Hæstiréttur íslands

Mál nr. 212/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Sakarauki
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Mánudaginn 7. apríl 2014.

Nr. 212/2014.

Kaupþing hf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

Western Asset Management Company og

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

XL Investments Ltd.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Sakarauki. Frávísunarúrskurður staðfestur.

K hf. höfðaði mál á hendur W, en beindi kröfum sínum til vara að XIB, til riftunar á tilgreindri ráðstöfun svo og endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem innt hefði verið af hendi vegna hennar. Síðar varð K hf. þess áskynja að sér hefði borið að beina varakröfum sínum í málinu að XI, en ekki XIB. Var málið í kjölfarið fellt niður gagnvart XIB, en höfðað á hendur XI með sakaukastefnu. Að virtum atvikum málsins var talið að meta yrði K hf. til vanrækslu að hafa ekki stefnt XI áður en málið var þingfest í héraði, sbr. niðurlag 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og var sakaukasökinni því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014 þar sem sakaukasök sóknaraðila á hendur varnaraðilanum XL Investments Ltd. var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka sakaraukningu sína til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Kaupþing hf., greiði varnaraðilum, Western Asset Management Company og XL Investments Ltd., 250.000 krónur hvorum um sig í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014.

I.

         Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 6. febrúar sl., er höfðað af Kaupþingi hf., Sóltúni 26 í Reykjavík, með stefnu birtri 20. júní 2012 á hendur aðalstefnda Western Asset Management Company, 385 East Colorado Boulevard, Pasadena, California 91101, Bandaríkjum Norður-Ameríku, og með stefnu birtri 26. júní 2012 á hendur upphaflegum varastefnda, XL Insurance (Bermuda) Limited., BrianHara House, One Bermudiana Road, Hamilton HM 08, Bermúdaeyjum. Við birtingu sakaukastefnu 31. maí 2013 höfðaði stefnandi málið einnig gegn varastefnda, XL Investments Limited, sem er til húsa á sama stað og XL Insurance (Bermuda) Limited. Með úrskurði 25. nóvember 2013 var málið fellt niður á hendur upphaflegum varastefnda, XL Insurance (Bermuda) Limited., að kröfu stefnanda.

         Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til aðalstefnda, Western Asset Management Company, dagsettri 3. september 2008, að fjárhæð 2.582.638,60 Bandaríkjadollarar, vegna viðskipta, dagsettum 28. ágúst 2008.

         Í öðru lagi krefst stefnandi þess að aðalstefndi greiði stefnanda 2.582.638,60 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi krefst stefnandi þess að aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.

         Verði aðalstefnda ekki gert að þola dóm í málinu gerir stefnandi eftirfarandi kröfur í varaaðild samkvæmt sakaukastefnu:

         Í fyrsta lagi að rift verði ráðstöfun stefnanda til varastefnda, XL Investments Limited., dags. 3. september 2008, að fjárhæð 2.582.638,60 Bandaríkjadollara, vegna viðskipta, dagsettum 28. ágúst 2008.

         Í öðru lagi að varastefndi greiði stefnanda 2.582.638,60 Bandaríkjadollara með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags.

         Í þriðja lagi að varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.

         Aðalstefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfufjárhæð stefnanda verði lækkuð verulega auk málskostnaðar.

         Sakaukastefndi, XL Investments Limited, gerir aðallega kröfu um frávísun allra krafna stefnanda. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda en til þrautavara krefst hann stórfelldrar lækkunar á fjárkröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar.

         Málið var flutt um kröfu sakaukastefnda um frávísun málsins 7. febrúar sl. og er sá þáttur hér til úrlausnar. Þar krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

II.

         Atvik málsins eru í stuttu máli þau að 19. júlí 2007 birti stefnandi útgáfulýsingu (e. Offering Circular) fyrir 10 milljarða Bandaríkjadollara skuldabréfaútgáfu. Á grundvelli þessarar útgáfulýsingar og svonefnds verðviðauka (e. Pricing Supplement) við hana, dags. 25. febrúar 2008, gaf stefnandi út svokallað allsherjarskuldabréf (e. Global Note) að nafnvirði 900 milljónir Bandaríkjadala. Í verðviðaukanum, sem stefnandi hefur lagt fram, kemur fram að skuldabréfið muni bera 7,625% vexti sem yrðu á gjalddaga 28. febrúar og 28. ágúst ár hvert. Þá var við það miðað að svonefndur yfirlýstur gjalddagi (e. Stated Maturity) yrði 28. febrúar 2015, en valkvæðir endurgreiðsludagar (e. Optional Repayment Dates) yrðu 28. ágúst 2010 og 28. febrúar 2013. Skuldabréfið mun síðan hafa verið skráð í alþjóðlegt, rafrænt uppgjörskerfi, þar sem hægt var að eiga viðskipti með hagsmunaeign í því.

         Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi sjálfur keypt hagsmunaeign að nafnvirði 3.080.000 Bandaríkjadala í framangreindu skuldabréfi 28. ágúst 2008. Kaupverðið, 2.582.638,60 Bandaríkjadalir, var innt af hendi 3. september sama ár. Starfsmaður aðalstefnda annaðist sölu hagsmunaeignarinnar til stefnanda og heiti fyrirtækisins kemur fram á kaupnótu um viðskiptin. Aðalstefndi kveðst hafa annast viðskiptin sem fjárfestingaráðgjafi og umboðsmaður viðskiptavinar síns, sakaukastefnda, og að greiðslan hafi verið millifærð inn á reikning í hans nafni. Þá kveður hann uppgjör viðskiptanna hafa farið fram beint í gegnum hið rafræna uppgjörskerfi. Á kaupnótunni er umrædd hagsmunaeign sögð vera eignasafn (e. portfolio) með númerinu 1166 og er heiti eignasafnsins (e. portfolio name) „XLI Western Libor Pool“. Þá er reikningur viðskiptamanns (e. client account) sagður vera XLIF0804482.

         Eins og rakið er í stefnu og sakaukastefnu sagði stjórn stefnanda af sér 8. október 2008. Daginn eftir neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hlutahafafundar í stefnanda og setja yfir hann skilanefnd. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008 var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar sem var framlengd með úrskurði 13. nóvember 2009. Lögum nr. 161/2002 var breytt með lögum nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009. Hinn 25. maí 2009 var stefnanda skipuð slitastjórn á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa 6. júlí 2009 og frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008. Fram kemur í stefnu að við það sé miðað að upphafsdagur slitameðferðarinnar sé gildisdagur laga nr. 44/2009. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 mun stefnandi hafa verið tekinn til formlegrar slitameðferðar.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

         Í máli þessu krefst stefnandi riftunar á fyrrgreindri greiðslu að fjárhæð 2.582.638,60 Bandaríkjadalir 3. september 2008 á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 með síðari breytingum. Er á því byggt að greiðsla skuldarinnar að þessu leyti hafi verið greidd fyrr en eðlilegt var. Frestdagur við slitameðferð sé 15. nóvember 2008 og því telur stefnandi að skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um að greiðsla hafi átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag sé fullnægt. Gjalddagi skuldabréfsins hafi verið 28. febrúar 2015 og þess vegna telur stefnandi að skilyrði ákvæðisins um að greiðslan hafi farið fram fyrr en eðlilegt var sé fullnægt. Hafi greiðslan enn fremur raskað jafnræði kröfuhafa við slitameðferðina þar sem stefndi hafi fengið kröfu sína greidda að fullu. Þá byggir stefnandi á því að greiðslan hafi ekki verið eðlileg eftir atvikum. Uppgreiðsla skuldabréfs fyrir gjalddaga hafi ekki verið venjuleg í viðskiptum stefnanda og stefnda. Engu breyti hér um þótt heimilt hafi verið að greiða fyrir gjalddaga samkvæmt hefðbundnum skilmálum skuldabréfsins. Slík ákvæði víki fyrir riftunarreglum gjaldþrotalaga.

         Stefnandi kveður fjárkröfu sína reista á 142. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991. Telur stefnandi að greiðsla skuldarinnar hafi orðið til þess að stefndi auðgaðist um þá fjármuni sem stefnandi innti af hendi og bendir í því sambandi á að stefndi hefði ekki fengið kröfuna greidda á gjalddaga.

         Í sakaukastefnu er áréttað að krafan á hendur varastefnda sé á því reist að greiðsla stefnanda til aðalstefnda kunni að hafa verið gerð á grundvelli fjárstýringarsamnings milli aðal- og varastefnda og að sá síðarnefndi hafi verið hinn eiginlegi móttakandi greiðslunnar. Telur stefnandi að nýjar upplýsingar hafi fyrst komið fram í greinargerð aðalstefnda, sem lögð hafi verið fram 18. desember 2012, um að upphaflegur varastefndi, XL Insurance Ltd., væri ekki eigandi þess eignasafns sem getið sé á kaupnótunni, heldur sakaukastefndi, XL Investments Ltd. Sakaukastefnan sé gefin út á grundvelli heimildar í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Kveður stefnandi sakaukastefnuna hafa verið gefna út jafnskjótt og unnt hafi verið eftir að viðhlítandi skýringar hafi komið fram af hálfu aðalstefnda um réttan eiganda vörslusafns nr. 1166 í bókum aðalstefnda.

         Stefnandi byggir á því í sakaukastefnu að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu fyrir hendi þannig að stefna megi sakaukastefnda. Þannig séu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna uppfyllt enda séu dómkröfur á hendur stefndu af sama uppruna. Þá verði það ekki metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefnda í upphafi. Aðalstefndi hafi veitt stefnanda alls ófullnægjandi og misvísandi upplýsingar um gagnaðila viðskiptanna í aðdraganda málshöfðunarinnar á hendur frumstefndu, þrátt fyrir að honum hafi verið gert skylt samkvæmt úrskurði gjaldþrotaréttar fyrir suðurhluta New York-fylkis í Bandaríkjunum að veita stefnanda greinargóðar upplýsingar um þetta efni. Af þeim sökum hafi röngum aðila verið stefnt í upphafi. Það hafi ekki verið fyrr en með greinargerð aðalstefnda og framlagningu hans á skjali með upplýsingum um heiti viðskiptavina og númer eignasafna sem aðalstefndi hafi upplýst um réttan gagnaðila í viðskiptunum. Er þetta nánar rökstutt í sakaukastefnu. Þar er því jafnframt haldið fram að miðað við þau gögn sem stefnandi hafi fengið hafi hann allt eins haft ástæðu til höfða málið gegn upphaflegum varastefnda.

         Í sakaukastefnu er enn fremur gerð grein fyrir röksemdum stefnanda fyrir því að rifta beri umræddri greiðslu og endurgreiða andvirði hennar, sbr. fyrrgreinda umfjöllun. Þá eru sérstaklega færð rök fyrir því í sakaukastefnu að málshöfðunarfrestur sé ekki liðinn til að höfða sakaukamálið. Þar er þess getið að samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 beri að höfða riftunarmál innan sex mánaða frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 gildi ákvæði laga nr. 21/1991 um riftun við slitameðferðina en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál sé 30 mánuðir í stað sex mánaða.

         Stefnandi telur að þar sem riftunarmál í frumsök hafi verið höfðað í tæka tíð teljist málið í heild höfðað innan málshöfðunarfrests og skipti þá ekki máli þótt fleiri aðilum hafi verið bætt við málið með sakaraukningu. Verði ekki fallist á þetta byggir stefnandi á því að málshöfðunarfrestur sakaraukningar hafi ekki byrjað að líða fyrr en fullnægjandi upplýsingar hafi komið fram um réttan aðila. Það hafi ekki gerst fyrr en með framlagningu greinargerðar aðalstefnda 18. desember 2012. Þá bendir stefnandi á að aðalstefndi hafi annast stýringu fjárfestinga fyrir sakaukastefnda. Aðalstefndi hafi dregið það að veita fullnægjandi upplýsingar um þennan viðskiptamann sinn. Telur stefnandi að beita verði sanngirnissjónarmiðum við úrlausn og skýringu ákvæðisins um málshöfðunarfrest. Þau mæli með því að aðili geti ekki látið hjá líða að veita upplýsingar sem séu nauðsynlegar til málshöfðunar gegn öðrum aðila sem honum tengist. Eigi þetta frekar við þegar skýrt er kveðið á um upplýsingaskyldu, sbr. 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá hljóti sakaukastefndi að hafa vitað af málshöfðuninni í frumsök allt frá upphafi hennar.

2. Helstu málsástæður og lagarök sakaukastefnda

         Sakaukastefndi reisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að riftunarfrestur samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé liðinn. Telur hann að allar undantekningar frá almennum riftunarfresti beri að skýra þröngt og að þrotabú beri sönnunarbyrðina um að miða beri við annan riftunarfrest. Þá vísar sakaukastefndi til þess að hann hafi ekki átt neina sök á töfum á málshöfðun, en fimm ár séu liðin frá dagsetningu viðskiptanna. Hafi sakaukastefndi fyrst heyrt frá stefnanda með birtingu sakaukastefnunnar. Þá mótmælir sakaukastefndi því að með því að frumsök hafi verið höfðuð tímanlega sé riftunarmálið gegn sakaukastefnda einnig höfðað nægjanlega tímanlega. Sakaukastefndi mótmælir því enn fremur að stefnanda hafi verið ómögulegt að höfða málið gegn sér fyrr en 18. desember 2012, þegar aðalstefndi skilaði greinargerð. Í því sambandi bendir sakaukastefndi á að fjárstýringarsamningur við hann hafi verið meðal gagna sem afhent voru stefnanda í kjölfar úrskurðar gjaldþrotaréttar. Þá vísar sakaukastefndi til þess að stefnandi hefði getað beint fyrirspurn að aðalstefnda, sem var skylt að svara stefnanda samkvæmt úrskurðinum, upphaflegum varastefnda eða sakaukastefnda um það hver væri eigandi umræddrar hagsmunaeignar. Þá hafi verið unnt að leita eftir upplýsingum hjá BNY Mellon, vörsluaðila samkvæmt viðkomandi fjárstýringarsamningi, um hver væri eigandi viðskiptamannareikningsins sem getið sé á kaupanótunni. Hafi stefnandi verið í vafa hafi hann einnig getað stefnt bæði upphaflegum varastefnda og sakaukastefnda. Sakaukastefndi vísar enn fremur til þess að aðalstefndi hafi aldrei sagt að „XLI“ á kaupnótunni vísaði til XL Insurance. Því hafi honum aldrei verið veittar rangar upplýsingar, eins og hann haldi fram, heldur hafi hann einfaldlega giskað á að upphaflegur varastefndi ætti í hlut.

         Sakaukastefndi bendir enn fremur á að stefnandi hafi haft upplýsingar um nöfn og heimilisföng hjá bæði upphaflegum varastefnda og sakaukastefnda, en í dómaframkvæmd hafi það verið talið nægja til að þrotabú geti höfðað riftunarmál. Í tilvikum þar sem mögulegir riftunarþolar eru nokkrir gangi ekki að þrotabúið höfði fyrst mál gegn einum innan málshöfðunarfrests og síðan gegn þeim næsta, eftir að sá fyrsti hefur verið sýknaður vegna aðildarskorts, og síðan koll af kolli. Sakaukastefndi kveður enn fremur ágreiningslaust að hann hafi verið í góðri trú og ekki átt neina sök á töfum á málssókn. Sanngirnisástæður mæli þannig gegn framlengingu málshöfðunarfrestsins. Þá telur sakaukastefndi allt benda til þess að ekkert hafi verið að upplýsingagjöf aðalstefnda til stefnanda 30. apríl 2012. Þar hafi verið staðfest hver seljandinn hafi verið, stefnandi fengið í té samninginn við hann og boðið honum að hafa samband við sig ef spurningar vöknuðu. Þá mótmælir sakaukastefndi því að sanngirnisrök mæli með því að málshöfðunarfrestur gagnvart sér sé lengdur.

         Frávísunarkrafan er jafnframt á því reist að skilyrði sakaraukningar séu ekki fyrir hendi. Á því er byggt að það hafi verið vanræksla af hálfu stefnanda að höfða ekki málið gegn sakaukastefnda í frumsök. Vísar sakaukastefndi til sömu röksemda og fyrir því að málshöfðunarfrestur sé liðinn. Frá 20. apríl 2012 til 6. september 2012 hafi stefnandi haft tíma til að afla sér frekari upplýsinga og höfða málið. Stefnandi viðurkenni að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi fengið hafi tveir riftunarþolar komið til álita, annaðhvort XL Insurance eða XL Investments. Hann hafi ekki birt stefnu gagnvart sakaukastefnda, XL Investments, fyrir þingfestingu frumsakar og því sé um vanrækslu samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 að ræða.

         Sakaukastefndi telur enn fremur að vísa beri málinu frá með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991. Hann telur kröfugerðina óljósa þar sem settar séu fram tvær aðskildar kröfugerðir í köflum I og II í stefnu. Þá telur sakaukastefndi öll helstu álitaefni 134. og 142. gr. laga nr. 21/1991 vera vanreifuð í stefnunni. Þannig séu lagaskil ekki útskýrð og enginn reki gerður að því að útskýra tjón stefnanda. Í því sambandi er meðal annars bent á að stefnandi hafi getað selt hagsmunaeignina eftir kaupin.

         Í greinargerð sakaukastefnda er enn fremur gerð ítarleg grein fyrir efnislegum röksemdum fyrir því að sýkna beri hann af kröfum stefnanda. Í örstuttu máli byggjast þær varnir á því að ekki hafi verið um greiðslu skuldar að ræða enda hafi ekkert skuldarasamband verið milli stefnanda og sakaukastefnda. Þá hafi hin endurkeypta hlutdeild í allsherjarskuldabréfinu verið áfram „útistandandi“ og því engin niðurfelling átt sér stað, enda hafi bankinn ekki getað ákveðið einhliða að fella hana niður. Ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 eigi því ekki við. Þá mótmælir sakaukastefndi því að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var samkvæmt því ákvæði og viðskiptin virst venjuleg eftir atvikum, eins og nánar er rökstutt í greinargerð. Jafnframt hafi ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna. Þá eru í greinargerð færð rök fyrir mótmælum sakaukastefnda við dráttarvaxtakröfu stefnanda og fyrir þrautavarakröfu um lækkun kröfunnar með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991.

IV.

         Stefnandi höfðar mál þetta gegn sakaukastefnda til riftunar á greiðslu stefnanda 3. september 2008 á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og endurheimtu fjárhæðarinnar sem stefnandi innti þá af hendi. Stefnandi er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til þess að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins, ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til þess að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laganna skal vera 30 mánuðir í stað sex mánaða, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011.

         Samkvæmt framansögðu þarf slitastjórn fjármálafyrirtækis að höfða dómsmál til riftunar ráðstöfunar áður en þrjátíu mánuðir eru liðnir frá því slitastjórnin átt þess kost að gera riftunarkröfu. Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests, sbr. 2. málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991. Eins og rakið hefur verið var slitastjórn stefnanda skipuð 25. maí 2009 og kröfulýsingarfresti lauk 30. desember 2009. Málið var höfðað gegn sakaukastefnda 31. maí 2013 en þá voru ríflega 41 mánuður liðinn frá lokum kröfulýsingarfrests. Málshöfðunarfrestur gagnvart sakaukastefnda rofnaði ekki er málið var höfðað gegn aðalstefnda og upphaflegum varastefnda. Stefnanda var aftur á móti ómögulegt að höfða mál gegn sakaukastefnda fyrr að fengnum upplýsingum um hver væri eigandi þeirra réttinda sem stefnandi keypti í umrætt sinn. Ekki lágu gögn fyrir um það hjá stefnanda er slitameðferð hófst og verður að ætla að honum hafi ekki verið unnt að afla þeirra nema á þann hátt sem gert var, með því að fá úrskurð dómstóls í New York-ríki er gerði aðalstefnda skylt að upplýsa um viðkomandi viðskiptamann. Sá úrskurður lá fyrir 22. mars 2012 og varð aðalstefndi við þessari skyldu 30. apríl 2012. Telur dómurinn rétt að miða við að málshöfðunarfresturinn hafi byrjað að líða frá þeim tíma. Fresturinn, skv. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, var því ekki liðinn þegar stefna var birt fyrir sakaukastefnda og málið höfðað gegn honum 31. maí 2013.

         Í 3. mgr. 19. gr. eru sett tiltekin skilyrði fyrir því að stefna megi nýjum aðila eftir þingfestingu máls til að svara til sakar með þeim sem hann hefur þegar stefnt. Þannig verður að vera unnt að rekja málið gegn honum til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og er til úrlausnar í því máli sem þegar hefur verið þingfest. Ekki er hins vegar heimilt að stefna nýjum aðila verði það metið til vanrækslu að stefnandi hafi ekki stefnt honum áður en málið var þingfest. Ágreiningslaust er að fyrra skilyrðinu er fullnægt. Sakaukastefndi telur aftur á móti að það verði metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt sér í upphafi.

         Þegar málið var höfðað hafði stefnandi undir höndum kaupnótu þá sem áður hefur verið vikið að og lúta að þeirri greiðslu sem stefnandi krefst riftunar á. Eins og rakið er í kafla II komu þar fram upplýsingar um númer eignasafns viðskiptamanns aðalstefnda, „1166“, sem og heiti þess, „XLI Western Libor Pool“. Þá var reikningur viðskiptamanns sagður vera „XLIF0804482“. Jafnframt er upplýst að stefnandi hafði á sama tíma undir höndum fjárfestingasamning (e. Investment Management Agreement), dags. 2. febrúar 2000, milli aðalstefnda og sakaukastefnda, en hann var meðal 10 fjárfestingarsamninga sem aðalstefndi sendi stefnanda 30. apríl 2012. Í þeim fjárfestingarsamningi er ekki getið um númer eða heiti framangreinds eignasafns. Fyrrgreindir samningar, ásamt öðrum skjölum frá aðalstefnda, voru afhentir 30. apríl 2012 í stafrænu formi þar sem hvert þeirra hafði tiltekið skjalaheiti sem birtist á skjánum. Skjalaheiti fyrir fjárfestingarsamning aðalstefnda og sakaukastefnda var „1166_IMA_20000202“.

         Stefnandi kveðst hafa treyst því að með afhendingu gagna 30. apríl 2012 hafi aðalstefndi fullnægt skyldu sinni til að veita nægar upplýsingar til að unnt væri að tengja umrædd viðskipti við endanlegan hagsmunaeiganda eða rétthafa. Við munnlegan málflutning kom fram að hann hafi ranglega dregið þá ályktun af samningi milli aðalstefnda og félagsins XL Investment Management Ltd., dags. 27. október 2005, að upphaflegur varastefndi, XL Insurance (Bermuda) Limited, væri eigandi eignasafnsins, sem vísað var til á kaupnótunni undir heitinu „XLI Western Libor Pool“, en samningurinn hafi verið meðal þeirra fjárfestingarsamninga sem aðalstefndi lét stefnanda í té í apríl 2012. Ástæðan hafi verið sú að með samningnum fylgdi listi yfir viðskiptamenn eða skjólstæðinga (e. clients) með tveimur félagaheitum „XL Insurance (Bermuda) Ltd.“ og „XL Re Ltd.“. Þar sem önnur gögn hafi gefið til kynna að félagið XL Re Ltd. hafi átt hagsmunaeign sem seld hafi verið stefnanda á sama tíma og þau viðskipti í allsherjarskuldabréfinu sem hér er deilt um áttu sér stað hafi stefnandi ályktað að upphaflegur varastefndi, XL Insurance (Bermuda) Limited, væri réttur eigandi umrædds eignasafns. Upplýsingar sem gáfu tilefni til að tengja eignasafnið við sakaukastefnda hafi hins vegar ekki verið lagðar fram af hálfu aðalstefnda fyrr en þegar greinargerð hans var lögð fram sem og samningur frá 1. apríl 2005 sem ber yfirskriftina „MASTER AMENDMENT TO INVESTEMENT MANAGEMENT AGREEMENTS“.

         Við mat á því hvort virða beri það stefnanda til vanrækslu að hafa ekki höfðað málið í upphafi gegn sakaukastefnda er óhjákvæmilegt að líta til þess að í rafrænu skjalaheiti fyrir fjárfestingarsamning aðalstefnda við sakaukastefnda var gefið upp sama númer og númer eignasafnsins sem fram kemur á kaupnótunni. Nærtækara var að draga ályktun af þessari tengingu, sem mátti vera stefnanda ljós, en þeirri óvissu vísbendingu sem olli því að stefnandi höfðaði mál gegn röngu félagi. Þá er til þess að líta að aðalstefnda bar skylda til þess að veita stefnanda frekari upplýsingar ef eftir því hefði verið leitað og áréttaði aðalstefndi það í bréfi sínu til stefnanda 30. apríl 2012. Af hálfu stefnanda var ekki óskað eftir nánari útskýringum á þeim upplýsingum og gögnum sem aðalstefndi hafði látið í té áður en málið var höfðað gegn upphaflegum varastefnda, XL Insurance (Bermuda) Limited. Af þessum sökum telur dómurinn óhjákvæmilegt að meta það stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefnda, XL Investments Limited, áður en málið var þingfest, sbr. niðurlag 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Því ber að vísa máli stefnanda á hendur sakaukastefnda frá dómi.

         Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 króna.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Máli stefnanda, Kaupþings hf., á hendur sakaukastefnda, XL Investments Limited, er vísað frá dómi.

         Stefnandi greiði sakaukastefnda 800.000 krónur í málskostnað.