Hæstiréttur íslands

Mál nr. 438/2009


Lykilorð

  • Lífeyrisréttur
  • Óskipt bú
  • Erfðaréttur


 

Mánudaginn 21. júní 2010.

Nr. 438/2009.

 

Frjálsi lífeyrissjóðurinn

(Helgi Sigurðsson hrl.)

gegn

 Ragnheiði Garðarsdóttur

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Lífeyrisréttur. Erfðaréttur. Óskipt bú.

 

R sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn RÓ, sem lést 12. apríl 2004. RÓ átti séreignarlífeyrissparnað hjá F, sem hann hafði fengið reglulega greiðslur úr um nokkurt skeið. R sótti um að fá mánaðarlegar greiðslur úr inneigninni, en í sama mánuði og F hóf greiðslurnar til R ákvað hann að lífeyrissparnaði RÓ skyldi skipt þannig að R fengi 2/3 inneignarinnar en 1/3 fengju börn RÓ, A og Ó, sem bæði voru fjárráða. Ágreiningur aðila laut að þessari skiptingu F á lífeyrissparnaði RÓ og hvaða áhrif leyfi R til setu í óskiptu búi skyldi hafa á þá skiptingu. Talið var að orðalag 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segði skýrlega fyrir um skiptingu innstæðu milli erfingja eftir reglum erfðalaga og lokamálsliður hennar tæki af tvímæli um að innstæðan rynni einungis til dánarbús hins látna rétthafa hefði hann ekki látið eftir sig maka eða barn. Samkvæmt beinu orðalagi 4. mgr. 11. gr. bæri því að skipta innstæðu eftir reglum erfðalaga, eins og F hefði gert milli maka og barna rétthafans og rynni hún ekki í hið óskipta bú. Bar þegar af þessari ástæðu að sýkna F af kröfu R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2009 og krefst sýknu af kröfu stefndu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi fékk stefnda 28. apríl 2004 leyfi til setu í óskiptu búi eftir eiginmann sinn Rögnvald Ólafsson, sem lést 12. sama mánaðar, á grundvelli gagnkvæmrar erfðaskrár þeirra hjóna, sem mælti fyrir um rétt þess sem lengur lifði til setu í óskiptu búi með vísan til 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sbr. lög nr. 48/1989. Rögnvaldur átti séreignarlífeyrissparnað hjá áfrýjanda og hafði fengið reglulega greiðslur úr sjóðnum um nokkurt skeið. Stefnda, sem þá var 68 ára, sótti 13. maí 2004 um að fá mánaðarlega 100.000 króna greiðslur úr inneigninni. Greiðslur til hennar hófust þegar í þeim mánuði en var hætt í desember sama ár að ósk stefndu, sem hafði komist að því að áfrýjandi hafði í bókhaldi sínu áður skipt inneigninni milli hennar og tveggja barna Rögnvaldar.

Í sama mánuði og áfrýjandi hóf greiðslurnar til stefndu ákvað hann að lífeyrissparnaði Rögnvaldar skyldi skipt þannig að stefnda fengi 2/3 inneignarinnar en 1/3 fengju börn Rögnvaldar, Anna og Ólafur, sem bæði voru fjárráða, „í samræmi við erfðalög nr. 8/1962, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, eftir að inneigninni hafði verið skipt til helminga skv. 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993“. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda hefur ekkert af inneigninni hins vegar verið greitt út til barnanna og áfrýjandi hefur ekki innt frekari greiðslur af hendi til stefndu síðan í desember 2004, en þá hafði hún fengið greiddar samtals 808.012 krónur. Samkvæmt upplýsingum áfrýjanda var inneign Rögnvaldar 6.430.719 krónur 28. maí 2004.

Aðilarnir deila ekki um málavexti heldur lýtur ágreiningur þeirra að þessari skiptingu áfrýjanda á lífeyrissparnaði Rögnvaldar og hvaða áhrif leyfi stefndu til setu í óskiptu búi skuli hafa á þá skiptingu. Málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi.

II

Samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða fellur innstæða lífeyrissparnaðar til erfingja rétthafa og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Í 2. til 4. málslið ákvæðisins eins og það var á þessum tíma voru síðan ákvæði um hvernig staðið skyldi að útgreiðslu til maka rétthafans og barna. Eftir lokamálslið ákvæðisins rennur innstæðan til dánarbúsins láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn. Samkvæmt athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er með maka og barni átt við skylduerfingja.

Áfrýjandi bendir á að ekki fái staðist sú niðurstaða héraðsdóms að orðalag 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 leiði til þess að ákvæðið vísi með almennum hætti til erfðalaga og þar með ákvæða laganna um setu í óskiptu búi. Væri þessi skýring rétt sé óskiljanlegt hvers vegna í ákvæðinu sé vísað sérstaklega til skiptingar arfs. Auk þess vísi ákvæðið ekki almennt til erfingja heldur einungis til skylduerfingja, maka og barna hins látna. Niðurstaða héraðsdóms sé einnig ósamrýmanleg lokamálslið 4. mgr. 11. gr., þar sem sérstaklega sé tekið fram að í því tilviki að rétthafi láti ekki eftir sig maka eða barn renni innstæðan til dánarbúsins. Engin þörf væri á þessari vísun til dánarbús við þessar aðstæður ef fyrsti málsliður sömu málsgreinar ætti almennt við ákvæði erfðalaga, þar með ákvæði um setu í óskiptu búi. Áfrýjandi vísar og til þeirrar meginreglu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., að við lát manns taki dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Undantekning sem þarna greini sé einmitt í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997. Þess sé og að gæta að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. síðastnefndra laga sé rétthafa óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum um lífeyrisréttindi í séreign nema með samkomulagi eftir 1. - 3. tölulið 3. mgr. 14. gr., og ekki verði gerð aðför í réttindum samkvæmt slíkum samningi og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hafi rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt. Þetta sýni ljóslega að markmið laganna sé að tryggja framfærslu rétthafa. Með þetta markmið um framfærslu í huga hafi áfrýjandi samið verklagsreglur, sem staðfestar hafi verið af Fjármálaeftirlitinu og farið hafi verið eftir. Í 5. gr. þeirra sé fjallað um skiptingu innstæðu milli erfingja með vísan til 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 á þann hátt sem áfrýjandi haldi fram og reisi sýknukröfu sína á. Þess vegna bendi hann á framfærslueðli réttindanna, sem leiði til þess að þau falli ekki til dánarbúsins, eins gert sé ráð fyrir í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991.

Á þessi málsrök áfrýjanda ber að fallast. Orðalag 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 segir skýrlega fyrir um skiptingu innstæðu milli skylduerfingja eftir reglum erfðalaga og lokamálsliður hennar tekur af tvímæli um að innstæðan renni einungis til dánarbús hins látna rétthafa hafi hann ekki látið eftir sig maka eða barn. Samkvæmt beinu orðalagi 4. mgr. 11. gr. ber því að skipta innstæðu eftir reglum erfðalaga, eins og áfrýjandi hefur gert milli maka og barna rétthafans, og rennur hún ekki í hið óskipta bú. Ber þegar af þessari ástæðu að sýkna áfrýjanda af kröfu stefndu.

Stefndu verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, er sýkn af kröfu stefndu, Ragnheiðar Garðarsdóttur, í máli þessu.

Stefnda greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 23. júní 2008.

Stefnandi er Ragnheiður Garðarsdóttir, Kleppsvegi 144 Reykjavík.

Stefndi er Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Borgartúni 19, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að ógilt verði sú ákvörðun stefnda frá 28. maí 2004 að skipta inneign Rögnvaldar Ólafssonar hjá stefnda á milli erfingja Rögnvaldar og lagt verði fyrir stefnda að færa inneignina óskipta á nafn dánarbús Rögnvaldar Ólafssonar.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.         

MÁLSÁSTÆÐUR OG ÖNNUR ATVIK

Eiginmaður stefnanda, Rögnvaldur Ólafsson, lést 12. apríl 2004 og situr stefnandi í óskiptu búi samkvæmt búsetuleyfi útgefnu af sýslumanninum í Reykjavík 28. apríl 2004 (misritað 2003 í leyfisbréfinu). Leyfi stefnanda grundvallast og á gagnkvæmri erfðaskrá þeirra hjóna. Rögnvaldur var félagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum og átti þar séreignarlífeyrissparnað. Umræddur lífeyrissparnaður var sameiginlegur sparnaður stefnanda og eiginmanns hennar heitins.

Eftir andlát Rögnvaldar tók stefndi þá ákvörðun að skipta lífeyrissparnaði Rögnvaldar hjá sjóðnum þannig að 2/3 inneignarinnar var ráðstafað til stefnanda en 1/3 var skipt milli barna hins látna. Samkvæmt skýringum stefnda 3. apríl 2008 var ákvörðun þar að lútandi tekin 28. maí 2004 og kveðst stefndi líta svo á að ákvörðunin sé tekin í samræmi við skiptareglur erfðalaga nr. 8/1962 og hjúskaparlaga nr. 31/1993.

 Þó hafi þessi ráðstöfun farið fram án tillits til þeirrar staðreyndar að stefnandi sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn.

Með þessari ákvörðun stefnda hafi lífeyrissparnaði Rögnvaldar Ólafssonar, sem þá var skráður á nafn db. Rögnvaldar Ólafssonar,  verið ráðstafað með þeim hætti að eigninni hafi verið skipt milli stefnanda og tveggja barna Rögnvaldar. Muni ákvörðun þessi hafa komið til framkvæmdar 19. júlí s.á. þegar lífeyrissparnaðurinn var færður inn á svonefnd „erfðasöfn" viðkomandi erfingja hjá stefnda í samræmi við hlutdeild hvers og eins. Á þeim degi hafi því innistæðan verið færð á nöfn erfingjanna, þ.e. stefnanda og barna Rögnvaldar heitins og sé því eftir þá tilfærslu inneign á nafni Rögnvaldar eða dánarbús hans engin. Í samræmi við upplýsingar frá stefnda verði ekki annað lagt til grundvallar en að ofangreind skipting hafi verið ákvörðuð 28. maí 2004 og því lúti kröfugerð í máli þessu að þeirri ákvörðun.

Á 6 mánaða tímabili á árinu 2004 hafi stefnandi komið reglubundið á skrifstofu stefnda og millifært lífeyri, en hafi aldrei verið gert viðvart um ofangreinda ákvörðun stefnda frá 28. maí 2008, né gert kunnugt um ofangreinda tilfærslu inneignarinnar af nafni dánarbúsins og inn á nöfn (eða „erfðasöfn") erfingjanna. Á þessu tímabili, þ.e. frá maí til desember 2004, hafi mánaðarlegar greiðslur til stefnanda numið alls 808.012 krónum. Hinn 8. desember 2004 hafi stefnandi hins vegar óskað eftir því að öllum frekari greiðslum úr lífeyrissparnaðinum yrði frestað og hafi stefndi síðan ekki innt greiðslur af hendi.

Að öðru leyti hafi lífeyrissparnaður Rögnvaldar Ólafssonar ekki verið greiddur út og hafi börn hans því ekki þegið neinar greiðslur frá stefnda.

Á árinu 2006 hafi stefnandi gengið eftir því að fá send stöðuyfirlit frá stefnda, en slík yfirlit hafi verið hætt að berast henni. Í kjölfar þess erindisrekstrar hafi stefnandi loks endanlega fengið vitneskju um atvik málsins og þá gengið eftir því að fá allan lífeyrissparnaðinn felldan inn í hið óskipta bú á grundvelli búsetuleyfis. Með bréfi 22. maí 2007 hafi stefndi hins vegar atilkynnt að afstaða sjóðsins væri sú að innistæða hins látna rynni ekki inn í dánarbúið. Með bréfi 26. október 2007 hafi þess verið krafist af hálfu stefnanda að allur lífeyrissparnaður í nafni Rögnvaldar yrði gerður upp við hana fyrir hönd hins óskipta bús. Bréfi þessu hafi verið svarað með tölvubréfi lögmanns stefnda hinn 15. janúar 2008 þar sem kröfum stefnanda var hafnað.

Stefnandi telur að inneign látins sjóðfélaga í formi séreignarlífeyris (lífeyrissparnaðar) í lífeyrissjóði, sem komi til útborgunar við andlát hans, sé hluti af eignum hans. Um skipti á þeirri eign hljóti því að fara á sama hátt og um aðrar eignir hins látna. Það merki í þessu tilviki að umrædd eignarréttindi séu hluti af hinu óskipta búi sem stefnandi situr í.

Ákvæði 1. málsliðar 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er svohljóðandi:

Deyi rétthafi áður en innistæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga.

Ágreiningsefnið í máli þessu lúti fyrst og síðast að því hvaða skilning beri að leggja í tilvitnað orðalag ákvæðisins um skiptingu „eftir reglum erfðalaga."

Stefnandi telur að ákvæði þetta beri að skilja svo að fara skuli með inneign í lífeyrissjóðum líkt og aðrar eignir við andlát og því eigi inneignin að renna inn í hið óskipta bú. Skilningur stefnda sem fram kom m.a. í tölvubréfi til stefnanda dags. 15. janúar 2008 muni vera sá að skipta beri innistæðunni milli erfingja án tillits til ákvæða II. kafla erfðalaga nr. 8/1962 um óskipt bú.

Stefndi hafi áður hafnað kröfum stefnanda bréflega og því sé nauðsynlegt að höfða mál þetta. Víkur stefnandi síðar nánar að málsástæðum stefnanda.

Stefnandi byggir á því að við skýringu og túlkun á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 verði, líkt og endranær, að líta til annarra ákvæða í sama lagabálki, svo og ákvæða annarra laga, auk meginreglna á viðkomandi réttarsviðum, þ.e. skiptarétti og erfðarétti.

Af orðalagi 4. mgr. 11. gr. laganna hljóti að leiða að innistæða í lífeyrissjóðum erfist og komi til skipta samkvæmt reglum erfðalaga. Ummæli í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 129/1997 sýni að megintilgangur ákvæðisins sé að mæla fyrir um hvernig innistæðan verði greidd út, þ.e. á hversu mörgum árum miðað við aldur viðkomandi o.þ.h. Ekki sé vikið að heimild til setu í óskiptu búi að öðru leyti en því að í ákvæðinu segi að innistæðan skuli skiptast „eftir reglum erfðalaga.“ Ljóst sé að tilvísun þessi til erfðalaga eigi einnig við um þau ákvæði erfðalaga sem lúta að setu í óskiptu búi.

Fyrir liggi að stefndi hafi hafnað kröfum stefnanda m.a. á þeim grundvelli að innistæða látins sjóðsfélaga skuli ekki renna inn í dánarbú hans heldur skiptast milli erfingja á einhvers konar sjálfstæðum grundvelli. Víkur stefnandi næst að meginreglu 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 en í ákvæðinu segir m.a.:

Þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.

Af þessu orðalagi 2. gr. laganna og lögskýringargögnum sé ljóst að öll fjárhagsleg réttindi hins látna tilheyri dánarbúi hans. Vissulega kunni löggjafinn að mæla fyrir um undantekningar frá þessari meginreglu en líkt og endranær verði að gera kröfu um að slík undantekning sé skýr í texta laganna og hana ber auk þess að túlka þröngt. Ekki verði séð að í ofangreindri 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé mælt fyrir um slíka undantekningu. Meginreglan sé sú að öll fjárhagsleg réttindi falli til dánarbús og rétt sé að skýra ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 til samræmis við þá meginreglu.

Til þess beri að líta að enginn sá löggerningur í skilningi 2. gr. laga nr. 20/1991 sé fyrir hendi sem leiði til þess að önnur regla en meginreglan gildi. Sömuleiðis sé eðli réttindanna einungis fjárhagslegt og því verði undantekning ekki á eðli þeirra byggð.

Stefnandi byggir samkvæmt framansögðu á því að við andlát sjóðsfélaga gildi sú meginregla skiptaréttar að öll fjárhagsleg réttindi falli til dánarbús hans. Bent er á að í öllum skrám stefnda, Frjálsa lífeyrissjóðsins, sé inneignin skráð á nafnið „D.B. Rögnvaldur Ólafsson“ og því ljóst að jafnvel stefndi sjálfur hafi litið svo á að inneignin færist til dánarbúsins við andlát. Við útgáfu leyfis til setu í óskiptu búi flytjist forræði á dánarbúi yfir til stefnanda, maka hins látna. Lífeyrissparnaður teljist hjúskapareign í skilningi hjúskaparréttar og hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hafi verið veitt leyfi til setu í óskiptu búi falli allar hjúskapareignir til búsins, sbr. skýrt orðalag ákvæðis 1. mgr. 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Hér sé í raun um sömu meginreglu að ræða og áður var getið, þ.e. öll fjárhagsleg réttindi renni til dánarbús hins látna og allar hjúskapareignir renni til óskipts bús. Skýra beri önnur ákvæði til samræmis við þessa meginreglu og því skuli innistæða hjá stefnda sem hjúskapareign renna inn í hið óskipta bú.

Af hálfu stefnanda er lögð áhersla á að tilvísun 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 til reglna erfðalaga vísi óumdeilanlega til viðeigandi ákvæða erfðalaga um óskipt bú. Í þessu tilviki séu það því einmitt reglur erfðalaga sem mæli fyrir um að hjúskapareignir, þ. m. t. innistæða í lífeyrissjóðum, falli til hins óskipta bús.

Af gögnum málsins, m.a. tölvubréfi stefnda frá 15. janúar 2008, sé ljóst að við ráðstöfun innistæðu látins sjóðsfélaga líti stefndi á innistæðuna sem hjúskapareign. Nánar tiltekið ráðstafar sjóðurinn slíkri innistæðu með þeim hætti að eftirlifandi maki fær helming innistæðunnar og hinn helmingur hennar skiptist milli maka, sem fær 1/3, og barna, sem fá 2/3. Með þessu hafi stefndi viðurkennt að inneignin teljist til hjúskapareignar, en engu að síður kosið að líta framhjá meginreglu 1. mgr. 11. gr. erfðalaga nr. 8/1962 þar sem segir m.a.: „Til óskipts bús teljast hjúskapareignir beggja hjóna... “

Samkvæmt bréfi stefnda til stefnanda 22. maí 2007 hafi stefndi talið að ákvæði erfðaskrár hafi engin áhrif á nefnda innistæðu. Að mati stefnanda birtist í þessu hversu órökrétt lögskýring stefnda sé og andstæð skírskotun 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 til reglna erfðalaga, en erfðalög geymi m.a. ítarleg ákvæði um erfðaskrár. Svo sem áður hafi verið vikið að hafi stefnandi og eiginmaður hennar gert gagnkvæma erfðaskrá þar sem fram komi að það hjóna sem lengur lifi eigi rétt á setu í óskiptu búi. Með lögskýringu stefnda séu ekki aðeins ákvæði erfðalaga virt að vettugi heldur einnig vilji hins látna og réttur manna til þess að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá.

Auk ofangreindra ákvæða laga nr. 129/1997 styður stefnandi kröfur sínar við önnur ákvæði laganna, samkvæmt samræmisskýringu, sbr. sérstaklega lokamálslið 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997.

Stefndi virðist hafa litið framhjá öllum ofangreindum lagaákvæðum og lögskýringarsjónarmiðum. Sjóðurinn hafi hvorki aflað samþykkis skiptaráðanda né dómsúrskurðar vegna ráðstöfunar sinnar. Eigi hafi heldur verið aflað samþykkis eftirlifandi maka, heldur hafi séreignalífeyrissjóðnum verið skipt einhliða af hálfu stefnda þannig að eign hins óskipta bús hafi verið skert um þriðjung.

 Um lagarök er vísað til erfðalaga nr. 8/1962, laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, hjúskaparlaga nr. 31/1993 svo og almennra reglna fjármunaréttar.

Krafa um málskostnað byggir á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu stefnda segir að við skiptingu lífeyrissparnaðar Rögnvaldar hinn 28. maí 2004 hafi stefndi byggt á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. erfðalaga, nr. 8/1962.

Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 falli lífeyrissparnaður til erfingja rétthafa og  „skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga“. Áður en komi til skiptingar lífeyrissparnaðar skv. 4. mgr. 11. gr. laganna þurfi að ákveða hvað, eða m.ö.o. hvaða hluti lífeyrissparnaðarins, komi til skipta. Viðurkennt sé í íslenskum rétti að lífeyrissparnaður sé hjúskapareign og því gildi 103. gr., sbr. 2. mgr. 96. gr. hjúskaparlaga, um skipti lífeyrissparnaðar við andlát rétthafa. Samkvæmt því eigi eftirlifandi maki tilkall til helmings lífeyrissparnaðar rétthafa. Hinn helmingurinn skiptist milli maka og barna hins látna rétthafa skv. fyrrnefndri 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, þar sem segi að lífeyrissparnaður „skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga“. Því sé 1/3 hluti lífeyrirssparnaðarins greiddur til eftirlifandi maka en 2/3 hlutar greiddur til barna, sbr. 1. mgr. 2. gr. erfðalaga. Þetta þýði líka að af öllum lífeyrissparnaði hins látna renni samtals 2/3 hluti til eftirlifandi maka en 1/3 hluti renni til barna hins látna.

Stefndi telur ágreiningsefni aðila í máli þessu vera hvaða áhrif leyfi til setu í óskiptu búi, dags. 28. apríl 2004 og sem útgefið var á grundvelli gagnkvæmrar erfðaskrár stefnanda og Rögnvaldar dags. 5. júlí 1996, hafi á skiptingu og útgreiðslu lífeyrissparnaðar Rögnvaldar milli stefnanda og barna Rögnvaldar.

Stefndi telur að skipta eigi umræddum lífeyrissparnaði án tillits til leyfisins og því eigi að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi byggir á því að skýra beri orðalag 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 á þann hátt að leyfi til setu í óskiptu búi skuli ekki hafa áhrif á innbyrðis skiptingu lífeyrissparnaðar milli eftirlifandi maka og barna rétthafa lífeyrissparnaðarins eða tímasetningu útgreiðslu hans, heldur skuli skv. ákvæðinu greiða út lífeyrissparnað rétthafa við andlát hans, til skylduerfingja hans og í þeim hlutföllum sem mælt sé fyrir um í erfðalögum. Í 1. ml. 4. mgr. 11. laganna sé kveðið á um það að deyi rétthafi áður en innstæða sé að fullu greidd út falli hún til erfingja hans. Í 2.-4. ml. 4. mgr. 11. gr. laganna sé kveðið á um hvernig staðið skuli að útgreiðslu lífeyrissparnaðarins til erfingjanna eða nánar tiltekið maka og barna. Í 5. ml. 4. mgr. 11. gr. laganna sé svo sérstaklega tekið fram að aðeins í því tilviki þegar rétthafi láti ekki eftir sig maka eða barn renni lífeyrissparnaðurinn til dánarbús rétthafa. Frá þessum úrgreiðslureglum séu engar undantekningar.

Framangreind skýring stefnda á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 sé jafnframt í samræmi við óumdeilt markmið útgreiðslureglna 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, sem sé að tryggja framfærslu maka og barna við andlát rétthafa. Aftur á móti myndi það ganga gegn framangreindu markmiði lagaákvæðanna ef fallist yrði á kröfugerð stefnanda þannig að lífeyrissparnaðurinn yrðu greiddur óskiptur til dánarbús Rögnvaldar Ólafssonar.

Stefndi heldur því fram að með orðunum „skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga“ í 1. mgr. 4. mgr. laga nr. 129/1997 sé einungis vísað til innbyrðis skiptingar lífeyrissparnaðar milli skylduerfingja skv. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í 1. mgr. 4. mgr. 11. gr. laganna sé ekki talað um að lífeyrissparnaður „erfist“ og þar sé heldur ekki að finna almenna tilvísun til erfðalaga. Fullyrðingum stefnanda um að tilvitnuð orð í 1. ml. 4. mgr. 11. gr. laganna vísi til II. kafla laga nr. 8/1962, sem fjalli um óskipt bú, eða VI. kafla laganna, sem fjalli um erfðaskrár, er því mótmælt, enda rökstyðji ekkert þá ályktun.

Stefndi byggir jafnframt á því að ákvæði 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, sem fjalli með beinum hætti um ráðstöfun lífeyrissparnaðar við andlát rétthafa, séu sérlög gagnvart almennum ákvæðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. og II. og VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Því víki síðarnefndu lagaákvæðin fyrir 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 í samræmi við þá lögskýringarreglu að sé ósamræmi milli lagaákvæða gangi sérreglur framar almennum reglum (lex specialis). Jafnframt séu lög nr. 129/1997 yngri en erfðalög nr. 8/1962 og lög nr. 20/1991 um skipta dánarbúa o.fl. og því víki hin síðarnefndu á grundvelli þeirrar lögskýringarreglu að sé ósamræmi milli lagaákvæða gangi yngri lög framar eldri lögum (lex posterior).

Stefndi hafi skipt lífeyrissparnaði milli maka og barna rétthafa án þess að taka tillit til leyfis til eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi um langa hríð og viti ekki betur en að aðrir lífeyrissjóðir skipti lífeyrissparnaði milli maka og barna rétthafa með sama hætti.

Framangreind skýring stefnda á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 komi einnig fram í verklagsreglum stefnda dags. 17. maí 2005 um útgreiðslu lífeyrisréttinda í séreign við aldur, örorku og andlát rétthafa. Samkvæmt b- lið 5. gr. reglnanna hafi leyfi til setu í óskiptu búi ekki áhrif á útgreiðslu lífeyrissparnaðar sem kveðið sé á um í reglunum. Í c- lið 5. gr. reglnanna komi jafnframt fram að ekki sé hægt að ráðstafa lífeyrissparnaði með erfðaskrá nema maki eigi ekki maka eða barn. Á sínum tíma hafi verklagsreglurnar sendar Fjármálaeftirlitinu til staðfestingar. Í bréfi sínu dags. 30. maí 2005 hafi Fjármálaeftirlitið talið að reglurnar væru í samræmi við lög nr. 129/1997 og reglugerð nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd.

Þess megi jafnframt geta stefnandi virðist ekki líta svo á að umræddur lífeyrissparnaður tilheyri eignum búsins, enda sé lífeyrissparnaðurinn ekki tilgreindur meðal eigna búsins í upptalningu eigna skv. leyfi til setu í óskiptu búi dags. 28. apríl 2004, en sú upptalning sé byggð á greinargerð stefnanda um eignir búsins og skuldir, eða skv. yfirliti um framvindu skipta.

Verði ekki fallist á framangreinda skýringu á 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 byggir stefndi á því að ekki sé hægt að ráðstafa lífeyrissparnaði með erfðaskrá vegna þeirra takmarkana sem séu á frjálsu framsali lífeyrissparnaðar. Af þeim sökum eigi að líta framhjá slíkri ráðstöfun rétthafa við skiptingu lífeyrissparnaðar eftir andlát hans. Þetta leiði af þeim hömlum sem settar séu ráðstöfunarrétti rétthafa lífeyrissparnaðar í lögum nr. 129/1997. Sem dæmi um slíkt megi nefna að skv. 2. mgr. 8. gr. laganna sé rétthafa óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa lífeyrissparnaði nema með samkomulagi skv. 3. mgr. 14. gr. laganna (þ.e. með samningi við maka um gagnkvæma og jafna skiptingu réttinda). Einnig mætti nefna 2. og 3. mgr. 11. gr. laganna, sem kveði á um við hvaða aðstæður rétthafi geti fengið lífeyrissparnaðinn útgreiddan og hvernig, og 4. mgr. 11. gr. laganna, þar sem tiltekið er að hverjir fái lífeyrissparnaðinn útgreiddan við andlát rétthafa.

Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður byggir stefndi á því að hvort tveggja réttarreglur og eðli lífeyrissparnaðar leiði til þess að hann falli ekki til dánarbúsins við andlát rétthafa, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 20/1991 sé kveðið á um þá meginreglu að þegar maður sé látinn taki dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann hafi átt eða notið, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Í 5. ml. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 komi fram skýr undantekning frá framangreindu lagaákvæði, enda segi þar að aðeins í því tilviki þegar rétthafi láti hvorki eftir sig maka né barn renni lífeyrissparnaðurinn til dánarbúsins.

Séreðli lífeyrissparnaðar leiði einnig til þess að hann renni ekki til dánarbúsins við andlát rétthafa, enda sé lífeyrissparnaður persónubundin réttindi sem ætluð séu til að tryggja framfærslu rétthafa og, við andlát hans, til að tryggja framfærslu maka og barna hans. Þetta sjáist t.a.m. greinilega af  2. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997, þar sem tiltekið sé við hvaða aðstæður rétthafi geti fengið útgreiddan lífeyrissparnað sinn. Enn fremur sé tiltekið nákvæmlega í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 hvernig skipta skuli lífeyrissparnaði milli maka og barna rétthafa og hvernig lífeyrissparnaðurinn skuli greiddur út. Enn fremur megi nefna heimild 2. tölul. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sem kveði á um heimild maka til að krefjast þess að tiltekin persónubundin réttindi, þ. á m. lífeyrissparnaður, komi ekki undir skipti. Af þessu sé því ljóst að séreðli lífeyrissparnaðar leiði til þess að hann renni ekki inn í dánarbú hins látna við andlát hans í samræmi við undantekningu 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991.

Þeirri fullyrðingu, að ekki sé hægt að byggja á undantekningu 2. mgr. 1. gr. laga nr. 20/1991, þar sem eðli lífeyrissparnaðar sé einungis fjárhagslegt, er mótmælt. Hvorki orðalag 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 né lögskýringargögn gefi til kynna að undantekning 1. mgr. 2. gr. laganna, byggð á eðli réttindanna, eigi aðeins við um réttindi sem séu annars konar en fjárhagsleg. Þvert á móti megi ætla að 1. mgr. 2. gr., og þar með undantekningin sem felist í greininni, taki einungis til fjárhagslegra réttinda.

Um helstu lagarök vísar stefndi til laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda  og   starfsemi  lífeyrissjóða,   erfðalaga  nr.   8/1962,   hjúskaparlaga  nr. 31/1993, laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og reglugerðar nr. 698/1998 um ráðstöfun iðgjalds til lífeyrissparnaðar og viðbótartryggingarvernd.

Varðandi kröfu um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða segir m.a. að deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út falli hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga.

Við skýringu og túlkun á framangreindu ákvæði verður að líta til annarra ákvæða í sama lagabálki, svo og ákvæða annarra laga, auk meginreglna á viðkomandi réttarsviðum, þ.e. skiptarétti og erfðarétti.

Af orðalagi ákvæðisins verður fyrst fyrir að draga þá ályktun að innistæða í lífeyrissjóðum erfist og komi til skipta samkvæmt reglum erfðalaga. Dómari lítur svo á að hér sé ekki einungis verið að vísa til reglna um skiptingu arfs heldur almennt til ákvæða erfðalaga þar sem einnig er að finna ákvæði um setu í óskiptu búi og líta verði til þessa við úrlausn ágreinings aðila.

Í 2. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 kemur fram sú meginregla að þegar maður er látinn tekur dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna.

Af þessu orðalagi er ljóst að öll fjárhagsleg réttindi hins látna tilheyra dánarbúi hans. Framangreind 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða mælir ekki fyrir um neina undantekningu frá því að samkvæmt tilvitnaðri meginreglu falla öll fjárhagsleg réttindi til dánarbús og verður að beita ákvæðinu í samræmi við það svo sem haldið er fram af stefnanda.

Stefnandi situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn Rögnvald Ólafsson og við útgáfu leyfis henni til handa til setu í óskiptu búi fluttist forræði á dánarbúi hans yfir til hennar.

Þegar af framangreindum ástæðum verður fallist á dómkröfur stefnanda og eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Sú ákvörðun stefnda, Frjálsa  lífeyrissjóðsins, frá 28. maí 2004 að skipta inneign Rögnvaldar Ólafssonar hjá stefnda á milli erfingja Rögnvaldar er felld úr gildi og lagt er fyrir stefnda að færa inneignina óskipta á nafn dánarbús Rögnvaldar Ólafssonar.

Stefndi greiði stefnanda Ragnheiði Garðarsdóttur, 500.000 krónur í málskostnað.