Hæstiréttur íslands
Mál nr. 96/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Flýtimeðferð
|
|
Föstudaginn 14. febrúar 2014. |
|
Nr. 96/2014. |
Eva
Guðrún Vestmann (Daníel Isebarn Ágústson hrl.) gegn Lánasjóði
íslenskra námsmanna (enginn) |
Kærumál.
Flýtimeðferð.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E um að mál sem hún hugðist
höfða á hendur L sætti flýtimeðferð.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð í máli hennar á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að gefa út réttarstefnu til flýtimeðferðar í málinu.
Varnaraðili hefur ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31.
janúar 2014.
I
Með bréfi, dagsettu 27.
janúar sl., fer Daníel Isebarn Ágústsson hrl. þess á leit við dóminn að mál sem
umbjóðandi hans, Eva Guðrún Vestmann, með lögheimili að Skessugili 8, Akureyri,
en aðsetur í Bretlandi, hyggst höfða á hendur Lánasjóði íslenskra námsmanna
sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála.
Samkvæmt bréfi
lögmannsins varðar mál þetta afturköllun Lánasjóðs íslenskra námsmanna á áður
veittu samþykki lánsumsóknar umbjóðanda hans, vegna náms í kvikmyndagerð í
Bretlandi skólaárið 20132014. Telur hann afturköllunina ólögmæta og gerir þá
kröfu samkvæmt meðfylgjandi stefnu að ákvarðanir sjóðsins um afturköllun fyrri
ákvörðunar um að veita stefnanda námslán verði felldar úr gildi. Jafnframt er
þess krafist að viðurkennt verði að fyrri ákvarðanir lánasjóðsins, frá 19.
apríl og 2. ágúst 2013, séu í gildi og eigi stefnandi því rétt til námsláns
fyrir skólaárið 2013-2014 vegna náms. Byggir lögmaðurinn á því að umbjóðandi
hans hafi haft réttmætar væntingar til þess að ákvörðun Lánasjóðs íslenskra
námsmanna um samþykki á lánsumsókn væri endanleg og yrði ekki afturkölluð á
síðari stigum. Þá telur hann það hvorki samræmast lögum um Lánasjóð íslenskra
námsmanna nr. 21/1992, stjórnsýslulögum nr. 37/1993, né almennum reglum
stjórnsýsluréttar að stjórn lánasjóðsins geti afturkallað þegar veitt samþykki
fyrir námslánum. Því skorti afturköllunina lagastoð. Jafnframt er á því byggt
að búsetuskilyrði ákvæða gr. 1.1.1 í núgildandi úthlutunarreglum lánasjóðsins
og 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011 skorti lagastoð, ásamt því að brjóta gegn
jafnræðisreglum 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 11. gr. stjórnsýslulaga, 14. gr.
mannréttindasáttmála Evrópu, reglum um meðalhóf, sem og þjóðréttarlegum
skuldbindingum Íslands. Umrædd búsetuskilyrði útiloki um leið möguleika
námsmanna á því að flytjast búferlum innan Evrópska efnahagssvæðisins og stunda
nám innan annarra EES-ríkja. Í bréfi lögmannsins er loks lögð áhersla á að
athafnir Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafi almenna þýðingu og varði stórfellda
hagsmuni umbjóðanda hans, annarra námsmanna og borgara. Telur hann afar brýnt
að málið fái skjóta úrlausn svo eytt verði þeirri óvissu sem uppi sé í þessu
máli og öðrum hliðstæðum. Í lok bréfsins krefst lögmaðurinn rökstudds úrskurðar
dómsins, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, verði ekki fallist á
flýtimeðferð þessa máls.
Með tölvubréfi 27. janúar
sl. óskaði dómstjóri eftir frekari gögnum til stuðnings beiðninni og bárust þau
28. janúar.
II
Í 1. mgr. 123. gr. laga
nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna
ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra
aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra
laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla
laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún
almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Ákvæði þetta felur í sér
afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga og verður af þeim sökum
að skýra það þröngri lögskýringu.
Af gögnum málsins verður
ráðið að ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um að synja stefnanda
um námslán vegna náms í Bretlandi skólaárið 2013-2014 byggðist á því að
stefnandi uppfyllti ekki skilyrði lánasjóðsins um búsetu á Íslandi, sbr. gr.
1.1.1 í úthlutunarreglum sjóðsins og 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011. Áður, eða
2. ágúst 2013, hafði stefnanda verið látin í té náms/lánsáætlun sjóðsins. Í
bréfi 22. október 2013 var stefnanda kynnt ákvörðun stjórnar lánasjóðsins um að
synja erindi hennar um námslán og var sú ákvörðun áréttuð í bréfi sjóðsins 17.
desember sama ár. Fram kemur í fyrra bréfinu að stefnandi hafi ranglega fengið
námsáætlun vegna náms hennar í Bretlandi, þrátt fyrir að ekki væri ljóst hvort
hún ætti rétt á lánum vegna búsetu hennar.
Fyrirhuguð málshöfðun
stefnanda lýtur að ákvörðun stjórnvalds, í þessu tilviki stjórnar Lánasjóðs
íslenskra námsmanna, og yrði málið rekið eftir almennum reglum einkamálalaga
féllist dómurinn ekki á að málið sætti flýtimeðferð. Að þessu skilyrði frátöldu
getur dómurinn ekki fallist á að fyrir hendi séu önnur skilyrði ákvæðis 1. mgr.
123. gr. laga nr. 91/1991 til þess að mál þetta verði rekið sem
flýtimeðferðarmál.
Við mat á því hvenær brýn
þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða
varði stórfellda hagsmuni, verður að líta til atvika hverju sinni. Í máli þessu
liggja fyrir bréf frá Lánasjóði íslenskra námsmanna til stefnanda, dags. 22.
október og 17. desember 2013, þar sem vakin er sérstök athygli á því að bæði sé
heimilt að óska endurupptöku á ákvörðun stjórnar sjóðsins samkvæmt 24. gr.
stjórnsýslulaga, svo og að kæra þá ákvörðun til sérstakrar málskotsnefndar
samkvæmt 5. gr. a. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Af gögnum
málsins verður ekki séð að stefnandi hafi nýtt sér kæruheimild til
málskotsnefndarinnar. Hins vegar lagði stefnandi frekari gögn og upplýsingar
fyrir stjórn lánasjóðsins, án þess að það hafi breytt fyrri afstöðu
stjórnarinnar. Þar sem stefnanda standa engu að síður bæði þessi réttarúrræði
enn til boða verður ekki fallist á að svo brýn þörf sé á úrlausn dómsins að
rétt sé að verða við beiðni um flýtimeðferð málsins.
Að áliti dómsins hafa
heldur ekki næg rök verið færð fyrir því að úrlausn málsins hafi almenna
þýðingu, né að hagsmunir stefnanda séu slíkir að hætt sé við að þeir fari
forgörðum verði málið ekki rekið sem flýtimeðferðarmál. Í því sambandi er
sérstaklega bent á að ekkert styður þá fullyrðingu stefnanda að engin úrræði standi
stefnanda til boða fái hún ekki námslán, og því síður að hún neyðist af þeim
sökum til að hætta námi sínu.
Með vísan til ofanritaðs
er ekki fullnægt skilyrðum fyrir því að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt
XIX. kafla laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu
í málinu.
Ingimundur
Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhugðu dómsmáli Evu Guðrúnar
Vestmann gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna.