Hæstiréttur íslands
Mál nr. 116/2000
Lykilorð
- Lausafjárkaup
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 28. september 2000. |
|
Nr. 116/2000. |
Ljósmyndaþjónustan ehf. (Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Polaroid Europe Export (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) |
Lausafjárkaup. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Á árinu 1992 veitti P L einkaumboð á Íslandi fyrir vörur sem P framleiddi, en rifti samningi aðilanna á árinu 1997 vegna vanskila L. Í kjölfarið höfðað P mál á hendur L til greiðslu skuldar vegna vörukaupa á árunum 1995 til 1997. Í því máli var L sýknaður af kröfum P á grundvelli þess að reikningar frá 1995 til 1997 væru greiddir. Endurráðstafaði P þá öllum innborgunum L til greiðslu á reikningum frá 1995 til 1997, en eftir stóðu reikningar frá 1992 og 1993 og höfðaði P mál þetta á hendur L til greiðslu þeirrar skuldar. Talið var að af skjölum málsins mætti ráða að greiðslur hefðu borist frá L vegna umræddra reikninga og var ekki talið að P hefði tekist að hrekja staðhæfingar L um að reikningarnir hefðu á fyrri stigum verið taldir greiddir að fullu í viðskiptum aðilanna. Talið var að P hefði ekki greint nægilega skýrlega hver sú vangoldna skuld væri sem hann teldi sig eiga hjá L og væri málatilbúnaður hans haldinn slíkum annmörkum að efnisdómur yrði ekki lagður á málið. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2000 og krefst þess aðallega að því verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfu stefnda, en til þrautavara að hún verði lækkuð og upphafstíma dráttarvaxta breytt frá því, sem dæmt var í héraði. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem greinir í héraðsdómi sendi stefndi áfrýjanda bréf 30. september 1997, þar sem hann sagði upp tveimur samningum aðilanna frá 1. janúar 1992 og þar með viðskiptasambandi, sem staðið hafði í tvo áratugi í tengslum við innflutning á vörum frá stefnda hingað til lands. Reisti stefndi uppsögnina á langvarandi vanskilum áfrýjanda á greiðslum vegna viðskiptanna og kom hún í framhaldi af bréfaskiptum aðilanna um það efni. Hafði áfrýjandi meðal annars sent stefnda bréf 15. júlí 1997, þar sem sagði að hann gæti ekki byrjað að greiða af skuld sinni við stefnda fyrr en eftir mitt ár 1998, en að hann vonaðist til að stefndi liti jákvætt á greiðsluáætlun, sem fram kæmi í bréfinu, þar sem stefnt væri að því að greiða á sem skemmstum tíma. Lýsti áfrýjandi þeirri von að viðskipti þeirra gætu haldið áfram. Í greiðsluáætlun áfrýjanda var ráðgert að 20% álag kæmi á alla reikninga frá stefnda fram til 1. ágúst 1998 og með því myndu greiðast 25.000 bandaríkjadalir inn á eldri skuld, en samtals 150.000 bandaríkjadalir til viðbótar yrðu greiddir með sex 25.000 dala greiðslum á tímabilinu frá 1. ágúst 1998 til 31. desember 2000. Í bréfi 11. ágúst 1997 hafnaði stefndi þessu boði áfrýjanda um greiðslu á viðskiptaskuldinni, sem stefndi kvað þar nema 190.921,41 bankaríkjadal. Kvaðst hann verða að krefjast greiðslu skuldarinnar að fullu innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins, en eftir 18. ágúst 1997 gætu aðilarnir ekki átt frekari viðskipti nema þetta yrði leyst. Í bréfi stefnda 30. september 1997, sem áður er getið, kvaðst hann enga greiðslu hafa fengið og því vera neyddur til að segja upp viðskiptasambandi þeirra.
Í kjölfar þeirra bréfaskipta, sem að framan greinir, höfðaði stefndi mál á hendur áfrýjanda 20. nóvember 1997 til greiðslu skuldar að fjárhæð 182.861,11 bandaríkjadalur. Í því máli kvað stefndi áfrýjanda vera í vanskilum með greiðslu 47 nánar tiltekinna reikninga vegna vörukaupa allt frá 9. nóvember 1995 til 6. ágúst 1997, en heildarfjárhæð reikninganna að frádreginni innborgun á einn þeirra næmi stefnufjárhæðinni. Áfrýjandi tók til varna og bar fyrir sig að framlagðir reikningar væru allir greiddir, enda hefði stefndi sjálfur ákveðið áður en reikningarnir voru gefnir út að breyta skilmálum í viðskiptum þeirra á þann veg að öll vörukaup áfrýjanda upp frá því skyldu vera staðgreidd. Mótmælti áfrýjandi því sérstaklega að hann hafi með áðurnefndu bréfi 15. júlí 1997 boðist til að greiða hina umstefndu skuld á þremur árum. Skuldin, sem hann hafi þar boðist til að greiða, hafi átt rætur að rekja til eldri viðskipta aðilanna. Dómur féll í þessu máli 23. júní 1998 í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem fallist var á sýknukröfu áfrýjanda.
Að gengnum þeim dómi, sem hér um ræðir, ráðlagði lögmaður stefnda honum með bréfi 29. júní 1998 að skjóta málinu ekki til Hæstaréttar, heldur að endurráðstafa greiðslum, sem frá áfrýjanda hefðu komið, og höfða nýtt mál á grundvelli eldri ógreiddra reikninga, allt til samræmis við niðurstöðu dómsins. Í því, sem nú er til úrlausnar, er dómkrafa stefnda reist á 26 vörureikningum, útgefnum á tímabilinu frá 13. desember 1993 til 23. september 1994, sem að frádreginni innborgun á elsta reikninginn hljóða á samtals 182.861,11 bandaríkjadal.
II.
Áfrýjandi styður kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi með því að stefndi hafi sjálfur haldið fram í fyrra dómsmáli þeirra að skuld samkvæmt reikningum á hendur áfrýjanda eldri en frá 9. nóvember 1995 væri að fullu greidd. Jafnframt krefjist stefndi dóms um kröfu, sem þegar hafi verið dæmd að efni til. Stefndi hljóti að vera bundinn af öllum málatilbúnaði sínum, yfirlýsingum og niðurstöðu dómsins í hinu fyrra máli. Hann geti ekki heldur breytt bókhaldi sínu að vild, eins og hann hafi nú gert. Til stuðnings sýknukröfu heldur áfrýjandi fram að hann sé ekki í vanskilum með greiðslur fyrir vörur samkvæmt þeim reikningum, sem stefndi reisi nú málsókn sína á. Viðskiptum þeirra á tímabilinu, sem reikningar þessir taka til, hafi verið háttað þannig að vörusendingum stefnda hafi verið komið í tollvörugeymslu, þar sem áfrýjandi hafi tekið út vörur smám saman. Hafi stefnda verið sendar greiðslur vegna þeirra úttekta. Með greiðslunum hafi fylgt gögn, sem hafi sýnt hvaða vörur hafi verið teknar út, og hafi þar verið vísað til viðkomandi reikninga hverju sinni. Stefndi hafi viðurkennt að hafa fengið þessar greiðslur með skilum og ráðstafað þeim sem innborgun á þá reikninga, sem átt hafi við hverju sinni, eins og nánar greini í framlögðu bréfi stefnda til lögmanns síns 23. janúar 1998. Heldur áfrýjandi því fram að allar þær vörur, sem reikningarnir í máli þessu taka til, hafi verið teknar út úr tollvörugeymslu og séu þar með greiddar í samræmi við þetta fyrirkomulag.
III.
Eins og áður segir krefst stefndi í máli þessu greiðslu skuldar úr hendi áfrýjanda samkvæmt 26 nánar tilgreindum reikningum, sem dagsettir eru á tímabilinu 13. desember 1993 til 23. september 1994. Óumdeilt er að vörurnar, sem þessir reikningar voru gerðir fyrir, fóru í tollvörugeymslu, svo og að þar sé ekki lengur að finna óútleystar vörur frá stefnda.
Í fyrrnefndu bréfi stefnda til lögmanns síns 23. janúar 1998, þar sem skýrt var frá gangi viðskipta við áfrýjanda og skilmálum í þeim, kom meðal annars fram að í upphafi viðskiptanna hafi áfrýjandi fengið vörur frá stefnda afhentar með 90 daga gjaldfresti. Vanefndir hafi orðið á greiðslum frá áfrýjanda og þá verið horfið að því að senda vörur frá stefnda í tollvörugeymslu, en samkvæmt málflutningi stefnda fyrir Hæstarétti mun þetta hafa gerst á árinu 1991. Hafi áfrýjandi átt að greiða stefnda jafnharðan fyrir allar vörur, sem hann tók út úr tollvörugeymslu. Þær greiðslur hafi borist með skilum ásamt gögnum um hvaða vörur hafi verið teknar út hverju sinni og tilvísun til reiknings fyrir þeim. Stefndi hafi skipt þessum greiðslum niður á viðeigandi reikninga og fært þær sem innborganir á þá, en yfirlit yfir viðskiptareikning áfrýjanda hafi borið þessa skipan með sér. Vanefndir á greiðslu hafi þó eftir sem áður orðið af hálfu áfrýjanda. Skilmálum í viðskiptunum hafi því enn verið breytt og þá þannig að áfrýjandi hafi orðið að greiða reikninga fyrir vörusendingum fyrirfram ásamt álagi vegna eldri skulda. Um leið og þessi skipan var tekin upp hafi öllum greiðslum, sem höfðu fram að því verið færðar sem innborganir á tilteknar reikningsskuldir á viðskiptareikningi áfrýjanda, verið ráðstafað þar á ný og þá látnar ganga upp í elstu skuldir hans. Hafi verið farið á sama hátt með greiðslur, sem bárust eftir þetta. Hafi þær því ekki verið færðar á viðskiptareikningnum til uppgjörs á vörureikningum, sem þær tengdust, heldur verið látnar ganga upp í elstu skuldir á hverjum tíma.
Í bréfi stefnda til lögmanns síns 4. ágúst 1998, sem lagt var fram í Hæstarétti, greindi hann eins og í fyrrnefndu bréfi 23. janúar 1998 frá því að þegar vörur til áfrýjanda hafi verið sendar í tollvörugeymslu hafi hann tekið þær út eftir þörfum og sent stefnda greiðslu vegna þeirra með vissu millibili ásamt gögnum. Þetta hafi verið fært í bókhaldi stefnda sem greiðslur inn á sérstaka reikninga. Á vissum tímapunkti, sennilega í október 1994, hafi skilmálum í viðskiptum aðilanna verið breytt í staðgreiðslu reikningsfjárhæðar með 10% álagi. Áfrýjanda hafi þá verið tjáð að stefndi myndi breyta færslu viðskiptareiknings hans með því annars vegar að ráðstafa öllum greiðslum, sem þegar hefðu borist, til að jafna út skuld samkvæmt elstu vörureikningum hverju sinni og hins vegar að nota allar greiðslur, sem bærust upp frá því, í sama skyni án tillits til þess hvort þær kæmu vegna nýrra vörusendinga.
Áfrýjandi hefur bent á að skjöl málsins beri með sér að reikningar, sem stefndi leitist nú við að fá dóm fyrir, hafi þegar verið greiddir. Af ofangreindum skýringum stefnda verður ekki annað séð en að greiðslur hafi borist frá áfrýjanda vegna þessara reikninga í tengslum við úttektir úr tollvörugeymslu, en stefndi heldur því aftur á móti fram að hann hafi á síðari stigum fært þessar greiðslur í bókhaldi sínu sem innborganir á eldri reikninga á hendur áfrýjanda. Stefndi hefur ekki gefið frekari skýringar á þessum eldri reikningum eða lagt fram bókhaldsgögn um þá. Hann hefur heldur ekki leitast við að hrekja með gögnum staðhæfingar áfrýjanda um að reikningar, sem búa að baki kröfu stefnda í málinu, hafi á fyrri stigum verið taldir greiddir að fullu í viðskiptum aðilanna. Af skjölum og málatilbúnaði stefnda í þessu máli, svo og í fyrra dómsmáli aðilanna, má ljóst vera að hann telji sig eiga vangoldna skuld hjá áfrýjanda samkvæmt niðurstöðu viðskiptareiknings hans, enda hefur áfrýjandi í áðurnefndu bréfi 15. júlí 1997 og í greinargerð í fyrra dómsmálinu viðurkennt uppsafnaða skuld við stefnda. Stefndi hefur hins vegar ekki skýrlega greint hver sú skuld sé, en ljóst er að framlagðir reikningar í máli þessu sýna það ekki. Stefndi hefur því ekki lagt fullnægjandi grunn að máli sínu. Verður að telja þennan málatilbúnað stefnda haldinn slíkum annmörkum að efnisdómur verði ekki lagður á málið. Verður því að vísa málinu frá héraðsdómi.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2000.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 22. ágúst 1998.
Stefnandi er Polaroid Europe Export, Wheathampstead House, Codicote Road Wheathampstead, Hertfordshire, Englandi.
Stefndi er Ljósmyndaþjónustan ehf., kt. 420283-0249, Ásholti 2, Reykjavik (með lögheimili að Laugavegi 178, Reykjavik).
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð USD 182.861,11, með 7,3% drv af USD 134.967,91 frá 10.09.94 til 17.09.94, en af USD 154.467,46 frá þ.d. til 01.10.94, en með 7,4% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 05.10.94, en af USD 154.761,26 frá þ.d. til 18.10.94, en af USD 164.377,66 frá þ.d. til 01.11.94, en með 7,9% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 0.11.94, en af USD 165.974,71 frá þ.d. til 12.11.94, en af USD 180.411,91 frá þ.d. til 24.11.94, en af USD 181.225,06 frá þ.d. til 01.12.94, en með 8,3% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 19.12.94, en af USD 182.026,56 frá þ.d. til 23.12.94, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til 01.01.95, en með 8,6% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.02.95, en með 9,1% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.03.95, en með 9,1% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.04.95, en með 9,0% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.0.95, en með 9,1% drv. frá þ.d. til 01.06.95, en með 8,9% drv. frá þ.d. til 01.12.95, en með 9,1% drv. frá þ.d. til 01.01.96, en með 9,0% drv. frá þ.d. til 01.03.96, en með 8,8% drv. frá þ.d. til 01.08.96, en með 8,6% drv. frá þ.d. til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. skv. 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þ.d. til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Þess er krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstólinn og dæmdan málskostnað á 12 mánaða fresti.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum stefnukröfunum og til þrautavara að þær verði stórlega lækkaðar og upphafstíma dráttarvaxta breytt. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Aðilar máls þessa gerðu með sér tvo samninga dagsetta 1. janúar 1992. Samkvæmt öðrum þeirra skyldi stefndi hafa einkaumboð hér á landi fyrir þær vörur sem stefnandi framleiddi fyrir áhugaljósmyndara og samkvæmt hinum skyldi stefndi hafa einkaumboð hér á landi fyrir vörur sem stefnandi framleiddi til notkunar fyrir atvinnuljósmyndara.
Þann 15. júlí 1997 ritaði forsvarsmaður stefnda bréf til stefnanda. Því bréfi fylgdi áætlun um greiðslu skuldar stefnda við stefnanda sem skyldi greiðast á tímabilinu 1. apríl 1998 til 31. desember 2000.
Bréfi þessu var svarað af hálfu stefnanda 11. ágúst 1997 þar sem áætlun stefnda um greiðslu á skuld við stefnanda að fjárhæð 190.921,41 bandaríkjadalur er hafnað og boðað að málefni þetta verði falið lögmönnum stefnanda. Jafnframt segir að eftir 17 ágúst 1997 verði ekki um frekari viðskipti aðila að ræða. Með bréfi dagsettu 30 september 1997 til stefnda var samningunum frá 1. janúar 1992 rift frá 1. október 1997 með vísan til ákvæðis 15. gr. þeirra.
Í kjölfar þessa höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu, þar sem krafið var um greiðslu á 182.861,11 bandaríkjadölum úr hendi stefnda samkvæmt 47 reikningum dagsettum á tímabilinu 9. nóvember 1995 til 6. ágúst 1997. Af hálfu stefnda var tekið til varna og því haldið fram að umkrafin skuld væri greidd og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður felldur niður. Rétt þykir að rekja hér forsendur dómsins:
"Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefnanda hafi verið heimilt að ráðstafa þeim greiðslum sem bárust frá stefnda til greiðslu eftirstöðva uppsafnaðrar skuldar. Í stefnu er engin grein gerð fyrir eldri skuld stefnda við stefnanda og er stefna á því byggð að stefndi hafi ekki greitt reikninga þá er mál þetta snýst um að undanskilinni 219,59 bandaríkjadala innborgun. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi greitt reikningana enda sýnist greiðsla hafa verið forsenda þess að varan fengist afhent. Þá er upplýst að stefndi hefur frá því í marsmánuði 1996 greitt reikninga með álagi og heldur stefndi því fram að sú viðbót hafi átt að ganga til greiðslu eldri skuldar. Munu viðskipti aðila hafa haldið áfram með þessum hætti fram í ágústmánuð 1997. Eins og mál þetta er vaxið má ætla að stefndi hafi staðið í þeirri trú að hann væri að greiða reikninga þá er mál þetta snýst um en ekki eldri uppsafnaða skuld nema að því marki sem áður er getið. Af gögnum málsins má ráða að stefnanda hafi verið ljós þessi afstaða stefnda. Telja verður það meginreglu í kröfurétti að skuldari eigi val um það hverja af gjaldkræfum skuldum við sama kröfuhafa hann greiðir. Verður því að telja að umræddir reikningar séu að fullu greiddir og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Að gegnum þessum dómi endurráðstafaði stefnandi öllum innborgunum stefnda til greiðslu á þeim 47 reikningum sem stefnt var út af í ofangreindu máli auk álags samtals að fjárhæð 6.100,29 bandaríkjadalir sem skyldi ganga til greiðslu á eldri skuldum stefnda við stefnanda. Stóðu þá eftir þeir 182.861,11 dalir sem stefnandi krefur um hér samkvæmt 26 reikningum dagsettum á tímabilinu 13. desember 1993 til 23. september 1994. Stefnandi hefur lagt fram reikninga þessa.
Að öðru leyti vísar stefnandi til sundurliðunar umkrafinna reikninga í stefnu. Þannig sýni bókhald stefnanda nú alla reikninga greidda sem stafi frá viðskiptum aðila og dagsettir séu fyrir og eftir umkrafið tímabil.
Krafist er drv. af erlendri fjárhæð skv. 11. gr. laga nr. 25/1987 frá 10. september 1994 af þeim reikningum sem gjaldfallið hafi fyrir það tímamark, og vísað er til sundurliðunar kröfu í stefnu. Litið sé á að dráttarvextir sem gjaldfallið hafi fyrir það tímamark séu fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14 frá 1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Það sé málsástæða stefnanda að reikningar sem útgefnir séu fyrir sama tímamark séu ekki fyrndir sbr. 1. tl. 3. gr. sömu laga. Um hafi verið að ræða samfelld viðskipti stefnanda og stefnda í nálægt 20 ár sem endað hafi með uppsögn stefnanda með bréfi dags. 30. sept. 1997. Fyrningarfrestur skuldarinnar byrji að 1íða frá þeim tíma.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á einkasölusamningum málsaðila dagsettum 1. janúar 1992 og á almennum reglum kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga.
Um kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti vísar stefnandi til III kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda er byggt á því að í fyrrnefndu máli hafi af hálfu stefnanda verið lagt fram bréf lögmanns stefnanda til hans, dags. 6. desember 1998, sem ritað hafi verið í tilefni þá nýframlagðar greinargerðar stefnda. Skýri lögmaðurinn þar frá, að stefndi haldi því fram í greinargerðinni, að umstefnd skuld sé þegar greidd. Síðar í bréfinu spyrji lögmaðurinn, hvort ógreiddir séu einhverjir eldri reikningar. Biðji hann um skýringar og athugasemdir umbjóðanda síns við framannefnda staðhæfingu og varnarástæðu stefnda. Komi þær fram í bréfi stefnanda til lögmannsins, dagsettu 23. janúar 1998. Segir þar (í 4. tl.), að allar greiðslur frá stefnda tiltekið tímabil, þ.e. frá því að bera fór á vanskilum hans og til loka viðskiptasambands aðila hafi verið látnar ganga til greiðslu elstu ógreiddra reikninga ("...........applied to clear the oldest invoices"). Með bréfi þessu hafi fylgt þrjú reikningsyfirlit, sem sögð séu sýna viðskiptaskuld stefnda 2. maí 1996, 3. júlí 1996 og 12. ágúst 1996. Í því síðastnefnda sjáist, að elsti ógreiddi reikningurinn sé sagður dags. 27. júlí 1995. Samkvæmt reikningsyfirliti stefnanda, dagsettu 24. október 1997 sé elsta skuld stefnda sögð skv. reikningi, dagsettum 9. nóvember 1995. Yfirlit þessi hafi stefnandi sjálfur lagt fram til stuðnings málstað sínum og þrátt fyrir framangreinda varnarástæðu stefnda, sem m.a. hafi verið studd gögnum frá stefnanda sjálfum, hafi hann haldið kröfugerð sinni með tilheyrandi málsástæðum og staðhæfingum til streitu. Þessi framganga hans í fyrra málinu og tilvitnanirnar í gögn frá honum sjálfum feli í sér viðurkenningu og staðfestingu hans sjálfs á því, að meint reikningsskuld stefnda hafi ekki náð lengra aftur en til reikningsins frá 9. nóvember 1995. Eldri reikningar hafi samkvæmt því allir verið greiddir.
Með vísan til þessa stoði stefnanda ekki nú, eins og hér stendur sérstaklega á, að endurráðstafa "öllum innborgunum stefnda í samræmi við dómsniðurstöðuna" eins og orðrétt segi í stefnu hans, með þeirri niðurstöðu, að elsti ógreiddi reikningur sé nú nr. 25054, dagsettur 13. desember 1993, og sundurliða skv. því reikninga "í vanskilum og krafa stefnanda" eins og þar er gert. Sú viðbára og sú tilhögun gangi ekki. Stefnandi sé að krefjast dóms á skuld sem hann hafi lýst yfir, að sé ekki til staðar. Hann sé jafnframt að krefjast dóms um kröfu, sem þegar hafi verið dæmd að efni til. Stefnandi sé bundinn öllum málatilbúnaði sínum, yfirlýsingum og niðurstöðu dómsins í fyrra málinu og leiði slíkt til algerrar sýknu stefnda í máli þessu.
Þess utan hafni stefndi því, að rétt sé með farið í stefnu. Ljóst sé af þessu máli og nefndu fyrra máli, að bókhaldi stefnanda sé ekki að treysta. Því sé hagað eftir því sem honum henti hverju sinni. Raunsanna mynd af greiðslum stefnda, ráðstöfun þeirra í samræmi við skilmála og viðskiptum aðila að öðru leyti, gefi það ekki. Fyrir vikið sé ekkert á því byggjandi, það sanni ekki eitt eða neitt, og þess vegna geti það ekki hér orðið grundvöllur áfellisdóms á hendur stefnda gegn mótmælum hans við kröfugerðinni og málsframsetningu stefnanda að öðru leyti. Þessi málsástæða leiði til sýknu sbr. varakröfu stefnda.
Lagarök fyrir dómkröfum sínum sækir stefndi í 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 4. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.
NIÐURSTAÐA:
Af bréfi stefnda frá 25. júlí 1997 er ljóst að stefndi átti ógreidda reikninga frá stefnanda enda leitar forsvarsmaður stefnda þar samkomulags um uppgjör á 175.000 bandaríkjadölum. Þá kemur fram í bréfi stefnanda dagsettu 11. ágúst 1997 til stefnda að stefnandi telur stefnda skulda sér 190.921,40 bandaríkjadali. Einnig hafa verið löð fram reikningsyfirlit frá 15. apríl 1994 og 15. júlí s.á. þar sem fram kemur í bréfi sem fylgir því síðara að stefndi skuldaði stefnanda þá 176.544,22 bandaríkjadali. Ekki er að finna í málinu mótmæli við ofangreindum tveimur reikningsyfirlitum og hvað bréfið frá 11. ágúst 1997 snertir er þess að geta að fram hefur verið lagt bréf frá stefnda dagsett 3. október 1997 þar sem segir undir lok bréfsins að stefndi sé ekki í neinni aðstöðu til þess að greiða skuld sína og eigi ekki eignir eða peninga. Er ekki að finna í bréfi þessu neinar athugasemdir við fjárhæð þá sem greinir í fyrrnefndu bréfi stefnanda frá 11. ágúst s.á. Lögð hafa verið fram gögn um greiðslur frá stefnda til stefnanda á tímabilinu 3. desember 1993 til 1. desember 1994 samtals að fjárhæð 212.955,49 bandaríkjadalir. Gerð er grein fyrir því á fyrrnefndum reikningsyfirlitum og yfirliti sem fylgdi bréfi frá stefnanda, dagsettu 10. janúar sl. að greiðslur þessar voru færðar stefnda til tekna. Með hliðsjón af gögnum þeim um greiðslur stefnda og reikningum þeim sem stefnandi hefur lagt fram og krefur um greiðslu á þykir sýnt fram á að stefndi skuldi honum stefnufjárhæðina, 182.861,11 bandaríkjadali.
Af hálfu stefnda hefur þeirri vörn verið haldið uppi að stefnandi hafi með yfirlýsingu í máli því, er fyrr greinir og dæmt var 23. júní 1998, ráðstafað sakarefninu með því að gefa yfirlýsingu í bréfi til lögmanns síns þar sem segi að stefndi skuldi ekki eldri reikninga en þar eru nefndir. Eins og að framan greinir hafði stefnandi ráðstafað greiðslum frá stefnda inn á elstu skuldir hans í viðskiptum þeirra en af dómi Héraðsdóms leiddi að greiðslum stefnda varð ráðstafað til greiðslu á þeim 47 reikningum sem um var krafið í því máli. Var því vart við því að búast að stefnandi teldi sig eiga kröfur á hendur stefnda vegna reikninga, sem stefnandi hafði talið stefnda þegar hafa greitt. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu stefnda.
Þá er til þess að líta að fram kemur í málinu að aðilar höfðu átt í viðvarandi viðskiptum í yfir 20 ár og einnig að viðskiptasamband þeirra byggðist á samningum um einkaumboð stefnda er atvik máls þessa urðu og verður því ekki fallist á það með stefnda að hluti krafna stefnanda sé fyrndur sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða málsins að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda stefnukröfu hans ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði. Eftir úrslitum málsins er stefnda gert að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Ljósmyndaþjónustan ehf., greiði stefnanda, Polaroid Europe Export, 182.861,11, bandaríkjadali með 7,3% drv af 134.967,91 dölum frá 10.09.94 til 17.09.94, en af 154.467,46 dölum frá þ.d. til 01.10.94, en með 7,4% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 05.10.94, en af 154.761,26 dölum frá þ.d. til 18.10.94, en af 164.377,66 dölum frá þ.d. til 01.11.94, en með 7,9% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 0.11.94, en af 165.974,71 dölum frá þ.d. til 12.11.94, en af 180.411,91 dölum frá þ.d. til 24.11.94, en af 181.225,06 dölum frá þ.d. til 01.12.94, en með 8,3% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 19.12.94, en af 182.026,56 dölum frá þ.d. til 23.12.94, en af stefnufjárhæðinni 182.861,11 dölum frá þeim degi til 01.01.95, en með 8,6% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.02.95, en með 9,1% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.03.95, en með 9,1% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.04.95, en með 9,0% drv. af sömu fjárhæð frá þ.d. til 01.0.95, en með 9,1% drv. frá þ.d. til 01.06.95, en með 8,9% drv. frá þ.d. til 01.12.95, en með 9,1% drv. frá þ.d. til 01.01.96, en með 9,0% drv. frá þ.d. til 01.03.96, en með 8,8% drv. frá þ.d. til 01.08.96, en með 8,6% drv. frá þ.d. til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. skv. 11. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá þ.d. til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.