Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008.

Nr. 203/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Líkamsárás. Skilorð.

X var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið A einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut mar yfir nefbeini og blóðnasir. Brotið taldist varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1991. Refsing hans var ákveðin tveggja mánaða fangelsi en frestað var fullnustu refsingarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 25. mars 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Ekkert er fram komið í málinu sem leiða á til þess að draga beri í efa mat héraðsdóms á framburði vitna fyrir dómi af atvikum. Verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða. Héraðsdómur tíundar nægilega þau sjónarmið sem skulu liggja til grundvallar refsingu ákærða. Að þeim virtum verður refsing hans ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem skal bundin almennu skilorði eins og greinir í dómsorði.

Héraðsdómur verður staðfestur um sakarkostnað. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 238.767 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. febrúar 2008.

Mál þetta, sem þingfest var þann 13. desember sl. og dómtekið 29. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 19. nóvember 2007, á hendur X, kt. xxxxxx-xxxx,

fyrir líkamsárás

með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 23. júní 2007 á tjaldsvæðinu við Þrastarlund í Grímsnes- og Grafningshreppi, slegið A, kt. xxxxxx-xxxx einu hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut mar efst yfir nefbeini bæði hægra og vinstra megin auk blóðnasa.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og neitaði sök. Við upphaf aðalmeðferðar lagði Cristiane L. Bahner hdl. fram bótakröfu fyrir hönd brotaþola. Mótmælti verjandi ákærða kröfunni sem of seint fram kominni og var henni vísað frá dómi. Skýrslutökur fóru fram fyrir dóminum þann dag en skýrslutaka yfir brotaþola, sem er 11 ára gamall, var flutt í Barnahús og var hún tekin þar samdægurs. Þann 29. janúar fór síðan munnlegur málflutningur fram. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann málsvarnarlauna og að þau verði greidd úr ríkissjóði. Þá gerði móðir drengsins, sem forsjáraðili brotaþola, þá kröfu fyrir dómi að drengnum, sem er sonur hennar og stjúpsonur ákærða, yrði ekki heimilað að gefa skýrslu fyrir dómi með vísan til c-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991. Tók dómarinn þá ákvörðun að c-liður 1. mgr. 50. gr. oml. ætti ekki við í tilviki sem þessu. Var þeirri ákvörðun unað af hálfu móður.

Málsatvik:

Í frumskýrslu lögreglunnar kemur fram að lögreglan hafi fengið tilkynningu um að maður hefði lagt hendur á fósturson sinn á tjaldsvæði við Þrastarlund. Hitti lögreglan þar fyrir B, móður A sem hafði verið sleginn af X. Voru B og X bæði töluvert ölvuð. A var inni í nærliggjandi tjaldi þegar lögreglan kom á vettvang og mátti sjá á honum bólgu vinstra megin við nef. Aðspurður kvaðst X ekki vita neitt um málið og hefði verið erfitt að skilja hann sökum ölvunar. Þá er haft eftir B að X hafi lamið A þar sem hann hefði reiðst skyndilega og lamið hann með krepptum hnefa. Inni í lögreglubifreiðinni hefði A síðan fengið blóðnasir. Var drengnum komið í framhaldi í umsjá föður síns, C, sem kærði atburðinn til lögreglu. Þá kom málið til kasta Barnaverndar Reykjavíkur sem óskaði eftir rannsókn lögreglunnar á atburðinum. Fyrir liggur vottorð Einars Hjaltasonar, læknis við Landspítala-Háskólasjúkrahús. Kemur þar fram að A hafi komið með föður sínum á slysadeild þann 23. júní 2007 og sagt svo frá að A hafi verið í tjaldútilegu með móður sinni og stjúpa nóttina áður og hefði stjúpinn verið drukkinn og slegið hann í andlitið. Hefði höggið komið á efri hluta nefs og hann fengið blóðnasir. Þá sé yfirborðsáverki á nefi. Við skoðun hafi hann verið bólginn yfir nefi en ekki var grunur um brot. Á nefi sé mar efst yfir nefinu, yfir nefbeini bæði hægra og vinstra megin.

Í bakvaktaskýrslu D, félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg, kemur fram að starfsmaður hafi haft samband við föður A þann 23. júní 2007 og í framhaldi farið á heimili hans og rætt við drenginn. Sagði hann svo frá að hann hefði verið í útilegu í Þrastarlundi og stjúpi hans og móðir verið drukkin. Hefði stjúpi hans síðan komið inn í tjaldið, þar sem hann og móðir hans voru, tekið utan um andlit hans og síðan kýlt hann í nefið þannig að hann fékk blóðnasir. Hefði drengurinn verið bólginn á nefinu.

Skýrslur fyrir lögreglu dómi.

Fyrir lögreglu kvaðst ákærði ekki muna eftir því að hafa slegið A en hann hafi verið mjög ölvaður og mundi því ekki vel það sem gerðist. Þá kvað hann A vera ofvirkan og mjög erfitt barn og saki ákærða oft um að meiða sig. Samband þeirra A hafi aldrei verið gott. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa slegið A og neitaði sök. Kvaðst hann hafa verið í Þrastarlundi umrætt kvöld en A hefði verið að leika sér með öðrum strák í næsta tjaldi. Hefðu þau verið á ferðinni, kíkt inn í næstu tjöld og spjallað við fólk um daginn og kvöldið. Kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum áfengis en muna eftir kvöldinu. Ákærði kvaðst ekki hafa séð neina áverka á A þetta kvöld. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna til þess að hann hafi reiðst um kvöldið. Kvaðst hann hafa verið í sambúð með móður A í fjögur ár en samband hans við drenginn hafi verið stirt. Drengurinn sé ofvirkur og erfitt sé að eiga við hann. Hann eigi það til að ráðast að móður sinni og þá hafi það lent á ákærða að tjónka við drenginn þar sem móðir hans sé ófær um að ráða við hann undir þeim kringumstæðum. Kvaðst hann stundum þurfa að bera drenginn inn í herbergi sitt þegar hann taki köst og þá hafi drengurinn oft sakað hann um að klípa sig. Ákærði kvaðst muna til þess að lögreglan hafi komið umrætt kvöld en hann man ekki til að áverkar hafi þá verið á drengnum.

B, kt. xxxxxx-xxxx, móðir A, kom fyrir dóminn. Kvaðst hún vera sambýliskona ákærða. Aðspurð um atburðinn kvaðst hún lítið vita, hún hafi verið fyrir utan tjaldið í umrætt sinn þegar hún heyrði öskur innan úr tjaldinu. Inni í tjaldinu hefðu A og ákærði verið en A hefði komið hlaupandi út úr tjaldinu og farið inn í nærliggjandi tjald. Meira viti hún ekki en hún hafi ekki séð neina áverka á drengnum þegar hann fór inn í lögreglubifreiðina sem kom á vettvang en hún kvað sig ráma í það að lögreglan hafi komið á vettvang. Kvað hún vín hafa verið haft um hönd umrætt sinn og hún hafi verið undir áhrifum áfengis. Kvað hún samband ákærða og drengsins oft hafa verið stormasamt. A sé greindur ofvirkur og oft þurfi að taka drenginn úr aðstæðum vegna öryggis hans og hafi það lent á ákærða að gera það sökum fötlunar hennar. Frá því að atburðurinn átti sér stað hafi A verið hjá föður sínum en drengurinn hafi komið í umgengni aðra hverja helgi frá þeim tíma. Það hafi alltaf gengið vel utan eitt skipti. 

E lögreglumaður kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa farið í útkall að Þrastarlundi umrætt kvöld en tilkynning hefði komið um að ungur drengur hefði verið sleginn í andlitið. Kvað hann móður drengsins og stjúpföður hafa verið mjög ölvuð þegar hann kom á vettvang. Þegar lögreglan kom hefði maður haldið ákærða niðri og hefði verið ómögulegt að skilja ákærða vegna ölvunar. Hefði A sagt strax að stjúpi sinn hefði slegið sig og staðfesti móðir drengsins það á staðnum. Kvað hann mar hafa verið á nefi drengsins og hefði hann fengið blóðnasir inni í lögreglubifreiðinni skömmu síðar. Kvað hann hafa liðið um fimm til tíu mínútur frá því að tilkynningin kom og þar til að lögreglan var komin á staðinn.

F lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í útkall vegna tilkynningar um ofbeldi. Þegar lögreglan kom á staðinn hefði drengurinn verið inni í tjaldi hjá öðru fólki en foreldrar verið mjög drukknir fyrir utan. Áverkar hafi verið greinilegir á drengnum. Kvað hún móðurina hafa sagt þeim á vettvangi að ákærði hefði farið inn í tjald, verið eitthvað pirraður og slegið drenginn. A hefði einnig sagt frá því að fósturfaðir hans hefði slegið hann inni í tjaldinu.

G, kt. xxxxxx-xxxx, Reykjavík, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í útilegu í umrætt sinn. Kvað hann lítinn dreng hafa verið á svæðinu og verið að leika við dreng sem var með þeim í för. Þegar átti að fara að sofa hefði drengurinn verið tregur til að fara frá þeim og inn í sitt tjald. Þegar hann var að fara að sofa hefði hann heyrt öskur og litið út. Hefði hann séð A koma út úr tjaldinu sínu, hágrátandi kallandi á hjálp. Hefði G gengið að honum og spurt hvað hefði komið fyrir og sagði A þá að stjúpi sinn hefði slegið sig og það hafi ekki verið í fyrsta sinn. Hefði A verið bólginn í andliti. G kvaðst þá hafa farið að tjaldi A og spurt foreldrana hvað hefði gerst og hefði móðir A þá sagt þeim að ákærði hefði slegið drenginn. Í framhaldi hefði ákærði brugðist illa við, reynt að henda stólum í nærstadda og slá viðstadda. Hefði tengdafaðir vitnisins lagt ákærða í jörðina en ákærði hafi verið ofurölvi. Aðspurður hvort hann hafi séð A koma út úr tjaldinu kvað hann svo ekki vera en hann hefði séð drenginn koma hlaupandi frá tjaldinu en inni í því hefðu foreldrar hans verið.

H, kt. xxxxxx-xxxx, Reykjavík, kom fyrir dóminn. Kvaðst hún hafa verið í útilegu og hefði lítill drengur verið með þeim að leik um daginn og fram eftir kvöldi. Mikil drykkja hefði verið á foreldrum þess drengs. Um kvöldið hefði drengurinn verið sendur í sitt tjald en drengurinn verið tregur til. Stuttu seinna hefði hún heyrt drenginn koma æpandi út úr tjaldinu kallandi á hjálp. Hefði hún hlaupið út úr tjaldinu til drengsins og spurt hann hvað hefði komið fyrir og drengurinn þá sagt fósturföður sinn hafa slegið sig. Hefðu áverkar verið á drengnum. Inni í tjaldinu sem drengurinn kom hlaupandi frá hefði móðir drengsins og stjúpfaðir verið.

A gaf skýrslu í Barnahúsi. Lýsti hann atvikum svo að hann hafi verið í útilegu með móður sinni og stjúpföður. Um kvöldið hefði hann farið að sofa inni í tjaldi og lagst við hliðina á móður sinni en hinum megin við móður sína hefði ákærði legið. Rétt eftir að A var lagstur niður hefði ákærði risið upp og beygt sig yfir móður hans og slegið hann í andlitið. Hefði hann gert þetta að tilefnislausu.

Niðurstöður:

Ákærði hefur neitað sök í máli þessu en að öðru leyti borið við minnisleysi. Vitni sem komu fyrir dóminn báru öll að ákærði hafi verið mjög ölvaður og styður háttsemi hans, eins og vitnin G og H bera, eftir að A var kominn út úr tjaldinu, að svo hafi verið. Móðir A kvaðst ekki muna til þess að A hafi verið sleginn, hún kvaðst hafa verið fyrir utan tjaldið þegar hún heyrði óp en ákærði og A inni í tjaldinu. Þá kvaðst hún ekki hafa séð neina áverka á A þegar hann kom út úr tjaldinu né eftir að lögreglan kom. Bæði lögreglumennirnir sem komu fyrir dóminn og tvö vitni bera öll að áverkar hafi verið á nefi A strax þegar hann kom út úr tjaldinu og einnig inni í lögreglubifreiðinni stuttu síðar. Verður ekki byggt á vitnisburði móður drengsins, enda er hún sú eina sem segir að hún hafi ekki verið inni í tjaldinu og að engir áverkar hafi verið á drengnum. A hefur verið staðfastur í frásögn sinni. Hann sagði vitnum á vettvangi, svo og lögreglumönnum sem komu á vettvang, strax að stjúpfaðir sinn hefði slegið sig. Þá sagði hann starfsmanni barnaverndaryfirvalda eins frá tveim dögum síðar. Við yfirheyrslu í Barnahúsi lýsti hann því svo að hann hafi verið lagstur inn í tjald en móðir hans hefði legið á milli sín og stjúpföður. Þá hafi stjúpfaðir hans reist sig upp á hnén, teygt sig yfir móður hans og slegið hann í andlitið. A er einn til frásagnar um það sem gerðist inni í tjaldinu en af frásögn vitna voru þau öll farin inn í tjald um kvöldið áður en atburðurinn átti sér stað. Fyrir dómi kvað ákærði A vera mjög erfitt barn og að samband þeirra væri ekki gott. Móðirin bar eins og kvað ákærða þurfa að kljást við drenginn ef hegðunarvandamál kæmu upp þar sem hún væri ekki fær um það vegna fötlunar sinnar. A mundi vel eftir atburðinum í Barnahúsi þótt nokkur tími væri liðinn frá atburðinum. Verður frásögn hans, sem fær stoð í öðrum vitnisburði, lögð til grundvallar við mat á sönnun. Þegar málið er virt heildstætt telur dómurinn að lögfull sönnun sé fram komin um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru og verður hann sakfelldur fyrir hana.

Kröfu sína um vægustu refsingu hefur verjandi ákærða byggt á því að A sé mjög erfitt barn og hafi stjúpfaðir hans oft þurft að kljást við drenginn vegna hegðunarvandamála. Þrátt fyrir að samband ákærða og drengsins sé ekki gott, verður það ekki metið ákærða til refsilækkunar eins og krafist er. Árásin virðist með öllu tilefnislaus en drengurinn var tíu ára gamall þegar hún átti sér stað og drengurinn í umsjá og á ábyrgð móður sinnar og stjúpföður. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar og er háttsemin réttilega færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu sætti ákærði síðast viðurlagaákvörðun þann 15. október 2003 og var gert að greiða 40.000 króna sekt fyrir húsbrot. Þá hefur ákærða áður verið gerð refsing fyrir ölvunarakstur.

Að öllu ofansögðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í einn mánuð en rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og að hún falli niður að tveimur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað sem er vegna læknisvottorðs, 13.200 krónur, auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar, 8.520 krónur. Þá ber ákærða að greiða kostnað réttargæslumanns A, Cristiane L. Bahner héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.

Gunnar Örn Jónsson flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í einn mánuð en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 293.130 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 8.520 krónur, og þóknunar réttargæslumanns brotaþola, Cristiane L. Bahner héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur.