Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
- Vitni
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
- Aðfinnslur
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 20. janúar 2014. |
|
Nr. 1/2014. |
Banque Havilland S.A. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn þrotabúi Baugs Group hf. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) |
Kærumál. Gagnaöflun. Vitni. Kæruheimild. Frávísun frá Hæstarétti. Aðfinnslur. Sératkvæði.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina beiðni þrotabús B hf. um að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði héraðsdóms þar sem synjað hefði verið um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi. Af orðum þessa lagaákvæðis leiddi að heimild brysti til að kæra úrskurð héraðsdóms þar sem beiðni um gagnaöflun sem þessa hefði verið tekin til greina. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að leiða tvö nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til b. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að fyrrgreindri beiðni varnaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurður og kærumálskostnaðar.
Mál þetta á rætur að rekja til þess að dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. mars 2013 í máli, sem varnaraðili höfðaði á hendur sóknaraðila og fimm öðrum félögum. Varnaraðili hefur áfrýjað héraðsdómi að því er sóknaraðila varðar. Í tengslum við það leitaði varnaraðili með beiðni 27. maí 2013 eftir því að fá að leiða tvo nafngreinda menn fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til að gefa skýrslur til afnota í málinu. Í beiðninni var réttilega vísað til ákvæða XI. kafla laga nr. 91/1991 sem stoð fyrir þessari beiðni, sbr. einkum 75. gr. laganna. Sóknaraðili tók til andmæla gegn beiðninni, en með hinum kærða úrskurði var hún sem áður segir tekin til greina.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms, þar sem synjað hefur verið um heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi. Sú kæruheimild lýtur að slíkri gagnaöflun, sem um ræðir í XI. kafla laganna. Af orðum þessa lagaákvæðis leiðir að heimild brestur til að kæra úrskurð héraðsdóms, þar sem beiðni um gagnaöflun sem þessa hefur verið tekin til greina. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um mál þetta sem vitnamál, varnaraðili nefndur vitnastefnandi og sóknaraðili vitnastefndi. Slík notkun hugtaka á sér enga stoð í lögum nr. 91/1991, enda er hvorki ráðgert þar að skýrslur verði við aðstæður sem þessar teknar í sérstöku máli né að nokkur stefni öðrum fyrir dóm í þessu skyni.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar í hliðstæðum málum, sbr. umfjöllun um það atriði í dómi Hæstaréttar 20. ágúst 2010 í máli nr. 418/2010, sbr. einnig síðari dóma, meðal annars 3. júní 2013 í máli nr. 321/2013 og 12. desember 2013 í máli nr. 746/2013, hefur verið talið að heimilt sé að kæra úrlausn héraðsdóms þegar svo stendur á sem hér. Tel ég því að taka verði kæru sóknaraðila til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. maí sl., óskaði vitnastefnandi, þrotabú Baugs Group hf., Efstaleiti 5, Reykjavík eftir því að skýrslur yrðu teknar fyrir dómi af vitnunum Magnúsi Guðmundssyni, kt. [...], Lúxemborg, Hreini Loftssyni, kt. [...], Sunnuflöt 15, Garðabæ og Einari Bjarna Sigurðssyni, kt. [...], Reynimel 74, Reykjavík.
Við þingfestingu málsins 20. september sl. óskaði vitnastefndi, Banque Havilland S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy, Lúxemborg, eftir fresti til að kynna sér gögn málsins. Í þinghaldi 4. október sl. mótmælti vitnastefndi því að umbeðnar skýrslutökur færu fram.
Vitnastefnandi krefst þess að heimilað verði að fram fari vitnaleiðsla fyrir dómi af Hreini Loftssyni og Magnúsi Guðmundssyni. Þá krefst vitnastefnandi málskostnaðar úr hendi vitnastefnda.
Vitnastefndi krefst þess að beiðni vitnastefnanda um skýrslutökur fyrir dómi verði hafnað. Þá krefst vitnastefndi málskostnaðar úr hendi vitnastefnanda.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 15. nóvember sl.
Efni beiðni vitnastefnanda
Vitnastefnandi rekur í beiðni sinni að 21. mars sl. hafi dómur fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu nr. E-2356/2010: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Fjárfestingarfélaginu Gaumi ehf., Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Gaumi Holding S.A., Bague S.A., Banque Havilland S.A. og Pillar Securitisation S.á.r.l. Niðurstaða dómsins hafi orðið á þá leið að rift var greiðslum Baugs Group hf., vitnastefnanda, til Gaums ehf., Gaums Holding, ISP ehf. og Bague S.A. Þessum aðilum hafi verið gert að endurgreiða vitnastefnanda þær greiðslur sem þeir hefðu fengið frá Baugi Group hf. þegar félagið keypti hlutabréf í sjálfu sér af þessum félögum.
Bague S.A. hafi verið dæmt til að endurgreiða þrotabúinu 1.328.962.213 krónur auk dráttarvaxta, en þessa fjárhæð hefði félagið notað til að greiða niður skuldir sínar gagnvart Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem síðar varð m.a. að Banque Havilland S.A, vitnastefnda. Vitnastefndi hafi hins vegar verið sýknaður af kröfum vitnastefnanda í málinu.
Kröfu sína á hendur vitnastefnda hafi vitnastefnandi byggt á 146. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Héraðsdómur hafi sýknað vitnastefnda á þeim grundvelli að ekki hafi verið lögð fram gögn, eða með öðrum hætti leitt nægjanlega í ljós, að stjórnendur vitnastefnda hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggist á, sbr. skilyrði 146. gr. laga nr. 21/1991.
Þrátt fyrir niðurstöðu héraðsdóms liggi fyrir gögn sem gefi vísbendingu um að stjórnendur Kaupþing Bank Luxembourg S.A., síðar vitnastefnda, hafi vitað eða mátt vita um þær aðstæður sem riftunarkrafan byggist á. Að mati vitnastefnanda standi sterk rök til þess að skilyrði um grandsemi hafi verið uppfyllt í þessu sambandi. Til að leiða þá grandsemi í ljós fari vitnastefnandi þess á leit að teknar verði skýrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hreini Loftssyni og Magnúsi Guðmundssyni í tengslum við fyrirhugaða áfrýjun á dómi héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-2356/2010.
Vitnastefnandi vísar til þess að í XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé veitt heimild til að afla sönnunargagna fyrir öðrum dómi en þeim þar sem mál sé rekið. Í 73. til 76. gr. séu skilyrði og réttarfarsreglur um mál samkvæmt kaflanum nánar tilgreind. Samkvæmt 76. gr. gildi ákvæði 75. gr. og þar með ákvæði kaflans í heild, þegar gagna sé aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðri dómi. Í þessu sambandi megi einnig benda á dóm Hæstaréttar frá 20. ágúst 2010 í máli nr. 418/2010.
Málsástæður vitnastefnanda
Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður vitnastefnanda til þess að þetta mál væri einfalt og snerist um það eitt hvort tveir nafngreindir menn verði leiddir fyrir dóminn til skýrslugjafar sem vitni. Vitnastefnandi hafnar öllum málsástæðum vitnastefnda sem haldlausum, en þær varði efni málsins.
Vitnastefnandi byggir á því að beiðni hans um skýrslutökur sé sett fram í samræmi við lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í XI. kafla laga nr. 91/1991 séu heimilaðar skýrslutökur fyrir héraðsdómi í tengslum við rekstur máls fyrir Hæstarétti Íslands, sbr. 76. og 75. gr. laganna. Beiðni vitnastefnanda uppfylli skilyrði 1. mgr. 73. gr. laga nr. 91/1991. Áfrýjunarfrestur málsins nr. E-2356/2010 hafi ekki verið liðinn þegar vitnastefnandi hafi lagt fram beiðni sína og sé enn ekki liðinn, sbr. 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991.
Hvorki orðalag 76. gr. laga nr. 91/1991 né dómafordæmi Hæstaréttar styðji það að óheimilt sé að afla gagna á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991 á meðan áfrýjunarfrestur líði. Tilgangur áfrýjunarfrests sé að undirbúa áfrýjun til Hæstaréttar, þar á meðal að afla nýrra sönnunargagna. Tímafrestir við rekstur máls fyrir Hæstarétti séu stuttir og því sé nauðsynlegt að geta aflað gagna sem fyrst eftir að héraðsdómur gangi. Andstæð skýring leiddi til þess að ekki væri unnt að afla gagna, til dæmis vitnaskýrslna um umdeild málsatvik, fyrr en eftir áfrýjun. Vegna tímafresta fyrir Hæstarétti væri nánast ókleift að leggja þau fyrir Hæstarétt.
Verði ekki fallist á það að beiðni vitnastefnanda eigi að fara eftir XI. kafla laga nr. 91/1991 telur vitnastefnandi að beiðni hans uppfylli einnig skilyrði XII. kafla laganna.
Umbeðnar vitnaskýrslur hafi mikla þýðingu í tengslum við umdeild málsatvik. Í samræmi við 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 leitist vitnastefnandi við að upplýsa málsatvik varðandi aðkomu Kaupþings Bank Luxembourg S.A., nú vitnastefnda, að riftanlegum kaupum Baugs Group hf. á eigin hlutabréfum að andvirði um 15 milljarða króna sumarið 2008. Hvað vitnastefnda snerti varði niðurstaða héraðsdóms beinlínis þetta atriði, þ.e. sönnun á grandsemi vitnastefnda. Vitnastefndi hafi sjálfur lagt fram gögn um grandsemi sína í síðasta þinghaldi fyrir aðalmeðferð málsins.
Til skýringar á málsatvikum sé nauðsynlegt að taka skýrslur af Hreini Loftssyni, sem einum eiganda Bague S.A. og Magnúsi Guðmundssyni, sem fyrrverandi forstjóra Kaupþings Bank Luxembourg S.A. Þegar vitni gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins hafi komið fram upplýsingar sem hafi leitt til þess að umbeðnar skýrslutökur séu nauðsynlegar. Sem dæmi megi nefna að í vitnaskýrslu Stefáns Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Baugs Group hf., hafi komið fram að vitnastefndi hefði aflað upplýsinga beint frá móðurfélaginu Kaupþingi banka hf. Þá fyrst hafi verið tilefni til þess að óska eftir því að umbeðnar vitnaleiðslur færu fram.
Vitnastefnandi hafnar því að ekki megi taka vitnaskýrslu af Magnúsi Guðmundssyni vegna búsetu hans erlendis. Magnús sé íslenskur ríkisborgari og falli því undir lögsögu íslenskra dómstóla. Ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 fjalli um vitnaskyldu, ekki hvort vitnastefnanda sé heimilt að leiða Magnús sem vitni. Það sé vitnastefnanda að annast boðun vitna til skýrslutöku, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 91/1991, og að bregðast við ef vitni mætir ekki til skýrslutöku. Vangaveltur um hvort Magnúsi sé skylt að gefa skýrslu séu þýðingarlausar.
Vitnastefndi hafnar öðrum andmælum vitnastefnda sem haldlausum. Þær varði atriði sem ekki tengist rekstri þessa vitnamáls. Málsástæður um að reglum laga nr. 91/1991 um varnarþing verði ekki beitt við rekstur vitnamáls, um lögsögu vitnastefnda, um hvort vitnastefndi sé bundinn af íslenskum lögum, um kröfu vitnastefnanda gegn Bague S.A. og um 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, komi því ekki til skoðunar í þessu máli.
Hinn 4. nóvember sl. hafi vitnastefnandi óskað eftir því að fella niður Hæstaréttarmálið nr. 419/2013 og það verið fellt niður. Eftir niðurfellingu málsins hefjist nýr fjögurra vikna áfrýjunarfrestur, sbr. 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Því sé ljóst að málið sé rekið fyrir Hæstarétti. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sé því ekki orðinn endanlegur, hvað varðar þátt vitnastefnda.
Málsástæður vitnastefnda
Vitnastefndi telur að hafna beri beiðni vitnastefnanda. Í fyrsta lagi telur vitnastefndi að beiðnin sé byggð á röngum lagagrundvelli. Vitnastefnandi hafi sett fram beiðni um skýrslutöku á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála 27. maí sl. Þann dag hafi hvorki verið uppfyllt það skilyrði 76. gr. laga nr. 91/1991 að mál væri rekið fyrir öðrum hliðstæðum dómstól né æðra dómstól. Héraðsdómi hafi þegar af þeirri ástæðu borið að hafna beiðninni. Vitnastefnandi hafi fyrst höfðað mál fyrir Hæstarétti Íslands með birtingu áfrýjunarstefnu 24. júlí 2013.
Vitnastefndi telur í öðru lagi að hann lúti ekki lögsögu íslenskra dómstóla. Því verði hann ekki gerður að aðila að máli um öflun sönnunargagna fyrir íslenskum dómstólum. Ekki sé heimilt að höfða riftunarmál samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hér á landi vegna aðila sem sé búsettur erlendis, nema viðkomandi hafi undirgengist íslenska lögsögu í samningi við þrotamann. Óumdeilt sé að engir samningar hafi verið gerðir á milli vitnastefnda og Baugs Group hf. Varnarþingsregla í 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sem hafi verið sett í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 379/2011, eigi ótvírætt einungis við um fjármálafyrirtæki undir slitum, sem vitnastefnandi sé ekki.
Í þriðja lagi fullyrðir vitnastefndi að umbeðin skýrslugjöf hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins og beri því að hafna henni, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vitnastefndi sé fyrir það fyrsta ekki bundinn af íslenskum lögum. Óháð niðurstöðu um það hvort höfða megi mál á hendur vitnastefnda hér á landi, sé hann því óbundinn af ákvæðum laga nr. 21/1991 sem vitnastefnandi byggi á málatilbúnað sinn gegn honum. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 felist að íslenskir dómstólar geti ekki dæmt um sakarefni sem íslensk lög og landsréttur nái ekki til. Öflun sönnunargagna hafi því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Vitnastefndi sé lúxemborgískt félag, stofnað 10. júlí 2009, ásamt lúxemborgíska félaginu Pillar Securitisation S.á.r.l., til að taka við eignum og rekstri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Vitnastefndi sé því nýr og sjálfstæður lögaðili, sem hafi tekið við bankastarfsemi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og ábyrgðist skuldbindingar þess við slit. Um réttindi og skyldur vitnastefnda vegna skiptingar á Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og ábyrgð á skuldbindingum þess félags fari samkvæmt lögum í Lúxemborg.
Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi átt í viðskiptum við annað lúxemborgískt félag, Bague S.A., og greiðsla sú sem leitað sé eftir endurgreiðslu á hafi farið fram á milli þessara tveggja aðila á reikningi þess síðarnefnda í Lúxemborg. Lúxemborgísk lög hafi gilt um viðskipti þessara tveggja aðila. Sem lúxemborgískur lögaðili sé vitnastefndi bundinn af þarlendum lögum. Vitnastefndi geti ekki orðið bundinn af íslenskum lögum, né verði stofnuð á hendur honum fjárkrafa á grundvelli íslenskra laga, nema fyrir liggi að hann hafi annaðhvort undirgengist slíka skuldbindingu með samningi eða það leiði af lúxemborgískum lögum. Það sé óumdeilt að varnaraðili hafi enga samninga gert um að undirgangast íslensk gjaldþrotalög og lúxemborgísk lög leggi ekki á hann þá kvöð að eignarréttindi hans séu að hluta til undirorpin íslenskum lögum um gjaldþrotaskipti.
Í 6. gr. laga nr. 21/1991 sé fjallað um landfræðilegar takmarkanir á gildissviði laganna. Vitnastefnda sé ekki kunnugt um það að íslenska ríkið hafi gert samning á grundvelli þess ákvæðis við Lúxemborg. Þá eigi íslenska ríkið ekki aðild að gjaldþrotareglugerð Evrópusambandsins og hún sé ekki hluti af sameiginlegu regluverki á EES-svæðinu.
Vitnastefndi fullyrðir einnig að endanlegur dómur sé fallinn um kröfu vitnastefnanda um endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem hann telur sig eiga kröfu til vegna kaupa eigin bréfa af Bague S.A. Einnig af þessari ástæðu sé umbeðin skýrslutaka tilgangslaus, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki vitnastefnandi né Bague S.A. hafi áfrýjað þeirri niðurstöðu héraðsdóms að síðarnefnda félagið skuli endurgreiða vitnastefnanda þá fjárhæð sem greidd hafi verið frá Baugi Group hf. vegna kaupa á eigin hlutabréfum.
Vitnastefndi telur að 146. gr. laga nr. 21/1991 sé sjálfstæð riftunarregla og veiti þrotabúi heimild til þess að endurheimta verðmæti úr höndum þriðja aðila sem hafi fengið þau framseld til sín. Skilyrði slíkrar endurkröfu sé að reglur 142. til 145. gr. laga nr. 21/1991 eigi við auk grandsemisskilyrða. Krafa vitnastefnanda fyrir Hæstarétti á hendur vitnastefnda, samkvæmt 146. gr. laga nr. 21/1991, byggi á 142. gr. sömu laga, en greiðsluskylda samkvæmt þeirri grein sé bundin því skilyrði að riftun eigi sér stað á ráðstöfun með stoð í 131. til 138. gr. laga nr. 21/1991.
Á framgreindum grundvelli hafi vitnastefnandi sett fram í héraðsdómi kröfu á hendur vitnastefnda og Bague S.A., um að rift yrði með dómi greiðslu síðastnefnda félagsins til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að fjárhæð 1.328.926.213 krónur sem fram fór 15. júlí 2008, auk endurgreiðslukröfu, óskiptrar (in solidum) með Bague S.A. Eins og fyrr greinir hafi héraðsdómur sýknað vitnastefnda af báðum kröfunum.
Fyrir Hæstarétti geri vitnastefnandi aðeins greiðslukröfu á hendur vitnastefnda en krefjist ekki lengur riftunar á þeirri ráðstöfun sem greiðslukrafan grundvallist á. Eftir standi því óáfrýjuð sú niðurstaða héraðsdóms að varnaraðili og Bague S.A. skuli vera sýknir af kröfu vitnastefnanda um riftun á greiðslu Bague S.A. til varnaraðila 15. júlí 2008. Af þessum sökum telur vitnastefndi að vitnastefnandi geti ekki fengið úrlausn Hæstaréttar um endurgreiðslukröfu sína, enda ekki skilyrði til að fallast á hana. Dómkrafa vitnastefnanda geti því ekki náð því markmiði að stofna til fjárkröfu á hendur vitnastefnda. Vitnastefnandi hafi þannig ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn Hæstaréttar um endurgreiðslukröfuna. Vitnastefnandi hafi því ekki hagsmuni af því að leita eftir vitnaskýrslum til að afla sönnunargagna um það hvort skilyrði riftunar séu fyrir hendi.
Í fjórða lagi byggir vitnastefnandi á því að ekki sé heimilt að leiða Magnús Guðmundsson sem vitni í þessu máli. Heimild dómsins til að kveða mann fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni takmarkist við þá menn sem séu vitnaskyldir samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Magnús sé búsettur í Lúxemborg og lúti því ekki lögsögu íslenskra dómstóla. Honum verði því ekki gert skylt að mæta fyrir dóm og gefa skýrslu.
Niðurstaða
Beiðni vitnastefnanda er sett fram með vísan til XI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vitnastefndi telur að þessi beiðni sé sett fram á röngum lagagrundvelli. Í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að eftir því sem átt geti við skuli ákvæðum 75. gr. beitt þegar gagna sé aflað í héraði í tengslum við rekstur máls fyrir æðra dómi. Í texta ákvæðisins er ekki tekið af skarið um það hvort gagnaöflun eftir þessum kafla geti farið fram innan áfrýjunarfrests fyrir áfrýjun máls, eða hvort gagnaöflun geti fyrst farið fram eftir áfrýjun.
Við skýringu 1. mgr. 76. gr. laga nr. 91/1991 verður að mati dómsins að líta til þess tilgangs áfrýjunarfrests að aðili, sem vill áfrýja dómi, geti m.a. aflað nýrra sönnunargagna, en það leiðir af d-lið 2. mgr. 156. gr. og 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 að áfrýjanda er heimilt að afla nýrra sönnunargagna til að leggja fram við meðferð máls í Hæstarétti. Þessi tilgangur mælir með þeim skýringarkosti að aðila sé heimilt að afla sönnunargagna á grundvelli XI. kafla laga nr. 91/1991 í tengslum við fyrirhugaða áfrýjun máls til Hæstaréttar Íslands. Þessi skýringarkostur er einnig í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum nr. 44/2001 og 418/2010. Verður því að fallast á það með vitnastefnanda að beiðni hans sé sett fram á réttum lagagrundvelli. Það breytir ekki þessari niðurstöðu þótt vitnastefnandi hafi fellt niður mál sitt í Hæstarétti, enda nýtur hann réttar til að áfrýja því aftur samkvæmt 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 innan þess frests sem þar greinir.
Vitnastefndi byggir á því að hann lúti ekki lögsögu íslenskra dómstóla. Ekki verður annað séð en að málsástæður vitnastefnda um þetta atriði lúti að efni málsins nr. E-2356/2010. Beiðni vitnastefnanda er sett fram í þeim tilgangi að afla sönnunargagna í tengslum við fyrirhugaða áfrýjun á þeim dómi til Hæstaréttar. Í þessu máli verður ekki leyst úr málsástæðum sem varða efni málsins nr. E-2356/2010. Fimmti kafli laga nr. 91/1991, sem fjallar um reglur um varnarþing, er ekki meðal þeirra kafla laganna sem vísað er til í 1. mgr. 75. gr. laganna og gilda ákvæði kaflans því ekki um mál samkvæmt XI. kafla laganna. Í 1. mgr. 76. gr. laganna er ekki tekið fram fyrir hvaða héraðsdómi gagnaöflun skuli fara fram, en telja verður að föst venja sé fyrir því að það sé heimilt fyrir þeim héraðsdómi þar sem dómur féll. Er þessi málsástæða vitnastefnda því haldlaus.
Þá telur vitnastefndi að umbeðin skýrslugjöf sé þýðingarlaus og því beri að hafna henni. Þær málsástæður sem vitnastefndi teflir fram þessu til stuðnings varða að mati dómsins efni málsins. Í þessu máli verður ekki leyst úr því hvaða málsástæður varnaraðili geti haft uppi fyrir Hæstarétti í því máli sem hann hyggst áfrýja, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 418/2010. Af d-lið 2. mgr. 156. gr. og 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 leiðir einnig að það er Hæstaréttar að meta sönnunargildi og þýðingu nýrra sönnunargagna sem lögð eru fyrir réttinn. Það er því Hæstaréttar að meta hvort umrædd gögn séu þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, svo sem vitnastefndi heldur fram, en ekki héraðsdóms.
Enn fremur byggir vitnastefndi á því að ekki sé heimilt að leiða Magnús Guðmundsson fyrir dóm til skýrslugjafar þar sem hann sé búsettur erlendis. Í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 segir að hverjum manni, sem sé orðinn 15 ára, lúti íslenskri lögsögu og sé ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem sé beint til hans um málsatvik. Skýra verður þetta ákvæði í samræmi við dómaframkvæmd um skýringu þess. Í dómi Hæstaréttar 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 stóð það ekki í vegi fyrir því að vitnastefnanda þess máls yrði heimilað að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um þau atriði sem kröfugerð hans tók til, þótt sum þeirra vitna sem óskað var eftir að leiða fyrir dóm byggju erlendis. Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991 er með sama hætti vísað til m.a. VIII. kafla laganna og gert er í 1. mgr. 75. gr. laganna. Með vísan til þessa fordæmis verður að skýra 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að búseta manns erlendis standi því ekki í vegi að fallist verði á kröfu vitnastefnanda um að honum verði heimilað að leiða viðkomandi fyrir dóm til skýrslugjafar sem vitni.
Í samræmi við framangreint verður að taka beiðni vitnastefnanda til greina.
Krafa vitnastefnanda um málskostnað var fyrst höfð uppi við munnlegan flutning málsins og mótmælti vitnastefndi henni sem of seint fram kominni. Þegar vitnastefnandi setti fram beiðni sína lá ekki fyrir hvort henni yrði mótmælt. Var því ekki tilefni til þess fyrir vitnastefnanda að krefjast málskostnaðar fyrr en eftir að mótmæli vitnastefnda komu fram og verður ekki á það fallist að krafan hafi komið of seint fram í upphafi munnlegs málflutnings. Eftir þessum úrslitum verður vitnastefnda gert að greiða vitnastefnanda málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, hæfilega ákveðinn 120.000 krónur.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni vitnastefnanda, þrotabús Baugs Group hf., um að leiða fyrir dóm vitnin Magnús Guðmundsson, kt. [...], Lúxemborg og Hrein Loftsson, kt. [...], Sunnuflöt 15, Garðabæ, er tekin til greina.
Vitnastefndi, Banque Havilland S.A., greiði vitnastefnanda 120.000 krónur í málskostnað.