Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-149

A (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
Vegagerðinni (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Opinberir starfsmenn
  • Ráðningarsamningur
  • Niðurlagning stöðu
  • Uppsögn
  • Rannsóknarregla
  • Andmælaréttur
  • Meðalhóf
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 1. desember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember sama ár í máli nr. 324/2021: Vegagerðin gegn A og gagnsök. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðila hafi verið heimilt að segja upp ótímabundnum ráðningarsamningi leyfisbeiðanda án undangenginnar áminningar samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Einnig deila aðilar um það hvort leyfisbeiðandi eigi rétt til miskabóta vegna uppsagnarinnar.

4. Héraðsdómur féllst á að uppsögn leyfisbeiðanda 19. september 2019 hefði verið ólögmæt þar sem brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var gagnaðila gert að greiða honum 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og sýknaði gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Rétturinn vísaði til þess að gagnaðila hefði borið að leggja mat á það hvernig leyfisbeiðandi nýttist í starfsemi stofnunarinnar, svo og hæfni hans í samanburði við aðra starfsmenn á því sviði er hann starfaði á, áður en ákveðið var að segja honum upp störfum. Í því samhengi var vísað til skýrslu sem KPMG ehf. vann fyrir gagnaðila, minnisblaðs starfsmanns hans og funda sem haldnir voru. Rétturinn taldi ljóst að gagnaðili hefði rannsakað málið nægilega og því hefði undirbúningur ákvörðunar gagnaðila um uppsögn leyfisbeiðanda verið fullnægjandi. Var því ekki fallist á að gagnaðili hefði brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að ekki hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar eða andmælarétti leyfisbeiðanda, sbr. 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga. Var það því niðurstaða réttarins að uppsögn leyfisbeiðanda hefði verið lögmæt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars túlkun 44. gr. laga nr. 70/1996 og samspil hennar við leiðbeiningarreglur fjármálaráðuneytisins til stjórnenda ríkisstofnana frá árinu 2011 um uppsagnir starfsmanna vegna rekstrarlegra ástæðna og um skilyrði til greiðslu miskabóta við fyrirvaralausa uppsögn opinberra starfsmanna. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að með dómi Landsréttar hafi verið vikið frá fyrri dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Þá reisir hann beiðni sína á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.