Hæstiréttur íslands

Mál nr. 117/2002


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Vanaafbrotamaður
  • Ökuréttarsvipting


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. júní 2002.

Nr. 117/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Ágústi Liljan Sigurðssyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Ölvunarakstur. Akstur án ökuréttar. Vanaafbrotamaður. Ökuréttarsvipting.

Í samræmi við játningu Á var hann sakfelldur fyrir að hafa tvívegis ekið bifreið undir áhrifum áfengis og þrisvar sviptur ökurétti. Hafði Á margsinnis áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot og var refsing hans ákvörðuð með hliðsjón af 72. gr. laga nr. 19/1940, en jafnframt vísað til 77. gr. sömu laga. Að öllu gættu þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði og var enn áréttað að hann skyldi vera sviptur ökurétti ævilangt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar 6. mars 2002 dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. febrúar 2002 og dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. sama mánaðar í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og að áréttuð verði ævilöng svipting ökuréttar hans.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. febrúar 2002 var ákærði sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni ID-363 tvívegis 16. maí 2001 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, annars vegar árla dags norður þjóðveg 1, Norðurlandsveg, uns lögregla stöðvaði aksturinn við bæinn Holtastaði, Austur-Húnavatnssýslu, og hins vegar síðdegis til norðurs um sama þjóðveg, skammt vestan gatnamóta Ólafsfjarðarvegar, þar sem ákærði missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt og hafnaði utan vegar. Þá var ákærði jafnframt sakfelldur með dómi Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2002 fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni TY-309 sviptur ökurétti frá Reykjavík um Reykjanesbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn á Grindavíkurvegi. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í báðum héraðsdómunum, en með þeim var hann dæmdur samtals í sjö mánaða fangelsi. Í fyrrgreinda dóminum er sakaferill ákærða réttilega rakinn, en ráða má af þeim síðargreinda að héraðsdómara hefur verið ókunnugt um þann dóm. Vísaði hann því ekki til þess að tiltaka ætti refsinguna sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem rétt hefði verið að gera.

Eins og rakið er í dóminum 6. febrúar 2002 hefur ákærði margsinnis verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti, síðast með dómi Hæstaréttar 14. september 2000. Með akstri sínum 16. maí 2001 hefur ákærði enn á ný gerst sekur um ölvunarakstursbrot, en síðast var hann dæmdur 29. október 1997 fyrir slíkt brot í 30 daga fangelsi, og þá einnig fyrir akstur sviptur ökurétti. Með þeim dómi var jafnframt áréttuð ævilöng ökuréttarsvipting hans, en þá hafði hann 11 sinnum áður unnið til slíkrar sviptingar. Þegar litið er til hins langa og nær óslitna brotaferils ákærða, að því er varðar sams konar brot og hér eru til meðferðar, verður refsing hans ákvörðuð með hliðsjón af 72. gr. almennra hegningarlaga, en jafnframt vísað til 77. gr. sömu laga. Að öllu þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði var, eins og að framan greinir, síðast dæmdur til ævilangrar sviptingar ökuréttar 29. október 1997. Hann hefur enn á ný unnið sér til ökuréttarsviptingar eins og krafist er í ákærum 16. ágúst og 12. september 2001 vegna ölvunaraksturs síns 16. maí sama árs. Verður enn að árétta með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum að ákærði skuli vera sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Dómsorð:

Ákærði, Ágúst Liljan Sigurðsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði skal vera sviptur ökurétti ævilangt.

Ákvæði í hinum áfrýjuðu dómum um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. febrúar 2002.

I.

Mál þetta, sem þingfest var 29. nóvember 2001 og dómtekið 22. janúar sl., er höfðað með tveim ákærum Lögreglustjórans á Blönduósi á hendur Ágústi Liljan Sigurðssyni, kt. 021164-4889, Egilsgötu 30, Reykjavík, fyrri ákæran er dagsett 16. ágúst 2001 ,,fyrir umferðarlagabrot, með því  að hafa miðvikudaginn 16. maí 2001 ekið bifreiðinni ID-363 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, til norðurs um þjóðveg 1, Norðurlandsveg, uns lögreglan stöðvaði akstur hans við bæinnHoltastaði, Austur Húnavatnssýslu.

Teljast brot þessi varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðalaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997 og 1. mgr. 48. gr. umferðalaga, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttinda sbr. 101. gr. umferðalaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, og 2. sbr. 3. mgr. 102. gr. umferðalaga, sbr. lög nr. 23/1998.”

Seinni ákæran er dagsett 12. september 2001  ,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 16. maí 2001, um kl. 17:44, ekið bifreiðinni ID-363 undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, til norðurs um þjóðveg 1, skammt vestan við gatnamót Ólafsfjarðarvegar, Glæsibæjarhreppi, þar sem ákærði missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún valt og hafnaði utan vegar.

Teljast brot þessi varða við 1. sbr. 3. ,mgr. 45. gr. umferðalaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997 og 1. mgr. 48. gr. umferðalaga, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar sbr. 101. gr. umferðalaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, og 2. sbr. 3. mgr. 102. gr. umferðalaga, sbr. lög nr. 23/1998.  Jafnframt er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.”

II.

Málið var þingfest 29. nóvember 2001 og var seinni ákæran sem fengið hafði málanúmerið S-380/2001 í málaskrá dómsins sameinað þessu máli.  Ákærði var færður til þings þann 22. janúar sl. og játaði skýlaust háttsemi þá sem í ákærum greinir. Verður málið því dæmt skv. 1. mgr. 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. 

Samkvæmt framanrituðu telst sannað að ákærði hafa framið brot þau sem honum eru í ákærum gefin að sök og þar eru réttilega færð til refsiákvæða, enda eru ákærur í samræmi við gögn málsins.

Sakarferill og niðurstaða.

Ákærði á að baki langan afbrotaferil og hefur hann marg oft verið dæmdur til fangelsisvistar.  Hann hefur frá árinu 1981 og þar til mál þetta var höfðað hlotið 31 refsidóm fyrir þjófnað, fjársvik, skjalafals, brot gegn 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eignaspjöll, nytjastuld,umferðarlagabrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og gegn lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda, auk þess að gangast fjórum sinnum undir dómsáttfyrir brot gegn umferðarlögum, áfengislögum og almennum hegningarlögum.

Með dómum á eftirtöldum árum hefur ákærði verið sviptur ökurétti ævilangt 1983 og 1985, tvívegis 1989, þrívegis 1990, tvívegis árin 1993, 1994 og 1997.  Þann 14. september 2000 staðfesti Hæstiréttur Íslands þriggja mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness, en í því máli var ákærði sakfelldur fyrir réttindaleysi við akstur. 

Brot ákærða nú er margítrekað og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar þar með talið 30.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns Sigurðar Georgssonar hrl.

Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Ágúst Liljan Sigurðsson sæti fangelsi í 3 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talið 30.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigurðar Georgssonar hrl.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2002.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 14. janúar sl. á hendur Ágústi Liljan Sigurðssyni, kt. 021164-4889, Ásvallagötu 42, Reykjavík, "fyrir að hafa, þriðjudaginn 11. desember 2001, ekið bifreiðinni TY-309, sviptur ökurétti, frá Reykjavík og suður og vestur Reykjanesbraut þar til lögreglan í Keflavík stöðvaði akstur hans þar sem hann beygði inn á Grindavíkurveg.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar sbr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 57/1997."

Er málið dæmt samkvæmt 125. gr. oml. en með skýlausri játningu ákærða þykir sannað að hann hafi framið brot þau sem honum eru gefin að sök og réttilega eru færð til refsiákvæðis í ákæru.

Ákærði á að baki langan sakarferil.  Við ákvörðun refsingar í þessu máli er litið til þess að hann hefur fimm sinnum sætt refsingu fyrir sviptingarakstur og nú síðast þann 14. september 2000, er hann sætti 3 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 48. umferðarlaga.

Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 4 mánaða fangelsi.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, Ágúst Liljan Sigurðsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar.