að hann væri búinn að segja Y fyrirætlan þeirra að berja kærasta hennar.  Að sögn ákærða hefðu þeir ekki rætt þetta frekar.

   Fyrir dómi þvertók G fyrir að hafa vakið máls á því að lemja kærasta Y og kvað slíkt ekki hafa komið til tals inni á Ránni.  Hann hefði hitt Y þar inni og rætt við hana um daginn og veginn, en hún hefði orðið óróleg er hún hefði frétt að hann væri í fylgd með ákærða og sagst þurfa fara heim.  Skömmu síðar hefði hann séð hana yfirgefa veitingastaðinn.  Að sögn G hefði hann ekki þekkt kærasta Y og ekki vitað hver hann væri.  Hann hefði því enga ástæðu haft til berja manninn.

   Meðal þeirra sem hittu ákærða á Ránni umrædda nótt var D dyravörður.  Hann bar fyrir dómi að ákærði hefði komið til hans og greint frá því að fyrra bragði að hann hefði nauðgað fyrrverandi kærustu sinni og tekið það upp á mynd­band.  Eitthvert yfirvald hefði síðan komist yfir myndbandið og hefði ákærði sagt að hann væri líklega á leið í fangelsi vegna þessa.  Að sögn vitnisins hefði ákærði ekki virst drukkinn þegar þeir hefðu rætt saman.

   Fyrir liggur að Y fór út af Ránni um kl. 03 og hélt þá heim.  Sam­ferðafólk hennar mun hins vegar hafa farið á veitingastaðinn Casino, að frá­töldum Z kærasta hennar, sem verið hefði veikur og farið hafði heim nokkru áður.  Hann bar fyrir dómi að þegar heim hefði komið hefði hann lagst fyrir í sófa í stofu og sofnað.

   Ákærða og G ber saman um að þeir hafi farið út af Ránni um kl. 03:30.  Meðferðis höfðu þeir tvær bjórflöskur, sem ákærði hafði keypt á barnum.  Þeir gengu áleiðis heim og ræddu meðal annars um það að hittast seinna um daginn og horfa saman á knattspyrnuleik í sjónvarpi.  Þeim ber saman um að þeir hafi staðnæmst við vegamót [ . . . ], en hvað síðan gerðist eru þeir ekki sammála um. 

Ákærði sagði fyrir dómi að þegar þeir hefðu komið að [ . . . ] hefði rifjast upp fyrir sér hvar Y ætti heima og hefði hann bent G á húsið.  Skyndi­lega hefði verið tekin ákvörðun um að fara þar inn og tuska Z aðeins til.  Þeir hefðu því gengið saman að húsinu og ákærði tekið í útidyrahurðina, sem hefði reynst vera læst.  Þaðan hefðu þeir gengið í kringum húsið og komist að raun um að allir gluggar væru lokaðir.  Ljós hefði logað í stofunni.  Að sögn ákærða hefði hann sagt G að það væri ekkert mál að sparka inn hurðinni, sem hann hefði og gert.  Á meðan hefði G staðið fyrir ofan tröppur að kjallaraíbúðinni.  Ákærði hefði síðan gengið inn í íbúð Y og Zog G fylgt fast á eftir.  Áður hefði hann beðið G um að halda Y frá, á meðan hann Z.  Er inn kom hefði hann séð Y inni í baðherbergi.  Hún hefði setið á gólfinu innst í baðherberginu, hjá salerni og virtist sem hún væri að kasta upp.  G hefði farið inn í baðherbergið, en ákærði gengið inn í stofu og séð Z sofandi í sófa.  Hann kvaðst hafa lagt bjórflösku sína frá sér á hillusam­stæðu í stofunni og hugleitt hvernig hann ætti að vekja manninn; hvort hann ætti að slá hann strax í andlitið meðan hann svæfi eða vekja hann fyrst og berja hann.  Að sögn ákærða hefði hann vonast til þess að Z myndi vakna og ráðast á sig, svo hann hefði tilefni til að berja hann.  Í þeirri andrá hefði heyrst hávaði frá baðher­berginu og Z vaknað og ætlað að hlaupa fram.  Ákærði hefði kallað til G að hafa stjórn á Y, en sjálfur hefði hann tekið í Z og hent honum út í horn í stofunni.  Því næst hefði ákærði tekið hnífinn úr vasa sínum, opnað hann og sagt Z að vera kyrr í stofunni.  Að því búnu hefði hann farið inn í bað­her­bergið, með hnífinn opinn í hægri hendi.  G hefði virst halda laust um Y og því hefði hann ýtt honum frá.  Síðan hefði eitthvað farið úrskeiðis.  Sjálfur hefði hann tekið um munn Y, til þess að hún hrópaði ekki, og rekið hnífinn í síðu hennar.  Y hefði öskrað og hnigið á gólfið og honum þá verið dauð­brugðið.  Í framhaldi hefði hann stungið hana „aftur og aftur“ til að fá hana til að hætta að öskra.  Kvaðst ákærði halda að hann hefði stungið hana í ein 4-5 skipti.  Á meðan hefði hann eiginlega ekki verið að horfa á Y, heldur beint athygli sinni að því sem væri að gerast frammi á gangi.  Að sögn ákærða hefði hann ekki miðað stungum á sérstaka staði á líkama Y, en hann myndi eftir að ein þeirra hefði farið í háls hennar.  Hann hefði síðan rétt úr sér og gengið fram.  Y hefði þá legið á bað­herbergis­gólfinu og átt erfitt með andardrátt.  Í þeirri andrá hefði honum verið litið á blóðugan hnífinn og blóðugar hendur sínar og verið brugðið.  Hann hefði síðan litið snöggvast inn á baðherbergið og séð „gífurlega mikið blóð“.  Hann hefði þá orðið smeykur um hvað hann væri eigin­lega búinn að gera.  Því næst hefði hann gengið rak­leitt inn í stofuna, þrifið þar bjór­flöskuna og skellt innihaldinu í sig.  Á meðan hefði Z setið úti í horni í stofunni, líklega á litlu grænu borði, „dauðhræddur“ á svip og verið „alveg frosinn“.  Í sömu svipan hefði ákærði heyrt í G frammi á gangi og hefði hann öskrað: „Guð, hvað ertu búinn að gera”.  Að sögn ákærða myndi hann ekki allt sem gerðist eftir þetta.  Þó kvaðst hann muna að hann hefði ekki beint hnífnum að Z.  Hins vegar hefði hann otað honum að G þegar hann hefði farið að æsa sig.  Ákærði hefði síðan ákveðið að fara út.  Þá fyrst hefði Z staðið á fætur og líklegast slegið hann í höfuðið.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir neinum átökum við manninn og sagði þá ekki hafa tekist á inn í stofunni.  Hann kvaðst ekki kunna skýringu á áverkum Z og kvað þá líklega vera gamla.  Ákærði kvaðst muna óljóst hvað gerðist eftir þetta.  Hann hefði hlaupið heim og hent hnífnum frá sér einhvers staðar á leiðinni.  Er heim kom hefði hann reynt að stöðva blæðingu frá hendi og vafið handklæði um hana.  Næst myndi hann eftir sér hjá G, en þaðan hefði verið farið með hann á sjúkrahús og síðan á lögreglu­stöð.

Ákærða var fyrir dómi kynnt að samkvæmt gögnum málsins hefði Y verið stungin 28 sinnum, auk annarra áverka.  Hann viðurkenndi að áverkar á líki Y væri allir af sínum völdum, en ítrekaði að hann myndi ekki eftir að hafa stungið hana oftar en 4-5 sinnum.

Aðspurður fyrir dómi kvað ákærði tilefni fararinnar að [ . . . ] hafa verið hefnd.  Hann hefði verið svolítið reiður í garð Y vegna kæru hennar til lög­reglu á SMS skilaboðum, sem hún hefði álitið vera frá honum komin, en hann neitaði að hafa sent.  Hefndin hefði að hluta verið vegna þessarar kæru, en ekki einvörðungu vegna hennar.

   G bar fyrir dómi að leiðir hans og ákærða hefðu skilið við vegamót [ . . . ].  Þar hefðu þeir kvatt hvorn annan, með þeim orðum að þeir sæust á morgun.  Þaðan hefði hann ætlað að ganga heim til sín, en verið litið til baka og séð ákærða ganga í átt að heimili Y að [ . . . ].  Hefði ákærði áður ekki verið búinn að færa í tal hvað hann hyggðist fyrir.  G hefði því staldrað við og fylgst með ferðum ákærða.  Hann hefði síðan heyrt „hvell“ eins og hurð væri sparkað inn og þá hraðað sér að húsinu og gengið inn um opnar dyr að kjallaraíbúðinni.  Þar hefði hann séð blóð á teppi fyrir framan bað­her­bergi Y hefði legið í blóði sínu á baðherbergisgólfinu og verið að reyna að hreyfa sig.  Ákærði hefði staðið yfir henni með hníf í hendi og verið búinn að stinga hana.  Að sögn G hefði hann ekki vitað fyrir fram að ákærði hefði verið með hníf á sér.  Í sömu andrá hefði Z komið fram úr stofunni og litið inn í baðherbergið.  Á þeirri stundu hefði G heyrt hægan andardrátt Y.  Hann hefði áður ekki verið búinn að heyra öskur frá henni.  Þeir Z hefðu viljað koma Y til hjálpar, en ákærði ógnað þeim með hnífi og sagt að ef þeir reyndu að koma henni til hjálpar þá myndi hann stinga þá líka.  Þeir hefðu því hörfað inn í stofuna og Z farið út í horn.  G og ákærði hefðu staðið fyrir framan hann og hefði Z verið mjög órólegur og sagt eitthvað á útlensku.  Hefði G merkt á svip Z að hann hefði vitað hvað hefði gerst.  Að sögn G hefði hann reynt að fá ákærða til að leggja frá sér hnífinn, en því hefði ákærði neitað.  Jafnframt hefði ákærði sagt honum að fara frá, svo hann kæmist að Z.  G hefði neitað og ákærði þá hótað að stinga hann, ef hann viki ekki til hliðar.  G kvaðst því næst hafa vikið til hliðar og dregið ákærða frá Z í því skyni að verja hann gegn ákærða.  Z hefði þá gripið einhvern hlut og slegið eða kastað honum í höfuð ákærða.  Við það hefði ákærði misst jafn­vægið og þeir Z ráðist á hann og G slegið hann í höfuðið með stól eða einhverju lauslegu.  Ákærði hefði snúist til varnar og sveiflað hnífnum í átt að þeim, en því næst hefði hann hlaupið út úr húsinu.  Eftir að ákærði var farinn hefði G séð að Z hefði fengið skurði á báða handleggi, sem blætt hefði úr.  Z hefði strax hlaupið til Y en sjálfur hefði hann reynt að finna síma í því skyni að hringja til lögreglu.  Í þann mund hefði maður komið af efri hæð hússins og hefði hann séð til þess að hringt væri til lögreglu, sem hefði komið stuttu síðar.

   Z sambýlismaður Y heitinnar bar fyrir dómi að hann hefði sofnað í sófa í stofu heima hjá sér og rankað við sér þar sem hann hefði setið á litlu borði í horni stofunnar.  Ákærði og annar maður hefðu staðið yfir honum og verið að tala saman.  Ákærði hefði verið blóðugur á höndum og haldið á blóðidrifnum hnífi.  Að sögn Z hefði hann ráðist á ákærða og þeir farið að slást.  Kvaðst Z hafa slegið ákærða með borðinu, en við það hefði borðið brotnað og hann haldið áfram að lemja ákærða með borðfæti.  Á meðan á þessu stóð hefði ákærði haldið á hnífnum og Z fengið nokkrar rispur af hnífnum.  Hann kvaðst ekki vita hvað vakað hefði fyrir ákærða, en þetta hefðu verið slagsmál. Z kvaðst ekki hafa orðið þess var að hinn maðurinn tæki þátt í slagsmálunum, en hann hefði staðið fyrir aftan vitnið.  Eftir á hefði hann hins vegar séð leifar af brotnum stól í stofunni, sem gætu bent til að maðurinn hefði einnig veist að ákærða.  Ákærða hefði tekist að sleppa og hlaupið út.  Að sögn Z hefði hann þá strax hlaupið til Y og árangurslaust reynt á henni lífgunartilraunir með hjartahnoði.

III.

   Lögreglumennirnir Annel Jón Þorkelsson og Sæmundur Már Alexandersson voru í eftirlitsferð í lögreglubifreið umrædda nótt.  Þeir báru fyrir dómi að þeir hefðu ekið fram hjá húsinu [ . . . ] um kl. 04:15.  Að sögn Annels Jóns hefði ljós logað í stofu og hefði sést inn, þar sem engin gluggatjöld hefðu verið fyrir stofu­glugga.  Þar inni hefði hann séð frænda sinn, ákærða í málinu, og G, sem hann hefði einnig þekkt.  Ákærði hefði haldið á einhverju í vinstri hendi og virtist vitninu sem hann væri að leggja áherslu á eitthvað við G.  Vitnunum bar saman um að Annel Jón hefði haft orð á því að hann hefði á tilfinningunni að eitthvað kynni að vera í uppsiglingu og því hefðu þeir ákveðið að aka annan hring um hverfið.  Um þremur mínútum síðar hefðu þeir ekið fram hjá húsinu öðru sinni og nánast stöðvað.  G hefði enn staðið á sama stað og áður, en ákærði ekki verið sjáan­­legur.  Z hefði hins vegar staðið á svipuðum stað og ákærði hefði áður staðið á og hefði hann virst vera að ræða við G.  Yfirbragð þeirra hefði virst rólegt og engin merki um átök.  Lögreglumennirnir hefðu því haldið eftirlitsferðinni áfram.

   K, S og G báru fyrir dómi að þau hefðu tekið leigubifreið frá veitingastaðnum Casino um kl. 04 og haldið að Aðalstöðinni í því skyni að kaupa sér eitthvað að borða.  Á leiðinni hefðu þau ekið fram hjá húsinu að [ . . . ].  Samkvæmt vætti S hefði hún þá séð Y inni í stofunni.  Y hefði verið klædd sömu kápu og hún hefði verið í fyrr um kvöldið.  Þau hefðu haldið ferðinni áfram og verslað í Aðal­stöðinni, en því næst farið heim til K og S að [ . . . ]

Samkvæmt kassakvittun frá Aðalstöðinni munu framangreind viðskipti hafa átt sér stað kl. 04:22.

S bar fyrir dómi að hún hefði verið í forstofu á efri hæð hússins þegar hún hefði heyrt mikinn hávaða neðan úr kjallaraíbúðinni, eins og verið væri að kasta hlutum eða henda einhverju utan í vegg.  Hún hefði engin hróp heyrt.  K eiginmaður hennar hefði síðan hlaupið niður og brotið niður millihurð milli íbúðanna.

 K bar fyrir dómi að S eiginkona hans hefði komið til hans og sagt að eitthvað væri að gerast niðri hjá Y og Z.  Hann hefði síðan heyrt skelli og öskur og því farið niður stiga milli hæða og brotið niður millihurð.  Y hefði legið á baðherbergisgólfinu og Z hjá henni, öskrandi.  G hefði einnig verið á staðnum.  Að sögn K hefði hann spurt mennina hvað hefði komið fyrir.  Z hefði svarað: „Fucking Rúnar did this”, en G sagt: „Hann reyndi að drepa okkur báða.”  Z hefði beðið sig að hringja eftir sjúkrabifreið og hefði hann því kallað til G að hringja.  Y hefði ekki verið með lífsmarki þegar vitnið hefði komið að henni.

   G bar fyrir dómi að hann hefði verið staddur í eldhúsi á efri hæð hússins þegar hann hefði heyrt hávaða og öskur frá kjallaraíbúðinni.  K hefði hlaupið niður og sparkað upp hurð milli íbúðanna og vitnið fylgt á eftir.  Að sögn G hefði hann ekki rætt við þá sem verið hefðu í kjallaraíbúðinni, heldur farið aftur upp og beðið S að hringja eftir sjúkrabifreið.

   Áður er getið um vitnisburð G, sem bar vitni í tengslum við nauðgun ákærða á X  5. mars 2000.  Í vætti hans fyrir dómi kom einnig fram að ákærði hefði rætt við hann í símtali 9. apríl síðastliðinn, að ef ákærði yrði hnepptur í fangelsi vegna nauðgunarinnar þá yrði það vegna vitnis­burðar Y, sem hefði logið einna mest upp á hann.  Myndi hann hefna sín á henni fyrir það þegar hann losnaði úr fangelsi og láta henni líða illa, eins og honum hefði liðið af hennar völdum.

IV.

Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóranum hafði yfirumsjón með tæknirannsókn málsins, þar á meðal rannsókn á vettvangi.  Í skýrslu Bjarna frá 15. september síðastliðnum, sem hann staðfesti fyrir dómi, er ítarleg lýsing á íbúðarhúsinu [ . . . ].  Þar kemur meðal annars fram að í húsinu séu  tvær íbúðir; önnur í kjallara.  Hún er sögð 67m² að grunnfleti, með sérinngangi á austurhlið hússins.  Kjallarainngangur er undir tröppum að efri hæð og liggja fimm þrep niður að  innganginum, sem er til hægri þegar niður er komið.  Við skoðun á útidyrahurð var sýnilegt að læst hurðin hafði verið þvinguð upp með afli.

Kjallaraíbúðin skiptist í anddyri, gang, svefnherbergi, stofu, eldhús og bað­herbergi.  Þegar gengið er inn í íbúðina er komið inn í anddyrið, en þaðan liggur gangur eftir endilangri íbúðinni.  Frá ganginum er fyrst gengið inn í svefnherbergi á vinstri hönd.  Næst til vinstri er gengið inn í stofu, en við enda gangsins er eldhús.  Hinum megin gangsins, næst eldhúsi, er gengið inn í baðherbergi, en næst ganga­dyrunum er millihurð og stigi, sem liggur milli hæða.

[...]  Að sögn Bjarna hefði verið ljóst af ummerkjum í baðher­bergi að þar hefðu farið fram mikil og blóðug átök.

Blóðugur hnífur fannst í bakgarði vestan við íbúðarhúsið að Hafnargötu 48, en það hús stendur skáhallt á móti [ . . . ], handan götunnar.  Rannsókn leiddi í ljós að blóð á hnífnum var bæði úr ákærða og Y heitinni.  Um er að ræða sjálf­skeiðung, með tvívirkum blaðlási í handfangi.  Til að losa blaðið úr handfangi þarf að þrýsta á blaðlásinn og opnast þá hnífurinn.  Hnífurinn var opinn er hann fannst og vantaði á hann hnífsoddinn.  Við skoðun kom í ljós að egg hnífsblaðsins var óskemmd og virtist blaðið bíta vel.  Hnífurinn mældist 20,2 sm að heildarlengd, þar af var hand­fangið 11,7 sm, en hnífsblaðið, frá brotsári að handfangi 8,5 sm.  Blaðþykkt reyndist 3 mm., þar sem það er þykkast, þykkt handfangs 10mm og mesta breidd blaðsins 2,6 cm, en þar sem það er mjóst, í brotsárinu, 10mm.  Sérstaklega var leitað að hnífsoddi, á og við fundarstað, svo og á vettvangi að [ . . . ], en án árangurs. 

V.

   Gunnlaugur Geirsson prófessor í réttarlæknisfræði annaðist réttar­krufningu á líki Y 17. apríl síðastliðinn.  Í krufningarskýrslu, dagsettri 30. maí, sem hann staðfesti fyrir dómi, segir meðal annars svo:

„Líkið er af ungri konu með dökkt stutt hár, hæð 164 cm og hún er í eðlilegum holdum.  Mikið blóð er á líkinu framanverðu, einkum eru blóðdrefjar í andliti, framan­vert á brjósti og kvið og allt niður á ganglimi.  Hendur eru einnig mjög blóðugar.  Minna blóð er á bakflötum þar sem þrýstingsfletir eru.”

   Í krufningarskýrslunni er síðan að finna ítarlega lýsingu á 35 áverkum á líkinu, sem prófessorinn segir mikla.  […]  Í ályktun prófessorsins segir síðan orðrétt:

   „Samkvæmt því, sem segir í lögreglu­skýrslum svo og því er fannst við krufninguna má álykta að konunni hafi verið ráðinn bani með því að vega að henni fjölmörgum sinnum með eggvopni.  Voru sumir áverkarnir hnífsstungusár (sic) en aðrir áverkarnir voru ristur eða stungur sem rist var út úr.  Öll voru sárin með þeim hætti að hafa geta orðið til af sama eggvopninu.  Aðal áverkinn var stunga í síðu (nr. 27:27a, 27b og 27c í lýsingu).  Sárið náði inn í brjóstholið, felldi saman lungað og olli mikilli innvortis blæðingu.  Annað sár, sem telst lífshættulegt fannst aftan við eyra og náði undir kúpubotninn og næstum að hryggtindum.  Hefur það skorið í sundur blá­æðar, sem gæti hafa blætt mjög mikið úr.  Alls voru 28 sár á hinni látnu en einnig nokkuð af grunnum yfirborðsristum (sjá lýsingu á sárum 29-33).  Einnig hefur konan hlotið aðrar ákomur í formi marbletta yfir vinstra auga og hægra viðbeini.  Ekki fundust nein merki sjúkdóma.  Hún hafði neytt áfengis áður en hún lést og hefur verið ölvuð er dauðann bar að.  Samkvæmt framanskráðu má telja að stungusár í vinstri síðu verið (sic) banasárið en önnur sár hafa stuðlað að dauða hennar með mikilli útvortis blæðingu.  Hún hafði neytt áfengis skömmu fyrir andlátið og var ölvuð er hún lést.  Ölvunaráhrif hafa þó ekki sem slík stuðlað að dauða hennar.”

   Eins og áður segir staðfesti prófessorinn framangreinda niðurstöðu fyrir dómi.  Hann bar að stungusárið í vinstri síðu konunnar verði fyrst og fremst talið banasárið, enda þótt önnur sár kunni að hafa stuðlað að dauða hennar með mikilli útvortis blæðingu.  Hann kvað alvarleika síðusársins verða skýrðan með innri blæðingu sem því fylgdi og þess að sár hefði komið á lunga, sem felldi það saman.  Þá hefði henni verið veitt önnur lífshættuleg stunga aftan við eyra, en með henni hefði verið skorið á stórar bláæðar og hefði blæðing frá þeim, ein og sér, getað leitt til dauða á lengri tíma.

VI.

   Ákærði gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn í þágu meðferðar málsins.  Í skýrslu Þórðar Sigmundssonar geðlæknis, dagsettri 3. nóvember 2000, sem hann stað­festi fyrir dómi, er komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi verið sakhæfur er hann framdi þau brot, sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir.  Í skýrslunni dregur geð­læknirinn eftirfarandi ályktanir um sakhæfi ákærða:

   „Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að Rúnar Bjarki Ríkharðsson hafi verið haldinn alvarlegum geðsjúkdómi svo sem geðrofssjúkdómi (psychosis) eða alvarlegu þunglyndi eða kvíðaröskun sem ætla mætti að hefði haft áhrif á dómgreind hans á þeim tíma sem atburðir þeir er hann hefur verið ákærður fyrir áttu sér stað.  Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að Rúnar hafi átt við slíka sjúkdóma fyrr á ævinni.  Greind Rúnars er metin innan eðlilegra marka.  Rúnar hefur ýmis einkenni persónuleikaröskunar, sérstaklega andfélagslegrar persónuleikaröskunar [(Dissocial personality disorder F60.2 skv. ICD 10, flokkunarkerfi alþjóða heilbrigðismála-stofnunarinnar WHO)].  Hann hefur átt erfitt með að mynda tilfinningatengsl og er skeytingarlaus um tilfinningar annarra þó hann eigi auðvelt með að kynnast fólki.  Hann virðist ekki geta iðrast gjörða sinna og hefur tilhneigingu til að kenna öðrum um hvernig komið er fyrir sér.  Hann hefur sögu frá barnsaldri um að lenda í útistöðum við fjölskyldu sína, skólayfirvöld og síðar atvinnurekendur.  Það er saga um áhættu­hegðun, smáafbrot, m.a. búðarhnupl, innbrot í einbýlishús og verslanir.”

VII.

Eins og áður er rakið fór ákærði inn á veitingastaðinn [ . . . ] um kl. 01 aðfaranótt laugardagsins 15. apríl síðastliðins ásamt vini sínum G.  Ákærði var að eigin sögn ölvaður.  Óumdeilt er, að þar hafi hann séð Y dansa við kærasta sinn, Z, en í framhaldi af því segir ákærði, að hann og G hafi rætt sín á milli að gaman væri að lemja kærastann.  Fær sú játning ákærða fyrir dómi við aðalmeðferð máls stoð í dómsfram­burði hans síð­degis 15. apríl við fyrirtöku á gæsluvarðhaldskröfu og samrýmist einnig framburði hans við skýrslugjöf hjá lögreglu tveimur dögum síðar.  Telst því lögfull sönnun fram komin um þá játningu ákærða.  Fyrir liggur, að ákærði og G fóru saman út af Ránni eftir lokun staðarins og gengu áleiðis heim.  Á leiðinni ræddu þeir um að horfa saman á knattspyrnuleik í sjónvarpi síðar um daginn.  Er þeir komu að gatnamótum [ . . . ]segist ákærði hafa bent G á hvar Y og Z byggju.  Sannað er með ský­lausri játningu ákærða fyrir dómi, að hann hafi eigi síðar en þá ákveðið að ryðjast inn á heimili þeirra í þeim tilgangi að lemja Z, eða „tuska hann aðeins til“, eins og ákærði orðaði það fyrir dómi.  Enn fremur er sannað með játningu ákærða fyrir dómi, að ástæðan fyrir för hans inn í húsið að [ . . . ] hefði verið „einhvers konar hefnd gagnvart Y“ sem fælist í því að lemja kærasta hennar og ná sér þannig niðri á henni, en ákærði játaði skýlaust fyrir dómi að hafa á greindum tíma verið svolítið reiður í garð Y vegna kæru hennar til lögreglu 11. apríl tengdri hótun með SMS-skila­boðum.  Að sögn ákærða hefði hann ekki sent umrædd skilaboð.

Sannað er með játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins, að hann hafi í framhaldi gengið að útidyrahurð að kjallaraíbúð Y og Z, sparkað hurðinni inn og ruðst í heimildarleysi inn í íbúðina.  Ákærða og G greinir á um hvenær sá síðarnefndi hafi komið inn í íbúðina og hvaða hlutverki, ef einhverju, hann hafi gegnt í þeirri atburðarás er fylgdi.  Hitt er ljóst og telst sannað, með ský­lausri játningu ákærða fyrir dómi við aðalmeðferð máls, að hann hafi farið inn í bað­herbergi íbúðarinnar, með hníf í hendi, í því skyni að þagga niður í Y, sem að sögn ákærða hefði öskrað þar inni.  Leggja verður til grundvallar þann framburð ákærða fyrir dómi, að hann hafi síðan gripið annarri hendi um munn Y til að þagga niður í henni og með hinni rekið hnífinn í síðu hennar.  Y hafi hrópað og hnigið niður á baðherbergisgólfið og ákærði haldið áfram að stinga hana þar með hnífnum.  Ákærði kvaðst halda að hann hefði stungið hana allt að fimm sinnum og um leið sagt henni að hætta að öskra.  Sannað er með framburði hans, niðurstöðum krufningar­­skýrslu á líki Y og öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi veitt Y heitinni 28 sár með hnífnum, auk nokkurra grunnra yfirborðsrista.  Enn fremur er sannað, með niðurstöðum nefndrar krufningarskýrslu, að stungusár í vinstri síðu Y hafi verið banasárið, en önnur sár, einkum lífs­hættu­legt sár aftan við eyra er skar í sundur bláæðar, hafi stuðlað að dauða hennar með mikilli útvortis blæðingu.  Með hliðsjón af framansögðu telur dómurinn einsýnt, að frá þeirri stundu er ákærði veittiY fyrstu stunguna í vinstri síðu hafi það verið styrkur og ein­beittur vilji hans að ráða henni bana, enda var hin miskunarlausa atlaga til þess fallin að valda dauða hennar.  Þykir ákærði því með verknaðinum hafa gerst sekur um mann­­dráp af ásetningi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða er í sömu ákæru gefið að sök að hafa, eftir atlöguna að Y heitinni, í átökum við sambýlismann hennar, Z, veist að honum með hnífi, með þeim afleiðingum að hann hlaut nokkra grunna skurði og rispur á bringu, báða framhandleggi og vinstri kinn. 

Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki muna eftir að hafa lent í átökum við Z um nóttina og kvað áverka á líkama hans líklega vera gamla.

Samkvæmt vætti G fyrir dómi mun ákærði hafa hótað að stinga hann einnig með hnífnum ef hann reyndi að koma Y til hjálpar, þar sem hún hefði legið í blóði sínu á baðherbergisgólfi íbúðarinnar, eða reyndi að hringja eftir hjálp.  Ákærði hefði rekið hann inn í stofu og ítrekað hótun sína.  Þeir hefðu þá staðið yfir Z, sem setið hefði í einu horni stofunnar.  Z hefði síðan gripið einhvern hlut og kastað honum í höfuð ákærða.  Við það hefði hann misst jafn­vægi og þeir hinir ráðist á hann og reynt að ná hnífnum af honum.  Ákærði hefði snúist til varnar og sveiflað hnífnum í áttina að þeim, en síðan flúið af vettvangi.  Að sögn G hefði hann ekki séð hnífinn koma í Z, en eftir að ákærði hefði hlaupið á brott hefði Z verið með skurði á báðum handleggjum, sem blætt hefði úr.         

Af vitnisburði Z fyrir dómi, sem samrýmist fram­burðar­skýrslu hans hjá lögreglu, verður ráðið að hann hafi rankað við sér í stofu kjallara­íbúðarinnar og þá fyrst séð ákærða og G standandi yfir sér.  Styðst sá vitnisburður við vætti Annels Jóns Þorkels­sonar lögreglumanns, sem bar fyrir dómi að hann hefði ekið fram hjá nefndu húsi í eftirlitsferð um kl. 04:15 og séð ákærða og G í stofunni.  Ákærði hefði haldið á einhverju í vinstri hendi og virst vera að leggja áherslu á eitthvað við G.  Samkvæmt vætti Z hefði ákærði verið blóðugur á höndum og haldið á blóðugum hnífi.  Samrýmist hvort tveggja fram­lögðum ljósmyndum af fatnaði ákærða (blóðugar skyrtuermar) og umræddum hnífi.  Að sögn Z hefði hann í sömu andrá skynjað hvað hefði gerst og því ráðist að ákærða og slegið hann með litlu borði.  Borðið hefði brotnað og Z haldið áfram að lemja hann með borðfæti.  Ákærði hefði varist atlögunni og þeir flogist á, með þeim afleiðingum að Z hefði rispast af hnífnum.  Slagsmálunum hefði lyktað með því að ákærði hefði hlaupið á brott.  Z bar að hann hefði ekki tekið eftir því að G hefði einnig veist að ákærða, en kvaðst ekki vilja útiloka að svo hefði verið.  

Með hliðsjón af vitnisburði Z og G fyrir dómi er sannað að Z hafi greint sinn veist að ákærða inni í stofunni, með þeim hætti sem lýst er að framan og að ákærði hafi þá borið fyrir sig hnífinn, sem var opinn í hendi hans, og sveiflað honum í átt að Z með þeim afleiðingum að Z hlaut af áverka.  Ljósmyndir, sem teknar voru af Z sama dag, sýna, svo ekki verður um villst, að hann var með nokkrar nýlegar grunnar rispur á bringu, rispu á vinstri vanga og nokkrar grunnar rispur á framhandleggjum.  Þykir eigi óvarlegt að telja sannað að Z hafi hlotið nefnda áverka af völdum ákærða.  Telur dómurinn, miðað við framangreinda atburða­rás, að ákærða hafi mátt vera ljóst er hann bar fyrir sig hnífinn, að líklegast væri að líkamstjón hlytist af.     

Samkvæmt framansögðu er háttsemi ákærða réttilega heimfærð í ákæru undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.  Við ákvörðun refsingar hér á eftir verður þó til þess litið, að ásetningur ákærða var ekki styrkur og að áverkar Z voru óverulegir og hlutust í átökum, sem ákærði átti ekki bein upptök að.  Í því felst ekki áfelli á Z, en viðbrögð hans voru rétt­lætan­­leg og verða að skoðast í ljósi þess sem á undan var gengið. 

Refsing og önnur viðurlög.

I.

Með hliðsjón af framangreindri rannsókn Þórðar Sigmundssonar á geðheil­brigði ákærða telur dómurinn hann vera sakhæfan.

Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði hafi átt erfitt með að sætta sig við að sambúð hans og X væri lokið og bendir samhljóða vitnis­­burður G og I, um þá hugmynd ákærða að drepa X, til þess að ákærði hafi borið þungan hug til hennar í kjölfar sambúðarslitanna.  Vætti I bendir einnig til þess að ákærði hafi lagt á ráðin og undirbúið nauðgunina 5. mars síðastliðinn með nokkrum fyrir­vara, þótt ekki teljist það sannað í málinu, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.  Telst sú háttsemi engu að síður svívirðileg og fádæma auðmýkjandi fyrir X.   

Af vætti I verður enn fremur ráðið að ákærði hafi borið þungan hug til Y heitinnar.  Samrýmist það vætti G, sem bar fyrir dómi að ákærði hefði rætt um það í símtali 9. apríl síðast­liðinn, að ef hann yrði hnepptur í fangelsi þá yrði það vegna vitnisburðar Y, sem hefði logið einna mest upp á hann.  Myndi hann hefna sín á henni fyrir það þegar hann losnaði úr fangelsi og láta henni líða illa, eins og honum hefði liðið af hennar völdum.  Loks má nefna framburð ákærða sjálfs, en hann viðurkenndi fyrir dómi að hafa verið reiður í garð Y heitinnar í kjölfar fyrrnefndrar kæru 11. apríl og hefði hann ætlað að hefna sín á henni með því að lemja kærasta hennar, Z, hina örlagaríku nótt.  Var ákærði þá að eigin sögn „í slæmu ölvunar­ástandi“ og „til í að gera flest alla vitleysu“.  Verður að ætla að þessi reiði hafi síðan brotist út umrædda nótt með þeim afleiðingum að hann afréð að ryðjast inn á heimili þeirra að [ . . . ].  Hvað síðan gerðist er rakið hér að framan.  Aðför ákærða að Y heitinni var tilefnislaus, hrottaleg og heiftúðug.  Hann ruddist inn á heimili hennar að nætur­lagi og skirrðist ekki við að stinga hana margítrekað í höfuð, háls, bringu og víðar í líkama hennar, þrátt fyrir að hún væri varnarlaus, nakin inni á bað­herbergi og ætti sér einskis ills von.  Hróp hennar og köll urðu einungis til þess að efla ákærða við ódæðisverk sitt. 

Ákærði á sér engar málsbætur.  Við ákvörðun refsingar verður þó litið til aldurs hans og þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu, svo kunnugt sé.  Að því virtu og með hliðsjón af framansögðu þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 18 ár, sbr. 77. og 79. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 18. gr. laga nr. 82/1998.  Með vísan til 76. gr. hegningarlaga skal gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 15. apríl 2000 koma til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.   

II.

María Thejll hdl., réttargæslumaður X, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða X krónur 1.000.000 í miska­bætur vegna ólögmætra meingerða 4. febrúar og 5. mars 2000, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 6. mars 2000 til greiðsludags.  Kröfunni til stuðnings er vísað til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Þá krefst réttargæslumaðurinn hæfilegrar þóknunar að mati dómsins vegna réttargæslustarfa sinna. 

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að miskabótakröfunni verði vísað frá dómi, en ellegar verði ákærði sýknaður af bótakröfunni eða hún lækkuð stórlega að mati dómsins.

   Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot á 194. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.  Ber því að dæma X, sem brotaþola í málinu, miskabætur úr hendi ákærða vegna ólögmætrar mein­gerðar gegn persónu hennar og friði, sbr. b-lið 26. gr. nefndra skaðabótalaga.  Brot ákærða eru svívirðileg.  Þau voru framin á auðmýkjandi hátt, einkum seinna brotið, sem framið var í skjóli and­legs og líkamlegs ofbeldis gagn­­vart fyrr­­verandi sambýlis­konu hans og að undan­gengnum grófum hótunum.  Slíkir atburðir eru til þess fallnir að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sál­rænum erfiðleikum.  Í því tilviki sem hér um ræðir velkist dómurinn ekki í vafa um að X hafi orðið fyrir alvarlegu and­legu og til­finningalegu áfalli, sem muni há henni um ófyrirséða framtíð, en samkvæmt vætti Guð­bjargar Rögnu Ragnarsdóttur sálfræðings hefur stúlkan verið til sálfræðimeð­ferðar með hléum í um níu mánuða skeið og á enn langt í land með að ná fullum bata.  Þykja því miskabætur hæfilega ákveðnar krónur 1.000.000.  Skal fjárhæðin bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 6. mars 2000 til dómsupp­sögu­dags, en frá þeim degi dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna til greiðslu­dags.

III.

   Sif Konráðsdóttir hrl., skipaður réttargæslumaður Z, B og A, krefst fyrir þeirra hönd bóta úr hendi ákærða.  Þá krefst réttargæslumaðurinn þóknunar sér til handa sam­kvæmt fram­lögðum málskostnaðar­reikningi vegna réttargæslu í málinu.

   Fyrir hönd Z er krafist bóta að fjárhæð krónur 8.729.496 fyrir missi fram­færanda, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. október 2000 til greiðsludags, miskabóta að fjárhæð krónur 2.000.000, auk dráttar­vaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og bóta að fjárhæð krónur 45.290 vegna kostnaðar við gagnaöflun, með dráttar­­vöxtum af krónum 15.540 frá 28. september til 15. nóvember 2000, en af krónum 45.290 frá þeim degi til greiðslu­dags.

   Fyrir hönd B er krafist miskabóta að fjárhæð krónur 1.000.000, auk dráttarvaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og bóta að fjárhæð krónur 18.000 vegna kostnaðar af gagnaöflun, auk dráttarvaxta frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.

Fyrir hönd A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum krónur 226.288 í bætur vegna útfarar­kostnaðar, með dráttarvöxtum af krónum 201.820 frá 15. maí til 8. júní 2000, en af krónum 226.288 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð krónur 1.000.000, auk dráttarvaxta frá 15. apríl 2000 til greiðsludags og bóta að fjár­hæð krónur 18.000 vegna kostnaðar af gagnaöflun.

Af hálfu ákærða er fallist á kröfu A um bætur vegna útfararkostnaðar, eins og sú krafa er sett fram.  Öðrum bótakröfum er mótmælt og þess krafist aðallega að þeim verði vísað frá dómi, en ellegar verði ákærði sýknaður af kröfunum eða þær lækkaðar stórlega að mati dómsins. 

Hér á eftir verður fjallað um hverja bótakröfu fyrir sig og afstaða tekin til þeirra.

Bótakröfur Z: 

1.

Krafa hans um bætur fyrir missi framfæranda er byggð á 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Vegna kröfunnar hefur verið aflað útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, sem dagsettur er 10. október 2000, á fjártjóni Z og er ekki deilt um niðurstöður hans.  Eru vinnutekjur Y heitinnar árið 1999 lagðar þar til grundvallar, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 6. gr. laga nr. 37/1999, og teljast þær nema krónum 1.437.000.  Við þær er bætt 6% vegna áætlaðs tillags í lífeyrissjóð. Niður­staðan er þessi:

                                                                                                                                   Með   vísitölu

   Örorka 100%                                        

Árlegt tap kr.     1.579.522

   Höfuðstólsstuðull                  18,03%                                                 kr. 28.480.360         28.480.360

   Samtals                                                                                                                  28.480.360

   Vextir, 4,5%, frá dánardegi til útreikningsdags % 2,17                        617.962

   Bætur fyrir 100% örorku með vöxtum frá 10/10 2000                                      29.098.321

   Bætur til maka, 30%                                                                                               8.729.436

 

   Samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber skaðabótaábyrgð á dauða annars manns greiða hæfilegan útfararkostnað og að auki greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann.  Í 13. gr. sömu laga er sérstaklega mælt fyrir um það að bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skuli vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5. og 8. gr. laganna.

   Eins og að framan er rakið hefur ákærði verið fundinn sekur um brot á 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa banað Y.  Kemur því til álita hvort Z eigi rétt til bóta samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Bótaskylda ákærða að þessu leyti ræðst af því hvort Z hafi verið sambúðar­maki Y í skilningi 13. gr. skaðabótalaga og beri þar með bætur fyrir missi fram­færanda.  Lagagreinin áskilur það eitt að um sambúðar­maka sé að ræða er misst hafi framfæranda.  Verður því að leggja á það mat hvort svo hafi hagað til í sambúð Z og Y heitinnar.  Það mat verður að byggja á framlögðum gögnum og upplýsingum um sambúð þeirra, svo og hefðbundnum lögskýringargögnum og lög­skýringarsjónarmiðum. 

Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga segir meðal annars um 13. gr. laganna, að það sé eigi skilyrði bótaréttar sambúðarmaka að sambúð hafi staðið tiltekinn lágmarkstíma eða sambúðarmaki hafi átt barn með hinum látna.  Dómstólar meti sjálfstætt hvort um framfæranda hafi verið að ræða.  Eigi sé unnt að móta skýra lagareglu sem leysi þann vanda sem fylgi því að dæma um hvort sambúðarmaki hafi í reynd misst framfæranda.  Það sé háð mati hverju sinni.  Það sem skipti sköpum í þessu efni sé hins vegar hvort sambúð hins látna og bótakrefjanda á þeim tíma, er tjón bar að höndum, hafi verið þess eðlis að rök séu til að jafna henni til hjúskapar.  Það sé skilyrði bótaréttar að hinn látni hafi verið framfærandi bótakrefjanda.  Hér ráði almennt úrslitum hvort sá sem krefst bóta hafi raunverulega verið á framfæri hins látna.  Minna máli skipti í þessu sambandi hvort hinn látni var að lögum framfærslu­skyldur.  Þá sé þess ekki fortakslaust krafist að um framfærslu hafi verið að ræða á tjónsdegi.  Ef verulegar líkur séu á að bótakrefjandi hefði síðar notið fjár úr hendi hins látna myndi hann geta átt kröfu til bóta fyrir missi framfæranda.  Þá skipti ekki máli samkvæmt 13. gr. hversu mikil framfærslan var.

   Danskir fræðimenn á sviði skaðabótaréttar hafa í ritum sínum fjallað um 13. gr. dönsku skaðabótalaganna, sem er samhljóða 13. gr. íslensku skaðabótalaganna.

Í umfjöllun danska fræðimannsins Bo Von Eyben í ritinu Erstatningsutmåling (Gadsforlag 1984) um rétt sambúðarmaka til bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. dönsku skaðabótalaganna, telur hann tímalengd sambúðar vera eitt þeirra atriða sem hafa verði í huga við mat á því hvort sambúðin hafi verið þess eðlis að rök séu til að jafna henni til hjúskapar.  Önnur atriði sem máli skipti við þetta mat séu sameigin­legt heimili, sameiginlegt heimilishald og sameiginlegur fjárhagur, kynferðissamband, sameiginleg börn eða annars sameiginleg framfærsla barna og það á hvern hátt við­komandi komi fram út á við.  Úr þessu verði að skera á grundvelli heildarmats á þessum atriðum; þó verði að leggja höfuðáherslu á sameiginlegan fjárhag og heimilis­hald þegar um sé að ræða kröfu um bætur fyrir missi framfæranda.

   Í riti sínu Erstatning og godtgörelse (Gadsforlag 1986) fjalla höfundarnir, Bernard Gomard lagaprófessor og Ditlev Wad lögmaður meðal annars um hvaða áhrif tímalengd sambúðar kunni að hafa á mat á því hvort um sambúð í skilningi 13. gr. dönsku skaðabótalaganna sé að ræða.  Þeir taka fram, að enda þótt ekki sé skilyrði bóta samkvæmt ákvæðinu að sambúð hafi staðið tiltekinn tíma, þá verði að gera þá kröfu að sambúðin hafi haft eða að ákveðið hafi verið að hún hefði varanleg einkenni. Hafi sambúðin varað stutt verði eftirlifandi sambúðarmaki að sýna fram á að sam­búðar­aðilar hafi verið staðráðnir í að sambúð þeirra yrði varanleg.  Telja þeir oft vandkvæðum bundið, þegar um stutta sambúð er að ræða, að sanna þetta.  Hafi aðilar á hinn bóginn haft sameiginlegan fjárhag í umtalsverðum mæli og eftirlifandi sam­búðar­maki að öllu leyti eða að hluta þegið framfærslu frá hinum látna, eftir atvikum með þeim hætti að að hinn látni starfaði á sameiginlegu heimili, þá séu komnar fram löglíkur fyrir því að um sambúð í skilningi 13. gr. skaðabótalaga hafi verið að ræða.

   Í máli þessu skortir mjög upplýsingar og gögn um sambúð Y heitinnar og Z.  Fram er komið að Z, sem er rússneskur, en búsettur í Lettlandi og ríkisfangslaus, kom hingað til lands til starfsþjálfunar á vegum BYKO.  Í bréfi BYKO, sem lagt var fram í málinu, kemur fram að Z hafi fyrst komið hingað til lands til starfsþjálfunar 18. júlí 1999.  Hann hafi síðan farið til síns heima 19. desember sama ár, en komið aftur 4. febrúar 2000 í sömu erindagjörðum og áður, þ.e. til starfsþjálfunar.  Hann hafi verið í starfsþjálfun eins og áður greinir, en skömmu eftir síðari komu sína hafi hann óskað eftir atvinnu- og dvalarleyfi.  Á tíma starfs­þjálfunar hafi BYKO séð um uppihald og dvalarkostnað, ásamt því að greiða ferða­kostnað.

Samkvæmt vottorði þjóðskrár Hagstofu Íslands, dagsettu 10. október 2000, hafði Y  heitin skráð lögheimili að [ . . . ], frá 4. apríl 2000 til dánardægurs 15. apríl sama ár.  Fram er komið, að annan eigenda fasteignarinnar [ . . . ], K, minnti að Y heitin og Z  hefðu flutt inn í kjallaraíbúðina á [ . . . ]um mánaðamót mars-apríl 2000.  Hinn eigandinn, S, eiginkona K, kvað þau Y heitina og Z hafa flutt inn í íbúðina 6. apríl 2000.  Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvað Zr þau Y heitina ekki hafa verið í formlegri sambúð, þ.e. ekki skráðri sambúð.  Hann kvað þau hafa kynnst í ágúst 1999 og fyrst búið saman á heimili foreldra hennar.  Fyrir dómi bar Z, að þau hefðu hafið sambúð í október 1999, á heimili systur Y heitinnar í [ . . . ].  Þaðan hefðu þau flutt heim til foreldra hennar, í febrúar 2000, áður en þau hefðu flutt að [ . . . ] í mars.  Þau hefðu ekki verið í skráðri sambúð.

Í málinu er ekki til að dreifa frekari gögnum um samband Z og Y heitinnar.  Engin gögn hafa verið lögð fram um skipan fjármála þeirra og framtíðaráform eða hvort Y heitin hafi framfært Z á einhvern hátt í skilningi 13. gr. skaðabótalaga.  Að því virtu hversu sambúð þeirra á sameiginlegu heimili hafði staðið stutt er andlát Y bar að höndum og að teknu tilliti til þeirra lögskýringarsjónarmiða, sem að framan eru rakin varðandi túlkun á 13. gr. skaðabóta­laganna, þykir það verulega skorta á upplýsingar og gögn um eðli sambúðar þeirra að ekki verður lagður efnisdómur á þennan kröfulið án frekari gagnaöflunar og mál­flutnings.  Slíkum málflutningi verður nú eigi komið við í máli þessu.  Samkvæmt þessu verður eigi komist hjá því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

2.

Miskabótakrafa Z er byggð á 1. og 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Ákærði hefur í dómi þessum verið fundinn sekur um meiri háttar líkamsárás á Z samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.  Þykir Z  því eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Z hefur jafnframt krafist miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 2. mgr. 26. gr. téðra laga og verður heildar­fjár­hæð miska­bóta því ákvörðuð í kjölfar umfjöllunar um þá kröfu.

   Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga má gera þeim, sem af ásetningi eða stór­felldu gáleysi veldur dauða annars manns, að greiða maka, börnum eða foreldrum miskabætur.  Nær ákvæðið einnig til sambúðarfólks.  Ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir brot á 211. gr. almennra hegningarlaga.  Þykja því skilyrði til að dæma miskabætur úr hans hendi samkvæmt þessu ákvæði.  Þegar þann atburð bar að höndum sem leiddi til dauða Y höfðu hún og Z nýlega hafið sam­búð á eigin heimili.  Dómurinn hefur hér að framan vísað frá dómi kröfu Z um bætur fyrir missi framfæranda á þeim forsendum að gögn skorti því til sönnunar að sambúð hans og Y heitinnar hafi verið með þeim hætti sem með áður­greindum lögskýringarsjónarmiðum verður ráðið að 13. gr. skaðabótalaga áskilji fyrir bótarétti.  Á hinn bóginn þykja rök eigi standa til þess að hugtakið „maki“ í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verði skýrt jafn þröngt og hugtakið „sambúðarmaki“ í 13. gr. laganna.  Kemur þar til að bætur samkvæmt 13. gr. eru vegna fjárhagslegs tjóns, en bætur samkvæmt 26. gr. eru  reistar á öðrum sjónarmiðum.

Í máli þessu eru ekki bornar brigður á að samband Z og Y heitinnar hafi verið innilegt.  Þau höfðu verið elskendur um nokkurt skeið og skömmu fyrir andlát Y höfðu þau farið að búa saman í leiguíbúð.  Í sálfræðilegri álits­gerð Margrétar Arnljótsdóttur frá 15. nóvember 2000, um áhrif dauða Y á foreldra hennar, sem sálfræðingurinn staðfesti fyrir dómi, kemur meðal annars fram, að foreldrar Y hafi sagt í viðtölum að Z og Y heitin hafi verið ástfangin og ánægð með að vera að koma sér fyrir í nýrri íbúð.  Þá kom fram í viðtali sálfræðingsins við föður Y, að hann heimsækti Z oft eftir atburðinn, enda liti hann á Z sem tengdason sinn.  Að áliti dómsins er ótvírætt, að hinir vofveiflegu atburðir að [ . . . ] hafa verið til þess fallnir að valda Z marg­­víslegum sál­rænum erfiðleikum og þykir ljóst að hann hafi orðið fyrir alvarlegu and­legu og tilfinningalegu áfalli.  Því til stuðnings má vísa til álitsgerðar Sigurðar Páls Pálssonar geðlæknis frá 15. nóvember 2000 og vættis hans fyrir dómi, en að sögn geð­læknisins þjáist Z greinilega af þunglyndi.  Hann sé haldinn lífsleiða, til­finningaleysi og langvinnri sorg, sem þróast hafi yfir í þunglyndi.  Gæti hann því þurft að taka lyf vegna þunglyndis.  Á þessu stigi væri engin leið að segja til um batahorfur hans. Honum geti versnað, neikvæðni, þunglyndi og lífsleiði geti aukist.

Á því þykir mega byggja, að Z hafi ásamt foreldrum Y verið henni nákomnastur þegar andlát hennar bar að höndum.  Þykir Z því eiga rétt á miskabótum samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærða.  Verða honum ákvarðaðar miskabætur í einu lagi vegna líkamsárásarinnar, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og andláts Y heitinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. sömu laga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Þykja þær hæfilega ákveðnar krónur 1.500.000.  Ber ákærða að greiða þá fjárhæð með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá verknaðar­degi 15. apríl 2000 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til greiðsludags.

3.

Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða Z krónur 45.290 vegna kostnaðar við gagna­öflun, með dráttarvöxtum af krónum 15.540 frá 28. september til 15. nóvember 2000, en af krónum 45.290 frá þeim degi til greiðsludags.

 

Bótakröfur B.

1.

Miskabótakrafa B, móður Y heitinnar, er byggð á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með áorðnum breytingum.

.  Eins og fram hefur komið í máli þessu hafði Y heitin, sem var yngsta barn foreldra sinna, nýlega flutt úr foreldrahúsum, er henni var ráðinn bani.  Hafði hún einungis búið fjarri foreldrahúsum í tvær vikur.  Dómurinn telur það engum vafa undir­orpið, að dauði Y og einkum hvernig honum var valdið með hrotta­fengnum atlögum ákærða, hafi verið til þess fallinn að valda foreldrum hennar miklu áfalli, langvinnri sorg og þjáningum.  Samkvæmt vætti Margrétar Arnljótsdóttur sál­fræðings urðu foreldrar Y heitinnar fyrir áfallaröskun, sem ekki hverfi án sál­fræðilegrar meðferðar.  Óumdeilt er að náið samband var milli Y heitinnar og foreldra hennar.

Að þessu virtu þykir B eiga rétt til miskabóta samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Þykja bætur til hennar úr hendi ákærða hæfilega ákveðnar krónur 500.000 og skal fjárhæðin bera vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá verknaðardegi 15. apríl 2000 til dómsuppsögudags, en frá þeim tíma og til greiðslu­dags dráttarvexti samkvæmt III. kafla laganna.

2.

   Þá ber samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opin­berra mála að dæma ákærða til að greiða B krónur 18.000 í bætur vegna gagnaöflunar, auk dráttarvaxta frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.  Þessi fjárhæð er helmingur af kostnaði við öflun sálfræðilegrar álitsgerðar Margrétar Arnljótsdóttur.

 

Bótakröfur A.

1.

Krafa A, föður Y heitinnar, um miskabætur úr hendi ákærða er byggð á sömu lagaákvæðum og krafa móður hennar, sem reifuð er hér á undan.  Með sömu rökum og þar koma fram ber að fallast á að A beri miska­bætur úr hendi ákærða.  Þykja þær hæfilega ákveðnar krónur 500.000 og skulu bera sömu vexti og miskabótakrafa móðurinnar.

2.

   Þá ber samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til að greiða A krónur 18.000 í bætur vegna kostnaðar af gagnaöflun.  Er þar um að ræða helming af kostnaði við öflun álitsgerðar Margrétar Arnljótsdóttur sál­fræðings.

3.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða A krónur 226.288 í bætur vegna útfararkostnaðar, með dráttarvöxtum af krónum 201.820 frá 15. maí til 8. júní 2000, en af krónum 226.288 frá þeim degi til greiðsludags.

 

IV.

   Samkvæmt greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999, ber að dæma ákærða til að greiða þóknun Maríu Thejll hdl., skipaðs réttar­gæslu­manns X.  Þykir þóknun til lögmannsins hæfilega ákveðin krónur 200.000.

   Einnig ber að dæma ákærða til að greiða þóknun Sifjar Konráðsdóttur hrl., skipaðs réttargæslumanns Z, B og A, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 350.000.

   Þá ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarlaun Andra Árnasonar hrl., skipaðs verjanda síns, sem þykja hæfilega ákveðin krónur 600.000.

   Ákærði greiði enn fremur annan áfallinn sakarkostnað í málinu, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 164. gr. sömu laga, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999.

   Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.

 Ólöf Pétursdóttir dóm­­­­stjóri og meðdómsmennirnir Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og Jónas Jóhannsson héraðs­dómari kváðu upp dómuinn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Rúnar Bjarki Ríkharðsson, sæti fangelsi í 18 ár og komi óslitin gæslu­varð­halds­vist hans frá 15. apríl 2000 refsingu til frádráttar.

Ákærði greiði X krónur 1.000.000, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 6. mars 2000 til dómsupp­sögu­dags, en með dráttar­vöxtum frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði greiði Z krónur 1.500.000, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 15. apríl 2000 til dómsupp­sögu­dags, en með dráttar­vöxtum frá þeim degi til greiðslu­dags og krónur 45.290, með dráttar­­vöxtum af krónum 15.540 frá 28. september til 15. nóvember 2000, en af krónum 45.290 frá þeim degi til greiðslu­dags.

Ákærði greiði B krónur 500.000, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 15. apríl 2000 til dómsupp­sögu­dags, en með dráttar­vöxtum frá þeim degi til greiðslu­dags og krónur 18.000, með dráttarvöxtum frá 15. nóvember 2000 til greiðsludags.

Ákærði greiði A krónur 500.000, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga, frá 15. apríl 2000 til dómsupp­sögu­dags, en með dráttar­vöxtum frá þeim degi til greiðslu­dags, krónur 226.288, með dráttarvöxtum af krónum 201.820 frá 15. maí til 8. júní 2000, en af krónum 226.288 frá þeim degi til greiðsludags og loks krónur 18.000, án vaxta.

   Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun Maríu Thejll hdl., skipaðs réttar­gæslu­manns X, krónur 200.000, þóknun Sifjar Konráðsdóttur hrl., skipaðs réttar­gæslu­manns Z, B og A, krónur 350.000 og máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, Andra Árna­sonar hrl., krónur 600.000.