Hæstiréttur íslands
Mál nr. 258/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 258/2003. |
Sverrir Jónsson og Kristján Jónsson (Sigurður Jónsson hrl.) gegn Orkuveitu Reykjavíkur (Hjörleifur Kvaran hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður S og K þótti brjóta svo í bága við meginreglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað að óhjákvæmilegt þótti að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. júní 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Fyrir héraðsdómi stefndu sóknaraðilar Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur til réttargæslu í málinu. Þau hafa látið málið til sín taka í héraði og fyrir Hæstarétti, en hér fyrir dómi krefjast þau þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sverrir Jónsson og Kristján Jónsson, greiði í sameiningu varnaraðila, Orkuveitu Reykjavíkur, 100.000 krónur, svo og Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur hvoru fyrir sig 25.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. júní 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 14. maí sl., var þingfest 19. júní 2002.
Stefnendur eru Sverrir Jónsson, Borgarheiði 15, og Kristján Jónsson, Kambahrauni 7, Hveragerði.
Stefnda er Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298-3029.
Réttargæslustefndu eru Guðmundur Birgisson, Lækjarási 5, Reykjavík og Steinunn Tómasdóttir, Flókagötu 59, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru þær „að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra gagnvart stefnda Orkuveitu Reykjavíkur á 2/9 hlutum af landi úr jörðinni Litla-Saurbæ I á Hellisheiði. Landsspildan er sem næst ferhyrnd og afmarkast af hnitapunktunum X660730.470 Y398800.980, X660360.076 Y399005.935, X657637.637 Y393077.815 og X 657958.478 Y392837.384. Hnitapunktarnir eru merktir nr. l0l, 102, 103 og 104 á uppdrætti sem fylgir stefnu þessari sem dskj. nr. 35. Um er að ræða efsta hlutann af þeirri spildu úr jörðinni sem haldið var eftir þegar þeim hluta jarðarinnar Litla Saurbæjar I sem er neðan vegarins niður í Bæjarþorpið var afsalað til Kristins Sigurðssonar þann 27. september 1986.
Til vara er þess krafist að viðurkenndur verði eignarréttur stefnenda gagnvart stefnda Orkuveitu Reykjavíkur á 2/9 hlutum af landi Litla-Saurbæjar I ofan fjalls á Hellisheiði. Um er að ræða helming landsspildu sem er fimmhyrningur og afmarkast af hnitapunktunum X 658289,42 Y393538,22, merktur nr. 13, X660730,47 Y398800,98, merktur nr. 12, X659796,22 Y399317,96 (merktur nr. 16), X658247,67 Y394535,17 (merktur nr. 17), og X658157,65 Y393764,90 (merktur nr. 18). Hnitapunktarnir eru merktir nr. 13, 12, 16, 17 og 18 á uppdrætti sem fylgir stefnu þessari og lagður hefur verið fram sem dsskj. nr. 7. Landið er sérstaklega skráð í veðmálabækur sem land Litla-Saurbæjar ofan fjalls (dskj 39).”
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og að stefnendum verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.
Réttargæslustefndu, Guðmundur Birgisson og Steinunn Tómasdóttir, krefjast þess að stefnendur verði dæmdir óskipt til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.
Málsatvik.
Með afsali dags. 29. maí 1936 eignaðist Jón Helgason jörðina Litla-Saurbæ með öllu sem eigninni fylgdi. Á árinu 1953 afsalaði hann til sonar síns, Sverris, annars stefnenda þessa máls 17,4 ha. úr jörðinni, annars vegar 7,4 ha. spildu neðan bæjar og hins vegar 10 ha. spildu í heiðinni ofan bæjar. Þá afsalaði hann einnig á árinu 1953 til stefnanda, Sverris, tveimur 10 ha. spildum, annarri sunnan og vestan bæjar og hinni úr heiðinni ofan bæjar.
Með afsali 24. október 1957 afsalaði Jón enn til Sverris spildu úr jörðinni og auk þess öðlaðist Sverrir samkvæmt afsalinu beitarréttindi að einum þriðja í óskiptu beitilandi jarðarinnar, sem og auðsréttindi að einum þriðja. Afsali þessu var ekki þinglýst. Stefnandi, Sverrir, fékk leyfi til að taka upp nafnið Litli-Saurbær II á nýbýli því er hann hafði reist í landi Litla-Saurbæjar, 3. desember 1953.
Jón Helgason afsalaði til níu barna sinna, þar á meðal stefnenda þessa máls, eignarjörð sinni, Litla-Saurbæ með öllu því sem þeirri eign fylgdi og fylgja bar, með afsali dags. 30. júní 1975. Í því afsali er ekki getið fyrrgreindra afsalsgerninga til stefnanda, Sverris.
Stefnendur og systur þeirra, þær Ingilaug Jónsdóttir, Hólmfríður Jónsdóttir, Helga Jónsdóttir, Unnur Jónsdóttir, Anna Jónsdóttir, Lilja Jónsdóttir og Fanney Jónsdóttir afsöluðu jörðinni Litla-Saurbæ I, 27. september 1986 til Kristins Sigurðssonar, þ.e. ,,þeim hluta jarðarinnar sem er neðan við veginn sem liggur niður í bæjarþorpið ásamt öllum byggingum á því landi, ræktun, girðingum svo og öllum gögnum og gæðum er lögbýlinu Litla Saurbæ I fylgja og fylgja ber (landið ofan við áðurnefndan veg, ásamt fjárhúsi og hlöðu í því landi fylgja ekki með í kaupunum)”. Í afsalinu er þess getið að 17.44 ha. hins selda, innan ofanskráðra marka, tilheyri Litla-Saurbæ II, en fylgi með í kaupunum, og sé einnig afsalað til Kristins Sigurðssonar af þinglýstum eiganda Litla-Saurbæjar II, Sverri Jónssyni.
Með yfirlýsingu dags. 27. október 1986 skuldbundu systkini stefnanda, Sverris, sig til þess að afhenda Sverri til fullrar eignar 17.4 ha. úr sameiginlegu landi þeirra úr jörðinni Litla-Saurbæ I, er liggi ofan vegar, sem liggi niður í bæjarþorpið og er þess getið að afhending þess lands sé endurgjald vegna 17.4 ha. sem tilheyrt hafi Litla-Saurbæ II en fylgt hafi með í kaupunum til Kristins Sigurðssonar, er þau hafi ásamt Sverri selt honum Litla-Saurbæ I. Kristinn Sigurðsson seldi stefnda, Guðmundi Birgissyni, og Aðalsteini Karlssyni með afsali 20. nóvember 1987, jörðina Litla-Saurbæ I. Í afsalinu kemur fram að jörðinni Litla-Saurbæ I sé afsalað, þ.e. ,,eignarjörð seljanda, ásamt öllum byggingum í landi jarðarinnar, ræktun, girðingum, svo og öllum gögnum og gæðum, er lögbýlinu Litla-Saurbæ I fylgja og fylgja ber. Með jörðinni teljast um 17.44 ha. lands, neðan við veginn, sem liggur niður í bæjarþorpið, er tilheyrðu Litla-Saurbæ II, áður en seljandi eignaðist hana. Land Litla-Saurbæjar II ofan við nefndan veg, um 20 ha. ásamt fjárhúsi og hlöðu í því landi fylgir ekki með í kaupunum”.
Aðalsteinn Karlsson afsalaði síðar sínum eignarhluta til eiginkonu sinnar, Steinunnar Tómasdóttur. Réttargæslustefndu, Guðmundur og Steinunn, ásamt eigendum Stóra-Saurbæjar gerðu með sér landskiptagerð 8. janúar 1999, sem var árituð af Sveitarstjórn Ölfushrepps og Jarðanefnd Árnessýslu. Með landskiptagerðinni var þeim eignarhluta jarðanna Litla-Saurbæjar I og Stóra-Saurbæjar sem voru ofan fjalls skipt út úr landi jarðanna. Stefnda, Orkuveita Reykjavíkur keypti hluta jarðarinnar Litla-Saurbæjar I og nokkurra annarra jarða á Hellisheiði og voru afsöl vegna kaupanna undirrituð 21. apríl 1999.
Með yfirlýsingu dags. 3. nóvember 1998, lýstu systkini stefnenda því yfir að við sölu á jörðinni Litla-Saurbæ I til Kristins Sigurðssonar hafi heiðarland jarðarinnar ekki fylgt með, en þar sem Sverrir, annar stefnenda, hefði fyrir ,,löngu fengið þetta land til eignar en farist hefur fyrir að afsala því til hans með formlegum hætti” lýstu þau því yfir að land þetta væri með öllum gögnum og gæðum eign eiganda Litla-Saurbæjar II, Sverris Jónssonar, sem borið hefði af því skatta og skyldur frá því að hann hafi tekið við því árið 1965.
Með svokölluðum viðauka við afsal, dags. 17. mars 1999 lýsti stefnandi, Sverrir, því yfir að með afsali, dags. 15. desember 1988 hafi hann afsalað til bróður síns, stefnanda, Kristjáns, helmingi eignarjarðar sinnar Litla-Saurbæjar II. Í afsalinu hafi hins vegar láðst að geta þess að jafnframt því að afsala til Kristjáns helmingi jarðarinnar hafi hann afsalað til hans helmingi eignarhluta síns í Litla-Saurbæ I, en um sé að ræða land sem til standi að sameina landi Litla-Saurbæjar II.
Ágreiningur í málinu lýtur að meintum eignarétti stefnenda til afmarkaðrar landspildu á Hellisheiði.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Stefnendur kveðast leiða rétt sinn frá föður sínum, Jóni Helgasyni. Með þremur afsalsgerningum, dags. 26. ágúst 1953, 14. september 1953 og 24. október 1957 hafi Jón afsalað hluta jarðarinnar til sonar síns Sverris Jónssonar, sem fengið hafi 3. desember 1953 nafntökuleyfi fyrir nýbýlið Litla-Saurbæ II.
Jón hafi afsalað því sem eftir var af jörðinni Litla-Saurbæ I til barna sinna með afsali dags. 30. júní 1975 og hafi stefnendur þá eignast jörðina ásamt sjö systkinum sínum. Með afsalinu hafi systkinin orðið eigendur jarðarinnar í óskiptri sameign. Ekki hafi verið getið um hver skyldi verða eignarhluti hvers afsalshafa fyrir sig, þannig að eignarhluti hvers og eins hafi orðið 1/9 hluti. Þannig hafi stefnendur, Sverrir og Kristján, eignast hvor um sig 1/9 hluta jarðarinnar.
Með yfirlýsingu dags. 3. nóvember 1998 hafi öll systkinin, sem verið hafi þinglýstir eigendur að því landi, sem ekki hafði verið afsalað úr Litla-Saurbæ I á sínum tíma, lýst því yfir að stefnandi, Sverrir, hefði fyrir löngu síðan fengið land þetta til eignar og að það væri hans eign. Stefnendur kveða það ekki skipta höfuðmáli hvenær Sverrir hafi tekið við öllum eignarráðum landsins, heldur það að afsalið sé afdráttarlaust og feli í sér skilyrðislausa yfirlýsingu allra þinglýstra eigenda þess lands, sem ekki hafi verið afsalað úr Litla-Saurbæ I til Kristins Sigurðssonar 27. september 1986, um að stefnandi, Sverrir sé eigandi þessa lands. Stefnandi, Kristján sé síðan helmings eigandi samkvæmt afsali frá Sverri. Þrátt fyrir þetta hafi stefnendur í máli þessu, af tæknilegum ástæðum, kosið að krefjast aðeins viðurkenningar á eignarétti sínum að 2/9 hlutum. Ástæða þessa sé fyrst og fremst sú að þeim sé rík nauðsyn þess að fá efnislega niðurstöðu í málinu, en stefnda hafi ævinlega haldið því fram að þeir ættu ekki fullkomna aðild að málinu og mótmælt gildi yfirlýsingarinnar frá 3. nóvember 1998. Til þess að komast hjá því að þurfa að fjalla um einhvern vafa í þessu efni, sé því farin sú leið að krefjast að svo stöddu aðeins viðurkenningar á eignarétti þeirra að 2/9 hlutum, það er að svo miklu leyti sem þeir urðu eigendur landsins í upphafi með afslalinu frá 30. júní 1975.
Stefnendur byggja á því að land það sem réttargæslustefndu, Guðmundur og Steinunn hafi afsalað til Orkuveitu Reykjavíkur sé hluti af jörðinni Litla-Saurbæ I, sem aldrei hafi verið eign afsalshafanna, heldur sé það eign stefnenda. Til einföldunar sé þó í máli þessu einungis krafist viðurkenningar á eignarétti þeirra að 2/9 hlutum. Þrátt fyrir eignarétt stefnenda hafi afsali réttargæslustefndu, Guðmundar og Steinunnar, til stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur, verið þinglýst sem eignarheimild stefndu fyrir landinu. Af hálfu stefnenda sé á því byggt að þeir hafi að 2/9 hlutum óskoraða eignarheimild að hinni umdeildu landspildu á Hellisheiði og að hún hafi ekki fylgt með í afsalinu til Kristins Sigurðssonar. Afsalið til Kristins verði að túlka eftir orðanna hljóðan. Orðin ,,öllum gögnum og gæðum er lögbýlinu Litla-Saurbæ I fylgja og fylgja ber” geti ekki átt við annað en gögn og gæði þess lands sem afsalað var, þ.e. landsins neðan við veginn niður i Bæjarþorpið. Réttargæslustefndu hafi aldrei verið eigendur þess lands sem þau hafi afsalað til Orkuveitunnar. Á veðbókarvottorði fyrir Litla-Saurbæ I sem lagt hafi verið fram í málinu komi bersýnilega í ljós að einungis hafi verið afsalað til Kristins Sigurðssonar þeim hluta jarðarinnar sem liggi neðan við veginn til Bæjarþorpsins. Sama komi fram í bréfi Þorsteins Júlíussonar hrl. til þinglýsingafulltrúa sýslumanns Árnessýslu, dags. 19. janúar 1989, en það hafi verið Þorsteinn sem hafi samið afsalið til Kristins. Þegar Kristinn hafi síðan afsalað jörðinni til réttargæslustefnda, Guðmundar, og Aðalsteins Karlssonar 20. nóvember 1987 hafi að vísu verið rætt um að land ofan við veginn niður í Bæjarþorpið fylgi ekki með, en einhverra hluta vegna sé það sagt vera 20 ha. Segja megi að óþarfi hafi verið að fjalla um hið undanskilda land í afsali þessu, enda venja þegar seldar séu jarðir að skilgreina ekki undanskildar spildur sérstaklega. Veðbókarvottorð hafi legið frammi og hafi afsalshafar getað kynnt sér fyrri eignarheimildir. Hafi þeim mátt vera ljós sú almenna staðreynd að afsalsgjafinn gat ekki afsalað meira landi en hann átti.
Í öðru lagi byggja stefnendur á því að systkinin hafi ekki getað afsalað til Kristins landi sem faðir þeirra hafði áður afsalað til Sverris, þ.e. með afsalinu frá 1957. Fyrir hafi legið að landið tilheyrði Sverri a.m.k. að einum þriðja. Landið hafi þannig verið undanskilið við söluna.
Þegar Kristinn hafi afsalað sínum eignarhluta í Litla-Saurbæ I til þeirra Aðalsteins Karlssonar og Guðmundar Birgissonar 20. nóvember 1987 hafi þeir ekki getað öðlast ríkari réttindi en afsalsgjafinn hafi átt.
Í þriðja lagi styðji nýting og meðferð landsins ofangreinda túlkun afsalsins frá 27. september 1986. Ekkert hafi komið fram um að Kristinn Sigurðsson teldi sig hafa keypt landið. Landið hafi verið nýtt af stefnandanum, Sverri, allt frá því að faðir hans hafi hætt búskap að Litla-Saurbæ upp úr 1960. Þannig hafi allt heiðarland jarðarinnar Litli-Saurbær I tilheyrt og verið nýtt af stefnandanum, Sverri. Engin breyting hafi orðið á þeirri nýtingu í september 1986 enda hafi landið ekki fylgt með við sölu Litla- Saurbæjar I. Sverrir og síðar Kristján hafi alla tíð farið með landið á Hellisheiðinni sem sína eign og nýtt það eftir því sem mögulegt hafi verið á hverjum tíma. Þeir hafi séð um fjallskil af landinu og allar smalamennskur. Jafnframt hafi þeir greitt öll gjöld af landinu.
Í fjórða lagi byggja stefnendur á hefð. Stefnandinn, Sverrir hafi haft óslitið eignarhald landsins allt frá því að faðir hans hafi hætt búskap, nýtt það og farið með sem sína eign. Með yfirlýsingu dags. 3. nóvember 1998 hafi öll systkinin lýst því yfir að stefnandi, Sverrir hefði fyrir löngu síðan fengið land þetta til eignar og að það væri hans eign.
Stefnendur kveðast hafa sett varakröfu sína fram til öryggis. Samkvæmt landskiptagerð vegna jarðanna Litla-Saurbæjar og Stóra-Saurbæjar dags. 8. janúar 1999 sé landspildu á Hellisheiði sem sögð sé tilheyra Stóra-Saurbæ að hálfu og Litla-Saurbæ að hálfu skipt út úr jörðunni. Það skipti ekki höfuðmáli hver sé nákvæm lega landsins úr Litla-Saurbæ I sem stefnendur eigi ofan við Kambabrún, né hvort landið sé óskipt með landi Stóra-Saurbæjar. Það sem máli skipti sé að hluti Litla-Saurbæjar hafi ekki verið seldur til Kristins Sigurðssonar á sínum tíma og sé enn í eigu stefnenda, a.m.k. að 2/9 hlutum, sem er þá 1/9 hluti landsins í óskiptu með Stóra-Saurbæ. Varakrafan sé sett fram í því tilefni að stefnda virðist álíta að landið hafi verið óskipt.
Stefnendur kveða réttargæslustefndu hafa afsalað landi sem þau hafi ekki átt. Þeim Guðmundi og Steinunni sé stefnt til réttargæslu vegna þess að þau hafi haldið fram að landið tilheyrði þeim og afsalað því til stefndu, Orkuveitunnar án heimildar.
Forsvarsmenn stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur, hafi vitað, áður en gengið var frá kaupsamningi við réttargæslustefndu að ágreiningur var milli stefnenda og réttargæslustefndu um eignarhald landsins. Af hálfu stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur, hafi engu að síður verið litið fram hjá réttindum stefnenda og farin sú leið að gera kaupsamning við réttargæslustefndu. Stefnda hafi því á engan hátt verið grandlaus um réttindi stefnenda.
Um lagarök vísa stefnendur til VII. kafla jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum. Ennfremur byggja stefnendur á almennum reglum samninga-og eignaréttar og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4671905 um hefð og 3. tl. 10. gr. laga nr. 34/1986 um fasteigna- og skipasölu, sbr. síðar lög nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, nú lög nr. 40/2002 um fasteignakaup.
Málsástæður og lagarök stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur.
Stefnda kveðst byggja sýknukröfur sínar á meginreglum eignaréttarins um vernd eignaréttinda. Stefnda sé þinglýstur eigandi þess lands sem stefnendur geri nú tilkall til eignarhalds yfir og sé eignarhaldið ótvírætt, staðfest í kaupsamningi og afsali.
Eins og gögn málsins beri með sér, hafi Jón Helgason afsalað eignarjörð sinni, Litla-Saurbæ til stefnenda og sjö systra þeirra 30. júní 1975, sem svo síðar hafi komist í eigu stefndu með óslitinni röð afsala. Varðandi fullyrðingar um meint eignarhald stefnenda, annars eða beggja, jafnvel allt frá 1960 eða þar um bil, bendir stefnda á að þær séu í fullkominni andstöðu við afsal föður þeirra á dómskjali nr. 12. Í afsalinu sé enginn hluti jarðarinnar Litli-Saurbær undanskilinn, þvert á móti sé sérstaklega tekið fram að jörðinni sé afsalað með öllu því sem fylgi og fylgja beri. Ef rétt væri að stefnandi, Sverrir, hafi þá átt fyrir stærsta hluta eignarinnar, eða að hann hafi verið honum ætlaður, umfram hlut systra hans og bróður í eigninni, hefði verið eðlilegt og nauðsynlegt að það hefði verið sérstaklega tekið fram í afsalinu. Það sama gildi um afsal vegna sölu þeirra systkina á jörðinni til Kristins Sigurðssonar tíu árum seinna, en þar sé sérstaklega tekið fram að lögbýlinu Litla-Saurbæ I sé afsalað með öllum gögnum og gæðum sem því fylgi og fylgja beri. Hefði verið ætlunin að undanskilja beitarland lögbýlisins, sem eðli málsins samkvæmt sé ein meginundirstaða bújarðar, hefði mátt vænta þess að það hefði verið sérstaklega tekið fram í afsalinu. Þá hefði einnig verið nauðsynlegt að skipta umræddu landi út úr landi Litla-Saurbæjar I. Jafnframt hefði þurft að sameina landið með lögformlegum hætti við land nýbýlisins Litla-Saurbæjar II ef það hefði verið ætlunin. Slíkar landskiptagerðir hafi aldrei verið gerðar.
Stefnda kveður málatilbúnað stefnenda háðan verulegum annmörkum. Þannig sé hvergi í stefnu rökstutt eða vísað til heimildarskjala um hvenær og hvernig stefnendur hafi eignast heiðarland jarðarinnar Litla-Saurbæjar I. Stefnendur hafi ekki lagt fram nokkur heimildarskjöl til sönnunar þeim fullyrðingum að heiðarland jarðarinnar Litla-Saurbæjar I hafi verið eða sé í þeirra eign. Ljóst sé, samkvæmt framlögðum gögnum í málinu að hvorki Sverrir Jónsson né Kristján bróðir hans hafi þinglýsta eignarheimild fyrir þeim hluta Litla-Saurbæjar I sem stefnda hafi eignast með afsali. Fullyrðingum í stefnu um að stefnendur hafi óskoraða eignarheimild að landi því sem stefnda var selt mótmælir stefnda harðlega, enda í andstöðu við framlögð gögn.
Af hálfu stefndu er bent á að afsal frá 1957 sé óþinglýst, en í stefnu sé því haldið fram að annar stefnenda, Sverrir, hafi með afsali þessu eignast einn þriðja hluta beitilands Litla-Saurbæjar I. Í afsalinu sé verið að afsala nánar afmarkaðri ræktanlegri landspildu, en þar segi einungis að Sverrir eignist beitarréttindi að einum þriðja í óskiptu beitilandi eignarjarðar Jóns Helgasonar. Orðalag afsalsins sýni ótvírætt að ætlun Jóns hafi verið að veita einu af níu börnum sínum, þ.e. stefnanda, Sverri, óbeinan eignarétt, eða ítak í beitarlandinu, en alls ekki að afsala því.
Í stefnu sé því haldið fram að eftir að Jón Helgason hafi hætt búskap um eða upp úr 1960 hafi allt heiðarland Litla-Saurbæjar I tilheyrt stefnanda Sverri, eða hann farið með það sem sína eign. Ekki sé útskýrt nánar hvað átt sé við með orðinu ,,tilheyrt” í þessu sambandi, en því harðlega mótmælt að stefnandi, Sverrir, hafi verið eða sé eigandi landsins. Menn eignist ekki fasteign á þeim grundvelli einum að eigandi hennar hætti að nota hana og viðkomandi nýti sér hana að hluta til í staðinn.
Stefnandi, Sverrir, haldi því fram að umrætt land hafi verið í hans eigu í hartnær fjóra áratugi. Þrátt fyrir þá staðhæfingu verði ekki séð að stefnandi hafi nokkurn tíma gert reka að því að fá meint eignarhald sitt á umræddu landi staðfest. Stefnda telji stefnanda hafa alla sönnunarbyrði fyrir því að hann sé lögmætur eigandi landsins. Sönnunarbyrðin sé þyngri en ella þar sem í málinu liggi frammi gögn sem sanni með ótvíræðum hætti eignarhald stefndu á hinu umþrætta landi.
Þá kveður stefnda þátt stefnanda, Kristjáns, í málinu með öllu óútskýrðan. Kristján hafi eignast hálfan Litla-Saurbæ II árið 1988, en óumdeilt sé að hið umþrætta land tilheyrði ekki þeirri jörð. Tæpum ellefu árum síðar sé yfirlýsing útbúin af stefnendum, sem þeir hafi nefnt ,,viðauki við afsal”. Skjal þetta hafi enga efnislega þýðingu, auk þes sem efni þess sé í ósamræmi við málatilbúnað stefnenda sjálfra. Í ljósi meintra eignarheimilda stefnenda, Kristjáns, til hins umþrætta lands verði ekki séð að réttur hans til reksturs máls þessa fyrir dómstólum sé á nokkurn hátt meiri en réttur annarra afkomenda Jóns Helgasonar.
Stefnendur hafi á engan hátt fært fyrir því sönnur að þeir séu eigendur heiðarlands þess sem áður hafi tilheyrt Litla-Saurbæ, sem sé þinglýst eign stefndu í dag. Kröfur stefnenda eigi ekki við nein efnisrök að styðjast. Stefnendum beri að sýna fram á þann eignarétt sem þeir krefjist að fá sér tildæmdan í máli þessu. Það hafi þeir ekki gert og beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum þeirra og sýkna stefndu alfarið af dómkröfum stefnenda.
Málsástæður og lagarök réttargæslustefndu.
Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu og gera þau einungis kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda.
Í athugasemdum réttargæslustefndu kemur fram að kröfur stefnenda eigi ekki við nein efnisrök að styðjast. Stefnendum beri að sýna fram á eignarétt þann sem þeir krefjist að fá sér tildæmdan. Það hafi þeir ekki gert og beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum þeirra. Svo sem gögn málsins beri með sér hafi Jón Helgason afsalað 30. júní 1975 jörðinni Litla-Saurbæ til allra barna sinna, sem svo síðar hafi komist í eigu réttargæslustefndu og síðan stefndu, með óslitinni röð afsala.
Réttargæslustefndu telja ljóst að Jón Helgason hafi afsalað til barna sinna hinu umþrætta heiðarlandi, ella hefði þurft að undanskilja það berum orðum og skipta því út úr jörðinni. Sama gildi þegar stefnendur og systkini þeirra hafi afsalað jörðinni til Kristins Sigurðssonar árið 1986.
Ennfremur sé ljóst að þegar lögbýli sé selt og undanskilja eigi 80% af landi þess, þá verði að skipta landinu með formlegum hætti, sbr. jarðalög nr. 65/1976 og landskiptalög nr. 46/1941.
Staðhæfingum í stefnu um að stefnendur eigi óskoraða eignarheimild að því landi sem hér sé um deilt, sé mótmælt, enda í andstöðu við fyrirliggjandi gögn, einkum fyrrgreint afsal Jóns Helgasonar til barna sinna, þar sem öllum gögnum og gæðum hafi verið afsalað og ekkert undanskilið.
Þá mótmæla réttargæslustefndu þeim sjónarmiðum sem fram koma í stefnu að allt heiðarland Litla-Saurbæjar hafi tilheyrt Sverri Jónssyni um eða upp úr 1960, ef átt sé við að hann hafi orðið eigandi þess.
Einnig mótmæla réttargæslustefndu sjónarmiðum stefnenda um að nýting og meðferð stefnenda á umræddu heiðarlandi styðji sjónarmið þeirra um eignarétt og einnig því að stefnendur geti unnið landið til eignar á grundvelli hefðar, þvert gegn skýrum, þinglýstum eignarheimildum annarra. Ennfremur sé ljóst að stefnendur geti ekki hafa öðlast eignarétt á grundvelli hefðar þar sem hefðartíma sé ekki náð. Beri að miða við tímabilið frá og með 27. september 1986, þegar stefnendur og systkini þeirra hafi afsalað umræddri jörð ásamt öllu því sem henni hafi fylgt og fylgja bar til Kristins Sigurðssonar.
Þá benda réttargæslustefndu á að eftir kvörtun þeirra vegna skráningar fullvirðisréttar á Litla-Saurbæ II til Umboðsmanns Alþingis og samkvæmt áliti hans frá 13. mars 1995 hafi sú ákvörðun Landbúnaðarráðuneytisins um að færa skráningu fullvirðisréttar Litla-Saurbæjar I á Litla-Saurbæ II ekki verið talin byggð á lögmætum grundvelli.
Þá kveðast réttargæslustefndu hafa greitt öll gjöld af landinu, fjallskilagjöld og fasteignagjöld.
Niðurstaða.
Stefnendur hafa gert kröfu um viðurkenningu eignaréttar á 2/9 hlutum af landspildu á Hellisheiði og reisa kröfur sínar á því að hvor þeirra um sig hafi eignast 1/9 hluta hins umþrætta lands með afsali frá föður þeirra dags. 30. júní 1975.
Með afsali þessu afsalaði Jón Helgason, faðir stefnenda, eignarjörð sinni, Litla-Saurbæ, með öllu því sem eigninni fylgdi og fylgja bar til níu barna sinna, þar á meðal stefnenda. Áður en til þessa afsals kom hafði hann afsalað spildum úr jörðinni með þremur afsalsgerningum til annars stefnenda, Sverris, en þess er ekki getið í afsalinu frá árinu 1975. Systkinin níu afsöluðu jörðinni Litla-Saurbæ I til Kristins Sigurðssonar með afsali 27. september 1986.
Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá systkinum Sverris, þar á meðal stefnanda, Kristjáni, dags. 3. nóvember 1998 um að stefnandi, Sverrir, ,,hefði fyrir löngu fengið land þetta til eignar”, þ.e. meðal annars hina umþrættu landspildu.
Þá liggur frammi í málinu afsal frá desember 1988 frá stefnanda, Sverri, til bróður síns, Kristjáns, á helmingi jarðarinnar Litla-Saurbæ II. Í mars 1999, eða tæpum 11 árum síðar var gerður viðauki við afsal þetta og var þess getið að láðst hefði að geta þess að Sverrir hefði þá jafnframt afsalað ,,helmingi af eignarhluta sínum í Litla-Saurbæ I.”
Í stefnu er rakið að stefnendur séu reyndar ,,eigendur landsins alls”, en ekki einungis 2/9 hluta, eins og krafa þeirra lýtur að.
Af framangreindu verður ráðið að stefnendur telja sig í raun einu eigendur umdeildrar landspildu og af framlögðum gögnum stefnenda verður og ráðið að stefnandi, Sverrir, telji sig hafa eignast umþrætt land, eða a.m.k. hluta þess, áður en faðir hans afsalaði jörðinni Litla-Saurbæ til barna sinna með fyrrgreindu afsali frá 1975. Engu að síður byggja stefnendur rétt sinn á afsali þessu, þar sem jörðin Litli-Saurbær varð óskipt sameign allra systkinanna. Framangreind sjónarmið stefnenda um eignarhald á jörðinni eru ósamrýmanleg og gefur auga leið að hafi stefnandi, Sverrir, eignast hina umþrættu spildu áður en til afsals frá föður hans kom til systkinanna allra, geti hann ekki leitt rétt sinn frá fyrrgreindu afsali frá 1975.
Málatilbúnaður stefnenda er samkvæmt framangreindu nokkuð ruglingslegur og samhengi málsástæðna verður fyrir vikið ekki svo glöggt sem verða má. Þegar virtur er sá framburður stefnanda, Kristjáns, fyrir dómi, að með afsalinu frá föður þeirra á árinu 1975 hafi heiðarlandi jarðarinnar, þ.e. meðal annars umþrættri landspildu, ekki verið afsalað, verður málsgrundvöllur stefnenda enn óljósari.
Þegar framangreint er virt þykir málatilbúnaður stefnenda brjóta svo í bága við meginreglur einkamálalaga um skýran og glöggan málatilbúnað að óhjákvæmilegt þykir að vísa málinu frá dómi, þegar af þeirri ástæðu, með vísan til e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til framangreinds og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnendur í sameiningu stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur 300.000 krónur í málskostnað.
Stefnendur greiði og í sameiningu réttargæslustefndu, Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur hvoru fyrir sig 100.000 krónur í málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Sverrir Jónsson og Kristján Jónsson greiði í sameiningu stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur 300.000 krónur í málskostnað.
Stefnendur greiði í sameiningu réttargæslustefndu, Guðmundi Birgissyni og Steinunni Tómasdóttur, hvoru fyrir sig 100.000 krónur.