Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-155
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sveitarfélög
- Uppsögn
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 2. desember 2022 leitar Sigríður Ólafsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember sama ár í máli nr. 537/2021: Sigríður Ólafsdóttir gegn Vesturbyggð. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til uppsagnar leyfisbeiðanda úr starfi bókara hjá gagnaðila 19. nóvember 2019. Leyfisbeiðandi höfðaði mál til heimtu bóta úr hendi gagnaðila og reisti kröfur sínar á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt, meðal annars þar sem gagnaðila hafi borið að veita sér áminningu áður en til uppsagnar kom.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd hefði verið lagt til grundvallar að játa yrði forstöðumönnum rúmar heimildir til að taka ákvarðanir til hagræðingar í rekstri vegna niðurskurðar á fjárveitingum og að slík ákvörðun sætti ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir, sem gripið væri til, þyrftu að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Réttinum þóttu ekki efni til að hnekkja því mati gagnaðila að réttmætt hefði verið að segja leyfisbeiðanda upp starfi miðað við þau hagræðingaráform sem ráðist var í. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins að farið hefði verið strangar í sakir en nauðsyn bar til miðað við aðstæður. Enn fremur hefði starf aðalbókara, sem gagnaðili auglýsti eftir uppsögn leyfisbeiðanda, að nokkru leyti lotið að öðrum verkefnum en hún hafði sinnt, auk þess sem gerðar hefðu verið ríkari kröfur til menntunar en áskilið var um starf leyfisbeiðanda. Var því lagt til grundvallar að uppsögn leyfisbeiðanda hefði verið í samræmi við gildandi kjarasamning og ákvæði fyrri málsliðar 1. mgr. 43. gr. og síðari málsliðar 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda sé reglulega tekist á um það í opinberum starfsmannarétti hvort uppsagnir starfsmanna séu raunverulega vegna rekstrarlegra aðstæðna eða vegna persónu viðkomandi starfsmanns þannig að áminningarskylda samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 komi til skoðunar. Jafnframt reyni meðal annars á hvaða kröfur séu gerðar til opinberra aðila um fylgispekt við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar og leiðbeiningarreglur fjármálaráðuneytisins til stjórnenda ríkisstofnana um uppsagnir starfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna frá árinu 2011, en leyfisbeiðandi telur að með dómi Landsréttar hafi verið vikið frá fyrri dómaframkvæmd hvað það varðar. Þá reisir hún beiðni sína á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.