Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/1999
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Lán
- Kyrrsetning
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 1999. |
|
Nr. 316/1999. |
María Hrönn Magnúsdóttir (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Sigurði Hjartarsyni (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.) |
Fasteignakaup. Lán. Kyrrsetning.
M og B, bjuggu saman í óvígðri í sambúð. Vegna kaupa M og B á íbúð í janúar 1998 reiddi S, faðir B, fram samtals 1.611.072 krónur sem runnu beint til seljenda íbúðarinnar, en íbúðin var keypt í nafni M. Eftir að slitnaði upp úr sambúð M og B í mars 1998 krafðist S endurgreiðslu fjárins úr hendi M. M greiddi S 1.000.000 krónur en ákvað að bíða með frekari greiðslur þar til skiptum hefði verið lokið milli hennar og B. S gerði þá kyrrsetningu í íbúðinni fyrir eftirstöðvum skuldarinnar. Talið var ljóst, að framlag S hefði verið innt af hendi á þeirri forsendu að um framhald yrði að ræða á sambúð M og B og hefði M ekki getað vænst þess að þetta væri framlag til hennar. Var því hafnað, að S væri ekki réttur aðili kröfunnar. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að M skyldi greiða S eftirstöðvar skuldarinnar, þó þannig að vextir voru fyrst dæmdir frá þeim degi er endurgreiðslukrafan var sannanlega gerð. Kyrrsetningargerðin í íbúð M var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 9. ágúst 1999. Hún krefst þess að verða sýknuð af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi og sonur stefnda voru í óvígðri sambúð og lagði stefndi fram fjármuni til kaupa á íbúð fyrir þau í janúar 1998. Íbúðin var keypt á nafn áfrýjanda. Litlu síðar slitnaði upp úr sambúðinni. Áfrýjandi hefur greitt stefnda 1.000.000 krónur af framlagi hans. Eftir standa þá 611.072 krónur sem hann krefst með vöxtum og kostnaði. Áfrýjandi hefur hafnað frekari greiðslum fyrr en búið sé að skipta eignum hennar og sonar stefnda.
Ljóst er að framlag stefnda var innt af hendi á þeirri forsendu að um framhald yrði að ræða á sambúð áfrýjanda og sonar hans. Áfrýjandi gat ekki vænst þess að þetta væri framlag til hennar og þetta voru fjármunir stefnda en ekki sonar hans. Stefndi er því réttur aðili að kröfu þessari. Hann krafðist eftirstöðva framlags síns sannanlega með bréfi 1. apríl 1998 og fékk 21. apríl sama ár kyrrsetta fasteignina Fífurima 1 í Reykjavík til tryggingar kröfu sinni. Áfrýjandi var skuldsett og stefndi hafði enga tryggingu fyrir kröfunni.
Með framangreint í huga og annars með skírskotun til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann um annað en vexti og málskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Samkvæmt þessari niðurstöðu skal áfrýjandi greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Það athugast að sýslumanni hefði verið réttara að tilkynna áfrýjanda um framkvæmd kyrrsetningarinnar samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 21. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þótt það þyki ekki hér leiða til réttarspjalla.
Dómsorð:
Áfrýjandi, María Hrönn Magnúsdóttir, greiði stefnda, Sigurði Hjartarsyni, 611.072 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. apríl 1998 til 1. maí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Kyrrsetning sem fram fór í íbúð áfrýjanda að Fífurima 1 í Reykjavík 21. apríl 1998 er staðfest.
Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talinn kostnað vegna kyrrsetningargerðar.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 1999.
Mál þetta sem dómtekið var 10. júní sl. er höfðað með stefnu útgefinni 27. apríl 1998 og þingfest 12. maí 1998.
Stefnandi er Sigurður Hjartarson, kt. 131241-2679, Hléskógum 24, Reykjavík.
Stefnda er María Hrönn Magnúsdóttir, kt. 1 10767-5529, Fífurima 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
1. Að staðfest verði kyrrsetning sem gerð var hjá Sýslumanninum í Reykjavík þriðjudaginn 21. apríl 1998 í íbúð að Fífurima 1, Reykjavík, sem er þinglesin eign stefndu.
2. Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 649.864 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1998 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir verði lagðir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. maí 1999, allt í samræmi við 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
3. Þá er krafist málskostnaðar, þ.m.t. kyrrsetningarkostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk greiðslu er jafngildi virðisaukaskattsgreiðslu stefnanda af málflutningsþóknuninni.
Dómkröfur stefndu er þær; að hún verði alfarið sýknuð af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda skv. mati dómsins.
MÁLAVEXTIR
Stefnandi kveður málavexti vera þá að stefnda og sonur stefnanda, Birgir Sigurðsson, kt. 300464-2039, hafi verið í óvígðri sambúð undanfarin ár, þó ekki samfellt. Þau hafi til skamms tíma búið að Laugavegi 26, Reykjavík, í húsnæði stefnanda. Húsnæðið hafi verið selt og þau hafi orðið að rýma íbúðina. Þau hafi ákveðið að festa kaup á íbúð í Fífurima 1, Reykjavík. Stefnda hafi gert tilboð í íbúðina 23. janúar sl., sem hafi verið samþykkt. Stefnandi hafi samþykkt að reiða fram lán til stefndu vegna íbúðarkaupanna, samtals 1.611.072 krónur, sem greitt hafi verið þannig:
Hinn 23. janúar 1998 kr. 400.000,00
Hinn 11. febrúar 1998 kr. 1.018.474,00
Hinn 11. febrúar 1998 kr. 166.750,00
Hinn 11. febrúar 1998 kr. 25.848,00
Samtals kr. 1.611.072,00
Lánið hafi að sjálfsögðu verið bundið því skilyrði, að sambúð þeirra Birgis og stefndu héldist, en ef ekki þá yrði stefnda að endurgreiða lánið strax. Stefnandi kveður að sviptingar hafi orðið með stefndu og Birgi, sem leitt hafi til sambúðarslita. Þar með hafi lánið fallið í gjalddaga. Stefnandi kveðst hafa krafist þess að stefnda greiddi nú þegar lánið, auk meðaltalsvaxta af almennum óverðtryggðum skuldbindingum. Stefnda hafi boðist til þess að endurgreiða stefnanda lánið á þann hátt að greiða í peningum 1.225.000 krónur og afganginn með bifreið, sem hún hafi metið á 400.000 krónur, eða samtals 1.625.000 krónur. Hún hafi bundið þessa greiðslu því skilyrði að fyrst færi fram uppgjör milli sín og Birgis vegna íbúðarinnar og innbús. Stefnandi hafi hafnað boðinu um bifreiðina. Stefnandi kveðst hafa bent á að sviptingar stefndu og Birgis séu alfarið þeirra mál og honum algerlega óviðkomandi.
Stefnandi segir að lögmanni stefndu hafi verið sent kröfubréf út af skuldinni 1. apríl sl., þar sem stefnda hafi verið formlega krafin um endurgreiðslu lánsins, ásamt vöxtum og kostnaði.
Stefnda hafi endurgreitt af láninu 1.000.000 krónur. Hafi hún gert það 3. apríl síðastliðinn. Stefnandi kveður höfuðstól stefnukröfunnar þannig fundinn:
Lán stefnanda til stefndu 23.1 .1998 |
kr. 400.000,00 |
Lán stefnanda til stefndu 1 1 .2.1998 |
kr. 1.211.072,00 |
|
Meðaltalsvextir af óverðtryggðum skuldbindingum frá 23.1 1998 og 1 1 .2.98 til 3.4.98 |
kr. 32.600,00 |
|
Til frádráttar innborgun 3.4.98, sem gekk fyrst inn á vexti og síðan höfuðstól |
kr. -1.000.000 |
Meðaltalsvextir af óverðtryggðumskuldbindingum af kr. 643.672,00 frá 3.4.98 til 30.4.98 |
kr. 6.192,00 |
Eftirstöðvar |
kr. 649.864,00 |
Stefnanda kveðst vera kunnugt um að stefnda sé mjög skuldug og þess vegna hafi verið hætta á því að kröfuhafar hirtu eignir hennar og væru horfur á að eignastaða hennar myndi mjög versna og því hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnanda að tryggja hagsmuni sína með því að kyrrsetja fyrir kröfu sinni þær eignir sem enn væru í eigu stefndu að því marki sem þær nægðu til að tryggja kröfurnar. Stefnandi kveðst því hafa beðið um kyrrsetningu í íbúðinni að Fífurima 1, Reykjavík og hafi sýslumaður orðið við þeirri beiðni.
Stefnandi kveðst höfða þetta mál til staðfestingar á kyrrsetningunni og til að fá aðfararhæfan dóm fyrir skuld stefndu við sig. Stefnandi kveðst krefjast meðaltalsvaxta af óverðtryggðum skuldbindingum, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, af láninu frá þeim dögum sem það var greitt til stefndu og til 30. apríl n.k., en eftir það kveðst stefnandi krefjast dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, en 1. maí 1998 hafi mánuður verið liðinn frá því að stefnda var formlega krafinn um endurgreiðslu lánsins, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
MÁLSÁSTÆÐUR.
Stefnandi kveðst hafa lánað stefndu, sem verið hafi í sambúð með syni stefnanda, 1.611.072 krónur í janúar og febrúar síðastliðnum. Lánið kveður stefnandi hafa verið ætlað til íbúðarkaupa. Þegar upp úr sambúð sonar stefnanda og stefndu slitnaði hafi stefnandi endurkrafið stefndu um lánið. Stefnda hafi endurgreitt hluta af láninu, en ekki allt. Stefnda hafði þar með viðurkennt skuld sína við stefnanda, en ekki hafi að svo stöddu verið hægt að tryggja hana með aðför. Það hafi hins vegar verið nauðsynlegt að tryggja að ekki yrði um undanskot eða rýrnun eigna að ræða meðan verið væri að fá dóm fyrir kröfunni og því hafi verið beðið um kyrrsetningu fyrir skuldinni og hafi hún farið fram.
Stefnandi kveður einnig nauðsynlegt fyrir sig að fá dóm fyrir skuld stefndu við sig.
Stefnandi kveðst vísa til 36. gr. laga 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl.
Varðandi málskostnaðarkröfuna kveðst stefnandi vísa til 1. mgr. 130. gr. og 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi bendir á að hann er ekki virðisaukaskattskyldur aðili og kraf um greiðslu er jafngildir virðisaukaskattsgreiðslu hans á málflutningsþóknuninni byggist á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert að innheimtu virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Því kveðst stefnandi nauðsynlegt að hann fái dóm fyrir virðisaukaskattsgreiðslunni úr hendi stefndu.
Um lagarök að öðru leyti kveðst stefnandi vísa til kaflans um málavexti hér að framan.
Af hálfu stefndu er því mótmælt að stefnandi, sem sé faðir Birgis, fyrrverandi sambýlismanns stefndu, hafi lánað henni fé til að kaupa umrædda íbúð að Fífurima 1 hér í borg. Hér hafi ekki verið um lán að ræða til stefndu heldur framlag stefnanda til sonar síns, Birgis, sem skyldi sérgreint honum og koma til endurgreiðslu ef upp úr sambúð Birgis og stefndu slitnaði. Hafi verið talað um að hér væri um að ræða fyrirfram greiddan arf til Birgis. Í mars 1998 hafi slitnað upp úr sambúð stefndu og sonar stefnanda og hafi þá hafist viðræður um uppgjör milli þeirra með milligöngu lögmanna aðila. Í þeim viðræðum hafi komið fram boð stefndu um að hún greiddi framlag Birgis með þeim hætti sem lýst sé í stefnu en það hafi þó allaf verið háð því skilyrði að uppgjör færi fram milli stefndu og Birgis. Í því hafi engan vegin falist skuldaviðurkenning. Hinn 3. apríl 1998 hafi stefnda greitt til skrifstofu Guðmundar Ingva Sigurðssonar hrl. kr. 1.000.000 en ákveðið að bíða með greiðslu eftirstöðva þar til skiptum væri lokið vegna sambúðar hennar og Birgis ekki síst vegna þess að farið hafi verið fram á gjaldþrotaskipti á búi Birgis og gætu því umtalsverðar fjárskuldbindingar lent á henni.
Af hálfu stefndu er byggt á því að stefnandi eigi ekki aðild að máli þessu og því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda, sbr. 16. gr. eml. nr. 91/1991. Mál þetta snúist um framlag Birgis til sambúðar við stefndu. Framlagi þessu hafi stefnda átt að standa skil á við Birgi en ekki föður hans. Engin skjalleg gögn liggi til grundvallar aðild stefnanda að málinu.
Af hálfu stefndu er á því byggt að skilyrði kyrrsetningar, skv. 5. gr. laga nr. 31/1990, hafi ekki verið fyrir hendi. Stefnda hafi haft fullan rétt á því að bíða með uppgjör vegna framlags Birgis þar til uppgjör hefði farið fram á milli þeirra. Þá hafi hún sýnt fullan vilja og getu til þess að greiða umrædda skuld m.a. með innborgun hinn 3.apríl 1998 og engin ástæða til að ætla að hún myndi eða gæti ekki staðið í skilum með eftirstöðvarnar. Kyrrsetning hafi því verið óþörf og því beri að hafna kröfum stefnanda um staðfestingu hennar.
Af hálfu stefndu er mótmælt öllum fullyrðingum stefnanda um að hér hafi verið um að ræða lán til stefndu sem hún ætti að endurgreiða með vöxtum. Hér sé um að ræða framlag Birgis sem komi inn í skipti á eignum og skuldum á sambúðartímanum. Fyrr sé ekki hægt að tala um að skuldin sé gjaldfallinn. Þá er vaxtakröfum mótmælt.
Kröfu um málskostnað styður stefnda við l. mgr. 130.gr. laga nr. 90/1991 um meðferð einkamála. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnda er ekki virðisaukaskattskyldur aðili.
NIÐURSTAÐA
Fram kemur í málinu að stefnda er þinglýstur eigandi íbúðar að Fífurima 1 og að hún gerði tilboð í hana sem samþykkt var 23. janúar 1998. Þá kemur fram að stefnandi greiddi útborgun til seljenda fasteignarinnar í janúar og febrúar 1998 og að stefnda greiddi honum 1.000.000 króna 3. apríl 1998.
Stefnda varð eigandi nefndrar íbúðar með yfirtöku áhvílandi skulda á henni og greiðslu útborgunar sem stefnandi innti af hendi og er fallist á þá málsástæðu stefnanda að hann hafi lánað henni 1.611.072 krónur vegna íbúðakaupanna og að henni beri að endurgreiða honum lán þetta með því að ekki er sýnt fram á að um gjalddaga eða lánstíma hafi verið samið.
Samkvæmt þessu verður fallist á þá kröfu stefnanda að stefndu verði gert að greiða honum eftirstöðvar skuldarinnar með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Þá þykja skilyrði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. vera uppfyllt og er ekki fallist á það með stefndu að skilyrði 5. gr. þeirra laga hafi ekki verið fyrir hendi er kyrrsetning fór fram. Framangreind kyrrsetningargerð verður því staðfest.
Eftir úrslitum málsins verður stefndu gert að greiða stefnanda 200.000 krónur í málskostnað og er þá litið til reglna um greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefnda, María Hrönn Magnúsdóttir, greiði stefnanda, Sigurði Hjartarsyni, 649.864 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 1998 til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.
Framangreind kyrrsetning er staðfest.