Hæstiréttur íslands

Mál nr. 22/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. maí 2006.

Nr. 22/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Jökli Jóhannssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.

J var ákærður fyrir líkamsrárás og viðurkenndi að hafa slegið A eitt hnefahögg og síðan haldið honum hálstaki uns hann hafi róast, en neitaði að hafa slegið A fleiri högg en eitt. Af misvísandi framburði J og vitna og óljósum gögnum um meiðsli J, sem höfðu ekki verið skýrð fyrir dómi, varð ekki fullyrt nákvæmlega um atburðarrás umrætt sinn. Gegn eindreginni neitun J, sem fékk nokkra stoð í framburði vitnis, varð ekki fullyrt að J hafi veitt A fleiri hnefahögg í andlit en eitt. Þá var ekki fram komið að A hafi sýnt af sér slíka framkomu að gefið hafi J ástæðu til líkamsárásarinnar. Var J talinn hafa gerst sekur um líkamsrárás sem varðaði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði skilorðsbundið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 20. desember 2005 að ósk ákærða og í samræmi við yfirlýsingu hans um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms en þyngingar á refsingu ákærða. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta til A samtals að fjárhæð 605.372 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.372 krónum frá 1. apríl 2004 til greiðsludags, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 600.000 krónum frá 14. apríl 2004 til 15. júlí 2005 en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi greiðsludags.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa laugardaginn 28. febrúar 2004 að [...], Seltjarnarnesi, slegið A hnefahögg í andlitið, fellt hann í gólfið og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið þar sem hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og marðist í andliti og aftan á höfði og hnakka, brot kom í framvegg hægri kinnholu og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og þrjár miðframtennur brotnuðu. Framburður ákærða og vitna er rakinn í héraðsdómi. Ákærði viðurkenndi fyrir dómi að hafa greint sinn í anddyri hússins slegið A eitt hnefahögg sem komið hafi ofarlega í höfuð A og því næst „stokkið“ á hann með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir fallið á gólfið. Hafi andlit A skollið í gólfið. Í framhaldi af því hafi hann náð að taka A hálstaki og haldið honum í því taki uns hann hafi róast nægilega, eins og hann komst að orði. Þá hafi hann yfirgefið vettvang ásamt félaga sínum C. Ákærði neitaði að hafa slegið A fleiri högg en eitt, en kvað þá þó hafa stimpast í nokkrar mínútur eftir að þeir féllu á gólfið. Ákærði kvaðst hafa ráðist á A í kjölfar þess að A hafi skyndilega slegið hann hnefahögg í andlitið er hann bar upp það erindi að fá að hitta B fyrrverandi unnustu sína, þáverandi unnustu A en nú sambúðarkonu hans. Síðar í yfirheyrslu fyrir dómi vildi ákærði leiðrétta það sem hann hafði áður borið í yfirheyrslunni og við skýrslugjöf hjá lögreglu um að hann hafi stokkið á A. Þeir hafi öllu heldur lent í stimpingum og fallið á gólfið. Ekki verður ráðið af framburði ákærða að hann telji sig hafa orðið fyrir meiðslum umrætt sinn og hafi hann haft yfirhöndina í viðureign þeirra. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki vilja mótmæla að A hafi umrætt sinn hlotið þá áverka sem greinir í ákæru.

Vitnið C bar fyrir dómi að A hafi ráðist að fyrra bragði á ákærða og slegið til hans og hafi þeir tveir verið að stimpast og fallið á gólfið. Ekki kvaðst vitnið muna mikið meira eftir atvikum, sem hann kvaðst raunar ekki hafa séð vel og ekki heldur hafa greint orðaskipti þeirra í milli, þrátt fyrir að hann hafi staðið um tveimur metrum frá ákærða er atvik urðu. Ákærði kvað B ekki komið að fyrr en átök voru hafin og ákærði og A lágu á gólfinu, en C sagði hana ekki hafa komið að fyrr en átökunum var að ljúka.

A og B báru bæði að B hafi séð atvik öll og er framburður þeirra í meginatriðum á sömu lund um að ákærði hafi ráðist fyrirvaralaust á A og slegið hann hnefahögg. Við það hafi A fallið og ákærði í framhaldi af því tekið hann hálstaki og veitt honum þá fleiri hnefahögg. Talaði A um þrjú til fjögur högg, en B kvaðst ekki hafa tölu á því hversu mörg höggin voru, en þau hafi verið mörg.

Samkvæmt því sem fram er komið í málinu kom lögregla á vettvang skömmu eftir atvik. Voru þá ákærði og C farnir þaðan. Í frumskýrslu Péturs Guðmundssonar varðstjóra, dagsettri daginn eftir, sem hann staðfesti fyrir dómi, kemur fram að andlit A hafi verið „bólgið og marið að sjá, nef og við hægra auga sérstaklega. Þá var hann með roða á hálsi og brotnað hafði úr framtönnum.“ Bæði A og B báru að hann hefði tannbrotnað, auk þess sem í gögnum málsins er að finna vottorð K tannlæknis, fósturföður A, frá 22. apríl 2004 um brotnar miðframtennur í efri góm. Í læknisvottorði 24. ágúst 2004 um fyrstu skoðun á A á slysadeild eftir atvik, sem rakið er í héraðsdómi, er hins vegar hvergi getið um að hann hafi verið með brotnar tennur þrátt fyrir ítarlega lýsingu á áverkum hans, þar sem nefnt er meðal annars að samkvæmt skoðun og röntgenmynd af andlitsbeinum „greindust ekki klárlega brot en vökvaborð í kinnholu hægra megin og virtist vera nefbrotinn á mynd.“ Var honum ráðlagt að leita til háls-, nef- og eyrnadeildar er bólga í andliti væri farin að hjaðna. Ekki kemur fram í vottorðinu hvenær skoðun á slysadeild fór fram, en af því sem fram er komið í málinu verður helst ráðið að það hafi verið sama dag og atvik urðu. Þá segir í vottorðinu að A hafi komið á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar fjórum dögum síðar. Er þess þá fyrst getið að hann hafi verið nýkominn frá tannlækni þar sem gert hafi verið við þrjár tennur, en engin breyting sé á biti og heilar og eðlilegar slímhúðir í munni. Þá væri hann ekki nefbrotinn, en samkvæmt sneiðmynd af augngjörð og andlitsbeinum sæist brot í framvegg hægri kinnholu og lítill brotflaski sem hefði örlítið færst til. Einnig væru merki um „gamalt blóð“ í hægri kinnholu og merki um gliðnun milli „frontal“ beins og kinnbeins hægra megin og brot inni í augntóttarbotni á litlu svæði framan til. Læknar þeir sem skoðuðu A gáfu ekki skýrslur fyrir dómi þótt fullt tilefni hafi verið til. Verður því ekki fullyrt að A hafi hlotið tannbrot umrætt sinn, en nægilega er sannað að hann hafi hlotið aðra þá áverka sem í ákæru greinir.

Af því sem að framan er rakið um misvísandi framburð ákærða og vitna og af óljósum gögnum um meiðsli ákærða, sem ekki hafa verið skýrð fyrir dómi, verður ekki fullyrt nákvæmlega um atburðarrás umrætt sinn. Við mat á framburði ákærða og vitna verður einnig að líta til þess að það var ekki fyrr en rúmu ári eftir atvik, eða 24. maí og 7. júní 2005, að lögregla tók skýrslu af vitnum sem A tilgreindi þegar í kæruskýrslu sinni 1. mars 2004. Þá tók lögregla fyrst skýrslu af ákærða 15. júní 2005. Hins vegar er með játningu ákærða, sem fær fullan stuðning í framburði vitnanna A og B, sannað að ákærði réðist á A umrætt sinn og sló hann hnefahögg í andlitið þannig að hann féll við og í kjölfarið tók ákærði A hálstaki þar sem hann lá á gólfinu. Gegn eindreginni neitun ákærða, sem fær nokkra stoð í framburði vitnisins C, verður hins vegar ekki fullyrt að ákærði hafi síðar veitt honum fleiri hnefahögg í andlit. Þá er ekki fram komið að A hafi sýnt af sér slíka framkomu að gefið hafi ákærða ástæðu til líkamsárásarinnar. Samkvæmt öllu framanrituðu er sannað að ákærði hefur gerst sekur um líkamsárás sem varðar við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Ekki er fallist á með héraðsdómi að fram sé komin sönnun um að ákærði hafi í afbrýðiskasti farið á heimili B gagngert í þeim tilgangi að stofna til ófriðar og að ákærði hafi fyrirfram ákveðið að valda A líkamstjóni. Fram er komið að ákærða var 8. október 1999 gerð sekt fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Við ákvörðun refsingar verður sérstaklega til þess litið að ekki verður séð að háttsemi A hafi gefið ákærða tilefni til árásarinnar sem olli honum töluverðu tjóni. Þá hefur ákærði, sem var 20 ára er brotið var framið, ekki gerst sekur um brot sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar. Samkvæmt framanrituðu og að teknu tilliti til gagna um hagi ákærða er refsing hans ákveðin fjögurra mánaða fangelsi, sem bundin skal skilorði eins og nánar greinir í dómsorði.

A hefur krafist þess að ákærði greiði sér 600.000 krónur í miskabætur. Þykir rétt að taka þessa kröfu hans til greina með 200.000 krónum og er þá miðað við þær afleiðingar líkamsárásarinnar sem sannaðar teljast í málinu. Þá er fallist á með héraðsdómi að ákærði verði dæmdur til að greiða A 5.372 krónur vegna kostnaðar við komu hans á Landspítala-háskólasjúkrahús 3. mars 2004. Um vexti fer eins og greinir í dómsorði. Í héraðsdómi var ákærði dæmdur til greiðslu 60.000 króna vegna kostnaðar A við að halda fram kröfu sinni í málinu, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Fyrir Hæstarétti hefur þessi krafa ekki verið höfð uppi og kemur hún því ekki til skoðunar.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Kostnað vegna áfrýjunar málsins ber samkvæmt 169. gr. laga nr. 19/1991 að greiða úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem tiltekin eru í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði, Jökull Jóhannsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 205.372 krónur með vöxtum af 200.000 krónum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. apríl 2004 til 15. júlí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 205.372 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 12. júlí 2005 á hendur Jökli Jóhannssyni, kt. 160883-4489, Akurholti 9, Mosfellsbæ, fyrir líkamsárás, með því að hafa laugardaginn 28. febrúar 2004 að [...], Seltjarnarnesi, slegið A, kt. [...], hnefahögg í andlitið, fellt hann í gólfið og slegið hann nokkur hnefa­högg í andlitið þar sem hann lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að hann bólgnaði og marðist í andliti og aftan á höfði og hnakka, brot í framvegg hægri kinn­holu og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og þrjár miðframtennur brotnuðu.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Nefndur A krefst þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 485.072 auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 70.000 kr. frá 29. febrúar 2004 til 1. apríl s.á., af 75.072 kr. frá þeim degi til þess dags er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar og af 485.072 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann miskabóta  að fjárhæð 600.000 kr. og þjáningabóta að fjárhæð 11.878 kr. með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. apríl 2004 til þess dags er mánuður var liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann greiðslu kostnaðar vegna lögmanns­þóknunar skv. framlögðum reikningi eða samkvæmt mati dómsins auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af tildæmdum málskostnaði frá 15. degi eftir upp­kvaðningu dóms til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ákæru­valdsins, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

 

Laugardaginn 28. febrúar 2004 kl. 15.50 fékk lögreglan í Reykjavík boð um að fara að [...] á Seltjarnarnesi, en þar ættu sér stað átök. Skömmu áður en lögregla kom á vettvang bárust önnur boð um að árásarmaðurinn væri horfinn af vettvangi. Í frumskýrslu kemur fram að haft hafi verið tal af A og B. Hafi B greint frá því að fyrrverandi kærasti hennar hafi við annan mann knúið dyra að [...]. A hafi farið til dyra, en um leið og hann hafi opnað dyrnar hafi ákærði ýtt A inn í anddyrið og slegið hann hnefahögg í andlitið. Hafi A hálfvankast við höggið og ákærði fylgt atlögu sinni eftir með fleiri höggum í andlit A um leið og hann hafi tekið hann hálstaki. Kemur fram að B hafi orðið vitni að atburðum. Hafi lögreglumenn bent A á að fara á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss vegna áverka er hann hefði í andliti. Andlit A hafi verið bólgið og marið að sjá, nef og hægra auga sérstaklega. Þá hafi hann verið með roða á hálsi og brotnað hafi úr framtönn.   

Sigurður Torfi Grétarsson deildarlæknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 24. ágúst 2004 ritað vottorð vegna komu A á slysadeild 28. febrúar 2004. Í vottorðinu kemur fram að við skoðun hafi A greinilega verið með ,,status” eftir árás, allur verið bólginn og marinn í andliti, meira hægra megin. Hafi hann einnig verið með skrámur og byrjandi glóðarauga vinstra megin. Þá hafi hann reynst vera með kúlu á enni, mar og skrámur niður undir vör. Hann hafi verið með skrámu á hægra eyra, kúlu á hnakka hægra og vinstra megin og mar á höfuðleðri á fjórum stöðum aftan á höfði og hnakkasvæði. Þá hafi hann verið verulega bólginn yfir nefi og andliti hægra megin. Eftir skoðun á slysadeild hafi röntgenmynd verið tekin af andlitsbeinum og hafi greinilegt brot ekki greinst, en vökvaborð í kinnholu hægra megin og sennilegt nefbrot. Hafi hann farið heim og verið ráðlagt að leita á háls-, nef- og eyrnadeild þegar bólga færi að hjaðna. A hafi komið aftur á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar 3. mars 2004. Við þá skoðun hafi hann verið með myndarlegt glóðarauga hægra megin. Skyn og hreyfing í andliti hafi verið eðlileg en nokkur eymsli við þreifingu í augntótt. Einnig hafi verið nokkur eymsli hægra megin yfir nefbeini, annars hafi nef virst þokkalega beint. Hafi hann verið nýkominn frá tannlækni þar sem gert hafi verið við þrjár brotnar tennur. Tekin hafi verið sneiðmynd af augnumgjörð og andlitsbeinum. Við þá rannsókn hafi sést brot í framvegg hægri kinnholu og lítill brotflaski sem hafi örlítið færst til. Einnig hafi verið hliðrun á miðnesi yfir til vinstri, en engin merki um tilfært brot. Það hafi verið merki um gliðnun milli ,,frontal” beins og kinnbeins hægra megin og brot inn í augntóttarbotn á litlu svæði framan til og ,,hematom” undir brotstaðnum.

Þá er í rannsóknargögnum málsins vottorð K tannlæknis frá 22. apríl 2004. Í vottorðinu kemur fram að A hafi komið til meðferðar 29. febrúar 2004 vegna áverka á tönnum nr. 21, 31 og 41, en um sé að ræða miðframtennur í efri og neðri góm. Þær tennur hafi allar brotnað.

 

Ákærði kvað B vera fyrrverandi kærustu sína. Þau hafi verið saman í um 20 mánuði og hætt saman stuttu fyrir atburðinn 28. febrúar 2004. Fyrir hafi hann ekki þekkt A en vitað hver hann var. Hafi hann hitt A á skemmti­stað einhverju fyrir atburðinn og hafi A tjáð honum að hann hafi ,,verið með” B á meðan ákærði og B hafi verið saman. Umræddan dag hafi ákærði reynt að ná í B í gegnum ,,MSN” en A hafi verið að nota tölvuna hennar. Hafi A m.a. spurt ákærða að því hvort hann væri ,,gay.” Hafi A með því verið að gera lítið úr ákærða. Hafi ákærði þá gripið til þess ráðs að hringja heim til B en A hafi svarað í símann og sagt ákærða að hætta að hringja í B. Hafi A verið mjög hortugur í símtalinu. Þessu næst hafi ákærði farið með félaga sínum, C, í verslunarmiðstöðina Kringluna. Þar hafi ákærði tekið ákvörðun um að fara heim til B í þeim tilgangi að ná tali af henni til að útkljá samband þeirra. Ákærði og C hafi komið að [...] og A opnað hurðina er þeir hafi knúið dyra. Hafi hann greinilega verið ölvaður en hann hafi verið með bjórflösku í hendi. Hafi A sagt ákærða að hætta að tala við B því allt væri búið á milli þeirra. Hafi ákærði neitað að fara fyrr en hann fengi að ræða við B. Þá hafi A slegið ákærða hnefahögg og hafi höggið komið á vinstra eyrað. Á þeim tíma hafi C staðið fyrir aftan ákærða og séð það er fram hafi farið. C hafi ,,frosið” og ekkert aðhafst. Ákærði hafi því næst slegið A hnefahögg í andlitið og hafi höggið lent fyrir ofan augun á A. Því næst hafi ákærði stokkið á A með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir fallið í flísalagt anddyrið. A hafi við það farið með andlitið í flísarnar. Þeir hafi báðir ,,stympast” í gólfinu í nokkrar mínútur þangað til ákærði hafi náð hálstaki á A og verið ofan á honum. Í því hafi B komið að. Hafi hún öskrað og togað í hár ákærða. Hafi hún sennilega hringt í lögreglu, en ákærði hafi séð hana með síma í hendi. Hafi ákærði náð að draga A með sér í takinu að dyrunum, sleppt honum þar og hlaupið út. Hafi A ætlað að hlaupa á eftir ákærða en ákærði og C náð að forða sér inn í bifreið er þeir hafi komið á. Í framhaldinu hafi þeir farið í sund í Árbæjarlaug. Kvaðst ákærði stórlega efast um að þeir ákverkar er hafi greinst á A við læknisskoðun hafi verið af völdum ákærða. Ekki sé ólíklegt að A hafi hlotið áverkana við að falla með andlitið í gólf í anddyrinu. Ekki kvaðst ákærði sjálfur hafa hlotið alvarlega áverka við atlöguna, en hann hafi aðallega verið í ,,sjokki.”  

 

A kvaðst hafa verið nýbyrjaður með B er atburðir hafi átt sér stað. B hafi þar á undan verið í sambandi með ákærða. Hafi ákærði verið ósáttur við sambandsslitin og verið að ,,hrella” B eftir það. Hafi A verið heima hjá B að [...] á Seltjarnarnesi að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004. Hafi ákærði hringt og spurt hvort foreldrar B væru heima. B hafi sagt ákærða að þau væru ekki heima en væru á leið heim úr sumarbústað. Um tveim klukkustundum síðar hafi A og B séð til ferða ákærða úti í garði en með honum hafi verið annar drengur, sem A hafi ekki þekkt. Í framhaldinu hafi verið bankað á útidyrahurðina. Hafi A farið til dyra. Þegar hann hafi opnað hurðina hafi ákærði staðið fyrir utan og félagi hans fyrir aftan hann. A hafi kastað kveðju á ákærða. Ákærði hafi hins vegar fyrirvaralaust slegið A með krepptum hnefa í andlitið og hafi höggið lent við nefrætur. Hafi A ,,séð hvítt” og í framhaldinu fengið annað högg frá ákærða í andlitið. Hafi A hrasað aftur á bak, lent með bakið upp að vegg og sigið niður á gólf. Hafi ákærði lent ofan á honum. Hafi hann ekki lent með andlitið í gólfið. Inni í anddyri hússins hafi ákærði haldið áfram að slá A í andlitið og hafi A reynt að verja andlit sitt. Einnig hafi ákærði tekið A hálstaki um leið og hann hafi haldið bar­smíðunum áfram. Hafi hann haldið hálstakinu í talsverðan tíma. B hafi orðið vitni að þessum atburðum og reynt að stöðva árás ákærða með því að rífa í hár hans. Félagi ákærða hafi hins vegar ekkert gert til að stöðva árásina. Hafi B hringt í lögreglu. Þá hafi félagi ákærða marghvatt ákærða til að koma sér í burtu áður en lögregla kæmi. Þá hafi ákærði hætt að slá A, staðið á fætur og sparkað í hann. Um leið og ákærði hafi haldið á brott hafi hann haft í hótunum við A og sagt eitthvað á þá leið að hann ,,væri að fokka í röngum manni” og að hann myndi örugg­lega ekki vilja hitta ákærða aftur. Í kjölfarið hafi ákærði og félagi hans forðað sér á bifreið. A hafi farið á slysadeild. Þrjár framtennur hafi brotnað við árásina, auk þess sem A hafi fengið töluverða áverka í andliti. Á sunnudeginum hafi fóstur­faðir A gert við hinar brotnu tennur. B hafi verið inni á gangi fyrir innan anddyrið er A hafi opnað útidyrahurðina og hún séð atburðarásina frá upphafi. A kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis að morgni laugar­dagsins. Hafi hann og B verið að skemmta sér kvöldið áður og verið að taka til. Af þeim ástæðum hafi A verið með flösku í hendi er hann hafi gengið til dyra. Flaskan hafi verið úr plasti og hafi A sennilega borið hana fyrir höfuð sitt er ákærði hafi lamið hann í andlitið. 

B kvað ákærða vera fyrrverandi kærasta sinn en þau hafi hætt saman um hálfu ári fyrir atburðinn. Hún hafi verið heima hjá sér að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004 og hafi kærasti hennar, A, verið heima hjá henni. Foreldrar B hafi verið að heiman. Ákærði hafi hringt og spurt hvort foreldrar B væru heima. Hafi honum verið svarað með því að þau væru í sumarbústað. B og A hafi verið að taka til og séð einhverja hlaupa fram hjá stofuglugganum. Stuttu síðar hafi verið bankað á útidyrahurðina. A hafi farið til dyra og B staðið álengdar til að fylgst með hver væri kominn. Hafi hún séð A opna og ákærða standa fyrir utan. Hafi ákærði sagt eitthvað eins og ,,bless­aður” en síðan hafi hann lamið A með krepptum hnefa í andlitið. A hafi vankast við höggið, fallið aftur fyrir sig að vegg og sigið niður á gólf. Ákærði hafi fylgt atlögunni eftir, m.a. lagst niður á hné og slegið A ítrekað í höfuðið eftir að A hafi fallið í gólfið. A hafi reynt að verjast árásinni með því að bera hendur fyrir höfuð sér. Ákærði hafi gripið A hálstaki um leið og hann hafi slegið til hans. Hafi B orðið mjög skelkuð og án árangurs reynt að ná ákærða af A. Félagi ákærða, C, hafi staðið hjá og ekkert aðhafst þrátt fyrir beiðni B þar um. Kvaðst B aldrei hafa séð slíka árás á nokkurn mann og því brugðið mjög. Hafi hún grátandi hringt í lögreglu og foreldra sína en ákærði hafi ekki hætt barsmíðunum þrátt fyrir það. Hafi hún óttast að ákærði ,,myndi ganga frá A” en atlagan hafi verið það harkaleg að blóðslettur hafi lent á veggjum við útidyrnar og á mottu í anddyri. Að lokum hafi ákærði staðið á fætur, sparkað í A og hlaupið á brott. C hafi farið með honum. Þeir hafi lagt bifreið í næstu götu og hlaupið þangað. Af þeim ástæðum hafi lögregla ekki orðið ferða þeirra vör en hún hafi komið skömmu síðar. B kvað A hafa verð með flösku í hendi er hann hafi opnað dyrnar. Hafi hann borið hana fyrir sig þegar ákærði hafi lamið hann í andlitið. Gæti verið að við fyrsta höggið hafi hún lent á munni A, en flaskan ekki komið við sögu eftir það. A hafi ekki slegið ákærða. Kvaðst B telja að ákærði hafi verið afbrýðisamur út í A og af þeim ástæðum ráðist á hann. Kvaðst B nú vera í sambúð með A, en samband þeirra hafi staðið frá því atburðir hafi átt sér stað.  

C kvaðst hafa verið með ákærða laugardaginn 28. febrúar 2004. Hafi þeir ætlað í sund en ákveðið að fara að [...] á Seltjarnarnesi til að ræða við B. Hafi þeir verið komnir langleiðina að Árbæjarlaug er þeir hafi tekið ákvörðun um að fara heim til B. Ákærði hafi verið fyrrum kærasti B og verið í símasambandi við hana áður en þeir hafi lagt af stað. Ákærði hafi knúið dyra að [...]. Drengur að nafni A, sem C hafi ekki séð fyrr, hafi komið til dyra með bjórflösku í hendi. Ákærði hafi óskað eftir því að fá að ræða við B en farið að rífast við A í dyragættinni. A hafi slegið til ákærða, sem hafi fært sig undan svo höggið hafi komið laust utan í höfuð ákærða. Hafi ákærði sennilega ekki meitt sig neitt við höggið. Ákærði hafi gripið um A til að verða ekki fyrir fleiri höggum og þeir síðan farið að ,,stympast”. Kvaðst C hafa staðið fyrir utan húsið og fylgst með. Hafi honum brugðið við viðbrögð A og því ekki náð að aðhafast neitt til að stöðva átökin. A hafi ítrekað reynt að kýla ákærða en ákærði reynt að halda í A svo hann yrði ekki fyrir höggum. Í átökunum hafi A og ákærði lent í gólfinu og A sennilega farið með andlitið í gólfið. C hafi þó ekki séð það gerast, heldur talið svo vera þar sem A hafi verið blóðugur í andliti eftir átökin og ákærði hvorki slegið til hans né sparkað. Eftir þetta hafi C og ákærði hlaupið á brott. B hafi ráðist á ákærða og rifið í hárið á honum. Hafi hún ekki séð upphaf átakanna og fyrst komið í dyrnar eftir að lætin voru yfir­staðin. C kvaðst fullyrða að ákærði hafi ekki slegið A í höfuðið. Ekki kvaðst C viss um hvor flaska sú er A hafi haft í hendi hafi verið úr plasti eða gleri eða hvort hún hafi rekist í A við átökin.

Pétur Guðmundsson lögreglumaður kvað lögreglu hafa verið boðaða að [...] á Seltjarnarnesi umrætt sinn. Á vettvangi hafi verið rætt við þolanda, sem hafi verið með áverka í andliti. Einnig hafi verið rætt við stúlku, sennilega kærustu brotaþola. Þeim hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Ekki kvaðst Pétur muna eftir að flaska hafi verið á vettvangi. Þá kvaðst Pétur telja að brotaþoli hafi verið án áfengisáhrifa, en ekki hafi fundist áfengislykt af honum.

 

Niðurstaða:

Ákærði hefur borið að hann hafi farið að [...] á Seltjarnarnesi, laugardaginn 28. febrúar 2004. Tilgangur með för hans hafi verið að útkljá samband hans og B. Er ákærði hafi knúið dyra hafi A opnað hurðina. Hafi hann ekki gefið ákærða færi á að ræða við B og slegið ákærða hnefahögg í andlitið. Hafi ákærði þá slegið A eitt hnefahögg í andlitið, stokkið á hann og gripið um hann til að verjast frekari höggum. Við það hafi þeir fallið í gólfið og A rekið andlitið í flísar á gólfi anddyrisins. Við fallið hafi A sennilega hlotið þá áverka er í ákæru greini. Ákærði hafi orðið að taka A hálstaki um hríð til að verjast honum. Eftir stutta stund hafi ákærði þó sleppt og hlaupið í burtu ásamt félaga sínum C. 

A og B bera með öðrum hætti um atvik. Lýsa þau bæði atvikum þannig að ákærði hafi hringt fyrr um morguninn og leitað eftir því hvort foreldrar B væru heima. Einhverju síðar hafi ákærði komið að húsinu við annan mann og knúið dyra. Er A hafi opnað dyrnar hafi ákærði fyrirvaralaust slegið A hnefahögg í andlitið. Hafi hann fylgt atlögu sinni eftir með fleiri hnefa­höggum þar sem A hafi legið í gólfinu. Einnig hafi ákærði tekið A hálstaki um leið og hann hafi haldi barsmíðunum áfram. Á meðan hafi félagi ákærða staðið fyrir utan dyrnar og ekkert aðhafst þrátt fyrir að B hafi þráðfaldlega beðið hann um það. Um leið hafi hún reynt að ná ákærða frá A.  

C kom fyrir dóminn. Bar hann með svipuðum hætti og ákærði um atvik. Í tveim atriðum er frásögn hans þó á annan veg. Hefur hann fullyrt að ákærði hafi ekki slegið A í andlitið. Ákærði hefur þó viðurkennt að hafa slegið A eitt hnefahögg í andlitið. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa tekið A háls­taki þar sem þeir hafi verið í átökum á gólfi anddyrisins. A og B hafa einnig borið um að ákærði hafi tekið A hálstaki. C hefur engu slíku lýst en eingöngu borið að ákærði hafi haldið í A til að verjast höggum frá honum. Vitnið mætti ekki við aðalmeðferð málsins þrátt fyrir að hafa fengið boð um það. Gaf vitnið þá skýringu á fjarveru sinni við aðalmeðferðina að það hefði ,,gleymt” því að mæta. Að mati dómsins er framburður þessa vitnis ótrúverðugur.  

Telja verður hafið yfir vafa að afbrýðisemi hafi stjórnað för ákærða að [...] að morgni laugardagsins 28. febrúar 2004. Hafi ætlunin verið að stofna þar til ófriðar. B hafði þá töluverðu áður slitið sambandi þeirra og ákærða kunnugt um að annar karlmaður var kominn í hans stað. Framburður A og B hefur verið greinargóður og trúverðugur um atvik. Er óhætt að leggja til grundvallar að B hafi orðið vitni að allri atburðarásinni. Læknisvottorð ber um þá áverka er í ákæru greinir. Er fjarstæðukennt að slíkir áverkar geti hlotist af falli einu saman. Verður slegið föstu að ákærði hafi veitt A þessa áverka með hnefa­höggum í andlitið. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.  

Ákærði hefur gengist undir sátt vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Atlaga ákærða að A var harkaleg og langvinn og hlaust af mikið líkamstjón. Þá liggur fyrir að ákærði réðst í förina í félagi við annan mann, gagngert í þeim tilgangi að stofna til ófriðar. Aðdragandi atlögu hans gagnvart A ber með sér að ákærði hafði fyrir fram tekið þá ákvörðun að valda A líkamstjóni. Með hliðsjón af þessu sbr. og 1., 2., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 8 mánuði, sem að hluta verður bundið skilorði svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu A hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafan sett fram með þeim hætti að í fyrsta lagi er gerð krafa um greiðslu á 385.072 krónum, auk vaxta, vegna kostnaðar við lagfæringar á tönnum og kostnað við læknaþjónustu. Hefur fyrsti liður verið lækkaður undir rekstri málsins í það horf er hér greinir. Krafa um greiðslu á 385.072 krónum byggir á mati tannlæknis á hver yrði kostnaður brotaþola af tannskaða sínum. Fyrir liggur að þrjár framtennur brotnuðu. Í vottorðinu kemur fram að postulínskróna kosti um 70.000 krónur og fyllingar um 10.000 krónur ,,stykkið”. Kostnaður við þrjár tennur nemi því ,,trúlega” 380.000 krónum. Þá liggur fyrir að útlagður kostnaður vegna komu á Landspítala háskóla­sjúkrahús 3. mars 2004 hafi numið samtals 5.372 krónum. Byggir þessi kröfuliður þannig að mestu leyti á áætluðum kostnaði við endurbætur. Slík möt hafa dómstólar ekki lagt að jöfnu við raunverulegan kostnað af endurbótum og þar með tjón í skilningi skaðabótalaga. Er þessi kröfuliður vanreifaður og verður af þeim ástæðum vísað frá dómi. Verður útlagður kostnaður að fjárhæð 5.372 krónur þó tekinn til greina.

Í annan stað er gerð krafa um greiðslu á miskabótum að fjárhæð 600.000 krónur, auk vaxta. Ákærði hefur valdið A miskatjóni. Á hann rétt á skaða­bótum á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Samkvæmt dómvenju eru þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir. 

Þá er höfð uppi krafa um greiðslu á 11.878 krónum í þjáningabætur, auk vaxta. Krafa um þjáningabætur eru studd við 3. gr. laga nr. 50/1993. Er á því byggt að A hafi verið rúmfastur í fjóra daga eftir árásina og að hann hafi verið heima við vegna veikinda í viku. Engin gögn hafa verið lögð fram þessu til stuðnings. Er kröfuliður um þjáningabætur því vanreifaður og verður honum vísað frá dómi. Ákærði greiði 60.000 krónur í lögmannskostnað.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglustjóra um sakar­kostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi lög­reglu­stjórans í Reykjavík.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Jökull Jóhannsson, sæti fangelsi í 8 mánuði. Fresta skal fullnustu 5 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A, kt. [...], miskabætur og útlagðan kostnað að fjárhæð 305.372 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 300.000 krónum frá 28. febrúar 2004 til 1. apríl s.á, en af 305.372 krónum frá þeim degi til 15. júlí 2005, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögmannskostnaðar.

Skaðabótakröfu A er að öðru leyti vísað frá dómi.

Ákærði greiði 171.070 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns 156.870 krónur.